Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w97 1.9. bls. 21-27
  • Þjónaðu drottinhollur með skipulagi Jehóva

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Þjónaðu drottinhollur með skipulagi Jehóva
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Að einblína á ófullkomleika getur grafið undan hollustu
  • Ófullkomleiki sjálfra okkar
  • Varastu óhollustu í lævísum myndum
  • Hollusta stenst ofsóknir
  • Sjáðu hina hollu!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1996
  • „Þú einn ert trúr“
    Nálgastu Jehóva
  • Að standast hollustuprófið
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1996
  • Hollusta — hvað kostar hún?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1991
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
w97 1.9. bls. 21-27

Þjónaðu drottinhollur með skipulagi Jehóva

„Gagnvart hollum ert þú hollur.“ — 2. SAMÚELSBÓK 22:26, NW.

1, 2. Nefndu dæmi um hollustu sem við getum öll séð í söfnuðum okkar.

ÖLDUNGUR er að undirbúa ræðu sem hann ætlar að halda á kristinni samkomu. Það er áliðið kvölds og helst vildi hann hætta og slappa af, en hann heldur áfram að vinna til að leita upp dæmi og líkingar úr Biblíunni sem náð geta til hjartans og hvatt hjörðina. Útkeyrðir foreldrar í sama söfnuði vildu gjarnan vera heima kvöldið sem samkoman er haldin en í staðinn klæða þau börnin með þolinmæði og fara á samkomuna. Að samkomunni lokinni rabbar hópur kristinna manna saman um ræðu öldungsins. Systur nokkra langar hálfpartinn til að nefna að þessi sami bróðir hafi einu sinni sært hana en í staðinn talar hún með eldmóði um ákveðið atriði sem hann nefndi. Sérðu einhvern sameiginlegan þráð gegnum öll þessi dæmi?

2 Þessi þráður er hollusta. Öldungurinn þjónar hjörð Guðs með hollustu, foreldrarnir sækja safnaðarsamkomuna af hollustu og systirin styður öldungana með hollustu. (Hebreabréfið 10:24, 25; 13:17; 1. Pétursbréf 5:2) Já, á öllum sviðum lífsins sjáum við að fólk Jehóva er staðráðið í að þjóna drottinhollt með skipulagi hans.

3. Hvers vegna er mikilvægt að vera holl jarðnesku skipulagi Jehóva?

3 Jehóva sér mjög litla hollustu þegar hann horfir yfir þennan spillta heim. (Míka 7:2) Hann hlýtur að gleðjast mjög yfir því að sjá hollustu þjóna sinna. Já, hollusta þín gleður Guð en ergir Satan, uppreisnarsegginn forna, og sannar hann lygara. (Orðskviðirnir 27:11; Jóhannes 8:44) Þú mátt búast við að Satan reyni að grafa undan hollustu þinni við Jehóva og jarðneskt skipulag hans. Við skulum líta á nokkur dæmi um hvernig hann gerir það. Þannig sjáum við betur hvernig við getum verið drottinholl allt til enda. — 2. Korintubréf 2:11.

Að einblína á ófullkomleika getur grafið undan hollustu

4. (a) Hvers vegna er auðvelt að finna að þeim sem fara með forystu? (b) Hvernig reyndist Kóra ótrúr skipulagi Jehóva?

4 Þegar bróðir gegnir ábyrgðarstöðu geta gallar hans orðið auðsærri en ella. Það er auðvelt að benda á ‚flísina í auga bróður síns en látast ekki sjá bjálkann í eigin auga‘! (Matteus 7:1-5) En að einblína á gallana getur orðið kveikjan að óhollustu eða ótryggð. Við skulum sjá það með því að bera saman þá Kóra og Davíð. Kóra gegndi mikilli ábyrgðarstöðu og hafði sennilega verið drottinhollur um langt árabil, en svo varð hann metnaðargjarn. Honum gramdist yfirráð frænda sinna, þeirra Móse og Arons. Enda þótt Móse væri hógværastur manna er ljóst að Kóra fór að finna að honum. Trúlega sá hann ýmsa galla í fari Móse. En þessir gallar réttlættu ekki óhollustu Kóra við skipulag Jehóva og honum var útrýmt úr söfnuðinum. — 4. Mósebók 12:3; 16:11, 31-33.

5. Af hverju gat það verið freisting fyrir Davíð að gera uppreisn gegn Sál?

5 Davíð þjónaði hins vegar undir stjórn Sáls konungs. Sál hafði verið góður konungur en var orðinn illur. Davíð þurfti að sýna trú, þolgæði og jafnvel nokkra hugvitssemi til að forðast árásir hins öfundsjúka Sáls. En þegar Davíð hafði tækifæri til að hefna sín sagði hann að ‚Jehóva léti það vera fjarri honum‘ að gerast sekur um óhollustu gagnvart þeim sem Jehóva hefði smurt. — 1. Samúelsbók 26:11.

6. Hvað ættum við aldrei að gera þótt við komum auga á einhverja veikleika og galla í fari öldunganna?

6 Hvað gerum við ef sumir, sem fara með forystuna á meðal okkar, virðast dómgreindarlausir, hranalegir eða hlutdrægir? Kvörtum við undan þeim og stuðlum kannski að gagnrýnishug í söfnuðinum? Hættum við að mæta á kristnar samkomur í mótmælaskyni? Vissulega ekki! Við líkjum eftir Davíð og leyfum ekki göllum annarra að gera okkur ótrú Jehóva og skipulagi hans. — Sálmur 119:165.

7. Nefndu dæmi um þá spillingu sem þróaðist í sambandi við musterið í Jerúsalem. Hvernig leit Jesús á hana?

7 Besta dæmi meðal manna um hollustu er Jesús Kristur sem spádómlega er kallaður ‚hollur‘ þjónn Jehóva. (Sálmur 16:10, NW) Spillingin í musterinu í Jerúsalem og misnotkun þess hlýtur að hafa reynt á hollustu hans. Jesús vissi að starf æðstaprestsins og fórnirnar voru táknmyndir um þjónustu sína og fórnardauða, og hann vissi hve mikilvægt það væri að fólk lærði af því. Hann var því fullur réttlátrar reiði þegar hann sá að musterið var orðið að „ræningjabæli.“ Tvisvar beitti hann valdinu, sem Guð gaf honum, til að hreinsa það.a — Matteus 21:12, 13; Jóhannes 2:5-17.

8. (a) Hvernig sýndi Jesús hollustu gagnvart musterisfyrirkomulaginu? (b) Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta tilbeiðsluna á Jehóva með hreinu skipulagi hans?

8 Engu að síður studdi Jesús musterisfyrirkomulagið af hollustu. Frá bernsku sótti hann hátíðirnar í musterinu og kenndi oft þar. Hann greiddi jafnvel musterisskattinn — þótt honum bæri í rauninni ekki skylda til þess. (Matteus 17:24-27) Jesús hrósaði fátæku ekkjunni fyrir að setja „alla björg sína“ í fjárhirslu musterisins. Skömmu eftir það hafnaði Jehóva þessu musteri fyrir fullt og allt. En þangað til sýndi Jesús því hollustu. (Markús 12:41-44; Matteus 23:38) Jarðneskt skipulag Guðs nú á dögum er miklu fremra gyðingakerfinu með musteri sínu. Auðvitað er það ekki fullkomið; þess vegna þarf stundum að gera breytingar. En það er ekki undirlagt spillingu og Jehóva Guð er ekki í þann mund að víkja því úr vegi. Við ættum aldrei að láta nokkurn ófullkomleika, sem við verðum vör innan þess, gera okkur beisk, gagnrýnin eða aðfinnslusöm. Líkjum heldur eftir hollustu Jesú Krists. — 1. Pétursbréf 2:21.

Ófullkomleiki sjálfra okkar

9, 10. (a) Hvernig notfærir heimskerfi Satans sér ófullkomleika okkar í því skyni að lokka okkur til óhollustu í hegðun? (b) Hvað ætti sá maður að gera sem framið hefur alvarlega synd?

9 Satan reynir líka að hvetja til óhollustu með því að notfæra sér ófullkomleika okkar. Heimskerfi hans spilar á veikleika okkar og reynir að freista okkar til að gera það sem er rangt í augum Jehóva. Því miður gerast þúsundir manna sekar um siðleysi ár hvert. Sumir bæta gráu ofan á svart með því að lifa tvöföldu lífi og halda áfram á syndabraut en þykjast vera trúfastir kristnir menn. Ung kona skrifaði eftir að greinar birtust um þetta efni í greinaröðinni „Ungt fólk spyr . . . “ í tímaritinu Vaknið!: „Greinarnar voru eins og ævisaga mín.“ Í laumi hafði hún ræktað vináttubönd við unglinga sem elskuðu ekki Jehóva. Hún lýsir afleiðingunum: „Ég sökk alveg niður á botninn, lenti í siðleysi og fékk áminningu. Samband mitt við Jehóva beið tjón og traust foreldra minna og öldunganna til mín var horfið.“b

10 Þessi unga kona fékk hjálp öldunganna og tók aftur að þjóna Jehóva með hollustu. En því miður fer miklu verr fyrir mörgum og sumir snúa aldrei aftur til safnaðarins. Það er miklu betra að vera drottinhollur og standa gegn freistingum þessa illa heims. Hlýddu viðvörunum tímaritanna Varðturnsins og Vaknið! um mál eins og veraldlegan félagsskap og auvirðandi skemmtiefni. Megir þú aldrei gerast sekur um óhollustu í hegðun, en ef þú gerir það skaltu aldrei þykjast vera annað en þú ert. (Sálmur 26:4) Leitaðu heldur til kristinna foreldra þinna og öldunganna sem eru boðnir og búnir að hjálpa þér. — Jakobsbréfið 5:14.

11. Af hverju væri rangt að álíta okkur svo slæm að okkur sé ekki viðbjargandi, og hvaða fordæmi úr Biblíunni getur hjálpað okkur að leiðrétta viðhorf okkar?

11 Ófullkomleikinn getur sett okkur í aðra hættu. Sumir hætta að reyna að þóknast Jehóva eftir að þeir hafa gerst sekir um óhollustu í verki. Þú manst að Davíð drýgði mjög alvarlegar syndir, en löngu eftir dauða hans nefndi Jehóva hann sem trúfastan þjón sinn. (Hebreabréfið 11:32; 12:1) Hvers vegna? Vegna þess að hann hætti aldrei að reyna að þóknast Jehóva. Orðskviðirnir 24:16 segja: „Sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur aftur upp.“ Þótt við drýgjum smásyndir — jafnvel æ ofan í æ — vegna einhvers veikleika sem við eigum í höggi við, getum við samt verið réttlát í augum Jehóva ef við höldum áfram að ‚standa aftur upp,‘ það er að segja iðrumst einlæglega og tökum aftur upp þráðinn í dyggri þjónustu. — Samanber 2. Korintubréf 2:7.

Varastu óhollustu í lævísum myndum

12. Hvernig leiddi ströng trú faríseanna á lagabókstafinn til óhollustu?

12 Óhollusta birtist líka í lævísari myndum, jafnvel dulbúin sem hollusta! Farísearnir á dögum Jesú litu sennilega á sig sem einstaklega drottinholla.c Þeir sáu hins vegar ekki muninn á hollustu og ósveigjanlegri fastheldni við mannareglur, því að þeir voru strangir og sérlega dómharðir. (Samanber Prédikarann 7:16.) Með því voru þeir raunverulega ótrúir — fólkinu sem þeir áttu að þjóna, anda lögmálsins sem þeir sögðust kenna og Jehóva sjálfum. Jesús var hins vegar trúr anda lögmálsins sem byggðist á kærleika. Með því uppbyggði hann fólk og hvatti það alveg eins og Messíasarspádómarnir höfðu sagt fyrir. — Jesaja 42:3; 50:4; 61:1, 2.

13. (a) Hvernig gætu kristnir foreldrar verið ótrúir? (b) Af hverju ættu foreldrar ekki að vera óhóflega harðneskjulegir, gagnrýnir eða aðfinnslusamir í ögun barna sinna?

13 Kristnir menn, sem fara með einhver yfirráð, hafa mikið gagn af fyrirmynd Jesú að þessu leyti. Trúir foreldrar vita til dæmis að þeir verða að aga börn sín. (Orðskviðirnir 13:24) Þeir gæta þess þó að angra börnin ekki með stöðugri gagnrýni eða með harðneskjulegum aga sem beitt er í reiði. Börn, sem finnst þau aldrei geta þóknast foreldrum sínum eða finnst tilbeiðsla foreldranna aðeins gera þá aðfinnslusama og gagnrýna, geta orðið niðurdregin og ístöðulaus og síðan afhuga sannri trú. — Kólossubréfið 3:21.

14. Hvernig geta kristnir hirðar reynst hollir hjörðinni sem þeir þjóna?

14 Kristnir öldungar og farandumsjónarmenn gefa líka gaum að vandamálum og hættum sem blasa við hjörðinni. Þeir eru drottinhollir hirðar, gefa ráð þegar þörf er á, fullvissa sig um að þeir þekki allar staðreyndir áður og byggja það sem þeir segja á Biblíunni og ritum Félagsins. (Sálmur 119:105; Orðskviðirnir 18:13) Þeir vita líka að sauðirnir reiða sig á andlega uppbyggingu og næringu frá þeim. Þeir leitast því við að líkja eftir Jesú Kristi, góða hirðinum. Þeir þjóna sauðunum með hollustu viku eftir viku á kristnum samkomum — ekki til að brjóta þá niður heldur byggja upp og styrkja í trúnni. — Matteus 20:28; Efesusbréfið 4:11, 12; Hebreabréfið 13:20, 21.

15. Hvernig sýndu sumir á fyrstu öld að þeir beindu hollustu sinni í ranga átt?

15 Að veita óverðugum hollustu er önnur lævís óhollusta. Sönn hollusta í biblíulegum skilningi leyfir ekki að við tökum neitt fram yfir hollustu okkar við Jehóva Guð. Margir Gyðingar á fyrstu öld ríghéldu í Móselögmálið og gyðingakerfið. En tími Jehóva var kominn til að flytja blessun sína frá þessari uppreisnargjörnu þjóð yfir til hinnar andlegu Ísraelsþjóðar. Aðeins tiltölulega fáir sýndu honum hollustu og löguðu sig að þessari þýðingarmiklu breytingu. Þeir voru jafnvel til meðal sannkristinna manna sem vildu fylgja siðum og skoðunum Gyðinga og vildu eindregið snúa aftur til ‚veikra og fátæklegra‘ frumatriða Móselaganna sem höfðu uppfyllst í Kristi. — Galatabréfið 4:9; 5:6-12; Filippíbréfið 3:2, 3.

16. Hvernig bregðast drottinhollir þjónar Jehóva við breytingum?

16 Þjónar Jehóva nú á tímum hafa hins vegar reynst drottinhollir á tímum mikilla breytinga. Breytingar eru gerðar jafnhliða sívaxandi ljósi opinberaðra sanninda. (Orðskviðirnir 4:18) Fyrir skömmu hjálpaði hinn „trúi og hyggni þjónn“ okkur að bæta skilning okkar á hugtakinu „kynslóð“ eins og það er notað í Matteusi 24:34, og á dómstíma ‚sauðanna‘ og ‚hafranna‘ sem nefndur er í Matteusi 25:31-46, svo og á afstöðu okkar til vissrar borgaralegrar þjónustu. (Matteus 24:45) Eflaust hefðu sumir fráhvarfsmenn fagnað því ef margir vottar Jehóva hefðu ríghaldið í fyrri skilning á slíkum málum og neitað að taka framförum. Ekkert slíkt gerðist. Af hverju? Af því að þjónar Jehóva eru drottinhollir.

17. Hvernig gætu ástvinir stundum reynt á hollustu okkar?

17 En óverðug hollusta gæti höggvið okkur nær en þetta. Þegar náinn vinur eða jafnvel ættingi tekur stefnu sem gengur í berhögg við meginreglur Biblíunnar finnst okkur kannski að við séum milli steins og sleggju. Við finnum eðlilega til hollustu gagnvart ættingjum okkar. En við ættum aldrei að láta hollustu við þá ganga fyrir hollustu okkar við Jehóva! (Samanber 1. Samúelsbók 23:16-18.) Við ættum hvorki að hjálpa syndurum að fela alvarlega synd né taka afstöðu með þeim gegn öldungum sem eru að reyna að ‚leiðrétta þá með hógværð.‘ (Galatabréfið 6:1) Það væri óhollusta við Jehóva, skipulag hans og ástvin okkar. Með því að koma í veg fyrir að syndari fái þann aga, sem hann þarfnast, erum við í reynd að hindra að kærleikur Jehóva nái til hans. (Hebreabréfið 12:5-7) Munum líka að „vel meint eru vinar sárin.“ (Orðskviðirnir 27:6) Hreinskilnisleg, kærleiksrík ráð byggð á orði Guðs gætu sært stolt villuráfandi ástvinar en þau gætu bjargað lífi hans til langs tíma litið.

Hollusta stenst ofsóknir

18, 19. (a) Hvað vildi Akab fá frá Nabót og hvers vegna neitaði Nabót? (b) Var hollusta Nabóts afleiðinganna virði? Gefðu skýringu.

18 Stundum gerir Satan beinar árásir á hollustu okkar. Tökum Nabót sem dæmi. Þegar Akab konungur lagði fast að honum að selja sér víngarð sinn svaraði hann: „[Jehóva] forði mér frá að farga til þín arfleifð feðra minna.“ (1. Konungabók 21:3) Þetta var ekki þrjóska hjá Nabót heldur hollusta. Móselögin kváðu á um að enginn Ísraelsmaður mætti selja erfðaland sitt fyrir fullt og allt. (3. Mósebók 25:23-28) Nabót vissi auðvitað að þessi grimmi konungur gæti látið drepa hann því að hann hafði þegar látið konu sína, Jesebel, drepa marga af spámönnum Jehóva! Samt var hann staðfastur. — 1. Konungabók 18:4.

19 Hollusta kostar stundum sitt. Með hjálp nokkurra ‚varmenna‘ lét Jesebel sakfella Nabót fyrir glæp sem hann hafði ekki drýgt. Það varð til þess að hann og börn hans voru líflátin. (1. Konungabók 21:7-16; 2. Konungabók 9:26) Þýðir það að Nabót hafi veitt óverðugum hollustu sína? Nei, Nabót er einn margra drottinhollra karla og kvenna sem eru ‚lifandi‘ í minni Jehóva á þessari stundu og sofa óhultir í gröfinni uns upprisutíminn gengur í garð. — Lúkas 20:38; Postulasagan 24:15.

20. Hvernig getur von hjálpað okkur að varðveita hollustu?

20 Þetta sama fyrirheit styrkir drottinholla þjóna Jehóva nú á dögum. Við vitum að hollusta getur reynst okkur dýrkeypt í þessum heimi. Jesús Kristur galt fyrir hollustu sína með lífinu og hann sagði fylgjendum sínum að þeir fengju sams konar meðferð. (Jóhannes 15:20) Framtíðarvonin getur haldið okkur uppi líkt og framtíðarvon hans hélt honum uppi. (Hebreabréfið 12:2) Þannig getum við verið drottinholl andspænis alls konar ofsóknum.

21. Hvaða vissu veitir Jehóva drottinhollum þjónum sínum?

21 Tiltölulega fáir verða fyrir slíkum beinum árásum nú á tímum. Hins vegar getur fólk Guðs orðið fyrir meiri ofsóknum áður en endirinn kemur. Hvernig getum við tryggt að við varðveitum hollustu? Með því að vera drottinholl núna. Jehóva hefur fengið okkur mikið verk að vinna — að prédika ríki sitt og kenna. Höldum áfram að vinna þetta mikilvæga verk dyggilega. (1. Korintubréf 15:58) Ef við leyfum ekki mannlegum ófullkomleika að grafa undan hollustu okkar við skipulag Jehóva og gætum okkar á lævísri ótryggð svo sem óverðugri hollustu, þá verðum við betur búin undir alvarlegri prófraunir á hollustu okkar. Að minnsta kosti getum við treyst að Jehóva sé ávallt hollur dyggum þjónum sínum. (2. Samúelsbók 22:26, NW) Já, hann verndar holla þjóna sína. — Sálmur 97:10.

[Neðanmáls]

a Jesús þurfti að vera hugrakkur til að ráðast gegn svona arðbærri starfsemi. Að sögn sagnfræðings þurfti að greiða musterisskattinn með ákveðinni, fornri mynt Gyðinga. Margir musterisgestir þurftu því að skipta peningum til að greiða skattinn. Víxlurunum var leyft að taka ákveðna þóknun fyrir skiptin og högnuðust verulega á því.

b Sjá Vaknið! (enska útgáfu) 22. desember 1993, 8. janúar 1994 og 22. janúar 1994.

c Bræðralag þeirra átti rót sína að rekja til hasída, hóps sem kom fram öldum áður og barðist gegn grískum áhrifum. Hasídar sóttu nafn sitt í hebreska orðið chasidimʹ sem merkir „hinir hollu“ eða „hinir guðræknu.“ Kannski fannst þeim ritningarstaðir, sem nefndu ‚holla‘ þjóna Jehóva, eiga sérstaklega við sig. (Sálmur 50:5, NW) Þeir og farísearnir, sem á eftir komu, voru ofstækisfullir, sjálfskipaðir verjendur lagabókstafsins.

Hvert er svar þitt?

◻ Hvernig getum við forðast að ófullkomleiki annarra geri okkur ótrú?

◻ Á hvaða vegu gæti ófullkomleiki okkar sjálfra gert okkur ótrú í hegðun?

◻ Hvernig getum við staðist tilhneiginguna til að veita óverðugum hollustu okkar?

◻ Hvað hjálpar okkur að varðveita hollustu jafnvel á ofsóknartímum?

[Rammi á blaðsíðu 25]

Drottinholl þjónusta á Betel

„Allt fari sómasamlega fram og með reglu,“ skrifaði Páll postuli. (1. Korintubréf 14:40) Páll vissi að það þyrfti að vera viss ‚regla‘ eða skipulag til að söfnuður væri starfhæfur. Nú á dögum þurfa öldungar líka að taka ákvarðanir um ýmis mál, svo sem að raða safnaðarmönnum niður í bóknámshópa, skipuleggja samkomur fyrir boðunarstarfið og fylgjast með yfirferð starfssvæðisins. Slíkar ráðstafanir geta stundum reynt á hollustu manna. Hér er ekki um að ræða innblásin fyrirmæli og þau geta ekki komið til móts við óskir hvers einasta manns.

Finnst þér stundum erfitt að fylgja sumum ráðstöfunum sem gerðar eru í kristna söfnuðinum? Þá gæti verið gagnlegt fyrir þig að líta á Betel sem fordæmi. Nafnið Betel er hebreskt og merkir „hús Guðs“ og það er gefið öllum 104 útibúum Varðturnsfélagsins, einnig aðalstöðvunum í Bandaríkjunum.d Sjálfboðaliðarnir, sem búa og starfa í betelbyggingunum, vilja að þessir staðir endurspegli virðingu og lotningu fyrir Jehóva. Það útheimtir hollustu af hverjum og einum.

Gestir, sem koma á Betel, minnast oft á hve góð regla sé á öllu og allt hreinlegt. Starfsmennirnir eru glaðir og vinna skipulega. Tal þeirra, hegðun og meira að segja útlit endurspeglar þroskaða, biblíufrædda, kristna samvisku. Allir innan betelfjölskyldunnar halda sér drottinhollir við staðla orðs Guðs.

Auk þess lætur hið stjórnandi ráð þeim í té handbók sem nefnist Búið saman í einingu, en þar eru settar fram ýmsar hagnýtar leiðbeiningar sem nauðsynlegar eru til að svona stór fjölskylda geti unnið vel saman. (Sálmur 133:1) Hún fjallar til dæmis um íbúðarherbergi, máltíðir, hreinlæti, klæðnað, snyrtingu og áþekk mál. Þeir sem tilheyra betelfjölskyldunni styðja þetta fyrirkomulag dyggilega og fylgja því, jafnvel þótt persónulegur smekkur þeirra segi kannski annað. Þeir líta ekki á efni þessarar handbókar sem kuldalegar reglur heldur sem gagnlegar viðmiðunarreglur er stuðla að einingu og samlyndi. Umsjónarmenn styðja þessar biblíulegu aðferðir og beita þeim á jákvæðan hátt til að uppbyggja og hvetja betelfjölskylduna til að stunda heilaga betelþjónustu sína.

d Þessar prentsmiðjur, skrifstofur og íbúðarbyggingar eru ekki hið mikla, andlega musteri eða hús Guðs. Andlegt musteri Guðs er hið hreina tilbeiðslufyrirkomulag hans. (Míka 4:1) Sem slíkt takmarkast það ekki við neitt jarðneskt hús.

[Rammi á blaðsíðu 26]

Maður hollustunnar og maður bókstafsins

Árið 1916 benti alfræðibókin Encyclopædia of Religion and Ethics á að „munurinn á manni hollustunnar og manni bókstafsins sjáist alls staðar og á öllum tímum.“ Bókin sagði: „Bókstafsmaðurinn gerir það sem honum er sagt, brýtur engar reglur; hann er trúr hinu ritaða orði. Drottinhollur maður gerir þetta en . . . það má reikna með meiru af honum, hann gegnir skyldu sinni af heilum hug, hann lagar hugarfar sitt að anda þess tilgangs sem þjóna ber.“ Síðar í sama verki segir: „Að vera drottinhollur er miklu meira en að vera löghlýðinn. . . . Drottinhollur maður er ólíkur löghlýðnum manni að því leyti að hann þjónar af heilu hjarta og hug . . . Hann leyfir sér engar sjálfvilja-, vanrækslu- eða vanþekkingarsyndir.“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila