„Ef saltið dofnar“
ÞAÐ hefur hleypt af stað styrjöldum. Það hefur verið notað sem gjaldmiðill. Í Kína til forna gekk það næst gulli að verðmæti. Já, salt hefur lengi verið afar verðmæt verslunarvara. Enn í dag er það talið læknandi og sótthreinsandi, og það er notað um heim allan sem rotvarnarefni og til bragðauka.
Þegar litið er á margvíslega eiginleika og notagildi salts kemur ekki á óvart að það skuli notað í táknrænni merkingu í Biblíunni. Móselögin kváðu til dæmis á um að allar fórnir, sem bornar voru fram á altari Jehóva, væru saltaðar. (3. Mósebók 2:13) Þetta var ekki gert til að bragðbæta fórnirnar, heldur trúlega vegna þess að salt táknaði að eitthvað væri óskemmt eða óspillt.
Jesús Kristur sagði í hinni frægu fjallræðu að fylgjendur sínir væru „salt jarðar.“ (Matteus 5:13) Með þessum orðum gaf hann í skyn að þegar þeir prédikuðu Guðsríki gæti það haft verndandi áhrif á áheyrendur og bjargað lífi þeirra. Þeir sem færu eftir orðum hans yrðu verndaðir fyrir siðferðilegri og andlegri spillingu þar sem þeir lifðu og störfuðu. — 1. Pétursbréf 4:1-3.
En Jesús hélt áfram í varnaðartón: „Ef saltið dofnar . . . það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.“ Biblíufræðingurinn Albert Barnes segir að það salt, sem Jesús og postular hans þekktu, hafi verið „óhreint og blandað jurta- og jarðefnum.“ Þó að saltið dofnaði og glataði seltunni var gjarnan eftir „töluvert af jarðefnum.“ Barnes bendir á að það sem eftir stóð hafi verið „einskis nýtt nema . . . sem ofaníburður á gangstíga eins og við notum möl.“
Kristnir menn ættu að taka þessa viðvörun til sín og hætta ekki að bera vitni meðal almennings eða falla aftur í óguðlegt líferni. Þá myndu þeir spillast andlega og gætu orðið gagnslausir eins og ‚salt sem dofnar.‘