Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • bt kafli 15 bls. 117-123
  • Þeir ‚styrktu söfnuðina‘

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Þeir ‚styrktu söfnuðina‘
  • Vitnum ítarlega um ríki Guðs
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „Förum nú aftur og heimsækjum trúsystkini okkar“ (Post. 15:36)
  • ‚Þeir rifust harkalega‘ (Post. 15:37–41)
  • Bræðurnir „báru honum gott orð“ (Post. 16:1–3)
  • ,Söfnuðirnir styrktust í trúnni‘ (Post. 16:4, 5)
  • „Elskað og trútt barn mitt í samfélagi við Drottin“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2016
  • Markús „þarfur í þjónustunni“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Innblásin fyrirmynd um kristið trúboðsstarf
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1993
  • Þjónar Jehóva styrkjast í trúnni
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
Sjá meira
Vitnum ítarlega um ríki Guðs
bt kafli 15 bls. 117-123

15. KAFLI

Þeir ‚styrktu söfnuðina‘

Farandumsjónarmenn hjálpa söfnuðunum að styrkjast í trúnni

Byggt á Postulasögunni 15:36–16:5

1–3. (a) Lýstu nýjum ferðafélaga Páls. (b) Hvað lærum við í þessum kafla?

FÉLAGARNIR eru á ferð um hrjóstrugt land milli bæja. Páll postuli horfir hugsi á unga manninn sem er með honum. Hann heitir Tímóteus. Hann er ungur og kraftmikill, kannski í kringum tvítugt. Hann fjarlægist heimabæ sinn við hvert fótmál. Þegar líður á daginn hverfa Lýstra og Íkóníum úr sjónmáli. Hvað er fram undan? Páll hefur einhverja hugmynd um það því að þetta er önnur trúboðsferðin hans. Hann veit að hættur og erfiðleikar bíða þeirra. Hvernig ætli unga manninum við hlið hans eigi eftir að ganga?

2 Páll hefur trú á Tímóteusi, kannski meiri en þessi auðmjúki ungi maður hefur sjálfur. Nýlegir atburðir hafa sannfært Pál meira en nokkru sinni fyrr um að hann þurfi að hafa rétta ferðafélagann. Hann veit að þeir félagarnir þurfa að vera einbeittir og einhuga til að ráða við verkefnið sem bíður þeirra – að heimsækja söfnuðina og styrkja þá. Af hverju ætli Páll sé að hugsa um þetta? Ein ástæðan fyrir því gæti verið ósamkomulag sem komið hafði upp milli hans og Barnabasar og olli því að leiðir skildi með þeim.

3 Í þessum kafla lærum við ýmislegt um hvernig hægt sé að leysa úr ágreiningi. Við komumst að raun um hvers vegna Páll valdi Tímóteus sem ferðafélaga og lærum sitthvað um mikilvægt hlutverk farandhirða nú á dögum.

„Förum nú aftur og heimsækjum trúsystkini okkar“ (Post. 15:36)

4. Hverju ætlaði Páll að koma til leiðar í annarri trúboðsferðinni?

4 Í kaflanum á undan kynntum við okkur hvernig fjögurra manna sendinefnd – þeir Páll, Barnabas, Júdas og Sílas – byggðu upp söfnuðinn í Antíokkíu með því að segja frá úrskurði hins stjórnandi ráðs um umskurðinn. Hvað gerði Páll í framhaldi af því? Hann kom að máli við Barnabas og lagði fram nýja ferðaáætlun: „Förum nú aftur og heimsækjum trúsystkini okkar í öllum borgunum þar sem við höfum boðað orð Jehóva og sjáum hvernig þau hafa það.“ (Post. 15:36) Páll var ekki að hugsa um að heimsækja þessi nýju trúsystkini til þess eins að eiga góðar stundir með þeim. Í Postulasögunni kemur fram hver tilgangur Páls var með annarri trúboðsferðinni. Í fyrsta lagi ætlaði hann að halda áfram að gera grein fyrir úrskurðum hins stjórnandi ráðs. (Post. 16:4) Sem farandumsjónarmaður vildi hann líka byggja söfnuðina upp og hjálpa trúsystkinum sínum að styrkja trúna. (Rómv. 1:11, 12) Hvernig fylgir nútímasöfnuður Votta Jehóva þeirri fyrirmynd sem postularnir gáfu?

5. Hvernig veitir hið stjórnandi ráð söfnuðunum leiðsögn og hvatningu?

5 Kristur hefur falið hinu stjórnandi ráði Votta Jehóva nú á tímum að veita söfnuði sínum forystu. Þessir trúu andasmurðu menn veita söfnuðunum um heim allan leiðsögn og hvaningu með bréfum, prentuðum og rafrænum ritum, samkomum og eftir öðrum samskiptaleiðum. Hið stjórnandi ráð vill líka eiga góð tengsl við hvern einasta söfnuð. Þess vegna heimsækja farandhirðar söfnuðina. Ráðið hefur útnefnt þúsundir hæfra öldunga um heim allan til að starfa sem farandhirðar.

6, 7. Hvaða verkefni hafa farandhirðar?

6 Farandhirðar nú á dögum reyna að sýna öllum áhuga í söfnuðunum sem þeir heimsækja og styrkja þá í trúnni. Hvernig? Með því að líkja eftir farandumsjónarmönnum á fyrstu öld eins og Páli. Hann hvatti félaga sinn til að „boða orðið“ og bætti við: „Gerðu það af kappi, bæði á hagstæðum tímum og erfiðum. Áminntu, ávítaðu og hvettu með mikilli þolinmæði og góðri kennslu. Þú skalt … vinna verk trúboða.“ – 2. Tím. 4:2, 5.

7 Farandhirðir – og eiginkona hans ef hann er giftur – fer eftir þessari hvatningu og tekur þátt í ýmsum greinum boðunarinnar með boðberum á staðnum. Þeir sem eru í farandstarfi eru duglegir boðberar og góðir kennarar, og þannig hafa þeir góð áhrif á hjörðina. (Rómv. 12:11; 2. Tím. 2:15) Þeir eru þekktir fyrir að sýna óeigingjarnan kærleika. Þeir gefa af sjálfum sér og ferðast í alls konar veðri og jafnvel á hættulegum svæðum. (Fil. 2:3, 4) Farandhirðar flytja líka biblíutengdar ræður í hverjum söfnuði til að hvetja, kenna og áminna. Það er öllum í söfnuðinum til góðs að velta fyrir sér líferni þeirra og líkja eftir trú þeirra. – Hebr. 13:7.

‚Þeir rifust harkalega‘ (Post. 15:37–41)

8. Hvernig brást Barnabas við tillögu Páls?

8 Barnabas tók vel í tillögu Páls um að ‚heimsækja trúsystkini þeirra‘. (Post. 15:36) Þeir höfðu áður verið ferðafélagar og starfað vel saman og þekktu vel bæði svæðið og fólkið sem þeir ætluðu að heimsækja. (Post. 13:2–14:28) Hugmyndin um að þeir færu saman í þetta verkefni virtist því góð og skynsamleg. En þá hljóp snurða á þráðinn. Í Postulasögunni 15:37 segir: „Barnabas var ákveðinn í að taka með Jóhannes sem var kallaður Markús.“ Þetta var ekki bara tillaga hjá Barnabasi. Hann „var ákveðinn í“ að taka Markús frænda sinn með í þessa trúboðsferð.

9. Hvers vegna var Páll ósammála Barnabasi?

9 Páll var á öðru máli. Af hverju? Í frásögunni segir: „Páll var hins vegar ekki hlynntur því að taka [Markús] með þar sem hann hafði yfirgefið þá í Pamfýlíu og ekki haldið verkinu áfram með þeim.“ (Post. 15:38) Markús hafði verið með Páli og Barnabasi í fyrstu trúboðsferðinni en ekki lokið ferðinni með þeim. (Post. 12:25; 13:13) Þeir voru ekki komnir lengra en til Pamfýlíu þegar Markús hætti við og sneri heim til Jerúsalem. Biblían segir ekki hvers vegna hann skildi við þá en Páli fannst það greinilega ábyrgðarleysi af Markúsi. Hann efaðist kannski um að honum væri treystandi.

10. Hvað gerðist þegar ósætti kom upp milli Páls og Barnabasar?

10 Barnabas var samt harður á því að taka Markús með. Páll var jafn harður á því að gera það ekki. „Þeir rifust svo harkalega um þetta að leiðir þeirra skildu,“ segir í Postulasögunni 15:39. Barnabas sigldi heim til Kýpur og tók Markús með sér. Páll hélt sig við upphaflega áætlun. Í frásögunni lesum við: „Páll kaus sér Sílas og hélt af stað eftir að bræðurnir höfðu beðið Jehóva að gæta hans og sýna honum einstaka góðvild sína.“ (Post. 15:40) Þeir fóru saman ‚um Sýrland og Kilikíu og styrktu söfnuðina‘. – Post. 15:41.

11. Hvað hjálpar okkur að varðveita vináttuna ef einhver kemur okkur í uppnám?

11 Þessi frásaga minnir okkur kannski á hve ófullkomin við erum. Páll og Barnabas höfðu verið skipaðir sérstakir fulltrúar hins stjórnandi ráðs. Líklegt er að Páll hafi sjálfur setið í ráðinu síðar. En í þessu tilfelli náði ófullkomleikinn yfirhöndinni hjá Páli og Barnabasi. Létu þeir þetta atvik binda enda á vináttu sína? Þótt Páll og Barnabas væru ófullkomnir voru þeir auðmjúkir og höfðu huga Krists. Eflaust fyrirgáfu þeir hvor öðrum með tíð og tíma og urðu vinir á ný. (Ef. 4:1–3) Síðar áttu Páll og Markús eftir að starfa saman að öðrum verkefnum í þjónustu Guðs.a – Kól. 4:10.

12. Hvaða eiginleikar Páls og Barnabasar ættu að einkenna umsjónarmenn nú á dögum?

12 Þetta rifrildi Páls og Barnabasar var ekki einkennandi fyrir þá. Barnabas var þekktur fyrir að vera hlýr og örlátur. Postularnir kölluðu hann einmitt þessu nafni, Barnabas, sem merkir ‚huggunarsonur‘ í stað þess að kalla hann Jósef eins og hann hét í raun. (Post. 4:36) Páll var líka þekktur fyrir að vera mildur og umhyggjusamur. (1. Þess. 2:7, 8) Allir umsjónarmenn, þar á meðal farandhirðar, ættu að líkja eftir Páli og Barnabasi. Þeir ættu að reyna að vera auðmjúkir og mildir í samskiptum sínum við samöldunga og alla hjörðina. – 1. Pét. 5:2, 3.

Bræðurnir „báru honum gott orð“ (Post. 16:1–3)

13, 14. (a) Hver var Tímóteus og við hvaða aðstæður kynntist Páll honum? (b) Hvað varð til þess að Páll tók sérstaklega eftir Tímóteusi? (c) Hvaða ábyrgð var Tímóteusi falin?

13 Í annarri trúboðsferð sinni fór Páll til rómverska skattlandsins Galatíu en þar höfðu verið stofnaðir nokkrir söfnuðir. Að lokum kom hann „til Derbe og síðan til Lýstru“. Frásagan heldur áfram: „Þar var lærisveinn sem hét Tímóteus, sonur trúaðrar konu sem var Gyðingur en faðir hans var grískur.“ – Post. 16:1.b

14 Páll hafði greinilega hitt fjölskyldu Tímóteusar þegar hann fór um svæðið í fyrsta sinn um árið 47. Núna, þegar hann heimsækir söfnuðinn tveim eða þrem árum síðar, tekur hann sérstaklega eftir unga manninum Tímóteusi. Af hverju? Af því að bræðurnir „báru honum gott orð“. Hann var ekki aðeins vel liðinn meðal bræðranna í heimasöfnuði sínum heldur hafði orðstír hans líka borist til annarra safnaða. Í frásögunni kemur fram að gott orð fór af honum bæði í söfnuðunum í Lýstru og í Íkóníum sem var í um það bil 30 kílómetra fjarlægð. (Post. 16:2) Undir leiðsögn heilags anda fólu öldungarnir þessum unga manni mikla ábyrgð – að styðja Pál og Sílas sem farandumsjónarmaður. – Post. 16:3.

15, 16. Fyrir hvað ávann Tímóteus sér gott mannorð?

15 Fyrir hvað ávann Tímóteus sér svona gott mannorð á unga aldri? Var það fyrir gáfur sínar, útlit eða hæfileika? Menn hrífast oft af slíku. Jafnvel Samúel spámaður lét einu sinni hrífast um of af ytra útliti. En Jehóva sagði við hann: „Menn sjá ekki það sem Guð sér. Mennirnir sjá hið ytra en Jehóva sér hvað býr í hjartanu.“ (1. Sam. 16:7) Það voru ekki hæfleikar Tímóteusar sem trúsystkini hans tóku sérstaklega eftir heldur góðir eiginleikar hans.

16 Mörgum árum síðar nefnir Páll postuli suma af góðum eiginleikum Tímóteusar. Hann talar um að hann hafi engan honum líkan, nefnir fórnfúsan kærleika hans og hve ötull hann sé í starfi sínu fyrir söfnuðina. (Fil. 2:20–22) Tímóteus var einnig þekktur fyrir „hræsnislausa trú“ sína. – 2. Tím. 1:5.

17. Hvernig geta ungmenni líkt eftir Tímóteusi?

17 Mörg ungmenni nú á dögum líkja eftir Tímóteusi og þroska með sér góða eiginleika. Þannig eignast þau gott mannorð hjá Jehóva og þjónum hans, jafnvel á unga aldri. (Orðskv. 22:1; 1. Tím. 4:15) Þau sýna af sér hræsnislausa trú og lifa ekki tvöföldu lífi. (Sálm. 26:4) Þar af leiðandi geta mörg ungmenni gegnt mikilvægu hlutverki í söfnuðinum eins og Tímóteus. Það er uppörvandi fyrir alla sem elska Jehóva að sjá þau verða boðbera fagnaðarboðskaparins og með tímanum vígjast Jehóva og skírast.

,Söfnuðirnir styrktust í trúnni‘ (Post. 16:4, 5)

18. (a) Hvað gerðu Páll og Tímóteus á vegum hins stjórnandi ráðs? (b) Hvernig nutu söfnuðirnir góðs af því?

18 Páll og Tímóteus störfuðu saman í mörg ár. Sem farandumsjónarmenn tóku þeir að sér ýmis verkefni á vegum hins stjórnandi ráðs. Í Biblíunni segir: „Þeir fóru nú um borgirnar og fluttu mönnum úrskurði postulanna og öldunganna í Jerúsalem sem þeir áttu að fylgja.“ (Post. 16:4) Söfnuðirnir fóru greinilega eftir leiðbeiningum postulanna og öldunganna í Jerúsalem. Fyrir vikið ,héldu söfnuðirnir áfram að styrkjast í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi‘. – Post. 16:5.

19, 20. Af hverju ættu þjónar Guðs að hlýða „þeim sem fara með forystuna“?

19 Það er líka til blessunar fyrir votta Jehóva nú á tímum að vera undirgefnir og hlýða leiðbeiningum ‚þeirra sem fara með forystuna‘. (Hebr. 13:17) Þar sem sviðsmynd þessa heims er síbreytileg er mikilvægt fyrir þjóna Guðs að lifa í samræmi við andlegu fæðuna sem „hinn trúi og skynsami þjónn“ lætur í té. (Matt. 24:45; 1. Kor. 7:29–31) Það getur komið í veg fyrir að við spillum sambandi okkar við Jehóva og hjálpað okkur að vera óflekkuð af heiminum. – Jak. 1:27.

20 Umsjónarmenn nú á tímum, þeirra á meðal bræðurnir í stjórnandi ráði, eru vissulega ófullkomnir eins og Páll, Barnabas, Markús og aðrir andasmurðir öldungar á fyrstu öld. (Rómv. 5:12; Jak. 3:2) Við getum engu að síður treyst hinu stjórnandi ráði vegna þess að það fer gaumgæfilega eftir orði Guðs og fylgir fordæmi postulanna. (2. Tím. 1:13, 14) Þar af leiðandi eflast söfnuðirnir og styrkjast í trúnni.

TÍMÓTEUS VINNUR HÖRÐUM HÖNDUM VIÐ AÐ „EFLA BOÐUN FAGNAÐARBOÐSKAPARINS“

Páll postuli mat Tímóteus ákaflega mikils fyrir starf hans. Eftir að þeir höfðu unnið náið saman í um það bil 11 ár skrifaði Páll um hann: „Ég hef engan honum líkan, engan sem mun láta sér eins einlæglega annt um velferð ykkar … Þið vitið hvernig Tímóteus hefur reynst. Hann hefur þjónað með mér við að efla boðun fagnaðarboðskaparins eins og barn með föður sínum.“ (Fil. 2:20, 22) Tímóteus lagði sig allan fram við að efla boðunina. Páli þótti því mjög vænt um hann og hann er okkur góð fyrirmynd.

Tímóteus.

Tímóteus virðist hafa alist upp í Lýstru. Hann átti grískan föður en móðir hans var Gyðingur. Tímóteus hafði fræðst um Ritningarnar frá blautu barnsbeini hjá Evnike móður sinni og Lóis ömmu sinni. (Post. 16:1, 3; 2. Tím. 1:5; 3:14, 15) Líklega hafa þau öll þrjú tekið kristna trú þegar Páll kom til heimabæjar þeirra í fyrsta sinn.

Páll sneri aftur nokkrum árum síðar. Tímóteus var þá hugsanlega um tvítugt og „bræðurnir í Lýstru og Íkóníum báru honum gott orð“. (Post. 16:2) Innblásnir spádómar höfðu verið bornir fram um þennan unga mann, og í samræmi við þá mæltu Páll og öldungar safnaðarins með að hann yrði útnefndur til að gegna sérstakri þjónustu. (1. Tím. 1:18; 4:14; 2. Tím. 1:6) Hann átti að ferðast með Páli í trúboðsstarfi hans. Tímóteus þyrfti að kveðja fjölskyldu sína og það þurfti líka að umskera hann til að Gyðingar sem hann átti eftir að heimsækja hefðu ekki tilefni til að hneykslast. – Post. 16:3.

Tímóteus ferðaðist ósköpin öll. Hann boðaði trúna með Páli og Sílasi í Filippí, með Sílasi í Beroju og síðan einn í Þessaloníku. Þegar hann kom til Korintu og hitti Pál aftur flutti hann honum góðar fréttir af því hve bræður og systur í Þessaloníku sýndu mikinn kærleika og trúfesti þrátt fyrir ýmsar raunir. (Post. 16:6–17:14; 1. Þess. 3:2–6) Páll varð áhyggjufullur þegar hann fékk fréttir af Korintumönnum. Hann var þá staddur í Efesus og ætlaði sér að senda Tímóteus aftur til Korintu. (1. Kor. 4:17) Síðar meir sendi Páll Tímóteus og Erastus frá Efesus til Makedóníu. En þegar Páll skrifaði Rómverjabréfið voru þeir Tímóteus aftur saman í Korintu. (Post. 19:22; Rómv. 16:21) Þetta eru aðeins dæmi um ferðir sem Tímóteus fór í þágu fagnaðarboðskaparins.

Páll skrifaði Tímóteusi: „Láttu engan líta niður á þig þótt þú sért ungur.“ (1. Tím. 4:12) Það bendir til þess að Tímóteus hafi verið hikandi við að beita því umboði sem hann hafði fengið. Páll bar samt fullt traust til hans og sendi hann til safnaðar þar sem ýmis vandamál höfðu komið upp. Hann gaf honum þessi fyrirmæli: „Ég vil að þú skipir vissum mönnum að kenna ekki falskenningar.“ (1. Tím. 1:3) Páll gaf Tímóteusi líka umboð til að útnefna umsjónarmenn og safnaðarþjóna. – 1. Tím. 5:22.

Páli þótti ákaflega vænt um Tímóteus vegna þess hvaða mann hann hafði að geyma. Af Biblíunni má sjá að ungi maðurinn hafi verið náinn, trúfastur og ástkær félagi hans, eins og sonur. Páll skrifaði að hann minntist tára hans, þráði að sjá hann og bæði fyrir honum. Eins og umhyggjusamur faðir gaf hann Tímóteusi ráð vegna „tíðra veikinda“ hans, sennilega út af maganum. – 1. Tím. 5:23; 2. Tím. 1:3, 4.

Tímóteus var hjá Páli í fyrra skiptið sem hann sat í fangelsi í Róm. Tímóteus sat líka í fangelsi, að minnsta kosti um tíma. (Fílem. 1; Hebr. 13:23) Náið samband þeirra sést vel af því að Páll skrifaði Tímóteusi þegar hann vissi að hann átti ekki langt eftir ólifað: „Reyndu eins og þú getur að koma til mín sem fyrst.“ (2. Tím. 4:6–9) Þess er ekki getið í Biblíunni hvort Tímóteus náði þangað í tæka tíð til að hitta ástkæran læriföður sinn.

MÖRG VERKEFNI MARKÚSAR

Í Markúsarguðspjalli segir að þeir sem handtóku Jesú hafi líka reynt að handsama ‚ungan mann‘ en hann hafi flúið og ‚komist undan nakinn‘. (Mark. 14:51, 52) Markús, einnig nefndur Jóhannes Markús, er sá eini sem segir frá þessu og þess vegna er talið líklegt að hann sé að tala um sjálfan sig. Ef það er rétt átti Markús að minnsta kosti einhver samskipti við Jesú.

Markús hlustar á sér eldri mann og skrifar minnispunkta.

Þegar Heródes Agrippa ofsótti kristna menn um 11 árum síðar komu „allmargir“ úr söfnuðinum í Jerúsalem saman á heimili Maríu móður Markúsar til að biðja. Það var þangað sem Pétur postuli kom þegar hann losnaði úr fangelsi fyrir kraftaverk. (Post. 12:12) Því má vera að Markús hafi alist upp í húsi þar sem safnaðarsamkomur voru síðar haldnar. Hann þekkti eflaust fyrstu lærisveina Jesú vel og þeir höfðu góð áhrif á hann.

Markús starfaði náið með mörgum af umsjónarmönnum frumkristnu safnaðanna. Fyrsta verkefni hans sem vitað er um var að starfa með Barnabasi frænda sínum og Páli postula í Antíokkíu í Sýrlandi. (Post. 12:25) Þegar Barnabas og Páll lögðu upp í fyrstu trúboðsferð sína fór Markús með þeim, fyrst til Kýpur og síðan til Litlu-Asíu. Þaðan sneri hann aftur til Jerúsalem en ósagt er látið hver ástæðan var. (Post. 13:4, 13) Í 15. kafla Postulasögunnar er sagt frá því að ágreiningur hafi komið upp milli Barnabasar og Páls um Markús og í framhaldi af því fóru Markús og Barnabas til Kýpur og héldu trúboðsstarfi sínu áfram þar. – Post. 15:36–39.

Þessi ágreiningur hlýtur að hafa verið gleymdur og grafinn árið 60 eða 61 þegar Markús og Páll störfuðu aftur saman, í þetta sinn í Róm. Páll var þá fangi þar í borg og skrifaði söfnuðinum í Kólossu: „Aristarkus, sem er í haldi með mér, sendir ykkur kveðju og sömuleiðis Markús frændi Barnabasar (þið hafið verið beðin um að taka vel á móti honum ef hann kemur til ykkar).“ (Kól. 4:10) Páll ætlaði sem sagt að senda Jóhannes Markús sem fulltrúa sinn frá Róm til Kólossu.

Markús starfaði síðan með Pétri postula í Babýlon einhvern tíma á árabilinu 62 til 64. Eins og fram kemur í 10. kafla þessarar bókar urðu þeir nánir vinir því að Pétur kallar unga manninn ‚Markús son sinn‘. – 1. Pét. 5:13.

Um árið 65, þegar Páll postuli var fangi í Róm í annað sinn, skrifaði hann Tímóteusi, samstarfsmanni sínum, sem var þá í Efesus: „Taktu Markús með þér því að hann er mér mikil hjálp í þjónustunni.“ (2. Tím. 4:11) Markús þáði boðið eflaust fúslega og hélt frá Efesus aftur til Rómar. Það er engin furða að Barnabas, Páll og Pétur kunnu vel að meta þennan mann.

Mesti heiður sem Markúsi hlotnaðist var að Jehóva skyldi innblása honum að skrifa eitt af guðspjöllunum. Samkvæmt arfsögnum er talið að Pétur postuli hafi veitt Markúsi upplýsingar um margt. Það virðist eiga við rök að styðjast því að í Markúsarguðspjalli er sagt frá mörgu sem aðeins sjónarvottur, eins og Pétur, gat vitað. Markús virðist þó hafa skrifað guðspjallið í Róm en ekki í Babýlon meðan hann var með Pétri. Markús notar víða latneskt orðfæri og þýðir hebresk orð sem hefðu verið torskilin fyrir aðra en Gyðinga. Hann virðist hafa skrifað fyrst og fremst fyrir lesendur af þjóðunum.

a Sjá rammann „Mörg verkefni Markúsar“.

b Sjá rammann „Tímóteus vinnur hörðum höndum við að ‚efla boðun fagnaðarboðskaparins‘“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila