Ert þú ánægður með andlegar ráðstafanir Jehóva?
„Reynið mig einu sinni á þennan hátt — segir [Jehóva] allsherjar —, hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum himinsins og úthelli yfir yður yfirgnæfanlegri blessun.“ — MALAKÍ 3:10.
1. Hvað láta flestar lifandi verur sér nægja?
EF ÞÚ hættir að anda að þér lofti myndir þú deyja á fáeinum mínútum. Ef þú hættir að drekka vatn myndir þú deyja á fáeinum dögum. Ef þú hættir að neyta matar myndir þú deyja á fáeinum vikum. Ef þú hættir að nærast á andlegri fæðu frá Jehóva munt þú deyja eilífum dauða þegar þú deyrð. Jehóva sér fyrir loftinu, vatninu og fæðunni sem allar lifandi verur þurfa. Því segir sálmaritarinn um Jehóva: „Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ (Sálmur 145:16) Löngunum flestra lifandi vera er fullnægt með því að gefa þeim það sem líkaminn þarfnast. En um mennina gegnir öðru máli.
2. Hvað þráir mannshjartað og hvað er nauðsynlegt til að þeirri þrá sé fullnægt?
2 Jesús vakti athygli á því þegar hann sagði: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.“ (Matteus 4:4) Hinar óæðri sköpunarverur bera ekkert skynbragð á eilífðina, en það gerir maðurinn eins og Prédikarinn 3:11 segir: „Jafnvel eilífðina hefir hann lagt í brjóst þeirra.“ Maðurinn þráir því í hjarta sér að lifa eilíflega. Til þess nægir honum ekki loft, vatn og brauð eitt saman. Til að lifa eilíflega þarf hann að fá andlega fæðu sem byggist á „hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.“ Núna er þessi orð að finna í einni bók, Biblíunni, og þau eru óþrjótandi — allt sem þú þarft, meira en þú getur meðtekið. Þetta forðabúr er aldrei tómt.
3. Hvað sagði Jesús vera langmikilvægast og hvaða leyndardóm lærði Páll?
3 Jesús kenndi okkur að biðja um efnislegu fæðuna sem við þurfum: „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“ En skömmu síðar lagði hann enn meiri áherslu á hin andlegu mál þegar hann sagði: „En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis.“ (Matteus 6:11, 33) Efnislega fæðan heldur í okkur lífinu einn dag í senn, en stöðugt andlegt næringarnám getur gert það heila mannsævi, jafnvel að eilífu. Vertu því ekki áhyggjufullur út af efnislegum hlutum. Páll var það ekki. Hann talaði um hin andlegu bjargráð sem gerðu honum fært að vera nægjusamur, óháð efnislegum aðstæðum. Hann sagði: „Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ — Filippíbréfið 4:12, 13.
Ógæfan eltir þá sem eru óánægðir
4. Hvað nægði fyrstu mannlegu hjónunum ekki? Hvað meira vildu þau?
4 Margir gera sig hins vegar ekki ánægða með ráðstafanir Jehóva. Svo var um okkar fyrstu foreldra. Þau bjuggu í paradísargarði þar sem fagurt útsýni gladdi augu þeirra, angan blómanna lá í loftinu sem þau önduðu að sér, ljúffeng fæða gladdi bragðlaukana og söngur fuglanna ómaði í eyrum þeirra. Auk þess höfðu þau það áhugaverða verkefni að annast þennan garð, að viðbættri þeirri blessun að fylla jörðina fullkomnum afkvæmum sínum. En þau voru eigingjörn. Þeim nægði ekki það sem Guð hafði gefið. Þau vildu fá meira. Þau vildu ákveða sjálf hvað væri rétt og hvað væri rangt. Þau tóku sér það ákvörðunarvald og fyrsta ákvörðun þeirra hafði hörmulegar afleiðingar, því að þau misstu allt, bæði þau sjálf og afkomendur þeirra. — 1. Mósebók 3:1-7, 16-19.
5. Hvernig blessaði Jehóva Ísraelsmenn og hvernig brugðust þeir við?
5 Ísraelsmenn líktu eftir vondu fordæmi þeirra. Guð frelsaði þá úr þrælkun í Egyptalandi, gerði þá að þjóð, gaf þeim fullkomið lögmál, leiddi þá í eyðimörkinni, sá þeim fyrir klæðnaði sem ekki slitnaði og viðhélt lífi þeirra með undraverðum hætti með manna, sem féll niður af himni, og vatni sem spratt fram af kletti. En þeir voru ekki ánægðir með ráðstafanir Jehóva. (1. Korintubréf 10:1-5) Á ferð sinni um eyðimörkina kvörtuðu þeir og mögluðu aftur og aftur. — 2. Mósebók 13:21, 22; 4. Mósebók 11:1-6; 5. Mósebók 29:5.
6. Hvaða stefna leiddi tortímingu yfir Ísraelsmenn sem þjóð?
6 Enn mögluðu þeir eftir að þeir voru komnir inn í fyrirheitna landið — frjósamt vatnsauðugt land sem ‚flaut í mjólk og hunangi.‘ Enn voru þeir vanþakklátir, enn voru þeir óánægðir með ráðstafanir Jehóva, hættu að tilbiðja hann, sneru sér til skurðgoða- og kynlífsdýrkunar, fórnuðu Mólok börnum sínum og leiddu tortímingu yfir sig sem þjóð. Heimkomnir úr fjötrum í Babýlon fylgdu þeir erfðavenjum sem ónýttu orð Guðs. Á endanum drápu þeir hinn fyrirheitna Messías, Krist Jesú. — 5. Mósebók 6:3; 8:7-9; Dómarabókin 10:6; 1. Konungabók 14:22-24; 2. Konungabók 21:1-16; Jesaja 24:1-6; Matteus 15:3-9; 27:17-26.
7. Hvernig hafa klerkar kristna heimsins tekið svipaða stefnu og ótrúir prestar á dögum Malakís?
7 Fram til þessa dags hefur mannkynið í heild tekið falskar trúarkreddur fram yfir sannleikann. Klerkastéttin fyrirlítur nafn Jehóva og notar það ekki einu sinni. Hún vanheiðrar hann með óbiblíulegum kenningu um þrenningu, ódauðleika sálarinnar og eilífar kvalir í vítiseldi. Kennisetningar hennar eru ekki aðeins mengaðar falsi og lygi frá Forn-Babýlon og Eypgtalandi, heldur oft líka eitraðar því að afneita lausnarfórn Krists og meðtaka þróunarkenninguna. Hún rænir Jehóva þeim heiðri, sem hann verðskuldar, alveg eins og prestar gerðu á dögum Malakís. — Malakí 1:6-8; 3:7-9.
8. (a) Hvaða boði höfnuðu prestarnir á dögum Malakís og trúarleiðtogar nútímans? (b) Hverjir þáðu boðið og með hvaða afleiðingum?
8 Ísraelsmenn voru á þeim tíma hvattir til að hreinsa sig og snúa aftur til Jehóva. „Snúið yður til mín, þá mun ég snúa mér til yðar,“ sagði Jehóva. Hann hvatti þá einnig: „Reynið mig einu sinni á þennan hátt — segir [Jehóva] allsherjar —, hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum himinsins og úthelli yfir yður yfirgnæfanlegri blessun. (Malakí 3:7, 10) Einungis leifar Gyðingaþjóðarinnar sneru við, og núna eru trúfastar leifar andlegra Ísraelsmanna komnar út úr falstrúarbrögðum þessa heims. Í félagi við ört vaxandi múg annarra sauðumlíkra guðsdýrkenda lofa þeir Jehóva sem vottar hans. (Jóhannes 10:16) Jehóva hefur haldið fyrirheit sitt við þá og ‚lokið upp fyrir þeim flóðgáttum himinsins og úthellt yfir þá yfirgnæfanlegri blessun‘ — ríkulegri veislu andlegrar fæðu! — Jesaja 25:6.
Gnóttir andlegrar fæðu
9. Hvaða andleg fæða stendur til boða nú á dögum, hvernig er henni miðlað og með hvaða árangri?
9 „Sá trúi og hyggni þjónn,“ sem Jesús sagði að myndi verða á sjónarsviðinu á okkar dögum, er önnum kafinn við að miðla ríkulegri, andlegri fæðu. (Matteus 24:45) Á síðastliðnu ári komu yfir þrjár milljónir votta Jehóva þessum andlegu ráðstöfunum á framfæri í 210 löndum og eyjum hafsins og á um það bil 200 tungumálum, með því að ganga hús úr húsi og dreifa bókum, tímaritum og biblíum í hundruð milljónatali. Margir notfærðu sér þessa andlegu fæðu og söddust af henni: Yfir 230.000 létu skírast á einu ári!
10. Hvaða ráðstöfun er gerð til að við getum hlýtt hvatningu Páls um að koma saman?
10 Jehóva hefur líka komið sínum andlegu ráðstöfunum á framfæri í gegnum umdæmismót, svæðismót og hinar fimm vikulegu samkomur sem eru reglulega haldnar í ríflega 54.000 söfnuðum votta Jehóva — allt í hlýðni við hvatningarorð Páls í Hebreabréfinu 10:25 um að ‚vanrækja ekki safnaðarsamkomurnar.‘
11. Með hvaða dæmi má lýsa hvernig æskilegt er að bera andlega fæðu á borð?
11 Þegar kona býður gestum til matar gerir hún meira en aðeins að sjóða handa þeim kjötbita og slengja honum á disk. Hún notar krydd og sósur til að draga fram sem ljúffengast bragð og framber matinn með smekklegum hætti til að hann sé girnilegur að sjá. Útlitið og ilmurinn nægir til þess að vatn kemur fram í munninn á gestunum og magasafarnir streyma fram. Þannig hefur hinni andlegu fæðu frá Jehóva verið komið á framfæri — ekki í þurrlegum fræðibókastíl heldur með smekklegum hætti sem gleður bæði huga og hjarta. Sérhver einstakur kristinn maður ætti að fylgja því fordæmi. „Prófar eyrað ekki orðin, eins og gómurinn smakkar matinn?“ — Jobsbók 12:11.
12. Hvaða dæmi höfum við um að andleg fæða sé borin fram með lystugum hætti?
12 Í fyrsta námskafla sínum leggur Handbók Guðveldisskólans á það áherslu að við notum falleg orð. Salómon notaði ekki aðeins rétt orð heldur einnig fögur. (Prédikarinn 12:10) Sálmur 45:3 sagði fyrir um Messías, Jesú Krist: „Yndisleik er úthellt yfir varir þínar.“ Sú varð raunin. Áheyrendur hans „undruðust þau hugnæmu orð, sem fram gengu af munni hans.“ Þeir eltu hann á röndum til að heyra hann tala, komu snemma til musterisins svo að þeir gætu hlýtt á hann og undruðust kennslusnilld hans. Menn, sem sendir voru til að handtaka hann, sögðu: „Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.“ (Lúkas 4:22; 19:48; 21:38; Markús 12:37; Matteus 7:28; Jóhannes 7:46) Handbókin var gerð til að hjálpa okkur að tala fögur sannleiksorð. Notar þú hana sem best má verða?
13. Hve mikla áherslu leggur Efesusbréfið 5:15-17 á að við ‚kaupum okkur tíma‘ og hvers vegna er það undirstrikað?
13 Efesusbréfið 5:15-17 áminnir okkur: „Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja hver sé vilji [Jehóva].“ Gríska orðið, sem hér er þýtt „stund,“ merkir ekki tími í almennum skilningi heldur tiltekinn tími, hentugur tími til ákveðinna nota. Gríska sögnin, sem hér er þýdd „notið,“ stendur í áhersluhætti og merkir sennilega í þessu samhengi að ‚kaupa upp með ákefð‘; það er að grípa fegins hendi hvert tækifæri sem kemur.a Grípur þú fegins hendi hvert tækifæri sem gefst til að nærast á andlegri fæðu frá Jehóva? Það ættir þú að gera. Við ættum öll að gera það. Af hverju? „Því að dagarnir eru vondir.“
Úr andlegri eyðimörk í andlega paradís
14. Nefnið einn af kostum hinnar ensku „Tilvísanabiblíu“ og eitt vers sem er gott dæmi um hann.
14 Eitt þeirra andlegu hjálpargagna, sem ber af, er hin nýja útgáfa Nýheimsþýðingarinnar með tilvísunum, gefin út árið 1984. Hún er kjörgripur sem getur hjálpað okkur að nota ‚keyptan tíma‘ til að auka þekkingu okkar.b Millivísanirnar eru eitt af mörgu sem gerir hana gott verkfæri til slíks. Lítum til dæmis á Sálm 1:3 sem fjallar um ástand þess manns er hugleiðir lögmál Guðs dag og nótt. Versið hljóðar svo í íslensku Biblíunni frá 1981: „Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.“ Það er miklu, miklu meira í þetta vers spunnið en við komum auga á með því einu að renna yfir það augunum og halda svo áfram.
15. Hvaða spurningar vakna um tréð í Sálmi 1:3 og hvaða skýringar veitir Jesaja 44:4?
15 Gefðu gaum að smáatriðunum. Tréð er gróðursett. Hver gróðursetti það? Það stendur hjá lækjum (í fleirtölu). Getur eitt tré vaxið á bökkum nokkurra lækja? Nei. Vertu forvitinn. Hvers konar tré er þetta eiginlega? Millivísanirnar opna augu hugans. Þar er vísað í Jesaja 44:4, 61:3 og Jeremía 17:8. Jesaja 44:4 segir að þjónar Guðs verði eins og tré „á lækjarbökkum“ eða „við vatnsskurði“ (NW). Hér er auðvitað átt við áveituskurði, þannig að lækirnir eru áveituskurðir sem vökva trén í aldingarði.
16. Hvernig glöggva Jesaja 61:3 og Jeremía 17:8 merkinguna fyrir okkur?
16 Jesaja 61:3 kallar sum þessara trjáa ‚réttlætis-eikur, plöntuna Jehóva honum til vegsemdar.‘ Það er Jehóva sem gróðursetur og vökvar þessi tré, og það er hann sem hlýtur vegsemd af ávöxtunum sem þau bera. Jeremía 17:8 líkir þeim sem hugleiðir lögmál Guðs dag og nótt við „tré, sem gróðursett er við vatn og teygir rætur sínar út að læknum, — sem hræðist ekki, þótt hitinn komi, og er með sígrænu laufi, sem jafnvel í þurrka-ári er áhyggjulaust og lætur ekki af að bera ávöxt.“ Lauf þess visnar ekki; því lánast allt sem það gerir.
17. Hvaða mynd fáum við nú af Sálmi 1:3 og hvaða hlutverki gegnum við í henni?
17 Nú er sem augu okkar opnist. Sálmur 1:3 er hér að draga upp fagra mynd. Þeir sem hugleiða lögmál Jehóva dag og nótt eru eins og tré gróðursett hjá óþrjótandi uppsprettu. Þeir eru ekki lengur hluti af andlega regnlausum, veraldlegum stofnunum, heldur tilheyra þeir nú skipulagi Guðs þar sem hressandi sannleiksvatn rennur fram óþrjótandi. Þeir eru í andlegri paradís, fá andlega hressingu og bera andlegan ávöxt Jehóva til lofs. Og hugsaðu þér: Guð notar votta sína til að leiða fólk burt úr vatnssnauðum, skrælnuðum veraldlegum stofnunum inn í þessa hressandi, ríkulega vökvuðu andlegu paradís.
18. Hver eru viðbrögð sumra þegar þeir sjá aðra skara fram úr í vitnisburði sínum, og hvers vegna kann þeim að vera áfátt?
18 Til að vinna þetta verk með sem bestum hætti verðum við að aga hugi okkar og hjörtu til að við notum okkur sem best andlegar ráðstafanir Jehóva. Þegar aðrir útskýra Ritninguna segja sumir: „Ég vildi að ég þekkti Biblíuna jafnvel og hann.“ En ef þeir myndu aga sig til að nema Biblíuna gætu þeir líka aukið biblíuþekkingu sína. Stundum segja menn þegar þeir heyra aðra votta bera vitni við dyrnar: „Ég vildi að ég gæti borið jafnvel vitni og hann!“ En ef þeir öguðu sig til að taka oftar þátt í þjónustunni á akrinum og notuðu bókina Rökrætt út af Ritningunni gætu þeir líka náð meiri leikni í að bera vitni. Og stundum segja menn þegar þeir heyra flutt erindi um Biblíuna: „Ég vildi að ég gæti flutt jafngóðar ræður og hann.“ En ef þeir öguðu sjálfa sig til að undirbúa ræður sínar vel og drykkju í sig lærdóm Handbókar Guðveldisskólans myndu þeir líka taka framförum í ræðumennsku.
19. Hver er lykillinn að því að þroska hæfni okkar í að bera vitni?
19 Það er gott að óska sér einhvers en óskirnar einar vinna ekkert. Það eru verk sem láta óskirnar breytast í veruleika. Agaðu sjálfan þig til að kaupa þér tíma og leggðu síðan á þig þá vinnu sem þarf til að óskin rætist. Ef þú æfir ekki vöðva rýrnar hann. Ef þú beitir ekki kunnáttu gleymist hún. Ef þú beitir ekki huganum hrakar hæfni hans til að hugsa. Ef þú notar ekki þekkingu missir þú það sem þú hefur. Á öllum sviðum gildir sú regla að menn annaðhvort nota hlutina eða missa þá. Menn ‚temja skilningarvitin jafnt og þétt‘ með því að nota þau. Þá mun ‚hæfnin til að hugsa vaka yfir okkur og dómgreind vernda okkur.‘ — Hebreabréfið 5:14; Orðskviðirnir 2:11, NW.
20. Hvað umflýjum við ef við notfærum okkur andlegar ráðstafanir Jehóva og hvað ávinnum við?
20 Notaðu því andlegar ráðstafanir Jehóva. Gleðstu með söddum þjónum hans. Forðastu þá hungursneyð sem Amos sagði fyrir: „Sjá, þeir dagar munu koma, — segir [Jehóva] Guð, — að ég mun senda hungur inn í landið. Ekki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni, heldur eftir því að heyra orð [Jehóva].“ (Amos 8:11) Eigðu hlut með þeim sem eta og gleðjast, ekki þeim sem hafna fæðunni og hljóta smán fyrir: „Fyrir því segir hinn alvaldi [Jehóva] svo: Sjá, þjónar mínir munu eta, en yður mun hungra, sjá, þjónar mínir munu drekka, en yður mun þyrsta, sjá, þjónar mínir munu gleðjast, en þér munuð gljúpna.“ — Jesaja 65:13.
[Neðanmáls]
a Sjá The New International Dictionary of Theology, 1. bindi, bls. 268 eftir Colin Brown.
b Þótt hún sé ekki til á móðurmáli þínu er vel líklegt að þú getir notfært þér hana, og vafalaust mun þér þykja þetta dæmi um notagildi hennar athyglisvert.
Manst þú?
◻ Hvernig sýndi Ísraelsþjóðin að hún var óánægð með ráðstafanir Jehóva?
◻ Hvernig hefur Malakí 3:10 uppfyllst á vottum Jehóva?
◻ Hvaða merking liggur að baki Sálmi 1:3?
◻ Hvers vegna er nauðsynlegt að nota það sem við höfum lært í gegnum andlegar ráðstafanir Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 23]
Þeir sem hugleiða lögmál Jehóva líkjast trjám sem gróðursett eru við óþrjótandi vatnslind.