Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w94 1.6. bls. 30-32
  • „Hafnaðu skröksögunum“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Hafnaðu skröksögunum“
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Orð sannleikans prófuð
  • Sögur af yfirnáttúrlegum fyrirbærum
  • Að hafna vitnisburði illra anda
  • Prófaðu þetta
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
  • Höldum áfram að iðka það sem við höfum lært
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • Ætlarðu að hlýða skýrum viðvörunum Jehóva?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Stattu gegn djöflinum og vélabrögðum hans
    „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
w94 1.6. bls. 30-32

„Hafnaðu skröksögunum“

BIBLÍAN er full af frásögum af fólki. Við höfum bæði gagn og gaman af því að lesa þær. Páll postuli skrifaði kristna söfnuðinum í Róm: „Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ — Rómverjabréfið 15:4.

Páll sagði stundum frásögur sjálfur. Biblían segir um Pál og Barnabas við lok fyrstu trúboðsferðar þeirra: „Þegar þeir voru þangað komnir [til Antíokkíu í Sýrlandi], stefndu þeir saman söfnuðinum og greindu frá, hversu mikið Guð hafði látið þá gjöra.“ (Postulasagan 14:27) Þessar frásögur hafa vafalítið verið mjög uppörvandi fyrir bræðurna.

En ekki eru allar frásögur uppbyggjandi. Vegna innblásturs sagði Páll Tímóteusi: „Hafnaðu skröksögunum sem vanhelga það sem heilagt er og gamlar konur segja.“ (1. Tímóteusarbréf 4:7, NW) Og Títusi skrifaði hann að trygglyndir kristnir menn ættu ekki að „gefa sig að gyðingaævintýrum og boðum manna, sem fráhverfir eru sannleikanum.“ — Títusarbréfið 1:14.

Hvaða skröksögur eða ævintýri voru þetta? Bæði orðin eru þýðing gríska orðsins myʹþos. The International Standard Bible Encyclopaedia segir að þetta orð lýsi „(trúarlegri) sögu sem hefur engin tengsl við veruleikann.“

Heimurinn á dögum Páls var fullur af slíkum sögum. Eitt dæmi er Tóbítsbók, ein af apokrýfubókunum, sennilega skrifuð liðlega tvö hundruð árum fyrir daga Páls. Þessi saga segir frá Tóbít, guðræknum Gyðingi sem blindast þegar fugladrit lendir í augum hans. Síðar sendir hann son sinn, Tóbías, til að innheimta skuld. Eftir fyrirsögn engils nær Tóbías í hjarta, lifur og gall úr fiski á leiðinni. Því næst hittir hann fyrir ekkju sem er enn hrein mey þótt hún hafi verið gift sjö sinnum, því að illur andi drap alla eiginmennina á brúðkaupsnóttinni. Tóbías gengur að eiga hana að áeggjan engilsins og rekur illa andann burt með því að brenna hjarta og lifur fisksins. Hann notar síðar gallið úr fiskinum til að gefa föður sínum sjónina aftur.

Ljóst er að þessi saga er ekki sönn. Auk þess að hafa á sér óraunveruleikablæ og höfða til hjátrúar eru rangfærslur í henni. Til dæmis segir sagan að Tóbít hafi orðið vitni bæði að uppreisn norðurættkvíslanna og brottflutningi Ísraelsmanna til Níníve, en 257 ár liðu milli þessara atburða í sögu Ísraels. Þó segir sagan að Tóbít hafi verið 112 ára er hann dó. — Tóbítsbók 1:4, 10; 14:1, Apokrýfar bækur Gamla testamentisins.

Slíkar ævintýrasögur geta ekki samrýmst ‚fyrirmynd heilnæmu orðanna‘ sem trúfastir þjónar Guðs boðuðu. (2. Tímóteusarbréf 1:13) Þær eru sprottnar af ímyndun, stangast á við sögulegar staðreyndir, þess konar sögur sem óguðlegar, gamlar konur röktu eða sögðu. Þetta voru sögur sem kristnir menn áttu að hafna.

Orð sannleikans prófuð

Það er fullt af svipuðum sögum nú á dögum. Páll skrifaði: „Þann tíma mun að bera, er menn þola ekki hina heilnæmu kenning, heldur . . . snúa eyrum sínum burt frá sannleikanum og hverfa að ævintýrum [„skröksögum,“ NW].“ (2. Tímóteusarbréf 4:3, 4) Sums staðar í heiminum eru sögur af hinu yfirnáttúrlega útbreiddar og vinsælar. Það er því viturlegt af kristnum mönnum að ‚prófa orð‘ trúarlegra sagna til að kanna hvort þær séu í samræmi við Biblíuna. — Jobsbók 12:11.

Ljóst er að margar eru það ekki. Í mörgum heimshlutum er til dæmis algengt að menn segi sögur sem styðja þá hugmynd að mannssálin sé ódauðleg. Þessar sögur lýsa því hvernig einhver deyr en birtist svo aftur annaðhvort í líkama nýfædds barns, sem andi, sem dýr eða sem manneskja á öðrum stað.

Orð Guðs sýnir hins vegar að mannssálin er ekki ódauðleg; sálir deyja. (Esekíel 18:4) Enn fremur segir Biblían að hinir dánu séu lífvana í gröfinni og geti hvorki hugsað, talað né gert nokkurn skapaðan hlut. (Prédikarinn 9:5, 10; Rómverjabréfið 6:23) Þeir sem láta tælast af skröksögum, sem ýta undir þá hugmynd að sálin sé ódauðleg, eru því, eins og Páll sagði, að „snúa eyrum sínum“ frá hinni ‚heilnæmu kenningu‘ Biblíunnar.

Sögur af yfirnáttúrlegum fyrirbærum

Aðrar sögur snúast um afrek norna og galdramanna. Sums staðar í Afríku, til dæmis, eru þessir erindrekar hins illa sagðir ráða yfir ógurlegum mætti, þannig að þeir geti breytt sér eða öðrum í skriðdýr, apa og fugla; geti flogið um loftið til að sinna erindum sínum; geti birst og horfið; gengið gegnum veggi og séð hluti sem eru grafnir í jörð.

Það hve mikið er um slíkar sögur og hve víða menn trúa þeim getur haft þau áhrif að sumir í kristna söfnuðinum trúi þeim líka. Þeir gætu hugsað sem svo að enda þótt venjulegt fólk geti ekki gert slíkt sé það á færi þeirra sem fái ofurmannlegan kraft frá andaverum, illu öndunum. Síðara Þessaloníkubréf 2:9, 10 gæti virst styðja þessa ályktun en þar segir: „Lögleysinginn kemur fyrir tilverknað Satans með miklum krafti, lygatáknum og undrum og með alls konar ranglætisvélum, sem blekkja þá, sem glatast, af því að þeir veittu ekki viðtöku og elskuðu ekki sannleikann, svo að þeir mættu verða hólpnir.“

Enda þótt þessi ritningarstaður sýni að Satan geti unnið máttarverk nefnir hann að Satan sé líka höfundur ‚lygatákna og undra‘ og ‚ranglætisvéla.‘ Biblían sýnir frá upphafi til enda að Satan er aðalblekkingameistarinn sem „afvegaleiðir alla heimsbyggðina.“ (Opinberunarbókin 12:9) Hann er snillingur í því að telja fólki trú um ósannindi.

Vegna þessa er jafnvel vitnisburður og játningar þeirra, sem hafa verið flæktir í spíritisma og galdra, oft harla óáreiðanlegar. Slíkt fólk trúir kannski einlæglega að það hafi séð, heyrt eða orðið fyrir einhverju þótt svo sé ekki í raun. Til dæmis eru þeir til sem halda sig hafa talað við anda framliðinna. En þeir eru á villigötum, dregnir á tálar, fórnarlömb blekkinga Satans. Biblían segir að hinir dánu séu ‚hnignir í dauðaþögn.‘ — Sálmur 115:17.

Í ljósi þess hve Satan á sér mikla blekkingasögu að baki er rétt að taka sögur af yfirnáttúrlegum fyrirbærum alltaf með mikilli varúð. Flestar eru uppspuni, hjátrúarhugarburður sem búið er að ýkja í meðförum frá manni til manns.

Það að útbreiða slík ævintýri þjónar hagsmunum Satans djöfulsins sem er faðir lyginnar. (Jóhannes 8:44) Þær örva áhuga á dulspekiiðkunum sem eru viðurstyggilegar í augum Jehóva. (5. Mósebók 18:10-12) Þær flækja fólk í vef ótta og hjátrúar. Það er engin furða að Páll skyldi ráðleggja kristnum mönnum að „gefa sig ekki að ævintýrum“ eða skröksögum. — 1. Tímóteusarbréf 1:3, 4.

Að hafna vitnisburði illra anda

En hvað nú ef sögurnar virðast sannar? Stundum eru sagðar sögur af því að andar eða andatrúarmenn viðurkenni að Jehóva sé æðstur og að vottar hann séu að segja sannleikann. Ættu kristnir menn að endurtaka slíkar sögur?

Nei, þeir ættu ekki að gera það. Biblían segir að þegar óhreinir andar hafi hrópað að Jesús væri sonur Guðs hafi hann ‚lagt ríkt á við þá, að þeir gjörðu hann eigi kunnan.‘ (Markús 3:12) Eins var það að þegar illur spásagnarandi kom stúlku til að benda á Pál og Barnabas sem ‚þjóna Guðs hins hæsta‘ og að þeir ‚boðuðu veg til hjálpræðis‘ rak Páll andann út af henni. (Postulasagan 16:16-18) Hvorki Jesús, Páll né nokkur annar biblíuritari leyfði illum öndum að bera vitni um tilgang Guðs eða útvalda þjóna hans.

Það er líka eftirtektarvert að Jesús Kristur lifði á hinu andlega tilverusviði áður en hann kom til jarðar. Hann þekkti Satan persónulega. Samt sem áður skemmti Jesús lærisveinum sínum ekki með frásögum af athöfnum Satans og lýsti ekki í smáatriðum hvað djöfullinn gæti og gæti ekki. Satan og illir andar hans voru ekki vinir Jesú. Þeir voru útskúfaðir uppreisnarseggir, hötuðu það sem er heilagt og voru óvinir Guðs.

Biblían segir okkur það sem við þurfum að vita. Hún útskýrir hverjir illu andarnir séu, hvernig þeir afvegaleiði fólk og hvernig við getum forðast þá. Hún sýnir að Jehóva og Jesús eru máttugri en illu andarnir. Og hún fræðir okkur um að illir andar geti ekki unnið okkur nokkurt varanlegt tjón ef við þjónum Jehóva með hollustu. — Jakobsbréfið 4:7.

Kristnir menn hafa því ærið tilefni til að hafna skröksögum sem gera lítið annað en að þjóna hag andstæðinga Guðs. Fylgjendur Jesú nú á tímum ‚bera sannleikanum vitni‘ líkt og hann gerði. (Jóhannes 18:37) Það er viturlegt af þeim að hlýða áminningu Biblíunnar: „Allt sem er satt, . . . hugfestið það.“ — Filippíbréfið 4:8.

[Mynd á blaðsíðu 32]

Sannkristnir menn verða algerlega að forðast dulræn fyrirbæri í öllum sínum myndum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila