Kunnum að meta kristnar samkomur
„Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar.“ — HEBREABRÉFIÐ 10:24, 25.
1, 2. (a) Af hverju eru það sérréttindi að sækja samkomu með sannkristnum mönnum? (b) Í hvaða skilningi er Jesús viðstaddur þegar fylgjendur hans koma saman?
HVÍLÍK sérréttindi að sækja kristna samkomu, hvort heldur viðstaddir eru innan við tíu tilbiðjendur Jehóva eða nokkur þúsund, því að Jesús sagði: „Hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra.“ (Matteus 18:20) Þegar Jesús gaf þetta loforð var hann að vísu að ræða um dómsmál sem forystumenn safnaðarins þurftu að taka réttum tökum. (Matteus 18:15-19) En gilda orð Jesú almennt séð um allar kristnar samkomur sem hefjast og lýkur með bæn í hans nafni? Já, mundu hverju Jesús lofaði þegar hann fól fylgjendum sínum það verkefni að gera menn að lærisveinum: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ — Matteus 28:20.
2 Enginn vafi getur leikið á að höfuð kristna safnaðarins, Drottinn Jesús Kristur, hefur mikinn áhuga á öllum samkomum trúfastra fylgjenda sinna. Og við megum vera viss um að hann er með þeim fyrir atbeina heilags anda Guðs. (Postulasagan 2:33; Opinberunarbókin 5:6) Jehóva Guð hefur líka áhuga á því að við söfnumst saman. Meginmarkmið slíkra samkoma er það að lofgerð megi stíga upp til Guðs frá „söfnuðunum.“ (Sálmur 26:12) Með því að sækja safnaðarsamkomur erum við að láta í ljós kærleika okkar til hans.
3. Af hvaða mikilvægri ástæðu kunnum við að meta kristnar samkomur?
3 Það eru fleiri gildar ástæður til að meta kristnar samkomur mikils. Áður en Jesús Kristur yfirgaf jörðina skipaði hann smurða lærisveina sína sem ‚trúan og hygginn þjón‘ til að miðla heimamönnum trúarinnar tímabærri andlegri fæðu. (Matteus 24:45) Þessari fæðu er að miklu leyti komið á framfæri á safnaðarsamkomum og fjölmennum mótum. Drottinn Jesús Kristur leiðbeinir þessum trúa þjóni þannig að hann kemur mikilvægu efni á framfæri á slíkum samkomum handa öllum sem vilja lifa af endalok þessa illa heimskerfis og öðlast líf í réttlátum, nýjum heimi Guðs.
4. Hvaða hættulegur „siður“ er nefndur í Biblíunni og hvernig getum við forðast hann?
4 Þess vegna má enginn kristinn maður leyfa sér að taka upp þann hættulega sið sem Páll postuli benti á: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“ (Hebreabréfið 10:24, 25) Að hugleiða þau sérréttindi að sækja kristnar samkomur og gagnið sem við höfum af því hjálpar okkur að styðja þær dyggilega og af öllu hjarta.
Samkomur sem byggja upp
5. (a) Hvaða áhrif ættu orð okkar á samkomum að hafa? (b) Af hverju ættum við ekki að draga að bjóða áhugasömum að sækja samkomur?
5 Þar eð kristnir menn biðja þess að heilagur andi Jehóva starfi á kristnum samkomum ætti hver og einn viðstaddra að gera sitt besta til að starfa í samræmi við andann og ‚hryggja ekki Guðs heilaga anda.‘ (Efesusbréfið 4:30) Þegar Páll postuli skrifaði þessi innblásnu orð var hann að ræða um rétta notkun tungunnar. Það sem við segjum ætti alltaf að vera „til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.“ (Efesusbréfið 4:29) Þetta er sérstaklega þýðingarmikið á kristnum samkomum. Í bréfi sínu til Korintumanna lagði Páll áherslu á að samkomur þyrftu að vera uppbyggjandi, fræðandi og uppörvandi. (1. Korintubréf 14:5, 12, 19, 26, 31) Allir viðstaddir hafa gagn af slíkum samkomum, þeirra á meðal nýir samkomugestir sem geta hæglega komist að þessari niðurstöðu: „Guð er sannarlega hjá yður.“ (1. Korintubréf 14:25) Þar af leiðandi ættum við ekki að draga það að bjóða þeim sem nýlega hafa sýnt áhuga að koma með okkur á samkomur því að það flýtir fyrir andlegum framförum þeirra.
6. Nefndu nokkur atriði sem stuðla að uppbyggjandi samkomu.
6 Allir sem falið er að flytja ræður og annast viðtöl eða sýnikennslu á kristnum samkomum vilja gæta þess að mál þeirra sé bæði uppbyggjandi og í samræmi við ritað orð Guðs, Biblíuna. Auk þess að vera nákvæm í tali ættum við að láta í ljós tilfinningar sem eru í samræmi við kærleiksríkan persónuleika Guðs og Krists. Ef allir sem eru með verkefni á samkomu eru vakandi fyrir því að endurspegla ‚ávöxt anda Guðs,‘ svo sem gleði, langlyndi og trú, þá finna allir viðstaddir að þeir hafa uppbyggst. — Galatabréfið 5:22, 23.
7. Hvernig geta allir viðstaddir stuðlað að uppbyggjandi samkomu?
7 Enda þótt aðeins fáeinir hafi verkefni á safnaðarsamkomum geta allir stuðlað að því að þær séu uppbyggjandi. Oft hafa áheyrendur tækifæri til að svara spurningum. Þá getum við játað trú okkar opinberlega. (Rómverjabréfið 10:9) Við ættum aldrei að nota þessi tækifæri til að koma eigin skoðunum á framfæri, gorta af afrekum okkar eða gagnrýna trúbræður okkar. Myndi það ekki hryggja anda Guðs? Best er að útkljá ágreining milli trúbræðra einslega í anda kærleikans. Biblían segir: „Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.“ (Efesusbréfið 4:32) Kristnar samkomur eru afbragðstækifæri til að fara eftir þessum góðu ráðum. Þess vegna koma margir snemma á samkomur og doka við eftir að þeim lýkur. Það er líka gott fyrir nýja en þeir þurfa sérstaklega að finna að þeir séu velkomnir. Allir vígðir kristnir menn hafa þannig hlutverki að gegna í að gera samkomurnar uppbyggjandi með því að ‚gefa gætur hver að öðrum og hvetja hver annan til kærleika og góðra verka.‘
Undirbúðu þig vel
8. (a) Hvaða hrósunarverðar fórnir færa sumir til að geta sótt samkomur? (b) Hvaða fordæmi setur Jehóva sem hirðir?
8 Sumir eiga tiltölulega auðvelt með að sækja kristnar samkomur en aðrir þurfa að færa sífelldar fórnir til þess. Kristin móðir, sem þarf að vinna úti til að sjá fjölskyldunni farborða, er yfirleitt þreytt þegar hún kemur heim úr vinnu. Þá þarf hún kannski að elda mat og hjálpa börnunum að hafa sig til fyrir samkomuna. Sumir þurfa kannski langt að fara til að komast á samkomu eða eru takmörk sett sökum heilsubrests eða elli. Jehóva Guð skilur vissulega aðstæður hvers einasta sem sækir samkomur í trúfesti, alveg eins og kærleiksríkur hirðir skilur sérþarfir hvers einasta sauðar í hjörðinni. „Eins og hirðir mun [Jehóva] halda hjörð sinni til haga,“ segir Biblían, „taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu, en leiða mæðurnar.“ — Jesaja 40:11.
9, 10. Hvernig getum við haft sem mest gagn af samkomunum?
9 Þeir sem þurfa að færa miklar fórnir til að sækja samkomur reglulega geta kannski ekki eytt miklum tíma í að undirbúa sig fyrir það sem farið verður yfir. Fólk hefur meira gagn af Guðveldisskólanum ef það fylgir biblíulestraráætlun hverrar viku. Við höfum líka meira gagn af samkomum svo sem Varðturnsnáminu og safnaðarbóknáminu ef við búum okkur undir þær. Með því að lesa námsefnið fyrirfram og hugleiða að minnsta kosti sumar ritningargreinarnar, sem vitnað er í, getur fólk með tímafreka fjölskylduábyrgð átt innihaldsríkari þátt í þessum þýðingarmiklu biblíuumræðum.
10 Aðrir, sem hafa meiri tíma aflögu, geta notað meiri tíma til að búa sig undir samkomur. Til dæmis geta þeir skoðað ítarlega þá ritningarstaði sem vísað er til en ekki vitnað í. Þannig geta allir verið undir það búnir að hafa sem mest gagn af samkomunum og átt prýðisþátt í að uppbyggja söfnuðinn með ræðum sínum og svörum. Ef öldungar og safnaðarþjónar eru vel undirbúnir gefa þeir gott fordæmi í því að koma með stutt og hnitmiðuð svör. Sökum virðingar fyrir ráðstöfunum Jehóva forðast viðstaddir hvaðeina sem gæti valdið truflun meðan samkomur standa yfir. — 1. Pétursbréf 5:3.
11. Af hverju kostar það sjálfsaga að vera undirbúinn fyrir samkomurnar?
11 Ýmsar athafnir og dægrastytting, sem er ekki nauðsynleg til að við séum andlega heilbrigð, getur gleypt of mikið af tíma okkar. Ef svo er þurfum við að líta í eigin barm og ‚vera ekki óskynsöm‘ í sambandi við notkun tímans. (Efesusbréfið 5:17) Það ætti að vera markmið okkar að ‚nota hverja stundina‘ og taka tíma frá því sem minna máli skiptir til að við getum notað meiri tíma til einkabiblíunáms, undirbúnings fyrir samkomur og þjónustu við Guðsríki. (Efesusbréfið 5:16) Það er vissulega ekki alltaf auðvelt og kostar sjálfsaga. Ungt fólk, sem notar tíma sinn viturlega, er með því að leggja góðan grunn að framförum sínum eftirleiðis. Páll skrifaði yngri félaga sínum, Tímóteusi: „Stunda þetta [sem Páll hafði ráðlagt honum], ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.“ — 1. Tímóteusarbréf 4:15.
Dæmi úr orði Guðs
12. Hvaða frábært fordæmi gaf fjölskylda Samúels?
12 Lítum á hið ágæta fordæmi fjölskyldu Samúels sem kom reglulega saman með öðrum tilbiðjendum Guðs meðan tjaldbúðin var í Síló. Þess var einungis krafist að karlmenn kæmu árlega til að halda hátíðirnar. En Elkana, faðir Samúels, tók alla fjölskylduna með þegar hann „fór á ári hverju úr borg sinni til þess að biðjast fyrir og til þess að færa [Jehóva] allsherjar fórnir í Síló.“ (1. Samúelsbók 1:3-5) Heimabær Samúels, Ramataím-Sófím, kann að hafa staðið nálægt ströndinni þar sem nú er bærinn Rentis við rætur ‚Efraímfjalla.‘ (1. Samúelsbók 1:1) Leiðin til Síló hefur því verið um 30 kílómetra löng sem var þreytandi ferð á þeim tíma. En þetta gerði fjölskylda Elkana trúfastlega „ár eftir ár, í hvert skipti sem þau fóru upp til húss [Jehóva].“ — 1. Samúelsbók 1:7.
13. Hvaða fordæmi gáfu trúfastir Gyðingar á jarðvistardögum Jesú?
13 Jesús ólst einnig upp í stórri fjölskyldu. Ár hvert fór fjölskyldan um 100 kílómetra leið frá Nasaret suður til Jerúsalem til að halda páskahátíðina. Um tvær leiðir er að velja sem þau hafa getað farið. Beinni leiðin lá ofan í Megiddódal og síðan þurfti að klífa um 600 metra og fara um Samaríu til Jerúsalem. Hin leiðin var sú sem Jesús fór á síðustu ferð sinni til Jerúsalem árið 33. Hún lá niður Jórdandal undir sjávarmál uns komið var til „byggða Júdeu . . . yfir um Jórdan.“ (Markús 10:1) Leiðin þaðan „upp til Jerúsalem“ var um 30 kílómetra löng og þurfti að klífa rösklega 1100 metra. (Markús 10:32) Hópar trúfastra hátíðargesta lögðu að staðaldri á sig þessa erfiðu ferð frá Galíleu til Jerúsalem. (Lúkas 2:44) Þetta er afbragðsfordæmi fyrir þjóna Jehóva í hinum efnameiri löndum heims sem eiga tiltölulega auðvelt með að sækja kristnar samkomur og mót, þökk sé samgöngutækjum nútímans.
14, 15. (a) Hvaða fordæmi gaf Anna? (b) Hvað getum við lært af góðum viðhorfum sumra sem eru nýbyrjaðir að sækja samkomur?
14 Ekkjan Anna, sem var 84 ára, er annað gott fordæmi. Biblían segir að hún hafi ‚ekki vikið úr helgidóminum.‘ (Lúkas 2:37) Og Anna sýndi öðrum kærleiksríkan áhuga. Hvað gerði hún þegar hún sá barnið Jesú og komst að raun um að það væri hinn fyrirheitni Messías? Hún þakkaði Guði og „talaði um barnið við alla, sem væntu lausnar Jerúsalem.“ (Lúkas 2:38) Þetta er gott viðhorf og góð fyrirmynd fyrir kristna menn nú á tímum.
15 Já, við ættum að hafa slíkt yndi af því að sækja samkomur og taka þátt í þeim að við viljum aldrei láta okkur vanta frekar en Anna. Mörgum nýjum getur ekki annað en liðið þannig. Þeir eru komnir út úr myrkrinu inn í undursamlegt ljós Guðs. Þeir vilja læra allt sem þeir geta og margir sýna mikinn áhuga á kristnum samkomum. Þeir sem hafa verið í sannleikanum um alllangt skeið þurfa hins vegar að gæta þess að ‚afrækja ekki sinn fyrri kærleika.‘ (Opinberunarbókin 2:4) Alvarlegur heilsubrestur eða aðrar óviðráðanlegar aðstæður geta stundum takmarkað samkomusókn manna. En við ættum aldrei að leyfa efnishyggju, afþreyingu eða áhugaleysi að koma í veg fyrir að við séum undirbúin eða valda því að við sækjum samkomur óreglulega eða séum áhugalaus um þær. — Lúkas 8:14.
Besta fyrirmyndin
16, 17. (a) Hvernig leit Jesús á andlegar samkomur? (b) Hvaða góða venju ættu allir kristnir menn að reyna að hafa?
16 Jesús var afbragðsfyrirmynd í því að meta andlegar samkomur mikils. Tólf ára gamall sýndi hann kærleika sinn til húss Guðs í Jerúsalem. Foreldrar hans týndu honum en fundu hann loks þar sem hann var að ræða um orð Guðs við kennarana í musterinu. Þegar foreldrar Jesú létu áhyggjur sínar í ljós svaraði hann þeim með virðingu: „Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns?“ (Lúkas 2:49) Hinn ungi Jesús var foreldrum sínum undirgefinn og sneri heim með þeim til Nasaret. Þar hélt hann áfram að sýna ást sína á tilbeiðslusamkomum með því að sækja samkunduna að staðaldri. Biblían segir því um upphaf þjónustu hans: „Hann kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa.“ Eftir að Jesús hafði lesið og útskýrt Jesaja 61:1, 2 ‚undruðust áheyrendur þau hugnæmu orð sem fram gengu af munni hans.‘ — Lúkas 4:16, 22.
17 Kristnar samkomur nú á dögum fylgja sömu meginfyrirmynd. Samkoman er hafin með lofsöng og bæn og síðan eru lesin vers úr Biblíunni (eða vers sem námsefni vitnar í) og þau útskýrð. Sannkristnum mönnum er skylt að líkja eftir góðri venju Jesú Krists. Þeir hafa yndi af því að sækja kristnar samkomur reglulega að því marki sem aðstæður leyfa.
Nútímafordæmi
18, 19. Hvaða gott fordæmi hafa bræður í efnaminni löndum sýnt varðandi samkomur og mót?
18 Í hinum efnaminni löndum heims eru margir bræðra okkar og systra til fyrirmyndar í því að meta kristnar samkomur mikils. Í Mósambík tók það umdæmishirðinn Orlando og eiginkonu hans, Améliu, 45 klukkustundir að ganga um 90 kílómetra leið yfir hátt fjall til að taka þátt í svæðismóti. Síðan urðu þau að ganga sömu leið til baka til að þjóna á næsta móti. Orlando segir hæverskur í bragði: „Okkur fannst við ekki hafa gert neitt í samanburði við bræður okkar úr Bawa-söfnuðinum. Það tók þá sex daga að komast til mótsins og heim aftur fótgangandi um 400 kílómetra leið, og einn bræðranna var sextugur!“
19 Hvað um það að kunna að meta hinar vikulegu samkomur safnaðarins? Kashwashwa Njamba er veikbyggð systir á áttræðisaldri. Hún býr í Kaisososi sem er lítið þorp um fimm kílómetra frá ríkissalnum í Rundu í Namibíu. Til að sækja samkomur gengur hún 10 kílómetra fram og til baka um kjarrlendi. Aðrir hafa verið rændir á þessari leið en Kashwashwa heldur áfram að sækja samkomur. Flestar samkomurnar eru haldnar á málum sem hún skilur ekki. Hvaða gagn hefur hún þá af því að vera þar? „Ég fylgist með ritningarstöðunum,“ segir hún, „og reyni að finna út hvert umræðuefnið sé.“ En hvernig fylgist hún með ritningarstöðunum úr því að hún er ólæs? „Ég hlusta eftir ritningarstöðum sem ég kann utanbókar,“ svarar hún. Og á löngu árabili hefur hún safnað töluverðum sjóði ritningarstaða í minni sér. Til að geta notað Biblíuna betur sækir hún kennslu í lestri og skrift sem söfnuðurinn stendur fyrir. „Ég hef yndi af samkomunum,“ segir hún. „Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Ég nýt þess að vera með bræðrum og systrum. Jafnvel þótt ég geti ekki talað við þau öll koma þau alltaf til mín og heilsa mér. Og það sem mestu máli skiptir er að ég veit að ég er að gleðja hjarta Jehóva með því að sækja samkomurnar.“
20. Af hverju megum við ekki vanrækja safnaðarsamkomur?
20 Milljónir tilbiðjenda Jehóva um heim allan sýna að þeir kunna að meta kristnar samkomur eins og Kashwashwa. Heimur Satans stefnir hraðbyri til eyðingar og við getum ekki leyft okkur að vanrækja safnaðarsamkomurnar. Höldum okkur heldur andlega vakandi og sýnum að við kunnum vel að meta samkomurnar og mótin. Bæði gleður það hjarta Jehóva og er okkur til mikils gagns er við njótum kennslu hans sem leiðir til eilífs lífs. — Orðskviðirnir 27:11; Jesaja 48:17, 18; Markús 13:35-37.
Upprifjunarspurningar
◻ Af hverju eru það sérréttindi að sækja kristnar samkomur?
◻ Hvernig geta allir viðstaddir stuðlað að uppbyggjandi samkomu?
◻ Hvaða afbragðsfordæmi gaf Jesús Kristur?
◻ Hvaða lærdóm getum við dregið af bræðrum í efnaminni löndum?
[Mynd á blaðsíðu 31]
Vottar eins og þessir í Rúmeníu eru til fyrirmyndar í því að meta kristnar samkomur mikils.