-
Hverjum er hægt að treysta á okkar óttalegu tímum?Varðturninn – 1988 | 1. ágúst
-
-
„Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.“ — SÁLMUR 146:3.
-
-
Hverjum er hægt að treysta á okkar óttalegu tímum?Varðturninn – 1988 | 1. ágúst
-
-
Dvínandi traust
3. Hvað bendir til að traust sé fágætt á okkar dögum?
3 Við höfum mjög brýna þörf fyrir að geta treyst einhverjum á þessum óttalegu tímum; við þörfnumst einhvers sem sýnir tryggð og hollustu og er reiðubúinn að hjálpa okkur á erfiðri stundu. En mörgum finnst þeir sem þeir treystu hafa brugðist sér. Dagblað í landi einu sagði: „Fólk treystir fæstum opinberum stofnunum.“ Allra síst treystu menn stjórnmálamönnum og kaupsýslumönnum. Vantraust hefur líka gripið um sig innan fjölskyldunnar eins og há tíðni hjónaskilnaða ber vitni. Í sumum löndum er einn hjónaskilnaður á móti hverjum þrem hjónavígslum eða jafnvel einn hjónaskilnaður á móti tveim hjónavígslum. Í einu landi endast 70 af hundraði hjónabanda skemur en tíu ár! Traust er því á hröðu undanhaldi fyrir vantrausti. Þess vegna er ekki lengur óvenjulegt að heyra menn segja: „Ég treysti engum framar.“
4. Hvaða áhrif hefur ótti á margt ungt fólk?
4 Vantraustið er svona mikið núna vegna þess að við lifum óttalegustu tíma allrar mannkynssögunnar. Á þessari öld hafa geysað tvær heimsstyrjaldir og tugir annarra styrjalda sem hafa kostað yfir hundrað milljónir manna lífið. Núna ógna kjarnorkuvopn öllu lífi á jörðinni. Og þetta hefur áhrif á trúnaðartraust jafnvel yngstu barnanna. Skýrsla í læknatímariti segir: „Æ fleiri börn, jafnvel smábörn, hræðast núna ógnun kjarnorkustyrjaldar.“ Kanadískt dagblað sagði margt ungt fólk vera haldið „tortryggni, hryggð, beiskju og vanmáttarkennd.“ Unglingur sagði: „Okkur finnst hinir fullorðnu ekki vernda okkur. Kannski verðum við tortryggnasta kynslóð sem lifað hefur.“
5. Hvað mundu þeir sem saklausastir eru og síst geta borið hönd fyrir höfuð sér segja ef þeir gætu talað?
5 Og hvað myndi annar hópur hinna yngstu segja — ef þeir gætu talað — um vernd hinna fullorðnu? Við erum að tala um þá sem drepnir eru fyrir fæðingu. Sumir ætla að um 55 milljónir fóstureyðinga séu gerðar ár hvert í heiminum. Sannarlega hefur mannkynið brugðist trausti þeirra allra saklausustu sem síst geta borið hönd fyrir höfuð sér!
6. Hvernig hafa glæpir aukið á vantraust okkar tíma?
6 Vantraust hefur aukist sökum annars ótta sem farið hefur vaxandi á okkar tímum: óttans við að verða fyrir barðinu á glæpamönnum. Margir fara að eins og konan sem sagðist sofa með skammbyssu undir koddanum. Önnur skelfd kona sagði: „Mér gremst það. . . . Amma læsti aldrei útidyrunum.“ Því sagði í ritstjórnargrein dagblaðs í Púertó Ríkó: „Það erum við sem erum fangar,“ já, fangar á læstum heimilum með rimla fyrir gluggum. Þessi ótti manna á sér ærið tilefni. Í Bandaríkjunum er til dæmis ætlað að ein kona af hverjum þrem megi búast við árás einu sinni á ævinni. Bandaríski landlæknirinn lét þess getið að „um fjórar milljónir Bandaríkjamanna verði fórnarlömb alvarlegs ofbeldis ár hvert — morðs, nauðgunar eða vopnaðs ráns, auk misþyrminga eiginkvenna og barna.“ Slíkir glæpir eru algengir í flestum löndum heims og spilla enn frekar trausti fólks til annarra.
7. Hvernig stuðla efnahagsörðugleikar að vantrausti?
7 Í hinum vanþróuðu ríkjum heims búa flestir við sárustu örbirgð. Fáir treysta nokkrum til að leysa sig úr henni. Forseti eins slíks lands sagði að í einu héraði dæju 270 börn af hverjum þúsund fyrir eins árs aldur. Aðeins eitt hús af hverjum hundrað hefur vatn. Stjórn annars ríkis sagði að 60 af hundraði barnanna væru nauðstödd og að nokkrar milljónir yfirgefinna barna „yxu upp ólæs og óskrifandi, sem óvinnufærir heimilisleysingjar, slitnir úr tengslum við þjóðfélagið.“ Ætlað er að í Bandaríkjunum sé hálf milljón heimilislausra barna en sumir segja að talan sé mun hærri. Hve mikið traust geta slík börn og unglingar borið til foreldra sinna, þjóðfélagsins, laga og reglna eða loforða leiðtoganna?
8. (a) Hvað ógnar stöðugleika hinna auðugu þjóða heims og efnahag veraldar í heild? (b) Að hvaða marki er hægt að treysta sérfræðingum til að leysa efnahagsvandamálin?
8 Jafnvel auðugustu ríki heims eru þjökuð af efnahagsvandamálum. Nýverið hafa bankagjaldþrot í Bandaríkjunum orðið fleiri en í kreppunni miklu á fjórða áratugnum. Hagfræðingur skrifaði: „Afleiðingarnar eru þær að bankakerfið er örugglega jafnbrothætt núna og það var á þriðja áratugnum,“ rétt áður en það hrundi. Einn komst svo að orði að ‚í nánd sé stormur sem geti valdið mikilli eyðileggingu‘ á hagkerfi heimsins. Annar sagði: „Sú tilfinning að brýn þörf sé skjótra aðgerða nær tökum á okkar, vegna þess að spennan í alþjóðakerfinu er ekki lengur yfirvofandi; hún er veruleiki.“ Er hægt að treysta hagfræðingum til að leiða þjóðirnar út úr þessum ógöngum? Einn þeirra sagði að það orðspor sem færi af hæfni þeirra til að spá fyrir um efnahagsþróunina væri „svo hrikalegt að þeir yllu vafalaust mestan part ringulreið.“
Bjartsýni sem á ekki rétt á sér
9. (a) Hvað er orðið um þá bjartsýni sem ríkti við síðustu aldamót? (b) Hvers vegna hefðu vottar Jehóva ekki viljað undirrita sáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1945?
9 Þetta er harla ólíkt hinni almennu bjartsýni og trausti sem ríkti við upphaf 20. aldar. Þá hafði verið friður um áratuga skeið og menn bjuggust við að friður og velmegun myndi ná nýjum hátindi. En árið 1914 gerði fyrri heimsstyrjöldin þá framtíðarsýn að engu. Árið 1945, eftir enn hræðilegri heimsstyrjöld, var stofnskrá Sameinuðu þjóðanna undirrituð. Þjóðirnar settu á blað hugsýn um heim þar sem tryggður yrði friður, velmegun og réttvísi. Í nýlegri frétt sagði: „Fimmtíu og eitt ríki undirritaði lokaskjalið, fulltrúar hvers meginlands, kynþáttar og trúarbragða.“ En eitt trúarsamfélag var ekki meðtalið og vildi það ekki, vottar Jehóva. Þeir vissu að þessi fyrirheit um frið, velsæld og réttvísi myndu ekki verða að veruleika hjá nokkurri þjóð þessa heims eða nokkrum samtökum þeirra, svo sem Sameinuðu þjóðunum.
10. Hver er veruleikinn núna í samanburði við hugsjón Sameinuðu þjóðanna árið 1945?
10 Í sömu frétt segir: ‚Fjörutíu árum síðar virðist við hæfi að bera saman veruleikann og hugsjónirnar. Niðurstaðan er ærið umhugsunarefni. Veruleikinn er ótryggari heimur og vaxandi ofbeldi. Þeim fjölgar stöðugt sem vantar fæðu, vatn, húsaskjól, heilsugæslu og menntun. Draumur ársins 1945 var ekki svona.‘ Síðan segir: ‚Fyrir 40 árum tóku þjóðirnar höndum saman til að tryggja að allir menn gætu verið lausir undan ótta og skorti. En veruleiki 9. áratugarins er sá að minnst fjórðungur mannkyns býr við lamandi fátækt. Dag hvern deyja að meðaltali 50.000 manns af völdum hungurs.‘ Þrátt fyrir það eyða þjóðir jarðar yfir 100 milljónum dollara (yfir 4 milljörðum króna) á klukkustund til hermála og stríðsrekstrar!
11. Hvaða traust er hægt að bera til loforða manna um betri heim?
11 Í ljósi þessa dapurlega árangurs eftir margra alda tækifæri, getum við þá treyst loforðum manna um að leysa þessi vandamál? Slík loforð eru jafntrúverðug og orð skipstjórans á stóru farþegaskipi sem sagði: „Ég get ekki ímyndað mér nokkrar þær aðstæður er myndu sökkva [stóru] skipi. . . . Skipasmíði hefur fleygt svo fram.“ Einn úr áhöfninni á skipi hans sagði við farþega: „Sjálfur Guð gæti ekki sökkt þessu skipi.“ En skipið sökk árið 1912 og 1500 manns fórust. Þetta var farþegaskipið Titanic. Árið 1931 létu menntasamtökin National Education Association í Bandaríkjunum þau orð falla að sökum menntunar myndu „glæpir verða nánast úr sögunni fyrir 1950.“ Og árið 1936 spáði breskur blaðamaður að árið 1960 yrði „matur, föt og húsaskjól orðið jafnódýrt og loftið.“ Ert þú ekki sammála því að veruleikinn sé æði ólíkur þessum loforðum?
-