Prédikaðu fagnaðarerindið með sterkri sannfæringu
1 Snemma á fyrstu öld fól Jesús Kristur fylgjendum sínum að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki og ‚gera menn allra þjóða að lærisveinum.‘ (Matt. 24:14; 28:19, 20) Vottar Jehóva hafa tekið fyrirmæli hans alvarlega með þeim árangri að hið kristna bræðrafélag hefur vaxið upp í 5.900.000 lærisveina í 234 löndum nú undir lok 20. aldar. Þetta er mikil lofgerð um himneskan föður okkar.
2 Óvinur okkar reynir lævíslega að trufla aðalstarf okkar sem er að prédika Guðsríki og gera menn að lærisveinum. Hann notar þetta heimskerfi til að þrýsta á okkur í von um að beina athygli okkar að öðru og sóa tíma okkar og kröftum í alls konar óþarft vafstur og viðfangsefni. Í stað þess að leyfa heiminum að segja okkur hvað sé mikilvægt í lífinu látum við orð Guðs færa okkur heim sanninn um hvað sé þýðingarmest — að gera vilja Jehóva. (Rómv. 12:2) Það felur í sér að hlýða þeirri hvatningu Biblíunnar að ‚prédika orðið í tíma og ótíma og fullna þjónustu okkar.‘ — 2. Tím. 4:2, 5.
3 Byggðu upp sterka sannfæringu: Kristnir menn þurfa að „standa stöðugir, fullkomnir og fullvissir í öllu því, sem er vilji Guðs.“ (Kól. 4:12) Orðið ‚fullvissa‘ gefur til kynna sterka sannfæringu eða skoðun, það að vera sannfærður. Við verðum að vera sannfærð um að spádómsorð Guðs sé öruggt og að langt sé liðið á tíma endalokanna. Við verðum að hafa jafnsterka trú og Páll postuli sem sagði að fagnaðarerindið væri „kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir.“ — Rómv. 1:16.
4 Djöfullinn notar vonda menn og svikara, sem eru villuráfandi sjálfir, til að hafa áhrif á og afvegaleiða aðra. (2. Tím. 3:13) Þar eð okkur hefur verið sagt þetta fyrir gerum við ráðstafanir til að styrkja þá sannfæringu okkar að við höfum sannleikann. Í stað þess að láta áhyggjur lífsins draga úr kostgæfni okkar látum við Guðsríki ganga fyrir. (Matt. 6:33, 34) Við viljum ekki heldur missa sjónar á hve áríðandi tímarnir eru og ímynda okkur að endalok heimskerfisins séu langt undan. Þau færast sífellt nær. (1. Pét. 4:7) Þótt okkur finnist ef til vill að boðun fagnaðarerindisins beri lítinn árangur í sumum löndum þar sem búið er að bera rækilega vitni verður að halda áfram að vara fólk við. — Esek. 33:7-9.
5 Nú er brýnt að spyrja sig eftirfarandi spurninga: ‚Tek ég alvarlega fyrirskipun Jesú um að gera menn að lærisveinum? Sýni ég sterka sannfæringu þegar ég prédika fagnaðarerindið? Er ég staðráðinn í að eiga sem mestan þátt í þessu björgunarstarfi?‘ Þar eð svo langt er liðið á tíma endalokanna verðum við að hafa gát á sjálfum okkur og á prédikun okkar og kennslu. Ef við gerum það getum við gert sjálf okkur hólpin og áheyrendur okkar. (1. Tím. 4:16) Hvernig getum við öll styrkt sannfæringu okkar í prédikunarstarfinu?
6 Líktu eftir Þessaloníkumönnum: Páll postuli sagði bræðrunum í Þessaloníku er hann rifjaði upp dugnað þeirra: „Fagnaðarerindi vort kom eigi til yðar í orðum einum, heldur einnig í krafti og í heilögum anda og með fullkominni sannfæringu. Þér vitið, hvernig vér komum fram hjá yður, yðar vegna. Og þér hafið gjörst eftirbreytendur vorir og Drottins, er þér tókuð á móti orðinu með fögnuði heilags anda, þrátt fyrir mikla þrengingu.“ (1. Þess. 1:5, 6) Já, Páll hrósaði safnaðarmönnum í Þessaloníku fyrir að prédika með kostgæfni og sterkri sannfæringu, þrátt fyrir mikla þrengingu. Hvað auðveldaði þeim að gera það? Kostgæfni og sannfæring Páls postula og samverkamanna hans átti þar stóran hlut að máli. Hvernig þá?
7 Líf Páls og ferðafélaga hans bar því vitni að andi Guðs var með þeim og að þeir trúðu heilshugar því sem þeir boðuðu. Áður en Páll og Sílas komu til Þessaloníku var þeim misþyrmt í Filippí. Þeir voru húðstrýktir, fangelsaðir og felldir í stokka án dóms og laga. En þessar raunir drógu ekki úr kostgæfni þeirra við boðun fagnaðarerindisins. Guð skarst í leikinn þannig að þeir losnuðu úr haldi, fangavörðurinn og heimilisfólk hans snerist til trúar og bræðurnir gátu haldið þjónustu sinni áfram. — Post. 16:19-34.
8 Páll kom til Þessaloníku í krafti heilags anda. Hann vann þar hörðum höndum fyrir eigin lífsnauðsynjum og lagði sig síðan allan fram við að kenna Þessaloníkumönnum sannleikann. Hann veigraði sér ekki við að boða fagnaðarerindið við sérhvert tækifæri. (1. Þess. 2:9) Slíkur var sannfæringarkrafturinn í prédikun hans að sumir heimamenn létu af skurðgoðadýrkun sinni og gerðust þjónar hins sanna Guðs, Jehóva. — 1. Þess. 1:8-10.
9 Ofsókn aftraði ekki nýtrúuðum frá því að prédika fagnaðarerindið. Nýfundin trú Þessaloníkumanna og fullkomin sannfæring um að eilíf blessun félli þeim í skaut knúði þá til að boða sannleikann sem þeir höfðu tekið við af slíkum ákafa. Söfnuðurinn var svo starfssinnaður að fregnir af trú hans og kostgæfni bárust um Makedóníu og jafnvel til Akkeu. Þegar Páll skrifaði fyrra bréfið til Þessaloníkumanna voru góðverk þeirra þegar vel kunn. (1. Þess. 1:7) Þeir voru öðrum frábært fordæmi.
10 Knúin af kærleika til Guðs og manna: Hvernig getum við líkt og Þessaloníkumenn varðveitt sterka sannfæringu þegar við prédikum fagnaðarerindið? Páll sagði um þá: „Vér [erum] sífellt minnugir starfs yðar í trúnni, erfiðis yðar í kærleikanum.“ (1. Þess. 1:3) Það er augljóst að þeir báru djúpan og innilegan kærleika til Jehóva Guðs og fólksins sem þeir prédikuðu fyrir. Sami kærleikur knúði Pál og förunauta hans til að gefa Þessaloníkumönnum „ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og [sitt] eigið líf.“ — 1. Þess. 2:8.
11 Á sama hátt fær djúpur kærleikur til Jehóva og náungans okkur til að vilja eiga fullan þátt í prédikunarstarfinu sem okkur hefur verið falið að framkvæma. Ef við höfum slíkan kærleika viðurkennum við þá ábyrgð okkar að útbreiða fagnaðarerindið. Með því að hugleiða þakklát allt sem Jehóva hefur gert til að leiða okkur til ‚hins sanna lífs,‘ finnum við okkur knúin til að segja öðrum frá þeim stórkostlega sannleika sem við trúum af öllu hjarta. — 1. Tím. 6:19.
12 Ef við erum önnum kafin í prédikunarstarfinu vex kærleikur okkar til Jehóva og til manna, og það hvetur okkur til að eiga enn meiri hlutdeild í starfinu hús úr húsi og öðrum sviðum þjónustunnar. Við grípum tækifæri til að vitna óformlega fyrir ættingjum, nágrönnum og kunningjum. Enda þótt flestir hafni fagnaðarerindinu, sem við kynnum, og sumir reyni að trufla boðun þess finnum við til gleði innra með okkur. Af hverju? Af því að við vitum að við höfum gert okkar besta til að bera vitni um Guðsríki og hjálpa fólki að öðlast hjálpræði. Og Jehóva blessar leit okkar að réttsinnuðu fólki. Jafnvel þótt við séum að kikna undan álagi lífsins og Satan reyni að ræna okkur gleðinni, getum við varðveitt sterka sannfæringu og kostgæfni við að vitna fyrir öðrum. Þegar við öll leggjum okkar af mörkum verða söfnuðirnir sterkir og kostgæfnir eins og söfnuðurinn í Þessaloníku.
13 Gefstu aldrei upp í prófraunum: Sannfæringar er einnig þörf þegar við lendum í ýmis konar raunum. (1. Pét. 1:6, 7) Jesús gerði lærisveinum sínum ljóst að þeir yrðu ‚hataðir af öllum þjóðum.‘ (Matt. 24:9) Þetta fengu Páll og Sílas að reyna í Filippí. Í sextánda kafla Postulasögunnar er greint frá því að þeim var varpað í innsta fangelsið og stokkur felldur á þá. Aðalfangelsið var yfirleitt salur eða gangur með fangaklefum umhverfis þar sem naut birtu og fersks lofts. Í innra fangelsinu var hins vegar engin birta og lítil loftræsting. Páll og Sílas urðu að þola myrkrið, hitasvækjuna og fnykinn í þessari ömurlegu vistarveru. Geturðu gert þér í hugarlund sársaukann sem þeir máttu þola klukkustundum saman með fæturna fasta í stokk og bakið blæðandi og flakandi eftir húðstrýkinguna?
14 Þrátt fyrir þessar raunir voru Páll og Sílas trúfastir. Þeir bjuggu yfir innilegri sannfæringu sem veitti þeim styrk til að þjóna Jehóva óháð því hvaða prófraun þeir urðu fyrir. Sannfæringu þeirra má glöggt sjá í 25. versi 16. kafla þar sem sagt er að þeir hafi ‚beðist fyrir og lofsungið Guði.‛ Þótt þeir væru í innra fangelsinu voru þeir svo vissir um að þeir hefðu velþóknun Guðs að þeir sungu nógu hátt til að hinir fangarnir heyrðu til þeirra! Við verðum að búa yfir sams konar sannfæringu þegar trúarprófraunir mæta okkur.
15 Djöfullinn reynir okkur á margvíslegan hátt. Sumir verða fyrir ofsóknum ættingja. Margir bræður eiga í útistöðum við dómstóla. Aðrir verða fyrir andstöðu fráhvarfsmanna. Þá er að nefna fjárhagslegar byrðar og áhyggjur af því að láta enda ná saman. Börn og unglingar þurfa að standast hópþrýsting í skóla. Hvernig getum við staðist þessar prófraunir? Hvað þarf til að búa yfir sannfæringu?
16 Við þurfum fyrst og fremst að eiga náið einkasamband við Jehóva. Þegar Páll og Sílas voru í innra fangelsinu notuðu þeir ekki tímann til að kvarta yfir hlutskipti sínu eða vorkenna sjálfum sér. Þeir sneru sér strax til Guðs í bæn og lofsungu honum. Af hverju? Af því að þeir áttu náið einkasamband við himneskan föður sinn. Þeir vissu að þeir þjáðust fyrir réttlætis sakir og að hjálpræði þeirra var í hendi Jehóva. — Sálm. 3:9.
17 Við verðum líka að leita til Jehóva þegar við verðum fyrir prófraunum. Páll hvetur okkur til að ‚gera í öllum hlutum óskir okkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð, og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu okkar og hugsanir.‘ (Fil. 4:6, 7) Það er uppörvandi að vita að Jehóva lætur okkur ekki ganga í gegnum prófraunir einsömul. (Jes. 41:10) Hann er alltaf með okkur ef við þjónum honum af ósvikinni sannfæringu. — Sálm. 46:8.
18 Að vera önnum kafin í þjónustu Jehóva hjálpar okkur líka að byggja upp sannfæringu. (1. Kor. 15:58) Páli og Sílasi var varpað í fangelsi af því þeir höfðu verið önnum kafnir við að prédika fagnaðarerindið. Hættu þeir að prédika þegar þeir lentu í prófraunum? Nei, þeir héldu jafnvel áfram að prédika í fangelsinu, og eftir að þeim var sleppt úr haldi ferðuðust þeir til Þessaloníku og gengu inn í samkundu Gyðinga til að ‚ræða við þá út af ritningunum.‘ (Post. 17:1-3) Þegar við höfum sterka trú á Jehóva og erum sannfærð um að við höfum sannleikann getur ekkert gert okkur „viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.“ — Rómv. 8:35-39.
19 Nútímadæmi um sterka sannfæringu: Það eru til fjölmörg framúrskarandi nútímadæmi um fólk sem hefur sýnt sterka sannfæringu eins og þeir Páll og Sílas. Systir ein, sem lifði af vist í Auschwitz-fangabúðunum, sagði þetta um óhagganlega trú og sannfæringu bræðra og systra þar: „Við yfirheyrslu gekk liðsforingi til mín með kreppta hnefa og sagði: ‚Hvað eigum við að gera við ykkur? Ykkur er sama þótt við handtökum ykkur. Ykkur er alveg saman þótt við sendum ykkur í fangelsi. Þið hafið engar áhyggjur af því að við sendum ykkur í fangabúðir. Þegar við dæmum ykkur til dauða standið þið bara þarna áhyggjulaus. Hvað eigum við eiginlega að gera við ykkur?‘“ Það er virkilega trústyrkjandi að heyra um trú bræðra okkar við svona erfiðar aðstæður. Þeir leituðu stöðugt til Jehóva eftir hjálp til að halda út.
20 Við munum örugglega eftir trúarsannfæringu bræðra okkar þar sem þjóðernishatur hefur blossað upp hin síðari ár. Þrátt fyrir hættulegar aðstæður hafa ábyrgir bræður lagt sig í líma við að næra trúsystkini sín andlega. Þau halda öll trúföst áfram með þá sterku sannfæringu að ‚engin vopn, sem smíðuð verða móti þeim, skulu verða sigurvænleg.‘ — Jes. 54:17.
21 Margir bræður og systur, sem eiga vantrúaðan maka, sýna sterka trú og þolgæði. Bróðir nokkur á Gvadelúp mætti mikilli andstöðu frá vantrúaðri eiginkonu sinni. Til að draga úr honum kjark og koma í veg fyrir að hann gæti sótt samkomur neitaði hún að elda fyrir hann, þvo, strauja eða gera við fötin hans. Hún talaði ekki við hann svo dögum skipti. Með því að þjóna Jehóva af einlægri sannfæringu og leita til hans í bæn tókst bróðurnum hins vegar að þola allt þetta. Hve lengi? Í um 20 ár, en þá fór smám saman að draga úr andstöðu eiginkonunnar. Um síðir tók hún við guðsríkisvoninni sem gladdi hann mjög.
22 Að síðustu megum við ekki gleyma sterkri sannfæringu ungra bræðra og systra sem sækja skóla dag hvern og þurfa að kljást við hópþrýsting og aðrar þrautir. Ung vottastúlka segir um þrýstinginn til að fylgja fjöldanum: „Í skólanum eru allir að hvetja mann til að vera svolítið uppreisnargjarn. Krakkarnir bera meiri virðingu fyrir manni ef maður gerir eitthvað sem er á mörkunum.“ Unga fólkið sætir miklum þrýstingi. Það þarf að vera staðráðið í huga sér og hjarta að standast freistingar.
23 Margt ungt fólk varðveitir ráðvendni þrátt fyrir prófraunir. Ung systir í Frakklandi er dæmi um það. Dag nokkurn að hádegisverði loknum reyndu nokkrir strákar að þvinga hana til að kyssa sig, en hún baðst fyrir og streittist kröftuglega á móti þannig að þeir létu hana eiga sig. Einn þeirra kom til hennar seinna og sagði að hann dáðist að hugrekki hennar. Hún gat borið vitni fyrir honum um Guðsríki og sagt honum frá háum siðferðiskröfum Jehóva til allra sem vilja eiga hlut í blessunum þess. Síðar á skólaárinu útskýrði hún trúarskoðanir sínar fyrir öllum bekknum.
24 Það eru dýrmæt sérréttindi að fá að vera í hópi þeirra sem Jehóva notar til að tala af fullkominni sannfæringu um vilja sinn. (Kól. 4:12) Við höfum jafnframt stórkostlegt tækifæri til að sanna ráðvendni okkar þegar við sætum árásum óvinarins, Satans djöfulsins, sem gengur um eins og ljón. (1. Pét. 5:8, 9) Gleymum aldrei að Jehóva nota ríkisboðskapinn til að gera okkur, sem prédikum hann, hólpin og einnig áheyrendur okkar sem heyra hann. Megi ákvarðanir okkar og dagleg breytni sanna að við setjum Guðsríki í fyrsta sæti. Höldum áfram að prédika fagnaðarerindið með sterkri sannfæringu!