‚Fyrst á að prédika fagnaðarerindið‘
„En fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.“ — MARKÚS 13:10.
1. Nefndu eitt atriði sem gerir votta Jehóva ólíka öllum trúfélögum kristna heimsins. Hver er ástæða þess?
AF öllum sem kalla sig kristna eru vottar Jehóva þeir einu sem taka það alvarlega að prédika fagnaðarerindið. Þeir eru einasti hópur manna sem hver og einn finnur fyrir persónulegri skyldukvöð til að ganga reglubundið á fund náunga síns til að tala við hann um tilgang Guðs. Hvers vegna er það? Vegna þess að sérhverjum votti finnst hann verða sem kristinn maður að feta í fótspor Krists. (1. Pétursbréf 2:21) Hvað felur það í sér?
2. Hvernig líta margir á Jesú Krist en hvert var helsta starf hans á jörðinni?
2 Í hugum margra var Jesús Kristur aðeins maður sem vann góð verk. Hann læknaði sjúka, nærði hungraða og sýndi þeim sem þurfandi voru kærleika og góðvild. En Jesús gerði miklu meira en það. Hann var framar öllu öðru kostgæfur prédikari fagnaðarerindisins um ríki Guðs. Fáeinum mánuðum eftir skírn sína í Jórdanánni hóf hann að prédika opinberlega: „Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.“ (Matteus 4:17) Frásögn Markúsar segir: „Jesús [kom] til Galíleu og prédikaði fagnaðarerindi Guðs og sagði: ‚Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd.‘“ — Markús 1:14, 15.
3, 4. (a) Hvað lagði Jesús áherslu á í þjónustu sinni, enda þótt hann læknaði hvers kyns sjúkdóma? (b) Til hvers var Jesús sendur? (c) Við hvað líkti Jesús prédikun sinni og hvað sagði hann lærisveinunum að gera?
3 Jesús kallaði Pétur, Andrés, Jakob og Jóhannes sem fylgjendur sína og við lesum: „Hann fór nú um alla Galíleu, kenndi í samkundum þeirra, prédikaði fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi meðal lýðsins.“ Þegar Galíleumenn reyndu að aftra honum þess að halda för sinni áfram sagði hann: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur.“ Hann fór síðan og prédikaði í samkundum Júdeu. — Matteus 4:18-23; Lúkas 4:43, 44.
4 Þegar Jesús sneri aftur til Galíleu „fór hann um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki.“ (Lúkas 8:1) Hann líkti prédikunarstarfi sínu við uppskeru og sagði: „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Matteus 9:35-38) Jafnvel þegar fjöldinn elti hann svo að hann náði ekki að hvílast „tók [hann] þeim vel og talaði við þá um Guðs ríki og læknaði þá, er lækningar þurftu.“ — Lúkas 9:11.
5. Hvaða fyrirmæli gaf Jesús postulunum og öðrum lærisveinum um þjónustuna þegar hann sendi þá út?
5 Að vísu læknaði Jesús sjúka og nærði af og til hungraða. En fram yfir allt annað var hann önnum kafinn að segja fólki frá Guðsríki. Hann vildi að fylgjendur hans gerðu slíkt hið sama. Eftir að hafa þjálfað postula sína sendi hann út tvo og tvo til að prédika og sagði: „Farið og prédikið: ‚Himnaríki er í nánd.‘“ (Matteus 10:7) Lúkas segir: „Hann sendi þá að boða Guðs ríki og græða sjúka.“ (Lúkas 9:2) Lærisveinunum 70 gaf Jesús einnig það boð að ‚lækna þá, sem eru sjúkir, og segja þeim: „Guðs ríki er komið í nánd við yður.““ — Lúkas 10:9.
6. Hvaða fyrirmæli um þjónustuna gaf Jesús fylgjendum sínum áður en hann steig upp til himna?
6 Áður en Jesús steig upp til himna bauð hann fylgjendum sínum að halda áfram prédikuninni og jafnvel auka hana. Hann bauð þeim: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Hann sagði enn fremur: „Þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Bæði Jesús og postular hans einbeittu sér öðru fremur að því að prédika fagnaðarerindið um ríki Guðs.
Prédika á fagnaðarerindið nú á tímum
7. Hvað sagði Jesús um prédikunarstarf við ‚endalok veraldar‘?
7 Í spádómi sínum um atburði, sem ættu að gerast ‚við endalok veraldar,‘ sagði Jesús: „Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:3, 14) Eða, eins og segir í Markúsi 13:10: „En fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.“ — Sjá einnig Opinberunarbókina 14:6, 7.
8. (a) Hvað fólst í fagnaðarerindinu á dögum postulanna? (b) Hvað felst í fagnaðarboðskapnum nú á tímum?
8 Á „síðustu dögum“ felur fagnaðarerindið um ríkið meira í sér en þegar Jesús var á jörðinni. Jesús prédikaði að Guðsríki væri í nánd og beindi athyglinni að því að hann, Messías og konungurinn, væri á meðal manna. (2. Tímóteusarbréf 3:1; Matteus 4:17; Lúkas 17:21) Fagnaðarerindið, sem frumkristnir menn prédikuðu, fól meðal annars í sér upprisu Jesú og uppstigningu til himna, og það hvatti auðmjúka menn til að setja trú sína á hið komandi Guðsríki. (Postulasagan 2:22-24, 32; 3:19-21; 17:2, 3; 26:23; 28:23, 31) Núna, þegar komið er fram á ‚endalok veraldar,‘ felst í prédikun fagnaðarerindisins um Guðsríki sá boðskapur að Guðsríki sé stofnsett á himnum. — Opinberunarbókin 11:15-18; 12:10.
Hverjir prédika fagnaðarerindið?
9. (a) Hvaða rök færa sumir fyrir þeirri skoðun að kristnum nútímamönnum sé ekki öllum skylt að prédika fagnaðarerindið? (b) Hverja notaði Jehóva forðum daga til að prédika orð sitt og hvað þýðir það fyrir okkur núna?
9 Hverjir ættu nú á tímum að taka þátt í prédikunarstarfinu? Bersýnilega telur kristni heimurinn það ekki skyldu sérhvers manns, og reyndar lét Jesús þess ekki getið hverjir ættu að vinna verkið þegar hann sagði að fagnaðarerindið yrði prédikað. En hverja aðra ætti Jehóva að nota til slíks starfs en þá sem hafa sett trú sína á orð hans og byrjað að fylgja því í lífi sínu? Þegar Jehóva ákvað á dögum Nóa að vara hinn illa mannheim við yfirvofandi tortímingu notaði hann til þess mann sem „gekk með Guði.“ (1. Mósebók 6:9, 13, 14; 2. Pétursbréf 2:5) Þegar hann þurfti að senda Ísraelsþjóðinni spádómsboðskap sendi hann til hennar ‚þjóna sína,‘ spámennina. (Jeremía 7:25; Amos 3:7, 8) Hin vígða Ísraelsþjóð var þjóð votta hans. (2. Mósebók 19:5, 6; Jesaja 43:10-12) Já, Jehóva notar vígða þjóna sína sem votta.
10. Hvernig má sjá af orðalagi Matteusar 28:19, 20 að boðið um að gera menn að lærisveinum nær til allra kristinna manna?
10 Sumir halda því fram að boðið um að gera menn að lærisveinum, gefið í Matteusi 28:19, 20, hafi aðeins verið gefið postulunum og eigi því ekki við kristna menn í heild. En taktu eftir hvað Jesús sagði: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ Fylgjendur Jesú áttu að kenna nýjum lærisveinum að halda allt sem Jesús hafði boðið. Og eitt af því sem hann bauð var að þeir skyldu ‚fara og gera menn að lærisveinum.‘ Því átti að kenna öllum nýjum lærisveinum að halda þetta sérstaka boð líka.
11. (a) Hvaða skyldukvöð hvíldi á kristna söfnuðinum á fyrstu öld? (b) Hvað er nauðsynlegt til að bjargast og hvað felur það í sér?
11 Kristni söfnuður fyrstu aldar var kallaður ‚eignarlýður Guðs er skyldi víðfrægja dáðir hans sem kallaði hann frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.‘ (1. Pétursbréf 2:9) Þeir sem mynduðu söfnuðinn báru kostgæfir vitni um ríki Guðs. (Postulasagan 8:4, 12) Öllum ‚hinum heilögu‘ í Róm, smurðum kristnum mönnum, var sagt að ‚með munninum væri játað til hjálpræðis‘ og að ‚hver sem ákallaði nafn Jehóva myndi hólpinn verða.‘ (Rómverjabréfið 1:7; 10:9, 10, 13) Þessi opinbera játning til hjálpræðis, gerð við skírnina, tekur einnig til opinberrar prédikunar fagnaðarerindisins um ríki Jehóva.
12, 13. (a) Hvað felst í ‚játningu vonar okkar‘ sem nefnd er í Hebreabréfinu 10:23? (b) Hvernig sýnir Sálmur 96 fram á að nauðsynlegt sé að prédika opinberlega utan safnaðarins og hvernig styður Opinberunarbókin 7:9, 10 það?
12 Páll postuli skrifaði kristnum Hebreum: „Höldum fast við játningu vonar vorrar, án þess að hvika, því að trúr er sá, sem fyrirheitið hefur gefið.“ (Hebreabréfið 10:23) Þessi opinbera játning takmarkast ekki við samkomur safnaðarins. (Sálmur 40:10, 11) Í Sálmi 96:2, 3, 10 sjáum við greinilega spádómlegt boð um að prédika utan safnaðarins, meðal þjóðanna. Þar segir: „Kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag. Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða. Segið meðal þjóðanna: [Jehóva] er konungur orðinn!“ Sannarlega var Jesús í Matteusi 28:19, 20 og Postulasögunni 1:8 að bjóða kristnum mönnum að prédika fyrir þjóðunum.
13 Páll postuli minnist á þessa opinberu prédikun í bréfi sínu til smurðra, kristinna Hebrea: „Með hjálp Jesú munum við enn bera lofgjörðarfórn fram fyrir Guð með því að játa nafn hans meðal fólksins.“ (Hebreabréfið 13:15, Lifandi orð) Í Opinberunarbókinni er lýst ‚miklum múgi‘ af öllum þjóðum sem hrópar hárri röddu: „Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ (Opinberunarbókin 7:9, 10) Núna við endalok heimskerfisins prédika vígðir vottar Jehóva fagnaðarerindið, bæði leifar hinna andlegu bræðra Krists og sauðumlíkir félagar þeirra sem mynda ‚mikinn múg.‘ En hvernig ættu þeir að bera sig að við þetta starf?
„Opinberlega og í heimahúsum“
14. Hvar prédikaði Jesús og hvað má læra af því?
14 Jesús prédikaði beint fyrir fólkinu. Við lesum til dæmis að hann hafi prédikað í samkunduhúsunum. Hvers vegna þar? Vegna þess að þar kom fólk saman á hvíldardeginum og hlýddi á upplestur úr Ritningunni og umræður um hana. (Matteus 4:23; Lúkas 4:15-21) Jesús prédikaði líka fyrir fólki við veginn, við vatnið, í fjallshlíðinni, við brunn utan borgarinnar og inni á heimilum manna. Jesús prédikaði fyrir fólki hvar sem það var að finna. — Matteus 5:1, 2; Markús 1:29-34; 2:1-4, 13; 3:19; 4:1, 2; Lúkas 5:1-3; 9:57-60; Jóhannes 4:4-26.
15. (a) Hvaða fyrirmæli gaf Jesús lærisveinum sínum þegar hann sendi þá út að prédika? (b) Hvernig hafa sumir biblíuskýrendur útskýrt þau?
15 Þegar Jesús sendi lærisveina sína út til að prédika sendi hann þá beint til fólksins. Það má sjá af fyrirmælum hans í Matteusi 10:1-15, 40-42. Í 11. versi sagði hann: „Hvar sem þér komið í borg eða þorp, spyrjist þá fyrir um, hver þar sé verðugur, og þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju. Jerúsalem-biblían orðar versið þannig: „Spyrjið um einhvern sem hægt er að treysta,“ rétt eins og lærisveinarnir ættu að biðja einhvern framámann eða einhvern sem væri vel að sér í þorpinu að kanna hver hefði gott orð á sér og væri þar með verður boðskaparins. (Sjá einnig Weymouth og King James Version.) Og þetta er skýringin sem sumir biblíuskýrendur gefa á 11. versi.
16. Hvað sýnir málefnalegri athugun á orðum Jesú í Matteusi 10:11 um það hvernig postularnir ættu að leita uppi verðuga einstaklinga?
16 Þó ber að hafa í huga að guðfræðingar kristna heimsins prédika fæstir hús úr húsi og margir biblíuskýrendur hafa tilhneigingu til að túlka Ritninguna í samhengi við sína eigin lífsreynslu. Hlutlægari athugun á fyrirmælum Jesú skilar þeirri niðurstöðu að hann hafi verið að tala um að lærisveinar hans skyldu leita menn uppi, einn og einn, annaðhvort hús úr húsi eða opinberlega, og kynna fyrir þeim boðskapinn um Guðsríki. (Matteus 10:7) Viðbrögð þeirra gæfu síðan til kynna hvort þeir væru verðugir eða ekki. — Matteus 10:12-15.
17. Hvað sannar að lærisveinar Jesú áttu ekki bara að heimsækja verðuga menn eftir ábendingum eða pöntun?
17 Þetta má sjá af orðum Jesú í Matteusi 10:14: „Taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi eða þeirri borg og hristið dustið af fótum yðar.“ Jesús var að tala um það að lærisveinar hans færu óboðnir til fólks til að prédika fyrir því. Þeir myndu að vísu einnig þiggja húsaskjól á þeim heimilum þar sem tekið yrði við boðskapnum. (Matteus 10:11) Aðalatriðið var þó prédikunarstarfið. Í Lúkasi 9:6 segir: „Þeir lögðu af stað og fóru um þorpin, fluttu fagnaðarerindið og læknuðu hvarvetna.“ (Sjá einnig Lúkas 10:8, 9.) Verðugir einstaklingar, sem buðu lærisveinunum inn á heimili sín sem spámönnum, og gáfu þeim ef til vill „svaladrykk“ eða jafnvel húsaskjól, myndu ekki fara á mis við laun sín. Þeir myndu heyra boðskapinn um Guðsríki. — Matteus 10:40-42.
18, 19. (a) Hvernig báru frumkristnir menn sig að við prédikunarstarfið samkvæmt Postulasögunni 5:42? (b) Hvernig sýna orð Páls í Postulasögunni 20:20, 21 að hann var að tala um prédikun fyrir þeim sem ekki trúðu, ekki hirðastarf innan safnaðarins?
18 Eftir að kristni söfnuðurinn var stofnsettur lesum við um postulana: „Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.“ (Postulasagan 5:42) Það eru grísku orðin kat oikon sem hér eru þýdd „í heimahúsum.“ Orðið kata stendur hér í dreifimerkingu og því mætti segja að lærisveinarnir hafi verið að prédika dreift hús úr húsi. Þeir fóru ekki bara í fyrirfram ákveðnar heimsóknir. Orðið kata er notað með svipuðum hætti í Lúkasi 8:1 þar sem talað er um „borg úr borg og þorp úr þorpi.“
19 Páll postuli notaði sama orðatiltæki í fleirtölu, kat oikous, í Postulasögunni 20:20. Þar sagði hann: „Ég dró ekkert undan . . . heldur boðaði yður það og kenndi opinberlega og í heimahúsum.“ Sumir biblíuskýrendur kristna heimsins túlka þessi orð svo að Páll hafi verið að tala um hirðisheimsóknir til þeirra sem voru í trúnni, og biblíuþýðingar þeirra bera þess oft merki. En í næstu málsgrein kemur fram hjá Páli að hann var að tala um boðun trúarinnar til þeirra sem ekki voru í trúnni, því að hann segir: „Og vitnaði bæði fyrir Gyðingum og Grikkjum um afturhvarf til Guðs og trú á Drottin vorn Jesú.“ — Postulasagan 20:21.
20. (a) Í hvaða mæli hafa vottar Jehóva prédikað fagnaðarerindið um ríkið á okkar tímum? (b) Hvernig kunna sumir að líta á það að halda áfram prédikuninni?
20 Því ætti að nota þessa aðferð til að ná til fólks nú á tímum þegar prédika þarf ‚fagnaðarerindið um ríkið‘ um „alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar.“ (Matteus 24:14) Í meira en 65 ár hafa vottar Jehóva prédikað fagnaðarerindið um stofnsett ríki Guðs opinberlega og hús úr húsi — núna í 210 löndum. Það er stórkostlegur vitnisburður sem veittur er, þrátt fyrir það að fæstir sýni einhver viðbrögð við boðskapnum og sumir bregðist jafnvel illa við. (Matteus 13:15) Hvers vegna halda vottar Jehóva áfram að prédika þar sem fólk neitar að hlusta eða jafnvel snýst gegn þeim? Þessi spurning verður tekin til athugunar í greininni sem fylgir.
Hverju svarar þú?
◻ Hvað sýnir Ritningin hafa einkennt þjónustu Jesú?
◻ Hvaða fyrirmæli fengu postularnir um þjónustu sína?
◻ Hvaða starf á að vinna á okkar tímum og hvers vegna?
◻ Hverja hlaut Jehóva að nota til að prédika fagnaðarerindið nú á dögum?
◻ Hvar og hvernig fer prédikunarstarfið fram?