Síðustu dagar — ‚Ríki gegn ríki‘
„Stríð þjóðanna frá 1914 til 1918 var ekki bara ‚ógreinilegur orðrómur um eitthvert nýtt stríð.‘ Styrjöldin markaði upphaf nýs umfangs í styrjöldum, hún var fyrsta heimsstyrjöld í sögu mannkynsins. Lengd hennar, harka og yfirgrip var langt umfram það sem áður var þekkt eða almennt búist við. Tími allsherjarstyrjaldar var runninn upp.“ — The World in the Crucible eftir Bernadotte E. Schmitt og Harold C. Vedeler.
EYÐILEGGING og manndauði styrjaldarinnar á árunum 1914-18 var slíkur að enn þann dag í dag má finna í Frakklandi minnismerki um þá sem féllu í La Grande Guerre, stríðinu mikla. Bandaríski rithöfundurinn Ernest Hemingway nefndi það síðar „tröllauknustu, blóðþyrstustu og stjórnlausustu slátrun sem átt hefur sér stað á jörðinni.“ Stríðinu mikla var gefið nýtt nafn, fyrri heimsstyrjöldin, þegar önnur heimsstyrjöld var háð á árunum 1939 til 1945.
Fyrri heimsstyrjöldin var á ýmsa vegu ólík þeim styrjöldum sem áður höfðu verið háðar. Á ökrum og í skógum Vestur-Evrópu slátruðu milljónaherir hver öðrum. Vélbyssan hjó stærðar skörð í raðir fótgönguliða. Eins og Gwynne Dyer segir í bók sinni War: „Innan tveggja mánaða [eftir að stríðið braust út] var tala fallinna komin upp í milljón . . . Vélknúin vopn — afkastamiklar fallbyssur og vélbyssur sem gátu spúið 600 kúlum á mínútu — fylltu loftið banvænu kúlnaregni.“ Skriðdrekinn, kafbáturinn og flugvélin breyttu hugsanagangi og hernaðartækni. Núna gat dauðinn fallið af himni ofan eða stigið upp úr hafinu.
Skotgrafa- og eiturgashernaður reyndu til hins ýtrasta á þolrif manna og kostuðu nánast óbærilegar þjáningar og niðurlægingu. Stríðið mikla skar sig úr að öðru leyti: „Þetta var fyrsta stríðið er stríðsfangar töldust í milljónum (8.400.000 alls) og var haldið yfir langan tíma.“ (The World in the Crucible) Þetta var líka fyrsta stríðið sem dró með sér nánast alla óbreytta borgara — annaðhvort til varnar og vopnaframleiðslu eða þá sem fórnarlömb innrásar og bardaga.
Vottar Jehóva sáu í þessari hræðilegu styrjöld árið 1914 byrjun uppfyllingarinnar á hinum örlagaþrungnu spádómum Jesú. En margt verra var í vændum.
Tröllaukinn eyðingarmáttur síðari heimsstyrjaldarinnar
Möguleikar mannsins á að útrýma sjálfum sér er annar vitnisburður fyrir því að núna gætu verið hinir síðustu dagar, jafnvel frá mannlegum sjónarhóli. Dr. Bernard Lown sagði í ræðu er hann flutti þegar honum voru veitt friðarverðlaun Nóbels: „Með síðari heimsstyrjöldinni var í fyrsta sinn háð allsherjarstríð — með samviskulausum aðferðum, takmarkalausu ofbeldi og án tillits til hver fórnarlömbin væru. Ofnarnir í Auschwitz og eyðilegging atómsprengjunnar í Híróshíma og Nagasaki skráðu enn myrkari kafla í sögu grimmdarverka mannsins.“
Lærði mannkynið samúð og miskunnsemi af þessari hræðilegu lífsreynslu? Hann heldur áfram: „Hin langvarandi kvöl, sem lagði 50 milljónir manna að velli [samsvarar hér um bil íbúatölu Bretlands, Frakklands eða Ítalíu], reyndist ekki haldbær grundvöllur vopnahlés gegn villimennskunni. Þess í stað troðfylltust vopnabúrin tortímingarvopnum sem voru mörg þúsundfalt öflugri en þau vopn samanlögð sem beitt var í síðari heimsstyrjöldinni.“ — Leturbreyting okkar.
Enginn vafi leikur á því að við höfum séð ‚þjóð rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki‘ og að riddari Opinberunarbókarinnar á rauða hestinum hefur stráð dauða og tortímingu um allan hnöttinn. (Matteus 24:7; Opinberunarbókin 6:4) En hvaða aðra þýðingu hefur uppfinning og þróun kjarnorkuvopna haft fyrir hina ‚síðustu daga‘? — 2. Tímóteusarbréf 3:1.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 6]
„Tuttugasta öldin hefur einkennst af stórauknu ofbeldi í samanburði við síðustu tvær aldir á undan. . . . Tuttugasta öldin hefur nú þegar skráð 237 stríð, það er að segja árekstra og átök sem ætluð eru hafa kostað yfir þúsund mannslíf á ári.
Stríðin eru ekki bara fleiri; tortíming þeirra hefur einnig stóraukist. Fram til þessa hafa stríð á 20. öldinni kostað 99 milljónir manna lífið, 12 sinnum fleiri en féllu á 19. öldinni, 22 sinnum fleiri en féllu á 18. öldinni. . . . Á síðustu öld voru háð tvö stríð sem lögðu að velli yfir eina milljón manna; á þessari öld 13 slík stríð.“ — World Military and Social Expenditures 1986 eftir Ruth Leger Sivard.
[Rétthafi]
Ljósmynd: Bandaríkjaher.