Agi veitir friðsælan ávöxt
„Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.“ — HEBREABRÉFIÐ 12:11.
1. (a) Hvað segir orð Jehóva um hæfni mannsins til að ráða stefnu sinni en hvað segir maðurinn? (b) Hver hefur reynst sannorður í þessu máli?
ORÐ JEHÓVA segir að það sé ekki „á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Maðurinn segir að það sé á hans valdi og alla tíð frá uppreisninni í Eden hefur hann gert það. Síðan þá hefur það verið hjá mörgum eins og var á dögum dómaranna í Ísrael: „Hver maður gjörði það, sem honum vel líkaði.“ (Dómarabókin 21:25) En orð Jehóva í Orðskviðunum 14:12 hafa reynst sönn: „Margur vegurinn virðist greiðfær, en endar þó á helslóðum.“ Í sex þúsund ár hafa menn gengið þann veg, sem þeim hefur sýnst réttur, og einatt hefur það leitt til styrjalda, hungursneyðar, sjúkdóma, glæpa og dauða. Mannkynssagan hefur sannað að orð Jehóva eru áreiðanleg en orð manna röng.
2. Hver er afstaða barnasálfræðinga til flenginga, en hvaða ávöxt hefur undanlátsemi þeirra gefið?
2 Ófullkomnir menn þarfnast aga. Þeir þarfnast hans allt frá bernsku. Orð Guðs segir: „Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn, en sá sem elskar hann, agar hann snemma.“ (Orðskviðirnir 13:24) Margir barnasálfræðingar andmæla þessari visku Guðs. Fyrir mörgum árum spurði einn: „Gerið þið mæður ykkur grein fyrir að í hvert sinn sem þið flengið barn ykkar eruð þið að sýna að þið hatið það?“ Undanlátsemi þeirra hefur hins vegar leitt yfir heiminn slíkt syndaflóð unglingaafbrota að dómari í Brooklyn í New York mælti þessi döpru orð: „Ég held að sumt ungt fólk þurfi á því að halda að við tökum vöndinn fram á ný. En það er ekki í tísku núna. Nú er okkur sagt að við megum ekki flengja barn; þá gætum við verið að hefta vöxt einhvers stórsnillings.“ En undanlátsemi þeirra hefur ekki gefið af sér neina stórsnillinga — einungis flóðbylgju ungra afbrotamanna.
3. Úr hvaða átt er vindurinn farinn að blása núna, samanber orð ýmissa sérfræðinga?
3 Nú er vindurinn aftur farinn að blása úr annarri átt. Burton L. White, sérfræðingur um vöxt og þroska barna, segir að strangt uppeldi komi barninu ekki til að „elska foreldrana minna en ef þeir eru eftirlátsamir. . . . Jafnvel þótt foreldrar flengi það reglubundið kemur það aftur og aftur til þeirra.“ Hann leggur áherslu á frumþörf barnsins fyrir ríkulegan, „fáránlegan kærleika.“ Dr. Joyce Brothers hefur gert athuganir á hundruðum barna í fimmta og sjötta bekk sem hafa fengið strangan aga. Þau voru þeirrar skoðunar að strangar reglur væru „merki um kærleika foreldranna.“ Tímaritið Journal of Lifetime Living segir: „Barnasálfræðingar, sem karpa um ágæti fastra matmálstíma eða mötunar eftir þörfum, flenginga eða ekki flenginga, hafa komist að raun um að ekkert af þessu skiptir meginmáli svo lengi sem barnið er elskað.“ Meira að segja dr. Benjamin Spock, höfundur Bókarinnar um barnið, tók að hluta til á sig sökina á festuleysi foreldra og þeim unglingaafbrotum sem af því leiddi. Hann sagði að sökin hvíldi á sérfræðingunum, „barnageðlæknum, sálfræðingum, kennurum, félagsráðgjöfum og barnalæknum eins og mér.“
Vöndur agans
4. Um hvað er vöndur agans tákn og hverju ber það vitni ef foreldrarnir nota hann í stað þess að vera undanlátsamir?
4 „Vöndur“ þarf ekki í þessu samhengi að merkja flengingu, heldur merkir hann aðferð til leiðréttingar í hvaða mynd sem er. Biblíuþýðingin The New International Version segir um þetta vers: „Vöndur. Sennilega líkingamál um hvers kyns aga.“ Vöndur er hér tákn yfirvalds, í þessu tilviki yfirvalds foreldranna. Foreldrar fá einungis vanþakklæti að launum fyrir undanlátsemi og eftirlæti: „Dekri maður við þjón sinn [eða barn] frá barnæsku verður hann vanþakklátur síðar á ævinni.“ (Orðskviðirnir 29:21, NW) Að beinlínis afsala sé foreldravaldinu með undanlátsemi er ekki merki kærleika heldur skeytingarleysis og hefur þær afleiðingar að verða foreldrunum til smánar. Ef foreldrarnir beita vendi agans af festu en kærleika ber það vott um umhyggju þeirra fyrir börnunum. „Vöndur og umvöndun veita speki, en agalaus sveinn gjörir móður sinni skömm.“ — Orðskviðirnir 29:15.
5. (a) Hvað segir orðskýringarit um Orðskviðina 13:24 og hvaða önnur ritningargrein tekur undir það? (b) Hverjir hljóta aga frá Jesú og Jehóva?
5 Orðskýringaritið Commentary on the Old Testament eftir Keil-Delitzsch segir til skýringar á Orðskviðunum 13:24: „Faðir sem vill syni sínum vel veitir honum snemma strangan aga, til að marka honum rétta stefnu meðan hann enn er nógu ungur til að hægt sé að hafa áhrif á hann og til að fyrirbyggja að nokkur villa fái fest rætur í honum. Sá sem er eftirlátur við barn sitt þegar hann ætti að vera strangur hegðar sér eins og hann vilji í raun steypa því í ógæfu.“ Þýðing Moffats, New Translation of the Bible, kemst svo að orði í Orðskviðunum 19:18: „Agaðu son þinn meðan enn er von um hann og láttu hann ekki hlaupa út í tortímingu.“ Kærleiksríkur en ákveðinn agi allt frá því snemma í barnæsku endurspeglar kærleika foreldranna til barnsins. Jesús sagði: „Alla þá, sem ég elska, tyfta ég og aga.“ Og „[Jehóva] agar þann, sem hann elskar.“ — Opinberunarbókin 3:19; Hebreabréfið 12:6.
6. Í hvaða mynd birtist aginn oft og hvaða dæmi getur þú nefnt til stuðnings svari þínu?
6 Agi getur stundum falið í sér flengingu en oft er hennar ekki þörf. Orðskviðirnir 8:33 tala ekki um að ‚finna fyrir aga‘ heldur: „Hlýðið á aga, svo að þér verðið vitrir.“ Oft birtist aginn í orðum, ekki flengingu: „Agandi áminningar [eru] leið til lífsins.“ „Varðveittu hann [agann], því að hann er líf þitt.“ (Orðskviðirnir 4:13; 6:23) Þegar þjónn Guðs, Job, þurfti að fá aga birtist hann í áminningarorðum, fyrst frá Elíhú og síðan frá Jehóva sjálfum. (Jobsbók 32.-41. kafli) Job tók á móti áminningunni og sagði við Jehóva: „Fyrir því tek ég orð mín aftur og iðrast í dufti og ösku.“ — Jobsbók 42:6.
7. Hvað merkir gríska orðið sem þýtt er „agi,“ hvernig ber að veita hann og hverju áorkar hann?
7 Það er gríska orðið paideia sem þýtt er „agi.“ Í sínum ýmsu myndum merkir það að þjálfa, aga, mennta, að ‚aga hógværlega.‘ (2. Tímóteusarbréf 2:25) Það tengist meira uppfræðslu í hegðun en þekkingaröflun. Þessa ögun á að veita „með öllu langlyndi og fræðslu.“ (2. Tímóteusarbréf 4:2) Gott dæmi um þetta er að finna í þeirri áminningu sem feðrum er veitt í Efesusbréfinu 6:4: „Og þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ Með vingjarnleika en festu á þessi agi að samstilla börn og unglinga hugsunarhætti Jehóva.
Hvaðan aginn kemur
8. Hvað hjálpar okkur að iðka sjálfsaga og hvaða leiðir getum við farið til þess?
8 Meginreglurnar um ögun barna eiga einnig við um fullorðna. Biblían segir okkur hvernig við eigum að vera og hvernig ekki. Þegar við lesum hana getum við prófað okkur og leiðrétt þar sem þörf gerist. (2. Korintubréf 13:5) Þegar við ígrundum boð Jehóva getur vaknað með okkur sektarkennd sem hjálpar okkur að koma auga á breytingar sem við þurfum að gera. Sú var reynsla sálmaritarans. „Ég lofa [Jehóva], er mér hefir ráð gefið, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.“ (Sálmur 16:7) Við getum agað okkur eins og Páll gerði: „Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum, til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur verða gjörður rækur.“ — 1. Korintubréf 9:27.
9. Á hvaða aðra vegu er hægt að veita gagnlegan aga?
9 Aginn getur líka komið frá öðrum. Hann getur komið sem augnatillit, vanþóknunarsvipur, orð, látbragð eða munnleg áminning. Jesús renndi augunum til Péturs sem minnti hann á spána um alvarlega synd hans, og hann gekk út og grét beisklega. (Lúkas 22:61, 62) Öðru sinni fékk Pétur ávítur í fjórum orðum: „Vík frá mér, Satan.“ (Matteus 16:23) Það að lesa rit Varðturnsfélagsins, sækja samkomur, tala við aðra, verða fyrir erfiðri lífsreynslu — allt slíkt getur opnað augu okkar fyrir einhverju sem við þurfum að breyta í fari okkar. En framar öllu öðru er það orð Guðs sem getur agað okkur og leiðbeint. — Sálmur 119:105.
10. Hvaða ögunargildi hafa orðskviðir Salómons en hvað vilja sumir eigi að síður?
10 Orðskviðir Salómons voru ætlaðir öllum aldurshópum „til þess að menn kynnist visku og aga, læri að skilja skynsamleg orð, til þess að menn fái viturlegan aga, réttlæti, réttvísi og ráðvendni, til þess að þeir veiti hinum óreyndu hyggindi, unglingunum þekking og aðgætni.“ En sumir verða kannski ‚eigi agaðir með orðum, því að þeir skilja þau að vísu en fara ekki eftir þeim.‘ (Orðskviðirnir 1:2-4; 29:19) Sumir heimta að fá að læra sína lexíu í „skóla lífsins“ eins og glataði sonurinn gerði áður en hann „kom . . . til sjálfs sín.“ — Lúkas 15:11-17.
11. (a) Hvernig var söfnuðinum í Korintu og Jónasi veittur agi? (b) Hvaða ögun og refsingu hlaut Davíð fyrir hjúskaparbrot sitt og tilraunir til að breiða yfir það? (c) Hvaða orð Davíðs í Sálmi 51 lýsa því hve djúpt iðrun hans risti?
11 Í athugasemdum um bréf, sem Páll hafði áður skrifað kristna söfnuðinum í Korintu, sagði hann: „Þér urðuð hryggir til iðrunar. Þér urðuð hryggir Guði að skapi.“ Og það varð til þess að þeir leiðréttu hið ranga. (2. Korintubréf 7:9-11) Stormur og stórfiskur voru notaðir til að aga Jónas. (Jónas 1:2, 3, 12, 17; 2:10; 3:1-4) Davíð var refsað fyrir hjúskaparbrot sitt og tilraunir til að breiða yfir það, eins og fram kemur í 2. Samúelsbók 12:9-14. Iðrun hans birtist í þessum áhrifamiklu orðum í 51. Sálminum: „Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni, . . . synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum. . . . Afmá allar misgjörðir mínar. Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda. Varpa mér ekki burt frá augliti þínu . . . Sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.“ — Vers 4, 5, 11-13, 19.
12. Hvað er nauðsynlegt í sumum tilvikum og hvernig fer fyrir þeim sem hafna endurteknum áminningum?
12 Gagnvart sumum þarf að grípa til enn róttækari aðgerða eins og Orðskviðirnir 26:3 gefa til kynna: „Svipan hæfir hestinum og taumurinn asnanum — en vöndurinn baki heimskingjanna.“ Stundum lét Jehóva Ísraelsþjóðina kikna undan þeim erfiðleikum sem hún leiddi yfir sig: „Þeir höfðu þrjóskast við orðum Guðs og fyrirlitið ráð Hins hæsta, svo að hann beygði hug þeirra með mæðu, þeir hrösuðu, og enginn liðsinnti þeim. Þá hrópuðu þeir til [Jehóva] í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra.“ (Sálmur 107:11-13) En sumir eru nógu heimskir til að forherða sig svo að enginn læknandi agi nái til þeirra: „Sá sem oftlega hefir ávítaður verið, en þverskallast þó, mun skyndilega knosaður verða, og engin lækning fást.“ — Orðskviðirnir 29:1.
Að veita og þiggja áminningu
13. Hvað ber að forðast þegar við veitum áminningu og hvernig ber að veita hana?
13 Óháð því hvers kyns aga þarf að veita má aldrei gera það í reiði. Reiði „vekur deilur“ í stað þess að hjálpa. Okkur er einnig sagt: „Sá sem er seinn til reiði, er ríkur að skynsemd, en hinn bráðlyndi sýnir mikla fíflsku.“ Enn fremur segir: „Hyggni mannsins gjörir hann seinan til reiði, og það er honum til frægðar að ganga fram hjá mótgjörðum.“ (Orðskviðirnir 29:22; 14:29; 19:11) Agi ætti aldrei að ganga fram úr réttu hófi. Þegar þörf er fyrir aga ber að veita hann á réttri stundu og í réttum mæli — ekki of fljótt, ekki of seint, ekki of mikið, ekki of lítið.
14. Hvaða aðrar leiðbeiningar eru gefnar þeim sem þurfa að áminna aðra?
14 Hér fara á eftir nokkrar leiðbeiningar handa þeim sem veita aga: „Ávíta þú ekki aldraðan mann harðlega, heldur áminn hann sem föður, yngri menn sem bræður, aldraðar konur sem mæður, ungar konur sem systur í öllum hreinleika.“ (1. Tímóteusarbréf 5:1, 2) Ef þú þarft að veita öðrum aga, höfðar þú þá til þeirra í stað þess að hafa í hótunum? „Bræður! Ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð. Og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka.“ (Galatabréfið 6:1) Leiðbeinum við öðrum mildilega, með í huga ágalla og veikleika sjálfra okkar? „Vertu við aðra eins og þú vilt að þeir séu við þig.“ (Matteus 7:12, Lifandi orð) Setur þú þig í spor hins, sýnir þú honum samkennd?
15. Hvað þarf sá sem áminntur er að sýna og hvaða ráð eiga erindi til hans?
15 Það kostar auðmýkt að taka við áminningu. Finnst þér áminningin ósanngjörn eða ranglát? Vertu ekki hvatvís í dómi. Hugleiddu hana. Vertu ekki neikvæður. Hugsaðu jákvætt um hana. Ef hún virðist ekki eiga við þig að öllu leyti skalt þú íhuga það sem á við þig. Opnaðu huga þinn og vertu móttækilegur; yfirvegaðu hana málefnalega. Ert þú einum of viðkvæmur, fljótur til að móðgast? Það getur tekið tíma að sjá áminninguna í jákvæðu ljósi eftir að fyrstu sárindin eru hjá. Vertu því þolinmóður og gættu tungu þinnar. Hugleiddu með ró og skynsemi það sem sagt var. Getur hugsast að þú hafir fordóma gegn þeim sem gaf þér ráðin og þú hafnir þeim af þeim sökum? Ef svo er skalt þú hafa hugfast að áminningin er vel meint og skyldi ekki vísað fyrirvaralaust á bug.
16. (a) Hvaða ritningarstaði og spurningar ættum við að íhuga þegar við fáum leiðbeiningar? (b) Hvaða tilfinningum, sem sálmaritarinn lét í ljós, getum við kannski líkt eftir?
16 Hér fylgja nokkrar ritningargreinar sem þú ættir að hugleiða þegar þér er veitt áminning: „Fámálugur maður er hygginn, og geðrór maður er skynsamur.“ (Orðskviðirnir 17:27) Hlustar þú rólegur og gætir þess að æsa þig ekki upp? „Afglapanum finnst sinn vegur réttur, en vitur maður hlýðir á ráð.“ (Orðskviðirnir 12:15) Ert þú fljótur til að ákveða með þér að þú hafir á réttu að standa eða hlustar þú með opnum huga? „Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.“ (Jakobsbréfið 1:19) Fylgir þú þessum ráðum þegar þú þarft að fá áminningu? „Ver þú eigi fljótur til að láta þér gremjast, því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna.“ (Prédikarinn 7:9) Ert þú móðgunargjarn? Það er indælt ef við getum verið sama sinnis og sálmaritarinn: „Sá ráðvandi slái mig, það er elska; hann straffi mig, það er mér viðsmjör á höfði; mitt höfuð skal ei undan færast, þó hann slái aptur.“ — Sálmur 141:5, Ísl. bi. 1859.
Þoldu aga og uppskerðu friðsælan ávöxt
17. Hvers vegna er ekki alltaf auðvelt að þiggja aga, en hvernig geta orðin í Hebreabréfinu 12:7, 11 hjálpað okkur til þess?
17 Ekki er alltaf auðvelt að taka á móti aga. Okkur getur fundist það vandræðalegt fyrir okkur og einhverjar hömlur geta fylgt honum. Hann getur jafnvel valdið okkur hryggð. En sýndu úthald. Óþægindin líða hjá og þú endurheimtir gleði þína. Mundu þetta: „Þolið aga. Guð fer með yður eins og syni. Hver er sá sonur, sem faðirinn ekki agar? Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.“ — Hebreabréfið 12:7, 11.
18, 19. Hvaða sterkar tilfinningar báru bæði Jeremía og sálmaritarinn í brjósti sem sýna hvernig okkur ber að taka við aga?
18 Ef þér finnst erfitt að taka við aganum skalt þú bíða eftir hinum friðsæla ávexti sem fylgir í kjölfarið. Bíddu eftir Jehóva eins og Jeremía gerði: „Sál mín hugsar stöðugt um þetta og er döpur í brjósti mér. Þetta vil ég hugfesta, þess vegna vil ég vona.“ (Harmljóðin 3:20, 21) Mundu hvað sálmaritarinn sagði við sjálfan sig þegar hann var beygður: „Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.“ — Sálmur 42:6, 12; 43:5.
19 Þegar við hljótum aga skulum við öll bíða Guðs. Eftir að aginn hefur tamið okkur munum við uppskera friðsælan ávöxt, réttlæti.
Manst þú?
◻ Hvert er gildi þess að beita vendi agans?
◻ Hvaðan kemur aginn fyrst og fremst? Hvaðan er einnig hægt að fá aga?
◻ Hvað getur stundum verið nauðsynlegt auk þess að áminna með orðum?
◻ Hvað ber að hafa í huga þegar veita þarf áminningu?
◻ Hvaða ráð geta hjálpað okkur til að taka við áminningu?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Það er hyggilegt af þér að ‚hlýða á aga.‘
[Mynd á blaðsíðu 26]
Meginreglurnar um ögun barna eiga líka við fullorðna.