Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w88 1.8. bls. 31-32
  • Hvers vegna þú ættir að sýna áhuga

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvers vegna þú ættir að sýna áhuga
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvers vegna margir sýna engan áhuga
  • Þeir sem ekki sýndu áhuga á dögum Jesú
  • Sýndu áhuga — lífið er í húfi!
  • Hvers vegna tala vottar Jehóva við fólk sem hefur áður sagt að það hafi ekki áhuga?
    Spurningar og svör um Votta Jehóva
  • Búðu þig undir frelsun inn í nýjan heim
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Nú er enn þýðingarmeira að vaka
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
  • Spurningar frá lesendum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
w88 1.8. bls. 31-32

Hvers vegna þú ættir að sýna áhuga

‚ÁHUGA á hverju?‘ Mestu breytingu sem mun verða í sögu mannkynsins! Algerlega ný stjórn frá hendi Guðs er í þann mund að taka í sínar hendur öll völd á jörðinni. (Daníel 2:44) Sú valdataka mun hafa áhrif á hvert einasta mannsbarn — annaðhvort til góðs eða ills. Þessi stórmerka breyting á að eiga sér stað innan þeirrar kynslóðar sem nefnd er í Matteusi 24:34. Boðskapurinn um þá breytingu verðskuldar því að allir menn sýni honum einlægan áhuga. Það væri meira að segja rangt að segja: ‚Ég hef ekki áhuga.‘

Hvers vegna margir sýna engan áhuga

Okkar tímar eru ekki þeir fyrstu þegar boðaður hefur verið mikilvægur og áríðandi boðskapur sem hefði átt að vekja áhuga þeirra sem bauðst að heyra hann. Dagar Nóa voru slíkir tímar. Sökum hins óguðlega, siðlausa og ofbeldisfulla persónuleika manna á þeim tíma ákvað Jehóva að afmá mannkynið í heimsflóði. (1. Mósebók 6:5-7, 13) En áður en Guð lét til skarar skríða að eyða hinum óguðlegu sá hann um að Nói, prédikari réttlætisins, varaði heiminn við hinu komandi flóði og benti á þá lífsbraut sem menn þyrftu að ganga ef þeir vildu varðveita líf sitt. Þótt þessi boðskapur væri afar þýðingarmikill gáfu þeir sem heyrðu hann honum almennt engan gaum. (Matteus 24:39; Lúkas 17:26, 27; 2. Pétursbréf 2:5) Menn voru sinnulausir, skeytingarlausir — þeir höfðu hreinlega ekki áhuga! Sökum þess misstu þeir allt.

Mjög svo sama ástand ríkti í borgunum Sódómu og Gómorru sem voru illræmdar fyrir siðleysi sitt. Þótt íbúar borganna væru varaðir við því að hin grófa rangsleitni þeirra kallaði eyðingu yfir borgirnar gáfu þeir því engan gaum. Þeir höfðu ekki áhuga á nokkru eða nokkrum sem gat raskað hinu daglega lífi þeirra. Maðurinn Lot var eina undantekningin. — 1. Mósebók 18:20-30; 19:1-29; Lúkas 17:28-30.

Boðskapurinn átti því ekki vinsældum að fagna meðal íbúa þessara borga. Kannski voru þeir hræddir við hvað nágrannar þeirra myndu hugsa um þá ef þeir sýndu áhuga. Kannski óttuðust þeir að þeir myndu þurfa að gera breytingar í lífi sínu sem þeir voru ekki fúsir til. Svo er að sjá sem þeir hafi notið þess lauslætis og taumleysis sem þeir höfðu tamið sér. (Júdasarbréfið 7) Allt til þess dags er eyðingin kom voru þeir því grunlausir og gerðu sér ekki grein fyrir hvað væri í þann mund að gerast.

Þeir sem ekki sýndu áhuga á dögum Jesú

Þegar sonur Guðs, Jesús Kristur, var á jörðinni sendi hann fylgjendur sína út til að boða fagnaðarerindið um himneska stjórn Guðs. (Matteus 10:7) Meira að segja gaf hann þeim fyrirmæli um á hvaða hátt þeir ættu að bera þennan óvenjulega og þýðingarmikla boðskap á borð á hverju heimili og hvað þeir ættu að gera ef húsráðandi sýndi honum ekki ósvikinn áhuga. Hann sagði meðal annars við lærisveina sína: „Þegar þér komið í hús, þá árnið því góðs, og sé það verðugt, skal friður yðar koma yfir það, en sé það ekki verðugt, skal friður yðar aftur hverfa til yðar. Og taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi eða þeirri borg og hristið dustið af fótum yðar.“ — Matteus 10:12-14.

Taktu eftir að Jesús sagði lærisveinum sínum að ‚hrista dustið af fótum sér‘ þegar þeir færu frá heimili eða borg þar sem ríki Jehóva væri enginn áhugi sýndur. Hvað átti hann við með þessu ráði? Það að hrista dustið af fótum sér gaf til kynna að lærisveinarnir afsöluðu sér allri ábyrgð á þeim afleiðingum sem það myndi hafa fyrir húsráðandann að sýna boðskap Guðs ekki áhuga. Það gaf til kynna að fylgjendur Jesú færu með friði og létu það hús eða borg taka þeim afleiðingum sem þessi afstaða myndi hafa.

Sýndu áhuga — lífið er í húfi!

Athyglisvert er að Jesús Kristur skyldi líkja viðbrögðum fólks á okkar dögum við viðbrögð fólks á dögum Nóa og í Sódómu og Gómorru. (Matteus 24:37-39; Lúkas 17:26-30) Siðleysi og ofbeldi var mjög útbreitt bæði á dögum Nóa og dögum Lots. Frásagan segir að hinn réttláti Lot hafi verið mæddur á hinu mikla lögleysi og lauslæti Sódómu- og Gómorrubúa. — 2. Pétursbréf 2:6-8.

Þegar Jesús vísaði til daga Nóa og daga Lots beindi hann þó ekki athyglinni að siðleysi og ofbeldi þeirra tíma heldur daglegum athöfnum og hugðarefnum — því að eta, drekka, kvænast, giftast, kaupa, selja, byggja og gróðursetja. Hann gaf til kynna að margir myndu ekki bregðast jákvætt við boðskapnum um Guðsríki heldur vera uppteknir af daglegum hugðarefnum lífsins og þannig ekki sýna því nokkurn áhuga sem Jehóva ætlar sér að gera. En boðskapurinn varðar hvorki meira né minna en líf eða dauða. Það að hlusta ekki er mönnum dýrkeypt. Það að gefa boðskapnum engan gaum eða sýna honum engan áhuga er alvarleg synd. — Samanber Matteus 6:31, 32.

En hversu alvarleg? Jehóva svaraði því: „Bærilegra mun landi Sódómu og Gómorru á dómsdegi en þeirri borg“ sem ekki hlustaði eða sýndi áhuga. (Matteus 10:15) Ef einhver sýnir áhuga, hlustar og trúir boðskapnum, þá getur hann, jafnvel þótt hann kunni að vera siðlaus og ofbeldishneigður, breytt persónuleika sínum og fundið náð í augum Jehóva og orðið hæfur til að verða þegn Guðsríkis, alveg eins og frumkristnir menn í Korintu. — 1. Korintubréf 6:9-11.

Í samræðum sínum við lærisveinana hvatti Jesús Kristur þá ævinlega til að hlusta, gefa óskipta athygli og sýna áhuga hinum þýðingarmikla boðskap um ríki Guðs. Í því skyni að vekja athygli þeirra sem hann talaði við hvatti hann: „Gætið því að, hvernig þér heyrið.“ „Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri!“ „Heyrið mig allir, og skiljið.“ „Heyrið og skiljið.“ — Lúkas 8:18; Markús 4:9; 7:14; Matteus 15:10.

Næst þegar vottar Jehóva knýja dyra hjá þér er það þinn hagur að segja: ‚Komið inn fyrir, ég hef áhuga.‘

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila