Við erum ekki án vonar þótt við syrgjum
„Ekki viljum vér, bræður, láta yður vera ókunnugt um þá, sem sofnaðir eru, til þess að þér séuð ekki hryggir eins og hinir, sem ekki hafa von.“ — 1. ÞESSALONÍKUBRÉF 4:13.
1. Hverju verða menn fyrir jafnt og þétt?
HEFUR þú misst ástvin í dauðann? Óháð aldri hafa flest okkar kynnst sorginni sem er samfara því að missa ættingja eða vin. Kannski var það afi eða amma, foreldri, maki eða barn. Elli, sjúkdómar og slys taka jafnt og þétt sinn toll. Glæpir, ofbeldi og stríð auka á óhamingjuna og sorgina. Árlega deyja að meðaltali yfir 50 milljónir manna í heiminum. Dagsmeðaltalið var 140.250 árið 1993. Dauðinn snertir vini og ættingja og missirinn er sár.
2. Af hverju virðist óeðlilegt að börn deyi?
2 Getum við ekki fundið til með foreldrunum í Kaliforníu sem misstu barnshafandi dóttur sína í hörmulegu umferðarslysi? Í einu vetfangi misstu þau einkadóttur sína og barnið sem átti að verða fyrsta barnabarn þeirra. Eiginmaður dótturinnar missti eiginkonu og fyrsta barn sitt. Það er einhvern veginn svo óeðlilegt fyrir foreldra að missa barn, hvort heldur það er ungt eða uppkomið. Það er ekki eðlilegt að börnin deyi á undan foreldrunum. Öll elskum við lífið. Þess vegna er dauðinn svo sannarlega óvinur. — 1. Korintubréf 15:26.
Dauðinn kemur til skjalanna
3. Hvaða áhrif kann dauði Abels að hafa haft á Adam og Evu?
3 Synd og dauði hafa ríkt sem konungar næstum alla sex þúsund ára sögu mannsins, allt frá uppreisn fyrstu foreldra okkar, Adams og Evu. (Rómverjabréfið 5:14; 6:12, 23) Biblían lætur ósagt hvernig þau brugðust við er Kain sonur þeirra myrti Abel bróður sinn. Af ýmsum ástæðum hlýtur það að hafa verið gífurlegt áfall fyrir þau. Þarna stóðu þau í fyrsta sinn augliti til auglitis við mannslát þar sem sonur þeirra lá örendur. Þau sáu ávöxtinn af uppreisn sinni og áframhaldandi misnotkun síns frjálsa vilja. Þrátt fyrir viðvaranir Guðs hafði Kain ákveðið að fremja fyrsta bróðurmorðið. Við vitum að dauði Abels hlýtur að hafa haft djúp áhrif á Evu því að hún sagði þegar hún ól Set: „Nú hefir Guð . . . gefið mér annað afkvæmi í stað Abels, þar eð Kain drap hann.“ — 1. Mósebók 4:3-8, 25.
4. Af hverju gat goðsögnin um ódauðlega sál ekki verið nein huggun eftir dauða Abels?
4 Fyrstu foreldrar okkar sáu dóm Guðs rætast á sér — að ef þau gerðu uppreisn og væru óhlýðin myndu þau „vissulega deyja.“ Þrátt fyrir lygi Satans var uppspuninn um ódauðlega sál greinilega enn ekki kominn fram, þannig að þaðan var enga falshuggun að fá. Guð hafði sagt við Adam: „Þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ Hann hafði ekki minnst á neina framhaldstilveru Adams sem ódauðlegrar sálar á himni, í helvíti, forgörðum vítis, hreinsunareldi eða annars staðar. (1. Mósebók 2:17; 3:4, 5, 19) Adam og Eva voru lifandi sálir sem höfðu syndgað og hlutu að lokum að deyja og hætta að vera til. Salómon konungi var innblásið að skrifa: „Þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar, því að minning þeirra gleymist. Bæði elska þeirra og hatur og öfund, það er fyrir löngu farið, og þeir eiga aldrei framar hlutdeild í neinu því, sem við ber undir sólinni.“ — Prédikarinn 9:5, 6.
5. Hver er raunveruleg von hinna dánu?
5 Þessi orð eru dagsönn! Hver man eftir forfeðrum sínum frá því fyrir tvö eða þrjú hundruð árum? Oft eru jafnvel leiði þeirra gleymd eða vanrækt. Merkir það að látnir ástvinir okkar hafi enga von? Nei, alls ekki. Marta sagði við Jesú um látinn bróður sinn, Lasarus: „Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ (Jóhannes 11:24) Hebrear trúðu að Guð myndi reisa látna upp í framtíðinni. En það kom ekki í veg fyrir að þeir syrgðu látna ástvini. — Jobsbók 14:13.
Trúfastir menn sem syrgðu
6, 7. Hvernig brugðust Abraham og Jakob við dauðanum?
6 Fyrir nálega fjögur þúsund árum, þegar Sara, kona Abrahams, dó ‚harmaði Abraham Söru og grét hana.‘ Þessi trúfasti þjónn Guðs lét í ljós djúpar tilfinningar sínar yfir missi heittelskaðrar og tryggrar eiginkonu sinnar. Þótt hann væri hugrakkur og framtakssamur skammaðist hann sín ekki fyrir að tjá sorg sína með tárum. — 1. Mósebók 14:11-16; 23:1, 2.
7 Eins var því farið með Jakob. Hvernig brást hann við þegar honum var talin trú um að villidýr hefði drepið Jósef son hans? Við lesum í 1. Mósebók 37:34, 35: „Þá reif Jakob klæði sín og lagði hærusekk um lendar sínar og harmaði son sinn langan tíma. Og allir synir hans og allar dætur hans leituðust við að hugga hann, en hann vildi ekki huggast láta og sagði: ‚Með harmi mun ég niður stíga til sonar míns til heljar.‘ Og faðir hans grét hann.“ Já, það er mannlegt og eðlilegt að sýna harm sinn þegar ástvinur deyr.
8. Hvernig tjáðu Hebrear oft sorg sína?
8 Sumum finnst kannski að miðað við nútímavenjur eða staðbundna siði hafi viðbrögð Jakobs verið ýkt og öfgakennd. En hann var barn síns tíma og siðmenningar. Þetta er í fyrsta skipti sem Biblían nefnir þann sið að klæðast hærusekk eins og hann gerði til að tjá sorg sína. En eins og lýst er í Hebresku ritningunum tjáðu menn sorg sína líka með kveinstöfum, með því að yrkja harmljóð og með því að sitja í ösku. Ljóst er að Hebrear voru ófeimnir við að láta sorg sína opinskátt í ljós.a — Esekíel 27:30-32; Amos 8:10.
Hvernig menn syrgðu á tímum Jesú
9, 10. (a) Hvernig brást Jesús við dauða Lasarusar? (b) Hvað segja viðbrögð Jesú okkur um hann?
9 Hvernig syrgðu fyrstu lærisveinar Jesú? Þegar Lasarus dó syrgðu systur hans, Marta og María, hann grátandi. Hvernig brást hinn fullkomni Jesús við er hann kom á vettvang? Frásaga Jóhannesar segir: „María kom þangað, sem Jesús var, og er hún sá hann, féll hún honum til fóta og sagði við hann: ‚Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn.‘ Þegar Jesús sá hana gráta og Gyðingana gráta, sem með henni komu, komst hann við í anda og varð hrærður mjög og sagði: ‚Hvar hafið þér lagt hann?‘ Þeir sögðu: ‚Herra, kom þú og sjá.‘ Þá grét Jesús.“ — Jóhannes 11:32-35.
10 „Þá grét Jesús.“ Þessi fáu orð segja mikið um manngæsku hans, meðaumkun og tilfinninganæmi. Jafnvel þótt Jesú væri fullkunnugt um upprisuvonina grét hann. Frásagan segir síðan frá ummælum áhorfanda: „Sjá, hversu hann hefur elskað [Lasarus]!“ Ef Jesús, sem var fullkominn, grét yfir missi vinar síns er engin skömm að því fyrir karl eða konu nú á dögum að syrgja og gráta ástvin. — Jóhannes 11:36.
Hvaða von er um hina dánu?
11.(a) Hvað getum við lært af frásögum Biblíunnar af þeim sem syrgðu ástvini? (b) Af hverju syrgjum við ekki eins og þeir sem ekki hafa von?
11 Hvað getum við lært af þessum dæmum úr Biblíunni? Að það sé bæði mannlegt og eðlilegt að syrgja og að við ættum ekki að skammast okkar fyrir að láta sorg okkar opinskátt í ljós. Jafnvel þótt upprisuvonin mildi sorgina er það samt sem áður sárt og mikið áfall að missa ástvin. Ára- eða áratugalöng samfylgd og félagsskapur er skyndilega á enda. Að vísu syrgjum við ekki eins og þeir sem eru án vonar eða hafa falskar vonir. (1. Þessaloníkubréf 4:13) Og við látum ekki villast af neinum ósannindum um að maðurinn hafi ódauðlega sál eða lifi áfram endurholdgaður. Við vitum að Jehóva hefur heitið ‚nýjum himni og nýrri jörð þar sem réttlæti á að búa.‘ (2. Pétursbréf 3:13) Hann „mun þerra hvert tár af augum [okkar]. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:4.
12. Hvernig lét Páll í ljós trú sína á upprisuna?
12 Hvaða von hafa þeir sem dánir eru?b Kristna biblíuritaranum Páli var innblásið að veita okkur huggun og von er hann skrifaði: „Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður.“ (1. Korintubréf 15:26) The New English Bible segir: „Síðasti óvinurinn, sem rutt verður úr vegi, er dauðinn.“ Af hverju gat Páll verið svona viss um það? Af því að sá sem sneri honum til trúar og kenndi honum hafði sjálfur verið reistur frá dauðum, það er að segja Jesús Kristur. (Postulasagan 9:3-19) Þess vegna gat Páll líka sagt: „Þar eð dauðinn kom fyrir mann [Adam], kemur og upprisa dauðra fyrir mann [Jesú]. Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist.“ — 1. Korintubréf 15:21, 22.
13. Hvernig brugðust sjónarvottar við upprisu Lasarusar?
13 Kennsla Jesú veitir okkur mikla huggun og framtíðarvon. Hvað gerði hann til dæmis í sambandi við Lasarus? Hann fór að gröfinni þar sem lík Lasarusar hafði legið í fjóra daga. Hann bar fram bæn og „að svo mæltu hrópaði hann hárri röddu: ‚Lasarus, kom út!‘ Hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið. Jesús segir við þá: ‚Leysið hann og látið hann fara.‘“ Geturðu ímyndað þér undrunar- og gleðisvip Mörtu og Maríu? Nágrannarnir hljóta að hafa verið furðu lostnir er þeir sáu þetta kraftaverk! Það er engin furða að margir sjónarvottar tóku trú á Jesú. En trúarlegir óvinir hans voru hins vegar „ráðnir í að taka hann af lífi.“ — Jóhannes 11:41-53.
14. Hvað var upprisa Lasarusar vísbending um?
14 Jesús vann þetta ógleymanlega upprisukraftaverk í augsýn margra sjónarvotta. Það var vísbending um upprisu framtíðarinnar sem hann hafði áður spáð er hann sagði: „Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans [sonar Guðs] og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.“ — Jóhannes 5:28, 29.
15. Hvaða sannarnir höfðu Páll og Ananías fyrir upprisu Jesú?
15 Eins og áður sagði trúði Páll á upprisuna. Á hvaða forsendum? Hann hafði áður verið hinn illræmdi Sál sem ofsótti kristna menn. Nafn hans og orðstír olli ótta meðal hinna trúuðu. Var það ekki hann sem hafði látið sér það vel líka er kristni píslarvotturinn Stefán var grýttur til bana? (Postulasagan 8:1; 9:1, 2, 26) En á veginum til Damaskus kom hinn upprisni Kristur vitinu fyrir Sál er hann sló hann blindu um stundar sakir. Sál heyrði rödd spyrja: „‚Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?‘ En hann sagði: ‚Hver ert þú, herra?‘ Þá var svarað: ‚Ég er Jesús, sem þú ofsækir.‘“ Hinn sami upprisni Kristur fyrirskipaði þá Ananíasi, sem bjó í Damaskus, að fara í húsið þar sem Sál var á bæn og veita honum sjónina aftur. Bæði Sál og Ananías höfðu þannig af eigin reynslu ástæðu til að trúa á upprisuna. — Postulasagan 9:4, 5, 10-12.
16, 17. (a) Hvernig vitum við að Páll trúði ekki á hina heiðnu hugmynd um ódauðleika mannssálarinnar? (b) Hvaða trausta von veitir Biblían? (Hebreabréfið 6:17-20)
16 Veittu athygli hvernig Sál, eða Páll postuli, svaraði þegar hann var sem ofsóttur kristinn maður leiddur fyrir Felix landstjóra. Við lesum í Postulasögunni 24:15: „Þá von hef ég til Guðs . . . að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ Augljóst er að Páll trúði ekki hinni heiðnu hugmynd að mannssálin væri ódauðleg og lifði áfram í einhverjum goðsagnalegum undirheimum. Hann kenndi og trúði á upprisuna. Fyrir suma þýddi hún ódauðleika á himnum með Kristi en fyrir flesta endurheimt lífs á fullkominni jörð. — Lúkas 23:43, NW; 1. Korintubréf 15:20-22, 53, 54; Opinberunarbókin 7:4, 9, 17; 14:1, 3.
17 Biblían gefur okkur þannig skýrt loforð og örugga von um að vegna upprisunnar muni margir sjá ástvini sína aftur hér á jörðinni, en við gerbreyttar aðstæður. — 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:1-4.
Raunhæf hjálp handa syrgjendum
18. (a) Hvaða gagnlegt rit var gefið út á mótinu „Guðsótti“? (Sjá rammann.) (b) Hvaða spurningum þarf nú að svara?
18 Núna þurfum við að búa við sorg okkar og minningar. Hvað getum við gert til að komast gegnum hinn erfiða sorgartíma sem fylgir ástvinamissi? Hvað geta aðrir gert til að hjálpa syrgjendum? Hvað getum við gert í boðunarstarfinu til að hjálpa einlægu fólki sem syrgir ástvini án þess að hafa nokkra raunverulega von? Og hvaða enn frekari huggun getum við sótt í Biblíuna í sambandi við ástvini okkar sem sofnaðir eru dauðasvefni? Í greininni á eftir eru ýmsar tillögur.
[Neðanmáls]
a Ítarlegri upplýsingar um sorg og sorgarsiði á biblíutímanum er að finna í Innsýn í Ritningarnar, 2. bindi, bls. 446-7, útgefin af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
b Ítarlegri upplýsingar um upprisuvon Biblíunnar er að finna í Innsýn í Ritningarnar, 2. bindi, bls. 783-93.
Geturðu svarað?
◻ Af hverju má kalla dauðann óvin?
◻ Hvernig létu þjónar Guðs á biblíutímanum sorg sína í ljós?
◻ Hvaða von er um látna ástvini?
◻ Hvaða forsendu hafði Páll fyrir því að trúa á upprisuna?
[Rammi á blaðsíðu 24]
Raunhæf hjálp handa syrgjendum
Á umdæmismótunum „Guðsótti,“ sem haldin voru 1994-5, tilkynnti Varðturnsfélagið að út væri kominn nýr bæklingur sem heitir Þegar ástvinur deyr. Þetta uppörvandi rit var samið til að hughreysta menn af öllum þjóðum og tungum. Eins og þú hefur kannski séð bendir það á hinar einföldu skýringar Biblíunnar á dauðanum og ástandi hinna dánu. En það sem skiptir enn meira máli er að það dregur fram fyrirheit Guðs um upprisu til lífs á hreinsaðri paradísarjörð fyrir atbeina Krists Jesú. Það hughreystir syrgjendur svo sannarlega. Það ætti því að reynast gagnlegt verkfæri í hinni kristnu þjónustu og vekja áhuga og leggja þar með grundvöllinn að heimabiblíunámi með mörgum til viðbótar. Háttvíslegum námsspurningunum er komið fyrir í ramma í lok hvers kafla, þannig að auðvelt sé að rifja meginatriðin upp með einlægum, syrgjandi manni.
[Mynd á blaðsíðu 22]
Fyrsta sorgin eftir W. Bouguereau. Eftir upprunalegri glerplötu úr Sköpunarsögunni í myndum, 1914.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Jesús grét þegar Lasarus dó.
[Mynd á blaðsíðu 25]
Jesús reisti Lasarus upp frá dauðum.