Það er áríðandi að vakna!
„VILLIST ekki á tímanum sem við lifum; það er orðið áríðandi fyrir okkur að vakna af svefni.“ (Rómverjabréfið 13:11, Knox) Páll postuli skrifaði þetta í bréfi til kristinna manna í Róm um 14 árum áður en gyðingakerfið leið undir lok árið 70. Þar eð kristnir Gyðingar höfðu verið andlega vakandi voru þeir ekki í Jerúsalem á þessum örlagaríku tímum. Þeir héldu lífi og voru ekki hnepptir í þrælkun. En hvernig vissu þeir að þeir þyrftu að yfirgefa borgina og forðast hana eftir það?
Jesús Kristur hafði varað við að óvinir myndu umkringja Jerúsalem og að borgarbúar yrðu lagðir að velli. (Lúkas 19:43, 44) Síðan sagði hann trúföstum fylgjendum sínum frá samsettu og auðþekkjanlegu tákni. (Lúkas 21:7-24) Kristnir menn, sem bjuggu í Jerúsalem, þurftu að yfirgefa heimili og atvinnu um leið og þeir yfirgáfu borgina. En árveknin og flóttinn varð þeim til bjargar.
Þegar Jesús sagði fyrir eyðingu Jerúsalem spurðu lærisveinarnir: „Hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ (Matteus 24:3) Í svari sínu líkti Jesús framtíðarnærveru sinni við tímabilið fyrir heimsflóðið á dögum Nóa. Hann benti á að flóðið hefði sópað burt öllum óguðlegum. (Matteus 24:21, 37-39) Þar með gaf hann til kynna að Guð myndi aftur grípa inn í málefni manna. Þessi íhlutun yrði slík að hinn illi heimur í heild, allt heimskerfið, yrði afmáð! (Samanber 2. Pétursbréf 3:5, 6.) Gæti það gerst á okkar tímum?
Stendur allt við sama?
Fáir Gyðingar fyrstu aldar gátu ímyndað sér að hinni helgu borg þeirra, Jerúsalem, yrði eytt. Áþekk vantrú er oft áberandi meðal fólks sem býr í grennd við eldfjall en hefur aldrei orðið vitni að eldgosi. „Það gerist ekki meðan ég lifi,“ segja menn gjarnan þegar varað er við goshættu. „Algengt er að eldfjöll gjósi á tveggja til þriggja alda fresti,“ segir eldfjallafræðingurinn Lionel Wilson. „Menn eru smeykir ef eldfjallið gaus á tímum foreldra þeirra. En hafi það gerst á tímum afa og ömmu er það þjóðsaga.“
Nákvæmar upplýsingar geta gert okkur vakandi fyrir hættumerkjum þannig að við tökum þau alvarlega. Meðal þeirra sem forðuðu sér frá Peléefjalli var einn sem þekkti til eldfjalla og vissi hver hættumerkin voru. Menn túlkuðu slík hættumerki líka rétt, skömmu áður en Pinatubofjall gaus. Eldfjallafræðingar, sem fylgdust með hinum ósýnilegu öflum inni í fjallinu, töldu íbúa á að yfirgefa svæðið.
Auðvitað er alltaf til fólk sem hunsar hættumerki og stendur á því fastara en fótunum að ekkert geti gerst. Sumir gera jafnvel gys að þeim sem gera eindregnar varúðarráðstafanir. Pétur postuli spáði því að slík afstaða yrði algeng á okkar dögum. „Þetta skuluð þér þá fyrst vita,“ sagði hann, „að á hinum síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum og segja með spotti: ‚Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar.‘“ — 2. Pétursbréf 3:3, 4.
Trúir þú að við lifum á „hinum síðustu dögum“? Sagnfræðingarnir John A. Garraty og Peter Gay varpa fram spurningu í bókinni The Columbia History of the World: „Er siðmenningin að líða undir lok?“ Síðan brjóta þeir til mergjar vandamál stjórnvalda, vaxandi glæpi og lögleysi og hnignandi fjölskyldulíf. Þeir benda á hvernig vísindum og tækni hefur mistekist að leysa vandamál þjóðfélagsins, og líka á hina siðferðilegu og trúarlegu hnignun um heim allan og á virðingarleysi fyrir hvers kyns yfirvaldi. Niðurstaða þeirra er þessi: „Ef þetta eru ekki óyggjandi endalokatákn eru þau óvenjulík þeim.“
Við höfum ærið tilefni til að trúa að ‚endalok‘ séu yfirvofandi. Við þurfum samt ekki að óttast að jörðin sjálf farist því að Biblían segir að Guð hafi ‚grundvallað jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggist eigi um aldur og ævi.‘ (Sálmur 104:5) Við megum hins vegar búast við að hið illa heimskerfi, sem hefur valdið mannkyni svo miklum þjáningum, líði mjög bráðlega undir lok. Af hverju? Af því að við sjáum svo margt sem einkennir síðustu daga þessa heimskerfis eins og Jesús Kristur útlistaði. (Sjá rammagreinina „Nokkrir þættir hinna síðustu daga.“) Hvernig væri að bera orð Jesú saman við heimsatburðina? Það getur hjálpað þér að taka skynsamlegar ákvarðanir til heilla fyrir sjálfan þig og fjölskyldu þína. En til hvers að gera það strax?
Það er áríðandi að halda vöku sinni
Þótt vísindamenn sjái að eldgos sé yfirvofandi geta þeir ekki tímasett nákvæmlega hvenær það hefst. Jesús sagði líka um endalok þessa heimskerfis: „En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.“ (Matteus 24:36) Þar eð við vitum ekki nákvæmlega hvenær núverandi heimskerfi líður undir lok varaði Jesús okkur við með þessum orðum: „Það skiljið þér, að húsráðandi vekti og léti ekki brjótast inn í hús sitt, ef hann vissi á hvaða stundu nætur þjófurinn kæmi. Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn [Jesús] kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.“ — Matteus 24:43, 44.
Orð Jesú bera með sér að hamfarakennd endalok þessa heimskerfis komi heiminum í opna skjöldu. Jafnvel þótt við séum fylgjendur hans verðum við að ‚vera viðbúnir.‘ Við erum í svipaðri aðstöðu og húsráðandi sem komið er að óvörum af því að hann veit ekki fyrirfram hvenær þjófur brýst inn í hús hans.
Páll postuli sagði kristnum mönnum í Þessaloníku eitthvað svipað: „Þér vitið það sjálfir gjörla, að dagur [Jehóva] kemur sem þjófur á nóttu. . . . Þér, bræður, eruð ekki í myrkri, svo að dagurinn geti komið yfir yður sem þjófur.“ Hann hvatti jafnframt: „Vér skulum þess vegna ekki sofa eins og aðrir, heldur vökum og verum algáðir.“ (1. Þessaloníkubréf 5:2, 4, 6) Hvað merkir það að ‚vaka og vera algáður‘?
Ólíkt kristnum mönnum í Jerúsalem á fyrstu öld þurfum við ekki að yfirgefa ákveðna borg til að flýja á öruggan stað. Eftir að Páll hafði hvatt trúbræður sína í Róm til að vakna af svefni brýndi hann fyrir þeim að ‚leggja af verk myrkursins‘ og ‚íklæðast Drottni Jesú Kristi.‘ (Rómverjabréfið 13:12, 14) Ef við fetum nákvæmlega í fótspor Jesú erum við vakandi fyrir því hvað tímanum líður og þessi andlega árvekni gerir okkur kleift að hljóta vernd Guðs þegar þetta illa heimskerfi líður undir lok. — 1. Pétursbréf 2:21.
Þeir sem fylgja Jesú Kristi lifa innihaldsríku lífi. Vottar Jehóva, sem eru milljónir talsins, hafa komist að raun um að það er ljúft og hressandi að vera kristinn lærisveinn. (Matteus 11:29, 30) Fyrsta skrefið í þá átt að verða lærisveinn er að afla sér ‚þekkingar á Guði og þeim sem hann sendi, Jesú Kristi.‘ (Jóhannes 17:3) Vottarnir knýja dyra á milljónum heimila í hverri viku í þeim tilgangi að hjálpa fólki að afla sér nákvæmrar „þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tímóteusarbréf 2:4) Þeir myndu fúslega veita þér ókeypis biblíufræðslu á heimili þínu. Og þegar þú eykur þekkingu þína á orði Guðs sannfærist þú eflaust líka um að okkar tímar séu ólíkir öðrum tímaskeiðum sögunnar. Það er svo sannarlega orðið áríðandi að vakna af svefni!
[Rammagrein á blaðsíðu 7]
NOKKRIR ÞÆTTIR HINNA SÍÐUSTU DAGA
„Þjóð mun rísa gegn þjóð“; ‚friðurinn verður tekinn burt af jörðinni.‘ (Matteus 24:7; Opinberunarbókin 6:4)
Hinar tvær heimsstyrjaldir þessarar aldar ásamt tugum annarra styrjalda hafa tekið burt friðinn af jörðinni. „Fyrri heimsstyrjöldin — og einnig sú síðari — voru ólíkar öllum styrjöldum fyrri tíma,“ segir sagnfræðingurinn John Keegan, „ólíkar að stærð, hörku, umfangi, eyðileggingu og manntjóni. . . . Heimsstyrjaldirnar kostuðu fleiri mannslíf og meiri fjármuni en nokkur fyrri styrjöld og ollu meiri þjáningum á stærra svæði.“ Konur og börn verða harðar úti í styrjöldum núna en hermenn. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna telur að á síðastliðnum tíu árum hafi tvær milljónir barna verið drepnar í styrjöldum.
„Þá verður hungur.“ (Matteus 24:7; Opinberunarbókin 6:5, 6, 8)
Verð á hveiti og maís stórhækkaði árið 1996. Ástæðan var sú að ekki voru til í heiminum nema 50 daga birgðir af þessum korntegundum, lægsta birgðastaða sem um getur. Verðhækkun á undirstöðufæðutegundum hefur í för með sér að hundruð milljóna fátækustu íbúa heims — þar á meðal börn — leggjast hungruð til svefns.
„Landskjálftar.“ (Matteus 24:7)
Síðastliðin 2500 ár hefur það gerst aðeins níu sinnum að jarðskjálfti hafi kostað fleiri en 100.000 mannslíf. Fjórir þessara skjálfta hafa átt sér stað eftir 1914.
„Lögleysi magnast.“ (Matteus 24:12)
Lögbrot eru orðin gífurlega útbreidd nú undir lok 20. aldar. Skelfilegt ofbeldi hinna síðustu daga birtist meðal annars í árásum hryðjuverkamanna á óbreytta borgara, kaldrifjuðum morðum og fjöldamorðum.
„Drepsóttir.“ (Lúkas 21:11)
Búist er við að 30 milljónir manna látist úr berklum á þessum áratug. Sýklar verða sífellt lyfþolnari. Malaría, annar banvænn sjúkdómur, leggst árlega á 300 til 500 milljónir manna. Þar af deyja 2 milljónir að talið er. Í lok þessa áratugar er búist við að 1,8 milljónir manna deyi á hverju ári úr alnæmi. Ritið State of the World 1996 segir að „mannkynið búi við farsóttafaraldur.“
„Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina.“ (Matteus 24:14)
Árið 1997 vörðu vottar Jehóva rúmlega einum milljarði klukkustunda til að prédika fagnaðarerindið um ríkið. Rösklega fimm milljónir votta bera þennan boðskap að staðaldri til fólks í 232 löndum.
[Rétthafi]
FAO/B. Imevbore
U.S. Coast Guard
[Mynd á blaðsíðu 4]
Kristnir menn flúðu frá Jerúsalem vegna þess að þeir voru andlega vakandi.