Jehóva og Kristur — fyrirmynd í tjáskiptum
„[Jehóva] Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“ — AMOS 3:7.
1. Hvaða boðskiptaleiðir eru notaðar nú á dögum?
MIÐLUN og boðskipti er starfsemi sem veltir gríðarlegum fjármunum. Allar þær bækur sem gefnar eru út, öll dagblöðin og tímaritin sem koma út reglulega, allt útvarps- og sjónvarpsefnið sem sent er út, auk kvikmynda og leikhúsverka, eru tilraunir til miðlunar og boðskipta. Boðskipti fara einnig fram símleiðis og í pósti.
2. Nefndu nokkur dæmi um framfarir manna á sviði miðlunar- og boðskiptatækni.
2 Gríðarlegar tækniframfarir hafa átt sér stað á sviði miðlunar og boðskipta. Til dæmis eru komnir fram á sjónarsviðið ljósleiðarar sem eru langtum betri en koparleiðararnir og geta flutt tugþúsundir símtala samtímis. Þá er að nefna fjarskiptahnetti sem eru á braut um jörð og geta endurvarpað símtölum og símskeytum og útsendingum útvarps og sjónvarps. Einn slíkur fjarskiptahnöttur ræður við 30.000 símtöl samtímis!
3. Hvað gerist þegar boðskipti verða treg?
3 En þrátt fyrir allar þessar leiðir til að miðla skoðunum og upplýsingum er mikil eymd og vesöld í heiminum sem orsakast af því að einstaklingar geta ekki rætt saman eða skipst á skoðunum. Þannig er talað um ‚breikkandi gjá í samskiptum þegna og stjórnvalda.‘ Og hvað er hið svokallaða kynslóðabil annað en vöntun á góðum skoðanaskiptum og opinskáum samræðum milli foreldra og barna þeirra? Hjúskaparráðgjafar segja að alvarlegasta vandamálið í samskiptum hjóna sé vöntun á samræðum og skoðanaskiptum. Skortur á nauðsynlegum boðskiptum getur jafnvel kostað mannslíf. Snemma árs 1990 fórust 73 í flugslysi sem talið var stafa, að hluta til, af ónógum boðskiptum flugstjóra og flugumferðarstjóra. Í fyrirsögn dagblaðs sagði: „Harmleikur af völdum ófullnægjandi boðskipta.“
4. (a) Hvað er átt við með hugtakinu „boðskipti“? (b) Hvert er markmiðið með boðskiptum kristins manns?
4 „Boðskipti“ eru, samkvæmt orðabók, „tjáskipti, samskipti með orðum, merkjum eða öðru til að tjá hugsanir sínar.“ Önnur orðabók skilgreinir boðskipti sem „aðferð til skilmerkilegrar hugmyndatjáningar.“ Taktu eftir orðunum ‚skilmerkileg hugmyndatjáning.‘ Boðskipti eða tjáskipti kristinna manna þurfa að vera skilmerkileg vegna þess að þau hafa það markmið að ná til hjartna manna með sannindi frá orði Guðs í þeirri von að þeir fari eftir því sem þeir læra. Hér er um að ræða einstæð tjáskipti sem mótast af óeigingirni, af kærleika.
Tjáskipti Jehóva
5. Á hvaða veg hefur Jehóva Guð meðal annars átt tjáskipti við menn?
5 Jehóva Guð er tvímælalaust fremstur á sviði tjáskipta. Með því að hann skapaði okkur í sinni mynd og líkingu getur hann átt tjáskipti við okkur og við getum átt tjáskipti við aðra um hann. Allt frá sköpun mannsins hefur Jehóva átt tjáskipti um sjálfan sig við jarðneskar sköpunarverur sínar. Meðal annars hefur hann gert það gegnum hið sýnilega sköpunarverk. Þannig segir sálmaritarinn okkur: „Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa. Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.“ (Sálmur 19:2, 3) Og Rómverjabréfið 1:20 segir okkur að ‚hið ósýnilega eðli Guðs sé sýnilegt frá sköpun heimsins.‘ Tjáskiptaaðferð Jehóva er áhrifarík úr því að eiginleikar hans eru auðsæir af verkunum.
6. Hverju kom Jehóva á framfæri við jarðneskar sköpunarverur sínar í Edengarðinum?
6 Þeir sem trúa ekki á Guð og opinberun hans reyna að telja okkur trú um að maðurinn verði að finna út af eigin rammleik hvers vegna hann sé til. Orð Guðs tekur hins vegar af allan vafa um að Guð hafi átt tjáskipti við manninn allt frá öndverðu. Guð gaf til dæmis fyrsta manninum og konunni boð um að auka kyn sitt: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir . . . öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ Guð leyfði þeim einnig að eta nægju sína af ávöxtunum í garðinum — með aðeins einni undantekningu. Þegar Adam og Eva óhlýðnuðust kom Jehóva á framfæri fyrsta fyrirheitinu um Messías og gaf þar með mannkyninu vonarglætu: „Fjandskap vil ég setja milli þín [höggormsins] og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ — 1. Mósebók 1:28; 2:16, 17, 3:15.
7. Hvaða upplýsingar gefur 1. Mósebók okkur um tjáskipti Jehóva við þjóna sína?
7 Er Kain, sonur Adams, fylltist öfund og morðhug talaði Jehóva Guð við hann og sagði efnislega: ‚Gættu þín! Þú ert að koma þér í vandræði.‘ En Kain lét þessa aðvörun sem vind um eyru þjóta og myrti bróður sinn. (1. Mósebók 4:6-8) Síðar, er jörðin fylltist ofbeldi og óguðleik, tjáði Jehóva hinum réttláta Nóa þann tilgang sinn að hreinsa jörðina af þeim sem saurguðu hana. (1. Mósebók 6:13–7:5) Eftir flóðið, er Nói og fjölskylda hans gengu út úr örkinni, sagði Jehóva þeim frá heilagleika lífs og blóðs og gaf þeim með hjálp regnbogans tryggingu fyrir því að hann myndi aldrei framar eyða öllu lífi á jörðinni í flóði. Nokkrum öldum síðar tjáði Jehóva Abraham þann tilgang sinn að láta allar ættkvíslir mannkyns afla sér blessunar fyrir milligöngu afkvæmis Abrahams. (1. Mósebók 9:1-17; 12:1-3; 22:11, 12, 16-18) Og er Jehóva ákvað að hann myndi eyða hinum spilltu Sódómu- og Gómorrubúum gaf hann í kærleika sínum Abraham upplýsingar um það og spurði: „Skyldi ég dylja Abraham þess, sem ég ætla að gjöra?“ — 1. Mósebók 18:17.
8. Á hvaða fjóra vegu hefur Jehóva komið upplýsingum á framfæri við þjóna sína á jörðinni?
8 Frá og með Móse notaði Jehóva fjölda spámanna til að eiga boðskipti við Ísrael. (Hebreabréfið 1:1) Stundum las Guð fyrir eins og þegar hann sagði Móse: „Skrifa þú upp þessi orð.“ (2. Mósebók 34:27) En oftar fóru boðskipti Jehóva fram fyrir milligöngu talsmanns gegnum sýnir eins og hann hafði þá þegar gert í sambandi við Abraham.a Jehóva notaði einnig drauma til að koma upplýsingum á framfæri við menn, og þá ekki aðeins þjóna sína heldur líka þá sem áttu samskipti við þjóna hans. Til dæmis lét Jehóva tvo af samföngum Jósefs dreyma drauma sem Jósef túlkaði fyrir þá. Jehóva lét líka Faraó og Nebúkadnesar dreyma drauma sem þjónar hans, Jósef og Daníel, túlkuðu fyrir þá. (1. Mósebók 40:8–41:32; Daníel 2. og 4. kafli) Auk þess gerði Jehóva margsinnis út engla sem sendiboða til að eiga boðskipti við þjóna sína. — 2. Mósebók 3:2; Dómarabókin 6:11; Matteus 1:20; Lúkas 1:26.
9. Af hvaða hvötum miðlaði Jehóva þjóð sinni, Ísrael, upplýsingum og hvaða orð hans bera því vitni?
9 Öll slík boðskipti Jehóva fyrir milligöngu spámanna sinna endurspegluðu kærleika hans til þjóðar sinnar, Ísraels. Þannig sagði hann fyrir munn spámannsins Esekíels: „Svo sannarlega . . . hefi ég ekki þóknun á dauða hins óguðlega, heldur að hinn óguðlegi hverfi frá breytni sinni og haldi lífi. Snúið yður, snúið yður frá yðar vondu breytni! Hví viljið þér deyja, Ísraelsmenn?“ (Esekíel 33:11) Jehóva var langlyndur og þolinmóður er hann átti tjáskipti við uppreisnargjarna þjóð sína til forna, eins og sjá má af 2. Kroníkubók 36:15, 16: „[Jehóva], Guð feðra þeirra, sendi þeim stöðugt áminningar fyrir sendiboða sína, því að hann vildi þyrma lýð sínum og bústað sínum. En þeir . . . fyrirlitu orð hans og gjörðu gys að spámönnum hans uns . . . eigi mátti við gjöra.“
10. Hvernig miðlar Jehóva nútímaþjónum sínum upplýsingum og í hvaða mæli?
10 Núna höfum við innblásið orð Guðs, heilaga Biblíu, þar sem Jehóva veitir okkur upplýsingar um sjálfan sig, tilgang sinn og vilja með okkur. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Biblían lýsir meira að segja yfir: „[Jehóva] Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“ (Amos 3:7) Hann kunngerir þjónum sínum það sem hann ætlar sér að gera.
Tjáskipti sonar Guðs
11. Hvern notar Jehóva fyrst og fremst til að eiga tjáskipti við mennina og hvers vegna er titillinn „Orðið“ við hæfi?
11 Af öllum sem Jehóva hefur notað til að koma vilja sínum á framfæri er enginn fremri en Orðið, Logos, sem varð Jesús Kristur. Hvað er fólgið í því að hann skyldi vera kallaður Orðið eða Logos? Það að hann er fremsti talsmaður Jehóva. Og hvað er talsmaður? Sá sem kemur á framfæri því er annar hefur að segja. Logos kom þannig á framfæri orðum Jehóva Guðs til skynsemigæddrar sköpunar hans á jörð. Þetta hlutverk er svo þýðingarmikið að hann er kallaður Orðið. — Jóhannes 1:1, 2, 14.
12. (a) Í hvaða tilgangi kom Jesús til jarðar? (b) Hvað ber því vitni að hann hafi rækt hlutverk sitt trúlega?
12 Jesús sagði Pontíusi Pílatusi að megintilgangurinn með komu hans til jarðar hefði verið sá að koma sannleikanum á framfæri við mannkynið: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ (Jóhannes 18:37) Guðspjöllin greina frá því hve vel hann rækti þetta hlutverk. Fjallræða hans er viðurkennd sem besta ræða er nokkur maður hefur flutt. Hann kunni sannarlega að koma boðskap sínum á framfæri! „Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu, undraðist mannfjöldinn [sem heyrði ræðuna] mjög kenningu hans.“ (Matteus 7:28) Við lesum um annað atvik: „Hinn mikli mannfjöldi hlýddi fúslega á hann.“ (Markús 12:37) Er nokkrir lögregluþjónar voru sendir til að handtaka Jesú komu þeir tómhentir til baka. Hvers vegna? Þeir svöruðu faríseunum: „Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.“ — Jóhannes 7:46.
Lærisveinum Krists falið að miðla fagnaðarerindinu
13. Hvað sýnir að Kristur vildi ekki vera eini boðberinn?
13 Jesús ætlaði sér ekki að vera einn um að útbreiða fagnaðarerindið um ríkið. Því tilnefndi hann fyrst postulana 12 og síðan 70 kristniboða til að koma fagnaðarerindinu á framfæri. (Lúkas 9:1; 10:1) Síðar, skömmu áður en hann steig upp til himna, fól hann lærisveinum sínum að vinna sérstakt verk. Hvaða verk? Eins og við lesum í Matteusi 28:19, 20 fól hann þeim að koma boðskapnum á framfæri og þeir áttu að hjálpa öðrum að verða boðberar líka.
14. Hve áhrifaríkir boðberar voru frumkristnir menn?
14 Kunnu lærisveinarnir að koma boðskapnum á framfæri með áhrifaríkum hætti? Já, svo sannarlega. Vegna prédikunar þeirra á hvítasunnudeginum árið 33 bættust 3000 sálir við hinn nýstofnaða kristna söfnuð. Á skömmum tíma varð tala karlmanna 5000. (Postulasagan 2:41; 4:4) Engin furða er að fjandmenn þeirra skyldu saka þá um að fylla Jerúsalem með kenningu sinni og kvarta síðan undan því að þeir hefðu komið allri heimsbyggðinni í uppnám með prédikun sinni! — Postulasagan 5:28; 17:6.
15. Hvaða verkfæri hefur Jehóva notað á okkar tímum til að koma boðum til manna?
15 Hvað um okkar tíma? Eins og sagt var fyrir í Matteusi 24:3, 45-47 hefur húsbóndinn, Jesús Kristur, skipað ‚trúan og hygginn þjón,‘ myndaðan af smurðum kristnum mönnum, til að annast eigur sínar á jörðinni á nærverutíma hans. Þessi trúi og hyggni þjónn á sér núna sem fulltrúa hið stjórnandi ráð votta Jehóva er notar Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn sem útgáfufélag. Eins og vel á við hefur hinn trúi og hyggni þjónn einnig verið kallaður boðskiptaleið Guðs. Hann hvetur okkur síðan til góðra boðskipta við aðra. Í fyrsta tölublaði Varðturns Síonar og boðbera nærveru Krists var lesendum blaðsins ráðlagt: „Ef þú átt nágranna eða vin sem þú heldur að myndi hafa áhuga á eða gagn af efni [þessa blaðs], þá gætir þú vakið athygli hans á því; þannig prédikar þú orðið og gerir öllum mönnum gott eins og þú hefur færi á.“
16. Hvað sýnir að það er ekki nóg að menn hafi aðgang að Biblíunni til að boð Guðs komist með áhrifaríkum hætti til þjóna hans á jörð?
16 En það eitt að hafa aðgang að orði Guðs og lesa það sjálfur er ekki nóg til að afla sér þeirrar nákvæmu þekkingar er kemur mönnum inn á veginn til lífsins. Munum eftir eþíópska hirðmanninum sem las í spádómi Jesaja en skildi ekki. Filippus trúboði útskýrði spádóminn fyrir honum og eftir það var hann tilbúinn til að láta skírast sem lærisveinn Krists. (Postulasagan 8:27-38) Að meira sé krafist en aðeins að lesa Biblíuna sjálfur má sjá af Efesusbréfinu 4:11-13 þar sem Páll nefnir að Kristur hafi ekki aðeins gefið suma menn sem innblásna postula og spámenn, heldur hafi hann einnig gefið ‚suma sem trúboða, suma sem hirða og kennara, til að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar, þangað til vér verðum allir einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska.‘
17. Á hverju getum við þekkt þá sem Jehóva notar núna til að koma tilgangi sínum á framfæri við mannkynið?
17 Hvernig getum við borið kennsl á þá sem Jehóva Guð og Jesús Kristur nota til að hjálpa þeim sem vilja verða kristnir að verða fullvaxta? Að sögn Jesú átti eitt af einkennum þeirra að vera það að elska hver annan eins og Jesús elskaði fylgjendur sína. (Jóhannes 13:34, 35) Annað kennimerki yrði það að þeir myndu ekki tilheyra heimnum frekar en Jesús. (Jóhannes 15:19; 17:16) Eins myndu þeir viðurkenna orð Guðs sem sannleikann eins og Jesús gerði, og nota Biblíuna alltaf sem heimild. (Matteus 22:29; Jóhannes 17:17) Enn fremur myndu þeir halda nafni Guðs á lofti líkt og Jesús. (Matteus 6:9; Jóhannes 17:6) Og að síðustu myndu þeir fylgja fordæmi Jesú í því að prédika Guðsríki. (Matteus 4:17; 24:14) Aðeins einn hópur manna uppfyllir þessar kröfur, en það eru kristnir vottar Jehóva.
18. Hvaða þrjú boðskiptasvið verður fjallað um í greinunum á eftir?
18 Tjáskipti fela í sér ábyrgð gagnvart öðrum. Hverjum er okkur, kristnum mönnum, skylt að eiga tjáskipti við? Kristinn maður þarf sérstaklega á þrem sviðum að leggja sig fram um að halda boðskiptaleiðunum opnum: Innan fjölskyldunnar, kristna safnaðarins og í þjónustunni á akrinum. Greinarnar á eftir fjalla um þessi svið.
[Neðanmáls]
a Sjá 1. Mósebók 15:1; 46:2; 4. Mósebók 8:4; 2. Samúelsbók 7:17; 2. Kroníkubók 9:29; Jesaja 1:1; Esekíel 11:24; Daníel 2:19; Óbadía 1; Nahúm 1:1; Postulasöguna 16:9; Opinberunarbókina 9:17.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvaða tjón getur hlotist af ófullnægjandi boðskiptum?
◻ Hverjir eru bestu fordæmin á sviði tjáskipta?
◻ Hvaða mismunandi leiðir hefur Guð farið til að koma upplýsingum til manna?
◻ Hvernig skaraði Jesús fram úr á sviði tjáskipta?
◻ Hve árangursríkir voru frumkristnir menn í því að miðla upplýsingum?
[Mynd á blaðsíðu 11]
Jesús var hlýlegur, líkt og faðir hans á himnum, er hann miðlaði mönnum upplýsingum.