Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.8. bls. 15-20
  • Gagnið af því að óttast hinn sanna Guð

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Gagnið af því að óttast hinn sanna Guð
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Viska — dýrmætari en gull
  • Vernd gegn rangri breytni
  • Vernd gegn ótta við menn
  • Varðveittu lífið
  • Lærum að hafa unun af ótta Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Guðsótti — getur hann gagnað þér?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Glæddu hjá þér slíkt hugarfar að þú óttist Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • Óttastu Jehóva og haltu hans boðorð
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.8. bls. 15-20

Gagnið af því að óttast hinn sanna Guð

„Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga.“ — JESAJA 48:17.

1. Hvaða ógæfu hefði mátt afstýra með því að sýna guðsótta?

EF Adam hefði ræktað með sér guðsótta hefði það getað aftrað honum frá að drýgja þá synd sem kallaði eilífan dauða yfir sjálfan hann og árþúsundalanga ógæfu yfir afkomendur hans. Ef Ísraelsþjóðin til forna hefði farið eftir ráðleggingu Jehóva um að óttast hann og elska hefði hún ekki verið leidd í fjötrum til Babýlonar. Hún hefði ekki heldur hafnað syni Guðs og gerst sek um að úthella blóði hans. Ef heimur nútímans óttaðist Guð væri engin spilling í stjórnmálum eða viðskiptum, engir glæpir, engin stríð. — Orðskviðirnir 3:7.

2. Af hverju ættum við að rækta með okkur ótta við Jehóva, þrátt fyrir ástandið í umheiminum?

2 En óháð því hvað umheimurinn gerir getum við sem einstaklingar, fjölskyldur og söfnuðir þjóna Jehóva haft gagn af því að rækta með okkur ótta við hinn sanna Guð. Það er í samræmi við áminningu Móse til Ísraelsþjóðarinnar: „Hvers krefst [Jehóva] Guð þinn af þér nema þess, að þú óttist [Jehóva] Guð þinn og gangir því ávallt á hans vegum, og að þú elskir hann og að þú þjónir [Jehóva] Guði þínum af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni með því að halda skipanir hans . . . [sem] þér er fyrir bestu?“ (5. Mósebók 10:12, 13) Hvaða gagn höfum við af því að óttast Jehóva, hinn sanna Guð?

Viska — dýrmætari en gull

3. (a) Hvert er mesta gagnið sem við höfum af guðsóttanum? (b) Hvað merkir Sálmur 111:10?

3 Sönn viska er þar efst á blaði. Sálmur 111:10 lýsir yfir: „Upphaf speki er ótti [Jehóva].“ Hvað merkir það? Speki eða viska er hæfnin til að nota þekkingu til að leysa vandamál farsællega, afstýra hættu og ná vissum markmiðum. Hún felur í sér heilbrigða dómgreind. Upphaf eða grundvöllur slíkrar visku er ótti Jehóva. Af hverju? Af því að öll sköpunin er handaverk hans. Hún er háð honum. Hann gaf mannkyninu frjálsan vilja en ekki hæfni til að stýra skrefum sínum farsællega án sinnar leiðsagnar. (Jósúabók 24:15; Jeremía 10:23) Aðeins ef við skiljum þessar grundvallarstaðreyndir lífsins og lifum í samræmi við þær getum við verið farsæl til frambúðar. Ef þekking okkar á Jehóva veitir okkur óhagganlega sannfæringu um að vilji hans nái örugglega fram að ganga og að loforðum hans og hæfni til að umbuna trúfesti sé án efa treystandi, þá kemur guðsótti okkur til að breyta viturlega. — Orðskviðirnir 3:21-26; Hebreabréfið 11:6.

4, 5. (a) Af hverju veitti háskólamenntun ungs manns honum ekki sanna visku? (b) Hvernig eignaðist þessi maður og eiginkona hans sanna visku síðar, og á hvaða hátt breytti það lífi þeirra?

4 Tökum dæmi. Fyrir nokkrum áratugum stundaði ungur maður nám við Saskatchewan-háskóla í Kanada. Á námsskránni var meðal annars líffræði og honum var kennd þróunarkenningin. Eftir að hann útskrifaðist sérhæfði hann sig í kjarneðlisfræði og fékk styrk til framhaldsnáms við Tórontó-háskóla. Í námi sínu sá hann stórkostleg merki um reglu og hönnun í uppbyggingu atómanna. En engin svör voru gefin við spurningunum: Hver hannaði allt þetta? Hvenær? Og hvers vegna? Gat hann, án þessara svara, notað þekkingu sína viturlega í heimi sem var þá á kafi í stríði? Hvað myndi hann hafa sér til leiðsagnar? Þjóðernishyggju? Löngun í fjárhagslega umbun? Hafði hann í raun og veru aflað sér sannrar visku?

5 Stuttu eftir að þessi ungi maður útskrifaðist byrjuðu hann og konan hans að nema Biblíuna með vottum Jehóva. Í orði Guðs fóru þau að finna svörin sem þau höfðu ekki fengið fyrr. Þau kynntust skaparanum, Jehóva Guði. Þegar þau numu um Móse við Rauðahafið og um Daníel og félaga hans í Babýlon, lærðu þau hve mikilvægt er að óttast ekki menn heldur Guð. (2. Mósebók 14:10-31; Daníel 3:8-30) Slíkur guðsótti samfara ósviknum kærleika til hans fór að hafa áhrif á þau. Bráðlega gerbreyttu þau um lífsstefnu. Loksins þekkti þessi ungi maður höfund þeirra verka sem hann hafði rannsakað í líffræðinni og viskunnar sem hann hafði séð endurspeglast í eðlisfræðinni. Hann fór að skilja tilgang þessa skapara. Í stað þess að nota þekkingu sína til að framleiða tól til að tortíma náunga sínum vildi hann, og eiginkona hans líka, hjálpa öðrum að elska Guð og náungann. Þau létu skrá sig í fullt starf sem boðberar Guðsríkis. Síðar sóttu þau Gíleaðskóla Varðturnsfélagsins og voru send út sem trúboðar.

6. Ef við höfum visku, sem á sér rætur í ótta Jehóva, hvaða skammsýni forðumst við þá og hvað gerum við í staðinn?

6 Að sjálfsögðu geta ekki allir verið trúboðar. En öll getum við notið þeirrar visku sem á sér rætur í ótta Jehóva. Ef við ræktum með okkur þessa visku drekkum við ekki með ákefð í okkur heimspeki manna sem eru í rauninni aðeins að giska á hvað lífið snýst um. Við leggjum okkur fram við nám í Biblíunni, sem er innblásin af uppsprettu lífsins, Jehóva Guði, honum sem getur gefið okkur eilíft líf. (Sálmur 36:10; Kólossubréfið 2:8) Í stað þess að verða þrælar viðskiptakerfis sem rambar á barmi tortímingar, hlýðum við ráðleggingu Jehóva um að láta okkur nægja fæði og klæði og gerum samband okkar við hann að aðalatriði lífsins. (1. Tímóteusarbréf 6:8-12) Í stað þess að láta eins og framtíð okkar sé háð því að koma ár sinni vel fyrir borð í þessum heimi, trúum við orði Guðs þegar það segir okkur að heimurinn sé að líða undir lok ásamt fýsn sinni en að sá sem geri vilja Guðs vari að eilífu. — 1. Jóhannesarbréf 2:17.

7. (a) Hvernig hjálpa Orðskviðirnir 16:16 okkur að hafa öfgalaust verðmætamat? (b) Hvaða laun hefur það í för með sér að gera vilja Guðs að þungamiðju lífsins?

7 Orðskviðirnir 16:16 hvetja okkur með því að segja sannleikanum samkvæmt: „Hversu miklu betra er að afla sér visku [viskunnar sem hefst með ótta Jehóva] en gulls og ákjósanlegra að afla sér hygginda en silfurs.“ Slík viska og hyggindi koma okkur til að gera vilja Guðs að þungamiðju lífs okkar. Og hvaða verk hefur Guð falið vottum sínum á þessu tímabili mannkynssögunnar? Að prédika ríki hans og hjálpa hjartahreinu fólki að verða sannir lærisveinar Jesú Krists. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Þetta er verk sem hefur sanna lífsfyllingu og mikla hamingju í för með sér. Biblían segir því af ærnu tilefni: „Sæll er sá maður, sem öðlast hefir speki“ eða visku. — Orðskviðirnir 3:13.

Vernd gegn rangri breytni

8. (a) Nefndu annað gagn sem hlýst af því að óttast Guð. (b) Hvað er hið illa sem við fáum vernd fyrir? (c) Hvernig er guðsótti sterkt áhrifaafl?

8 Annað gagn af því að óttast Guð er að guðhræðslan verndar okkur fyrir því að gera það sem illt er. Þeir sem bera djúpa virðingu fyrir Guði ákveða ekki sjálfir hvað sé gott og hvað sé illt. Þeir álíta ekki illt það sem Guð segir vera gott og þeir telja ekki gott það sem Guð segir vera illt. (Sálmur 37:1, 27; Jesaja 5:20, 21) Maður, sem lætur stjórnast af guðsótta, lætur sér ekki nægja að vita einfaldlega hvað Jehóva segir vera gott og hvað illt. Slíkur maður elskar það sem Jehóva elskar og hatar það sem Jehóva hatar. Þar af leiðandi hegðar hann sér í samræmi við staðla Guðs. Af þessum sökum fer eins og segir í Orðskviðunum 16:6: „Fyrir ótta [Jehóva] forðast menn hið illa.“ Slíkur guðsótti verður sterkt áhrifaafl til að áorka því sem einstaklingurinn kann að vera ófær um í eigin krafti.

9. Hvernig hafði sterk löngun til að misþóknast ekki Guði áhrif á konu í Mexíkó og til hvers leiddi það?

9 Jafnvel þótt slíkur ótti sé rétt að byrja að þroskast með manni getur hann styrkt hann til að forðast að gera nokkuð sem hann gæti iðrast það sem eftir væri ævinnar. Til dæmis spurði barnshafandi kona í Mexíkó einn af vottum Jehóva um fóstureyðingar. Votturinn las nokkra ritningarstaði fyrir konuna og sagði svo: „Lífið er mjög dýrmætt í augum skaparans, jafnvel líf hinna ófæddu.“ (2. Mósebók 21:22, 23; Sálmur 139:13-16) Læknisrannsókn hafði bent til að barn hennar gæti verið afbrigðilegt. En núna var hún snortin af því sem hún hafði séð í orði Guðs og ákvað að eiga barnið. Læknirinn hennar neitaði að sjá hana aftur og eiginmaðurinn hótaði að fara frá henni, en hún sat við sinn keip. Í fyllingu tímans ól hún stúlkubarn — eðlilegt, heilbrigt og fallegt. Full þakklætis leitaði hún vottana uppi og byrjaði að nema orð Guðs með þeim. Áður en ár var liðið voru hún og maðurinn hennar skírð. Fáeinum árum síðar var þeim mikið fagnaðarefni að hitta vottinn, sem hafði fyrst talað við konuna, á umdæmismóti og þau kynntu yndislega, fjögurra ára dóttur sína fyrir honum. Tilhlýðileg virðing fyrir Guði og sterk löngun til að misþóknast honum ekki getur vissulega haft sterk áhrif á líf manns.

10. Hvers konar rangri breytni getur guðsótti hjálpað fólki til að hætta?

10 Guðsótti styrkir okkur gegn margs konar rangri breytni. (2. Korintubréf 7:1) Þegar þessi eiginleiki er ræktaður á réttan hátt getur hann hjálpað manni að láta af leyndum syndum sem enginn veit af nema hann sjálfur og Jehóva. Guðsótti getur hjálpað honum að slíta sig lausan úr þrælkun áfengis eða fíkniefna. Fyrrverandi fíkniefnaneytandi í Suður-Afríku segir svo frá: „Þegar ég aflaði mér þekkingar á Guði þroskaði ég einnig með mér ótta við að særa hann eða misþóknast honum. Ég vissi að hann horfði á og mig langaði til að vera velþóknanlegur í augum hans. Það kom mér til að eyðileggja fíkniefnin, sem ég hafði undir höndum, með því skola þeim niður um klósettið.“ Guðsótti hefur hjálpað þúsundum annarra á svipaða vegu. — Orðskviðirnir 5:21; 15:3.

Vernd gegn ótta við menn

11. Hvaða algengri snöru getur heilnæmur ótti við Jehóva verndað okkur fyrir?

11 Heilnæmur ótti við Guð verndar okkur líka gegn ótta við menn. Flestir þjást af mannahræðslu að einhverju marki. Meira að segja postular Jesú Krists yfirgáfu hann og flúðu þegar hermenn handtóku hann í Getsemanegarðinum. Síðar, í hallargarði æðsta prestsins, var Pétur sleginn út af laginu, afneitaði óttasleginn að hann væri lærisveinn Jesú og þóttist ekki einu sinni þekkja hann. (Markús 14:48-50, 66-72; Jóhannes 18:15-27) En postularnir fengu hjálp til að ná aftur andlegu jafnvægi. Á hinn bóginn varð Úría Semajason svo heltekinn ótta á dögum Jójakíms konungs að hann hætti þjónustu sinni sem spámaður Jehóva og flúði land — til þess eins að vera tekinn til fanga og drepinn. — Jeremía 26:20-23.

12. (a) Hvaða vernd gegn mannahræðslu benda Orðskviðirnir 29:25 á? (b) Hvernig byggjum við upp traust til Guðs?

12 Hvað getur hjálpað okkur að sigrast á mannahræðslu? Eftir að hafa varað við að ‚ótti við menn leiði í snöru,‘ bæta Orðskviðirnir 29:25 við: „En þeim er borgið, sem treystir [Jehóva].“ Aðalatriðið er að treysta á Jehóva. Slíkt traust er byggt á þekkingu og reynslu. Með því að nema orð Jehóva sjáum við merki þess að vegir hans séu réttir. Við kynnumst atburðum sem sýna áreiðanleika hans, að fyrirheit hans séu traust (þeirra á meðal fyrirheitið um upprisuna) og lýsa kærleika hans og almætti. Þegar við breytum síðan í samræmi við þessa þekkingu, gerum það sem Jehóva fyrirskipar og höfnum einbeitt því sem hann varar við, þá kynnumst við ástríkri umhyggju hans og áreiðanleika af eigin raun. Við sjáum persónulega merki þess hvernig hann beitir mætti sínum til að fá vilja sínum framgengt. Traust okkar til hans vex og samhliða því kærleikur okkar til hans og einlæg löngun til að misþóknast honum ekki. Slíkt traust er byggt á sterkum grunni. Það er eins og varnarmúr gegn ótta við menn.

13. Hvernig getur guðsótti hjálpað okkur á vinnustað, heima og í skólanum?

13 Traust okkar á Jehóva, samfara guðsótta, gerir okkur einbeitt í því sem rétt er ef vinnuveitandi hótar okkur uppsögn ef við neitum að taka þátt í óheiðarlegum viðskiptaaðferðum. (Samanber Míka 6:11, 12.) Slíkur guðsótti gerir mörg þúsund kristnum mönnum fært að halda áfram sannri guðsdýrkun þrátt fyrir mótstöðu ættingja sem ekki eru í trúnni. Hann gefur líka börnum og unglingum í skóla hugrekki til að segja frá því að þau séu vottar Jehóva, og hann styrkir þau til að taka háðsglósum bekkjarfélaga sem gera gys að stöðlum Biblíunnar. Þannig sagði vottur á unglingsaldri: „Það skiptir í rauninni ekki máli hvað þeim finnst. Aðalatriðið er hvað Jehóva finnst.“

14. Hvernig geta þjónar Jehóva gengið með sigur af hólmi jafnvel þegar lífi þeirra er ógnað?

14 Þessi sama sannfæring styrkir sannkristna menn til að halda sér einbeittir við vegu Jehóva jafnvel þegar lífi þeirra er ógnað. Þeir vita að þeir mega búast við ofsóknum frá heiminum. Þeim er ljóst að postularnir voru húðstrýktir og að illvirkjar börðu og drápu Jesú Krist. (Markús 14:65; 15:15-39; Postulasagan 5:40; samanber Daníel 3:16-18.) En þjónar Jehóva treysta því fyllilega að hann styrki þá til að halda út, að þeir geti með hans hjálp gengið með sigur af hólmi, að hann umbuni þeim örugglega sem eru trúfastir — með upprisu til lífs í nýjum heimi sínum ef þörf krefur. Kærleikur þeirra til Guðs samfara guðsótta kemur þeim til að varast vandlega hvaðeina sem væri honum ekki velþóknanlegt.

15. Hvað gerði vottum Jehóva kleift að varðveita ráðvendni í fangabúðum nasista?

15 Þessi áhugahvöt gerði vottum Jehóva kleift að standast hryllinginn í fangabúðum nasista á fjórða og fimmta áratugnum. Þeir tóku til sín ráðleggingar Jesú í Lúkasi 12:4, 5: „Það segi ég yður, vinir mínir: Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða og fá að því búnu ekki meira að gjört. Ég skal sýna yður, hvern þér eigið að hræðast. Hræðist þann, er hefur vald að deyða og að því búnu varpa í helvíti [„Gehenna,“ NW]. Já, ég segi yður, hræðist hann.“ Gustav Auschner, vottur sem var í fangabúðunum í Sachsenhausen, skrifaði síðar: ‚SS-mennirnir skutu August Dickmann og hótuðu að skjóta okkur alla ef við skrifuðum ekki undir yfirlýsingu um að við afneituðum trú okkar. Enginn okkar skrifaði undir. Við vorum hræddari við að misþóknast Jehóva en byssukúlur þeirra.‘ Ótti við menn kemur manni til að láta undan en ótti við Guð gerir mann einbeittan í því sem rétt er.

Varðveittu lífið

16. Hvað gerði Nóa kleift að halda réttri stefnu um áratuga skeið fram að flóðinu og hvað hafði það í för með sér fyrir hann og fjölskyldu hans?

16 Nói lifði síðustu daga heimsins fyrir flóðið. Jehóva hafði ákveðið að eyða óguðlegum heimi þess tíma vegna illsku mannsins. En þangað til bjó Nói í heimi sem var fullur af ofbeldi, grófu siðleysi og skeytingarleysi um vilja Guðs. Þrátt fyrir að Nói prédikaði réttlæti gáfu menn engan gaum „fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt.“ (Matteus 24:39) En Nói lét ekki aftra sér að vinna það verk sem Guð fól honum. „Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.“ (1. Mósebók 6:22) Hvað hélt Nóa á réttri braut ár eftir ár, allt fram að flóðinu? Hebreabréfið 11:7 svarar: „Fyrir trú fékk Nói bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá. Hann óttaðist Guð.“ Af því leiddi að hann og eiginkona hans, synir og tengdadætur voru varðveitt gegnum flóðið.

17. (a) Hvað ættum við að gera, óháð því hvað aðrir gera? (b) Af hverju eru þeir sem óttast Jehóva í sannleika hamingjusamt fólk?

17 Við lifum tíma sem líkjast dögum Nóa á margan hátt. (Lúkas 17:26, 27) Aftur er verið að gefa viðvörun. Opinberunarbókin 14:6, 7 segir frá engli sem flýgur um háhvolf himins og hvetur sérhverja þjóð og kynkvísl og tungu til að ‚óttast Guð og gefa honum dýrð.‘ Hvað svo sem umheimurinn gerir skaltu fara eftir þessum orðum og láta boðið síðan ganga út til annarra. Sýndu trúna í verki og óttastu Guð eins og Nói. Það getur orðið þér og mörgum öðrum til lífs. Þegar við íhugum það gagn, sem fylgir því að óttast hinn sanna Guð, þá getum við ekki annað en tekið undir með hinum innblásna sálmaritara er söng: „Sæll er sá maður, sem óttast [Jehóva] og hefir mikla unun af boðum hans.“ — Sálmur 112:1.

Hverju svarar þú?

◻ Hvaða framúrskarandi gagn hefur það í för með sér að óttast hinn sanna Guð?

◻ Hvernig getur viskan, sem á sér rætur í guðsótta, verndað okkur?

◻ Af hverju fær guðsótti okkur til að forðast hið illa?

◻ Hvernig verndar guðhræðsla okkur gegn ótta við menn?

◻ Hvaða áhrif hefur guðhræðsla á framtíðarhorfur okkar?

[Myndir á blaðsíðu 16, 17]

„Sæll er sá maður, sem óttast [Jehóva] og hefir mikla unun af boðum hans.“ — Sálmur 112:1.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila