Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • bt kafli 16 bls. 124-132
  • „Komdu yfir til Makedóníu“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Komdu yfir til Makedóníu“
  • Vitnum ítarlega um ríki Guðs
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ‚Guð kallaði okkur þangað‘ (Post. 16:6–15)
  • „Mannfjöldinn réðst nú að þeim“ (Post. 16:16–24)
  • ‚Að því búnu létu þau skírast‘ (Post. 16:25–34)
  • „Ætla þeir nú að reka okkur út með leynd?“ (Post. 16:35–40)
  • „Friður Guðs ... er æðri öllum skilningi“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2017
  • Orð Jehóva eflist!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • ‚Hann rökræddi við þá út frá Ritningunum‘
    Vitnum ítarlega um ríki Guðs
Vitnum ítarlega um ríki Guðs
bt kafli 16 bls. 124-132

16. KAFLI

„Komdu yfir til Makedóníu“

Það hefur blessun í för með sér að þiggja verkefni og varðveita gleðina í ofsóknum

Byggt á Postulasögunni 16:6–40

1–3. (a) Hvernig leiðbeindi heilagur andi Páli og félögum hans? (b) Hvaða atburði skoðum við núna?

HÓPUR kvenna er á leið út úr borginni Filippí í Makedóníu. Fljótlega koma þær að lítilli á sem heitir Gangites. Eins og venjulega setjast þær við árbakkann til að biðja til Jehóva, Guðs Ísraels. Og Jehóva tekur eftir þeim. – 2. Kron. 16:9; Sálm. 65:2.

2 Rúmlega 800 kílómetra austur af Filippí eru nokkrir menn að leggja af stað frá Lýstru í Suður-Galatíu. Nokkrum dögum síðar koma þeir að steinlögðum þjóðvegi sem liggur vestur til þéttbýlasta svæðis Asíu. Mennirnir, þeir Páll, Sílas og Tímóteus, eru spenntir að komast til Efesus og annarra borga þar sem þúsundir manna þurfa að fá að heyra boðskapinn um Krist. En áður en þeir hefja ferð sína eftir veginum stoppar heilagur andi þá af með einhverjum ótilgreindum hætti. Þeim er bannað að boða trúna í Asíu. Hvers vegna? Fyrir milligöngu anda Guðs vill Jesús senda Pál og félaga hans um þvera Litlu-Asíu, yfir Eyjahaf og að bakka litlu árinnar Gangites.

3 Við getum lært ýmislegt af því hvernig Jesús leiðbeindi Páli og félögum hans á þessari óvenjulegu ferð til Makedóníu. Við skulum því skoða sumt af því sem gerðist í annarri trúboðsferð Páls en hún hófst um árið 49.

‚Guð kallaði okkur þangað‘ (Post. 16:6–15)

4, 5. (a) Hvað gerðist hjá Páli og félögum í grennd við Biþýníu? (b) Hvað ákváðu lærisveinarnir og til hvers leiddi það?

4 Þegar Páli og félögum hans var meinað að boða trúna í Asíu héldu þeir í norðurátt til að starfa í borgum Biþýníu. Til að komast þangað hafa þeir líklega gengið margar dagleiðir eftir troðnum gönguslóðum milli strjálbýlla svæða í Frýgíu og Galatíu. En þegar þeir nálgast Biþýníu beitir Jesús aftur heilögum anda til að stöðva þá. (Post. 16:6, 7) Mennirnir hljóta að hafa verið ráðvilltir. Þeir vissu hvað þeir áttu að boða og hvernig en þeir vissu ekki hvar þeir áttu að boða trúna. Þeir höfðu bankað á dyrnar að Asíu – en án árangurs. Þeir höfðu bankað á dyrnar að Biþýníu – en aftur til einskis. Páll var samt ákveðinn í að halda áfram að banka þar til hann fyndi dyr sem opnuðust. Mennirnir tóku nú ákvörðun sem kann að hafa virst órökrétt. Þeir héldu í vesturátt og gengu 550 kílómetra fram hjá einni borg af annarri þar til þeir komu til hafnarborgarinnar Tróas en þaðan var hægt að sigla til Makedóníu. (Post. 16:8) Þar bankaði Páll á dyr í þriðja sinn og þær opnuðust upp á gátt.

5 Guðspjallaritarinn Lúkas slæst í för með Páli og félögum í Tróas. Hann segir svo frá: „Um nóttina sá Páll sýn. Makedónskur maður stóð hjá honum og bað hann heitt og innilega: ‚Komdu yfir til Makedóníu og hjálpaðu okkur.‘ Þegar hann hafði séð sýnina reyndum við strax að fara til Makedóníu því að við ályktuðum sem svo að Guð hefði kallað okkur þangað til að flytja fólki fagnaðarboðskapinn.“a (Post. 16:9, 10) Loksins vissi Páll hvar hann átti að boða trúna. Hann hlýtur að hafa verið ánægður að hafa ekki gefist upp á miðri leið. Fjórmenningarnir sigldu strax til Makedóníu.

Páll postuli og Tímóteus standa á þilfari. Tímóteus bendir á eitthvað sem hann sér í fjarlægð. Áhöfnin er að störfum.

„Við lögðum því út frá Tróas.“ – Postulasagan 16:11.

6, 7. (a) Hvað getum við lært af því sem gerðist í ferð Páls? (b) Hvað getum við verið viss um miðað við reynslu Páls?

6 Hvað getum við lært af þessari frásögu? Tökum eftir að andi Guðs gaf Páli ekki ábendingu fyrr en hann var lagður af stað til Asíu, Jesús skarst ekki í leikinn fyrr en Páll var kominn langleiðina til Biþýníu og Jesús benti honum ekki á að fara til Makedóníu fyrr en hann var kominn til Tróas. Jesús, sem er höfuð safnaðarins, getur leiðbeint okkur með svipuðum hætti. (Kól. 1:18) Segjum að við höfum verið að hugsa um að gerast brautryðjendur eða að flytja á svæði þar sem mikil þörf er fyrir boðbera. En það er kannski ekki fyrr en við gerum eitthvað markvisst til að ná markmiðum okkar sem Jesús beitir anda Guðs til að leiðbeina okkur. Hvers vegna? Tökum dæmi: Bílstjóri getur beygt til hægri eða vinstri en aðeins ef bíllinn er á ferð. Eins þurfum við að vera á hreyfingu – það er að segja leggja eitthvað á okkur – til að Jesús leiðbeini okkur þegar við viljum færa út kvíarnar.

7 En hvað ef viðleitni okkar ber ekki árangur strax? Eigum við bara að gefast upp og hugsa sem svo að við njótum ekki leiðsagnar anda Guðs? Nei. Munum að Páll náði ekki heldur markmiði sínu undireins. Hann hélt samt áfram að leita þangað til hann fann dyr sem opnuðust. Við getum treyst að okkur verði líka launað fyrir erfiði okkar ef við gefumst ekki upp að leita að ‚víðum dyrum að miklu verki‘. – 1. Kor. 16:9.

8. (a) Lýstu borginni Filippí. (b) Hvað gerðist þegar Páll boðaði trúna á bænastað?

8 Þegar Páll og félagar hans voru komnir til Makedóníu héldu þeir til Filippí. Íbúar borgarinnar voru stoltir af því að vera rómverskir ríkisborgarar. Margir rómverskir hermenn sem voru hættir sökum aldurs bjuggu þar. Nýlenduborgin Filippí var þeim eins og Litla-Ítalía – dvergútgáfa af Róm í Makedóníu. Hjá lítilli á skammt frá borginni fundu trúboðarnir svæði þar sem þeir töldu vera „bænastað“.b Þeir fóru þangað á hvíldardegi og hittu nokkrar konur sem höfðu safnast saman til að tilbiðja Guð. Þeir settust niður og fóru að tala við þær. Kona sem hét Lýdía hlustaði á og „Jehóva opnaði hjarta hennar“. Lýdía var svo snortin af því sem hún heyrði hjá trúboðunum að hún og heimilisfólk hennar skírðust. Síðan bauð hún Páli og ferðafélögum hans að gista hjá sér.c – Post. 16:13–15.

9. Hvernig hafa margir líkt eftir Páli og hvaða blessun hafa þeir hlotið?

9 Ímyndum okkur gleðina þegar Lýdía skírðist! Páll hlýtur að hafa verið ánægður að hafa þegið boðið að ‚koma yfir til Makedóníu‘ og að Jehóva skyldi vilja nota hann og félaga hans til að svara bænum þessara guðhræddu kvenna. Nú á dögum flytja líka margir búferlum – ungir og aldnir, einhleypir og giftir – til svæða þar sem þörfin á boðberum er mikil. Það reynir vissulega á en það bliknar í samanburði við ánægjuna sem fylgir því að finna fólk eins og Lýdíu sem tekur við sannleika Biblíunnar. Gætir þú gert einhverjar breytingar sem gera þér kleift að flytja á svæði þar sem þörfin er mikil? Þá áttu mikla blessun í vændum. Aaron er bróðir á þrítugsaldri sem flutti til lands í Mið-Ameríku. Hann talar fyrir munn margra þegar hann segir: „Að starfa erlendis hefur hjálpað mér að þroskast og styrkja sambandið við Jehóva. Boðununin er frábær – ég er með átta biblíunámskeið!“

Tvær systur boða ungri konu trúna úti á götu. Ungur maður fylgist með til að heyra hvað þær eru að ræða.

Hvernig ‚förum við yfir til Makedóníu‘ nú á dögum?

„Mannfjöldinn réðst nú að þeim“ (Post. 16:16–24)

10. Hvað gerðu illir andar til að vinna gegn Páli og félögum hans?

10 Satan var ekki ánægður með að fagnaðarboðskapurinn hafði náð fótfestu í heimshluta þar sem hann og illu andarnir höfðu líklega verið óáreittir fram að því. Það kemur því ekki á óvart að illir andar skyldu snúa fólki gegn Páli og félögum hans. Í borginni var andsetin þjónustustúlka sem aflaði húsbændum sínum tekna með spásögnum. Hún fór að elta Pál og félaga hans þegar þeir fóru á bænastaðinn og kallaði: „Þessir menn eru þjónar hins hæsta Guðs og boða ykkur veginn til frelsunar.“ Ef til vill lét illi andinn stúlkuna kalla þetta til að það liti út fyrir að spásagnir hennar og kennsla Páls kæmi hvort tveggja frá Guði. Þannig væri hægt að draga athygli fólks frá sönnum fylgjendum Krists. En Páll þaggaði niður í stúlkunni með því að reka út illa andann. – Post. 16:16–18.

11. Hvað gerðist hjá Páli og Sílasi eftir að þeir ráku út illa andann?

11 Þegar eigendur stúlkunnar uppgötvuðu að þessi tekjulind þeirra væri horfin reiddust þeir mjög. Þeir fóru með Pál og Sílas á torgið þar sem ráðamenn borgarinnar réttuðu yfir fólki. Eigendurnir höfðuðu til fordóma og þjóðernishyggju þessara fulltrúa Rómar og sögðu efnislega: ‚Þessir Gyðingar valda ólgu með því að boða siði sem við Rómverjar getum ekki sætt okkur við.‘ Viðbrögðin létu ekki á sér standa. „Mannfjöldinn [á torginu] réðst nú að þeim [Páli og Sílasi]“ og ráðamennirnir „skipuðu að þeir skyldu hýddir“. Eftir það var Páli og Sílasi varpað í fangelsi. Fangavörðurinn setti særða mennina í klefa innst í fangelsinu og festi fætur þeirra í stokk. (Post. 16:19–24) Þegar dyrunum var lokað var eflaust svo dimmt í fangaklefanum að Páll og Sílas sáu varla hvor annan. En Jehóva fylgdist með þeim. – Sálm. 139:12.

12. (a) Hvernig litu lærisveinar Krists á ofsóknir og hvers vegna? (b) Hvers konar andstöðu beita Satan og útsendarar hans enn þann dag í dag?

12 Jesús hafði sagt fylgjendum sínum mörgum árum áður: ‚Þeir munu ofsækja ykkur.‘ (Jóh. 15:20) Páll og félagar hans voru því viðbúnir andstöðu þegar þeir fóru yfir til Makedóníu. Þeir litu ekki á ofsóknirnar sem vísbendingu um vanþóknun Jehóva heldur sem merki um reiði Satans. Útsendarar Satans nú á dögum nota svipaðar aðferðir og menn gerðu í Filippí. Andstæðingar gefa villandi mynd af okkur í skólum og á vinnustöðum og ýta undir andstöðu. Trúarlegir andstæðingar í sumum löndum ákæra okkur fyrir rétti og segja efnislega: ‚Þessir vottar valda ólgu með því að kenna siði sem við heimamenn getum ekki sætt okkur við.‘ Sums staðar eru trúsystkini okkar barin og þeim varpað í fangelsi. En Jehóva fylgist með þeim. – 1. Pét. 3:12.

‚Að því búnu létu þau skírast‘ (Post. 16:25–34)

13. Hvað varð til þess að fangavörðurinn spurði: „Hvað þarf ég að gera til að bjargast“?

13 Páll og Sílas hafa eflaust þurft smá tíma til að melta atburði þessa róstusama dags. Um miðnætti voru þeir þó búnir að jafna sig nógu vel eftir barsmíðarnar til að geta ‚beðist fyrir og lofað Guð í söng‘. En skyndilega varð jarðskjálfti og fangelsið lék á reiðiskjálfi. Fangavörðurinn vaknaði, sá að dyrnar höfðu opnast og óttaðist að fangarnir væru flúnir. Þar sem hann vissi að sér yrði refsað fyrir að láta þá sleppa „greip hann sverð sitt og ætlaði að fyrirfara sér“. En Páll kallaði: „Gerðu ekki sjálfum þér mein því að við erum allir hérna!“ Fangavörðurinn spurði angistarfullur: „Herrar mínir, hvað þarf ég að gera til að bjargast?“ Páll og Sílas gátu auðvitað ekki bjargað honum heldur aðeins Jesús. Þeir svöruðu því: „Trúðu á Drottin Jesú og þá muntu bjargast.“ – Post. 16:25–31.

14. (a) Hvernig hjálpuðu Páll og Sílas fangaverðinum? (b) Hvernig var Páli og Sílasi launað fyrir að standast ofsóknir með gleði?

14 Var fangavörðurinn einlægur þegar hann spurði um þetta? Páll efaðist ekki um það. Fangavörðurinn var ekki Gyðingur og þekkti ekki Ritningarnar. Hann þurfti að fræðast um grundvallarsannindi Ritningarinnar og meðtaka þau áður en hann gat orðið kristinn. Páll og Sílas gáfu sér því tíma til að boða honum „orð Jehóva“. Meðan þeir félagarnir voru uppteknir af því að fræða hann um Ritningarnar gleymdu þeir kannski sársaukanum eftir barsmíðarnar. Fangavörðurinn tók þó eftir djúpum sárunum á baki þeirra og hreinsaði þau. „Að því búnu lét hann skírast ásamt öllu heimilisfólki sínu.“ Páli og Sílasi var launað ríkulega fyrir að standast ofsóknir með gleði. – Post. 16:32–34.

15. (a) Hvernig hafa margir vottar líkt eftir Páli og Sílasi? (b) Hvers vegna ættum við að heimsækja fólk aftur og aftur?

15 Margir vottar nú á dögum hafa boðað fagnaðarboðskapinn með góðum árangri þegar þeir voru í fangelsi vegna trúar sinnar, rétt eins og Páll og Sílas. Í landi nokkru þar sem starfsemi okkar var bönnuð var staðan einu sinni sú að 40 prósent allra votta höfðu kynnst sannleikanum um Jehóva í fangelsi. (Jes. 54:17) Tökum líka eftir að fangvörðurinn bað ekki um hjálp fyrr en eftir jarðskjálftann. Eins getur það verið nú á dögum. Sumir sem hafa aldrei hlustað á boðskap okkar gera það eftir að hafa orðið fyrir einhverjum áföllum. Þegar við heimsækjum fólk á svæðinu aftur og aftur sýnum við að við erum tilbúin til að hjálpa því.

„Ætla þeir nú að reka okkur út með leynd?“ (Post. 16:35–40)

16. Hvernig snerist taflið við daginn eftir að Páll og Sílas voru hýddir?

16 Morguninn eftir að Páll og Sílas voru hýddir skipuðu ráðamennirnir að þeir skyldu látnir lausir. En Páll sagði: „Þeir hýddu okkur opinberlega án dóms og laga þótt við séum rómverskir borgarar og vörpuðu okkur í fangelsi. Ætla þeir nú að reka okkur út með leynd? Ég held nú síður. Þeir geta sjálfir komið og fylgt okkur út.“ Þegar ráðamennirnir uppgötvuðu að tvímenningarnir voru rómverskir ríkisborgarar ‚urðu þeir hræddir‘ því að þeir höfðu brotið á réttindum þeirra.d Taflið hafði snúist við. Páll og Sílas höfðu verið hýddir opinberlega en nú þurftu ráðamennirnir að biðjast afsökunar opinberlega. Þeir báðu tvímenningana um að yfirgefa Filippí. Mennirnir féllust á það en gáfu sér fyrst tíma til að hvetja vaxandi hóp nýrra lærisveina í borginni. Eftir það fóru þeir.

17. Hvað lærðu nýju lærisveinarnir þegar þeir sáu að Páll og Sílas létu refsinguna yfir sig ganga?

17 Páll og Sílas hefðu ef til vill getað sloppið við hýðingu ef þeir hefðu sagt strax að þeir væru rómverskir ríkisborgarar. (Post. 22:25, 26) En lærisveinarnir í Filippí hefðu þá getað hugsað sem svo að mennirnir tveir hefðu notfært sér stöðu sína til að þurfa ekki að þjást fyrir Krist. Hvaða áhrif hefði það haft á trú þeirra lærisveina sem voru ekki rómverskir ríkisborgarar? Lögin myndu ekki hlífa þeim við hýðingu. Með því að láta refsinguna yfir sig ganga sýndu Páll og félagi hans nýju lærisveinunum að fylgjendur Krists gætu verið staðfastir í ofsóknum. Og með því að krefjast þess að ríkisborgararéttur þeirra væri virtur neyddu Páll og Sílas ráðamennina til að viðurkenna opinberlega að þeir hefðu brotið lög. Þeir myndu þá kannski veigra sér við að fara illa með trúsystkini Páls og þetta myndi vernda þau að einhverju marki gegn svipuðum árásum í framtíðinni.

18. (a) Hvernig fylgja umsjónarmenn nú á dögum fordæmi Páls? (b) Hvernig verjum við rétt okkar til að boða fagnaðarboðskapinn?

18 Umsjónarmenn safnaðarins nú á dögum ganga líka á undan með góðu fordæmi. Þeir eru sjálfir tilbúnir til að gera allt sem þeir ætlast til af trúsystkinum sínum. Eins og Páll vegum við og metum vandlega hvernig og hvenær við beitum lagalegum rétti okkar til að njóta verndar. Ef þörf krefur leitum við til héraðsdómstóla, æðstu dómstóla landsins eða jafnvel til alþjóðlegra dómstóla til að verja rétt okkar til að iðka trúna. Markmið okkar er ekki að berjast fyrir samfélagslegum umbótum heldur að „verja fagnaðarboðskapinn og staðfesta með lögum réttinn til að boða hann“ eins og Páll skrifaði söfnuðinum í Filippí um tíu árum eftir að hafa lent í fangelsi þar. (Fil. 1:7) En hvernig sem dómar falla í slíkum málum erum við ákveðin í að halda áfram að boða fagnaðarboðskapinn hvar sem andi Guðs bendir okkur á, eins og Páll og félagar hans gerðu. – Post. 16:10.

LÚKAS – MAÐURINN SEM SKRIFAÐI POSTULASÖGUNA

Postulasagan er skrifuð í þriðju persónu til og með 16. kafla, vers 9. Með öðrum orðum segir ritarinn aðeins frá því sem aðrir sögðu og gerðu. Það breytist hins vegar í Postulasögunni 16:10, 11. Ritarinn segir til dæmis í 11. versi: „Við lögðum því út frá Tróas og sigldum beina leið til Samóþrake.“ Hér slæst Lúkas, sem skrifaði Postulasöguna, með í för. En Lúkas er hvergi nefndur á nafn í Postulasögunni. Hvernig vitum við þá að það var hann sem skrifaði hana?

Lúkas situr við borð og skrifar í bókrollu.

Við fáum svar við því í inngangsorðum Postulasögunnar og Lúkasarguðspjalls. Maður að nafni Þeófílus er ávarpaður í báðum bókunum. (Lúk. 1:1, 3; Post. 1:1) Inngangsorð Postulasögunnar hljóða svo: „Fyrri frásöguna, Þeófílus, tók ég saman um allt sem Jesús gerði og kenndi frá upphafi.“ Fræðimenn hafa lengi verið sammála um að Lúkas hafi skrifað „fyrri frásöguna“, guðspjallið, og þess vegna hljóti hann líka að hafa skrifað Postulasöguna.

Við vitum ekki mikið um Lúkas. Nafn hans kemur aðeins þrisvar fyrir í Biblíunni. Páll postuli kallar hann ‚lækninn kæra‘ og ‚samstarfsmann sinn‘. (Kól. 4:14; Fílem. 24) Þeir hlutar Postulasögunnar þar sem Lúkas telur sjálfan sig með í frásögunni gefa til kynna að hann hafi fyrst ferðast með Páli frá Tróas til Filippí um árið 50. Þegar Páll fór frá Filippí var Lúkas hins vegar ekki lengur með í för. Þeir hittust síðan aftur í Filippí um árið 56 og ferðuðust ásamt sjö bræðrum í viðbót þaðan til Jerúsalem þar sem Páll var handtekinn. Tveim árum síðar ferðaðist Lúkas með honum frá Sesareu til Rómar en Páll var þá enn fangi. (Post. 16:10–17, 40; 20:5–21:17; 24:27; 27:1–28:16) Þegar Páll, sem nú var fangi í Róm í annað sinn, áttaði sig á að hann yrði bráðum tekinn af lífi var ‚engin nema Lúkas hjá honum‘. (2. Tím. 4:6, 11) Það er ljóst að Lúkas ferðaðist langar leiðir og var fús til að þola erfiðleika í þágu fagnaðarboðskaparins.

Lúkas gefur ekki í skyn að hann hafi sjálfur séð það sem hann skrifar um Jesú. Hann segist öllu heldur hafa tekið sér fyrir hendur að rekja atburðarás byggða á frásögum „sjónarvotta“. Hann kvaðst líka hafa ‚athugað allt gaumgæfilega frá upphafi og ákveðið að skrifa samfellda sögu‘. (Lúk. 1:1–3) Skrif Lúkasar vitna um að hann var nákvæmur fræðimaður. Kannski tók hann viðtal við Elísabetu, Maríu móður Jesú og aðra til að viða að sér efni. Margt af því sem hann segir frá er ekki að finna í hinum guðspjöllunum. – Lúk. 1:5–80.

Páll nefnir að Lúkas hafi verið læknir og áhugi læknisins á þeim sem þjást skín í gegn í því sem hann skrifar. Lítum á fáein dæmi: Lúkas nefnir að þegar Jesús læknaði andsetinn mann hafi ‚andinn farið úr honum án þess að verða honum að meini‘. Hann segir að tengdamóðir Péturs postula hafi verið með „háan hita“. Hann bendir líka á að kona sem Jesús læknaði ‚hafi verið haldin illum anda og verið veik af völdum hans í 18 ár. Hún var kengbogin í baki og algerlega ófær um að rétta úr sér‘. – Lúk. 4:35, 38; 13:11.

‚Verk Drottins‘ var greinilega í fyrsta sæti hjá Lúkasi. (1. Kor. 15:58) Hann sóttist ekki eftir hárri stöðu í heiminum eða starfsframa heldur einfaldlega að hjálpa fólki að kynnast Jehóva og þjóna honum.

LÝDÍA – KONA SEM SELDI PURPURA

Lýdía bjó í Filippí, þekktri borg í Makedóníu. Hún var upphaflega frá Þýatíru sem var í vesturhluta Litlu-Asíu á svæði sem kallaðist Lýdía. Lýdía hafði flust yfir Eyjahaf til að stunda atvinnu sína, að selja purpura. Hún verslaði líklega með purpura af ýmsu tagi – teppi, listvefnað, vefnaðarvöru og jafnvel litinn sjálfan. Fundist hefur áletrun í Filippí sem sýnir að þar hafi verið til samtök purpurakaupmanna.

Lýdía sýnir vefnaðarvöru.

Talað er um að Lýdía hafi ‚tilbeðið Guð‘ en það merkir líklega að hún hafi áður tekið gyðingatrú. (Post. 16:14) Vera má að hún hafi kynnst tilbeiðslunni á Jehóva í heimaborg sinni. Þar var samkunduhús Gyðinga, ólíkt því sem var í Filippí. Sumir telja að Lýdía hafi verið gælunafn – sem merkti ‚kona frá Lýdíu‘ – og að hún hafi fengið það í Filippí. En til eru heimildir fyrir því að Lýdía hafi einnig verið notað sem eiginnafn.

Lýdíumenn og nágrannar þeirra voru þekktir fyrir fagmennsku við að lita með purpura allt frá dögum Hómers á níundu eða áttundu öld f.Kr. Sagt var að vatnið í Þýatíru gæfi „sterkustu og varanlegustu litunina“.

Purpuralitað efni var munaðarvara sem aðeins ríkt fólk gat veitt sér. Ýmsar aðferðir voru notaðar til að framleiða purpuralit en besti og dýrasti liturinn var unninn úr kuðungi úr Miðjarðarhafi og hann var notaður til að lita fínt lín. Hver kuðungur gaf bara einn dropa af litarefni og það þurfti um 8.000 kuðunga til að safna einu grammi af þessum dýrmæta vökva. Vefnaður í þessum lit var því ákaflega dýr.

Það hefur þurft talsvert fjármagn til að stunda atvinnurekstur eins og Lýdía. Hún átti líka nógu stórt hús til að hýsa fjóra gesti – þá Pál, Sílas, Tímóteus og Lúkas. Það bendir til þess að reksturinn hafi gefið vel af sér og að hún hafi verið í góðum efnum. Talað er um ‚heimilisfólk hennar‘ sem getur merkt að hún hafi búið með ættingjum sínum en það getur líka merkt að hún hafi verið með þræla og þjóna. (Post. 16:15) Áður en Páll og Sílas yfirgáfu borgina hittu þeir nokkur trúsystkini á heimili þessarar gestrisnu konu. Af því má álykta að fyrstu samkomur kristinna manna í borginni hafi verið haldnar þar. – Post. 16:40.

Páll nefnir ekki Lýdíu þegar hann skrifar söfnuðinum í Filippí um tíu árum síðar. Við vitum því ekki annað um hana en það sem sagt er frá í 16. kafla Postulasögunnar.

a Sjá rammann „Lúkas – maðurinn sem skrifaði Postulasöguna“.

b Kannski hafa Gyðingar ekki mátt vera með samkundu í Filippí vegna allra hermannanna sem bjuggu þar. Annar möguleiki er að þar hafi ekki einu sinni verið tíu karlmenn af hópi Gyðinga – en það var lágmarkið til að geta stofnað samkundu.

c Sjá rammann „Lýdía – kona sem seldi purpura“.

d Samkvæmt rómverskum lögum átti ríkisborgari alltaf rétt á viðeigandi réttarhöldum. Aldrei mátti refsa honum opinberlega án dóms og laga.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila