‚Aflið vina með hinum rangláta mammón‘
„Aflið yður vina með hinum rangláta mammón . . . Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu.“ — LÚKAS 16:9, 10.
1. Hvernig lofsungu Móse og Ísraelsmenn Jehóva eftir að þeir voru sloppnir frá Egyptalandi?
ÞAÐ hlýtur að hafa verið trústyrkjandi lífsreynsla að vera bjargað með kraftaverki! Burtför Ísraels af Egyptalandi var engum öðrum að þakka en Jehóva, hinum alvalda. Engin furða er að Móse og Ísraelsmenn skyldu syngja: „[Jah] er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mitt hjálpræði. Hann er minn Guð, og ég vil vegsama hann, Guð föður míns, og ég vil tigna hann.“ — 2. Mósebók 15:1, 2; 5. Mósebók 29:2.
2. Hvað tók fólk Jehóva með sér um leið og það yfirgaf Egyptaland?
2 Hið nýfundna frelsi Ísraelsmanna var sannarlega ólíkt hlutskipti þeirra í Egyptalandi! Núna gátu þeir tilbeðið Jehóva hindrunarlaust. Og ekki fóru þeir tómhentir frá Egyptalandi. Móse skýrir svo frá: „Ísraelsmenn höfðu . . . beðið Egypta um gullgripi og silfurgripi og klæði, og hafði [Jehóva] látið fólkið öðlast hylli Egypta, svo að þeir urðu við bæn þeirra, og þannig rændu þeir Egypta.“ (2. Mósebók 12:35, 36) En hvernig notuðu þeir þessi auðæfi Egyptalands? Voru þau notuð til að ‚tigna Jehóva‘? Hvað lærum við af fordæmi þeirra? — Samanber 1. Korintubréf 10:11.
‚Gjöf handa Jehóva‘
3. Hvernig brást Jehóva við þegar Ísraelsmenn notuðu gull sitt til falsguðadýrkunar?
3 Er Móse dvaldist 40 daga á Sínaífjalli, þar sem hann tók við fyrirmælum Guðs til Ísraels, varð fólkið, sem beið niðri á jafnsléttu, óþolinmótt. Það sleit af sér eyrnagullið og fékk Aroni til að gera úr líkneski handa sér til að tilbiðja. Aron reisti líka altari handa því og árla næsta morgun færði það fórnir þar. Styrktu Ísraelsmenn samband sitt við frelsara sinn með því að nota gullið sitt þannig? Varla! „Lát mig nú einan,“ sagði Jehóva við Móse, „svo að reiði mín upptendrist í gegn þeim og tortími þeim.“ Það var aðeins vegna grátbeiðni Móse að Jehóva þyrmdi þjóðinni, en hinir uppreisnargjörnu forsprakkar féllu í plágu frá Guði. — 2. Mósebók 32:1-6, 10-14, 30-35.
4. Hvað var ‚gjöfin handa Jehóva‘ og hverjir gáfu hana?
4 Síðar fengu Ísraelsmenn tækifæri til að nota þann auð, sem þeir áttu, á þann hátt sem var Jehóva þóknanlegur. Þeir færðu ‚Jehóva gjöf.‘a Gull, silfur, eir, blátt garn, ýmis lituð efni, hrútskinn, selskinn og akasíuviður voru meðal framlaganna til gerðar tjaldbúðarinnar og áhalda hennar. Frásagan beinir athygli okkar að hugarfari gefendanna. „Hver sá, er gefa vill af fúsum huga, beri fram gjöf [Jehóva] til handa.“ (2. Mósebók 35:5-9) Viðbrögð Ísraels voru feikigóð. Tjaldbúðin var því „fögur og mikilfengleg,“ svo vitnað sé í orð fræðimanns.
Gjafir til musterisins
5, 6. Hvernig notaði Davíð auðæfi sín í sambandi við musterið og hvernig brugðust aðrir við?
5 Salómon Ísraelskonungur stjórnaði byggingu varanlegs tilbeiðsluhúss Jehóva en Davíð faðir hans hafði hins vegar undirbúið verkið rækilega. Davíð safnaði miklu gulli, silfri, eiri, járni, timbri og dýrum steinum. „Sakir þess að ég hefi mætur á musteri Guðs míns,“ sagði Davíð þjóðinni, „[vil ég] gefa það, er ég á af gulli og silfri, til musteris Guðs míns, auk alls þess, er ég hefi dregið að fyrir helgidóminn: Þrjú þúsund talentur af gulli . . . sjö þúsund talentur af skíru silfri til þess að klæða með veggina í herbergjunum.“ Davíð hvatti aðra til að vera örlátir líka. Undirtektirnar voru frábærar: meira gull, silfur, eir, járn og dýrir steinar. „Af heilum hug“ færði fólkið Jehóva „sjálfviljagjafir.“ — 1. Kroníkubók 22:5; 29:1-9.
6 Með þessum sjálfviljagjöfum létu Ísraelsmenn í ljós hve mikils þeir mátu tilbeiðsluna á Jehóva. Davíð bað auðmjúkur í bragði: „Hvað er ég, og hvað er lýður minn, að vér skulum vera færir um að gefa svo mikið sjálfviljuglega?“ Af hverju var það? Af því að „frá þér er allt, og af þínu höfum vér fært þér gjöf. . . . Ég hefi með hreinum hug og sjálfviljuglega gefið allt þetta.“ — 1. Kroníkubók 29:14, 17.
7. Hvaða víti til varnaðar höfum við frá dögum Amosar?
7 En ættkvíslir Ísraels gættu þess ekki að láta tilbeiðsluna á Jehóva vera efsta í huga sér og hjarta áfram. Á níundu öld f.o.t. var þjóðin klofin og hafði gert sig seka um andlegt hirðuleysi. Jehóva sagði fyrir milligöngu Amosar um norðurríkið, hið tíu ættkvísla Ísraelsríki: „Vei hinum andvaralausu á Síon og hinum öruggu á Samaríufjalli.“ Hann sagði þá „hvíla á legubekkjum af fílsbeini og liggja flatir á hvílbeðjum sínum . . . eta lömb af sauðahjörðinni og ungneyti úr alistíunni. . . . drekka vínið úr skálum.“ En ríkidæmi þeirra veitti þeim enga vernd. Guð varaði við: „Skulu þeir nú herleiddir verða í fararbroddi hinna herleiddu, og þá skal fagnaðaróp flatmagandi sælkeranna þagna.“ Árið 740 f.o.t. fékk Ísrael að kenna á hörku Assýringa. (Amos 6:1, 4, 6, 7) Síðar varð suðurríkið Júda einnig efnishyggjunni að bráð. — Jeremía 5:26-29.
Rétt notkun fjármuna á tímum kristninnar
8. Hvaða gott fordæmi gáfu Jósef og María um notkun fjármuna?
8 Því var ólíkt farið meðal þjóna Guðs síðar á tímum. Þótt þeir væru fremur fátækir hindraði það þá ekki í að sýna kostgæfni gagnvart sannri guðsdýrkun. Tökum Maríu og Jósef sem dæmi. Þau hlýddu tilskipun Ágústusar keisara og ferðuðust til heimabæjar fjölskyldunnar, Betlehem. (Lúkas 2:4, 5) Þar fæddist Jesús. Fjörutíu dögum síðar fóru Jósef og María til musterisins í Jerúsalem, sem var skammt frá Betlehem, til að færa hreinsunarfórnina sem lögmálið kvað á um. María fórnaði tveim smáfuglum sem gefur til kynna að þau hafi ekki haft úr miklu að spila. En hvorki hún né Jósef báru fyrir sig fátækt heldur gáfu hlýðin af takmörkuðum efnum sínum. — 3. Mósebók 12:8; Lúkas 2:22-24.
9-11. (a) Hvaða leiðbeiningar eru fólgnar í orðum Jesú í Matteusi 22:21 um notkun peninga? (b) Af hverju var hið smáa framlag ekkjunnar ekki til einskis?
9 Síðar reyndu farísear og Heródesarsinnar að veiða Jesú í gildru og sögðu: „Seg oss því, hvað þér líst? Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?“ Svar Jesú bar vitni um skarpskyggni hans. Hann spurði um pening sem þeir fengu honum: „Hvers mynd og yfirskrift er þetta?“ Þeir svöruðu: „Keisarans.“ Hann sagði þá af visku sinni: „Gjaldið þá keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ (Matteus 22:17-21) Jesús vissi að það yfirvald, sem gaf út peninginn, ætlaðist til að fá greidda skatta. Þannig hjálpaði hann fylgjendum sínum jafnt sem óvinum að skilja að sannkristinn maður leitast líka við að gjalda „Guði það, sem Guðs er,“ meðal annars með því að nota fjármuni sína rétt.
10 Atvik, sem Jesús varð vitni að í musterinu, sýnir það. Hann var nýbúinn að fordæma hina fégráðugu fræðimenn sem ‚átu upp heimili ekkna.‘ „Þá leit hann upp og sá auðmenn leggja gjafir sínar í fjárhirsluna,“ segir Lúkas. „[Jesús] sá og ekkju eina fátæka leggja þar tvo smápeninga. Þá sagði hann: ‚Ég segi yður með sanni, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir. Hinir allir lögðu í sjóðinn af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum, alla björg sína.‘“ (Lúkas 20:46, 47; 21:1-4) Einhverjir viðstaddra höfðu orð á því að musterið væri prýtt dýrum steinum. Jesús svaraði: „Þér horfið á þetta, en þeir dagar munu koma, að hér stendur ekki eftir steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn.“ (Lúkas 21:5, 6) Var hið smáa framlag ekkjunnar þá til einskis? Vissulega ekki. Hún studdi það fyrirkomulag sem Jehóva hafði á þeim tíma.
11 Jesús sagði sönnum fylgjendum sínum: „Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ (Lúkas 16:13) Hvernig getum við þá gætt góðs jafnvægis í notkun fjármuna okkar?
Trúir ráðsmenn
12-14. (a) Yfir hverju eru kristnir menn ráðsmenn? (b) Á hvaða einstaka vegu rækir fólk Jehóva ráðsmennsku sína af trúfesti nú á dögum? (c) Hvaðan kemur það fé sem þarf til að halda verki Guðs uppi?
12 Þegar við vígjum Jehóva líf okkar erum við í reynd að segja að allt sem við eigum, allir fjármunir okkar, tilheyri honum. Hvernig ættum við þá að nota það sem við höfum? Bróðir C. T. Russell, fyrsti forseti Varðturnsfélagsins, skrifaði um kristna þjónustu í söfnuðinum: „Hver og einn á að telja Drottin hafa skipað sig ráðsmann tíma síns, áhrifa, peninga o.s.frv., og hver og einn á að leitast við að nota þessar talentur sem best hann getur meistaranum til dýrðar.“ — The New Creation, bls. 345.
13 „Nú er þess krafist af ráðsmönnum, að sérhver reynist trúr,“ segir 1. Korintubréf 4:2. Sem alþjóðasamfélag leitast vottar Jehóva við að lifa í samræmi við þessi orð. Þeir nota eins mikinn tíma og þeir geta í hinni kristnu þjónustu og þroska kennsluhæfileika sína vel og vandlega. Undir umsjón svæðisnefnda um byggingarmál gefa hópar sjálfboðaliða líka fúslega af tímum sínum, kröftum og kunnáttu til að byggja hentug samkomuhús til tilbeiðslu. Jehóva hefur velþóknun á þessu öllu.
14 Hvaðan koma fjármunir til stuðnings þessu gríðarmikla kennslu- og byggingarstarfi? Frá þeim sem hafa fúsan huga eins og á tímum tjaldbúðargerðarinnar. Eigum við hvert og eitt okkar hlutdeild í þessum stuðningi? Er greinilegt af því hvernig við notum fjármuni okkar að þjónusta Jehóva skiptir okkur mestu máli? Reynumst trúfastir ráðsmenn í meðferð peninga.
Örlæti sem föst venja
15, 16. (a) Hvernig sýndu kristnir menn á dögum Páls örlæti? (b) Hvernig ættum við að líta á þessa umræðu?
15 Páll postuli skrifaði um örlæti kristinna manna í Makedóníu og Akkeu. (Rómverjabréfið 15:26) Þótt sjálfir væru þeir bágstaddir gáfu þeir fúslega til hjálpar bræðrum sínum. Páll hvatti kristna menn í Korintu einnig til að gefa örlátlega og bæta með gnægð sinni úr skorti annarra. Enginn gat með réttu sakað Pál um þvingun. Hann skrifaði: „Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera, og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera. Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara. — 2. Korintubréf 8:1-3, 14; 9:5-7, 13.
16 Rausnarleg framlög bræðra okkar og áhugasamra til alþjóðastarfs Guðsríkis nú á tímum er merki þess hve mikils þeir meta þessi sérréttindi. En eins og Páll minnti Korintumenn á er gott fyrir okkur að láta þessa umræðu minna okkur á þau.
17. Hvaða venju hvatti Páll til í sambandi við gjafir og hvernig er hægt að fara eftir því nú á dögum?
17 Páll hvatti bræðurna til að hafa fasta venju í sambandi við gjafir sínar. „Hvern fyrsta dag vikunnar,“ sagði hann, „skal hver yðar leggja í sjóð heima hjá sér það, sem efni leyfa.“ (1. Korintubréf 16:1, 2) Við getum litið á þetta sem fordæmi fyrir okkur og börn okkar í sambandi við framlög, hvort sem við sendum þau fyrir milligöngu safnaðarins eða beint til næstu deildarskrifstofu Varðturnsfélagsins. Trúboðahjón, sem falið var að prédika í borg í Austur-Afríku, buðu áhugasömu fólki að taka þátt í biblíunámi með sér. Að fyrstu samkomunni lokinni lögðu trúboðarnir dálitla peninga, svo lítið bar á, í bauk sem merktur var „Framlög til starfs Guðsríkis.“ Aðrir viðstaddir gerðu það líka. Síðar, eftir að stofnaður hafði verið kristinn söfnuður úr þessum hópi, kom farandhirðirinn í heimsókn og hrósaði söfnuðinum fyrir hin reglulegu framlög hans. — Sálmur 50:10, 14, 23.
18. Hvernig getum við hjálpað nauðstöddum bræðrum okkar?
18 Við höfum líka þau sérréttindi að nota fjármuni okkar til að hjálpa þeim sem búa á hamfara- og átakasvæðum. Það gladdi okkur mjög að lesa um sendingu hjálpargagna til Austur-Evrópu þegar efnahagslegt og pólitískt umrót varð í þeim heimshluta. Framlög, bæði í mynd hjálpargagna og peninga, sýndu örlæti bræðra okkar og einingu með bágstöddum meðbræðrum sínum.b — 2. Korintubréf 8:13, 14.
19. Hvaða raunhæfa hjálp getum við veitt þeim sem þjóna í fullu starfi?
19 Metum við ekki mjög mikils starf bræðra okkar er þjóna í fullu starfi sem brautryðjendur, farandumsjónarmenn, trúboðar og Betelsjálfboðaliðar? Kannski getum við veitt þeim einhverja beina efnislega aðstoð eftir því sem aðstæður okkar leyfa. Þegar farandhirðirinn heimsækir söfnuðinn þinn gætirðu kannski séð honum fyrir gistingu, máltíð eða tekið þátt í ferðakostnaði hans. Slíkt örlæti fer ekki fram hjá himneskum föður okkar sem vill að séð sé um þjóna hans. (Sálmur 37:25) Fyrir nokkrum árum bauð bróðir, sem hafði aðeins ráð á að bera fram smáhressingu, farandumsjónarmanni og eiginkonu hans í heimsókn. Þegar hjónin kvöddu til að fara í boðunarstarfið um kvöldið rétti bróðirinn þeim umslag. Í umslaginu var peningaseðill að verðgildi um 70 íslenskar krónur ásamt handskrifuðum miða sem á stóð: „Fyrir tebolla eða bensínlítra.“ Á þennan hæverska hátt lét hann þakklæti sitt í ljós.
20. Hvaða sérréttindi og ábyrgð viljum við ekki vanrækja?
20 Fólk Jehóva nýtur sannarlega andlegrar blessunar! Við göngum að andlegu veisluborði á svæðis- og umdæmismótum okkar þar sem við fáum ný rit, góða kennslu og hagnýt ráð. Þegar hjörtu okkar eru full þakklætis fyrir þá andlegu blessun, sem við njótum, gleymum við ekki sérréttindum okkar og ábyrgð að leggja fram fé til að vinna að hagsmunum Guðsríkis um heim allan.
‚Aflið vina með hinum rangláta mammón‘
21, 22. Hvað verður bráðlega um hinn „rangláta mammón“ og hvað þurfum við þar af leiðandi að gera nú þegar?
21 Vissulega höfum við margar leiðir til að sýna að tilbeiðslan á Jehóva hafi forgang í lífi okkar, ekki síst þá að fara eftir ráðum Jesú: „Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.“ — Lúkas 16:9.
22 Tökum eftir að Jesús talaði um að hinum rangláta mammón sleppti eða hann brygðist. Sú stund kemur að peningar þessa heimskerfis verða verðlausir. „Silfri sínu munu þeir varpa út á strætin, og gull þeirra mun vera þeim sem saur,“ spáði Esekíel. „Silfur þeirra og gull fær eigi frelsað þá á reiðidegi [Jehóva].“ (Esekíel 7:19) Þangað til verðum við að sýna visku og dómgreind í því hvernig við notum efnislegar eigur okkar. Við þurfum þá ekki að horfa um öxl með eftirsjá og harma að við skyldum ekki fara eftir viðvörun Jesú: „Ef þér reynist ekki trúir í hinum rangláta mammón, hver trúir yður þá fyrir sönnum auði? . . . Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ — Lúkas 16:11-13.
23. Hvað ættum við að nota viturlega og hvernig verður okkur umbunað?
23 Við skulum því hlýða trúföst þessum áminningum um að láta tilbeiðsluna á Jehóva hafa forgang í lífi okkar og nota allar eigur okkar viturlega. Megum við þannig varðveita vináttu okkar við Jehóva og Jesú sem heita því að þegar peningarnir bregðist muni þeir taka við okkur „í eilífar tjaldbúðir“ með von um eilíft líf, annaðhvort í ríkinu á himnum eða í paradís á jörð. — Lúkas 16:9.
[Neðanmáls]
a Hebreska orðið, sem þýtt er „gjöf,“ er dregið af sögn sem merkir bókstaflega „að vera hátt; vera upphafið; lyfta upp.“
b Sjá Vottar Jehóva — boðendur ríkis Guðs, bls. 307-15, útgefin árið 1993 af Biblíu- og smáritafélaginu Varðturninum í New York, Inc.
Manst þú?
◻ Hvernig brugðust Ísraelsmenn við boði Jehóva um að gefa til gerðar tjaldbúðarinnar?
◻ Hvers vegna var framlag ekkjunnar ekki til einskis?
◻ Hvaða ábyrgð hvílir á kristnum mönnum í sambandi við notkun fjármuna sinna?
◻ Hvernig getum við forðast að þurfa að sjá eftir hvernig við notuðum fjármuni okkar?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Framlag ekkjunnar var ekki til einskis þótt smátt væri.
[Myndir á blaðsíðu 16, 17]
Framlög okkar styðja alþjóðastarf Guðsríkis.