Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • bt kafli 4 bls. 28-35
  • „Ómenntaðir almúgamenn“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Ómenntaðir almúgamenn“
  • Vitnum ítarlega um ríki Guðs
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Ekki „af eigin mætti“ (Post. 3:11–26)
  • „Við getum ekki hætt að tala“ (Post. 4:1–22)
  • ‚Þeir báðu til Guðs‘ (Post. 4:23–31)
  • Ábyrg gagnvart ‚Guði en ekki mönnum‘ (Post. 4:32–5:11)
  • Hann lærði fyrirgefningu af meistaranum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Þú getur verið þolgóður eins og Pétur
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
  • Hann var trúr í prófraunum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Mikill meistari gefur okkur skýrari mynd af skaparanum
    Er til skapari sem er annt um okkur?
Sjá meira
Vitnum ítarlega um ríki Guðs
bt kafli 4 bls. 28-35

4. KAFLI

„Ómenntaðir almúgamenn“

Postularnir sýna hugrekki og Jehóva blessar þá

Byggt á Postulasögunni 3:1–5:11

1, 2. Hvaða kraftaverk unnu Pétur og Jóhannes nálægt musterishliðinu?

SÍÐDEGISSÓLIN skín á iðandi mannfjöldann. Trúræknir Gyðingar og lærisveinar Krists streyma inn á musterissvæðið. Það líður að ‚bænastundinni‘.a (Post. 2:46; 3:1) Pétur og Jóhannes mjakast í átt að musterishliðinu sem kallast Fagrahlið. Í gegnum kliðinn í mannfjöldanum heyrist í betlara kalla eftir ölmusu. Þetta er miðaldra maður sem hefur verið lamaður frá fæðingu. – Post. 3:2; 4:22.

2 Betlarinn fer með sína margendurteknu bón um framlag þegar Pétur og Jóhannes nálgast. Postularnir nema staðar og maðurinn horfir á þá með vonarglampa í augunum. „Silfur og gull á ég ekki,“ segir Pétur, „en það sem ég hef gef ég þér. Í nafni Jesú Krists frá Nasaret: Gakktu!“ Sjáðu fyrir þér undrandi mannfjöldann þegar Pétur tekur í hönd lamaða mannsins og hann stendur upp – í fyrsta sinn á ævinni. (Post. 3:6, 7) Hann horfir á fæturna sem nú eru orðnir heilbrigðir og tekur hikandi fyrstu skrefin. Það er engin furða að maðurinn skuli fara að hoppa um og lofa Guð!

3. Hvaða einstöku gjöf gátu maðurinn sem hafði læknast og mannfjöldinn fengið?

3 Mannfjöldinn er frá sér numinn og flykkist að Pétri og Jóhannesi í súlnagöngum Salómons. Hér, á staðnum þar sem Jesús kenndi einu sinni, útskýrir Pétur fyrir fólkinu hvaða þýðingu þessi atburður hafi. (Jóh. 10:23) Hann gefur hér gjöf sem er miklu meira virði en silfur og gull. Gjöfin snýst um meira en bara lækningu. Þarna fá menn tækifæri til að iðrast, fá syndir sínar afmáðar og verða fylgjendur Jesú Krists sem Jehóva hafði valið til að vera ‚höfðingi lífsins‘. – Post. 3:15.

4. (a) Til hvers leiðir það að maðurinn skyldi læknast? (b) Hvaða tveim spurningum verður svarað?

4 Hvílíkur dagur! Einn maður fær lækningu og getur nú gengið. Þúsundir fá tækifæri til að læknast á annan hátt svo að þeir geti lifað eins og Guði er samboðið. (Kól. 1:9, 10) Atburðir þessa dags leiða líka til þess að það skerst í odda með tryggum fylgjendum Krists og valdamönnum sem reyna að koma í veg fyrir að þeir boði boðskapinn um ríki Guðs eins og Jesús hafði sagt þeim að gera. (Post. 1:8) Hvað getum við lært af aðferðum og framkomu Péturs og Jóhannesar – ‚ómenntaðra almúgamanna‘ – þegar þeir boða mannfjöldanum trúna?b (Post. 4:13) Og hvernig getum við líkt eftir viðbrögðum þeirra og hinna lærisveinanna við andstöðu?

Ekki „af eigin mætti“ (Post. 3:11–26)

5. Hvernig ávarpaði Pétur mannfjöldann og hvað lærum við af því?

5 Pétur og Jóhannes stóðu frammi fyrir mannfjöldanum vitandi að sumir í hópnum höfðu kannski nýlega heimtað að Jesús yrði tekinn af lífi. (Mark. 15:8–15; Post. 3:13–15) Hugsaðu þér hugrekki Péturs þegar hann sagði hiklaust að lamaði maðurinn hefði læknast í nafni Jesú. Pétur útvatnaði ekki sannleikann. Hann sagði opinskátt að fólkið ætti hlutdeild í dauða Krists. Pétur bar samt engan kala til þessa fólks því að hann vissi að það hafði ‚gert þetta í vanþekkingu‘. (Post. 3:17) Hann leit á það sem bræður sína og systur og beindi athyglinni að jákvæðum hliðum fagnaðarboðskaparins. Ef menn iðruðust og tækju trú á Krist myndu koma ‚tímar þar sem Jehóva veitti þeim nýjan kraft‘. (Post. 3:19) Við þurfum líka að vera hugrökk og opinská þegar við boðum komandi dóm Guðs. Við megum samt ekki vera hranaleg, ágeng eða dómhörð. Við lítum frekar á þá sem við boðum trúna sem tilvonandi trúsystkini. Eins og Pétur beinum við athyglinni sérstaklega að jákvæðum hliðum fagnaðarboðskaparins.

6. Hvernig sýndu Pétur og Jóhannes auðmýkt og hógværð?

6 Postularnir voru hógværir. Þeir eignuðu sér ekki heiðurinn af kraftaverkinu sem þeir höfðu unnið. Pétur sagði við fólkið: „Af hverju starið þið á okkur eins og við hefðum af eigin mætti eða guðrækni gert honum kleift að ganga?“ (Post. 3:12) Pétur og hinir postularnir vissu að allt gott sem þeir komu til leiðar í þjónustunni var Guði að þakka en ekki sjálfum þeim. Þess vegna gáfu þeir Jehóva og Jesú heiðurinn af öllu sem þeir áorkuðu.

7, 8. (a) Hvaða gjöf getum við gefið fólki? (b) Hvernig er loforðið um að ‚allt verði endurreist‘ að rætast nú á tímum?

7 Við þurfum líka að vera hógvær þegar við boðum trúna. Andi Guðs gerir þjónum hans ekki kleift að lækna með kraftaverkum nú á dögum. Hins vegar getum við hjálpað fólki að eignast trú á Guð og Krist og eignast sömu gjöf og Pétur bauð fram – tækifæri til að fá syndir sínar fyrirgefnar og fá nýjan kraft frá Jehóva. Hundruð þúsunda þiggja þetta boð á hverju ári og skírast sem lærisveinar Krists.

8 Við lifum nú á þeim tíma „þegar allt verður endurreist“ eins og Pétur talaði um. Ríki Guðs var stofnsett á himnum árið 1914 en þannig rættist það sem „Guð lét heilaga spámenn sína boða forðum daga“. (Post. 3:21; Sálm. 110:1–3; Dan. 4:16, 17) Stuttu síðar hófst andlegt endurreisnarstarf á jörðinni undir umsjón Krists. Þar af leiðandi hafa milljónir manna fengið að ganga inn í andlega paradís og orðið þegnar Guðsríkis. Þeir hafa afklæðst hinum gamla og spillta manni og ‚íklæðst hinum nýja manni sem er skapaður samkvæmt vilja Guðs‘. (Ef. 4:22–24) Þjónar Guðs hafa ekki komið þessu til leiðar í eigin krafti heldur með anda Guðs, rétt eins og þegar lamaði betlarinn var læknaður. Eins og Pétur þurfum við að nota orð Guðs óhikað og fagmannlega þegar við kennum öðrum. Þegar okkur tekst að hjálpa fólki að verða lærisveinar Krists er það krafti Guðs að þakka en ekki sjálfum okkur.

„Við getum ekki hætt að tala“ (Post. 4:1–22)

9–11. (a) Hvernig brugðust leiðtogar Gyðinga við boðskap Péturs og Jóhannesar? (b) Hvað voru postularnir ákveðnir í að gera?

9 Ræða Péturs olli töluverðu uppnámi og ekki síður maðurinn sem hafði verið lamaður en hoppaði nú um með hrópum og köllum. Varðforinginn sem hafði umsjón með öryggi á musterissvæðinu og yfirprestarnir flýttu sér á vettvang. Þessir menn voru líklega saddúkear, voldugur sértrúarhópur ríkra manna sem beitti sér fyrir friðsamlegum samskiptum við Rómverja. Þeir höfnuðu hinum munnlegu lögum sem farísear höfðu í hávegum og hæddust að þeim sem trúðu á upprisu.c Það fór illilega í taugarnar á þeim að Pétur og Jóhannes skyldu vera í musterinu að kenna óhikað að Jesús hefði verið reistur upp.

10 Andstæðingarnir voru reiðir, vörpuðu Pétri og Jóhannesi í fangelsi og drógu þá síðan fyrir hæstarétt Gyðinga daginn eftir. Frá sjónarhóli þessara yfirstéttarmanna voru Pétur og Jóhannes „ómenntaðir almúgamenn“ og höfðu engan rétt til að kenna í musterinu. Þeir höfðu ekki stundað nám við neina viðurkennda guðfræðiskóla. Það kom Æðstaráðinu á óvart hve djarfmæltir þeir voru og töluðu af mikilli sannfæringu. Hvernig gátu þeir flutt mál sitt svona vel? Ein ástæðan var sú að „þeir höfðu verið með Jesú“. (Post. 4:13) Meistari þeirra hafði kennt eins og sá sem hefur vald en ekki eins og fræðimennirnir. – Matt. 7:28, 29.

11 Dómstóllinn skipaði postulunum að hætta boðuninni. Skipanir dómstólsins vógu þungt í þessu samfélagi. Fáeinum vikum áður hafði Jesús staðið frammi fyrir þessu sama ráði og þá hafði það lýst yfir að ‚hann væri dauðasekur‘. (Matt. 26:59–66) En Pétur og Jóhannes létu ekki þessa ríku, menntuðu og voldugu menn hræða sig. Þeir sögðu óttalaust en með virðingu: „Dæmið sjálfir hvort það sé rétt í augum Guðs að hlusta á ykkur frekar en Guð. En við getum ekki hætt að tala um það sem við höfum séð og heyrt.“ – Post. 4:19, 20.

ÆÐSTIPRESTURINN OG YFIRPRESTARNIR

Æðstipresturinn var fulltrúi þjóðar sinnar gagnvart Guði. Á fyrstu öld fór hann einnig með formennsku í Æðstaráðinu. Hann var leiðtogi Gyðinga ásamt yfirprestunum. Í þeim hópi voru fyrrverandi æðstuprestar, eins og Annas, og aðrir fullorðnir karlmenn af þeim fáu ættum sem æðstuprestarnir voru valdir úr – en þær voru kannski ekki nema fjórar eða fimm. Sagnfræðingurinn Emil Schürer segir: „Það eitt að tilheyra einni af þessum forréttindaættum hlýtur að hafa haft sérstaka upphefð í för með sér“ meðal prestanna.

Af Biblíunni má ráða að æðstuprestar hafi gegnt embætti til æviloka. (4. Mós. 35:25) Á því tímabili sem Postulasagan fjallar um skipuðu þó rómverskir landstjórar og konungar sem ríktu í umboði Rómar æðstupresta að vild sinni og settu þá af. Þessir heiðnu valdhafar virðast þó hafa valið æðstuprestana af prestaætt Arons.

12. Hvað hjálpar okkur að byggja upp hugrekki og sannfæringu?

12 Geturðu sýnt sams konar hugrekki? Hvernig líður þér þegar þú færð tækifæri til að vitna fyrir ríku, menntuðu eða valdamiklu fólki í samfélaginu? Eða þegar ættingjar, skólafélagar eða vinnufélagar gera lítið úr trú þinni? Missirðu kjarkinn? Það er hægt að sigrast á því. Þegar Jesús var á jörðinni kenndi hann postulunum að verja trú sína af öryggi og virðingu. (Matt. 10:11–18) Eftir að hann reis upp lofaði hann lærisveinunum að hann yrði áfram með þeim ‚alla daga allt þar til þessi heimsskipan endaði‘. (Matt. 28:20) Undir handleiðslu Jesú kennir ‚trúi og skynsami þjónninn‘ okkur hvernig við eigum að verja trú okkar. (Matt. 24:45–47; 1. Pét. 3:15) Við fáum þessa fræðslu á samkomum eins og samkomunni Líf okkar og boðun og í biblíutengdum ritum og greinum eins og í greinaflokknum „Biblíuspurningar og svör“ á jw.org. Nýtirðu þér þessar leiðir? Ef þú gerir það byggirðu upp hugrekki og sannfæringu. Þá líkirðu eftir postulunum og lætur ekkert aftra þér að segja frá þeim yndislegu sannindum sem þú hefur „séð og heyrt“.

Systir vitnar fyrir vinnufélaga í kaffihléi.

Láttu ekkert aftra þér frá að tala um þau yndislegu sannindi sem þú hefur lært.

‚Þeir báðu til Guðs‘ (Post. 4:23–31)

13, 14. Hvað eigum við að gera ef við mætum andstöðu og hvers vegna?

13 Pétur og Jóhannes voru ekki fyrr lausir úr haldi en þeir fóru og hittu hina í söfnuðinum. Söfnuðurinn ‚bað þá til Guðs‘ um hugrekki til að halda boðuninni áfram. (Post. 4:24) Pétur vissi mætavel hve heimskulegt það væri að reyna að gera vilja Guðs í eigin mætti. Fáeinum vikum áður hafði hann sagt við Jesú öruggur með sig: „Þó að allir hinir hrasi og falli vegna þess sem kemur fyrir þig geri ég það aldrei!“ En óttinn við menn náði fljótt tökum á Pétri eins og Jesús hafði sagt fyrir og hann afneitaði vini sínum og kennara. Pétur lærði þó af mistökum sínum. – Matt. 26:33, 34, 69–75.

14 Ákveðni ein og sér er ekki nóg til að þú getir verið vottur um Krist eins og þér hefur verið falið. Þegar andstæðingar reyna að brjóta niður trú þína eða fá þig til að hætta að boða trúna skaltu fylgja fordæmi Péturs og Jóhannesar. Biddu Jehóva að styrkja þig. Leitaðu eftir stuðningi hjá söfnuðinum. Segðu öldungunum og öðrum þroskuðum trúsystkinum frá erfiðleikum þínum. Bænir annarra geta styrkt þig til muna. – Ef. 6:18; Jak. 5:16.

15. Hvers vegna geta þeir sem hafa hætt að boða trúna hert upp hugann?

15 Hertu upp hugann ef þú hefur látið undan þrýstingi og hætt að boða trúna um tíma. Mundu að allir postularnir hættu því tímabundið eftir að Jesús dó en þeir tóku fljótt við sér. (Matt. 26:56; 28:10, 16–20) Láttu ekki fyrri mistök draga þig niður. Lærðu frekar af reynslunni og nýttu þér hana til að styrkja aðra.

16, 17. Hvað getum við lært af bæninni sem fylgjendur Krists í Jerúsalem báðu?

16 Um hvað ættum við að biðja þegar valdamenn snúast gegn okkur? Tökum eftir að lærisveinarnir báðu ekki um að vera hlíft við prófraunum. Þeir mundu vel eftir orðum Jesú: „Ef menn hafa ofsótt mig munu þeir líka ofsækja ykkur.“ (Jóh. 15:20) Þessir trúföstu lærisveinar báðu Jehóva öllu heldur um að ‚gefa gaum að‘ hótunum andstæðinganna. (Post. 4:29) Þeir sáu greinilega heildarmyndina og áttuðu sig á að þessum ofsóknum hafði verið spáð. Þeir vissu að vilji Guðs myndi ná fram að ganga á jörð eins og Jesús hafði kennt þeim að biðja, sama hvað mennskir valdhafar segðu. – Matt. 6:9, 10.

17 Til að geta gert vilja Jehóva báðu lærisveinarnir til hans: „Veittu þjónum þínum kjark til að halda áfram að tala orð þitt óttalaust.“ Jehóva svaraði bæninni samstundis. ‚Staðurinn þar sem þeir voru samankomnir skalf og þeir fylltust heilögum anda allir sem einn og töluðu orð Guðs óttalaust.‘ (Post. 4:29–31) Ekkert getur hindrað að vilji Guðs nái fram að ganga. (Jes. 55:11) Það skiptir engu hversu erfiðar aðstæður virðast vera eða hversu öflugur andstæðingurinn er. Ef við biðjum til Guðs getum við treyst því að hann veiti okkur þann styrk sem þarf til að tala orð hans óttalaust.

Ábyrg gagnvart ‚Guði en ekki mönnum‘ (Post. 4:32–5:11)

18. Hvað gerðu safnaðarmenn í Jerúsalem hver fyrir annan?

18 Ungi söfnuðurinn í Jerúsalem óx hratt og fljótlega voru safnaðarmenn orðnir meira en 5.000.d Þrátt fyrir ólíkan uppruna voru lærisveinarnir „sameinaðir í hjarta og sál“. Þeir voru sameinaðir í sama hugarfari og sömu skoðun. (Post. 4:32; 1. Kor. 1:10) Lærisveinarnir báðu ekki bara Jehóva um að blessa það sem þeir gerðu. Þeir studdu líka hver annan bæði í trúnni og fjárhagslega eftir þörfum. (1. Jóh. 3:16–18) Sem dæmi má nefna lærisveininn Jósef sem postularnir kölluðu Barnabas. Hann seldi landskika sem hann átti og gaf allt andvirðið til að hjálpa þeim sem voru langt að komnir þannig að þeir gætu verið lengur í Jerúsalem og lært meira um nýfundna trú sína.

19. Hvers vegna tók Jehóva Ananías og Saffíru af lífi?

19 Hjónin Ananías og Saffíra seldu líka eign nokkra og gáfu framlag. Þau þóttust gefa allt andvirðið en ,héldu nokkru af því eftir með leynd‘. (Post. 5:2) Jehóva lét þau deyja, ekki af því að gjöfin væri ófullnægjandi heldur af því að þau gáfu af slæmum hvötum og reyndu að blekkja postulana. En í raun ,lugu þau ekki að mönnum heldur Guði‘. (Post. 5:4) Rétt eins og hræsnararnir sem Jesús fordæmdi var Ananíasi og Saffíru meira í mun að hljóta lof frá mönnum en velþóknun Guðs. – Matt. 6:1–3.

20. Af hvaða hvötum ættum við að gefa Jehóva?

20 Milljónir votta Jehóva nú á dögum styðja boðunina um allan heim með frjálsum framlögum. Þar líkja þeir eftir örlæti trúfastra lærisveina í Jerúsalem á fyrstu öld. Enginn er neyddur til að styðja þessa starfsemi, hvorki með tíma sínum né fjármunum. Jehóva vill ekki að við þjónum sér tilneydd eða með tregðu. (2. Kor. 9:7) Þegar við gefum hefur hann mestan áhuga á hvötinni, ekki upphæðinni. (Mark. 12:41–44) Við viljum aldrei hugsa eins og Ananías og Saffíra og láta þjónustuna við Guð stjórnast af eigingirni eða löngun til að upphefja okkur. Líkjum heldur eftir Pétri, Jóhannesi og Barnabasi og þjónum Jehóva alltaf af því að við elskum hann og náungann heilshugar. – Matt. 22:37–40.

PÉTUR – FISKIMAÐUR SEM VARÐ KRAFTMIKILL POSTULI

Pétur er nefndur fimm nöfnum í Biblíunni. Á hebresku er hann kallaður Símeon en það samsvarar gríska nafninu Símon. Hann er líka kallaður Pétur og svo Kefas sem er semísk samsvörun þess. Stundum er hann nefndur tvínefninu Símon Pétur. – Matt. 10:2; Jóh. 1:42; Post. 15:14.

Pétur postuli heldur á körfu með fiski.

Pétur var giftur og hélt heimili með tengdamóður sinni og bróður. (Mark. 1:29–31) Hann var fiskimaður frá bænum Betsaídu við norðanvert Galíleuvatn. (Jóh. 1:44) Síðar bjó hann í Kapernaúm sem var þar rétt hjá. (Lúk. 4:31, 38) Jesús sat í báti Péturs þegar hann ávarpaði mannfjölda sem hafði safnast saman á strönd Galíleuvatns. Strax eftir það sagði Jesús Pétri að leggja net og þau fylltust af fiski fyrir kraftaverk. Pétur féll óttasleginn á hné en Jesús sagði: „Vertu ekki hræddur. Héðan í frá skaltu veiða menn.“ (Lúk. 5:1–11) Pétur stundaði fiskveiðar með Andrési bróður sínum og þeim Jakobi og Jóhannesi. Allir fjórir hættu fiskveiðunum þegar þeir þáðu boð Jesú um að verða fylgjendur hans. (Matt. 4:18–22; Mark. 1:16–18) Um ári síðar var Pétur meðal þeirra 12 sem Jesús valdi að ‚postulum‘ en orðið merkir ‚sá sem er sendur‘. – Mark. 3:13–16.

Jesús tók Pétur, Jakob og Jóhannes með sér við sérstök tækifæri. Þeir urðu vitni að ummyndun Jesú, sáu hann reisa upp dóttur Jaírusar og hryggðust með honum í Getsemanegarðinum. (Matt. 17:1, 2; 26:36–46; Mark. 5:22–24, 35–42; Lúk. 22:39–46) Það voru líka þeir þrír ásamt Andrési sem spurðu Jesú um tákn nærveru hans. – Mark. 13:1–4.

Pétur var hreinn og beinn, kraftmikill og stundum fljótfær. Hann virðist oft hafa tjáð sig á undan félögum sínum. Í guðspjöllunum er oftar vitnað í orð hans en orð hinna postulanna 11 samanlagt. Pétur spurði spurninga þegar hinir þögðu. (Matt. 15:15; 18:21; 19:27–29; Lúk. 12:41; Jóh. 13:36–38) Það var hann sem vildi ekki að Jesús þvægi fætur hans en bað svo Jesú að þvo líka hendur sínar og höfuð þegar hann var ávítaður. – Jóh. 13:5–10.

Pétur var tilfinningamaður og reyndi því að sannfæra Jesú um að hann þyrfti ekki að þjást og deyja. Jesús ávítaði hann fyrir dómgreindarleysið. (Matt. 16:21–23) Síðustu nótt Jesú á jörð lýsti Pétur yfir að þó að allir hinir postularnir yfirgæfu Jesú myndi hann aldrei gera það. Þegar óvinir Jesú handtóku hann sýndi Pétur hugrekki, varði hann með sverði og fylgdi honum svo inn í garðinn við hús æðstaprestsins. En stuttu síðar afneitaði Pétur meistara sínum þrisvar og grét svo beisklega þegar hann áttaði sig á hvað hann hafði gert. – Matt. 26:31–35, 51, 52, 69–75.

Stuttu áður en Jesús birtist postulunum í Galíleu í fyrsta sinn eftir að hann reis upp sagðist Pétur ætla að róa til fiskjar og hinir postularnir fóru með honum. Þegar Pétur áttaði sig á að Jesús stóð á ströndinni stökk hann út í vatnið og synti í land. Jesús eldaði fisk í morgunmat handa postulunum og spurði þá Pétur hvort hann elskaði sig meira en „þessa“ – það er, fiskinn sem þeir höfðu veitt. Jesús hvatti Pétur til að nota tíma sinn og orku til að fylgja sér í stað þess að stunda atvinnu eins og fiskveiðar. – Jóh. 21:1–22.

Það var líklega á árunum 62–64 sem Pétur boðaði fagnaðarboðskapinn í Babýlon þar sem nú er Írak en þar bjuggu margir Gyðingar. (1. Pét. 5:13) Pétur var þar þegar hann skrifaði fyrra innblásna bréfið sem ber nafn hans og hugsanlega líka það síðara. Jesús „gaf Pétri mátt til að vera postuli meðal hinna umskornu“. (Gal. 2:8, 9) Pétur sinnti þessu verkefni af umhyggju og kostgæfni.

JÓHANNES – LÆRISVEINNINN SEM JESÚS ELSKAÐI

Jóhannes postuli var sonur Sebedeusar og bróðir Jakobs postula. Svo virðist sem móðir hans hafi heitið Salóme en hún var hugsanlega systir Maríu móður Jesú. (Matt. 10:2; 27:55, 56; Mark. 15:40; Lúk. 5:9, 10) Jóhannes var því ef til vill náskyldur Jesú. Fjölskylda Jóhannesar virðist hafa verið efnuð. Útgerð Sebedeusar var nógu umfangsmikil til að hann gæti verið með daglaunamenn í vinnu. (Mark. 1:20) Salóme fylgdi Jesú og veitti honum þjónustu þegar hann var í Galíleu og síðar meir kom hún með ilmjurtir til að búa líkama hans til greftrunar. (Mark. 16:1; Jóh. 19:40) Jóhannes átti sennilega sitt eigið húsnæði. – Jóh. 19:26, 27.

Jóhannes postuli heldur á bókrollu.

Jóhannes var líklega lærisveinn Jóhannesar skírara, sá sem stóð hjá Andrési þegar Jóhannes skírari horfði á Jesú og sagði: „Sjáið, lamb Guðs!“ (Jóh. 1:35, 36, 40) Jóhannes Sebedeusson fylgdi greinilega Jesú til Kana eftir þetta og var sjónarvottur að fyrsta kraftaverki hans. (Jóh. 2:1–11) Í framhaldinu fer Jesús til Jerúsalem, Samaríu og Galíleu. Frásagan af starfi hans þar er lifandi og ítarleg sem gefur til kynna að guðspjallaritarinn hafi kannski líka verið sjónarvottur að því sem gerðist þar. Líkt og Jakob, Pétur og Andrés hikar Jóhannes ekki við að yfirgefa netin, bátinn og lífsviðurværi sitt þegar Jesús biður hann um að fylgja sér. Það vitnar um sterka trú hans. – Matt. 4:18–22.

Jóhannes er ekki eins áberandi og Pétur í guðspjöllunum. En Jóhannes var líka sterkur persónuleiki eins og sést af viðurnefninu sem Jesús gaf honum og Jakobi bróður hans. Hann kallaði þá Boanerges sem merkir ‚þrumusynir‘. (Mark. 3:17) Framan af var Jóhannes svo metnaðargjarn að þeir bræðurnir fengu móður sína til að biðja Jesú að veita sér forréttindastöðu í ríki hans. Þetta var auðvitað eigingjarnt en það sýndi þó að ríki Guðs var þeim raunverulegt. Metnaðargirni bræðranna gaf Jesú tækifæri til að minna alla postulana á að þeir þyrftu að vera auðmjúkir. – Matt. 20:20–28.

Persónuleiki Jóhannesar sýndi sig þegar hann reyndi að hindra að maður sem var ekki fylgjandi Jesú ræki út illa anda í nafni hans. Við annað tækifæri hafði Jesús látið sendiboða fara á undan sér til að undirbúa komu hans í samverskt þorp. Þorpsbúar vildu ekki taka við honum og Jóhannes var þá tilbúinn til að kalla eld af himni til að eyða þeim. Jesús ávítaði hann fyrir að bregðast svona við. Með tímanum mildaðist Jóhannes og lærði að sýna miskunn sem hann virtist hafa skort áður. (Lúk. 9:49–56) Þrátt fyrir veikleika Jóhannesar var hann „lærisveinninn sem Jesús elskaði“. Rétt áður en Jesús dó fól hann honum að hugsa um Maríu móður sína. – Jóh. 19:26, 27; 21:7, 20, 24.

Jóhannes lifði lengst allra postulanna eins og Jesús hafði spáð. (Jóh. 21:20–22) Hann þjónaði Jehóva trúfastur um 70 ára skeið. Á efri árum var Jóhannes sendur í útlegð til eyjarinnar Patmos „fyrir að hafa talað um Guð og vitnað um Jesú“. Það var í stjórnartíð Dómitíanusar Rómarkeisara. Það var þar sem Jóhannes sá sýnirnar sem hann skráði í Opinberunarbókina um árið 96. (Opinb. 1:1, 2, 9) Arfsagnir herma að Jóhannes hafi farið til Efesus eftir að hann var laus úr haldi og að þar hafi hann skrifað guðspjall sitt og bréfin þrjú sem kennd eru við hann. Talið er að hann hafi dáið í Efesus um árið 100.

a Bænastundir voru haldnar í musterinu í tengslum við morgun- og kvöldfórnirnar. Kvöldfórnin var færð „um níundu stund“ eða um þrjúleytið síðdegis.

b Sjá rammana „Pétur – fiskimaður sem varð kraftmikill postuli“ og „Jóhannes – lærisveinninn sem Jesús elskaði“.

c Sjá rammann „Æðstipresturinn og yfirprestarnir“.

d Ef til vill voru aðeins um 6.000 farísear og enn færri saddúkear í Jerúsalem árið 33. Það gæti verið enn ein ástæðan fyrir því að þessum tveim hópum fannst sér stafa vaxandi ógn af kenningum Jesú.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila