Sjónarmið Biblíunnar
Er til djöfull í raun og veru?
VARST þú myrkfælinn sem barn? Ímyndaðir þú þér að úti í myrkrinu lægi skrímsli í felum sem biði færis á að ræna þér frá foreldrum þínum? Þegar þú komst til vits og ára og fórst að hugsa rökréttar fannst þér ótti barnsáranna fáránlegur. Sumir vilja ganga skrefi lengra og skipa djöflinum í sama flokk og hinum ímynduðu skrímslum barnshugans.
Er djöfullinn þá alls ekki til? Í einu trúarlegu smáriti er því einmitt haldið fram. Þar segir: „Biblían segir ekkert um slíka ófreskju hins illa“ og bætir við: „Orðin djöfull og Satan eru notuð aðeins um . . . lögmál syndar og óguðleika sem tilheyra mannlegu eðli.“ Eða, eins og sunnudagaskólakennari í Bandaríkjunum orðaði það: „Mennirnir eru einu djöflarnir sem fyrirfinnast.“ Hljómar þetta allt ósköp einfalt, kannski of einfalt?
Mannleg hegðun skýrð
Ef mennirnir væru einu djöflarnir sem fyrirfyndust, þá má spyrja hvers vegna langsamlega flestir beri umhyggju fyrir velferð fjölskyldu sinnar. Flestir sjá fjölskyldum sínum farborða; eitra ekki vísvitandi fyrir sjálfum sér og forðast lífshættur. Varla er hægt að kalla það neitt djöfullegt. En þegar þessir sömu menn koma fram sem heild, sem þjóðir, eru þeir af einhverjum orsökum blindir fyrir sameiginlegri velferð sinni. Sem þjóðir láta menn umframmatvæli spillast og eyðileggjast í stað þess að næra sveltandi þjóðir. Þeir menga umhverfi sitt. Þeir vopnbúast til gagnkvæmrar gereyðingar með kjarnorkuvopnum. Þetta er undarleg sjálfstortímingarstefna!
Hver er orsök þessara blindu mannanna? Einhvers konar múgsefjun? Er þetta fáeinum, óraunsæjum leiðtogum að kenna? Það hlýtur að búa meira að baki. Biblían ein greinir frá því hver það er sem „hefur blindað huga“ þeirra manna um víða veröld sem ekki trúa. Hver er það? Hann sem ‚heitir djöfull og Satan, hann sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina.‘ Hann ráðskast svo snilldarlega með mannkynið að Biblían kallaðar hann „guð“ þessa heimskerfis. — 2. Korintubréf 4:4; Opinberunarbókin 12:9.
Þessi „guð“ er enginn óvættur sem leynist fyrir utan gluggann hjá þér. Hann er voldugur stjórnmálasnillingur, ósýnileg andavera sem reyndi árangurslaust að fá Jesú til fylgis við sig og gat boðið honum öll ríki heims í skiptum fyrir tilbeiðslu. (Lúkas 4:6, 7) Bersýnilega hafði Satan gefið öðrum slíkt vald áður en hann bauð Jesú það því að Daníelsbók í Biblíunni vekur athygli á því að uppreisnargjarnir englar hafi farið með yfirráð yfir heimsveldum í umboði hans — og haft titla svo sem ‚verndarengill Persíu‘ og ‚verndarengill Grikklands.‘ — Daníel 10:20, 21.
Satan hefur þannig byggt upp öflugt skipulag bæði sem „höfðingi heimsins“ (hins sýnilega) og sem ‚höfðingi illra anda‘ (hins ósýnilega). (Jóhannes 14:30; 16:11; Matteus 12:24) Sú vitneskja að djöfullinn eigi sér alheimsskipulag varpar ljósi á margt.
Hvers vegna á hann sér skipulag?
Stjórnandi skipulagðra glæpasamtaka stýrir oft ólöglegri starfsemi af ýmsu tagi — fíkniefnaverslun, vændi, þjófnaði, fjárhættuspili, smygli og fleiru — án þess að allir undirsátar hans kynnist honum persónulega. Á sama hátt hefur Satan skipulag sem hann notar til að stjórna margfalt fleiri en hann gæti stjórnað einn sér. Í hverju er stjórnkænska hans fólgin? Auk þess að ásækja einstaklinga ráðskast hann og illir andar hans með menn eins og þeir væru nautgripahjörð. Hann þarf ekki að stjórna hverjum einstökum manni, einungis að leiða fáeina fremst í hjörðinni og þá elta flestir hinir. Síðan getur hann einbeitt sér að frávillingum frá hjörðinni.
Já, djöfullinn er nógu raunverulegur en hann er ekkert líkur þeirri afskræmingu eða skopmynd sem oft er dregin upp af honum, eða óskýrum kenningum guðfræðinnar. Óskýrum? Já, eins og bókin Satan, A Portrait bendir á fór „trú á Satan dvínandi“ á 19. öld og guðfræðingum „tókst að skýra Satan sem eitthvað annað en persónubundna andaveru.“
Hver segir sannleikann um djöfulinn?
Fúsleiki trúarbragðanna á okkar tímum til að draga í efa það sem Biblían segir um djöfulinn höfðar ágætlega til þeirrar efnishyggju er einkennir þjóðfélag sem veit ekki lengur hverju það á að trúa um Guð. „Djöfullinn er nú horfinn,“ segir Ruth Ansher í bók sinni The Reality of the Devil, „og . . . Guð hefur dregið sig í hlé.“
Sérfræðingar nútímans á sviði trúarbragða, sem véfengja afstöðu Biblíunnar, hafa þar með sópað til hliðar þeirri staðreynd sem gerir okkur kleift að sjá mannkynssöguna í réttu ljósi. Eins og rúmenski leikritahöfundurinn Eugène Ionesco viðurkenndi í viðtali við þýskt blað: „Mannkynssagan væri óskiljanleg ef við tækjum djöfulinn ekki með í myndina.“ — Welt am Sonntag þann 2. september 1979.
Hefur einhver hugrekki til að halda fram sannleikanum um hlutverk djöfulsins í þeirri heimskreppu sem nú er? Já, tvímælalaust! Tökum sem dæmi „yfirlýsingu gegn Satan og til stuðnings Jehóva“ sem samþykkt var einróma á fjöldasamkomu árið 1928. Þar skuldbundu vottar Jehóva sig til að kunngera að Satan og hið illa skipulag hans muni bráðlega líða undir lok í hinu mikla stríði við Harmagedón.
Sagan hefur fært sönnur á að djöfullinn er mjög svo raunverulegur óvinur sérhvers manns. Jehóva Guð hefur þó greinilega ekki skilið okkur eftir varnarlaus gegn honum. Við hvetjum þig til að kynna þér betur hvernig við getum staðið gegn djöflinum. Það borgar sig að þekkja óvin sinn „til þess að vér yrðum ekki vélaðir af Satan, því að ekki er oss ókunnugt um vélráð hans.“ — 2. Korintubréf 2:11.
[Innskot á blaðsíðu 21]
„Djöfullinn er nú horfinn og . . . Guð hefur dregið sig í hlé.“
[Mynd á blaðsíðu 20]
Í veruleikanum á djöfullinn lítið sameiginlegt með myndum trúarbragðanna af honum eða óskýrum kenningum guðfræðinga.
[Rétthafi]
Gustave Doré