Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g94 8.4. bls. 29-30
  • Horft á heiminn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Horft á heiminn
  • Vaknið! – 1994
  • Millifyrirsagnir
  • Samband foreldra við ófætt barn
  • Alnæmi á Fílabeinsströndinni
  • Hávaðatjón
  • Hverjir eiga flest börn?
  • Biblíuborg fundin
  • Ofbeldisleikir
  • Messuvín til annarra nota
  • Ódýr orka
  • Banvænar menjar síðari heimsstyrjaldarinnar
  • Stríðar reykingar
  • Söfn í hættu
  • Kirkja tryggir sig gegn skaðabótakröfum
Vaknið! – 1994
g94 8.4. bls. 29-30

Horft á heiminn

Samband foreldra við ófætt barn

Er ástæða til að tala við ófætt barn sem er enn í móðurkviði? Svissneski barnasálfræðingurinn Bertrand Cramer segir í brasilíska tímaritinu Veja: „Samræður af þessu tagi leyfa foreldrum, einkum móðurinni, að mynda fyrstu tengsl við barnið fyrir fæðingu.“ Þótt enn sé ekki að fullu vitað hvernig barnið túlkar slíkt tal „er eitt víst: minnið er þegar tekið til starfa sem er einstakt,“ að sögn Cramers. Þar eð barnið fylgist vandlega með svipbrigðum foreldra sinna hafa „allir smáviðburðir í lífinu gríðarmikla þýðingu strax fyrstu dagana“ eftir fæðingu að sögn Cramers. En hann aðvarar: „Í stað þess að ætla sér að eignast fullkomin börn ættu foreldrar að forðast slæmt samband við börnin sem getur valdið geðklofa og þunglyndi á fullorðinsárunum. Það er nóg að láta sig dreyma um eðlileg börn — ekki væntanlega nóbelsverðlaunahafa.“

Alnæmi á Fílabeinsströndinni

Óvíða eru hlutfallslega jafnmargir sýktir alnæmisveirunni og á Fílabeinsströndinni í Vestur-Afríku. Af hinum nærri 13 milljónum landsmanna gengur að minnsta kosti 1 af hverjum 10 fullorðinna með veiruna. Læknar segja að alnæmi sé nú þegar algengasta dánarorsök ungs, fullvaxta fólks í höfuðborginni Abidjan, og að plágan hafi teygt sig út til nálega allra landshluta. Franska stjórnin kveðst ætla að veita meiri fjárstuðning við baráttuna gegn alnæmi á Fílabeinsströndinni. Franskir læknar og ráðherrar segja hins vegar að hinn alþjóðlegi lyfjaiðnaður hafi lagt mjög lítið af mörkum til að hjálpa þróunarlöndunum í baráttunni gegn alnæmi. Franska dagblaðið Le Monde segir að verðlagningarstefna lyfjaframleiðenda hafi gert nauðsynlega lyfjameðferð gegn veirunni nánast ofviða Afríkubúum.

Hávaðatjón

Einn af hverjum fjórum unglingum í Frakklandi, sem hlusta reglulega á tónlist í heyrnartólum vasahljómflutningstækja, kann að hafa orðið fyrir heyrnarskaða að sögn Parísartímaritsins Le Point. Hávær tónlist er sökudólgurinn. Yfir tveir þriðju unglinga í Frakklandi eiga vasahljómflutningstæki. Mörg þessara tækja geta skilað á bilinu 100 til 110 desíbela hljóðstyrk beint inn í eyrnagöngin. Læknar segja að ekki skuli hlusta lengur en í 40 mínútur samfleytt við 100 desíbel og aðeins í fimm mínútur við 110 desíbel til að forðast varanlegan heyrnarskaða! Margir unglingar viðurkenna hins vegar að þeir séu oft með heyrnartólin á sér í meira en fimm stundir á dag. Í ljósi þess að skert heyrn færist sífellt í vöxt meðal unglinga mælir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin með að hámarkshljóðstyrkur vasahljómflutningstækja verði stilltur á 90 desíbel.

Hverjir eiga flest börn?

Hver er frjósamasta þjóð í heimi? Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum er Rúanda í fyrsta sæti þar sem konur á barneignaraldri fæða að meðaltali 8,5 börn hver. Næst kemur Malaví með 7,6 börn, þá Fílabeinsströndin með 7,4 og Úganda með 7,3. Heimsmeðaltalið er 3,3 börn en í hinum þróuðu ríkjum er það 1,9. Það kemur á óvart að lægsta fæðingartíðni í heimi, aðeins 1,3 börn fyrir hverja konu á barneignaraldri, er á Ítalíu þar sem frjósemi var áður mikil. Það er liðin tíð að ítölsk hjón eigi þrjú, fjögur eða fleiri börn. Það er greinilega líka liðin tíð að Ítalir fylgi fyrirmælum kaþólsku kirkjunnar um getnaðarvarnir.

Biblíuborg fundin

Franska dagblaðið Le Figaro skýrir frá því að hópur japanskra fornleifafræðinga hafi grafið upp rústir eins af hinum fimm fornu bæjum biblíusögunnar sem nefndur var Afek. Um áraraðir hafa fræðimenn árangurslaust reynt að tengja stæði þessa forna bæjar nútímaþorpinu Afriq eða Fiq sem liggur um 5 kílómetra austur af Galíleuvatni. En fornleifafræðingurinn Hiroshi Kanaseki álítur að hluti ævaforns múrs, sem fannst við ʽEn Gev á strönd Galíleuvatns, sanni að þar hafi þessi sérstaki bær biblíusögunnar, Afek, staðið einu sinni. Hann er nefndur í Biblíunni í 1. Konungabók 20:26 þar sem ísraelskur her undir stjórn Akabs konungs sigraði Benhadad annan Sýrlandskonung.

Ofbeldisleikir

Ný kynslóð ofbeldisfullra sjónvarps- og tölvuleikja er að ná gífurlegum vinsældum meðal unglinga nú á dögum. Að sögn tímaritsins Entertainment Weekly er í einum leiknum atriði þar sem „gripið er fyrir kverkar fáklæddrar konu í þeim tilgangi að draga úr henni blóðið og gera vín úr því.“ Í öðrum leik „berja leikendurnir fólk til óbóta í götubardagakeppni sem teygir sig um heim allan,“ að sögn blaðsins Daily News í New York. Þriðja leiknum er lýst þannig í Daily News að hann sé „óhugnanlegur.“ Dagblaðið heldur áfram: „Þegar líkami verður fyrir höggi spýtist út blóð; þegar vondi kallinn vinnur á hann til að afhöfða hetjuna og stundum heldur hann höfðinu á lofti sigri hrósandi með mænuna hangandi niður úr því. Aðrir þátttakendur, sem tapa, mega búast við staurfestingu eða íkveikju.“

Messuvín til annarra nota

Í ljós hefur komið að þótt seldar séu um 10.000.000 lítra af víni á ári til nota við messur á Ítalíu svarar „heilög neysla“ aðeins til um 1.000.000 lítra. Hvað verður um afganginn? Að sögn sérfræðings „gæti hinn hefðbundni laumusopi altarisdrengsins og skrúðhúsvarðarins tvöfaldað töluna.“ „Sannleikurinn er sá,“ segir Corriere della Sera, „að drykkjan tífaldast við matarborð biskupa, preláta og presta.“

Ódýr orka

Dráttarvélin hefur valdið byltingu í landbúnaði og auðvitað hefur hún orðið véla- og olíuiðnaðinum til góðs. En dráttardýr eru enn vinsæl. Tímaritið Farmer’s Weekly greinir frá einu stærsta sítrusræktarbúi heims í grennd við borgina Potgietersrust í Suður-Afríku sem ræktar sín eigin múldýr til flutninga. Enga sérþekkingu þarf til að halda burðardýrunum við og þau þurfa ekki heldur dýra, innflutta varahluti og eldsneyti. „Það er hægt að ala þau á afgangsuppskeru og beita þeim á tiltækt land,“ segir Farmer’s Weekly. Tímaritið segir að það ætti að nota dráttar- og burðardýr í „langtum meiri mæli í verkfræði, byggingarstarfsemi og við gerð og viðhald vega til sveita í Afríku en nú er gert.“

Banvænar menjar síðari heimsstyrjaldarinnar

Næstum 50 árum eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar er enn að finna banvænar menjar stríðsins í Hamborg í Þýskalandi. Dablaðið Süddeutsche Zeitung segir að á tólf mánaða tímabili fram til júlí 1993 hafi hinir 23 meðlimir vopnaeyðingardeildar borgarinnar eytt ríflega 500 sprengjum, 2440 sprengikúlum, 97 handsprengjum, 24 sprengjuvörpum, 4 skriðdrekavarnarsprengjum og 149 kílógrömmum af lausu sprengiefni úr jörð og vatni í Hamborg. Talið er að enn séu einar 2000 sprengjur í jarðvegsgrunni borgarinnar. „Þær eiga eftir að halda tveim kynslóðum í viðbót uppteknum,“ sagði dagblaðið.

Stríðar reykingar

Vegna stríðsins er fátt um mat og aðrar nauðsynjavörur í Bosníu og Hersegóvínu. En í borginni Sarajevo var sígarettuverksmiðja fær um að halda framleiðslunni gangandi jafnvel eftir nokkurra mánaða umsátur. Að sögn The New York Times kvarta margir frekar undan skorti á sígarettum en skorti á mat, vatni eða skotfærum í þessu stríðshrjáða landi. Fólk hefur verið fúst til að greiða á bilinu 350 til 3500 krónur fyrir sígarettupakka. Dagblaðið sagði að hver sá sem „reyndi að framfylgja reykingabanni í veitingahúsum, skrifstofum eða á nokkrum öðrum stað mætti vera viss um að þurfa að horfa upp í opið byssuhlaup.“

Söfn í hættu

Eru söfn í útrýmingarhættu? Á Ítalu, landi sem býr að einhverjum mesta menningararfi í heimi, hverfur sem samsvarar heilu listasafni á hverju ári. „Verðmætasta safnið á Ítalíu er ekki til sýnis,“ segir dagblaðið Il Messaggero. Árið 1992 var stolið næstum 35.000 listaverkum að verðmæti yfir 200 milljarðar líra (um 8,6 milljarðar ÍSK) — af söfnum, úr kirkjum, opinberum stofnunum og einkastofnunum og af einkaheimilum. Aðeins 1971 listaverk fannst aftur. Áætlað er að á árabilinu 1970 til 1992 hafi horfið að meðaltali 30.000 listaverk á ári — sem er algert neyðarástand að sögn yfirvalda. Og hvað verður um alla þessa stolnu dýrgripi? Sagt er að margir endi í fylgsnum fíkniefnasala og glæpaforingja.

Kirkja tryggir sig gegn skaðabótakröfum

„Kaþólska kirkjan í Ástralíu hefur keypt sér himinháa tryggingu fyrir kröfum um kynferðislega misnotkun af hálfu presta,“ að sögn dagblaðsins The Sunday Telegraph í Sydney í New South Wales. „Við viðurkennum að kynferðisleg misnotkun á sér stað,“ sagði kaþólskur biskup í Melbourne. Hann fullyrðir að svona viðamikil trygging sé eðlileg „vegna brota af þessu tagi.“ Að sögn stuðningshóps fórnarlamba er kynferðisleg misnotkun af hálfu presta útbreiddari en kirkjan viðurkennir. Talsmaður hópsins segist telja að athygli kirkjunnar beinist meira að því að vernda presta en hjálpa fórnarlömbunum. Hann bætti við að inntak boðskaparins „í tryggingaskjölum kirkjunnar sé það að segja ekki sannleikann.“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila