‚Verið viðbúin‘
1 Þegar Jesús bar fram spádóminn um endalok þessa heimskerfis varaði hann fylgjendur sína við því að verða niðursokknir í hversdagsleg málefni. (Matt. 24:36-39; Lúk. 21:34, 35) Þrengingin mikla getur hafist hvenær sem er og þess vegna er mjög áríðandi að við gerum eins og Jesús hvetur til: „Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.“ (Matt. 24:44) Hvað getur hjálpað okkur að vera viðbúin?
2 Að takast á við áhyggjur og truflanir: „Áhyggjur þessa lífs“ eru ein af tálgryfjunum sem þarf að varast. (Lúk. 21:34) Í sumum löndum gerir fátækt, atvinnuleysi og hár framfærslukostnaður fólki erfitt um vik að sjá sér farborða. Í öðrum löndum er algengt að fólk keppist við að eignast efnislega hluti. Ef efnislegir hlutir taka hug okkar allan er hætt við því að við höldum ekki áfram að leita fyrst Guðsríkis. (Matt. 6:19-24, 31-33) Safnaðarsamkomur hjálpa okkur að sjá skýrt hvað skiptir máli í lífinu. Reynirðu að mæta á hverja einustu samkomu? — Hebr. 10:24, 25.
3 Í heimi nútímans er mjög margt sem getur auðveldlega truflað okkur og rænt okkur dýrmætum tíma. Tölvunotkun getur orðið að snöru ef maður eyðir of miklum tíma í að vafra um Netið, lesa og skrifa tölvupóst eða spila tölvuleiki. Hægt er að eyða ótal klukkustunum í að horfa á sjónvarp og kvikmyndir, lesa sér til skemmtunar eða stunda áhugamál og íþróttir, og þá höfum við lítinn tíma og krafta fyrir andleg málefni. Afþreying og afslöppun geta aðeins endurnært okkur um stundarsakir en einkanám og fjölskyldunám gagnast okkur að eilífu. (1. Tím. 4:7, 8) Tekurðu þér tíma til að hugleiða orð Guðs á hverjum degi? — Ef. 5:15-17.
4 Við getum verið skipulagi Jehóva mjög þakklát fyrir andlegu fræðsluna sem hjálpar okkur að „umflýja allt . . . sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum“. (Lúk. 21:36) Við skulum nýta okkur þessa fræðslu til fulls og ,vera viðbúin‘ svo að trú okkar „geti orðið . . . til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists“. — 1. Pét. 1:7.