Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w87 1.7. bls. 8-12
  • Vertu ákafur að boða fagnaðarerindið

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Vertu ákafur að boða fagnaðarerindið
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Tíminn er naumur
  • Hvernig birtist ákafi?
  • „Í skuld“ við alla
  • Að ‚fyrirverða sig ekki fyrir fagnaðarerindið‘
  • Skilvirkni eykur árangurinn
  • Prédikaðu fagnaðarerindið fúslega
    Ríkisþjónusta okkar – 1999
  • Boðaðu fagnaðarerindið af kappi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2000
  • Fagnaðarerindið sem allir þurfa að heyra
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • ‚Fyrirverðum okkur ekki fyrir fagnaðarerindið‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
w87 1.7. bls. 8-12

Vertu ákafur að boða fagnaðarerindið

„Ég er ákafur að boða einnig ykkur fagnaðarerindið.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 1:15, NW.

1, 2. Hvernig bregst fólk oft við neyðarástandi?

„ÞEIR komu alls staðar að . . . mörg hundruð sjálfboðaliðar streymdu inn í sýslurnar tvær ásamt mörgum bílhlössum af matvælum og fatnaði. Þeir settu upp bráðabirgðabúðir, sumir unnu 18 til 20 stunda vinnudag, sumir fengu alls engan svefn fyrstu sólarhringana eftir að stíflan brast.“

2 Þannig voru viðbrögð manna þegar um 24.000 manns urðu að yfirgefa heimili sín vegna flóða í miðhluta Kaliforníu vorið 1986. Já, þegar náttúruhamfarir verða — allt frá staðbundnum flóðum til jarðskjálfta eða kjarnorkuslysa — kemur fólk oft sjálfboða til að veita aðstoð. Það brettir upp ermarnar, býður óþægindum og hættum birginn og er ákaft að hjálpa öðrum — jafnvel ókunnugum.

Tíminn er naumur

3. Hvaða neyðarástand blasir nú við mannkyninu?

3 Mannkynið á nú í vændum mestu hamfarir mannkynssögunnar. Þær stafa ekki af því tjóni sem maðurinn er að vinna á umhverfi sínu, hættunni á kjarnorkustyrjöld eða auknum glæpum og ofbeldi, þótt alvarlegt sé. Þess í stað stendur mannkynið frammi fyrir því sem Jesús Kristur kallaði ‚þá miklu þrengingu, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.‘ Svo mikil eyðilegging yrði samfara þessari ‚miklu þrengingu‘ að Jesús hélt áfram: „Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af.“ — Matteus 24:21, 22.

4. Hver ættu að vera viðbrögð okkar með hliðsjón af þessu neyðarástandi?

4 Hvernig yrði þér innanbrjósts ef þú vissir að fjölmargt manna, þeirra á meðal sumir sem eru þér nákomnir, ættu bráðlega að farast í þessari þrengingu? Yrðir þú ákafur að hjálpa? Manst þú eftir sýn Esekíels og manninum með skriffærin? Honum var sagt að þeir einir myndu lifa af eyðingu Jerúsalem sem hefðu fengið táknrænt merki á enni sér, og hann var sá sem átti að gefa mönnum þetta lífsnauðsynlega merki. Hvernig brást hann við? Hann gerði eins og honum var boðið og sagði síðan: „Ég hefi gjört eins og þú bauðst mér.“ — Esekíel 9:1-11.

5. Hvaða verk er okkur boðið að vinna og hve áríðandi er það?

5 Ert þú jafnfús og ákafur og línklæddi maðurinn að gera það sem Jehóva hefur boðið? Hvað hefur Jehóva boðið? Í gegnum son sinn, Jesú Krist, hefur hann gefið þessa skipun: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Þetta er jafnmikið björgunarstarf og hin táknræna merking á dögum Esekíels. Hver sem ekki bregst jákvætt við og gerist lærisveinn Jesú Krists mun farast fyrir aðalaftökumanni Jehóva. (2. Þessaloníkubréf 1:6-8) Gerir þú þér ljóst hve tíminn er naumur? Sýnir þú það með því að vera ákafur að boða fagnaðarerindið?

Hvernig birtist ákafi?

6. Hvað merkir það að vera ákafur?

6 Sem heild skynja þjónar Jehóva hve tíminn er naumur. Okkur er öllum mikið í mun að sjá eins marga og hugsast getur bjargast úr ‚þrengingunni miklu‘ sem er yfirvofandi. Ákafi er hið sama og kapp, það að keppast við eitthvað. Sá sem er ákafur í sambandi við eitthvað einbeitir bæði huga og kröftum að því. Hann gerir allt sem í hans valdi stendur til að yfirstíga hindranir og mótlæti þar til hann nær marki sínu. Það var þannig sem Páll postuli leit á þjónustu sína og við ættum að reyna að líkjast honum. — 1. Korintubréf 4:16.

7. Hvers vegna vildi Páll fara til Rómar?

7 Leiðum hugann til dæmis að orðum Páls til kristinna manna í Róm, í Rómverjabréfinu 1:13-16: „Ég hef oftsinnis ásett mér að koma til yðar,“ sagði hann þeim. Hvers vegna? Vegna þess að hann „vildi fá einhvern ávöxt“ á meðal þeirra. Hafði Páll aðeins í huga að heimsækja bræðurna í Róm og kannski hvetja þá til að þroska betur ‚ávöxt andans‘ eins og sumir biblíuskýrendur halda fram? (Galatabréfið 5:22, 23) Nei, því að orð hans „eins og með öðrum heiðnum þjóðum“ taka af öll tvímæli um að honum var mikið í mun að fá fram ávöxt Guðsríkis meðal hins ókristna samfélags í Róm. Hann langaði til að flytja fagnaðarerindið til Rómar og ef til vill enn lengra. — Rómverjabréfið 15:23, 24.

8. Hvernig hafði Páll verið „hindraður“ í að fara til Rómar?

8 „En [ég] hef verið hindraður allt til þessa,“ sagði Páll. Hvað hindraði hann? Var hann of upptekinn af einkamálum sínum til að fara þangað? Víst var Páll önnum kafinn maður en ekki við persónuleg mál. Um það leyti sem hann skrifaði Rómverjum (um árið 56) hafði hann þegar lokið tveim löngum trúboðsferðum og var á þeirri þriðju. Á þessum ferðum leiddi heilagur andi hann oft til að takast á við sérstök verkefni. (Sjá Postulasöguna 16:6-9.) Eins og hann sagði í bréfi sínu ætlaði hann sér að fara til Jerúsalem ‚til að flytja hinum heilögu þar hjálp.‘ (Rómverjabréfið 15:25, 26) Hann hafði orðið fyrir fjölmörgum öðrum ‚hindrunum‘ af þessu tagi. — 2. Korintubréf 11:23-28.

9. Hvernig sýndi Páll ákafa við boðun fagnaðarerindisins?

9 En Páll leit ekki svo á að nú hefði hann nóg að gera eða hefði sína þjónustu sem hann þyrfti að sinna, og það væri nóg. Hann vildi gera meira. Hann sagði: „Ég er ákafur að boða fagnaðarerindið einnig ykkur í Róm.“ Það er þetta sem við köllum ákafa! Prófessor F. F. Bruce sagði um postulann í bók sinni The Epistle of Paul to the Romans: „Prédikun fagnaðarerindisins er honum í blóð borin og hann getur ekki haldið sér frá henni; hann er aldrei ‚í fríi‘ heldur þarf stöðugt að vera að til að endurgreiða örlítið meira af skuld sinni við allt mannkynið — skuld sem hann getur aldrei greitt að fullu á ævinni.“ Er það þannig sem þú lítur á þjónustuna?

10. Hvaða ‚hindranir‘ gætu verið í vegi okkar en hvernig ættum við að bregðast við þeim?

10 Á öllum vottum Jehóva nú á dögum hvíla skyldur sem halda þeim uppteknum. Sumir hafa fyrir fjölskyldu að sjá og aðrir skyldur á öðrum sviðum. Öðrum eru takmörk sett sökum aldurs eða heilsufars. Og enn aðrir bera mikla ábyrgð í kristna söfnuðinum. Samt sem áður gerum við okkur líka ljóst að tími þessa heimskerfis er senn á enda og að bera þarf vitni um Guðsríki. (Markús 13:10) Við ættum því, eins og Páll, að vera áköf að gera allt sem við getum í prédikuninni, þrátt fyrir þær ‚hindranir‘ sem kunna að vera í veginum. Við ættum ekki að vera sinnulaus, hugsa sem svo að við höfum nóg að gera núna. — 1. Korintubréf 15:58.

„Í skuld“ við alla

11. Hvað er átt við með orðunum „ég er í skuld“?

11 Óþreytandi kappsemi Páls við boðun fagnaðarerindisins átti sér einnig annað afl að baki. „Ég er í skuld bæði við Grikki og útlendinga, vitra og fávísa,“ sagði Páll. (Rómverjabréfið 1:14) Með hvaða hætti var Páll „í skuld“? Sumar aðrar þýðingar taka svo til orða að Páll hafi verið „undir skyldukvöð.“ (New English Bible) Var hann með þessu að segja að prédikunarstarfið væri þjakandi byrði eða skyldukvöð sem hann yrði að inna af hendi frammi fyrir Guði? Það er auðvelt að fá slíkt viðhorf ef við missum sjónar á hversu naumur tíminn er eða látum það sem heimurinn býður upp á draga til sín athygli okkar. En það var ekki það sem Páll hafði í huga.

12. Við hverja var Páll „í skuld“ og hvers vegna?

12 Guð hafði ‚valið sér‘ Pál sem ‚postula heiðingja‘ og bar hann því mjög mikla ábyrgð frammi fyrir Guði. (Postulasagan 9:15; Rómverjabréfið 11:13) En skyldutilfinning hans beindist ekki aðeins að Guði. Hann sagðist vera „í skuld bæði við Grikki og útlendinga, vitra og fávísa.“ Sökum þeirrar miskunnar og sérréttinda, sem honum hafði verið veitt, leit hann á það sem skyldu sína að prédika svo að allir mættu heyra fagnaðarerindið. Hann gerði sér líka ljóst að sá væri vilji Guðs að ‚alls konar menn yrðu hólpnir og kæmust til þekkingar á sannleikanum.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:12-16; 2:3, 4) Þess vegna stritaði hann linnulaust, ekki aðeins til að rísa undir ábyrgð sinni gagnvart Guði, heldur líka til að endurgjalda skuld sína við aðra menn. Finnur þú til slíkrar skuldar gagnvart fólkinu í þínu starfssvæði? Finnst þér þú skulda því að þú leggir þig fram við að færa því fagnaðarerindið?

Að ‚fyrirverða sig ekki fyrir fagnaðarerindið‘

13. Hvernig leit Páll á fagnaðarerindið?

13 Páll var tvímælalaust afbragðs fordæmi í því að vera ákafur boðberi fagnaðarerindisins. Hann gerði sér ljósa grein fyrir þeirri óverðskulduðu náð, sem Guð hafði sýnt honum, og vildi ekki að hún yrði til einskis. (1. Korintubréf 15:9, 10) Þess vegna hélt hann áfram: „Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið.“ (Rómverjabréfið 1:16) Frá mannlegum bæjardyrum séð voru kristnir menn ekki aðeins óvinsælir heldur líka fyrirlitnir. „Vér erum orðnir eins og sorp heimsins, afhrak allra allt til þessa,“ sagði Páll. (1. Korintubréf 4:13) Samt skammaðist hann sín ekki fyrir að flytja fagnaðarerindið til Rómar, meðdepils hins lærða heims og keisaraseturs Rómaveldis. Þegar okkur mætir sinnuleysi, lastmæli eða jafnvel andstaða í prédikunarstarfinu getum við minnst hins hvetjandi fordæmis Páls.

14. Hvers vegna ‚fyrirvarð Páll sig ekki fyrir fagnaðarerindið‘?

14 Að ‚fyrirverða sig ekki fyrir fagnaðarerindið‘ er í rauninni önnur leið til að segja að við séum stolt af fagnaðarerindinu, og það ættum við að vera. Hvers vegna? Vegna þess að „það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir,“ segir Páll. Hann var ríkur að reynslu til stuðnings orðum sínum. Með fagnaðarerindinu sagði Páll að við ‚brytum niður hugsmíðar og allt, sem hreykti sér gegn þekkingunni á Guði, og hertækjum hverja hugsun til hlýðni við Krist.‘ (2. Korintubréf 10:5) Hvort sem fagnaðarerindið stríddi gegn erfðavenjum Gyðinganna, heimspeki Grikkja eða veldi Rómverja gekk það með sigur af hólmi.

15. Hvernig dreif ákafi Páls hann áfram?

15 Í stað þess að finnast fagnaðarerindið vera byrði var Páll ‚ákafur‘ að rísa undir þeirri ábyrgð sem Guð hafði gefið honum! Hann orðaði það þannig: „Því að skyldukvöð hvílir á mér. Já, vei mér, ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið!“ (1. Korintubréf 9:16) Þessi ákafi hjálpaði honum að halda þrotlaust áfram að þjóna Guði svo árum skipti, þannig að hann gat sagt að lokum: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.“ — 2. Tímóteusarbréf 4:7.

Skilvirkni eykur árangurinn

16. Hvers vegna heldur þú að verkefni línklædda mannsins með skriffærin í sýn Esekíels hafi verið krefjandi?

16 Maðurinn með skriffærin í sýn Esekíels var vafalaust ákafur að sinna starfi sínu. Síðar gat hann fært herra sínum þær góðu fréttir að verkinu væri lokið. Frásagan lætur þess ekki getið hvernig hann bar sig að við að leita uppi þá sem ‚andvörpuðu og kveinuðu yfir öllum þeim svívirðingum, sem framdar voru.‘ (Esekíel 9:4) Þótt ekki sé frá því greint hvernig merkingin fór fram er ljóst að ekki var um auðvelt verk að ræða.

17. (a) Hvers krefst það starf að gera menn að lærisveinum af þér og hvernig bregst þú við? (b) Er það erfiðisins virði?

17 Það verkefni, sem okkur hefur verið falið, er ekki heldur einfalt. Því vaknar sú spurning hversu skilvirk við séum í þessu björgunarstarfi. Til að gera eins marga og mögulegt er að lærisveinum verðum við að taka reglulega og kerfisbundið þátt í þessu starfi, ekki láta hjá líða að grípa sérhvert tækifæri til að koma fagnaðarerindinu á framfæri. Fólkið í kringum okkur er önnum kafið alveg eins og við; það er kannski sjaldan heima þegar við knýjum dyra, og upptekið þegar það er heima. Hvað getum við gert? Nú, við þurfum að halda nákvæmar skrár um gang starfsins og koma aftur og aftur á ólíkum tímum í von um að við finnum einhvern til að tala við. Er það erfiðisins virði? Við skulum heyra svar tveggja húsráðenda:

Ég vil gjarnan þakka vottum Jehóva hinar mörgu heimsóknir til mín. Ég veit að þeir sem standa utan ykkar kirkju eru ekki alltaf jafnhrifnir af köllun ykkar og þeir ættu að vera. Mig langar því til að láta í ljós mína skoðun og færa ykkur þakkir!

Við erum mörg sem hungrar eftir sannleikanum og mörg okkar trúa að allir vegir liggi til hjálpræðis. Þið sem þorið að leita að einhverjum til að veita þjónustu, ekki gefast upp á okkur! Við erum ekki vondar manneskjur þótt við móðgum ykkur, setjum ykkur úr jafnvægi og vísum á dyr. Gefist ekki upp, því að okkur hafa verið kenndar fjölmargar lygar, sagðar margar hræðilegar sögur, og kennt að hata ykkur til að halda boðskapnum um ríki Jehóva frá okkur.

18. (a) Hvernig getur þú hjálpað öðrum að skilja fagnaðarerindið? (b) Hvernig yfirsté boðberi áhugaleysi?

18 Ef við ætlum að ná til manna og hjálpa þeim að skilja fagnaðarerindið þarf meira en yfirborðsleg tengsl, að flytja fyrirfram undirbúna smáræðu eða skilja eftir einhver biblíurit. Við verðum að leitast við að skynja þarfir þeirra og áhyggjur, hvað þeim geðjast og hvað ekki, ótta þeirra og fordóma. Allt þetta kostar verulega íhygli og áreynslu — og ákafa af okkar hálfu. Eftirfarandi frásaga er umhugsunarverð:

Boðberi talaði við konu í dyragættinni en hún sýndi ekki mikinn áhuga. Systirin tók eftir að nokkur börn voru í íbúðinni og spurði hve mörg börn hún ætti. Hún svaraði að þetta væru ekki hennar börn heldur mágs hennar sem væri fluttur þangað erlendis frá. Fljótlega beindust samræðurnar að húsnæðisvandamálum. Boðberinn féllst á að gott húsnæði væri vandfundið í stórborg, og þar eð konan átti von á ættingjum til sín fljótlega bauðst systirin til að hjálpa henni. Konan varð himinlifandi og kallaði mág sinn fram í dyrnar. Samræðurnar héldu áfram og skipst var á símanúmerum. En systirin gleymdi ekki hver var tilgangur heimsóknarinnar og sýndi háttvíslega blaðsíðu 157 í bókinni Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð og útskýrði að í hinni fyrirheitnu nýju heimsskipan yrðu vandamál eins og húsnæðisskortur og atvinnuleysi ekki til. Maðurin sýndi mikinn áhuga og þáði bókina fúslega. Síðar kom boðberinn aftur í heimsókn með upplýsingar um leiguhúsnæði og greip þá um leið tækifærið til að tala meira um Biblíuna.

19. Hvernig þurfum við nú að nota tíma okkar og hvaða spurningar ræðum við í greininni á eftir?

19 Tíminn til að prédika fagnaðarerindið er að renna út. Við vitum ekki hve miklu lengur ‚englarnir fjórir‘ munu ‚halda fjórum vindum jarðarinnar.‘ (Opinberunarbókin 7:1) Við vitum það að ‚þrengingin mikla‘ er framundan og verið er að safna saman hjartahreinu fólki. Svo sannarlega ‚eru akrarnir hvítir til uppskeru.‘ (Matteus 24:21, 22; Jóhannes 4:35) Nú er rétti tíminn til að leggja sig kappsamlega fram í starfi sem aldrei verður endurtekið. Hvernig getum við best notað þann tíma sem eftir er? Hvernig getum við átt ríkari þátt í þessu björgunarstarfi og hvað getur hjálpað okkur að viðhalda ákafa okkar við boðun fagnaðarerindisins? Þessar spurningar eru umræðuefni greinarinnar sem fylgir.

Hvað sýnir Rómverjabréfið 1:13-16 um fordæmi Páls?

◻ Hvers vegna var hann ákafur að fara til Rómar?

◻ Hvað hindraði hann í að fara og hvernig brást hann við því?

◻ Við hverja var hann „í skuld“ og hvernig?

◻ Hvernig leit hann á fagnaðarerindið og hvers vegna?

◻ Hvernig getum við verið skilvirk, eins og Páll, við boðun fagnaðarerindisins?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila