Eilíf hamingja bíður guðrækinna gjafara
„Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ — JÓHANNES 3:16.
1, 2. (a) Hver er mesti gjafarinn og hver er stærsta gjöf hans til mannkynsins? (b) Hvaða eiginleika sýndi Guð með stærstu gjöf sinni?
JEHÓVA GUÐ er mesti gjafari sem til er. Það var um hann, skapara himins og jarðar, sem kristni postulinn Jakob skrifaði: „Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að og kemur niður frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né skuggar, sem koma og fara.“ (Jakobsbréfið 1:17) Jehóva er einnig gjafari stærstu gjafar sem nokkurn tíma var hægt að gefa. Sagt var viðvíkjandi stærstu gjöf hans til mannkynsins: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ — Jóhannes 3:16.
2 Sá sem mælti þessi orð var enginn annar en þessi eingetni sonur Guðs. Eingetinn sonur myndi eðlilega meta að verðleikum og elska slíkan föður sem uppsprettu lífs síns og alls hins góða sem honum er séð fyrir til að njóta lífsins. En kærleikur Guðs einskorðaðist ekki við þennan eina son. Með því að veita öðrum sköpunarverum sínum slíka gjöf sýndi hann kærleika sinn í sérstökum mæli. (Samanber Rómverjabréfið 5:8-10.) Þetta er enn auðsærra er við athugum hvað orðið „gaf“ merkir í raun og veru í þessu samhengi.
Gjöf Guðs — ‚elskaður sonur hans’
3. Hverjir aðrir nutu ástúðar föðurins himneska en ‚elskaður sonur hans‘?
3 Um ótiltekinn tíma hafði Guð notið persónulegs félagsskapar við eingetinn son sinn — ‚sinn elskaða son‘ — á hinu himneska tilverusviði. (Kólossubréfið 1:13) Allan þann tíma höfðu faðirinn og sonurinn vaxið svo í kærleika og elsku hvor til annars að enginn gagnkvæmur kærleikur jafnaðist á við hann. Aðrar sköpunarverur, sem Guð skapaði fyrir milligöngu eingetins sonar síns, nutu einnig ástúðar sem meðlimir fjölskyldu Jehóva. Þar af leiðandi réð kærleikur ríkjum í allri fjölskyldu Guðs. Heilög ritning segir réttilega: „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Fjölskylda Guðs var því mynduð af þeim sem faðirinn, Jehóva Guð, elskar.
4. Hvernig var það meira en missir persónulegs félagsskapar fyrir Guð að gefa son sinn, og í þágu hverra var það gert?
4 Svo nánum böndum voru Jehóva og frumgetinn sonur hans tengdir að það væri í sjálfu sér mikill missir að svipta þá svo innilegum félagsskap. (Kólossubréfið 1:15) En að ‚gefa‘ þennan eingetna son þýddi meira en að Guð svipti sig persónulegum félagsskap við ‚sinn elskaða son.‘ Það náði svo langt að Jehóva leyfði að sonur hans dæi og hætti því um stundarsakir að vera til sem hluti af alheimsfjölskyldu Guðs. Þetta var dauði í þágu þeirra sem höfðu aldrei tilheyrt fjölskyldu Guðs. Jehóva gat ekki gefið neina stærri gjöf í þágu þurfandi mannkyns en eingetinn son sinn sem Ritningin kallar einnig „upphaf sköpunar Guðs.“ — Opinberunarbókin 3:14.
5. (a) Hvernig var komið fyrir afkomendum Adams og hvers krafðist réttlæti Guðs af einum trúfastra sona hans? (b) Hvers krafðist stærsta gjöf Guðs af honum?
5 Fyrstu mannhjónin, Adam og Eva, héldu ekki stöðu sinni sem meðlimir fjölskyldu Guðs. Þannig var ástatt fyrir þeim eftir að þau voru rekin út úr Edengarðinum vegna þess að þau syndguðu gegn Guði. Þau voru ekki aðeins utan fjölskyldu Guðs heldur einnig dauðadæmd. Þess vegna var ekki aðeins við það vandamál að glíma að láta afkomendur þeirra ná hylli Guðs aftur sem meðlimir fjölskyldu hans, heldur líka að létta af þeim dauðadómi Guðs. Í samræmi við réttvísi Guðs krafðist það þess að einn trúfastra sona Guðs dæi sem staðgengill eða lausnargjald. Stóra spurningin var því sú hvort sá sem var valinn yrði fús til að deyja sem staðgengill í þágu syndugra manna. Þar að auki krefðist það kraftaverks af hálfu almáttugs Guðs að koma þessu til leiðar. Það krefðist einnig að kærleikur Guðs birtist í óviðjafnanlegum mæli. — Rómverjabréfið 8:32.
6. Hvernig var sonur Guðs fær um að uppfylla þarfir syndugs mannkyns vegna þess ástands sem það var í og hvað sagði hann í því sambandi?
6 Enginn nema frumgetinn sonur Guðs gat uppfyllt sérstakar þarfir syndugs mannkyns vegna þess ástands sem það var í. Hann er slík eftirmynd himnesks föður síns í að sýna meðlimum fjölskyldu Guðs ástúð að hann á engan sinn líka meðal sona Guðs. Þar sem allar aðrar skynsemigæddar sköpunarverur voru skapaðar með aðstoð hans þótti honum vissulega mjög vænt um þær. Þar að auki er kærleikur ríkjandi eiginleiki eingetins sonar Jehóva, Jesú Krists, því ‚hann er ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans.‘ (Hebreabréfið 1:3) Jesús sýndi að hann væri fús til að tjá þennan kærleika á stórkostlegasta hátt sem hægt var, með því að gefa líf sitt í þágu syndugs mannkyns, er hann sagði 12 postulum sínum: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ — Markús 10:45; sjá einnig Jóhannes 15:13.
7, 8. (a) Af hvaða hvötum sendi Jehóva Jesú Krist í mannheiminn? (b) Í hvers konar för sendi Guð eingetinn son sinn?
7 Jehóva Guð hafði sérstaka ástæðu til að senda Jesú í þennan mannheim sem kominn var á vonarvöl. Hvötin að baki því var kærleikur Guðs, því Jesús sagði sjálfur: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann.“ — Jóhannes 3:16, 17.
8 Í kærleika sínum sendi Jehóva eingetinn son sinn í frelsisför. Hann sendi hann ekki hingað til að dæma heiminn. Hefði sonur Guðs verið sendur í slíka dómsför hefði útlitið fyrir allt mannkynið verið vonlaust. Jesús Kristur hefði þá fellt óhagstæðan dóm yfir mannkyninu — dauðadóm. (Rómverjabréfið 5:12) Með þessari einstöku tjáningu kærleika síns vó Guð upp á móti dauðadómnum sem réttlætið eitt hefði krafist.
9. Hvernig var sálmaritaranum Davíð innanbrjósts vegna gjafmildi Jehóva?
9 Í öllu sýnir Jehóva Guð kærleikann vera þann persónueiginleika sinn sem ber af öðrum. Og það má réttilega segja að Guð gefi trúföstum tilbiðjendum sínum á jörðinni meira en nóg af góðum gjöfum. Sálmaritaranum Davíð var þannig innanbrjósts er hann sagði við Guð: „Hversu mikil er gæska þín, er þú hefir geymt þeim er óttast þig, og auðsýnir þeim er leita hælis hjá þér frammi fyrir mönnunum.“ (Sálmur 31:20) Í stjórnartíð Davíðs yfir Ísraelsþjóðinni — já, allt líf hans sem meðlimur þeirrar þjóðar er var sérstaklega valin af Guði — fékk hann oft að reyna gæsku Jehóva. Og honum fannst hún ríkuleg.
Ísrael missir af stórkostlegri gjöf frá Guði
10. Hvers vegna var Ísraelsþjóðin til forna ólík öllum öðrum þjóðum á jörðinni?
10 Með Jehóva sem Guð sinn var Ísrael til forna ólíkur öllum öðrum þjóðum á jörðinni. Með spámanninn Móse sem milligöngumann setti Jehóva afkomendur Abrahams, Ísaks og Jakobs í sáttmálasamband við sig. Hann hafði ekki átt samskipti við nokkra aðra þjóð með því móti. Því gat hinn innblásni sálmaritari sagt: „Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði. Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Hallelúja.“ — Sálmur 147:19, 20.
11. Þar til hvenær hélt Ísrael forréttindastöðu sinni hjá Guði og hvernig lýsti Jesús breyttu sambandi þeirra?
11 Ísraelsþjóðin að holdinu hélt þessu forréttindasambandi við Guð uns hún hafnaði Jesú Kristi sem Messíasi árið 33. Það var mikill hryggðardagur fyrir Ísrael þegar Jesús mælti þessi dapurlegu orð: „Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. Hús yðar verður í eyði látið.“ (Matteus 23:37, 38) Orð Jesú gáfu til kynna að þótt Ísraelsþjóðin hefði áður haft sérstöðu hjá Jehóva hefði hún misst af sérstakri gjöf frá Guði. Hvernig þá?
12. Hver voru ‚börn Jerúsalem‘ og hvað hefði það þýtt að Jesús safnaði þeim saman?
12 Með því að nota hugtakið ‚börn‘ heimfærði Jesús orð sín aðeins á umskorna Gyðinga að holdinu sem bjuggu í Jerúsalem og táknuðu alla Gyðingaþjóðina. Að Jesús safnaði saman ‚börnum Jerúsalem‘ hefði þýtt að hann kæmi þessum „börnum“ undir nýjan sáttmála við Guð, þar sem hann þjónaði sjálfur sem milligöngumaður milli Jehóva og þessara Gyðinga að holdinu. (Jeremía 31:31-34) Þetta hefði leitt af sér fyrirgefningu synda því svo yfirgripsmikill var kærleikur Guðs. (Samanber Malakí 1:2) Það hefði sannarlega verið stórkostleg gjöf.
13. Hvaða missi hafði það í för með sér að Ísrael hafnaði syni Guðs en hvers vegna hélt Jehóva gleði sinni fyllilega?
13 Í samræmi við spádómsorð sitt beið Jehóva eins lengi og réttmætt var áður en hann veitti þeim sem voru ekki Gyðingar þá gjöf að verða hluttakendur í nýja sáttmálanum. En með því að hafna syni Guðs sjálfs, Messíasi, missti Ísrael að holdinu af þessari stórkostlegu gjöf. Þess vegna vó Jehóva upp á móti höfnuninni á syni hans með því að veita þessa gjöf fólki utan Gyðingaþjóðarinnar. Með því móti hélt Guð fyllilega gleði sinni sem hinn mikli gjafari.
Gleðin að gefa
14. Hvers vegna er Jesús Kristur hamingjusamasta sköpunarveran í öllum alheiminum?
14 Jehóva er ‚hinn hamingjusami Guð.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:11, NW) Eitt af því sem gerir hann hamingjusaman er að gefa öðrum. Á fyrstu öldinni sagði eingetinn sonur hans: „Sælla er að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Í samræmi við þessa frumreglu er Jesús orðinn hamingjusamasta sköpunarvera skapara alls alheimsins. Hvernig? Næstur Jehóva Guði sjálfum hefur Jesús Kristur gefið stærstu gjöf sem gefin hefur verið, með því að leggja líf sitt í sölurnar fyrir mannkynið. Reyndar er hann ‚hinn hamingjusami höfðingi.‘ (1. Tímóteusarbréf 6:15, NW) Jesús er því sjálfur dæmi um að það sé sælla að gefa en þiggja.
15. Hverju mun Jehóva aldrei hætta að vera fordæmi í og hvernig geta skynsemigæddar sköpunarverur hans fengið að reyna hamingju hans í nokkrum mæli?
15 Fyrir milligöngu Jesú Krists mun Jehóva Guð aldrei hætta að vera örlátur og gjafmildur við allar skynsemigæddar sköpunarverur sínar og hann mun ávallt vera besta fyrirmynd þeirra í gjafmildi. Alveg eins og Guð hefur ánægju af að gefa öðrum góðar gjafir hefur hann gróðursett örlætisanda í hjörtum skynsemigæddra sköpunarvera sinna á jörðinni. Á þann hátt endurspegla þeir og líkja eftir persónuleika hans og fá að reyna hamingju hans í nokkrum mæli. (1. Mósebók 1:26; Efesusbréfið 5:1) Það var við hæfi sem Jesús sagði fylgjendum sínum: „Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“ — Lúkas 6:38.
16. Hvernig gjafir talaði Jesús um í Lúkasarguðspjalli 6:38?
16 Jesús setti lærisveinum sínum frábært fordæmi í að ástunda gjafmildi. Hann sagði að þiggjendur myndu bregðast vel við slíkri gjafmildi. Í Lúkasarguðspjalli 6:38 átti Jesús ekki eingöngu við það að gefa efnislegar gjafir. Hann var ekki að segja lærisveinum sínum að fylgja lífsstefnu sem kæmi þeim á vonarvöl efnislega. Hann var að beina þeim á braut sem gæfi þeim andlega fullnægjukennd.
Eilíf hamingja tryggð
17. Hvaða dásamlega gjöf hefur Guð veitt vottum sínum núna á síðustu dögum?
17 Hversu dásamlega gjöf hefur ekki Jehóva, höfuð allrar sköpunar, veitt vottum sínum núna á síðustu dögum? Hann hefur gefið okkur fagnaðarerindið um ríki sitt. Við njótum þeirra stórkostlegu sérréttinda að mega boða stofnsett ríki Guðs í höndum ríkjandi sonar hans, Jesú Krists. (Matteus 24:14; Markús 13:10) Að vera gerðir málsvarar hins hæsta Guðs er óviðjafnanleg gjöf, og besta leiðin til að iðka gjafmildi í líkingu við Guð er að deila boðskapnum um ríkið með öðrum áður en endir þessa illa heimskerfis kemur.
18. Hvað verðum við, vottar Jehóva, að gefa öðrum?
18 Páll postuli minntist á erfiðleika sem hann mátti þola er hann kunngerði öðrum boðskapinn um ríkið. (2. Korintubréf 11:23-27) Vottar Jehóva nú á dögum þurfa einnig að þola erfiðleika og setja til hliðar persónuleg áhugamál í viðleitni sinni til að gefa öðrum vonina um Guðsríki. Okkur finnst kannski ekki auðvelt að banka upp á hjá fólki, einkum ef við erum feimin. En sem fylgjendur Krists komumst við ekki hjá eða getum vikið okkur undan þeim sérréttindum að gefa öðrum andlegar gjafir með því að prédika ‚fagnaðarerindið um ríkið.‘ (Matteus 24:14) Við þurfum að hafa sama viðhorf og Jesús. Er hann stóð frammi fyrir dauðanum bað hann: „Faðir minn, . . . ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.“ (Matteus 26:39) Þegar um er að ræða að miðla öðrum fagnaðarerindinu um ríkið verða þjónar Jehóva að gera vilja Guðs, ekki sinn eigin — það sem hann vill, ekki það sem þeir kunna að vilja.
19. Hverjir eru eigendur hinna ‚eilífu tjaldbúða‘ og hvernig getum við vingast við þá?
19 Slík gjafmildi mun kosta okkur bæði tíma og fjármuni, en með því að vera guðræknir gjafarar tryggjum við okkur eilífa hamingju. Hvers vegna? Vegna þess að Jesús sagði: „Aflið yður vina með hinum rangláta mammón [„veraldlegum auði,“ New International Version], svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.“ (Lúkas 16:9) Það ætti að vera markmið okkar að nota ‚hinn rangláta mammón‘ til að afla okkur vinskapar við eigendur hinna ‚eilífu tjaldbúða.‘ Sem skaparinn á Jehóva allt og frumgetinn sonur hans deilir þeirri eign með honum sem erfingi allra hluta. (Sálmur 50:10-12; Hebreabréfið 1:1, 2) Til að vingast við þá verðum við að nota auðæfin á þann veg sem aflar velþóknunar þeirra. Það felur í sér að hafa rétt viðhorf til nota á efnislegum hlutum, öðrum til gagns. (Samanber Matteus 6:3, 4; 2. Korintubréf 9:7.) Við getum notað fé á viðeigandi hátt til að efla vináttu okkar við Jehóva Guð og Jesú Krist. Við gerum það til dæmis með því að nota fúslega það sem við eigum til að hjálpa fólki sem er raunverulega hjálparþurfi og nota efnislegar eigur okkar til að efla hagsmuni Guðsríkis. — Orðskviðirnir 19:17; Matteus 6:33.
20. (a) Hvers vegna geta Jehóva og Jesús vísað okkur inn í „eilífar tjaldbúðir“ og hvar geta þær verið? (b) Hver verða sérréttindi okkar um alla eilífð?
20 Vegna ódauðleika síns geta Jehóva Guð og Jesús Kristur verið vinir okkar að eilífu og vísað okkur inn í „eilífar tjaldbúðir“ — annaðhvort með hinum heilögu englum á himnum eða í endurreistri paradís á jörðinni. (Lúkas 23:43) Kærleiksrík gjöf Guðs í Jesú Kristi gerði allt þetta mögulegt. (Jóhannes 3:16) Og Jehóva Guð mun nota Jesú til að halda áfram að gefa allri sköpuninni gjafir, sjálfum sér til einstakrar ánægju. Reyndar munum við sjálf hafa þau sérréttindi að gefa um alla eilífð undir alheimsstjórn Jehóva Guðs og konungsstjórn eingetins sonar hans og Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists. Það mun leiða af sér eilífa hamingju fyrir alla guðrækna gjafara.
Manst þú?
◻ Hvers krafðist stærsta gjöf Guðs af honum?
◻ Í hvers konar för sendi Guð son sinn?
◻ Hver er hamingjusamasta sköpunarveran í alheiminum og hvers vegna?
◻ Hvernig munu guðræknir gjafarar öðlast eilífa hamingju?
[Mynd á blaðsíðu 8]
Kannt þú að meta að Guð gaf son sinn sem lausnarfórn?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Leitar þú fyrst Guðsríkis með því að prédika fagnaðarerindið og styðja það starf með efnislegum eigum þínum?