Fagnaðarár Jehóva – gleðitími fyrir okkur
„Helga . . . hið fimmtugasta árið og boða frelsi í landinu fyrir alla íbúa þess. Það skal vera yður fagnaðarár. . . . Það sé yður heilagt . . . svo að þér megið óhultir búa í landinu.“ — 3. Mósebók 25:10-12, 18.
1. Hvaða áletrun er að finna á Frelsisbjöllunni og hvaðan eru orðin tekin?
LÍKLEGT er að þú hafir heyrt getið hinnar frægu Frelsisbjöllu í Fíladelfíu í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Alfræðibókin The World Book Encyclopedia segir að þessari bjöllu hafi verið „hringt þann 8. júlí 1776, ásamt öðrum kirkjuklukkum, til að kunngera að sjálfstæðisyfirlýsingin hefði tekið gildi. Áletrun hennar, ‚Boða frelsi í landinu fyrir alla íbúa þess,‘ er úr Biblíunni. (3. Mósebók 25:10).“
2. Hvað finnst þér um að eiga frelsi í vændum en hvaða vandkvæði geta virst á að hljóta það?
2 Frelsi höfðar mjög sterkt til manna nú eins og þá. Líklega myndir þú fagna því að eiga í vændum ósvikið frelsi — undan röngum hugmyndum, pólitísku misrétti eða kúgun og veiklandi áhrifum elli og sjúkdóma sem leiða til dauða. Ef svo er hefur þú ærið tilefni til að gleðjast núna og enn meira tilefni innan skamms. ‚Hvernig getur það verið?‘ spyrð þú, því að engin ríkisstjórn hefur enn tryggt þegnum sínum fullt frelsi, og hvorki vísindamenn né læknar geta komið í veg fyrir ellihrörnun, sjúkdóma og dauða. En við endurtökum að það sé ástæða fyrir þig til að gleðjast yfir sönnu frelsi. Til að skilja hvernig því víkur við skalt þú gefa gaum mikilvægum upplýsingum sem geta snert þig — núna og í framtíðinni.
3. Hvað var fagnaðarárið og hvað gerðist á því?
3 Ritningarstaðurinn, sem vitnað er í hér að ofan, notar orðið „fagnaðarár.“ Fagnaðarárið var eins árs langt hvíldarár fyrir Ísraelsland. Sjöunda hvert ár var nefnt hvíldarár og var landið þá hvílt af akuryrkju. Að loknum sjö hvíldarárum á 49 ára tímabili kom fagnaðarárið fimmtugasta hvert ár sem hápunktur hvíldaráranna í landinu sem Jehóva hafði gefið þjóð sinni samkvæmt fyrirheitinu við forföður hennar Abraham, ‚vin Jehóva.‘ (Jakobsbréfið 2:23; Jesaja 41:8) Á fagnaðarárinu var frelsi boðað út um landið allt. Það hafði í för með sér frelsi fyrir alla Ísraelsmenn sem höfðu selt sig í þjónustu annarra vegna skulda. Á hvíldarárinu endurheimtu menn á ný allt erfðaland sem þeir höfðu selt (líklega vegna fjárhagsörðugleika). — 3. Mósebók 25:1-54.
4. Hvenær var fagnaðarárið boðað og hvernig?
4 Með þessar upplýsingar að bakhjarli má þér ljóst vera hvers vegna fagnaðarárið var mikið hátíðar- og frelsisár. Það var boðað með því að blása í horn á friðþægingardeginum.a Móse skrifaði í 3. Mósebók 25:9, 10: „Þá skaltu í sjöunda mánuðinum, tíunda dag mánaðarins, láta hvellilúðurinn gjalla. Friðþægingardaginn skuluð þér láta lúðurinn gjalla um gjörvallt land yðar, og helga þannig hið fimmtugasta árið og boða frelsi í landinu fyrir alla íbúa þess. Það skal vera yður fagnaðarár. Þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til óðals síns, og þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til ættar sinnar.“ Árið 1473 f.o.t. leiddi Jósúa Ísraelsmenn yfir Jórdanána inn í fyrirheitna landið þar sem þeir áttu að halda fagnaðarárið.
Upphaflegt frelsi boðað
5. Hvaða hliðar frelsunar og fagnaðarárs munum við athuga?
5 Það sem á undan er komið kann að líta út sem forn saga er hefur litla þýðingu fyrir líf okkar, sér í lagi ef við erum ekki Gyðingar að ætterni. Jesús Kristur gaf okkur hins vegar gilda ástæðu til að vænta meira og stórkostlegra fagnaðarárs. Það er það sem gefur okkur grundvöll til að gleðjast yfir frelsi okkar. Til að skilja orsök þess þurfum við að gera okkur ljóst á hvaða tvo vegu Jesús miðlaði frelsi á fyrstu öld. Síðan skulum við sjá hvernig það samsvarar tvenns konar frelsun á okkar dögum sem er miklu stórkostlegri og margfalt meira fagnaðarefni.
6, 7. (a) Hvaða atburðum lýsti Jesaja 61:1-7? (b) Hvernig gaf Jesús til kynna að þessi spádómur Jesaja væri að rætast?
6 Í Jesaja 61:1-7 er spádómur um frelsun, sem í vændum er, þótt ekki sé talað þar beint um hið forna fagnaðarár. Þar segir: „Andi [Jehóva] er yfir mér, af því að [Jehóva] hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn, til að boða náðarár [Jehóva] og hefndardag Guðs vors, til að hugga alla hrellda, . . . og eilíf gleði skal falla þeim í skaut.“ En hvenær og hvernig myndi þessi spádómur rætast?
7 Eftir páska árið 30 gekk Jesús Kristur í samkunduhús á hvíldardegi. Hann las þar hluta af spádómi Jesaja og heimfærði á sjálfan sig. Lúkas 4:16-21 segir að hluta: „Hann lauk upp bókinni og fann staðinn, þar sem ritað er: Andi [Jehóva] er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár [Jehóva]. . . . Hann tók þá að tala til þeirra: ‚Í dag hefur ræst þessi ritning.‘ “
8. (a) Hvaða undirbúningsfrelsun veitti Jesús? (b) Hvernig er því lýst í Jóhannesi 9:1-34?
8 Sá fagnaðarboðskapur, sem Jesús boðaði, veitti andlegt frelsi þeim Gyðingum sem tóku við honum. Augu þeirra opnuðust fyrir því hvað sönn guðsdýrkun raunverulega var og hvers hún krafðist, og þeir losnuðu úr fjötrum fjölmargra rangra viðhorfa. (Matteus 5:21-48) Þetta frelsi var verðmætara en lækningar Jesú. Þótt Jesús opnaði augu manns, sem var fæddur blindur, var honum enn meira og varanlegra gagn af því að gera sér ljóst að Jesús væri spámaður sendur af Guði. Hið nýfundna frelsi mannsins stakk mjög í stúf við ástand trúarleiðtoganna sem voru þrælar erfðavenja sinna og rangra hugmynda. (Jóhannes 9:1-34; 5. Mósebók 18:18; Matteus 15:1-20) Þetta var þó aðeins byrjunar- eða undirbúningsfrelsi. Jafnvel á fyrstu öldinni átti Jesús að hjálpa mönnum að hljóta annars konar frelsi sem var hliðstætt fagnaðarárinu í Ísrael til forna. Hvers vegna komumst við að þeirri niðurstöðu?
9. Í hvaða þrælkun voru þeir enn sem hlotið höfðu andlegt frelsi?
9 Jesús sagði við manninn sem verið hafði blindur: „Til dóms er ég kominn í þennan heim, svo að blindir sjái og hinir sjáandi verði blindir.“ Síðan sagði hann Faríseunum: „Ef þér væruð blindir, væruð þér án sakar [syndar]. En nú segist þér vera sjáandi, því varir sök [synd] yðar.“ (Jóhannes 9:35-41) Já, synd sem leiddi til dauða var enn meiriháttar vandamál eins og líka núna. (Rómverjabréfið 5:12) Gyðingar, þeirra á meðal postularnir sem nutu góðs af byrjunarfrelsinu, hinu andlega frelsi sem Jesús veitti, voru eftir sem áður ófullkomnir menn. Þeir voru áfram þrælar syndar sem leiddi til dauða. Gat Jesús breytt því? Myndi hann gera það og þá hvenær?
10. Hvaða aukið frelsi hét Jesús að hann myndi veita?
10 Jesús hafði áður sagt: „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ Áheyrendur hans, Gyðingar, svöruðu: „Vér erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: ‚Þér munuð verða frjálsir‘?“ Jesús svaraði: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem syndina drýgir er þræll syndarinnar. En þrællinn dvelst ekki um aldur í húsinu, sonurinn dvelst þar um aldur og ævi.“ (Jóhannes 8:31-36) Þótt Gyðingar væru afkomendur Abrahams að holdinu gat það ekki frelsað þá úr þrælkun syndarinnar. Jesús gaf þessa merku yfirlýsingu um frelsi til að vekja athygli á því sem í vændum var og yrði meira og merkara en það sem Ísraelsmenn hefðu kynnst á nokkru fagnaðarári.
Hið kristna fagnaðarár hefst
11. Hvers vegna beinum við athygli okkar að árinu 33 í sambandi við hið kristna fagnaðarár?
11 Gyðingarnir gátu ekki séð að fagnaðarár Móselaganna væri táknmynd annars og meira fagnaðarárs. (Kólossubréfið 2:17; Efesusbréfið 2:14, 15) Þetta fagnaðarár kristinna manna er tengt ‚sannleikanum‘ sem getur frelsað menn — sannleikanum um son Guðs, Jesú Krist. (Jóhannes 1:17) Hvenær var byrjað að halda hátíðlegt þetta meira fagnaðarár sem gat veitt mönnum frelsi jafnvel undan syndinni og áhrifum hennar? Það var árið 33 á hvítasunnudeginum, 10 dögum eftir að Jesús steig upp til að bera verðgildi fórnar sinnar fram fyrir Jehóva Guð. — Hebreabréfið 9:24-28.
12, 13. Hvað gerðist eftir dauða Jesú sem hafði í för með sé einstæða lífsreynslu fyrir lærisveina hans?
12 Fyrir daga Jesú hafði engin mannvera fengið upprisu frá dauðum til eilífs lífs. (Rómverjabréfið 6:9-11) Allir sofnuðu dauðasvefni og myndu sofa þar til kæmi að upprisu hinnar mennsku fjölskyldu. Með upprisu sinni vegna máttar Guðs varð Jesús Kristur það sem Ritningin kallar hann, „frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru.“ — 1. Korintubréf 15:20.
13 Fimmtíu dögum eftir upprisu Jesú Krists sáust glögg merki þess að hann hefði stigið upp til himna og gengið fram fyrir Jehóva Guð með verðmæti sinnar fullkomnu mannsfórnar og notað hana í þágu mannkynsins. Það var á hvítasunnudeginum árið 33. Hlýðnir fyrirmælum Jesú komu um 120 lærisveinar saman í Jerúsalem. Þá úthellti Kristur heilögum anda yfir þessa lærisveina til að uppfylla Jóel 2:28, 29. Tungur sem af eldi væru svifu yfir höfðum þeirra og þeir fóru að tala erlend tungumál. (Postulasagan 2:16-21, 33) Það var sönnun þess að hinn upprisni Jesús Kristur hefði stigið upp til himna og gengið fram fyrir Guð með verðmæti sinnar fullkomnu fórnar og notað hana í þágu mannkyns.
14. (a) Hver var staða lærisveina Krists gagnvart sáttmálum? (b) Hvaða einstaka blessun veitti nýi sáttmálinn?
14 Hvaða afleiðingar hafði þetta fyrir þessa lærisveina? Til dæmis voru þeir leystir úr fjötrum lagasáttmála Móse sem Guð hafði gert við Ísrael að holdinu. Hann hafði nú verið felldur úr gildi, negldur á kvalastaur Jesú. (Kólossubréfið 2:13, 14; Galatabréfið 3:13) Þessi sáttmáli vék nú fyrir nýjum sáttmála sem gerður var við nýja „þjóð“ andlegra Ísraelsmanna, ekki Ísrael að holdinu. (Hebreabréfið 8:6-13; Galatabréfið 6:16) Þessum nýja sáttmála, sagður fyrir í Jeremía 31:31-34, var komið á í gegnum meðalgangara meiri en spámanninn Móse til forna. Sökum áhuga okkar á frelsi ættum við sérstaklega að veita athygli einu atriði nýja sáttmálans. Páll postuli vakti athygli á því og sagði: „Þetta er sáttmálinn, er ég mun gjöra við þá eftir þá daga, . . . Ég mun aldrei framar minnast synda þeirra eða lögmálsbrota. En þar sem syndirnar eru fyrirgefnar, þar þarf ekki framar fórn fyrir synd.“ — Hebreabréfið 10:16-18.
15. Hvers vegna getum við sagt að hið kristna fagnaðarár hafi hafist árið 33 fyrir smurða kristna menn? (Rómverjabréfið 6:6, 16-18)
15 Jesús var að tala um þessa frelsun undan syndinni þegar hann sagði: „Ef sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir.“ (Jóhannes 8:36) Hugsaðu þér — vegna fórnar Krists veittist mönnum frelsi undan syndinni! Frá og með hvítasunnudeginum tók Guð að lýsa réttláta þá sem trúðu og taka sér þá síðan fyrir andlega syni sem áttu í vændum að ríkja með Kristi á himnum. Páll segir: „En þér hafið ekki fengið anda, sem gjörir yður að þrælum að lifa aftur í hræðslu, heldur hafið þér fengið anda, sem gefur yður barnarétt. . . . En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists.“ (Rómverjabréfið 8:15-17) Enginn vafi lék á að hið kristna fagnaðarár var hafið hjá smurðum kristnum mönnum.
16. Hvaða frekari blessun eiga þeir í vændum sem halda hátíðlegt hið kristna fagnaðarár?
16 Þennan hvítasunnudag árið 33 varð til hin nýja þjóð andlegra Ísraelsmanna. Hún var mynduð af mönnum sem höfðu fengið fyrirgefningu synda sinna vegna fórnarblóðs Krists. (Rómverjabréfið 5:1, 2; Efesusbréfið 1:7) Hver getur neitað því að þessir fyrstu meðlimir andlegu Ísraelsþjóðarinnar, sem fengu aðild að nýja sáttmálanum, hafi öðlast stórkostlega frelsun með því að fá fyrirgefningu synda sinna? Guð gerði þá að ‚útvalinni kynslóð, konunglegu prestafélagi, heilagri þjóð, eignarlýð, til þess að þeir skyldu víðfrægja dáðir hans sem kallaði þá frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.‘ (1. Pétursbréf 2:9) Að vísu var líkami þeirra enn ófullkominn og myndi deyja á sínum tíma, en nú hafði Guð lýst þá réttláta og tekið sér þá fyrir andlega syni svo að dauði þeirra yrði aðeins lausn sem gerði mögulega upprisu þeirra inn í ‚himneskt ríki‘ Krists. — 2. Tímóteusarbréf 4:6, 18.
17, 18. Hvers vegna var frelsun hins kristna fagnaðarárs verðmætari en undirbúningsfrelsunin sem Jesús boðaði?
17 Byrjunar- eða undirbúningsskrefið, það að leysa trúaða Gyðinga úr fjötrum rangra hugmynda og athafna, var mikils virði. Við höfum nú séð að Jesús gerði meira en að veita slíka andlega frelsun. Frá og með hvítasunnunni árið 33 frelsaði hann trúaða menn undan „lögmáli syndarinnar og dauðans.“ (Rómverjabréfið 8:1, 2) Þar með hófst hið kristna fagnaðarár smurðra kristinna manna. Það var miklum mun verðmætari frelsun því að hún fól í sér vonina um eilít líf á himnum sem samerfingjar með Kristi.
18 Við höfum til þessa athugað tvær hliðar kristins frelsis á fyrstu öld sem óneitanlega voru mikið fagnaðarefni. Og þeir sem tóku trú á fyrstu öld fögnuðu sannarlega. (Postulasagan 13:44-52; 16:34; 1. Korintubréf 13:6; Filippíbréfið 4:4) Svo var sérstaklega um hlut þeirra í hinu kristna fagnaðarári sem opnaði þeim leiðina til að hljóta eilífa blessun á himnum. — 1. Pétursbréf 1:3-6; 4:13, 14.
19. Hvaða spurningum er ósvarað í hugum kristinna manna sem ekki eru andagetnir, og hvað bendir til að þeir muni eiga hlut í frelsun af hendi Guðs?
19 En þorri sannkristinna manna nú á tímum hefur ekki verið lýstur réttlátur til lífs og smurður heilögum anda. Hvar falla þeir inn í myndina? Ritningin gefur okkur tilefni til að vænta umfangsmikillar frelsunar þeirra er sé hluti hins kristna fagnaðarárs. Hafðu í huga Postulasöguna 3:20, 21 sem segir: ‚Jesús á að vera í himninum allt til þess tíma, þegar Guð endurreisir alla hluti, eins og hann hefur sagt fyrr munn sinna heilögu spámanna frá alda öðli.‘ (Samanber Postulasöguna 17:31.) Jóhannes, smurður postuli sem þegar naut hins kristna fagnaðarárs, tók í sama streng og skrifaði um Jesú Krist: „Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.“ (1. Jóhannesarbréf 2:2) Merkir þetta að hinir mörgu drottinhollu kristnu menn okkar tíma, sem ekki hafa himneska von, geti glaðst yfir kristnu frelsi? Gerist það aðeins í framtíðinni eða höfum við nú þegar tilefni til að gleðjast? Við getum komist að niðurstöðu um það með því að athuga þær hliðar kristinnar frelsunar og fagnaðarárs sem hafa sérstakt gildi fyrir sanna guðsdýrkendur nú á dögum.
[Neðanmáls]
a Hinn árlegi friðþægingardagur var haldinn 10. dag tisrímánaðar samkvæmt almanaki Hebrea, en hann svarar til september-október samkvæmt okkar almanaki.
Hvað er þér í huga?
◻ Hvernig var fagnaðarárið blessun Ísraelsmönnum til forna?
◻ Hvernig boðaði Jesús byrjunarfrelsun og hvað fólst í henni?
◻ Hvenær hófst hið kristna fagnaðarár og hvaða rök eru fyrir því?
◻ Hvers vegna höfum við ástæðu til að hlakka til frelsunar þeirra milljóna kristinna manna sem ekki eru andasmurðir?
[Rammi á blaðsíðu 20]
„Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.“ (Orðskviðirnir 4:18) Í samræmi við þessa meginreglu er að finna í þessari grein og þeirri næstu nýjar og nánari skýringar á merkingu fagnaðarársins.
[Mynd á blaðsíðu 22]
Jesús boðar frelsi árið 30.
[Mynd á blaðsíðu 25]
Hið kristna fagnaðarár hefst árið 33.