Siðferðilegur hreinleiki er fegurð æskunnar
„Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni . . . og breyt þú eins og hjartað leiðir þig og eins og augun girnast, en vit, að fyrir allt þetta leiðir Guð þig fyrir dóm.“ — PRÉDIKARINN 11:9.
1, 2. (a) Hvers óskar Jehóva ungu fólki? (b) Hvers vegna er heimskulegt að gera hvaðeina sem hjarta og augu girnast?
„ÆSKA, ákafi og mýkt eru eins og vordagar. Kvartaðu ekki . . . undan því hve fljótt þeir líða heldur njóttu þeirra.“ Svo mælti þýskt skáld á 19. öld. Þessi heilræði handa æskufólki minna á það sem skrifað stóð í Prédikaranum mörg þúsund árum áður: „Gleð þig, ungi maður [eða kona], í æsku þinni, og lát liggja vel á þér unglingsár þín, og breyt þú eins og hjartað leiðir þig og eins og augun girnast.“ (Prédikarinn 11:9a) Jehóva Guð fordæmir ekki umbúðalaust það sem höfðar til ungs fólks. Hann vill að þið njótið krafta og lífsorku æskunnar til hins ýtrasta. — Orðskviðirnir 20:29.
2 Ber að skilja þetta svo að þú sem ert ungur getir leyft þér að gera hvaðeina sem höfðar til hjarta þíns og augna? Nei, alls ekki. (4. Mósebók 15:39; 1. Jóhannesarbréf 2:16) Ritningarstaðurinn heldur áfram: „En vit, að fyrir allt þetta [sem þú gerir til að fullnægja löngunum þínum] leiðir Guð þig fyrir dóm.“ (Prédikarinn 11:9b) Þú getur ekki komist undan afleiðingum gerða þinna. Jehóva krefur alla, jafnt unga sem aldna, reikningsskapar gerða sinna. — Rómverjabréfið 14:12.
3, 4. (a) Hvers vegna er mikilvægt að halda sér siðferðilega hreinum? (b) Undir hvaða þrýstingi er ungt fólk og hvaða spurninga er hægt að spyrja í því sambandi?
3 Jákvæður dómur af hendi Jehóva hefur bæði í för með sér eilíft líf og náið samband við hann núna. Þú verður þó að fylgja háleitum siðferðisstaðli. Sálmur 24, 3. til 5. vers, orðar það þannig: „Hver fær að stíga upp á fjall [Jehóva], hver fær að dveljast á hans helga stað? — Sá er hefir óflekkaðar hendur og hreint hjarta, eigi sækist eftir hégóma og eigi vinnur rangan eið. Hann mun blessun hljóta frá [Jehóva] og réttlætingu frá Guði hjálpræðis síns.“ Sá sem varðveitir siðferðilegan hreinleika sinn er fagur í augum Jehóva.
4 Ungt fólk er undir stöðugum þrýstingi til að gera eitthvað sem spillt gæti hreinleika þess frammi fyrir Guði. Núna undir lok hinna síðustu daga eru siðleysi og óhrein áhrif eins og farsótt. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Aldrei fyrr hafa unglingar átt jafnerfitt með að varðveita siðferðilegan hreinleika. Vegnar þér vel í þeirri baráttu? Munt þú halda áfram að berjast til sigurs?
Sú áskorun sem þú stendur frammi fyrir
5. Hvaða óhrein áhrif gera mönnum erfitt að varðveita hreinleika frammi fyrir Guði?
5 Höfðað er til ungs fólks með skemmtiefni er sópar öllu, sem heitið getur sómasamlegt, út í veður og vind og hampar hátt grófasta siðleysi. Eftir að sýning hófst á flokki vissra ofbeldis- og hryllingsmynda skrifaði kvikmyndagagnrýnandi: „Í þessari mynd skiptast á viðbjóðslegt kynlíf, viðbjóðsleg morð og viðbjóðslegt klám í stórum skömmtum. Ef hún setur aðsóknarmet verður hún minnisvarði þess að smekkur manna fyrir kvikmyndum hafi hrapað niður á enn lægra stig en áður.“ Við kvikmyndirnar má svo bæta dægurlagatextum sem fjalla um kynlífið og sjónvarpsefni þar sem siðleysi er í hávegum haft. Getur þú látið ósóma ‚spillingardíkisins‘ rigna yfir þig án þess að glata hreinleika þínum frammi fyrir Guði? (1. Pétursbréf 4:4) Eins og orðskviðurinn segir: „Getur nokkur borið svo eld í barmi sínum, að föt hans sviðni ekki?“ — Orðskviðirnir 6:27.
6. Hvaða þrýstingi verða unglingar fyrir frá jafnöldrum sínum?
6 Þá er einnig þrýst á þig frá annarri hlið — frá jafnöldrum þínum. Sautján ára stúlka, sem ekki tilheyrir kristna söfnuðinum, segir í kvörtunartón: „Þegar ég svaf hjá í fyrsta sinn var það af alröngu tilefni: vegna þess að strákurinn, sem ég var með, heimtaði það og vegna þess að ég hélt að allir hinir gerðu það.“ Enginn vill láta hlægja að sér. Það er eðlilegt að langa til að njóta viðurkenningar annarra. En þegar þú heldur þér fast við siðferði Biblíunnar getur það haft í för með sér að aðrir unglingar geri gys að þér. Löngunin til að vera hluti af hópnum, njóta viðurkenningar jafnaldra þinna, getur þrýst mjög fast á þig að gera eitthvað sem þú veist að er rangt. — Orðskviðirnir 13:20.
7. Hvers vegna er baráttan gegn óhreinum áhrifum sérstaklega erfið á æskuárunum en hvað hafa þúsundir ungmenna í skipulagi Jehóva sýnt?
7 Baráttan gegn þessum áhrifum er sérlega erfið í „blóma æskunnar“ þegar kynhvötin eru mjög sterk. (1. Korintubréf 7:36, NW) Engin furða er að rannsóknarstofnun skuli hafa komist að eftirfarandi niðurstöðu: „Það er óvenjulegt ungmenni sem hefur ekki haft kynmök fyrir hjónaband er það hefur náð nítján ára aldri.“ Þó hafa þúsundir ungmenna innan skipulags Jehóva sýnt sig vera óvenjuleg ungmenni. Þið takið áskoruninni og varðveitið siðferðilegan hreinleika ykkar.
8. Hvers vegna hafa sum, kristin ungmenni leyft siðleysi heimsins að hafa áhrif á sig og með hvaða afleiðingum?
8 Því miður hafa þó allmörg, kristin ungmenni leyft siðlausum viðhorfum heimsins að hafa áhrif á sig. Þau segjast kannski elska það sem gott er en hata samt ekki það sem illt er; að minnsta kosti hata þau það ekki nógu mikið. (Sálmur 97:10) Stundum virðast þau jafnvel elska það. Eins og Sálmur 52:5 orðar það: „Þú elskar illt meir en gott, lygi fremur en sannsögli.“ Sumir ganga svo langt að hafna fullum fetum leiðbeiningum skipulags Jehóva um samband við hitt kynið, skemmtanir og siðferði. Oft er afleiðingin háðung bæði fyrir þá sjálfa og foreldra þeirra. Þeir glata líka fegurð sinni í augum Guðs. — 2. Pétursbréf 2:21, 22.
Hjálp til að taka áskoruninni
9. Hvernig er hægt að taka þeirri áskorun að halda sér siðferðilega hreinum?
9 Hvernig getur þú tekið þeirri áskorun að varðveita siðferðilegan hreinleika? Sálmaritarinn spurði sömu spurningar: „Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum?“ Síðan svaraði hann: „Með því að gefa gaum að orði þínu.“ (Sálmur 119:9) Já, þú þarfnast leiðsagnar frá orði Guðs. Og ástríkur faðir þinn á himnum hefur séð til þess að skipulag hans láti þér í té slíka leiðsögn til að hjálpa þér að standast þrýsting þessa heims í átt til þess sem óhreint er.
10, 11. (a) Hvaða rit hafa verið gefin út til að hjálpa ungu fólki að halda sér siðferðilega hreinu? (b) Hvernig hefur greinaflokkurinn „Ungt fólk spyr . . . ?“ hjálpað sumum ungmennum? (c) Hvaða gagn hefur þú haft af þessum greinaflokki?
10 Á löngu árabili hafa verið gefin út fjölmörg rit sérstaklega ætluð ykkur unga fólkinu, svo sem bókin Æskuárin — notið þau vel. Frá 1982 hefur greinaflokkurinn „Ungt fólk spyr . . . “ í tímaritinu Vaknið! veitt fjölmörg heilræði um mál svo sem klám, ástarsögur og viðeigandi hegðun fólks sem er að draga sig saman. Hafa slíkar leiðbeiningar hjálpað unga fólkinu? Lítum á dæmi. Allmargar greinar í þessum greinaflokki fjölluðu um sjálfsfróun og sýnt var fram á að hún veki upp „losta“ og geti auðveldlega verið undanfari siðleysis.a (Kólossubréfið 3:5) Gefin voru góð ráð um það hvernig berjast mætti gegn þessum ósið og hvað gera mætti þegar virtist sækja í sama farið. Viðbrögðin við greinunum birtast í bréfum frá unglingum til útgefanda. Hér fylgja tvö dæmi: „Sjálfsfróun hefur verið vandamál hjá mér síðan ég var tólf ára. Ég er nú orðinn átján ára og er smám saman að sigrast á þessu með hjálp greinanna frá ykkur.“ „Núna, þegar ég fylgi ráðunum í greinunum, er hugarástand mitt miklu betra. Mér finnst ég miklu hreinni en áður.“
11 Það kostar tíma að lesa og nema slíkt efni en það getur hjálpað þér að halda þér siðferðilega hreinum. Notfærir þú þér slíkt efni til fullnustu? Eftir að greinin „Ungt fólk spyr . . . Kynlíf fyrir hjónaband — hvers vegna ekki?“b birtist skrifaði ung stúlka sem þá var að nema Biblíuna: „Ég kannast við þá slæmu samvisku og sektarkennd sem kynlíf fyrir hjónaband hefur í för með sér, og ég harma mjög að ég skuli hafa gert slíkt. Dag hvern þakka ég Jehóva fyrir velþóknun hans og fyrirgefningu. Ég vona að greinin ykkar muni hjálpa öðrum áður en þeir gera það sem ég gerði. Það hefur mikinn sársauka í för með sér. Núna skil ég hvers vegna Jehóva Guð vill að við ‚höldum okkur frá saurlifnaði.‘“ — 1. Þessaloníkubréf 4:3.
12. Hvað getur vakið með okkur löngun til að þóknast Jehóva?
12 Þetta leiðir hugann að öðru atriði sem getur hjálpað þér að taka áskoruninni farsællega: Þú þarft að skilja og viðurkenna að Jehóva er drottinvaldur alheimsins og á heimtingu á hlýðni okkar. (Opinberunarbókin 4:11) En hann er einnig elskuríkur, himneskur faðir og ber hag okkar mjög fyrir brjósti. (Orðskviðirnir 2:20-22; Jesaja 48:17) Lög hans eru ætluð til að vernda okkur, ekki tálma okkur að þarflausu. Það er því viturleg lífsstefna að fylgja þeim. (5. Mósebók 4:5, 6) Glöggur skilningur á því hvers vegna Jehóva krefst siðferðislegs hreinleika hjálpar þér að sjá þá fegurð sem slíkur hreinleiki býr yfir, og vekur hjá þér löngun til að þóknast Guði. — Sálmur 112:1.
13. Getur þú útskýrt hvernig það er okkur fyrir bestu að hlýða banni Jehóva gegn saurlifnaði?
13 Eins og þú veist heimila lög Guðs kynlíf aðeins innan vébanda hjónabands og saurlifnaður er stranglega bannaður. (Hebreabréfið 13:4) Ferð þú á mis við einhver gæði með því að hlýða lögum hans? Ætli ástríkur faðir á himnum setji lög sem ræna þig ánægjunni af lífinu? Auðvitað ekki. Líttu á hvernig fer fyrir jafnöldrum þínum sem virða siðferðislög Guðs einskis. Stúlkur verða barnshafandi og láta síðan eyða fóstri eða ganga ef til vill í hjónaband án þess að hafa aldur eða þroska til. Margar þurfa að ala upp barn á eigin spýtur sem einstæðar mæður. Að auki syndga unglingar, sem lifa í saurlifnaði, „á móti eigin líkama“ og gera sig berskjaldaða fyrir samræðissjúkdómum. (1. Korintubréf 6:18) Og þegar unglingur, sem er vígður Jehóva, gerist sekur um saurlifnað geta hinar tilfinningalegu afleiðingar verið óbærilegar. Sé reynt að bæla niður nagandi samviskubit er afleiðingin oft svefnlausar nætur og þreyta. (Sálmur 32:3, 4; 51:5) Er þá ekki augljóst að bann Jehóva gegn saurlifnaði er sett þér til verndar? Það hefur tvímælalausa kosti að varðveita siðferðilegan hreinleika.
14. Eru unglingahjónabönd vernd og hvernig ber að skilja orð Páls í 1. Korintubréfi 7:9 og 7:36?
14 Það er að vísu ekki alltaf auðvelt að fylgja hinum ströngu lögum Guðs í siðferðismálum. Sumir unglingar hafa því komist að þeirri niðurstöðu að besta verndin sé sú að ganga í hjónaband þegar á unglingsárum. ‚Það stendur nú í 1. Korintubréfi 7:9 að „hafi þau ekki taumhald á sjálfum sér, þá gangi þau í hjónaband, því betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd,“‘ segja þeir. En þetta er skammsýni. Páll er ekki að ávarpa unglinga heldur þá sem eru komnir ‚af blómaskeiði.‘ (1. Korintubréf 7:36, NW) Unglingar hafa sjaldnast náð þeim þroska, tilfinningalega og andlega, sem þarf til að þola álag og rísa undir þeirri ábyrgð sem er hjónabandi samfara. Tímaritið Journal of Marriage and Family segir: „Fólk sem gengur ungt í hjónaband er síður ánægt með hjónabandið vegna þess að það er ekki nógu vel undir það búið. Þegar fólk stendur sig ekki vel í hlutverki sínu er það ekki ánægt og það leiðir síðan til þess að hjónabandið verður ótraust.“ Lausnin er því ekki sú að ganga í hjónaband á unglingsárunum heldur að halda sér hreinum sem einhleypur einstaklingur uns tekist hefur að þroska alla þá eiginleika sem hamingjuríkt hjónaband krefst.
Haltu þér hreinum!
15. Hvaða harðra aðgerða er þörf til að halda sér siðferðilega hreinum?
15 Páll postuli skrifaði: „Deyðið því hið jarðneska í fari yðar: Hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd.“ (Kólossubréfið 3:5) Já, strangra varnaraðgerða er þörf. Þú þarft að vera staðráðinn í að halda þér siðferðilega hreinum. The Expositor’s Bible Commentary segir um sögnina sem þýdd er „deyðið“: „Hún gefur í skyn að við ættum ekki aðeins að bæla niður eða hafa hemil á illum verkum og viðhorfum. Við eigum að þurrka þau út, að útrýma algerlega hinum gömlu lífsháttum. Ef til vill má koma kraftinum í henni til skila með sögninni ‚að steindrepa.‘ . . . Bæði merking sagnarinnar og kraftur sagnbeygingarinnar gefur í skyn þróttmikinn, sársaukafullan ásetning.“ — Samanber Matteus 5:27-30.
16. Hvers vegna þarf að halda huganum hreinum til að halda sér siðferðilega hreinum og hvernig er það hægt?
16 En hvernig getur þú ‚steindrepið‘ eða ‚þurrkað út‘ siðferðilega óhrein verk og viðhorf? Jesús beindi athyglinni að rótum vandans er hann sagði: „Innan frá, úr hjarta mannsins, koma hinar illu hugsanir, saurlifnaður . . . hórdómur, ágirnd.“ (Markús 7:21, 22) Hið táknræna hjarta innifelur hæfnina til að hugsa og er því nefnt í samhengi við „hugsanir.“ Það er því nauðsynlegt að halda huga sínum hreinum til að halda sér siðferðilega hreinum. Hvernig? Af því að skilningarvitin næra hugann þarf að gæta að því hvað augun dvelja við og forðast bækur, sjónvarpsþætti og kvikmyndir þar sem siðlaust kynlíf er ofarlega á baugi. Einnig þarf að gæta að því hvað hlustað er á með eyrunum og forðast tónlist þar sem kynlífið er haft að yrkisefni. Slík afstaða kallar á hugrekki, einkum gagnvart jafnöldrunum, en ef þú tekur hana hjálpar hún þér að vera siðferðilega hreinn og halda sjálfsvirðingu þinni.
17. Hvers vegna ætti siðleysi ekki að nefnast á nafn meðal okkar?
17 Páll postuli ráðlagði einnig: „En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum.“ (Efesusbréfið 5:3; sjá einnig 12. vers.) Það á því ekki einu sinni að nefna siðferðilegan óhreinleika á nafn, það er að segja að gera hann að umræðuefni eða spauga með hann. Hvers vegna? Eins og biblíufræðingurinn William Barclay orðar það: „Að tala um eitthvað, að spauga um eitthvað, að gera það að tíðu umræðuefni er hið sama og að opna hugann fyrir því og nálgast sjálfan verknaðinn.“ (Jakobsbréfið 1:14, 15) Það kostar einbeitni að ‚leggja haft á munn sinn,‘ einkanlega þegar aðrir unglingar segja grófa brandara eða lýsa kynlífsævintýrum sínum með djarflegu orðfæri. (Sálmur 39:2) En með því að halda þér ráðvöndum og hreinum munt þú gleðja hjarta Jehóva. — Sálmur 11:7; Orðskviðirnir 27:11.
18. (a) Hvers vegna er ekki nóg að hafna óhreinum hugsunum og tali til að sigra í baráttunni gegn siðferðilegum óhreinleika? (b) Hvernig getur þú haft gagn af heilræðum Páls til Filippímanna?
18 Þeim sem vill sigra í baráttunni gegn siðferðilegum óhreinleika nægir ekki að hafna óhreinum hugsunum og tali. Kínverskur orðskviður segir: „Tómur hugur er opinn fyrir alls kyns hugmyndum.“ (Samanber Matteus 12:43-45.) Páll gerði sér grein fyrir að nauðsynlegt væri að fylla hugann heilnæmum, hreinum hugsunum. Því hvatti hann Filippímenn: „Allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það [‚yfirvegið það vandlega‘c].“ — Filippíbréfið 4:8.
19. Hvers vegna ber þér að nema orð Guðs rækilega og á hvaða hátt mun það hjálpa þér að halda þér siðferðilega hreinum?
19 Þetta kallar á rækilegt nám í orði Guðs. (Jósúabók 1:8; Sálmur 1:2) Slíkt nám mun styrkja huga þinn og hjarta og hjálpa þér að byggja upp náið einkasamband við Jehóva. Þá verður þú í miklu betri aðstöðu en ella til að standa fastur fyrir þegar þín er freistað til óhreinna, siðlausra verka. Þá munt þú ekki hætta á það að vanheiðra nafn Jehóva og smána fjölskyldu þína og söfnuð. Þess í stað munt þú beita krafti og styrk æsku þinnar á þann veg sem þig mun aldrei iðra. Þá munt þú varðveita þig siðferðilega hreinan en það er fegurð ungs fólks í þjónustu Jehóva! — Orðskviðirnir 3:1-4.
[Neðanmáls]
a Sjá Vaknið! (enska útgáfu) þann 8. september 1987, bls. 19-21; 8. nóvember 1987, bls. 18-20 og 8. mars 1988, bls. 20-23.
c The Expositor’s Greek Testament.
Unglingar — hverju svarið þið?
◻ Hvers vegna verður siðferði ykkar að vera á háu stigi?
◻ Hvaða þrýstingur veldur því að það er ekki auðvelt að halda sér hreinum frammi fyrir Guði?
◻ Hvað getur hjálpað þér að taka þeirri áskorun að halda þér siðferðilega hreinum?
◻ Hvaða róttækar aðgerðir eru nauðsynlegar ef þú átt að halda þér hreinum?
[Mynd á blaðsíðu 11]
Á blómaskeiði æskunnar eru fæstir undir það búnir að vera foreldrar.