Þjónaðu Jehóva með glöðu hjarta
„Allar þessar bölvanir munu koma fram á þér . . . fyrir því að þú þjónaðir ekki [Jehóva] Guði þínum með gleði og fúsu geði [„fögnuði og glöðu hjarta,“ NW].“ — 5. MÓSEBÓK 28:45-47.
1. Hvað sýnir að þeir sem þjóna Jehóva eru glaðir, hvar sem þeir þjóna honum?
ÞJÓNAR Jehóva gera vilja hans með gleði, hvort heldur það er á himni eða jörð. „Morgunstjörnurnar,“ englarnir, sungu gleðisöng við grundvöllun jarðar og hinar miklu himnesku englasveitir ‚framkvæma boð Guðs‘ vafalaust með gleði. (Jobsbók 38:4-7; Sálmur 103:20) Eingetinn sonur Jehóva var glaður ‚verkstjóri‘ á himnum og hafði yndi af því að gera vilja hans á jörðinni sem maðurinn Jesús Kristur. Og „vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs.“ — Orðskviðirnir 8:30, 31; Hebreabréfið 10:5-10; 12:2.
2. Hvað réði úrslitum um hvort Ísraelsmenn hlutu blessun eða bölvun?
2 Ísraelsmenn voru glaðir þegar þeir þóknuðust Guði. En hvað þá ef þeir óhlýðnuðust honum? Ísrael fékk þessa viðvörun: „[Bölvanir] skulu fylgja þér og niðjum þínum ævinlega sem tákn og undur. Fyrir því að þú þjónaðir ekki [Jehóva] Guði þínum með gleði og fúsu geði [„fögnuði og glöðu hjarta,“ NW], af því að þú hafðir allsnægtir, þá skalt þú þjóna óvinum þínum, þeim er [Jehóva] sendir í móti þér, hungraður og þyrstur, klæðlaus og farandi alls á mis, og hann mun leggja járnok á háls þér, uns hann hefir gjöreytt þér.“ (5. Mósebók 28:45-48) Blessanir og bölvanir sýndu greinilega hverjir voru þjónar Jehóva og hverjir ekki. Slíkar bölvanir staðfestu líka að það er ekki hægt að lítilsvirða eða vera léttúðugur gagnvart meginreglum Guðs og tilgangi. Þar eð Ísraelsmenn neituðu að taka mark á viðvörunum Jehóva um eyðingu og útlegð varð Jerúsalem „að formæling fyrir allar þjóðir jarðarinnar.“ (Jeremía 26:6) Við skulum því hlýða Guði og njóta hylli hans. Gleði er ein af mörgum blessunum sem guðræknir menn njóta.
Hvernig er hægt að þjóna með „glöðu hjarta“
3. Hvert er hið táknræna hjarta?
3 Ísraelsmenn áttu að þjóna Jehóva „með fögnuði og glöðu hjarta.“ Sama gildir um þjóna Guðs núna. Að fagna er að gleðjast, vera fullur gleði. Enda þótt hið líkamlega hjarta sé nefnt í Biblíunni hugsar það ekki bókstaflega eða ályktar. (2. Mósebók 28:30, NW) Meginhlutverk þess er að dæla blóðinu sem nærir líkamsfrumurnar. Langoftast á Biblían þó við hið táknræna hjarta sem er meira en setur ástúðar, hvata og vitsmuna. Það er sagt standa fyrir „miðdepil almennt, hið innra og þar með hinn innri mann eins og hann birtist í öllum hinum mismunandi athöfnum sínum, þrám, ástúð, tilfinningum, ástríðum, tilgangi, hugsunum, skynjunum, ímyndun, visku, þekkingu, kunnáttu, trú og rökhugsun, minni og meðvitund.“ (Journal of the Society of Biblical Literature and Exegesis, 1882, bls. 67) Hið táknræna hjarta felur í sér tilfinningar okkar og kenndir, þeirra á meðal gleði og fögnuð. — Jóhannes 16:22.
4. Hvað getur hjálpað okkur að þjóna Jehóva Guði með glöðu hjarta?
4 Hvað getur hjálpað okkur að þjóna Jehóva með glöðu hjarta? Jákvætt og þakklátt viðhorf til þeirrar blessunar og sérréttinda, sem Guð hefur gefið okkur, skiptir máli. Við getum til dæmis hugsað með gleði til þeirra sérréttinda að veita hinum sanna Guði „heilaga þjónustu.“ (Lúkas 1:74, NW) Önnur skyld sérréttindi eru þau að bera nafn Jehóva sem vottar hans. (Jesaja 43:10-12) Við það má svo bæta þeirri gleðilegu vitneskju að við þóknumst Guði með því að hlýða orði hans. Og hvílík gleði er það ekki að endurkasta andlegu ljósi og hjálpa þannig mörgum að komast út úr myrkrinu! — Matteus 5:14-16; samanber 1. Pétursbréf 2:9.
5. Hver er uppspretta gleðinnar frá Guði?
5 En að þjóna Jehóva með glöðu hjarta er meira en bara að hugsa jákvætt. Það er gott að hafa jákvæð viðhorf. En við byggjum ekki upp gleði frá Guði með því að þroska skapgerð okkar. Gleðin er ávöxtur anda Jehóva. (Galatabréfið 5:22, 23) Ef við höfum ekki slíka gleði getum við þurft að breyta einhverju til að hugsa ekki eða hegða okkur á einhvern óbiblíulegan hátt sem gæti hryggt anda Guðs. (Efesusbréfið 4:30) En við sem erum vígð Jehóva skulum hins vegar aldrei óttast að skortur á hjartans gleði af og til sé merki um vanþóknun hans. Við erum ófullkomin og undirorpin sársauka, hryggð og jafnvel stundum þunglyndi, en Jehóva skilur okkur. (Sálmur 103:10-14) Við skulum því biðja um heilagan anda Guðs minnug þess að ávöxtur andans, gleðin, er gjöf Guðs. Kærleiksríkur himneskur faðir okkar mun svara slíkum bænum og gera okkur kleift að þjóna sér með glöðu hjarta. — Lúkas 11:13.
Þegar gleðina vantar
6. Hvað ættum við að gera ef gleðina vantar í þjónustu okkar við Guð?
6 Ef gleðina vantar í þjónustu okkar gætum við á endanum slegið slöku við eða jafnvel reynst Jehóva ótrú. Þess vegna væri viturlegt að íhuga hvatir okkar í auðmýkt og bænarhug og lagfæra það sem þarf. Til að njóta gleðinnar, sem Jehóva gefur, verðum við að þjóna honum af kærleika og af öllu hjarta, sálu og huga. (Matteus 22:37) Við megum ekki þjóna af samkeppnishug því að Páll skrifaði: „Fyrst andinn er líf vort skulum vér lifa í andanum! Verum ekki hégómagjarnir, svo að vér áreitum hver annan og öfundum hver annan.“ (Galatabréfið 5:25, 26) Við njótum ekki sannrar gleði ef við þjónum af því að okkur langar til að skara fram úr öðrum eða fá hrós.
7. Hvernig getum við endurlífgað hjartans gleði okkar?
7 Það veitir gleði að framfylgja vígsluheiti okkar við Jehóva. Þegar við vígðumst Guði tókum við að ganga hina kristnu lífsbraut með kostgæfni. Við numum Ritninguna og tókum reglulega þátt í samkomunum. (Hebreabréfið 10:24, 25) Það veitti okkur gleði að taka þátt í þjónustunni. En hvað nú ef gleði okkar hefur dvínað? Biblíunám, samkomusókn, þátttaka í þjónustunni — já, full þátttaka í öllum greinum kristninnar — ætti að veita lífi okkar andlega kjölfestu og endurlífga bæði fyrri kærleika okkar og hjartans gleði. (Opinberunarbókin 2:4) Þá verðum við ekki eins og sumir sem eru frekar gleðivana og þarfnast oft andlegrar aðstoðar. Öldungarnir hjálpa fúslega, en við verðum hvert og eitt að framfylgja vígsluheiti okkar við Guð. Enginn getur gert það fyrir okkur. Við skulum því einsetja okkur að fylgja eðlilegum kristnum venjum í þeim tilgangi að framfylgja vígsluheiti okkar við Jehóva og njóta sannrar gleði.
8. Af hverju er hrein samviska mikilvæg ef við viljum vera glöð?
8 Til að njóta þeirrar gleði, sem er ávöxtur anda Guðs, þurfum við að hafa hreina samvisku. Davíð Ísraelskonungi leið ömurlega meðan hann reyndi að leyna synd sinni. Meira að segja virtist lífsvökvi hans þverra og hann kann að hafa veikst líkamlega. Hvílíkur léttir fyrir hann þegar hann iðraðist og játaði synd sína! (Sálmur 32:1-5) Við getum ekki verið glöð ef við leynum einhverri alvarlegri synd. Það gæti hæglega valdið okkur áhyggjum, óróa og erfiðleikum. Vissulega er það ekki leiðin til að vera glaður. En okkur léttir við það að játa og iðrast og endurlífgum gleðina. — Orðskviðirnir 28:13.
Beðið með gleði
9, 10. (a) Hvaða loforð var Abraham veitt en hvernig kann trú hans og gleði að hafa verið reynd? (b) Hvernig getum við notið góðs af fordæmi Abrahams, Ísaks og Jakobs?
9 Það er eitt að vera glöð þegar við lærum fyrst um tilgang Guðs en allt annað að varðveita gleðina þegar árin líða. Hinn trúfasti Abraham er dæmi um það. Eftir að hann reyndi að fórna Ísak syni sínum að boði Guðs flutti engill honum þennan boðskap: „‚Ég sver við sjálfan mig,‘ segir [Jehóva], ‚að fyrst þú gjörðir þetta og synjaðir mér eigi um einkason þinn, þá skal ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt, sem stjörnur á himni, sem sand á sjávarströnd. Og niðjar þínir skulu eignast borgarhlið óvina sinna. Og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, vegna þess að þú hlýddir minni röddu.‘“ (1. Mósebók 22:15-18) Vafalaust var Abraham yfir sig glaður að fá þetta fyrirheit.
10 Abraham kann að hafa búist við að Ísak yrði ‚afkvæmið‘ sem myndi miðla hinni fyrirheitnu blessun. En árin liðu og ekkert stórkostlegt gerðist fyrir tilverknað Ísaks og það kann að hafa reynt á trú og gleði Abrahams og fjölskyldu hans. Guð staðfesti fyrirheitið við Ísak og síðar við Jakob son hans. Það hefur fullvissað þá um að afkvæmið væri enn ókomið og hjálpað þeim að varðveita trú sína og gleði. Þótt Abraham, Ísak og Jakob dæju án þess að sjá fyrirheit Guðs við sig rætast voru þeir ekki gleðivana þjónar Jehóva. (Hebreabréfið 11:13) Við getum líka haldið áfram að þjóna Jehóva með trú og gleði meðan við bíðum þess að fyrirheit hans rætist.
Gleði þrátt fyrir ofsóknir
11. Af hverju getum við verið glöð þrátt fyrir ofsóknir?
11 Sem þjónar Jehóva getum við þjónað honum með glöðu hjarta jafnvel þótt við séum ofsótt. Jesús lýsti þá sæla eða hamingjusama sem væru ofsóttir hans vegna og Pétur postuli sagði: „Gleðjist heldur er þér takið þátt í píslum Krists, til þess að þér einnig megið gleðjast miklum fögnuði við opinberun dýrðar hans. Sælir eruð þér, er þér eruð smánaðir vegna nafns Krists, því að andi dýrðarinnar, andi Guðs hvílir þá yfir yður.“ (1. Pétursbréf 4:13, 14; Matteus 5:11, 12) Ef þú ert ofsóttur og þjáist fyrir réttlætis sakir hefur þú anda Jehóva og velþóknun og það stuðlar sannarlega að gleði.
12. (a) Hvers vegna getum við staðist trúarraunir með gleði? (b) Hvaða lærdóm má draga af reynslu levíta nokkurs sem var í útlegð?
12 Við getum staðist trúarraunir með gleði vegna þess að Guð er hæli okkar. Það kemur vel fram í Sálmi 42 og 43. Einhverra orsaka vegna var levítí nokkur í útlegð. Svo mjög saknaði hann tilbeiðslunnar í helgidómi Guðs að honum leið eins og þyrstri hind sem þráir vatn í þurru og ófrjóu landi. Hann ‚þyrsti‘ eftir eða þráði Jehóva og þau sérréttindi að tilbiðja hann í helgidómi hans. (Sálmur 42:2, 3) Reynsla þessa útlaga ætti að hvetja okkur til að sýna þakklæti fyrir samfélagið sem við njótum við fólk Jehóva. Ef aðstæður, svo sem ofsóknir og fangavist, kæmu um tíma í veg fyrir að við gætum verið með trúbræðrum okkar, ættum við að rifja upp gamlar gleðistundir sem við höfum átt með þeim í heilagri þjónustu Guðs, og biðja um þolgæði meðan við ‚vonum á Guð‘ og bíðum þess að hann reisi okkur við til reglulegs starfs með dýrkendum sínum. — Sálmur 42:5, 6, 12; 43:3-5.
‚Þjónið Jehóva með gleði‘
13. Hvernig sýnir Sálmur 100:1, 2 að gleði verður að vera snar þáttur í þjónustu okkar við Guð?
13 Gleði verður að vera snar þáttur í þjónustu okkar við Guð. Það kemur fram í þakkarljóði sem sálmaritarinn söng: „Öll veröldin fagni fyrir [Jehóva]! Þjónið [Jehóva] með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!“ (Sálmur 100:1, 2) Jehóva er ‚hinn sæli Guð‘ og vill að þjónar hans hafi ánægju af því að framfylgja vígsluheiti sínu við hann. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Bi 1912) Menn af öllum þjóðum ættu að gleðjast í Jehóva og lofgerð okkar ætti að vera sterk, eins og ‚fagnaðaróp‘ sigursæls hers. Þjónusta við Guð er hressandi þannig að hún ætti að vera gleðileg. Þess vegna hvatti sálmaritarinn fólk til að ganga fram fyrir Guð „með fagnaðarsöng.“
14, 15. Hvernig á Sálmur 100:3-5 við glaða þjóna Jehóva nú á tímum?
14 Sálmaritarinn bætti við: „Vitið [kannist við, viðurkennið], að [Jehóva] er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.“ (Sálmur 100:3) Þar eð Jehóva er skapari okkar á hann okkur eins og hirðir sauði. Guð annast okkur svo vel að við lofum hann full þakklætis. (Sálmur 23) Sálmaritarinn söng einnig um Jehóva: „Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans. Því að [Jehóva] er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.“ — Sálmur 100:4, 5.
15 Glaðir menn af öllum þjóðum koma nú inn í forgarða helgidóms Jehóva með lofsöng og þakkargerð. Við vegsömum nafn Jehóva með gleði og tölum alltaf vel um hann, og stórkostlegir eiginleikar hans fá okkur til að syngja honum lof. Hann er algóður og alltaf er hægt að reiða sig á ástríka góðvild hans eða meðaumkun og umhyggju fyrir þjónum sínum, því að hún varir að eilífu. „Frá kyni til kyns“ er Jehóva trúfastur í því að sýna þeim sem gera vilja hans kærleika. (Rómverjabréfið 8:38, 39) Við höfum því vissulega ærna ástæðu til að ‚þjóna Jehóva með gleði.‘
Vertu glaður í voninni
16. Hvaða von og framtíðarhorfum geta kristnir menn glaðst yfir?
16 Páll skrifaði: „Verið glaðir í voninni.“ (Rómverjabréfið 12:12) Smurðir fylgjendur Jesú Krists gleðjast í hinni dýrlegu von um ódauðleika á himni sem Guð hefur veitt þeim fyrir milligöngu sonar síns. (Rómverjabréfið 8:16, 17; Filippíbréfið 3:20, 21) Kristnir menn, sem eiga vonina um eilíft líf í paradís á jörð, hafa líka tilefni til að að vera glaðir. (Lúkas 23:43, NW) Allir trúfastir þjónar Jehóva hafa tilefni til að vera glaðir í guðsríkisvoninni því að þeir verða annaðhvort hluti af hinni himnesku stjórn eða lifa á jarðnesku yfirráðasvæði hennar. Hvílík gleði og blessun! — Matteus 6:9, 10; Rómverjabréfið 8:18-21.
17, 18. (a) Hverju var spáð í Jesaja 25:6-8? (b) Hvernig uppfyllist þessi spádómur Jesaja núna og hvað um framtíðaruppfyllingu hans?
17 Jesaja spáði hlýðnu mannkyni líka gleðilegri framtíð. Hann skrifaði: „[Jehóva] allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni, mergjuðum krásum og skírðu dreggjavíni. Og hann mun afmá á þessu fjalli skýlu þá, sem hylur alla lýði, og þann hjúp, sem breiddur er yfir allar þjóðir. Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi [Jehóva] mun þerra tárin af hverri ásjónu, og svívirðu síns lýðs mun hann burt nema af allri jörðinni, því að [Jehóva] hefir talað það.“ — Jesaja 25:6-8.
18 Hin andlega veisla, sem við, þjónar Jehóva, tökum núna þátt í, er mikil gleðiveisla. Við erum yfir okkur glöð þegar við þjónum Jehóva kostgæfilega og hlökkum til hinnar bókstaflegu veislu sem hann hefur heitið í nýja heiminum. (2. Pétursbréf 3:13) Vegna fórnar Jesú mun Jehóva fjarlægja þann „hjúp“ sem umlykur mannkynið vegna syndar Adams. Hvílík gleði að sjá synd og dauða afmáð! Hvílík ánægja að taka á móti upprisnum ástvinum, að sjá tárin hverfa og að lifa áfram í paradís á jörð þar sem fólk Jehóva verður ekki haft að háðung heldur hefur gefið honum svar gegn spottaranum mikla, Satan djöflinum! — Orðskviðirnir 27:11.
19. Hvernig ættum við að bregðast við framtíðarhorfunum sem Jehóva veitir okkur, vottum sínum?
19 Fyllir það þig ekki gleði og þakklæti að vita hvað Jehóva mun gera fyrir þjóna sína? Slíkar stórkostlegar framtíðarhorfur stuðla vissulega að gleði okkar! Og hin gleðilega von fær okkur til að hugsa um hamingjusaman, ástríkan, örlátan Guð okkar eitthvað á þessa leið: „Sjá, þessi er vor Guð, vér vonuðum á hann, að hann mundi frelsa oss. Þessi er [Jehóva], vér vonuðum á hann. Fögnum og gleðjumst yfir hjálpræði hans!“ (Jesaja 25:9) Með þessa dýrlegu von í huga skulum við einbeita okkur af alefli að því að þjóna Jehóva með glöðu hjarta.
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig getum við þjónað Jehóva með „glöðu hjarta“?
◻ Hvað getum við gert ef gleðina vantar í þjónustu okkar við Guð?
◻ Hvers vegna getur fólk Jehóva verið glatt þrátt fyrir ofsóknir?
◻ Hvaða ástæður höfum við til að vera glaðir í von okkar?
[Myndir á blaðsíðu 31]
Þátttaka í öllum greinum kristinnar þjónustu eykur gleði okkar.