-
Borið vitni fyrir „öllum þjóðum“Varðturninn – 1995 | 1. febrúar
-
-
Borið vitni fyrir „öllum þjóðum“
„Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — MATTEUS 24:14.
1. Hvers vegna hljóta orð Jesú í Matteusi 24:14 að hafa komið fylgjendum hans á óvart?
ORÐ Jesú hér að ofan hljóta að hafa komið lærisveinum hans mjög á óvart þar eð þeir voru Gyðingar! Sú hugmynd að helgaðir Gyðingar töluðu við ‚óhreina‘ menn af þjóðunum, ‚heiðingja,‘ var Gyðingum framandi, jafnvel ógeðfelld.a Samviskusömum Gyðingi datt ekki einu sinni í hug að stíga fæti inn á heimili heiðingja! Þessir lærisveinar af hópi Gyðinga áttu enn svo margt ólært um Jesú, kærleika hans og verkefni. Og þeir áttu enn margt ólært um óhlutdrægni Jehóva. — Postulasagan 10:28, 34, 35, 45.
2. (a) Hve umfangsmikið hefur prédikunarstarf vottanna verið? (b) Hvað þrennt hefur stuðlað að vexti og viðgangi vottanna?
2 Vottar Jehóva hafa prédikað fagnaðarerindið meðal þjóðanna, einnig í Ísrael nútímans, og boða það núna meðal fleiri þjóða en nokkru sinni fyrr. Árið 1995 prédika yfir 4,9 milljónir votta í um það bil 230 löndum. Þeir stjórna yfir 4,7 milljónum heimabiblíunáma með áhugasömu fólki. Það gera þeir um heim allan andspænis fordómum sem byggjast iðulega á þekkingarleysi um kenningar og tilefni vottanna. Það má segja um þá eins og sagt var um frumkristna menn: „Það er oss kunnugt um flokk þennan, að honum er alls staðar mótmælt.“ (Postulasagan 28:22) Hverju má þá þakka árangursríka þjónustu þeirra? Það er að minnsta kosti þrennt sem stuðlar að velgengni þeirra — þeir fylgja leiðsögn anda Jehóva, líkja eftir prédikunaraðferðum Krists og nota réttu verkfærin til að koma boðskapnum á framfæri á áhrifaríkan hátt.
Andi Jehóva og fagnaðarerindið
3. Hvers vegna getum við ekki stært okkur af árangrinum?
3 Stæra vottar Jehóva sig af velgengni sinni, rétt eins og hún væri einhverjum sérstökum hæfileikum þeirra sjálfra að þakka? Nei, því að orð Jesú eiga hér við: „Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gjört allt, sem yður var boðið: ‚Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra.‘“ Sem vígðir, skírðir kristnir menn hafa vottar Jehóva fúslega gengist undir þá ábyrgð að þjóna Guði, óháð persónulegum aðstæðum sínum. Fyrir suma þýðir það þjónustu í fullu starfi sem trúboðar eða sjálfboðaliðar við útibú og prentsmiðjur þar sem kristin rit eru prentuð. Sami kristni fúsleikinn fær aðra til að vinna sem sjálfboðaliðar við húsbyggingar til trúarlegra nota, til að vinna fullt starf sem brautryðjendur, eða þá hlutastarf sem boðberar fagnaðarerindisins hver í sínum söfnuði. Ekkert okkar getur með réttu stært sig af því að gera skyldu sína, „það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra.“ — Lúkas 17:10; 1. Korintubréf 9:16.
4. Hvernig hefur andstaðan gegn hinni kristnu þjónustu um heim allan verið yfirunnin?
4 Hvern þann árangur, sem við náum, má þakka anda Jehóva eða starfskrafti. Það má segja með jafnmiklum sanni núna og gert var á dögum Sakaría spámanns: „Þetta eru orð [Jehóva] til Serúbabels: Ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda minn! — segir [Jehóva] allsherjar.“ Andstaðan gegn prédikun vottanna um heim allan hefur þannig verið yfirunnin með handleiðslu Jehóva og vernd, ekki mannlegri viðleitni. — Sakaría 4:6.
5. Hvaða hlutverki gegnir Jehóva í útbreiðslu boðskaparins um Guðsríki?
5 Jesús sagði um þá sem tækju við boðskapnum um Guðsríki: „Hjá spámönnunum er skrifað: ‚Þeir munu allir verða af [Jehóva] fræddir.‘ Hver sem hlýðir á föðurinn og lærir af honum, kemur til mín. . . . Enginn getur komið til mín, nema faðirinn veiti honum það.“ (Jóhannes 6:45, 65) Jehóva getur lesið hugi manna og hjörtu og hann þekkir þá sem eru líklegir til að bregðast jákvætt við kærleika hans þótt þeir þekki hann ekki enn. Hann notar líka engla sína til að stýra þessari einstöku þjónustu. Það var þess vegna sem Jóhannes sá engla taka þátt í þessu verki og skrifaði: „Ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð.“ — Opinberunarbókin 14:6.
Meðvitaðir um andlega þörf
6. Hvaða viðhorf er nauðsynlegt til að bregðast jákvætt við fagnaðarerindinu?
6 Annar þáttur í því að Jehóva veiti manni tækifæri til að taka við fagnaðarerindinu kemur fram í orðum Jesú: „Sælir eru þeir sem eru sér meðvitaðir um andlega þörf sína því að himnaríkið tilheyrir þeim.“ (Matteus 5:3, NW) Maður, sem er ánægður með sjálfan sig eða er ekki að leita sannleikans, finnur ekki fyrir neinni andlegri þörf. Hann hugsar aðeins um veraldlega og holdlega hluti. Sjálfsánægja verður honum fjötur um fót. Þegar margir, sem við hittum í starfi okkar hús úr húsi, hafna boðskapnum, verðum við þess vegna að taka með í reikninginni allar þær þeirra ólíku ástæður sem fólk kann að hafa fyrir viðbrögðum sínum.
7. Hvers vegna taka margir ekki við sannleikanum?
7 Margir neita að hlusta af því að þeir halda þrákelknislega í sína barnatrú og vilja ekki ræða málin. Aðrir hafa hallast að trú sem fellur að þeirra smekk — sumir vilja dulspeki, aðrir trú sem höfðar til tilfinninganna og enn aðrir eru að sækjast eftir félagslífi trúfélagsins. Margir hafa valið sér lífsstíl sem stangast á við staðla Guðs. Sumir lifa kannski siðlausu lífi og nota það sem ástæðu fyrir því að segjast ekki hafa áhuga. Aðrir hafna Biblíunni af því að þeim finnst hún of einfeldnisleg fyrir menntaðan, vísindalega þenkjandi mann. — 1. Korintubréf 6:9-11; 2. Korintubréf 4:3, 4.
8. Af hverju ætti það ekki að draga úr kostgæfni okkar að fólk skuli hafna okkur? (Jóhannes 15:18-20)
8 Ættum við að láta það veikja trú okkar og kostgæfni í björgunarstarfi okkar að meirihluti manna skuli hafna okkur? Við getum leitað hughreystingar í orðum Páls til Rómverja: „Hvað um það, þótt nokkrir hafi reynst ótrúir [„ekki trúað,“ NW]? Mundi ótrúmennska þeirra að engu gjöra trúfesti Guðs? Fjarri fer því. Guð skal reynast sannorður, þótt hver maður reyndist lygari, eins og ritað er: ‚Til þess að þú reynist réttlátur í orðum þínum og vinnir, þegar þú átt mál að verja.‘“ — Rómverjabréfið 3:3, 4.
9, 10. Hvað ber vitni um að mótstaðan hafi verið yfirunnin víða um lönd?
9 Við getum leitað uppörvunar í því að hugsa til þeirra mörgu landa víða um heim þar sem viðbrögð voru mjög lítil en dæmið hefur nú snúist við. Jehóva og englarnir hafa vitað að þar væri góðhjartað fólk að finna — en vottar Jehóva urðu að vera þrautseigir og þolgóðir í þjónustu sinni. Lítum til dæmis á nokkur lönd þar sem kaþólsk trú virtist vera óyfirstíganleg hindrun fyrir 50 árum — Argentínu, Brasilíu, Írland, Ítalíu, Kólombíu, Mexíkó, Portúgal og Spán. Vottarnir voru ekki margir árið 1943, aðeins 126.000 í öllum heiminum, og þar af 72.000 í Bandaríkjunum. Fáfræðin og fordómarnir, sem mættu vottunum, virtust eins og ókleifur múr. En núna skilar prédikunarstarfið hvað mestum árangri í þessum löndum. Hið sama má segja um mörg fyrrverandi kommúnistaríki. Það sést meðal annars á því að árið 1993 skírðust 7402 á móti í Kíev í Úkraínu.
10 Hvaða aðferðum hafa vottarnir beitt til að koma fagnaðarerindinu á framfæri við aðra? Hafa þeir lokkað til sín trúskiptinga með efnislegum tálbeitum eins og sumir hafa gefið í skyn? Hafa þeir bara heimsótt fátæka og ómenntaða eins og aðrir hafa haldið fram?
Árangursríkar aðferðir til að útbreiða fagnaðarerindið
11. Hvaða gott fordæmi gaf Jesús í þjónustu sinni? (Sjá Jóhannes 4:6-26.)
11 Jesús og lærisveinar hans gáfu þá fyrirmynd sem vottarnir fylgja enn þann dag í dag þegar þeir gera menn að lærisveinum. Jesús fór til fólks, ríkra sem fátækra, hvar sem það var að finna — heim til þess, talaði við það á almannafæri, við vötnin og í fjallshlíðum og jafnvel í samkunduhúsunum. — Matteus 5:1, 2; 8:14; Markús 1:16; Lúkas 4:15.
12, 13. (a) Hvaða fyrirmynd gaf Páll kristnum mönnum? (b) Hvernig hafa vottar Jehóva fylgt fordæmi Páls?
12 Páll postuli gat réttilega sagt um þjónustu sína: „Þér vitið, hvernig ég hef hagað mér hjá yður alla tíð frá þeim degi, er ég kom fyrst til Asíu. Ég þjónaði Drottni . . . ég dró ekkert undan, sem yður mátti að gagni verða, heldur boðaði yður það og kenndi opinberlega og í heimahúsum.“ — Postulasagan 20:18-20.
13 Vottar Jehóva eru þekktir um heim allan fyrir það að fylgja hinni postullegu fyrirmynd að boða trúna hús úr húsi. Í stað þess að einbeita sér að dýrri, innihaldslítilli og ópersónulegri sjónvarpsprédikun fara vottarnir til manna, ríkra sem fátækra, og tala við þá augliti til auglitis. Þeir gera sér far um að ræða um Guð og orð hans.b Þeir reyna ekki að snúa mönnum til trúar með því að gefa þeim gjafir eða gera þá „hrísgrjónakristna.“ Þeim sem vilja rökræða málin benda þeir á að eina lausnin á vandamálum mannkynsins sé stjórn Guðsríkis sem mun breyta ástandinu á jörðinni til hins betra. — Jesaja 65:17, 21-25; 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:1-4.
14. (a) Hvernig hafa margir trúboðar og brautryðjendur lagt traustan grunn? (b) Hvað lærum við af reynslu votta Jehóva í Japan?
14 Trúboðar og brautryðjendur hafa komið starfinu á laggirnar víða um lönd í þeim tilgangi að prédika fagnaðarerindið í eins mörgum löndum og mögulegt er. Þeir hafa lagt grundvöllinn og síðan hafa innfæddir vottar tekið við forystunni. Það hefur því ekki þurft mikinn fjölda erlendra votta til að halda prédikunarstarfinu gangandi og vel skipulögðu. Japan er afbragðsdæmi um það. Síðla á fimmta áratugnum fluttust trúboðar þangað, aðallega breskir, ástralskir og asískir, lærðu málið, aðlöguðu sig eilítið frumstæðum skilyrðum eftirstríðsáranna, og tóku síðan að prédika hús úr húsi. Meðan síðari heimsstyrjöldin geisaði höfðu vottarnir verið bannaðir og ofsóttir í Japan. Þegar trúboðarnir komu fundu þeir því aðeins fáeina virka japanska votta. En núna hefur þeim fjölgað upp í ríflega 187.000 í meira en 3000 söfnuðum! Hver var leyndardómurinn að baki þessari velheppnuðu byrjun? Trúboði með rúmlega 25 ára þjónustu í Japan að baki sagði: „Það mikilvægasta var að læra að ræða við fólk. Með því að þekkja tungumálið gátum við sett okkur í spor þess og lifað okkur inn í lífshætti þess. Við urðum að sýna að við elskuðum Japanina. Við reyndum í auðmýkt að falla inn í samfélagið án þess, auðvitað, að slaka á kristnum lífsgildum okkar.“
Kristileg breytni ber líka vitni
15. Hvernig hafa vottarnir sýnt kristilega breytni?
15 En það er ekki bara boðskapur Biblíunnar sem hefur haft áhrif á fólk. Það hefur líka séð kristnina í verki. Það hefur séð kærleika, samheldni og einingu vottanna jafnvel við erfiðustu aðstæður, svo sem borgarastríð, ættflokkaátök og fjandskap milli þjóðabrota. Vottarnir hafa varðveitt skýrt, kristið hlutleysi gagnvart öllum átökum og hafa uppfyllt orð Jesú: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ — Jóhannes 13:34, 35.
16. Hvaða frásaga sýnir fram á kristinn kærleika í framkvæmd?
16 Aldraður maður skrifaði í bæjarblað í heimabæ sínum um „herra og frú Hjálpleg“ og fordæmi þeirra um náungakærleika. Hann greindi frá því að nágrannahjón hans hefðu sýnt honum góðvild þegar konan hans lá fyrir dauðanum. „Síðan hún dó hafa þau verið frábær,“ skrifaði hann. „Þau hafa eiginlega ‚ættleitt‘ mig . . . og unnið alls konar heimilisstörf og hjálpað 74 ára manni á eftirlaunum að leysa vandamál sín. Það sem er sérstaklega óvenjulegt við þetta er að þau eru svört en ég hvítur. Þau eru vottar Jehóva, ég er óvirkur kaþólikki.“
17. Hvaða stefnu ættum við að forðast?
17 Þessi frásaga sýnir að við getum borið vitni á marga vegu, meðal annars með daglegri breytni okkar. Meira að segja er þjónusta okkar vita gagnslaus faríseaþjónusta ef við líkjum ekki eftir Kristi í breytni okkar. Við viljum ekki líkjast þeim sem Jesús lýsti: „Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða.“ — Matteus 22:37-39; 23:3.
Þjónshópurinn lætur réttu verkfærin í té
18. Hvernig hjálpa biblíurit okkur að ná til hjartahreinna manna?
18 Annar mikilvægur þáttur í prédikun fagnaðarerindisins fyrir öllum þjóðum er aðgangur að biblíuritum sem Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn gefur út. Við höfum bækur, bæklinga, smárit og tímarit sem geta svarað spurningum nálega hvaða einasta einlægs manns. Ef við hittum múslíma, hindúa, búddhatrúarmann, taóista eða Gyðing getum við notað bókina Leit mannkynsins að Guði, eða valið úr fjölbreyttu úrvali smárita og bæklinga til að hefja samræður og hugsanlega biblíunám. Ef þróunarsinni spyr um sköpunina getum við notað bókina Lífið — varð það til við þróun eða sköpun? Ef unglingur spyr hver sé tilgangur lífsins getum við bent honum á bókina Spurningar unga fólksins — svör sem duga. Ef einhver á í erfiðum, persónulegum vandamálum — þunglyndi, skilnaði eða sjúklegri þreytu, eða er fórnarlamb nauðgunar — þá höfum við tímarit sem hafa fjallað af raunsæi um slík viðfangsefni. Hinn trúi þjónshópur, sem Jesús spáði að myndi sjá fyrir „mat á réttum tíma,“ gerir hlutverki sínu svo sannarlega góð skil. — Matteus 24:45-47.
19, 20. Hvernig hefur starf Guðsríkis færst í aukana í Albaníu?
19 En til að ná til þjóðanna hefur þurft að gefa þessi biblíurit út á mörgum tungumálum. Hvernig hefur verið hægt að þýða Biblíuna og biblíurit á ríflega 200 tungumál? Albanía er gott dæmi til að sýna hvernig hinn trúi og hyggni þjónshópur hefur getað stuðlað að prédikun fagnaðarerindisins þrátt fyrir mikla erfiðleika og án undraverðrar þekkingar á framandi tungumálum eins og gerðist á hvítasunnunni. — Postulasagan 2:1-11.
20 Fyrir aðeins fáeinum árum var Albanía álitið eina raunverulega guðlausa kommúnistalandið í heimi. Tímaritið National Geographic sagði árið 1980: „Albanía bannar [trúarbrögð] og lýsti sig árið 1967 ‚fyrsta guðlausa ríkið í heimi.‘ . . . Hin nýja kynslóð Albaníu þekkir aðeins guðleysi.“ En núna er kommúnismi á undanhaldi og Albanir, sem viðurkenna andlega þörf sína, bregðast jákvætt við prédikun votta Jehóva. Lítill vinnuhópur ungra votta, sem kunnu ítölsku og ensku, var myndaður í Tírana árið 1992. Reyndir bræður, sem komu erlendis frá, kenndu þeim að nota kjöltutölvur til að slá inn texta á albönsku. Þeir byrjuðu á því að þýða smárit og blaðið Varðturninn. Með aukinni reynslu hefjast þeir handa við þýðingu annarra verðmætra biblíurita. Sem stendur eru yfir 300 starfandi vottar í þessu smáa landi (íbúatalan er 3.262.000), og samtals 1984 sóttu minningarhátíðina þar árið 1994.
Öll höfum við ábyrgð
21. Hvers konar tímum lifum við á?
21 Heimsatburðirnir eru að ná hámarki sínu. Með vaxandi glæpum og ofbeldi, manndrápum og nauðgunum í staðbundnum stríðum, einnig slöku siðferði og ávexti þess í mynd samræðissjúkdóma, svo og virðingarleysi fyrir réttmætum yfirvöldum, virðist heimurinn vera að nálgast stjórnleysi og vera að verða óstjórnandi. Við lifum hliðstæða tíma og fyrir flóðið sem svo er lýst í 1. Mósebók: „[Jehóva] sá, að illska mannsins var mikil á jörðinni og að allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga, þá iðraðist [Jehóva] þess, að hann hafði skapað mennina á jörðinni, og honum sárnaði það í hjarta sínu.“ — 1. Mósebók 6:5, 6; Matteus 24:37-39.
22. Hvaða kristin ábyrgð hvílir á öllum vottum Jehóva?
22 Alveg eins og á dögum Nóa mun Jehóva grípa inn í gang mála. En í réttvísi sinni og kærleika vill hann að fagnaðarerindið og viðvörunin sé prédikuð fyrst meðal allra þjóða. (Markús 13:10) Þar hvílir ábyrgð á vottum Jehóva — að finna þá sem verðskulda frið Guðs og kenna þeim friðarvegi hans. Bráðlega, þegar tími Guðs rennur upp, lýkur prédikunarstarfinu með góðum árangri. „Þá mun endirinn koma.“ — Matteus 10:12, 13; 24:14; 28:19, 20.
[Neðanmáls]
a Nánari upplýsingar um menn af þjóðunum eða heiðingja má finna undir flettiorðinu „Nations“ í Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 472-4, útgefið af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
b Gagnlegar tillögur um hina kristnu þjónustu má finna í greininni „Hvernig verða má árangursríkur þjónn orðsins,“ í Varðturninum, 1. nóvember 1985, bls. 23, og greininni „Árangursrík þjónusta gefur af sér fleiri lærisveina“ á bls. 28 í sama blaði.
-
-
Borið vitni fyrir „öllum þjóðum“Varðturninn – 1995 | 1. febrúar
-
-
[Rammi á blaðsíðu 28]
LAND STARFANDI VOTTAR ÁRIÐ 1943 1993
Argentína 374 102.043
Brasilía 430 366.297
Filippseyjar Síð. heimsst., engar skrár 116.576
Frakkland Síð. heimsst., engar skrár 122.254
Írland 150? 4.224
Ítalía Síð. heimsst., engar skrár 201.440
Kólombía ?? 60.854
Mexíkó 1.565 380.201
Perú Engin skráð starfsemi 45.363
Pólland Síð. heimsst., engar skrár 113.551
Portúgal Engin skráð starfsemi 41.842
Síle 72 44.668
Spánn Engin skráð starfsemi 97.595
Úrúgúæ 22 9.144
Venesúela Engin skráð starfsemi 64.081
[Mynd á blaðsíðu 26]
Vottar Jehóva starfa út um heim allan.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Vottum Jehóva fjölgar í mörgum kaþólskum löndum, svo sem á Spáni.
-