Óttist Jehóva sem heyrir bænir
„Þú sem heyrir bænir, til þín kemur allt hold.“ — SÁLMUR 65:3.
1. Hvers vegna er eðlilegt að Jehóva setji skilyrði þeim sem þrá að nálgast hann í bæn?
JEHÓVA Guð er „konungur aldanna.“ Hann er sá sem „heyrir bænir,“ hann sem ‚allt hold kemur til.‘ (Opinberunarbókin 15:3; Sálmur 65:3) En hvernig eiga menn að koma til hans? Jarðneskir konungar setja reglur um klæðnað og framkomu þeirra sem leyft er að koma í návist þeirra. Við hljótum því að ætla að konungur aldanna setji kröfur sem menn verða að uppfylla ef þeir vilja koma fram fyrir hann með beiðni og þakkargjörð. — Filippíbréfið 4:6, 7.
2. Hvaða spurningar vakna varðandi bænina?
2 Hvers krefst konungur aldanna af þeim sem nálgast hann í bæn? Hverjir geta beðið og fengið bænheyrslu? Um hvað geta þeir beðið?
Þannig má nálgast konung aldanna
3. Hvaða dæmi getur þú nefnt um bænir þjóna Guðs til forna og nálguðust þeir hann gegnum millilið?
3 Ljóst er að Adam, ‚sonur Guðs,‘ átti mjög náin samskipti við konung aldanna áður en hann varð syndari. (Lúkas 3:38; 1. Mósebók 1:26-28) Er Abel, sonur Adams, fórnaði Guði nokkrum af „frumburðum hjarðar sinnar“ hefur hann vafalaust ákallað Guð og lofað um leið. (1. Mósebók 4:2-4) Nói, Abraham, Ísak og Jakob reistu ölturu og sneru sér til Jehóva í bæn um leið og þeir báru fram fórnir sínar. (1. Mósebók 8:18-22; 12:7, 8; 13:3, 4, 18; 22:9-14; 26:23-25; 33:18-20; 35:1, 3, 7) Og bænir Salómons, Esra og hinna innblásnu sálmaritara gefa til kynna að Ísraelsmenn hafi snúið sér til Guðs án nokkurs milligöngumanns. — 1. Konungabók 8:22-24; Esra 9:5, 6; Sálmur 6:2, 3; 43:1; 55:2; 61:2; 72:1; 80:2; 143:1.
4. (a) Hvaða ný leið til að nálgast Guð í bæn kom til á fyrstu öldinni? (b) Hvers vegna er mjög viðeigandi að biðja í nafni Jesú?
4 Á fyrstu öld okkar tímatals kom til ný leið til að nálgast Guð í bæn. Það var fyrir milligöngu sonar hans, Jesú Krists, sem bar sérstakan kærleika til mannkyns. Áður en Jesús kom til jarðar sem maður hafði hann þjónað glaður sem „verkstýra“ og haft yndi af því sem tengdist mannkyninu. (Orðskviðirnir 8:30, 31) Sem fullkominn maður á jörð veitti hann ófullkomnum mönnum kærleiksríka, andlega hjálp, læknaði sjúka og reisti jafnvel upp dána. (Matteus 9:35-38; Lúkas 8:1-3, 49-56) Framar öllu ‚gaf Jesús líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.‘ (Matteus 20:28) Það var því vel við hæfi að þeir sem notfærðu sér lausnargjaldið skyldu nálgast Guð fyrir milligöngu hans sem elskar mannkynið svona heitt! Núna er það eina leiðin til að nálgast konung aldanna því að Jesús sagði: „Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig“ og „Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður.“ (Jóhannes 14:6; 16:23) Það að biðja í Jesú nafni merkir að viðurkenna hann sem leiðina til að nálgast hann sem heyrir bænir.
5. Hver er afstaða Guðs til mannheimsins og hvernig tengist hún bæninni?
5 Sér í lagi ættum við að meta þann kærleika sem Jehóva sýndi með því að gefa lausnargjaldið. Jesús sagði: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Dýptin í kærleika Guðs birtist vel í orðum sálmaritarans: „Svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann. Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss. Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir [Jehóva] sýnt miskunn þeim er óttast hann. Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ (Sálmur 103:11-14) Það er mjög uppörvandi að vita að bænir vígðra þjóna Jehóva stíga upp til hins kærleiksríka föður fyrir milligöngu sonar hans!
Einstök sérréttindi
6. Með hvaða viðhorfi ber mönnum að nálgast Jehóva í bæn?
6 Mennskir konungar veita ekki hverjum sem er aðgang að höll sinni fyrirvaralaust. Það eru sérstök sérréttindi að fá áheyrn hjá konungi. Hið sama gildir um bæn til konungs aldanna. Að sjálfsögðu geta þeir sem nálgast hann fyrir milligöngu Krists og meta rétt hina miklu hátign Guðs vænst bænheyrslu. Menn verða að nálgast konung aldanna með lotningu og í tilbeiðsluhug. Vilji menn hljóta bænheyrslu verða þeir að ‚óttast Jehóva.‘ — Orðskviðirnir 1:7.
7. Hvað er ‚ótti Jehóva‘?
7 Hvað er ‚ótti Jehóva‘? Hann er djúp lotning fyrir Guði samfara heilnæmum ótta við að misþóknast honum. Þessi óttablandna lotning er sprottin af djúpu þakklæti vegna gæsku hans og ástríkrar elsku. (Sálmur 106:1) Hann felur í sér að viðurkenna Guð sem konung eilífðarinnar sem hefur rétt og mátt til að refsa öllum sem óhlýðnast — jafnvel með dauða. Þeir sem óttast Jehóva geta beðið til hans og vænst bænheyrslu.
8. Hvers vegna heyrir Guð bænir þeirra er óttast hann?
8 Að sjálfsögðu svarar Guð ekki bænum óguðlegra, ótrúfastra og þóttafullra manna. (Orðskviðirnir 15:29; Jesaja 1:15; Lúkas 18:9-14) En þeir sem óttast Jehóva fá bænheyrslu vegna þess að þeir hafa samstillt sig réttlátum stöðlum hans. En þeir þurfa að gera fleira. Þeir sem óttast Jehóva hafa vígst Guði í bæn og gefið tákn um vígsluna með því að skírast í vatni. Þar með njóta þeir sérréttinda bænarinnar að fullu.
9, 10. Geta óskírðir einstaklingar beðið í von um bænheyrslu?
9 Til að hljóta bænheyrslu verða menn að biðja innilega og í samræmi við vilja Guðs. En einlægnin ein nægir ekki. „Án trúar er ógerlegt að þóknast [Guði],“ skrifaði Páll postuli, „því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ (Hebreabréfið 11:6) Er þá hægt að hvetja óskírða einstaklinga til að biðja í von um bænheyrslu?
10 Salómon konungur gerði sér ljóst að bænin er sérréttindi aðeins takmarkaðs hóps og bað þess að Jehóva heyrði bænir útlendinga aðeins ef þeir sneru sér í átt til musterisins í Jerúsalem er þeir bæðu. (1. Konungabok 8:41-43) Öldum síðar var Kornelíus, maður af þjóðunum, „jafnan á bæn til Guðs.“ Eftir að hafa hlotið nákvæma þekkingu vígði hann sig Guði sem gaf honum heilagan anda. Síðan létu Kornelíus og aðrir heiðingjar skírast. (Postulasagan 10:1-44) Hvetja má hvern þann mann sem stefnir fram til vígslu til að biðja. En tæplega er hægt að segja að einstaklingur sem er óeinlægur í biblíunámi sínu, þekkir ekki kröfur Guðs varðandi bænina og hefur enn ekki látið í ljós viðhorf Guði að skapi, óttist Jehóva, hafi trú eða leiti hans í einlægni. Slíkur maður er ekki í aðstöðu til að biðja bæna sem Guði þóknast.
11. Hvað hefur gerst hjá sumum sem sóttu fram til vígslu og hvers ættu þeir að spyrja sig?
11 Sumir sem stefndu fram til vígslu virðast síðar hætta að taka framförum. Ef þeir bera ekki nægan kærleika til Guðs í hjörtum sér til að vígjast honum skilyrðislaust, þá ættu þeir að spyrja sig hvort þeir njóti enn hinna stórkostlegu sérréttinda sem bænin er. Telja verður að svo sé ekki því að til að nálgast Guð verða menn að leita hans í einlægni og ástunda jafnframt réttlæti og auðmýkt. (Sefanía 2:3) Aðeins þeir sem trúa, vígjast Guði og gefa tákn um vígslu sína með vatnsskírn, óttast Jehóva í raun og veru. (Postulasagan 8:13; 18:8) Einungis skírðir einstaklingar njóta þeirra sérréttinda að nálgast konung eilífðarinnar ótakmarkað í bæn.
„Biðjið í heilögum anda“
12. Hvenær má segja að maður ‚biðji í heilögum anda‘?
12 Eftir að einstaklingur vígist Guði og gefur tákn um það með skírn er hann í aðstöðu til að ‚biðja í heilögum anda.‘ Júdas skrifaði um það: „En þér, elskaðir, byggið yður sjálfa upp í yðar helgustu trú. Biðjið í heilögum anda. Varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs, og bíðið eftir náð Drottins vors Jesú Krists til eilífs lífs.“ (Júdasarbréfið 20, 21) Maður biður í heilögum anda er hann biður undir áhrifum anda Guðs eða starfskraftar og í samræmi við það sem segir í orði hans. Biblían, sem er rituð undir innblæstri anda Jehóva, sýnir okkur hvernig við eigum að biðja og um hvað. Til dæmis getum við óhikað beðið Guð að gefa okkur heilagan anda sinn. (Lúkas 11:13) Þegar við biðjum í heilögum anda endurspegla bænir okkar hjartaástand sem er Jehóva að skapi.
13. Hvað munum við forðast ef við biðjum í heilögum anda og hvaða heilræði Jesú munum við fylgja?
13 Bænir okkar eru ekki hljómmikil en innantóm orð er við biðjum í heilögum anda. Þær eru ekki þulur sem við förum með utanbókar. Þær eru ekki nánast merkingarlaus helgisiðalofgjörð, eins og tíðkast við guðsþjónustur, en hjartað er ekki með í. Þess konar bæna er beðið út um allan kristna heiminn og Babýlon hina miklu í heild, heimsveldi falskra trúarbragða. En sannkristnir menn fara eftir leiðbeiningu Jesú: „Þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. . . . Þegar þér biðjist fyrir, skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi að hætti heiðingja. Þeir hyggja [ranglega], að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína. Líkist þeim ekki.“ — Matteus 6:5-8.
14. Hvað hafa sumir sagt varðandi bænina?
14 Ýmsir fleiri en Jesús og biblíuritararnir hafa farið skarplegum orðum um bænina. Til dæmis sagði enski rithöfundurinn John Bunyan (1628-88): „Bæn er það að úthella sál sinni fyrir Guði, í einlægni, ástríki og skynsemi fyrir milligöngu Krists, með styrk og hjálp andans, biðja um það sem Guð hefur heitið.“ Púrítanapresturinn Thomas Brooks (1608-80) sagði: „Guð lítur ekki á mælsku bæn þinna, hve fágaðar þær eru; né rúmfræði bæna þinna, hve langar þær eru; né talnafræði bæna þinna, hve margar þær eru; né rökfræði bæna þinna, hve kerfisbundnar þær eru, heldur lítur hann á einlægni bæna þinna.“ Við þessi orð má bæta athugasemd Bunyans: „Í bæn er betra að hafa hjarta án orða en orð án hjarta.“ En ef við erum einlæg og fullnægjum skilyrðum Guðs, hvernig getum við treyst að konungur eilífðarinnar heyri bænir okkar?
Aldrei vísað frá
15. Hvað sagði Jesús efnislega í Lúkasi 11:5-8?
15 Jehóva Guð daufheyrist aldrei við bænum vígðra þjóna sinna. Það kemur fram í orðum Jesú er lærisveinar hans báðu hann að kenna þeim að biðja. Hann sagði meðal annars: „Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: ‚Vinur, lánaðu mér þrjú brauð, því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.‘ Myndi hinn þá svara inni: ‚Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð‘? Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.“ (Lúkas 11:1, 5-8) Hvað vildi Jesús segja með þessari dæmisögu?
16. Hvað vildi Jesús að við gerðum í sambandi við bænina?
16 Jesús átti auðvitað ekki við að Jehóva væri ófús að hjálpa okkur. Hann vildi að við treystum Guði skilyrðislaust og elskuðum hann nógu heitt til að biðja stöðugt. Jesús hélt því áfram: „Ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.“ (Lúkas 11:9, 10) Við ættum því að halda áfram að biðja þegar við verðum fyrir ofsóknum, einhver djúpstæður, persónulegur veikleiki hrjáir okkur eða einhver önnur prófraun. Jehóva er alltaf fús til að hjálpa trúföstum þjónum sínum. Hann segir aldrei: „Gjör mér ekki ónæði.“
17, 18. (a) Hvernig hvatti Jesús okkur til að biðja um heilagan anda og hvað gefur orðum hans aukinn kraft? (b) Hvernig líkti Jesús afstöðu Guðs við afstöðu föður til barna sinna?
17 Til að geta átt náið samband við Guð þörfnumst við heilags anda hans eða starfskraftar. Því hélt Jesús áfram: „Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn, eða sporðdreka ef hann biður um egg? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ (Lúkas 11:11-13) Matteus 7:9-11 talar um að gefa stein í stað brauðs. Það eykur kraftinn í orðum Jesú ef við höfum í huga að brauð í löndum Biblíunnar á þeim tíma voru ekki ósvipuð í laginu og flatur, kringlóttur steinn. Sumar tegundir höggorma líkjast vissum tegundum fiska, og þar er til lítill, hvítur sporðdreki sem minnir á egg. En hvers konar faðir myndi gefa barni sínu stein, höggorm eða sporðdreka ef það bæði um brauð, fisk eða egg?
18 Jesús líkti síðan viðskiptum Guðs við fjölskyldu dýrkenda sinna við það hvernig mennskir foreldrar koma fram við börn sín. Ef við, sem erum að meira eða minna leyti vond vegna arfgengrar syndar okkar, gefum börnum okkar góðar gjafir, hve miklu fremur hljótum við að vænta þess að himneskur faðir okkar gefi trúföstum þjónum sínum, sem biðja hann í einlægni, þá ágætu gjöf sem heilagur andi er!
19. (a) Hvað gaf Jesús í skyn með orðunum í Lúkasi 11:11-13 og Matteusi 7:9-11? (b) Hvernig lítum við á prófraunir okkar ef við leiðumst af heilögum anda?
19 Orð Jesú gefa í skyn að við ættum að biðja Guð um meira af heilögum anda hans. Ef við leiðumst af andanum munum við ekki kvarta yfir hlutskipti okkar í lífinu og líta á þrengingar og vonbrigði sem séu þau skaðleg. (Júdasarbréfið 16) Að vísu er það rétt að „maðurinn, af konu fæddur, lifir stutta stund og mettast órósemi,“ og margir hafa ekki lifað það að sjá vandamál sín og sorgir taka enda. (Jobsbók 14:1) En lítum aldrei á þrengingar okkar sem steina, höggorma og sporðdreka frá honum er heyrir bænir. Hann er sjálf ímynd kærleikans og prófreynir engan mann með því sem illt er. Þess í stað gefur hann okkur ‚sérhverja góða gjöf og fullkomna gáfu.‘ Að síðustu mun hann gera allt gott fyrir þá sem elska hann og óttast. (Jakobsbréfið 1:12-17; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Þeir sem hafa gengið í sannleikanum um árabil vita af eigin reynslu að sumar af erfiðustu prófraunum þeirra hafa, vegna bænar og trúar, verið þeim til góðs og aukið ávöxt anda Guðs í lífi þeirra. (3. Jóhannesarbréf 4) Hvaða aðra betri aðferð kunnum við til að læra að reiða okkur á föðurinn á himnum og fá hjálp til að rækta ávöxt andans sem er kærleikur, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trú, hógværð og sjálfstjórn? — Galatabréfið 5:22, 23.
20. Hvaða áhrif ættu orð Jesú í Lúkasi 11:5-13 að hafa á okkur?
20 Orð Jesú í Lúkasi 11:5-13 eru okkur þannig trygging fyrir kærleika Jehóva og innilegri umhyggju. Þau ættu að fylla hjörtu okkar djúpu þakklæti og kærleika. Þau ættu að styrkja trú okkar og auka löngun okkar til að ganga oft fram fyrir fótskör konungs aldanna og halda okkur í návist hans. Orð Jesú fullvissa okkur um að hann muni aldrei láta okkur hverfa tómhenta til baka. Það gleður himneskan föður okkar ef við vörpum byrðum okkar á hann. (Sálmur 55:23; 121:1-3) Og þegar við, trúfastir, vígðir þjónar hans, biðjum um heilagan anda, gefur hann okkur hann af örlæti. Þannig er hinn kærleiksríki Guð okkar og við getum treyst fullkomlega að hann heyri bænir okkar.
Manst þú?
◻ Fyrir milligöngu hvers verðum við að nálgast Guð í bæn og hvers vegna?
◻ Á hvaða veg er bænin sérréttindi sem aðeins sumum hlotnast?
◻ Hvað merkir það að ‚biðja í heilögum anda‘?
◻ Hvernig getur þú sannað út frá Ritningunni að Jehóva heyrir bænir trúfastra, skírðra votta sinna?
[Mynd á blaðsíðu 22]
Jehóva gefur þeim sem biðja hann heilagan anda eins og mennskir feður gefa börnum sínum góðar gjafir.