Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • bt kafli 21 bls. 165-172
  • „Ég er hreinn af blóði allra“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • „Ég er hreinn af blóði allra“
  • Vitnum ítarlega um ríki Guðs
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „Hann … lagði af stað til Makedóníu“ (Post. 20:1, 2)
  • „Gyðingar höfðu bruggað honum launráð“ (Post. 20:3, 4)
  • „Það var þeim mikil huggun“ (Post. 20:5–12)
  • „Opinberlega og hús úr húsi“ (Post. 20:13–24)
  • „Hafið gætur á sjálfum ykkur og allri hjörðinni“ (Post. 20:25–38)
  • Boðið ríki Jehóva með djörfung!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • ‚Haltu áfram að tala og þagnaðu ekki‘
    Vitnum ítarlega um ríki Guðs
  • „Hann … vitnaði ítarlega“
    Vitnum ítarlega um ríki Guðs
  • Orð Jehóva eflist!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
Sjá meira
Vitnum ítarlega um ríki Guðs
bt kafli 21 bls. 165-172

21. KAFLI

„Ég er hreinn af blóði allra“

Páll er kappsamur í boðuninni og leiðbeinir öldungum

Byggt á Postulasögunni 20:1–38

1–3. (a) Lýstu aðstæðum nóttina sem Evtýkus dó. (b) Hvað gerir Páll og hvað segir það um hann?

PÁLL er staddur í troðfullu herbergi á efstu hæð í húsi í Tróas. Hann talar lengi til trúsystkina sinna því að þetta er síðasta kvöldið sem hann verður með þeim. Það er komið miðnætti. Í herberginu logar á mörgum lömpum og fyrir vikið er heitt þar og ef til vill nokkur reykjarsvæla. Í einum glugganum situr ungur maður sem heitir Evtýkus. Meðan Páll er að tala sofnar Evtýkus og fellur út um gluggann af þriðju hæð.

2 Læknirinn Lúkas er líklega með þeim fyrstu sem hleypur út til að skoða unga manninn. En hann getur ekkert gert. Evtýkus er dáinn. (Post. 20:9) En nú gerist kraftaverk. Páll beygir sig yfir hann og segir við fólkið: „Verið róleg, hann er lifandi.“ Páll hefur reist Evtýkus upp frá dauðum! – Post. 20:10.

3 Þetta atvik lýsir vel hve máttugur heilagur andi Guðs er. Það var ekki Páli að kenna að Evtýkus dó. Hann vildi samt ekki að dauði unga mannsins varpaði skugga á þessa mikilvægu samkomu eða kæmi niður á trú einhvers viðstaddra. Með því að vekja Evtýkus upp frá dauðum hughreysti Páll söfnuðinn og hvatti til að halda boðuninni áfram. Ljóst er að lífið var mjög dýrmætt í augum Páls. Þetta minnir okkur á orð hans: „Ég er hreinn af blóði allra.“ (Post. 20:26) Skoðum nú hvað við getum lært af viðhorfi Páls til lífsins.

„Hann … lagði af stað til Makedóníu“ (Post. 20:1, 2)

4. Hvaða óþægilegu lífsreynslu hafði Páll orðið fyrir?

4 Eins og fram kom í kaflanum á undan hafði Páll orðið fyrir óþægilegri lífsreynslu. Boðun hans í Efesus hafði valdið miklu uppnámi. Silfursmiðirnir sem áttu afkomu sína undir tilbeiðslunni á Artemis höfðu æst til uppþots. „Þegar látunum linnti,“ segir í Postulasögunni 20:1, „sendi Páll eftir lærisveinunum. Hann uppörvaði þá og kvaddi þá síðan og lagði af stað til Makedóníu.“

5, 6. (a) Hve lengi kann Páll að hafa verið í Makedóníu og hvað gerði hann fyrir trúsystkini sín þar? (b) Hvernig leit Páll á trúsystkini sín?

5 Á leiðinni til Makedóníu kom Páll við í hafnarborginni Tróas og dvaldi þar um tíma. Hann vonaði að Títus, sem hafði verið sendur til Korintu, kæmi til Tróas. (2. Kor. 2:12, 13) En þegar ljóst var að Títus kæmi ekki hélt Páll áfram til Makedóníu. Hann var kannski um kyrrt þar í ár eða svo og ‚veitti lærisveinunum þar mikla uppörvun‘.a (Post. 20:2) Títus hitti Pál að lokum í Makedóníu og færði honum góðar fréttir af því hvernig Korintumenn hefðu brugðist við fyrra bréfinu sem Páll skrifaði þeim. (2. Kor. 7:5–7) Það varð Páli hvatning til að skrifa þeim annað bréf sem við köllum núna 2. Korintubréf.

6 Það er eftirtektarvert að Lúkas talar um að Páll hafi ‚uppörvað‘ trúsystkini sín í Efesus og Makedóníu og veitt þeim „mikla uppörvun“. Þessi orð lýsa því vel hvernig Páll leit á þau. Ólíkt faríseunum, sem fyrirlitu almenning, leit hann á sauðina sem samstarfsmenn sína. (Jóh. 7:47–49; 1. Kor. 3:9) Hann leit jafnvel þannig á trúsystkini sín þegar hann þurfti að gefa þeim alvarlegar leiðbeiningar. – 2. Kor. 2:4.

7. Hvernig geta umsjónarmenn í söfnuðinum líkt eftir Páli?

7 Safnaðaröldungar og farandhirðar reyna að líkja eftir Páli. Jafnvel þegar þeir veita öðrum áminningu er markmið þeirra að styrkja þá sem eru hjálparþurfi. Umsjónarmenn reyna að sýna samkennd og uppörva í stað þess að fordæma. Reyndur farandhirðir sagði um þetta mál: „Bræður og systur vilja yfirleitt gera það sem er rétt en eru oft að berjast við vonbrigði, ótta og vanmáttarkennd.“ Umsjónarmenn geta styrkt trúsystkini sem eru í þeim sporum. – Hebr. 12:12, 13.

BRÉF SEM PÁLL SKRIFAÐI Í MAKEDÓNÍU

Í síðara bréfinu til Korintumanna segist Páll hafa haft áhyggjur af þeim þegar hann kom til Makedóníu. En honum létti þegar Títus færði honum góðar fréttir frá Korintu. Það var þá, um árið 55, sem hann skrifaði 2. Korintubréf og þar gefur hann í skyn að hann sé enn í Makedóníu. (2. Kor. 7:5–7; 9:2–4) Eitt sem var Páli hugleikið á þeim tíma var að ljúka söfnuninni handa hinum heilögu í Júdeu. (2. Kor. 8:18–21) Hann hafði líka áhyggjur af ‚falspostulum og svikulum verkamönnum‘ í söfnuðinum í Korintu. – 2. Kor. 11:5, 13, 14.

Hugsanlegt er að Páll hafi verið í Makedóníu þegar hann skrifaði bréfið til Títusar. Páll kom til eyjarinnar Krítar einhvern tíma á árabilinu 61 til 64, eftir fyrri fangavistina í Róm. Hann skildi Títus eftir þar til að taka á ýmsum málum og útnefna öldunga. (Tít. 1:5) Hann biður Títus að hitta sig í Nikópólis. Nokkrar borgir við Miðjarðarhaf hétu þessu nafni á þeim tíma en líklegast er að Páll hafi verið að tala um borgina Nikópólis í norðvestanverðu Grikklandi. Hann var sennilega að starfa á því svæði þegar hann skrifaði Títusi. – Tít. 3:12.

Fyrra bréfið til Tímóteusar er líka skrifað á tímabilinu milli fyrri og síðari fangavistar Páls í Róm, á árunum 61 til 64. Í inngangsorðum bréfsins gefur Páll til kynna að hann hafi beðið Tímóteus að vera um kyrrt í Efesus en að sjálfur hafi hann farið til Makedóníu. (1. Tím. 1:3) Þar virðist hann hafa skrifað Tímóteusi til að gefa honum föðurleg ráð, hvetja hann og leiðbeina honum varðandi ákveðið verklag sem fylgja bæri í söfnuðunum.

„Gyðingar höfðu bruggað honum launráð“ (Post. 20:3, 4)

8, 9. (a) Hvað breytti áformum Páls um að sigla til Sýrlands? (b) Hvað kann að hafa valdið því að Gyðingar höfðu horn í síðu Páls?

8 Páll fór nú frá Makedóníu til Korintu.b Eftir þriggja mánaða dvöl þar ætlaði hann að halda áfram til Kenkreu og fara þaðan sjóleiðis til Sýrlands. Þaðan gæti hann farið til Jerúsalem og afhent framlögin til nauðstaddra trúsystkina þar.c (Post. 24:17; Rómv. 15:25, 26) En óvæntar aðstæður urðu til þess að áætlanir Páls breyttust. Í Postulasögunni 20:3 stendur: „Gyðingar höfðu bruggað honum launráð.“

9 Það kemur ekki á óvart að Gyðingar skyldu hafa horn í síðu Páls því að þeir litu á hann sem fráhvarfsmann. Hann hafði starfað í Korintu áður og þá hafði Krispus tekið kristna trú en hann hafði verið samkundustjóri þar. (Post. 18:7, 8; 1. Kor. 1:14) Einu sinni höfðu Gyðingar í Korintu ákært Pál frammi fyrir Gallíón, landstjóra í Akkeu. En Gallíón taldi ákærurnar tilhæfulausar og vísaði málinu frá. Sú ákvörðun fór ekki vel í óvini Páls. (Post. 18:12–17) Gyðingar í Korintu vissu kannski eða giskuðu á að Páll myndi fljótlega sigla frá grannborginni Kenkreu og lögðu því á ráðin um að sitja fyrir honum þar. Hvað tók Páll til bragðs?

10. Var það hugleysi af Páli að fara ekki til Kenkreu? Skýrðu svarið.

10 Páll forðaðist Kenkreu því að hann vildi ekki setja sig í lífshættu og vildi líka tryggja að framlög trúsystkina hans kæmust á leiðarenda. Hann fór því aftur um Makedóníu sömu leið og hann hafði komið. Það var auðvitað ekki hættulaust að fara landleiðina. Ræningjar sátu oft um vegi og gistihúsin voru ekki örugg heldur. Páll taldi þó að það væri hættuminna að fara landleiðina en um Kenkreu. Sem betur fer ferðaðist hann ekki einn. Á þessum hluta trúboðsferðarinnar voru Aristarkus, Gajus, Sekúndus, Sópater, Tímóteus, Trófímus og Týkíkus með honum í för. – Post. 20:3, 4.

11. Hvaða eðlilegu varúðarráðstafanir gera þjónar Guðs nú á dögum og hvað getum við lært af Jesú?

11 Þjónar Guðs nú á dögum huga að öryggi sínu í boðuninni, rétt eins og Páll gerði. Sums staðar fara þeir um í hópum – eða að minnsta kosti tveir saman – í stað þess að vera einir á ferð. En hvað getum við gert þegar við erum ofsótt? Við vitum auðvitað að ofsóknir eru óhjákvæmilegar. (Jóh. 15:20; 2. Tím. 3:12) En við setjum okkur ekki meðvitað í hættu. Drögum lærdóm af Jesú. Einu sinni þegar andstæðingar í Jerúsalem tóku upp steina til að grýta hann ‚faldi hann sig og yfirgaf musterið‘. (Jóh. 8:59) Öðru sinni lögðu Gyðingar á ráðin um að drepa Jesú og hann fór þá til „staðar í grennd við óbyggðina“ og forðaðist að vera „á ferli á almannafæri meðal Gyðinga“. (Jóh. 11:54) Jesús gerði eðlilegar varúðarráðstafanir þegar það stangaðist ekki á við vilja Guðs með hann. Þjónar Guðs nú á dögum gera það sömuleiðis. – Matt. 10:16.

PÁLL AFHENDIR FRAMLÖGIN TIL NAUÐSTADDRA

Eftir hvítasunnu árið 33 máttu kristnir menn í Jerúsalem þola margs konar erfiðleika. Það urðu alvarlegar hungursneyðir, þeir voru ofsóttir og eigum þeirra var rænt. Fyrir vikið voru sumir bláfátækir. (Post. 11:27–12:1; Hebr. 10:32–34) Þegar öldungarnir í Jerúsalem báðu Pál um að einbeita sér að boðuninni meðal fólks af þjóðunum um árið 49 hvöttu þeir hann líka til að „minnast hinna fátæku“. Páll gerði einmitt það og skipulagði söfnun til aðstoðar nauðstöddum í söfnuðunum. – Gal. 2:10.

Páll skrifaði Korintumönnum árið 55: „Þið [skuluð] fylgja þeim fyrirmælum sem ég gaf söfnuðunum í Galatíu. Fyrsta dag hverrar viku ættu allir að leggja eitthvað fyrir eftir því sem þeir hafa efni á svo að ekki verði fyrst farið að safna fé þegar ég kem. En þegar ég kem ætla ég að senda þá menn sem þið samþykkið í bréfum ykkar til að fara með rausnarlega gjöf ykkar til Jerúsalem.“ (1. Kor. 16:1–3) Þegar Páll skrifaði Korintumönnum síðara innblásna bréfið skömmu síðar hvatti hann þá til að hafa gjöfina tilbúna og nefndi að Makedóníumenn legðu líka sitt af mörkum. – 2. Kor. 8:1–9:15.

Því var það að fulltrúar ýmissa safnaða hittu Pál árið 56 til að afhenda framlögin sem safnast höfðu. Átta menn ferðuðust með Páli og það var ákveðið öryggi í því auk þess sem það kom í veg fyrir að hægt væri að saka Pál um að misfara með framlögin. (2. Kor. 8:20) Aðalástæðan fyrir því að Páll fór til Jerúsalem var að koma framlögunum til skila. (Rómv. 15:25, 26) Hann sagði síðar við Felix landstjóra: „Eftir margra ára fjarveru kom ég aftur til að færa löndum mínum fátækrahjálp og bera fram fórnir.“ – Post. 24:17.

„Það var þeim mikil huggun“ (Post. 20:5–12)

12, 13. (a) Hvaða áhrif hafði upprisa Evtýkusar á söfnuðinn? (b) Hvaða von hughreystir þá sem hafa misst ástvini?

12 Páll og félagar hans fóru saman um Makedóníu en síðan skildi leiðir með þeim. Hópurinn virðist svo hafa hist aftur í Tróas.d Frásagan segir: ‚Við komum til þeirra í Tróas á fimmta degi.‘e (Post. 20:6) Það var þar sem Evtýkus var reistur upp eins og við lásum um í byrjun kaflans. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig bræðrum og systrum hefur liðið þegar Evtýkus var reistur upp frá dauðum. Í frásögunni segir: „Það var þeim mikil huggun.“ – Post. 20:12.

13 Kraftaverk af þessu tagi gerast auðvitað ekki nú á dögum. En von Biblíunnar um upprisu er samt sem áður „mikil huggun“ fyrir þá sem hafa misst ástvini. (Jóh. 5:28, 29) Evtýkus var ófullkominn og dó því aftur að lokum. (Rómv. 6:23) Þeir sem eru reistir upp í nýjum heimi Guðs eiga aftur á móti von um að lifa að eilífu. Og þeir sem eru reistir upp til að ríkja með Jesú á himnum hljóta ódauðleika. (1. Kor. 15:51–53) Hvort sem við erum andasmurð eða tilheyrum hópi ‚annarra sauða‘ getur upprisuvonin veitt okkur ‚mikla huggun‘. – Jóh. 10:16.

„Opinberlega og hús úr húsi“ (Post. 20:13–24)

14. Hvað sagði Páll við öldungana í Efesus þegar hann hitti þá í Míletus?

14 Páll og ferðafélagar hans fóru frá Tróas til Assus og síðan til Mitýlene, Kíos, Samos og Míletus. Páll vildi komast til Jerúsalem fyrir hvítasunnu. Það skýrir hvers vegna hann valdi í þetta sinn að fara með skipi sem sigldi fram hjá Efesus. Hann vildi hins vegar tala við öldungana í Efesus og bað þá þess vegna að hitta sig í Míletus. (Post. 20:13–17) Þegar þeir komu þangað sagði Páll við þá: „Þið vitið vel hvernig ég lifði meðal ykkar allt frá þeim degi sem ég kom fyrst til skattlandsins Asíu. Ég vann baki brotnu fyrir Drottin í allri auðmýkt, með tárum og í raunum sem Gyðingar ollu mér með launráðum sínum. Þið vitið líka að ég hikaði ekki við að segja ykkur allt sem var ykkur til gagns né kenna ykkur opinberlega og hús úr húsi. Ég skýrði ítarlega bæði fyrir Gyðingum og Grikkjum að þeir ættu að iðrast frammi fyrir Guði og trúa á Drottin okkar Jesú.“ – Post. 20:18–21.

15. Hvaða kosti hefur boðunin hús úr húsi?

15 Nú á dögum er hægt að koma fagnaðarboðskapnum til fólks eftir ýmsum leiðum. Rétt eins og Páll reynum við að fara þangað sem fólkið er, hvort heldur það er á strætisvagnabiðstöðvum, fjölförnum götum eða á torgum. En boðun hús úr húsi er þó enn helsta aðferðin sem vottar Jehóva nota. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að sú aðferð gefur öllum gott tækifæri til að heyra boðskapinn á reglulegum grundvelli en það endurspeglar óhlutdrægni Guðs. Í öðru lagi gerir það einlægu fólki kleift að fá persónulega aðstoð til að kynnast Guði. Boðun hús úr húsi styrkir líka trú og þolgæði þeirra sem taka þátt í henni. Það er eins og vörumerki sannkristinna manna að boða trúna af krafti „opinberlega og hús úr húsi“.

16, 17. Hvernig sýndi Páll hugrekki og hvernig getum við líkt eftir honum?

16 Páll útskýrði fyrir öldungunum í Efesus að hann vissi ekki hvaða hættur biðu hans þegar hann kæmi aftur til Jerúsalem. „En líf mitt skiptir mig engu máli,“ sagði hann, „ef ég fæ aðeins að ljúka hlaupinu og þjónustunni sem ég fékk frá Drottni Jesú, að boða rækilega fagnaðarboðskapinn um einstaka góðvild Guðs.“ (Post. 20:24) Páll var ákveðinn í að láta ekkert – hvort heldur heilsubrest eða grimmilega andstöðu – koma í veg fyrir að hann lyki því verki sem Guð hafði falið honum.

17 Kristnir menn nú á dögum verða líka fyrir margs konar mótlæti. Sums staðar er starf okkar bannað og við erum ofsótt. Sumir eiga í baráttu við líkamleg eða andleg veikindi. Börn og unglingar verða fyrir hópþrýstingi í skólanum. En vottar Jehóva eru staðfastir eins og Páll, hverjar sem aðstæður þeirra eru. Þeir eru ákveðnir í að ‚boða fagnaðarboðskapinn rækilega‘.

„Hafið gætur á sjálfum ykkur og allri hjörðinni“ (Post. 20:25–38)

18. Hvernig gat Páll forðast blóðsekt og hvernig gátu öldungarnir í Efesus gert slíkt hið sama?

18 Í framhaldinu gaf Páll öldungunum í Efesus markviss ráð og notaði sjálfan sig sem dæmi. Fyrst sagði hann þeim að þetta væri líklega í síðasta sinn sem þeir myndu sjá hann. Síðan sagði hann: „Ég er hreinn af blóði allra því að ég hef boðað ykkur vilja Guðs og ekkert dregið undan.“ Hvernig gátu öldungarnir í Efesus líkt eftir Páli og forðast blóðsekt? Hann sagði þeim: „Hafið gætur á sjálfum ykkur og allri hjörðinni sem heilagur andi hefur falið ykkur til umsjónar, til að þið séuð hirðar safnaðar Guðs sem hann keypti með blóði síns eigin sonar.“ (Post. 20:26–28) Páll varaði við því að „grimmir úlfar“ myndu lauma sér inn í söfnuðinn og „rangsnúa sannleikanum til að tæla lærisveinana á eftir sér“. Hvað áttu öldungarnir að gera? „Haldið … vöku ykkar,“ sagði Páll, „og munið að ég leiðbeindi hverjum og einum ykkar stöðugt með tárum dag og nótt í þrjú ár.“ – Post. 20:29–31.

19. Hvaða fráhvarf átti sér stað undir lok fyrstu aldar og hvaða afleiðingar hafði það þegar fram liðu stundir?

19 „Grimmir úlfar“ voru komnir inn í söfnuðinn undir lok fyrstu aldar. Jóhannes postuli skrifaði um árið 98: „Nú eru margir andkristar komnir fram … Þeir voru með okkur en yfirgáfu okkur þar sem þeir áttu ekki samleið með okkur. Ef þeir hefðu átt samleið með okkur hefðu þeir verið hjá okkur áfram.“ (1. Jóh. 2:18, 19) Á þriðju öld hafði fráhvarfið leitt til þess að prestastétt kristna heimsins var komin fram og á fjórðu öld veitti Konstantínus keisari þessari spilltu „kristni“ opinbera viðurkenningu. Trúarleiðtogar ‚rangsneru sannleikanum‘ með því að taka upp heiðna helgisiði og gefa þeim „kristið“ yfirbragð. Áhrif þessa fráhvarfs blasa enn við í kenningum og siðum kristna heimsins.

20, 21. Hvernig sýndi Páll að hann var fórnfús og hvernig geta öldungar nú á dögum líkt eftir honum?

20 Páll var harla ólíkur þeim sem fóru að misnota sér stöðu sína í söfnuðinum síðar meir. Hann vann fyrir sér til að vera söfnuðinum ekki til byrði. Hann ætlaðist ekki til þess að fá laun fyrir störf sín í þágu trúsystkina sinna. Páll hvatti öldungana í Efesus til að vera fórnfúsir. Hann sagði þeim að ‚hjálpa hinum veikburða og hafa í huga það sem Drottinn Jesús sagði: „Það er ánægjulegra að gefa en þiggja.“‘ – Post. 20:35.

21 Safnaðaröldungar nú á tímum eru fórnfúsir eins og Páll. Þeir sem er trúað fyrir því að vera „hirðar safnaðar Guðs“ gera það af óeigingirni ólíkt prestum kristna heimsins sem rýja hjörðina. Stolt og metnaðargirni eiga ekki heima í kristna söfnuðinum því að þeir sem „leita eigin heiðurs“ verða að lokum auðmýktir. – Orðskv. 11:2; 25:27.

Páll og félagar hans ganga um borð í skip. Öldungarnir í Efesus faðma Pál grátandi.

„Allir fóru að gráta sáran.“ – Postulasagan 20:37.

22. Hvers vegna þótti öldungunum í Efesus mjög vænt um Pál?

22 Páll elskaði bræður sína heitt og þess vegna þótti þeim líka ákaflega vænt um hann. Þegar kveðjustundin rann upp fóru allir „að gráta sáran og þeir föðmuðu Pál og kysstu hann ástúðlega“. (Post. 20:37, 38) Við kunnum líka vel að meta þá sem gefa af sjálfum sér í þágu hjarðarinnar eins og Páll, og okkur þykir mjög vænt um þá. Eftir að hafa lesið um fordæmi Páls erum við eflaust sammála um að hann hafi hvorki verið að stæra sig né ýkja þegar hann sagði: „Ég er hreinn af blóði allra.“ – Post. 20:26.

a Sjá rammann „Bréf sem Páll skrifaði í Makedóníu“.

b Líklegt er að Páll hafi skrifað Rómverjabréfið meðan hann var í Korintu.

c Sjá rammann „Páll afhendir framlögin til nauðstaddra“.

d Lúkas talar í fyrstu persónu í Postulasögunni 20:5, 6 sem bendir til þess að hann hafi slegist í för með Páli í Filippí en hann hafði líklega orðið eftir þar einhvern tíma áður. – Post. 16:10–17, 40.

e Ferðin frá Filippí til Tróas tók fimm daga. Hugsanlegt er að vindar hafi verið óhagstæðir því að Páll og félagar höfðu áður siglt sömu leið á aðeins tveim dögum. – Post. 16:11.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila