Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Erfiðleikar sem vekja von
    Varðturninn – 2011 | 1. júlí
    • Erfiðleikar sem vekja von

      „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir.“ — 2. TÍMÓTEUSARBRÉF 3:1.

      HEFURÐU heyrt um eða jafnvel kynnst af eigin raun dapurlegum atburðum eins og þessum?

      ● Drepsótt dregur fjölda fólks til dauða.

      ● Hundruð manna deyja í hungursneyð.

      ● Þúsundir farast í jarðskjálfta og enn fleiri missa heimili sín.

      Á næstu blaðsíðum er bent á nokkrar sláandi staðreyndir um atburði eins og þessa. Einnig er sýnt fram á að í Biblíunni er spáð að slíkt ástand myndi einkenna tímabil sem hún kallar ,síðustu daga‘.a

      Markmiðið með þessum greinum er þó ekki að sannfæra þig um að við búum í hrjáðum heimi. Þú veist það eflaust nú þegar. Greinarnar eru samdar með það fyrir augum að vekja von. Sýnt er fram á að uppfylling eftirfarandi sex biblíuspádóma þýðir að „síðustu dögum“ lýkur brátt. Í þessum greinum er einnig rætt um algengar mótbárur gegn því að spár Biblíunnar séu að rætast og nefnd góð rök fyrir því að betri tíð sé rétt fram undan.

      [Neðanmáls]

      a Í greininni: „Af hverju leyfir Guð þjáningar og illsku?“ á bls. 16-17 í þessu blaði er fjallað um af hverju Guð umber þetta slæma ástand.

  • 1. Jarðskjálftar
    Varðturninn – 2011 | 1. júlí
    • 1. Jarðskjálftar

      „Þá verða landskjálftar miklir.“ — LÚKAS 21:11.

      ● Winnie, 16 mánaða stúlku, er bjargað úr rústum á Haítí. Sjónvarpsfréttamenn, sem voru að flytja fréttir af hörmungunum, heyrðu veikan grát hennar. Hún lifir af jarðskjálftann en foreldrar hennar ekki.

      HVER ER VERULEIKINN? Meira en 300.000 manns fórust þegar jarðskjálfti, sem var 7,0 stig á Richterkvarða, skók Haítí í janúar 2010. Auk þess urðu 1,3 milljónir manna heimilislausar í einni svipan. Þótt skjálftinn á Haítí hafi verið öflugur var hann ekkert einsdæmi. Að minnsta kosti 18 stórir skjálftar mældust víða um heim frá apríl 2009 til apríl 2010.

      HVAÐ SEGJA SUMIR? Jarðskjálftum hefur ekkert fjölgað. En vegna tækniframfara vitum við miklu betur af þeim en fólk gerði hér áður fyrr.

      EIGA ORÐ ÞEIRRA VIÐ RÖK AÐ STYÐJAST? Hugleiddu þetta: Biblían talar ekki um hversu margir jarðskjálftar yrðu á síðustu dögum. Hún segir hins vegar að „landskjálftar miklir“ yrðu „á ýmsum stöðum“. Þeir yrðu því áberandi tákn þessa þýðingarmikla tímabils mannkynssögunnar. — Markús 13:8; Lúkas 21:11.

      HVAÐ HELDUR ÞÚ? Hafa orðið stórir jarðskjálftar á ýmsum stöðum eins og spáð var í Biblíunni?

      Jarðskjálftar einir sér virðast kannski ekki vera næg sönnun fyrir því að við lifum á síðustu dögum. En þeir eru uppfylling á aðeins einum spádómi. Lítum á annan spádóm.

      [Innskot á bls. 4]

      „Við [jarðeðlisfræðingar] köllum þá stóra skjálfta. Allir aðrir kalla þá hamfarir.“ — KEN HUDNUT, JARÐFRÆÐISTOFNUN BANDARÍKJANNA.

      [Rétthafi myndar á bls. 4]

      © William Daniels/Panos Pictures

  • 2. Hungur
    Varðturninn – 2011 | 1. júlí
    • 2. Hungur

      „Þá verður hungur.“ — MATTEUS 24:7.

      ● Maður nokkur kemur í þorpið Quaratadji í Níger í von um að fá mat. Yngri systkini hans og frændfólk hafa einnig reynt að flýja hungursneyðina. Þau eru komin langt að. Samt liggur maðurinn einn á mottu á jörðinni. Af hverju er hann einn? Þorpshöfðinginn Sidi segir: „Hann getur ekki séð [fjölskyldu sinni] fyrir mat og þolir ekki lengur að horfa upp á hana þjást af hungri.“

      HVER ER VERULEIKINN? Næstum sjöundi hver jarðarbúi fær ekki nóg að borða. Í löndunum sunnan Sahara er ástandið enn verra. Þar er þriðji hver íbúi vannærður. Sjáðu fyrir þér þriggja manna fjölskyldu. Hvert þeirra á að svelta ef maturinn dugir aðeins handa tveimur? Faðirinn? Móðirin? Eða barnið? Margar fjölskyldur þurfa daglega að taka slíka ákvörðun.

      HVAÐ SEGJA SUMIR? Jörðin gefur af sér meira en nóg til að brauðfæða alla. Það þarf bara að hafa betri umsjón með auðlindum hennar.

      EIGA ORÐ ÞEIRRA VIÐ RÖK AÐ STYÐJAST? Satt er það að bændur geta framleitt og flutt milli staða meiri matvæli en nokkru sinni fyrr. Og stjórnvöld ættu að geta dreift því sem jörðin gefur af sér til að seðja hungur allra. En þeim hefur samt ekki tekist það þrátt fyrir að það hafi verið reynt í marga áratugi.

      HVAÐ HELDUR ÞÚ? Eru orðin í Matteusi 24:7 að rætast? Er hungur útbreitt vandamál þótt miklar tækniframfarir hafi átt sér stað?

      Jarðskjálftar og hungur eru oft undanfari erfiðleika sem uppfylla annan spádóm um síðustu daga.

      [Innskot á bls. 5]

      „Meira en þriðjungur barna, sem deyja af völdum lungnabólgu, niðurgangspesta og annarra sjúkdóma, hefðu getað haldið lífi hefðu þau ekki verið vannærð.“ — ANN M. VENEMAN, FYRRVERANDI FRAMKVÆMDASTJÓRI BARNAHJÁLPAR SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA.

      [Rétthafi myndar á bls. 5]

      © Paul Lowe/Panos Pictures

  • 3. Drepsóttir
    Varðturninn – 2011 | 1. júlí
    • 3. Drepsóttir

      „Þá verða . . . drepsóttir.“ — LÚKAS 21:11.

      ● Bonzali er heilbrigðisstarfsmaður í Afríkulandi þar sem borgarastyrjöld hefur lengi geisað. Hann reynir allt hvað hann getur til að hjúkra námuverkamönnum í heimabæ sínum. Þeir þjást af banvænum sjúkdómi sem kenndur er við Marburgveiruna.a Bonzali hefur ítrekað beðið embættismenn í stórborginni um aðstoð en ekki fengið nein svör. Að fjórum mánuðum liðnum berst hjálpin loksins, en Bonzali er látinn. Hann smitaðist af Marburgveirunni þegar hann reyndi að hjálpa námuverkamönnunum.

      HVER ER VERULEIKINN? Niðurgangspestir, HIV/alnæmi, berklar, malaría og öndunarfærasýkingar (eins og lungnabólga) eru meðal illvígustu sjúkdóma sem hrjá mannkynið. Talið er að á einu ári hafi alls 10,7 milljónir manna látist af völdum þessara fimm sjúkdóma. Með öðrum orðum, þessir sjúkdómar drógu sjúkling til dauða með þriggja sekúndna millibili allt árið.

      HVAÐ SEGJA SUMIR? Jarðarbúum heldur áfram að fjölga og því er eðlilegt að sjúkdómstilfellum fjölgi einnig. Það eru fleiri til að smitast.

      EIGA ORÐ ÞEIRRA VIÐ RÖK AÐ STYÐJAST? Jarðarbúum hefur fjölgað svo um munar. En menn geta líka betur greint sjúkdóma, haldið þeim í skefjum eða læknað þá. Væri þá ekki eðlilegt að sjúkdómar væru á undanhaldi? Samt gerist hið gagnstæða.

      HVAÐ HELDUR ÞÚ? Þjáist fólk af hræðilegum sjúkdómum líkt og spáð er í Biblíunni?

      Jarðskjálftar, hungur og drepsóttir leggja líf milljóna manna í rúst. Og þá eru ótaldar þær milljónir sem beittar eru ofbeldi — oft af hendi þeirra sem ættu að vera þeim til verndar. Lítum á hvað spádómur í Biblíunni segir að myndi eiga sér stað.

      [Neðanmáls]

      a Marburgveiran er skyld Ebóluveirunni.

      [Innskot á bls. 6]

      „Það er hræðilegt að vera étinn af ljóni eða öðru villidýri. En það er jafn hræðilegt að einhver veira éti mann innan frá og að sjá svo fólk allt í kringum sig hljóta sömu örlög.“ — MICHAEL OSTERHOLM, FARSÓTTAFRÆÐINGUR.

      [Rétthafi myndar á bls. 6]

      © William Daniels/Panos Pictures

  • 4. Kærleiksleysi
    Varðturninn – 2011 | 1. júlí
    • 4. Kærleiksleysi

      „Menn verða . . . kærleikslausir.“ — 2. TÍMÓTEUSARBRÉF 3:1-3.

      ● Chris vinnur á vegum samtaka í Norður-Wales sem aðstoða fórnarlömb heimilisofbeldis. Hann segir: „Ég man eftir einni konu sem leitaði til okkar. Hún var svo illa farin eftir barsmíðar að ég þekkti hana ekki aftur.“ Hann bætir við: „Aðrar konur eru svo þjakaðar á sálinni að þær geta ekki einu sinni litið framan í fólk.“

      HVER ER VERULEIKINN? Í einu Afríkulandi hefur um það bil þriðja hver kona verið misnotuð kynferðislega á barnsaldri. Könnun, sem gerð var í þessu landi, leiddi í ljós að meira en þriðjungi karlmanna fannst í lagi að berja konuna sína. Konur eru þó ekki einu fórnarlömb heimilisofbeldis. Nálægt 30 prósentum karlmanna í Kanada hefur verið misþyrmt af maka sínum, svo dæmi sé tekið.

      HVAÐ SEGJA SUMIR? Heimilisofbeldi hefur alltaf verið til. Það er bara meira fjallað um það núna en áður.

      EIGA ORÐ ÞEIRRA VIÐ RÖK AÐ STYÐJAST? Á undanförnum áratugum hefur fólk orðið meðvitaðra um heimilisofbeldi. En hefur það dregið úr ofbeldinu? Nei. Það ber enn meira á kærleiksleysi nú en áður.

      HVAÐ HELDUR ÞÚ? Er spádómurinn í 2. Tímóteusarbréfi 3:1-3 að uppfyllast? Skortir marga þann kærleika sem þeir ættu eðlilega að bera til fjölskyldunnar?

      Fimmti biblíuspádómurinn, sem er að rætast, snertir jörðina — staðinn þar sem við lifum og hrærumst. Lítum nánar á hann.

      [Innskot á bls. 7]

      „Talið er að heimilisofbeldi sé sá glæpur sem sjaldnast er tilkynnt um. Konur verða fyrir líkamsárás af hendi maka síns að meðaltali 35 sinnum áður en þær leita til lögreglunnar.“ — TALSMAÐUR SÍMARÁÐGJAFAR Í WALES FYRIR FÓRNARLÖMB HEIMILISOFBELDIS.

  • 5. Eyðing jarðar
    Varðturninn – 2011 | 1. júlí
    • 5. Eyðing jarðar

      „[Guð mun] eyða þeim sem jörðina eyða.“ — OPINBERUNARBÓKIN 11:18.

      ● Maður að nafni Pirri vinnur við að tappa safa af pálmatrjám í Kpor í Nígeríu. Hann er hættur að geta framfleytt sér vegna gríðarlegrar olíumengunar við Nígerósa. „Olían drepur fiskinn, skaðar húðina og mengar árnar,“ segir hann. „Hvernig á ég að sjá fyrir mér núna?“

      HVER ER VERULEIKINN? Sumir sérfræðingar áætla að 6,5 milljónum tonna af sorpi sé hent í sjóinn á hverju ári. Talið er að helmingurinn af öllu þessu sorpi sé úr plasti sem kemur til með að fljóta þar í mörg hundruð ár áður en það brotnar niður. Auk þess að menga jörðina eru mennirnir að ganga verulega á auðlindir hennar. Rannsóknir hafa leitt í ljós að jörðin þarf 17 mánuði til að endurnýja það sem mennirnir eyða á einu ári. Í ástralska dagblaðinu Sydney Morning Herald segir: „Ef fólki heldur áfram að fjölga og neysluvenjur breytast ekki þurfum við sem samsvarar tveim jörðum árið 2035.“

      HVAÐ SEGJA SUMIR? Mennirnir eru úrræðagóðir. Við getum leyst þennan vanda og bjargað jörðinni.

      EIGA ORÐ ÞEIRRA VIÐ RÖK AÐ STYÐJAST? Margt duglegt fólk og félagasamtök hafa vakið athygli á umhverfismálum. En samt er haldið áfram að menga umhverfið í stórum stíl.

      HVAÐ HELDUR ÞÚ? Er þörf á því að Guð skerist í leikinn og bjargi jörðinni frá eyðingu, rétt eins og hann hefur lofað að gera?

      Til viðbótar við þessa fimm spádóma segir Biblían einnig frá jákvæðri framvindu sem myndi eiga sér stað á síðustu dögum. Lítum á eitt dæmi í sjötta spádóminum.

      [Innskot á bls. 8]

      „Ég átti mér litla paradís en nú á ég bara landspildu fulla af eiturefnaúrgangi.“ — ERIN TAMBER, UM AFLEIÐINGAR OLÍULEKANS Í MEXÍKÓFLÓA ÁRIÐ 2010. HÚN BÝR VIÐ SUÐURSTÖND BANDARÍKJANNA.

      [Rammi á bls. 8]

      Er Guði um að kenna?

      Er rétt að kenna Guði um þetta slæma ástand í heiminum fyrst hann spáði því fyrir í Biblíunni? Lætur hann okkur þjást? Finna má ítarleg svör við þessum spurningum í 11. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Hún er gefin út af Vottum Jehóva.

      [Rétthafi myndar á bls. 8]

      U.S. Coast Guard photo

  • 6. Fagnaðarerindið boðað um allan heim
    Varðturninn – 2011 | 1. júlí
    • 6. Fagnaðarerindið boðað um allan heim

      „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina.“ — MATTEUS 24:14.

      ● Vaiatea býr á afskekktri eyju í Tuamotu-eyjaklasanum í Kyrrahafinu. Enda þótt þessar eyjar, sem eru nær 80 talsins, séu dreifðar um tæplega 803.000 ferkílómetra svæði eru íbúar einungis um 16.000. Samt hafa vottar Jehóva lagt leið sína þangað og heimsótt Vaiateu og nágranna hennar. Hvers vegna? Vegna þess að vottarnir vilja boða öllum fagnaðarerindið um Guðsríki, óháð því hvar þeir búa.

      HVER ER VERULEIKINN? Boðskapurinn um ríkið berst nú til allra heimshorna. Á árinu 2010 vörðu vottar Jehóva meira en 1,6 milljarði klukkustunda til að boða fagnaðarerindið í 236 löndum. Þetta merkir að hver vottur hafi varið að meðaltali 30 mínútum á dag til að boða fagnaðarerindið. Síðastliðinn áratug hafa vottarnir framleitt og dreift biblíufræðsluefni í meira en 20 milljörðum eintaka.

      HVAÐ SEGJA SUMIR? Boðskapur Biblíunnar hefur verið boðaður um þúsundir ára.

      EIGA ORÐ ÞEIRRA VIÐ RÖK AÐ STYÐJAST? Það er satt að margir hafa prédikað boðskap Biblíunnar í einhverjum mæli. Flestir hafa hins vegar aðeins gert það um stutta stund og á afmörkuðu svæði. Vottar Jehóva hafa aftur á móti ýtt úr vör vel skipulögðu boðunarátaki og ná þannig til hundruð milljóna manna um allan heim. Vottarnir hafa haldið ótrauðir áfram að boða fagnaðarerindið þrátt fyrir að nokkur öflugustu og grimmustu ógnarveldi mannkynssögunnar hafi veitt þeim harða andstöðu.a (Markús 13:13) Þar að auki fá vottar Jehóva ekki borgað fyrir að prédika. Þeir gefa fúslega tíma sinn og bjóða rit sín án endurgjalds. Starf þeirra er eingöngu fjármagnað með frjálsum framlögum.

      HVAÐ HELDUR ÞÚ? Er verið að prédika „fagnaðarerindið um ríkið“ um allan heim? Gefur uppfylling þessa spádóms til kynna að betri tímar séu rétt fram undan?

      [Neðanmáls]

      a Nánari upplýsingar má finna í þrem heimildamyndum sem nefnast „Staðfesta votta Jehóva í ofsóknum nasista“, „Faithful Under Trials“ og „Purple Triangles“. Myndirnar eru gefnar út af Vottum Jehóva.

      [Innskot á bls. 9]

      „Við höldum áfram að prédika fagnaðarerindið af kappi eins lengi og Jehóva leyfir og notum allar mögulegar leiðir til að ná til fólks.“ — ÁRBÓK VOTTA JEHÓVA 2010.

  • Betri tímar rétt fram undan
    Varðturninn – 2011 | 1. júlí
    • Betri tímar rétt fram undan

      „Innan stundar er hinn óguðlegi horfinn . . . En hinir hógværu fá landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi.“ — SÁLMUR 37:10, 11.

      LANGAR þig ekki til að sjá spádóminn hér að ofan rætast? Það er full ástæða til að trúa því að hann geri það bráðum.

      Í greinunum á undan var rætt um nokkra biblíuspádóma sem gefa skýrt til kynna að við lifum á „síðustu dögum“. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Guð blés riturum Biblíunnar í brjóst að segja þessa atburði fyrir svo að við héldum í vonina. (Rómverjabréfið 15:4) Uppfylling þessara spádóma þýðir að erfiðleikarnir, sem við glímum við, heyra brátt sögunni til.

      Hvað gerist þegar síðustu dögum lýkur? Ríki Guðs fer þá með stjórnina yfir allri jörðinni. (Matteus 6:9, 10) Skoðum nánar hvernig Biblían lýsir aðstæðum hér á jörðinni þá:

      ● Engan mun hungra framar. „Gnóttir korns verði í landinu, bylgist það á fjallatindunum.“ — Sálmur 72:16.

      ● Sjúkdómum verður útrýmt. „Enginn borgarbúi mun segja: ,Ég er veikur.‘“ — Jesaja 33:24.

      ● Jörðin mun endurnýjast. „Eyðimörkin og skrælnað landið gleðjist, öræfin fagni og blómstri.“ — Jesaja 35:1.

      Þetta er aðeins örlítið brot af þeim fjölmörgu biblíuspádómum sem uppfyllast innan tíðar. Við hvetjum þig til að kynna þér nánar af hverju hægt sé að treysta því að betri tímar séu rétt fram undan. Vottar Jehóva eru reiðubúnir að aðstoða þig við það.

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • Íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila