Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.8. bls. 13-18
  • Bregst þú jákvætt við kærleika Jesú?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Bregst þú jákvætt við kærleika Jesú?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Viðeigandi viðbrögð við kærleika Krists
  • Það sem Jesús vill að við gerum
  • Fylgjum fordæmi Jesú
  • Þjálfuð til að vitna
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2005
  • ‚Þið hafið ekki séð hann en elskið hann þó‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Líkjum eftir Jesú og verum kærleiksríkir kennarar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
  • ‚Að kynnast kærleika Krists‘
    Nálgastu Jehóva
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.8. bls. 13-18

Bregst þú jákvætt við kærleika Jesú?

„Kærleiki Krists knýr oss.“ — 2. KORINTUBRÉF 5:14

1. Hvernig mætti lýsa kærleika Jesú?

SANNARLEGA er kærleikur Jesú stórkostlegur! Hjörtu okkar fyllast þakklæti þegar við íhugum hversu ólýsanlegar þjáningar hann leið þegar hann lagði fram lausnargjaldið. Án þess gætum við aldrei öðlast eilíft líf. Jehóva Guð og Jesús sjálfur tóku frumkvæðið. Þeir elskuðu okkur fyrst meðan við vorum ennþá syndarar. (Rómverjabréfið 5:6-8; 1. Jóhannesarbréf 4:9-11) Það að þekkja ‚kærleika Krists,‘ skrifaði Páll, „gnæfir yfir alla þekkingu.“ (Efesusbréfið 3:18, 19) Já, kærleikur Jesú er hátt yfir fræðilega, bóklega þekkingu hafinn. Hann gengur lengra en allt sem menn hafa nokkurn tíma séð eða reynt.

2. Hvað getur ekki haldið Jesú frá því að elska okkur?

2 Í bréfi til kristinna manna í Róm spurði Páll: „Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð?“ Ekkert slíkt getur haldið Jesú frá því að elska okkur. „Ég er þess fullviss,“ heldur Páll áfram, „að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.“ — Rómverjabréfið 8:35-39.

3. Hvað eitt gæti valdið því að Jesús og faðir hans yfirgæfu okkur?

3 Svo öflugur er kærleikur Jehóva Guðs og Jesú til þín. Það er aðeins eitt sem getur komið í veg fyrir að þeir elski þig en það er að þú hafnir sjálfur kærleika þeirra með því að neita viljandi að gera það sem þeir biðja um. Spámaður Guðs útskýrði eitt sinn fyrir konungi í Júdeu: „[Jehóva] er með yður, ef þér eruð með honum. Ef þér leitið hans, mun hann gefa yður kost á að finna sig, en ef þér yfirgefið hann, mun hann yfirgefa yður.“ (2. Kroníkubók 15:2) Hver okkar myndi nokkurn tíma vilja vísa á bug eins stórkostlegum og hluttekningarsömum vinum sem Jehóva Guð og sonur hans Jesús Kristur eru?

Viðeigandi viðbrögð við kærleika Krists

4, 5. (a) Hvaða áhrif ætti kærleikur Jesú til okkar að hafa á samskipti okkar við aðra menn? (b) Hvern annan ætti kærleikur Jesú til okkar að fá okkur til að elska?

4 Hvaða áhrif hefur takmarkalaus kærleikur Jesú á þig? Hvaða áhrif ætti hann að hafa á þig? Nú, Jesús sýndi hvernig fordæmi hans í kærleika ætti að hafa áhrif á samband okkar við aðra menn. Eftir að hafa þvegið fætur postulanna og þjónað þeim þannig auðmjúklega sagði hann: „Ég hef gefið yður eftirdæmi, að þér breytið eins og ég breytti við yður.“ Hann bætti við: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.“ (Jóhannes 13:15, 34) Lærisveinar hans lærðu og þeir fundu sig knúna til að reyna að gera eins og hann gerði. „Af því þekkjum vér kærleikann,“ sagði Jóhannes postuli, „að Jesús lét lífið fyrir oss. Svo eigum vér og að láta lífið fyrir bræðurna.“ — 1. Jóhannesarbréf 3:16.

5 En við værum að fara á mis við tilganginn með lífi og þjónustu Jesú ef fordæmi hans kæmi okkur einungis til að elska og þjóna hagsmunum annarra manna. Ætti ekki kærleikur Jesú til okkar einnig að koma okkur til að elska hann á móti og þó einkum að elska föður hans sem kenndi honum allt sem hann veit? Munt þú bregðast jákvætt við kærleika Krists og þjóna föður hans eins og hann gerði? — Efesusbréfið 5:1, 2; 1. Pétursbréf 1:8, 9.

6. Hvaða áhrif á Pál hafði kærleikur Jesú til hans?

6 Athugum dæmið um Sál sem síðar varð þekktur sem Páll. Sú var tíðin að hann ofsótti Jesú og „blés . . . ógnum og manndrápum gegn lærisveinum Drottins.“ (Postulasagan 9:1-5; Matteus 25:37-40) En þegar Páll kynntist Jesú í raun og veru var hann svo þakklátur fyrir að hljóta fyrirgefningu að hann var ekki aðeins reiðubúinn að þjást í hans þágu heldur líka að láta lífið fyrir hann. „Ég er krossfestur með Kristi,“ skrifaði hann. „Sjálfur lifi ég ekki framar . . . Lífinu, sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son, sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.“ — Galatabréfið 2:20.

7. Hvað ætti kærleikur Jesú að knýja okkur til að gera?

7 Kærleikurinn, sem Jesús ber til okkar, ætti að vera okkur geysisterkur aflvaki. „Kærleiki Krists knýr oss,“ skrifaði Páll Korintumönnum, ‚til þess að við lifum ekki lengur fyrir sjálfa okkur heldur fyrir hann sem er dáinn og upprisinn fyrir okkur.‘ (2. Korintubréf 5:14, 15) Þakklæti til Jesú fyrir að gefa líf sitt fyrir okkur ætti einmitt að koma okkur til að gera hvað sem hann biður okkur um. Aðeins þannig getum við sýnt að við elskum hann í sannleika. „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín,“ sagði Jesús. „Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig.“ — Jóhannes 14:15, 21; Samanber 1. Jóhannesarbréf 2:3-5.

8. Hvaða áhrif hefur kærleikur Jesú haft á marga illgerðarmenn?

8 Við það að læra boðorð Jesú brugðust hórkarlar, saurlífismenn, kynvillingar, þjófar, drykkjumenn og ræningjar í Korintu til forna jákvætt við kærleika Jesú og hættu slíkri iðju. Páll skrifaði um þá: „Þér létuð laugast, . . . þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists. (1. Korintubréf 6:9-11) Kærleikur Krists hefur á líkan hátt knúið þúsundir manna á okkar dögum til að gera undraverðar breytingar í lífi sínu. „Hinn sanni sigur kristninnar sást í því að hún gerði þá sem játuðu kenningar hennar að góðum mönnum,“ skrifaði sagnfræðingurinn John Lord. „Við höfum vitnisburð um ámælislaust líferni þeirra, ólastanlegt siðferði, góðan þegnskap og kristnar dyggðir.“ Kenningar Jesú hafa svo sannarlega breytt miklu.

9. Hvað er falið í því að hlusta á Jesú?

9 Víst er að mikilvægara nám geta nútímamenn ekki tekist á hendur en nám í ævi og þjónustu Jesú Krists. „Beinum sjónum vorum til Jesú,“ hvatti Páll postuli. „Virðið hann fyrir yður.“ (Hebreabréfið 12:2, 3) Þegar Jesús ummyndaðist gaf Guð sjálfur þessi fyrirmæli varðandi son sinn: „Hlýðið á hann!“ (Matteus 17:5) Rétt er þó að leggja áherslu á að það að hlýða á Jesú felur meira í sér en aðeins að heyra hvað hann segir. Það þýðir að veita leiðbeiningum hans eftirtekt, já, líkja eftir honum með því að gera það sem hann gerði á sama hátt og hann gerði það. Við bregðumst jákvætt við kærleika Jesú með því að taka hann okkur til fyrirmyndar, feta náið í fótspor hans.

Það sem Jesús vill að við gerum

10. Hverja þjálfaði Jesús og í hvaða tilgangi?

10 Jesús fékk það verkefni frá Guði að prédika ríki föður síns og hann þjálfaði fylgjendur sína til sama starfs. „Vér skulum fara annað,“ sagði hann fyrstu lærisveinum sínum, „svo að ég geti einnig prédikað þar, því að til þess er ég kominn.“ (Markús 1:38; Lúkas 4:43) Seinna, eftir að hafa þjálfað 12 postula rækilega, gaf Jesús þeim þessi fyrirmæli: „Farið og prédikið: ‚Himnaríki er í nánd.‘“ (Matteus 10:7) Nokkrum mánuðum síðar, er hann hafði þjálfað 70 aðra, sendi hann þá út og bauð þeim: „Segið þeim: ‚Guðs ríki er komið í nánd við yður.‘“ (Lúkas 10:9) Jesús ætlaðist greinilega til að fylgjendur hans yrðu prédikarar og kennarar.

11. (a) Á hvaða vegu myndu lærisveinar Jesú gera meiri verk en hann? (b) Hvað varð um lærisveinana eftir að Jesús var líflátinn?

11 Jesús hélt áfram að þjálfa lærisveina sína fyrir þetta starf. Síðasta kvöldið fyrir dauða sinn hvatti hann þá með orðunum: „Sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra meiri verk en þau.“ (Jóhannes 14:12) Verk fylgjenda hans myndu verða meiri en hans vegna þess að í þjónustu sinni myndu þeir ná til mun fleira fólks, yfir miklu stærra svæði og þjóna í miklu lengri tíma. Þó urðu lærisveinar Jesú sem lamaðir af ótta þegar hann var líflátinn. Þeir fóru í felur og héldu ekki áfram því starfi sem hann hafði veitt þeim þjálfun í. Sumir sneru sér jafnvel aftur að fiskveiðum. En þeim sjö innprentaði Jesús á ógleymanlegan hátt til hvers hann ætlaðist af þeim eins og öllum fylgjendum sínum.

12. (a) Hvaða kraftaverk gerði Jesús við Galíleuvatn? (b) Hvað átti Jesús greinilega við þegar hann spurði Pétur hvort hann ‚elskaði sig meira en þessa‘?

12 Jesús tók sér efnislíkama og birtist við Galíleuvatnið. Postularnir sjö voru í báti úti á vatni en þeim hafði ekki tekist að veiða neitt alla nóttina. Jesús kallaði frá ströndinni: „Kastið netinu hægra megin við bátinn, og þér munuð verða varir.“ Þegar netið, fyrir kraftaverk, fylltist svo að við lá að það rifnaði gerðu þeir sem um borð voru sér grein fyrir að það var Jesús sem var á ströndinni og þeir flýttu sér þangað sem hann beið. Eftir að hafa fært þeim morgunmat leit Jesús að öllum líkindum í átt til hins mikla afla og spurði Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir [„þessa,“ NW]?“ (Jóhannes 21:1-15) Á efa átti Jesús við þetta: ‚Eru fiskveiðarnar þér hugleiknari en prédikunarstarfið sem ég hef búið þig undir að sinna?‘

13. Hvernig innprentaði Jesús lærisveinum sínum rækilega hvernig þeir ættu að bregðast við kærleika hans?

13 Svar Péturs var: „Já, Drottinn, þú veist, að ég elska þig.“ Jesús svaraði: „Gæt þú lamba minna.“ Öðru sinni spurði Jesú: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Aftur svaraði Pétur og nú án efa með meiri sannfæringarkrafti: „Já, Drottinn, þú veist, að ég elska þig.“ Aftur skipaði Jesús: „Ver hirðir sauða minna.“ Í þriðja sinn spyr Jesús: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Nú var Pétur orðinn mjög hryggur. Aðeins fáum dögum áður hafði hann þrisvar neitað að hann þekkti Jesú svo að vel má vera að hann hafi velt því fyrir sér hvort Jesús efaðist um trúfesti hans. Pétur svaraði því í þriðja sinn líklega í biðjandi tón: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist, að ég elska þig.“ Jesús svaraði einfaldlega: „Gæt þú sauða minna.“ (Jóhannes 21:15-17) Getur nokkur vafi leikið á því til hvers Jesús ætlaðist af Pétri og félögum hans? Á kraftmikinn hátt innprentaði hann þeim — svo og öllum sem yrðu lærisveinar hans nú á dögum — að elski þeir hann taki þeir þátt í því starfi að gera menn að lærisveinum.

14. Hvernig sýndi Jesús við önnur tækifæri hvernig lærisveinar hans ættu að bregðast við kærleika hans?

14 Nokkrum dögum eftir þessar samræður á vatnsströndinni birtist Jesús á fjalli í Galíleu og bauð glöðum hópi um 500 fylgjenda sinna: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20; 1. Korintubréf 15:6) Hugleiddu það. Karlar, konur og börn fengu öll þetta sama verkefni. Enn síðar, rétt áður en Jesús steig upp til himna, sagði hann lærisveinum sínum: „Þér munuð verða vottar mínir . . . allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Það er engin furða að Pétur, eftir að hafa fengið allar þessar vingjarnlegu áminningar, skuli árum seinna hafa sagt: „[Jesús] bauð oss að prédika fyrir lýðnum og vitna.“ — Postulasagan 10:42.

15. Á hverju getur enginn vafi leikið?

15 Það getur enginn vafi leikið á því hver viðbrögð okkar við kærleika Jesú ættu að vera. Hann sagði postulum sínum: „Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, . . . Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður.“ (Jóhannes 15:10-14) Spurningin er: Munt þú sýna þakklæti fyrir kærleika Jesú með því að hlýða þeirri skipun hans að taka þátt í að gera menn að lærisveinum? Að vísu gæti það af ýmsum ástæðum ekki reynst þér auðvelt. En það var heldur ekki auðvelt fyrir Jesú. Íhugaðu þær breytingar sem það hafði í för með sér fyrir hann.

Fylgjum fordæmi Jesú

16. Hvaða stórkostlegt fordæmi gaf Jesús?

16 Staða eingetins sonar Guðs í himneskri dýrð var æðri stöðu sérhvers engils. Hann var svo sannarlega ríkur. En viljandi lægði hann sig, fæddist sem meðlimur fátækrar fjölskyldu og ólst upp innan um veika og deyjandi menn. Þetta gerði hann í okkar þágu eins og Páll postuli útsýrði: „Þér þekkið náð Drottins vors Jesú Krists. Hann gjörðist fátækur yðar vegna, þótt ríkur væri, til þess að þér auðguðust af fátækt hans.“ (2. Korintubréf 8:9; Filippíbréfið 2:5-8) Hvílíkt fordæmi! Hvílíkur vitnisburður um kærleika! Enginn hefur fórnað meiru eða þjáðst eins mikið fyrir aðra. Og enginn hefur gert mönnum mögulegt að njóta eins mikilla auðæfa, já, eilífs lífs í fullkomleika.

17. Hvaða stefna er okkur gefin og hvað leiðir það af sér að fylgja henni?

17 Við getum fylgt fordæmi Jesú og verið öðrum álíka gagnleg. Jesús hvatti fólk aftur og aftur að gerast fylgjendur sínir. (Markús 2:14; Lúkas 9:59; 18:22) Reyndar skrifaði Pétur: „Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ (1. Pétursbréf 2:21) Munt þú bregðast svo jákvætt við kærleika Krists að þú þjáist til að þjóna föður hans eins og hann gerði? Slík stefna er svo sannarlega öðrum til gagns. Ef þú fylgir fordæmi Jesú og beitir til fulls þeim kenningum sem hann fékk frá föður sínum „muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ — 1. Tímóteusarbréf 4:16.

18. (a) Hvaða fordæmi gaf Jesús varðandi viðhorf til fólks? (b) Hvernig brást fólk við persónuleika Jesú?

18 Við verðum einnig að hafa sama hugarfar til fólks og Jesús hafði til að ná að hjálpa því sem mest. Spáð var um hann: „Hann aumkast yfir bágstadda og snauða.“ (Sálmur 72:13) Fylgjendur Jesú gátu tekið eftir að honum ‚þótti vænt um‘ þá sem hann talaði við og vildi raunverulega hjálpa þeim. (Markús 1:40-42; 10;21, Bi 1912) „En er hann sá mannfjöldann,“ segir Biblían „kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ (Matteus 9:36) Jafnvel stórsyndugir menn skynjuðu kærleika hans og löðuðust að honum. Málrómur hans, kennsluhættir og framkoma lét þeim líða vel. Af því leiddi að jafnvel fyrirlitnir tollheimtumenn og vændiskonur leituðu hann uppi. — Matteus 9:9-13; Lúkas 7:36-38; 19:1-10.

19. Hvernig líkti Páll eftir Jesú og hver verður árangurinn ef við gerum það sama?

19 Lærisveinar Jesú á fyrstu öldinni fylgdu kærleiksríku fordæmi hans. Páll skrifaði til sumra þeirra sem hann hafði þjónað: „Vér vorum mildir yðar á meðal, eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum . . . vér áminntum og hvöttum og grátbændum hvern og einn yðar, eins og faðir börn sín.“ (1. Þessaloníkubréf 2:7-11) Hefur þú sams konar fölskvalausa umhyggju fyrir fólkinu í svæði þínu og kærleiksríkir foreldar hafa gagnvart elskuðum börnum sínum? Með því að sýna slíka umhyggju í málrómi þínum, svipbrigðum og breytni, gerir þú boðskapinn um Guðsríki aðlaðandi í augum sauðumlíkra manna.

20, 21. Nefndu nútímadæmi um einstaklinga sem fylgdu fordæmi Jesú um kærleika.

20 Á köldum degi á Spáni hittu tveir vottar aldraða konu sem studdist við hækjur. Húsið, sem hún bjó í, var ískalt vegna þess að eldiviðurinn var uppurinn. Hún beið eftir að sonur sinn kæmi aftur frá vinnu til að höggva meira í eldinn fyrir hana. Vottarnir hjuggu fyrir hana eldivið og skildu líka eftir tímarit fyrir hana til að lesa. Þegar sonurinn sneri aftur hafði elskurík umhyggja vottanna fyrir móður hans það mikil áhrif á hann að hann las tímaritin, hóf að nema Biblíuna, lét skírast og hóf fljótlega brautryðjandastarf.

21 Í Ástralíu sögðu maður og konan hans vottum sem heimsóttu þau að þau ættu ekki til peninga fyrir mat handa fjölskyldunni. Vottarnir fóru og keyptu matvæli handa þeim og einnig góðgæti fyrir börnin. Foreldrarnir féllu saman og brustu í grát og sögðu að þau hefðu verið svo örvæntingarfull að þau hefðu verið farin að hugleiða sjálfsmorð. Bæði hófu að nema Biblíuna og nýlega var konan skírð. Kona í Bandaríkjunum, sem hafði fordóma gagnvart vottum Jehóva, sagði eftir að hafa hitt einn: „Ég man eiginlega ekki hvað við töluðum um en það sem ég man er hversu vingjarnleg hún var við mig og hversu alúðleg og auðmjúk hún var. Mér fannst ég virkilega dragast að henni sem persónu. Vinátta hennar hlýjar mér enn þá um hjartaræturnar.“

22. Að hvaða niðurstöðu komumst við varðandi Jesú eftir að hafa rannsakað ævi hans?

22 Við getum notið stórkostlegrar blessunar bregðumst við jákvætt við kærleika Jesú með því gera það starf sem hann gerði og á sama hátt og hann. Mikilleiki Jesú er augljós og yfirgnæfandi. Okkur finnst við knúin til að enduróma orð rómverska landstjórans Pontíusar Pílatusar: „Sjáið manninn!“ Já einmitt „manninn,“ mesta mikilmenni sem lifað hefur. — Jóhannes 19:5.

Hverju svarar þú?

◻ Hversu mikill er kærleikur Jesú?

◻ Hvern ætti kærleikur Jesú að fá okkur til að elska og hvað ætti kærleikur hans að knýja okkur til að gera?

◻ Hvaða starf vill Jesús að við vinnum?

◻ Hvernig var Jesús auðugur og hvers vegna varð hann fátækur?

◻ Hvernig ættum við að líkja eftir Jesú í því hvernig hann þjónaði fólki?

[Mynd á blaðsíðu 15]

Jesús er okkur fyrirmynd um hvernig sýna á kærleika.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Jesús lýsti á kraftmikinn hátt hvernig lærisveinar hans ættu að sýna honum kærleika.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila