-
Von – skiptir hún máli?Vaknið!: Hvar er hægt að finna sanna von?
-
-
Von – skiptir hún máli?
DANÍEL var aðeins tíu ára en hafði barist við krabbamein í heilt ár. Læknarnir og nánir vinir hans höfðu gefið upp vonina en ekki Daníel. Hann trúði því að hann myndi vaxa úr grasi, verða vísindamaður og vinna að því að finna lækningu við krabbameini. Hann var vongóður, ekki síst vegna þess að hann átti von á heimsókn læknis með þá sérgrein að meðhöndla krabbameinið sem hann var með. Daginn sem sérfræðingurinn átti að koma var slæmt veður og hann neyddist til að afboða komu sína. Daníel missti vonina og varð í fyrsta skipti sinnulaus. Hann dó fáeinum dögum seinna.
Frásagan af Daníel var sögð af heilbrigðisstarfsmanni sem rannsakaði áhrif vonar og vonleysis á heilsuna. Þú hefur ef til vill heyrt svipaðar frásögur. Eldri manneskja sem á stutt eftir ólifað er kannski full tilhlökkunar vegna þess að hún á von á ástvini í heimsókn eða að það styttist í mikilvæg tímamót. Stuttu eftir heimsóknina eða tímamótin deyr manneskjan. Hvað veldur því? Getur verið að von skipti jafn miklu máli og sumir trúa?
Sífellt fleiri vísindamenn á sviði læknavísinda setja fram þann möguleika að bjartsýni, von og aðrar jákvæðar tilfinningar hafi mikil áhrif á líf og heilsu. En það eru ekki allir sammála um þetta. Sumir rannsóknarmenn hafna slíkum fullyrðingum og álíta þær óvísindaleg fræði. Þeir vilja meina að líkamlegir kvillar eigi sér bara líkamlegar orsakir.
Slíkar efasemdir eru ekki nýjar af nálinni. Fyrir þúsundum ára var gríski heimspekingurinn Aristóteles beðinn um að skilgreina von. Hann svaraði: „Hún er vökudraumur.“ Og bandaríski stjórnmálamaðurinn Benjamin Franklin sagði beisklega: „Sá sem reiðir sig á vonina grípur í tómt.“
Hver er þá sannleikurinn um von? Er hún bara óskhyggja og leið til að sækja huggun í óraunhæfa drauma? Eða er góð ástæða til að líta á von sem mikilvæga til að hafa góða heilsu og vera hamingjusamur?
-
-
Hvers vegna þörfnumst við vonar?Vaknið!: Hvar er hægt að finna sanna von?
-
-
Hvers vegna þörfnumst við vonar?
HVAÐ ef Daniel, drengurinn sem var með krabbamein og var minnst á í byrjun greinarinnar á undan, hefði viðhaldið sterkri von? Hefði hann sigrast á krabbameininu? Væri hann enn þá lifandi? Þeir sem trúa hvað mest á mátt vonarinnar myndu tæplega halda slíku fram. Þetta er mjög mikilvægt. Við megum ekki ofmeta vonina. Hún felur ekki í sér neina töfralausn.
Í viðtali á bandarískri útvarpsstöð varaði dr. Nathan Cherney við þeirri hættu að gera of mikið úr mætti vonarinnar þegar verið er að hjálpa mjög veikum sjúklingum. „Við höfum orðið vitni að því að eiginmenn ávítuðu eiginkonur sínar fyrir að hafa ekki iðkað hugleiðslu nógu mikið eða verið nógu jákvæðar.“ Dr. Cherney bætti við: „Þessi hugmynd hefur skapað þá tálvon að maður geti haft stjórn á krabbameininu en þegar það gengur ekki eftir er eins og verið sé að segja að sjúklingnum hafi ekki tekist það. Þetta er ekki sanngjarnt.“
Baráttan við banvænan sjúkdóm er mjög krefjandi og tekur sinn toll. Að bæta sektarkennd ofan á þá þungu byrði er sannarlega það síðasta sem ástvinir myndu vilja gera. Er von þá einskis virði?
Alls ekki. Sami læknir sérhæfir sig til dæmis í því að draga úr verkjum og einkennum sjúkdóma. Þetta er meðferð sem beinir ekki athyglinni að því að berjast gegn sjúkdómnum sjálfum eða jafnvel að lengja lífið heldur að gera líf sjúklingsins þægilegra eins lengi og hann er á lífi. Læknar eins og hann hafa mikla trú á meðferðum sem miða að því að hjálpa fólki að vera jákvæðara, jafnvel fólki sem er mjög veikt. Það eru mjög sterkar vísbendingar um að vonin geti gert þetta – og miklu meira.
Gildi vonar
„Von er kröftug meðhöndlun,” skrifar dr. W. Gifford-Jones, blaðamaður sem skrifar um læknisfræði. Hann skrifaði gagnrýni um mismunandi rannsóknir sem voru gerðar til að meta gildi þess að veita dauðvona sjúklingum tilfinningalegan stuðning. Talið er að slíkur stuðningur hjálpi fólki að vera jákvætt og bjartsýnt. Ein slík rannsókn sem var gerð 1989 leiddi í ljós að sjúklingar sem fengu slíkan stuðning lifðu lengur. En nýlegar rannsóknir gefa ekki jafn skýrar niðurstöður. Rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós að sjúklingar sem fá tilfinningalegan stuðning finna síður til þunglyndis og hafa minni verki heldur en þeir sem fá hann ekki.
Skoðum aðra rannsókn sem beindi athyglinni að áhrifum bjartsýni og svartsýni á kransæðasjúkdóma. Talað var við hóp rúmlega 1300 manna og vandlega metið hvort þeir væru bjartsýnir eða svartsýnir á lífið. Tíu árum síðar kom í ljós að meira en 12 prósent þessara manna höfðu fengið kransæðastíflu. Af þeim voru helmingi fleiri sem höfðu verið svartsýnir heldur en þeir sem höfðu verið bjartsýnir. Laura Kubzansky, aðstoðarprófessor í heilsu og félagslegu atferli við Harvard School of Public Health, segir: „Flestar af þeim sönnunum sem styðja þá skoðun að það sé gott fyrir heilsuna að hugsa jákvætt hafa verið byggðar á frásögum – þessi rannsókn á sviði hjartasjúkdóma kemur með fyrstu afgerandi læknisfræðilegu sönnunina um að jákvæð hugsun sé góð fyrir heilsuna.“
Sumar rannsóknir hafa sýnt að þeim farnast verr eftir uppskurð sem álíta heilsu sína slæma heldur en þeim sem eru jákvæðir gagnvart heilsu sinni. Menn hafa jafnvel komist að því að það eru tengsl milli jákvæðni og langlífi. Í einni rannsókn var skoðað hvernig jákvætt og neikvætt viðhorf hefði áhrif á öldrun hjá eldra fólki. Þegar eldra fólk í rannsókninni fékk að sjá skilaboð í örstutta stund um að öldrun tengist aukinni visku og reynslu hafði það þau áhrif að fólkið varð styrkara til gangs. Framfarirnar voru á við árangur tólf vikna æfingadagskrár.
Hvers vegna bætir von, bjartsýni og jákvæðni heilsuna að því er virðist? Ef til vill er þekking vísindamanna og lækna á mannshuganum og líkamanum ekki nógu mikil til að svara því. En sérfræðingar sem rannsaka þetta geta samt dregið vissar ályktanir af þeirri reynslu og þekkingu sem þeir hafa. Prófessor í taugafræði segir til dæmis: „Manni liður vel þegar maður er glaður og vongóður. Þá er streita í lágmarki og líkaminn dafnar. Þetta er eitt af því sem fólk getur gert til að bæta heilsuna.“
Þetta gæti hljómað nýstárlega í eyrum sumra lækna, sálfræðinga og vísindamanna en tæplega í eyrum þeirra sem rannsaka Biblíuna. Fyrir næstum 3000 árum var hinum vitra konungi Salómon innblásið að skrifa: „Glatt hjarta veitir góða heilsubót en dapurt geð tærir beinin.“ (Orðskviðirnir 17:22) Taktu eftir jafnvæginu í þessum orðum. Hér segir ekki að glatt hjarta lækni öll mein heldur einfaldlega að það sé ,góð heilsubót‘.
Í raun væri eðlilegt að spyrja: Ef von væri lyf hvaða læknir myndi ekki ávísa því? Og það sem meira er, von hefur áhrif á margt fleira en heilsuna.
Bjartsýni, svartsýni og líf þitt
Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem eru bjartsýnir hafa gagn af því á ýmsa vegu. Þeim gengur gjarnan betur í skóla, vinnu og jafnvel íþróttum. Gerð var rannsókn á kvennaliði í boðhlaupi. Þjálfararnir gerðu nákvæma úttekt á líkamlegu atgervi kvennanna. Einnig var rætt við konurnar og athugað hversu vonglaðar þær væru. Niðurstaðan var sú að það síðarnefnda sýndi miklu meira um frammistöðu þeirra heldur en upplýsingarnar sem þjálfararnir höfðu aflað. Hvers vegna hefur von svona mikið að segja?
Margt hefur komið í ljós við rannsóknir á svartsýni. Á sjöunda áratug síðustu aldar leiddu tilraunir í ljós óvæntar niðurstöður varðandi hegðun dýra sem varð til þess að orðasambandið ,áunnið úrræðaleysi‘ varð til. Þeir sem stjórnuðu tilrauninni komust að því að það sama getur hrjáð menn. Í einni tilraun fengu einstaklingar að heyra óþægileg hljóð og þeim var sagt að þeir gætu lært að slökkva á hljóðinu með því að ýta á vissa talnaröð á takkaborði. Þeim tókst að stöðva hljóðið.
Öðrum hópi einstaklinga var sagt að gera það sama en þá hafði það enga þýðingu að ýta á takkana. Skiljanlega upplifðu margir í síðari hópnum sig úrræðalausa. Seinna sama dag í annarri tilraun voru þeir hikandi við að gera yfir höfuð nokkuð. Þeir voru vissir um að það skipti engu hvað þeir myndu gera. En jafnvel í síðari hópnum neituðu þeir sem voru bjartsýnir að hleypa slíkri hugsun að.
Dr Martin Seligman sem aðstoðaði við að hanna sumar af þessum tilraunum fann sig knúinn til að sérhæfa sig í því að rannsaka áhrif bjartsýni og svartsýni. Hann skoðaði gaumgæfilega hvernig fólk hugsar sem hefur tilhneigingu til að horfa á sjálft sig sem hjálparlaust. Hann ályktaði að slík neikvæðni hindri fólk á mörgum sviðum lífsins og hafi jafnvel lamandi áhrif á það. Niðurstaða Seligmans varðandi neikvæða hugsun og áhrif hennar var þessi: „Tuttugu og fimm ára rannsóknarvinna hefur sannfært mig um að ef við höfum fyrir venju að trúa, eins og svartsýnismenn gera, að ógæfa okkar sé okkur að kenna, að hún taki engan enda og hafi neikvæð áhrif á allt sem við gerum, upplifum við meiri ógæfu heldur en ef við trúum hinu gagnstæða.“
Eins og áður segir gæti sumum virst þetta nýlunda en ekki þeim sem rannsaka Biblíuna. Eftirfarandi orðskviður er eftirtektarverður: „Látir þú hugfallast á degi neyðarinnar er máttur þinn lítill.“ (Orðskviðirnir 24:10) Biblían sýnir greinilega að kjarkleysi og neikvæðar hugsanir ræna mann krafti til að framkvæma. En hvað getur maður gert til að berjast á móti svartsýni og öðlast meiri bjartsýni og von í lífinu?
[Mynd]
Von getur haft mikil áhrif.
-
-
Þú getur sigrast á svartsýniVaknið!: Hvar er hægt að finna sanna von?
-
-
Þú getur sigrast á svartsýni
HVERT er viðhorf þitt til þeirra erfiðleika sem þú gengur í gegnum? Margir sérfræðingar álíta að svarið við spurningunni segi heilmikið um það hvort þú sért bjartsýnismaður eða bölsýnismaður. Allir ganga í gegnum einhverjar raunir á lífsleiðinni, sumir fleiri en aðrir. En hvers vegna virðast sumir ná sér fljótlega og eru aftur klárir í slaginn eftir að hafa gengið í gegnum raunir en aðrir gefast upp andspænis jafnvel minni háttar erfiðleikum?
Hugsum okkur að þú sért að leita þér að vinnu. Þú ferð í atvinnuviðtal en færð ekki vinnuna. Hvernig líður þér? Þú gætir tekið það mjög persónulega og hugsað að staða þín breytist aldrei. „Enginn mun ráða mann eins og mig. Ég fæ aldrei vinnu,“ gætirðu hugsað. Eða það sem verra er, þú gætir látið þetta eina áfall haft áhrif á viðhorf þitt til lífsins og farið að hugsa: „Mér er ekki viðbjargandi. Ég er einskis nýtur.“ Slík hugsun er svartsýni í hnotskurn.
Að sigrast á svartsýni
Hvernig geturðu barist gegn neikvæðum hugsunum? Fyrst þarftu að bera kennsl á þær. Síðan þarftu að berjast gegn þeim. Reyndu að finna aðrar hugsanlegar skýringar á því hvers vegna þú fékkst ekki vinnuna. Er það í raun vegna þess að enginn myndi vilja fá þig í vinnu? Eða gæti verið að vinnuveitandinn hafi einfaldlega verið að leita að manni með aðra menntun og hæfni?
Þegar þú einbeitir þér þannig að staðreyndum áttu auðveldara með að sjá að þessar neikvæðu hugsanir eru ekki í samræmi við raunveruleikann. Þýðir til dæmis eitt atvik þar sem þér var hafnað að þér sé ekki viðbjargandi? Eða geturðu komið auga á önnur svið lífsins þar sem þér gengur nokkuð vel, til dæmis í tengslum við trúna, fjölskyldulífið eða vináttu? Lærðu að hafna neikvæðum spádómum í huga þínum um dapurlega framtíð. Þegar allt kemur til alls, er nokkur leið að vita að þú munir aldrei finna vinnu? En það er fleira sem þú getur gert til að sigrast á neikvæðum hugsunum.
Jákvæð hugsun og markmið
Á undanförnum árum hafa rannsóknarmenn mótað skilgreiningu á von sem er að vísu dálítið þröng en samt áhugaverð. Þeir segja að von feli í sér þá trú að maður geti náð markmiðum sínum. Í næstu grein sjáum við að von felur í sér miklu meira. Þessi skilgreining er samt gagnleg á ýmsan hátt. Þegar við gefum gaum að þessum þætti vonar getur það hjálpað okkur að hugsa jákvætt og einbeita okkur að því að setja okkur markmið og ná þeim.
Til að trúa því að við getum náð framtíðarmarkmiðum okkar þurfum við að öðlast reynslu í að setja okkur markmið og ná þeim. Ef þér finnst þú ekki hafa slíka reynslu getur verið gagnlegt að hugsa alvarlega um þau markmið sem þú setur þér. Hefurðu yfirhöfuð einhver markmið? Það er hægðarleikur að láta daglegt amstur hindra okkur í að taka okkur tíma til að hugleiða hvað við viljum fá út úr lífinu og hvað það er sem skiptir okkur mestu máli. Biblían sagði endur fyrir löngu um það að hafa skýra forgangsröð: „Metið hvað er mikilvægt.“ – Filippíbréfið 1:10.
Þegar við höfum tekið ákvörðun um hvernig við viljum forgangsraða verður auðveldara að velja nokkur meginmarkmið, til dæmis varðandi samband okkar við Jehóva, fjölskyldulífið eða önnur svið lífsins. En það er mikilvægt að setja sér ekki of mörg markmið í byrjun og að velja markmið sem maður getur auðveldlega náð. Ef markmið er of erfitt til að ná því getur það dregið úr okkur kjark og fengið okkur til að gefast upp. Oft er betra að skipta stórum langtímamarkmiðum í minni markmið sem við getum náð á skemmri tíma.
„Hugurinn ber mann hálfa leið,“ segir máltækið. Það virðist vera nokkuð til í því. Þegar við höfum ákveðið hver meginmarkmið okkar eru þurfum við að hafa viljastyrk – sterka löngun og staðfestu – til að ná þeim. Við getum styrkt ásetning okkar með því að hugleiða gildi markmiða okkar og launin sem bíða okkar þegar við höfum náð þeim. Auðvitað verða einhver ljón á veginum en við ættum að líta á þau sem áskoranir frekar en hindranir.
En við þurfum líka að hugleiða hvernig við förum að því að ná markmiðum okkar. Rithöfundurinn C. R. Snyder hefur rannsakað ítarlega gildi vonar. Hann gefur það ráð að upphugsa fleiri leiðir til að ná ákveðnu markmiði. Ef ein leið lokast förum við aðra leið. Ef það gengur ekki förum við þá þriðju, og svo framvegis.
Rithöfundurinn mælir líka með því að læra að skipta um markmið. Ef það er ekki hægt að ná ákveðnu markmiði veldur það okkur bara áhyggjum að hugsa um það. En ef við setjum okkur annað og raunhæfara markmið í staðinn fáum við eitthvað nýtt til að binda vonir okkar við.
Í Biblíunni er að finna lýsandi dæmi um þetta. Davíð konungur hafði yndi af því markmiði að byggja musteri fyrir Jehóva Guð sinn. En Guð sagði honum að Salómon sonur hans myndi fá það verkefni. Í stað þess að fara í fýlu eða reyna að ríghalda í markmiðið setti hann sér nýtt markmið. Hann beindi kröftum sínum að því að safna fé og byggingarefni sem sonur hans myndi þurfa til að ljúka verkinu. – 1. Konungabók 8:17–19; 1. Kroníkubók 29:3–7.
Þótt við styrkjum vonir okkar með því að berjast gegn svartsýni, læra að hugsa jákvætt og vinna að markmiðum má vera að okkur vanti samt von. Hvers vegna? Vegna þess að vonleysið í þessum heimi stafar af miklu leyti af þáttum sem við ráðum engu um. Mannkynið stendur frammi fyrir stórum vandamálum eins og fátækt, stríði, óréttlæti og því sem vofir yfir okkur öllum – sjúkdómum og dauða. Hvernig getum við horft vongóð til framtíðarinnar þrátt fyrir allt þetta?
[Mynd]
Gerirðu ráð fyrir að fá aldrei vinnu ef tilraun til að fá vinnu hefur mistekist einu sinni?
[Mynd]
Davíð konungur var sveigjanlegur þegar markmið voru annars vegar.
-
-
Hvar er hægt að finna sanna von?Vaknið!: Hvar er hægt að finna sanna von?
-
-
Hvar er hægt að finna sanna von?
ÚRIÐ þitt hefur stöðvast og virðist vera bilað. Þegar þú athugar möguleika á viðgerð er margt í boði. Þeir sem taka að sér að gera við úr segjast allir vera með bestu þjónustuna en aðferðirnar eru ólíkar. En segjum að snillingurinn sem hannaði úrið fyrir mörgum árum sé nágranni þinn og það sem meira er, þú kemst að því að hann er tilbúinn að gera við úrið án endurgjalds. Þú þyrftir ekki að hugsa þig lengi um.
Berum nú dæmið um úrið saman við möguleikann á að hafa von. Hvert geturðu leitað ef þér finnst þú vera að missa vonina eins og mörgum finnst þeir vera að gera á þessum erfiðu tímum? Margir halda því fram að þeir geti leyst vandamálin en óteljandi tillögur geta verið mótsagnakenndar og valdið ruglingi. En hvers vegna ekki að leita til hans sem hannaði okkur á þann hátt að við gætum eignast von? Í Biblíunni segir að hann sé „ekki langt frá neinum okkar“ og að hann sé meira en fús til að hjálpa okkur. – Postulasagan 17:27; 1. Pétursbréf 5:7
Hvað merkir orðið „von“?
Í Biblíunni er merking orðsins „von“ breiðari og dýpri en almennt hjá læknum, vísindamönnum og sálfræðingum. Orð sem eru þýdd „von“ í Biblíunni merkja á frummálinu að bíða með eftirvæntingu og að vænta einhvers góðs. Í aðalatriðum felur von tvennt í sér: Löngun í eitthvað gott og grundvöllinn fyrir því að trúa því að eitthvað gott sé í vændum. Vonin sem talað er um í Biblíunni er ekki bara óskhyggja. Hún hefur traustan grunn sem byggist á staðreyndum og sönnunum.
Að þessu leyti er von lík trú sem verður að vera grundvölluð á sönnunum, ekki trúgirni. (Hebreabréfið 11:1) Biblían gerir samt greinarmun á trú og von. – 1. Korintubréf 13:13.
Tökum dæmi. Þegar þú biður góðan vin um greiða vonastu til að hann hjálpi þér. Von þín er ekki út í bláinn vegna þess að þú hefur trú á vini þínum. Þú þekkir hann vel og hann hefur áður sýnt góðvild og örlæti. Trú þín er samofin von þinni en um leið er munur þar á. Hvernig getum við vonað þannig á Guð?
Grundvöllurinn fyrir von
Guð er uppspretta sannrar vonar. Á biblíutímanum var Jehóva kallaður „von Ísraels“. (Jeremía 14:8) Þegar fólk hans hafði áreiðanlega von var það honum að þakka. Í þeim skilningi var hann von þeirra. Þessi von var ekki bara óskhyggja. Guð gaf þjóðinni traustan grunn fyrir henni. Í samskiptum sínum við þjóðina í gegnum aldirnar stóð hann við þau loforð sem hann gaf. Leiðtogi þjóðarinnar, Jósúa, sagði við hana: „Þið skuluð játa ... að ekkert fyrirheitanna sem voru ykkur í hag og Drottinn, Guð ykkar, gaf ykkur er óefnt.“ – Jósúabók 23:14.
Þúsundum ára síðar er staðan sú sama. Biblían er full af dásamlegum loforðum Guðs ásamt áreiðanlegum heimildum um uppfyllingu þeirra. Spádómleg fyrirheit hans eru svo traustvekjandi að stundum eru þau skrifuð eins og þau hafi þegar fengið uppfyllingu á tímanum sem þau voru gefin.
Þess vegna getum við talað um Biblíuna sem bók vonar. Þegar þú kynnir þér samskipti Guðs við menn hefurðu meiri og meiri ástæðu til að setja von þína á hann. Páll postuli skrifaði: „Allt sem var skrifað áður var skrifað til að við gætum lært af því og haldið voninni vegna þolgæðis okkar og þeirrar huggunar sem Ritningarnar veita.“ – Rómverjabréfið 15:4.
Hvaða von gefur Guð okkur?
Hvenær þörfnumst við mest vonar? Að öllum líkindum er það þegar við stöndum frammi fyrir dauðanum, eins og til dæmis þegar ástvinur deyr. Fátt vekur meira vonleysi en dauðinn. Hann eltir okkur öll vægðarlaust uppi. Við getum forðast hann upp að vissu marki en við höfum engan möguleika á að snúa dauðanum við. Það er viðeigandi að Biblían kallar dauðann ,síðasta óvininn‘. – 1. Korintubréf 15:26.
Hvernig getum við þá haft von þegar við stöndum frammi fyrir dauðanum? Í biblíuversinu þar sem dauðinn er kallaður ,síðasti óvinurinn‘ er einnig sagt að hann ,verði gerður að engu‘. Jehóva Guð er sterkari en dauðinn. Hann hefur margsinnis sannað það með því að reisa dána aftur til lífs. Í Biblíunni er greint frá níu tilfellum þar sem Guð notaði mátt sinn til að gefa dánum einstaklingum aftur líf.
Það var mjög sérstakt þegar Jehóva gerði Jesú syni sínum kleift að reisa góðan vin sinn, Lasarus, upp frá dauðum en hann hafði verið dáinn í fjóra daga. Jesús gerði þetta ekki í leynum heldur opinberlega, að fjölda fólks ásjáandi. – Jóhannes 11:38–48, 53; 12:9, 10.
Þú veltir því kannski fyrir þér hvers vegna þetta fólk var reist upp frá dauðum. Varð það ekki gamalt og dó að lokum? Reyndar. En vegna þess að við höfum áreiðanlegar frásögur um upprisu eins og þessa getum við gert meira en að óska þess að ástvinir okkar fái upprisu, við höfum ástæðu til að trúa að þeir muni fá lífið aftur. Við höfum með öðrum orðum raunverulega von.
Jesús sagði: „Ég er upprisan og lífið.“ (Jóhannes 11:25) Jehóva mun gera honum kleift að reisa fólk upp frá dauðum um allan heim. Jesús sagði: „Sú stund kemur að allir sem eru í minningargröfunum heyra rödd [Krists] og rísa upp.“ (Jóhannes 5:28, 29) Allir sem hvíla í minningargröfunum eiga í vændum að fá upprisu í paradís á jörð.
Spámaðurinn Jesaja dró upp hjartnæma mynd af upprisunni: „Menn þínir, sem dánir eru, munu lifna, lík þeirra rísa upp. Þeir sem í moldinni búa munu vakna og fagna. Þar sem dögg þín er dögg ljóssins mun jörðin fæða þá sem dánir eru.“ – Jesaja 26:19.
Er þetta ekki hughreystandi? Rétt eins og barn nýtur verndar í móðurkviði gætu dánir ekki verið á öruggari stað. Þeir sem hvíla í gröfunum eru geymdir í ótakmörkuðu minni almáttugs Guðs. (Lúkas 20:37, 38) Bráðlega verða þeir vaktir aftur til lífs. Og rétt eins og eftirvæntingarfull fjölskylda tekur á móti nýfæddu barni ríkir gleði þegar tekið verður á móti þeim. Það er því von, jafnvel þótt maður standi frammi fyrir dauðanum.
Hvernig getur vonin hjálpað þér?
Páll kennir okkur margt um gildi vonarinnar. Hann talaði um vonina sem mikilvægan hluta af andlegum herklæðum – hjálminn. (1. Þessaloníkubréf 5:8) Hvað var hann að segja með því? Á biblíutímanum hafði hermaður í orrustu hjálm á höfðinu, gjarnan yfir húfu úr leðri eða flókaefni. Hjálmurinn hlífði höfðinu fyrir flestum höggum sem gátu verið lífshættuleg. Hvað meinti Páll? Á sama hátt og hjálmur verndar höfuðið verndar vonin hugann eða skýra hugsun. Ef þú hefur trausta von í samræmi við fyrirætlun Guðs raskar það ekki hugarró þinni þótt þú mætir erfiðleikum og þú fyllist ekki örvæntingu. Hver slær hendinni á móti þannig hjálmi?
Páll notar aðra áhrifamikla líkingu um vonina sem tengist vilja Guðs. Hann skrifaði: „Þessi von okkar er eins og akkeri fyrir sálina, bæði traust og örugg.“ (Hebreabréfið 6:19) Páll lifði oftar en einu sinni af skipbrot og vissi hversu mikils virði akkeri er. Þegar sjómenn lentu í stormi léttu þeir akkerum. Ef þau náðu niður á sjávarbotn og höfðu hald átti skipið möguleika á að komast tiltölulega öruggt í gegnum storminn í staðinn fyrir að berast upp að ströndinni og brotna.
Ef loforð Guðs gefa okkur örugga og trausta von getum við, með hana að akkeri, staðið af okkur storma lífsins. Jehóva lofar því að sá tími komi brátt að mannkynið verði ekki lengur þjakað af styrjöldum, glæpum, sorg eða jafnvel dauða. (Sjá rammagrein á bls. 10.) Ef við höldum fast í þá von getur það hjálpað okkur að afstýra ógæfu og verið okkur hvöt til að lifa eftir mælikvarða Guðs en ekki eftir stjórnlausum og siðlausum viðhorfum sem eru svo útbreidd í heiminum.
Vonin sem Jehóva býður okkur snertir líka þig. Hann vill að þú njótir lífsins eins og hann ætlaðist til. Hann vill að „að alls konar fólk bjargist“. Hvernig? Fyrst þarf hver og einn að fá „nákvæma þekkingu á sannleikanum“. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Útgefendur þessa tímarits hvetja þig til að afla þér þeirrar lífgefandi þekkingar sem er að finna í orði Guðs. Vonin sem Guð mun gefa þér er langtum dýrmætari en nokkur von sem heimurinn býður upp á.
Með slíka von þarftu aldrei að fyllast örvæntingu vegna þess að Guð getur gefið þér þann styrk sem þú þarft til að ná hvaða markmiði sem þú hefur og er í samræmi við vilja hans. (2. Korintubréf 4:7; Filippíbréfið 4:13) Hefurðu ekki þörf fyrir slíka von? Hertu upp hugann ef þú þarft á von að halda og hefur verið að leita að henni. Vonin er innan seilingar. Þú getur fundið hana!
[Rammi]
Ástæður til að hafa von
Þessi vers í Biblíunni geta hjálpað þér að byggja upp von:
◼ Guð lofar hamingjuríkri framtíð.
Í Biblíunni er sagt að jörðin verði öll að paradís þar sem menn munu búa hamingjusamir og sameinaðir. – Sálmur 37:11, 29; Jesaja 25:8; Opinberunarbókin 21:3, 4.
◼ Guð getur ekki logið.
Hann hefur óbeit á hvers kyns lygi. Jehóva er óendanlega heilagur eða hreinn þannig að það er ómögulegt að hann ljúgi. – Orðskviðirnir 6:16–19; Jesaja 6:2, 3; Títusarbréfið 1:2; Hebreabréfið 6:18.
◼ Guð býr yfir óendanlega miklum krafti.
Jehóva er einn almáttugur. Ekkert í öllum alheiminum getur komið í veg fyrir að hann uppfylli loforð sín. – 2. Mósebók 15:11; Jesaja 40:25, 26.
◼ Guð vill að þú lifir að eilífu.
– Jóhannes 3:16; 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4.
◼ Guð kýs að sjá það góða í okkur.
Hann kýs að einblína á góða eiginleika okkar og viðleitni en ekki galla okkar og mistök. (Sálmur 103:12–14; 130:3; Hebreabréfið 6:10) Hann vonar að við gerum það sem er rétt og gleðst þegar við gerum það. – Orðskviðirnir 27:11.
◼ Guð lofar að hjálpa þér að ná markmiðum sem eru í samræmi við vilja hans.
Þjónar hans þurfa aldrei að hafa þá tilfinningu að þeir séu hjálparvana. Guð gefur örlátlega af heilögum anda sínum, sterkasta afli sem til er, til að hjálpa okkur. – Filippíbréfið 4:13.
◼ Það eru aldrei mistök að vona á Guð.
Hann er algerlega áreiðanlegur og traustur og bregst þér aldrei. – Sálmur 25:3.
[Mynd]
Á sama hátt og hjálmur verndar höfuðið verndar vonin hugann.
[Mynd]
Á sama hátt og akkeri getur von byggð á traustum grunni veitt stöðugleika.
[Rétthafi]
Courtesy René Seindal/Su concessione del Museo Archeologico Regionale A. Salinas di Palermo
-