-
Jerúsalem — „Borg hins mikla konungs“Varðturninn – 1998 | 1. desember
-
-
Jerúsalem — „Borg hins mikla konungs“
„Þér eigið alls ekki að sverja . . . við Jerúsalem, því hún er borg hins mikla konungs.“ — MATTEUS 5:34, 35.
-
-
Jerúsalem — „Borg hins mikla konungs“Varðturninn – 1998 | 1. desember
-
-
„Hásæti Jehóva“ var þar
4, 5. Hvernig stuðlaði Davíð að því að Jerúsalem gegndi aðalhlutverki í tilgangi Guðs?
4 Jerúsalem varð heimsfræg á 11. öld f.o.t. þegar hún varð höfuðborg öruggrar og friðsællar þjóðar, Ísraelsmanna. Jehóva Guð lét smyrja hinn unga Davíð sem konung þessarar fornþjóðar. Þar eð Jerúsalem var stjórnarsetrið var svo að orði komist að Davíð og konungar af ætt hans sætu „á konungsstóli [Jehóva]“ eða í „hásæti Jehóva.“ — 1. Kroníkubók 28:5; 29:23, NW.
5 Hinn guðhræddi Davíð — Ísraelsmaður af Júdaættkvísl — vann Jerúsalem af Jebúsítum sem voru skurðgoðadýrkendur. Borgin náði þá aðeins yfir hæð sem nefndist Síon og þetta nafn varð með tímanum samheiti Jerúsalemborgar sjálfrar. Þegar fram liðu stundir lét Davíð flytja sáttmálsörk Guðs til Jerúsalem þar sem hún var geymd í tjaldi. Árum áður hafði Guð talað við spámanninn Móse úr skýi yfir örkinni helgu. (2. Mósebók 25:1, 21, 22; 3. Mósebók 16:2; 1. Kroníkubók 15:1-3) Örkin táknaði nærveru Jehóva Guðs því að hann var hinn raunverulegi konungur Ísraels. Það mátti því segja að hann ríkti frá Jerúsalem í tvennum skilningi.
6. Hverju lofaði Jehóva í sambandi við Davíð og Jerúsalem?
6 Jehóva lofaði Davíð því að ríkið, sem konungsætt hans réði og Síon eða Jerúsalem táknaði, skyldi aldrei líða undir lok. Það þýddi að afkomandi Davíðs myndi erfa réttinn til að stjórna að eilífu sem smurður þjónn Guðs, það er að segja Messías eða Kristur.a (Sálmur 132:11-14; Lúkas 1:31-33) Biblían upplýsir einnig að þessi varanlegi erfingi ‚hásætis Jehóva‘ eigi að ríkja yfir öllum þjóðum, ekki aðeins Jerúsalem. — Sálmur 2:6-8; Daníel 7:13, 14.
7. Hvernig efldi Davíð konungur hreina guðsdýrkun?
7 Tilraunir manna til að steypa Davíð, smurðum konungi Guðs, af stóli mistókust. Óvinaþjóðir lutu í lægra haldi og landamæri fyrirheitna landsins voru færð út þangað sem Guð hafði ákveðið. Davíð notfærði sér þessa stöðu til að efla hreina tilbeiðslu. Og í mörgum af sálmum hans er Jehóva lofsunginn sem raunverulegur konungur Síonar. — 2. Samúelsbók 8:1-15; Sálmur 9:2, 12; 24:1, 3, 7-10; 65:2, 3; 68:2, 25, 30; 110:1, 2; 122:1-4.
8, 9. Hvernig náði sönn tilbeiðsla í Jerúsalem nýjum hátindi í stjórnartíð Salómons konungs?
8 Í stjórnartíð Salómons Davíðssonar náði tilbeiðslan á Jehóva nýjum hátindi. Salómon stækkaði Jerúsalem til norðurs svo að Móríahæð (þar sem Klettamoskan stendur nú) var innan borgarmarkanna. Hann fékk þau sérréttindi að reisa mikilfenglegt musteri, Jehóva til lofs, á þessari hæð sem lá nokkru hærra en borgin. Sáttmálsörkinni var komið fyrir í hinu allra helgasta í þessu musteri. — 1. Konungabók 6:1-38.
9 Ísraelsþjóðin naut friðar meðan hún studdi tilbeiðslu Jehóva í Jerúsalem af heilum hug. Ritningin lýsir þessu ástandi fagurlega og segir: „Júda og Ísrael voru fjölmennir, sem sandur á sjávarströndu, þeir átu og drukku og voru glaðir. . . . og [Salómon] hafði frið á allar hliðar hringinn í kring, svo að Júda og Ísrael bjuggu öruggir, hver maður undir sínu víntré og fíkjutré.“ — 1. Konungabók 4:20, 24, 25.
10, 11. Hvernig staðfestir fornleifafræðin lýsingu Biblíunnar á Jerúsalem í stjórnartíð Salómons?
10 Fornleifafundir staðfesta þessa frásögu af blómlegri stjórnartíð Salómons. Prófessor Yohanan Aharoni segir í bók sinni The Archaeology of the Land of Israel: „Auðurinn, sem streymdi til konungshirðarinnar úr öllum áttum, og blómleg verslun . . . olli hraðri og greinilegri byltingu á öllum sviðum verkmenningar. . . . Munaðarvörur en þó sérstaklega leirmunir bera vitni um . . . þessa breyttu verkmenningu. . . . Leirkerasmíð og leirbrennsla tók þvílíkum stakkaskiptum að hún varð óþekkjanleg.“
11 Jerry M. Landay tekur í sama streng og skrifar: „Verkmenning Ísraelsmanna þróaðist meira á þrem áratugum undir stjórn Salómons en á 200 árum þar á undan. Í jarðlögum frá dögum Salómons er að finna menjar um gríðarmiklar byggingarframkvæmdir, stórar borgir umgirtar þykkum múrum, ört vaxandi íbúðarhverfi með vel byggðum húsaþyrpingum efnamanna og feikilegar framfarir í færni leirkerasmiða og í framleiðsluaðferðum þeirra. Við finnum líka leifar muna frá fjarlægum stöðum sem gefur vísbendingu um þróttmikla alþjóðaverslun og viðskipti.“ — The House of David.
Frá friði til auðnar
12, 13. Af hverju var hætt að efla sanna tilbeiðslu í Jerúsalem?
12 Friður og velmegun Jerúsalem, borgarinnar þar sem helgidómur Jehóva stóð, var viðeigandi bænarefni. Davíð skrifaði: „Biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir, er elska þig. Friður sé kringum múra þína, heill í höllum þínum. Sakir bræðra minna og vina óska ég þér friðar.“ (Sálmur 122:6-8) Þótt Salómon hlyti þau sérréttindi að reisa mikilfenglegt musteri í þessari friðsælu borg tók hann sér margar heiðnar konur þegar fram liðu stundir. Á elliárum tældu þær hann til að stuðla að tilbeiðslu falsguða. Þetta fráhvarf hafði spillandi áhrif á alla þjóðina og rændi hana sönnum friði. — 1. Konungabók 11:1-8; 14:21-24.
13 Snemma í stjórnartíð Rehabeams Salómonssonar gerðu tíu ættkvíslir uppreisn og stofnuðu norðurríkið Ísrael. Vegna skurðgoðadýrkunar þjóðarinnar leyfði Guð Assýringum að leggja hana undir sig. (1. Konungabók 12:16-30) Jerúsalem var eftir sem áður miðstöð tveggjaættkvíslaríkisins Júda í suðri. En þegar fram liðu stundir sneri það einnig baki við hreinni guðsdýrkun þannig að Guð leyfði Babýloníumönnum að eyða þessari þverúðugu borg árið 607 f.o.t. Gyðingar voru útlægir í Babýlon í 70 ár. Þá var þeim leyft vegna miskunnar Guðs að snúa aftur til Jerúsalem og endurreisa sanna tilbeiðslu. — 2. Kroníkubók 36:15-21.
14, 15. Hvernig gegndi Jerúsalem aftur aðalhlutverki eftir útlegðina í Babýlon en hvað hafði breyst?
14 Húsarústir Jerúsalemborgar hljóta að hafa verið vaxnar illgresi eftir að hafa legið í eyði í 70 ár. Borgarmúrarnir voru illa farnir og þar sem áður höfðu verið hlið og burðarturnar voru nú stór skörð. En hinir heimkomnu Gyðingar tóku í sig kjark. Þeir reistu altari þar sem musterið hafði staðið og tóku að færa Jehóva daglegar fórnir.
15 Þessi byrjun lofaði góðu, en hin endurreista Jerúsalem yrði aldrei aftur höfuðborg ríkis með afkomanda Davíðs konungs í hásæti. Nú voru Gyðingar settir undir landstjóra skipaðan af Persum, sigurvegurum Babýlonar, og urðu að gjalda þeim skatt. (Nehemíabók 9:34-37) Þótt Jerúsalem væri „fótum troðin“ var hún enn eina borgin á jörðinni sem Jehóva hafði sérstaka velþóknun á. (Lúkas 21:24) Hún var miðstöð hreinnar tilbeiðslu og jafnframt tákn þess að Guð hefði rétt til að beita drottinvaldi sínu yfir allri jörðinni fyrir milligöngu afkomanda Davíðs konungs.
Andstaða falstrúaðra nágranna
16. Af hverju hættu hinir heimkomnu Gyðingar við endurreisn Jerúsalem?
16 Innan skamms voru hinir heimkomnu Gyðingar búnir að leggja grunn að nýju musteri í Jerúsalem. En falstrúaðir nágrannar sendu Artaxerxesi (Artahsasta) Persakonungi rætið bréf þar sem þeir fullyrtu að Gyðingar myndu gera uppreisn. Artaxerxes bannaði þá frekari byggingarframkvæmdir í Jerúsalem. Ef þú hefðir búið í borginni á þeim tíma hefðir þú örugglega velt fyrir þér hvaða framtíð hún ætti fyrir sér. Svo fór að Gyðingar hættu musterisbyggingunni og sökktu sér niður í efnishyggju. — Esrabók 4:11-24; Haggaí 1:2-6.
17, 18. Hvernig sá Jehóva til þess að Jerúsalem væri endurreist?
17 Um 17 árum eftir heimkomuna vakti Guð upp spámennina Haggaí og Sakaría til að leiðrétta hugsunarhátt fólksins. Gyðingar iðruðust og tóku aftur til við endurreisn musterisins. Daríus var nú orðinn konungur Persíu. Hann staðfesti að Kýrus konungur hefði fyrirskipað að musteri Jerúsalemborgar skyldi endurreist. Daríus sendi nágrönnum Gyðinga bréf og fyrirskipaði þeim að ‚halda sig frá Jerúsalem‘ og styðja verkið með skattfé konungs þannig að ljúka mætti byggingunni. — Esrabók 6:1-13.
18 Gyðingar luku musterisbyggingunni á 22. ári eftir heimkomu sína. Þú getur rétt ímyndað þér að þessi tímamót voru tilefni mikilla hátíðarhalda og fagnaðar. En Jerúsalem og múrar hennar voru enn að miklu leyti í rústum. Borgin fékk þá athygli sem þurfti „á dögum Nehemía landstjóra og Esra prests hins fróða.“ (Nehemíabók 12:26, 27) Að því er best verður séð var Jerúsalem endurbyggð að fullu undir lok fimmtu aldar f.o.t. og var þá aftur orðin ein af helstu borgum fornaldar.
Messías kemur fram
19. Hvernig viðurkenndi Messías sérstöðu Jerúsalem?
19 Við skulum nú stökkva yfir nokkrar aldir og staðnæmast við atburð sem hafði alheimsþýðingu, fæðingu Jesú Krists. Engill Jehóva Guðs hafði sagt meynni sem var móðir Jesú: „[Jehóva] Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, . . . og á ríki hans mun enginn endir verða.“ (Lúkas 1:32, 33) Mörgum árum síðar flutti Jesús hina frægu fjallræðu. Þar gaf hann leiðbeiningar og hvatningu um margvísleg mál. Til dæmis hvatti hann áheyrendur sína til að halda heit sín við Guð en gæta þess að sverja ekki eiða af léttúð. Hann sagði: „Enn hafið þér heyrt, að sagt var við forfeðurna: ‚Þú skalt ekki vinna rangan eið, en halda skaltu eiða þína við [Jehóva].‘ En ég segi yður, að þér eigið alls ekki að sverja, hvorki við himininn, því hann er hásæti Guðs, né við jörðina, því hún er skör fóta hans, né við Jerúsalem, því hún er borg hins mikla konungs.“ (Matteus 5:33-35) Athyglisvert er að Jesús skyldi viðurkenna þá sérstöðu sem Jerúsalem hafði haft um aldaraðir. Já, hún var „borg hins mikla konungs,“ Jehóva Guðs.
20, 21. Hvaða gerbreyting varð á afstöðu margra Jerúsalembúa?
20 Er dró að ævilokum Jesú á jörð bauð hann sig Jerúsalembúum sem réttskipaðan, smurðan konung. Margir hrópuðu þá fagnandi: „Blessaður sé sá sem kemur, í nafni [Jehóva]! Blessað sé hið komandi ríki föður vors Davíðs!“ — Markús 11:1-10; Jóhannes 12:12-15.
21 En á innan við viku tókst trúarleiðtogum borgarinnar að snúa mannfjöldanum gegn Jesú. Hann varaði við að Jerúsalem og þjóðin öll myndi glata hylli Guðs. (Matteus 21:23, 33-45; 22:1-7) Til dæmis lýsti hann yfir: „Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. Hús yðar verður í eyði látið.“ (Matteus 23:37, 38) Á páskum árið 33 fengu andstæðingar Jesú hann ranglega líflátinn utan borgarinnar. En Jehóva reisti smurðan þjón sinn upp frá dauðum og veitti honum dýrð og ódauðleika sem andaveru í Síon á himnum, og af því getum við öll notið góðs. — Postulasagan 2:32-36.
22. Hvað hafa fjölmargar ritningargreinar um Jerúsalem átt við eftir dauða Jesú?
22 Þaðan í frá má heimfæra flesta óuppfyllta spádóma um Síon eða Jerúsalem á himneskt fyrirkomulag eða smurða fylgjendur Jesú. (Sálmur 2:6-8; 110:1-4; Jesaja 2:2-4; 65:17, 18; Sakaría 12:3; 14:12, 16, 17) Fjölmargar ritningargreinar um „Jerúsalem“ eða „Síon,“ sem skráðar eru eftir dauða Jesú, eru greinilega táknrænar og eiga ekki við hina bókstaflegu borg eða stað. (Galatabréfið 4:26; Hebreabréfið 12:22; 1. Pétursbréf 2:6; Opinberunarbókin 3:12; 14:1; 21:2, 10) Það sannaðist endanlega árið 70 að Jerúsalem væri ekki lengur „borg hins mikla konungs,“ en þá var hún lögð í eyði af rómverskum her eins og Daníel og Jesús Kristur höfðu spáð. (Daníel 9:26; Lúkas 19:41-44) Hvorki biblíuritararnir né Jesús sjálfur boðuðu að hin jarðneska Jerúsalem myndi síðar endurheimta þá sérstöku velvild Jehóva Guðs sem hún naut einu sinni. — Galatabréfið 4:25; Hebreabréfið 13:14.
-