Er Biblían í mótsögn við sjálfa sig?
„ÞAÐ er útilokað að Guð segi ósatt,“ segir Biblían. (Hebreabréfið 6:18, Lifandi orð) Hvernig gæti þessi bók verið full af æpandi mótsögnum og ónákvæmni en eigi að síður kallast orð Guðs? Það gæti hún ekki. ‚En hvers vegna þá þessi ónákvæmni eða missögli?‘ spyrð þú kannski.
Eins og við er að búast hafa komið fram smávægileg frávik frá upprunalegu orðalagi í bók sem um aldaraðir var afrituð með penna og bleki og þýdd á almennt talmál hvers tíma. Ekkert þessara frávika er þó slíkt að það veki efasemdir um innblástur og áreiðanleika Biblíunnar í heild. Með gaumgæfilegri athugun má sýna fram á að mótsagnir, sem á yfirborðinu virðast vera, eiga sér eðlilegar skýringar. Allt of oft fullyrðir fólk að Biblían sé mótsagnakennd án þess að hafa kynnt sér málið að nokkru marki, heldur tekur góðar og gildar skoðanir annarra sem ekki vilja trúa Biblíunni eða láta hana ráða gerðum sínum. „Svari einhver áður en hann heyrir, þá er honum það flónska og skömm,“ aðvarar Biblían í Orðskviðunum 18:13.
Stundum benda menn á að biblíuriturunum virðist ekki alltaf bera saman um tölur, atburðaröð, orðalag tilvitnunar og svo framvegis. En hugleiddu þetta: Ef þú bæðir nokkra sjónarvotta að atburði að gefa skriflega lýsingu á því sem þeir sáu, myndu þá allar frásagnirnar vera með sama orðalagi og í smáatriðum eins? Myndu ekki vakna hjá þér grunsemdir um að sjónarvottarnir hefðu komið sér saman um lýsinguna ef svo væri? Guð leyfði biblíuriturunum að nota eigin stíl og orðfæri, þótt hann sæi um að hugmyndum sínum og staðreyndum, sem máli skiptir, væri komið nákvæmlega á framfæri.
Ritari kann að hafa breytt lítillega orðfæri rita eða manna, sem hann vitnaði í, til að svara ákveðinni þörf eða markmiði, án þess þó að breyta í nokkru meginhugmynd orðanna. Hið sama mætti segja um atburðaröð. Einn ritari kann að greina frá atburðunum í nákvæmri tímaröð en annar láta hugmyndatengsl ráða röð þeirra. Stundum hefur viðhorf ritarans eða lengd frásögunnar valdið því að hann sleppir sumu úr henni. Til dæmis talar Matteus um að Jesús hafi læknað tvo blinda menn en Markús og Lúkas nefna aðeins einn. (Matteus 20:29-34; Markús 10:46; Lúkas 18:35) En frásögn Matteusar er ekki í mótsögn við hinar. Hann greinir einfaldlega nákvæmar frá tölunni en Markús og Lúkas beina athyglinni að manninum sem Jesús talaði við.
Því er við að bæta að hægt er að mæla tíma á mismunandi vegu. Gyðingar notuðu tvenns konar almanak — hið heilaga almanak og hið veraldlega, landbúnaðaralmanakið — og var ársbyrjun á sitt hvorum tímanum. Þegar ritara greinir á um mánuð og dag, þegar þeir fjalla um sama atburðinn, kann skýringin að vera sú að þeir hafi miðað við sitt hvort almanakið. Austurlenskir ritarar notuðu sjaldan brot úr heilli tölu og töldu því gjarnan hluta af ári sem heilt ár. Þeir afrúnnuðu tölurnar í næstu heila tölu. Dæmi um þetta er meðal annars að finna í ættarskránum í 5. kafla 1. Mósebókar.
Hvað um „mótsagnirnar“?
En eru ekki staðir í Biblíunni sem ganga algerlega í berhögg hver við annan? Við skulum líta á fáeina sem sumir gagnrýnendur Biblíunnar hafa nefnt.
Í Jóhannesi 3:22 lesum við að Jesús hafi ‚skírt‘ en nokkru síðar, í Jóhannesi 4:2, er sagt að ‚Jesús hafi ekki skírt sjálfur.‘ Í framhaldinu kemur hins vegar fram að það hafi verið lærisveinar Jesú sem í reyndinni skírðu í hans nafni og undir hans handleiðslu. Þessu má líkja við það að kaupsýslumaður og einkaritari hans geta báðir sagst hafa skrifað sama bréfið.
Þá er að nefna 1. Mósebók 2:2 sem segir að Guð hafi hvílst „af öllu verki sínu.“ Jóhannes 5:17 virðist segja annað en þar stendur að Guð ‚starfi til þessarar stundar.‘ En eins og samhengið sýnir fjallar frásaga 1. Mósebókar sérstaklega um hið efnislega sköpunarverk Guðs en Jesús var að tala um verk Guðs tengd handleiðslu hans og umhyggju fyrir mannkyninu.
Önnur mótsögn virðist vera í 2. Mósebók 34:7 og Esekíel 18:20. Á fyrri staðnum stendur að Guð vitji „misgjörða feðranna á börnum og barnabörnum“ en þeim síðari að sonur skuli „eigi gjalda misgjörðar föður síns.“ Hvers vegna virðast þessar ritningargreinar vera í mótsögn hvor við aðra? Vegna þess að þær eru teknar úr samhengi. Lestu það sem stendur á undan og eftir þessum versum. Þá kemur greinilega í ljós að þegar Guð sagði að refsing kæmi ekki aðeins yfir feðurna heldur einnig börn og barnabörn var hann að tala um afleiðingar þess fyrir Ísraelsþjóðina í heild ef hún syndgaði gegn honum og yrði hneppt í þrælkun. Þegar hann hins vegar sagði að sonur skyldi ekki gjalda fyrir synd föður síns var hann að tala um persónulega ábyrgð hvers manns.
Þá virðist einnig vera misræmi milli frásagnanna af fæðingu Jesú í Matteusi 1:18-25 og Lúkasi 1:26-38. En er þar mótsögn á ferðinni?
Hefur þú nokkurn tíma lesið tvær ævisögur skrifaðar um sama mann? Ef svo er hefur þú vafalaust tekið eftir að ævisögurnar geta verið talsvert ólíkar án þess að þær séu mótsagnakenndar. Oft má rekja það til þess hvað rithöfundurinn telur mikilvægt og hvað ekki, eða þá hvaða heimildir hann hefur stuðst við. Enn fremur er það háð því frá hverju höfundinum finnst mikilvægt að segja, frá hvaða sjónarhorni hann fjallar um ævi mannsins og til hvaða lesendahóps hann er að reyna að höfða. Frásögur ritaðar með menn af þjóðunum í huga hljóta að vera allólíkar þeim sem ætlaðar eru Gyðingum er þegar skildu og viðurkenndu ýmis grundvallaratriði.
Þetta eru aðeins fáein dæmi úr Biblíunni þar sem einstakar ritningargreinar virðast við fyrstu sýn stangast hver á við aðra. Þegar þær eru hins vegar skoðaðar vandlega og tekið tillit til sjónarmiðs ritarans og samhengisins í heild kemur í ljós að alls ekki er um mótsagnir að ræða heldur þarf aðeins nánari athugun til að skilja hvað við er átt. Þorri manna fæst ekki um að athuga málið og finnst miklu einfaldara að slá því fram að Biblían sé mótsagnakennd.
Verðskuldar traust okkar
Heilagur andi Guðs veitti biblíuriturunum töluvert svigrúm í meðferð sinni á efninu. (Postulasagan 3:21) Þeir gátu því dregið upp litríkar myndir af því sem þeir sáu. Mismunur frásagnanna er þó einungis staðfesting á trúverðugleika þeirra, því að ekki er unnt að saka biblíuritarana um að hafa komið sér saman um hvað þeir skyldu skrifa eða um að falsa frásögur sínar. (2. Pétursbréf 1:16-21) Enda þótt biblíuritararnir hafi notað mismunandi stílbrigði bentu þeir allir í sömu átt og höfðu sama markmið: að sýna fólki hvað Jehóva Guð muni gera til að veita mannkyninu hamingju og hvað menn þurfi að gera til að hljóta velþóknun Guðs. — Orðskviðirnir 2:3-6, 9.
Biblían er bók sem höfðar til skynseminnar. Hún er sjálfri sér samkvæm spjaldanna í milli. Hún er ekki mótsagnakennd. Allar bækurnar 66 (1189 kaflar eða 31.173 vers samkvæmt hinni ensku King James Version) verðskulda fyllsta traust okkar. Já, þú getur treyst Biblíunni!
[Rammi á blaðsíðu 6]
Ef þú finnur „mótsögn“ í Biblíunni, getur ástæðan þá verið þessi:
◆ Að þú þekkir ekki til sögulegs samhengis eða fornra siðvenja?
◆ Að þú hafir ekki tekið tillit til samhengisins?
◆ Að þér hafi yfirsést viðhorf ritarans?
◆ Að þú sért að reyna að samræma rangar trúarhugmyndir því sem Biblían í raun segir?
◆ Að þú notir ónákvæma eða úrelta biblíuþýðingu?
[Mynd á blaðsíðu 7]
Matteus segir að Jesús hafi læknað tvo blinda menn en Markús og Lúkas minnast aðeins á einn. Er það mótsögn?