Kostgæfir vottar Jehóva í sókn!
VOTTAR Jehóva á fyrstu öld voru djarfhuga og kostgæfir menn. Þeir framfylgdu af ákafa boði Jesú: „Farið . . . og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“ — Matteus 28:19, 20.
En hvernig vitum við að fylgjendur Krists á fyrstu öld tóku þetta boð alvarlega? Postulasaga Biblíunnar sannar okkur að þeir voru kostgæfir og framsæknir vottar um Jehóva!
GAGNLEG BIBLÍUBÓK
Orðfæri og stíll Postulasögunnar og þriðja guðspjallsins í Biblíunni gefa til kynna að ritarinn sé sá hinn sami — Lúkas, „læknirinn elskaði.“ (Kólossubréfið 4:14) Eitt af sérkennum bókarinnar eru þær samræður og bænir sem hún segir frá. Um 20 af hundraði Postulasögunnar eru ræður líkt og þær sem Páll og Pétur fluttu til stuðnings sannri trú.
Postulasagan var skrifuð í Róm nálægt árinu 61. Það er vafalaust þess vegna sem hún getur þess ekki að Páll hafi komið fyrir keisarann og greinir ekki frá ofsóknum Nerós á hendur kristnum mönnum um árið 64. — 2. Tímóteusarbréf 4:11.
Líkt og guðspjall Lúkasar var Postulasagan stíluð til Þeófílusar. Hún var rituð til að styrkja trúna og greina frá útbreiðslu kristninnar. (Lúkas 1:1-4; Postulasagan 1:1, 2) Bókin sannar að hönd Jehóva var með drottinhollum þjónum hans. Hún vekur okkur til vitundar um mátt anda hans og styrkir traust okkar til hinna innblásnu spádóma. Postulasagan hjálpar okkur einnig að þola ofsóknir, fær okkur til að vera fórnfúsir vottar Jehóva og byggir upp trú okkar á vonina um Guðsríki.
SÖGULEG NÁKVÆMNI
Lúkas var ferðafélagi Páls og greindi frá ferðum þeirra. Hann ræddi einnig við sjónarvotta. Þetta tvennt, að viðbættum ítarlegum rannsóknum hans, gerir rit hans að meistaraverkum sögulegrar nákvæmni.
Fræðimaðurinn William Ramsey gat því sagt: „Lúkas er fyrsta flokks sagnfræðingur: Bæði er hann trúverðugur er hann greinir frá staðreyndum og ber ósvikið skynbragð á sagnfræði . . . Þessi rithöfundur á heima meðal allra mestu sagnfræðinga veraldar.“
PÉTUR — TRÚFASTUR VOTTUR
Það starf Guðs að boða fagnaðarerindið verður ekki unnið öðruvísi en fyrir kraft heilags anda Jehóva. Þegar fylgjendur Jesú fá heilagan anda eiga þeir því að verða vottar hans í Jerúsalem, Júdeu, Samaríu og „til endimarka jarðarinnar.“ Á hvítasunnunni árið 33 eru þeir fylltir heilögum anda. Klukkan er aðeins níu að morgni og þeir eru svo sannarlega ekki drukknir eins og sumir halda. Pétur ber rækilega vitni og 3000 manns láta skírast. Trúarlegir andstæðingar reyna að þagga niður í boðberum Guðsríkis, en Guð svarar bænum þjóna sinna með því að gera þeim fært að tala orð hans af djörfung. Þeim er ógnað á ný og þeir svara: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ Starfið heldur áfram og þeir prédika hús úr húsi. — 1:1-5:42.
Traust á anda Jehóva gerir vottum hans fært að halda út undir ofsóknum. Eftir að hinn trúfasti vottur Stefán er grýttur til bana tvístrast fylgjendur Jesú, en það stuðlar einungis að útbreiðslu orðsins. Filippus trúboði prédikar í Samaríu. Öllum til undrunar snýst hinn grimmi ofsækjandi Sál frá Tarsus til trúar. Sem Páll postuli má hann þola grimmilegar ofsóknir í Damaskus en kemst undan er Gyðingar vilja ráða honum bana. Páll hefur samfélag við postulana í Jerúsalem um sinn en leggur síðan land undir fót í þjónustu sinni. — 6:1-9:31.
Hönd Jehóva er með vottum hans eins og Postulasagan greinir frá í framhaldinu. Pétur reisir Dorkas (Tabítu) upp frá dauðum. Hann er kallaður til Sesareu þar sem hann boðar Kornelíusi, heimilisfólki hans og vinum fagnaðarerindið. Þau skírast, fyrstu menn af þjóðunum sem gerast lærisveinar Jesú. Þannig lýkur hinum ‚sjötíu sjöundum‘ árið 36 að okkar tímatali. (Daníel 9:24) Skömmu eftir það lætur Heródes Agrippa I taka Jakob postula af lífi og handtaka Pétur. En engill leysir postulann úr fangelsi og ‚orð Jehóva heldur áfram að eflast og breiðast út.‘ — 9:32-12:25.
HINAR ÞRJÁR TRÚBOÐSFERÐIR PÁLS
Þeir sem leggja sig fram í þjónustu Guðs, eins og Páll, hljóta ríkulega blessun. Hann hefur fyrstu trúboðsferð sína í Antíokkíu í Sýrlandi. Á eynni Kýpur taka Sergíus Páll landstjóri og margir aðrir trú. Í Perga í Pamfýlíu snýr Jóhannes Markús við til Jerúsalem en Páll og Barnabas halda áfram til Antíokkíu í Pisidíu. Í Lýstru æsa Gyðingar til ofsókna. Páll er grýttur og menn halda hann látinn, en hann nær sér aftur og heldur þjónustu sinni áfram. Loks snúa hann og Barnabas aftur til Antíokkíu í Sýrlandi og fyrstu trúboðsferðinni er lokið. — 13:1-14:28.
Hið stjórnandi ráð nútímans sker úr um álitamál með leiðsögn heilags anda, líkt og forveri þess á fyrstu öld. Umskurn var ekki ,nauðsynleg‘ en aftur á móti var ‚nauðsynlegt‘ að ‚halda sér frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði.‘ (Postulasagan 15:28, 29) Tímóteus slæst í lið með Páli og Barnabasi er þeir leggja upp í aðra trúboðsferð sína. Þeir svara skjótlega ákalli um að koma yfir til Makedóníu. Í Filippí leiðir prédikunin til uppþots og fangavistar. Jarðskjálfti leysir þá Pál og Barnabas úr fjötrum og þeir prédika fyrir fangaverðinum og heimilisfólki hans og þau taka trú og láta skírast. — 15:1-16:40.
Þjónar Jehóva ættu að nema orð hans kostgæfilega líkt og Páll og Berojumenn. Á Areopagusarhæð í Aþenu ber Páll vitni um Jehóva sem skaparann og sumir taka trú. Svo mikill áhugi finnst í Korintu að hann dvelur þar í 18 mánuði. Þar skrifar hann bæði bréfin til Þessaloníkumanna. Nú skilja leiðir með honum og þeim Sílasi og Tímóteusi og Páll siglir til Efesus, og þaðan til Sesareu og heldur síðan áfram til Jerúsalem. Annarri trúboðsferð hans lýkur síðan í Antíokkíu í Sýrlandi. — 17:1-18:22.
Eins og Páll benti á er prédikun hús úr húsi mikilvægur þáttur kristinnar þjónustu. Í þriðju trúboðsferð sinni (52-56) fer postulinn að miklu leyti sömu leið og í annarri ferðinni. Mikil andstaða kemur upp gegn þjónustu Páls í Efesus en þar skrifar hann fyrra Korintubréf. Síðara bréfið til Korintumanna skrifar hann í Makedóníu og Rómverjabréfið í Korintu. Í Míletus hittir Páll fyrir öldungana í Efesus og ræðir um hvernig hann hafi kennt þeim opinberlega og hús úr húsi. Þriðju trúboðsferð hans lýkur er hann kemur aftur til Jerúsalem. — 18:23-21:14.
OFSÓKNIR BERA EKKI ÁRANGUR
Ofsóknir fá ekki lokað munni trúfastra votta Jehóva. Þegar æstur múgur ræðst gegn Páli í musterinu í Jerúsalem ber hann djarflega vitni fyrir uppþotsmönnunum. Morðsamsæri gegn honum rennur út í sandinn þegar hann er sendur til Felix landstjóra í Sesareu í fylgd hervarðar. Páll er hafður í fjötrum í tvö ár meðan Felix bíður eftir mútufé sem aldrei kemur. Arftaki hans, Festus, hlýðir á áfrýjun Páls til keisarans. Áður en postulinn heldur til Rómar ver hann mál sitt skörulega fyrir Agrippa konungi. — 21:15-26:32.
Þjónar Jehóva halda ótrauðir áfram að prédika þrátt fyrir ofsóknir. Það gerir Páll sannarlega. Þar eð hann hafði skotið máli sínu til keisarans er hann sendur til Rómar um árið 58. Lúkas er í för með honum. Í Mýru í Lýkíu er þeim komið á annað skip. Þeir bíða skipbrot við Möltu og eru síðan fluttir með öðru skipi til Ítalíu. Jafnvel þótt Páll sé í gæslu hervarðar í Róm kallar hann til sín fólk og boðar því fagnaðarerindið. Í varðhaldinu skrifar hann Efesusmönnum, Filippímönnum, Kólossumönnum, Fílemon og Hebreum. — 27:1-28:31.
ALLTAF Í SÓKN
Postulasagan sýnir glögglega að trúfastir vottar Jehóva á fyrstu öld héldu áfram því starfi sem sonur Guðs hóf. Með stuðningi heilags anda Guðs báru þeir kostgæfilega vitni.
Hönd Guðs var með þessum fylgjendum Jesú vegna þess að þeir reiddu sig á Guð og leituðu til hans í bæn. Þúsundir snerust til trúar og ‚fagnaðarerindið var prédikað allri sköpun undir himninum.‘ (Kólossubréfið 1:23) Sannkristnir menn hafa, bæði þá og nú, reynst vera kostgæfir vottar Jehóva í stöðugri sókn!
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 31]
KORNELÍUS HUNDRAÐSHÖFÐINGI: Kornelíus var foringi í her eða hundraðshöfðingi. (10:1) Árstekjur hundraðshöfðingja voru um fimmfaldar árstekjur fótgönguliða eða um 1200 denarar en gátu þó verið miklu hærri. Við starfslok hlaut hundraðshöfðinginn styrk í fé eða löndum. Einkennisbúningur hans var litskrúðugur, allt frá silfurlitum hjálmi niður í flík er líktist pilsi. Hann bar vandaða ullarskikkju og brynhosur. Hundraðshöfðinginn átti að hafa umsjón með hundrað mönnum þótt oft hafi þeir verið aðeins um 80. Nýliðar í „ítölsku hersveitinni“ munu hafa komið úr hópi rómverskra borgara og frelsingja á Ítalíu.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 31]
BÆNIN Á ÞAKINU: Pétur var ekki að reyna að vekja á sér athygli er hann bað einn saman á þakinu. (10:9) Brjóstrið meðfram flötu þakinu huldi hann líklega sjónum annarra. (5. Mósebók 22:8) Þakið var einnig staður þar sem fólk slakaði á að kvöldi til í skjóli fyrir skarkala götunnar.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 31]
ÁLITNIR GUÐIR Í MANNSMYND: Er Páll læknaði lamaðan mann héldu Lýstrubúar að guðirnir hefðu birst í mannsmynd. (14:8-18) Seifur, aðalguð Grikkja, átti musteri þar í borg og sonur hans, Hermes, sendiboði guðanna, var álitinn mælskur mjög. Menn héldu að Páll væri Hermes þar eð hann hafði orð fyrir þeim og töldu því Barnabas vera Seif. Sú var venja að krýna skurðgoð sveigum úr blómum eða laufi kýprusviðar eða furu, en Páll og Barnabas vildu ekki láta fara með sig eins og skurðgoð.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 31]
FANGAVÖRÐURINN TEKUR TRÚ: Er jarðskjálfti opnaði fangelsisdyrnar og leysti fjötra fanganna ætlaði fangavörðurinn í Filippí að fyrirfara sér. (16:25-27) Hvers vegna? Vegna þess að samkvæmt rómverskum lögum átti fangavörður að taka út refsingu strokufanga. Fangavörðurinn kaus greinilega að fyrirfara sér í stað þess að láta pína sig til dauða, en sumra fanganna beið sennilega slík refsing. Svo fór þó að hann tók við fagnaðarerindinu „og var hann þegar skírður.“ — 16:28-34.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 32]
ÁFRÝJUN TIL KEISARANS: Páll var fæddur rómverskur borgari og hafði rétt til að skjóta máli sínu til keisarans og koma fyrir rétt í Róm. (25:10-12) Ekki mátti fjötra, húðstrýkja eða refsa rómverskum borgara án dóms. — 16:35-40; 22:22-29; 26:32.
[Rétthafi]
Musei Capitolini, Róm
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 32]
VERNDARI MUSTERIS ARTEMISAR: Silfursmiðurinn Demetríus komst í uppnám við prédikun Páls og æsti til uppþots en borgarritarinn dreifði mannfjöldanum. (19:23-41) Silfursmiðirnir bjuggu til lítil silfurlíkneski af helgasta hluta musterisins þar sem stóð líkneski frjósemisgyðjunnar Artemisar er hafði mörg brjóst. Borgir kepptu hver við aðra um þann heiður að vera neokoros eða „geyma musterið.“
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 32]
SJÁVARHÁSKI: Er skip Páls hraktist fyrir illviðri ‚gátu þeir með naumindum bjargað skipsbátnum.‘ (27:15, 16) Skipsbáturinn var smákæna sem yfirleitt var höfð í togi. Oft var skipskrokkurinn reyrður köðlum til að styrkja hann og draga úr álaginu frá mastrinu í stormi. (27:17) Sjómennirnir köstuðu fjórum akkerum og leystu böndin er héldu stýrinu. (27:29, 40) Skipið frá Alexandríu var með stafnslíkan „Tvíburanna,“ sona Seifs, þeirra Kastors og Pollux er álitnir voru verndarar sjómanna. — 28:11.