Kristin eining varðveitt í viðskiptum
„Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman [í einingu, NW].“ — Sálmur 133:1.
1. Hvers vegna er kristin eining eftirsóknarverð?
ÞAÐ er sannarlega ‚fagurt og yndislegt þegar bræður búa saman í einingu,‘ einkum nú á tímum þegar óheiðarleiki er orðinn svo algengur í heiminum. Sönn eining býr yfir fegurð sem stuðlar að nánum kærleiksböndum meðal manna svo að þeir hafa ánægju af félagsskap hver annars. Sundrung er hins vegar ljót og hefur í för með sér reiði, hatur og kala milli fyrrverandi vina.
2. Hvernig ætti sameiginlegt viðhorf okkar til meginreglna Biblíunnar að efla bróðurlega samheldni jafnvel í viðskiptum?
2 Þegar kristinn maður á viðskiptatengsl við annan þjón Jehóva ætti sameiginlegt viðhorf þeirra til meginreglna Biblíunnar að efla bróðurlega einingu þeirra. Umsjónarmaður í einum safnaða votta Jehóva orðaði það þannig: „Eftir því sem erfiðara verður að treysta heiminum, því meiri hressing er það að starfa með kristnum bræðrum. Við þurfum ekki að ‚vera á varðbergi‘ hverja einustu mínútu. Hreinskiptir, heiðarlegir félagar í viðskiptum eru orðnir sjaldgæfir í þessu heimskerfi. Hversu ánægjulegt er það að vinna með heiðarlegu fólki sem hvorki reykir né notar ljótt mál, iðkar sjálfstjórn og lætur ekki ágirnd ráða gerðum sínum öðru fremur!“
3. (a) Nefnið dæmi um viðskiptasambönd milli trúbræðra. (b) Hvaða meginreglur verða þeir að hafa að leiðarljósi?
3 Hvers konar viðskiptasambönd geta þjónar Guðs átt sín í milli? Eitt er það þegar tveir eða fleiri kristnir menn ákveða að leggja saman út í einhvers konar rekstur eða kaupsýslu. Þá er að nefna það þegar annar er vinnuveitandi og hinn launþegi. Þriðja dæmið gæti verið þegar kristinn maður býður trúbróður sínum þjónustu eða varning til sölu. Í öllum slíkum viðskiptasamböndum verða meginreglur hins innblásna orðs Jehóva um heiðarleika og ráðvendni að stjórna gerðum þeirra. Með þeim hætti eflist bróðurleg eining og gleðin af því að vinna saman. — 1. Korintubréf 10:31.
4. Hvaða hætta blasir við kristnum mönnum sem stunda viðskipti eða rekstur saman?
4 Sú hætta er hins vegar fyrir hendi að einhver haldi sér ekki við hið háleita sjónarmið kristninnar. Kannski fer hann að hugsa of mikið um eigin hag. (Filippíbréfið 2:4) Kannski fara peningar að skipta hann meira máli en kristin eining. Eigingirni í viðskiptum getur hins vegar spillt sambandi okkar við Jehóva og bræður okkar. Megum við aldrei láta það henda! — Jóhannes 13:34, 35; Hebreabréfið 13:5; 1. Tímóteusarbréf 3:2, 3; 1. Jóhannesarbréf 3:16; 4:20, 21.
Mikilvægi formlegs samnings
5. Hvað má læra um gildi formlegra samninga af því er Abraham keypti land?
5 Til að komast hjá misskilningi í viðskiptum er gott að í huga hvað Abraham gerði þegar hann keypti landspildu. „Abraham vó Efron silfrið, sem hann hafði til tekið í viðurvist Hetíta, fjögur hundruð sikla í gangsilfri. Þannig var landeign Efrons, sem er hjá Makpela . . . fest Abraham til eignar, í viðurvist Hetíta, frammi fyrir öllum, sem út og inn gengu um borgarhlið hans.“ Þetta var ekkert einkasamkomulag milli tveggja manna heldur formlegur samningur staðfestur í votta viðurvist. Enginn misskilningur gat verið um það hvað hefði verið keypt og hvert verðið væri. — 1. Mósebók 23:2-4, 14-18.
6. Hvernig geta kristnir menn gengið formlega frá mikilvægum viðskiptasamningum?
6 Á sama hátt er viturlegt af kristnum mönnum að ganga formlega frá öllum mikilvægum viðskiptum eða samkomulagi sín í milli. Ef um er að ræða kaup á einhverjum hlut má setja á blað hvert sé hið selda, hvert sé verðið, hvernig greiðslum skuli háttað og hvenær hluturinn skuli afhentur, auk annarra skilmála sem á er fallist. Ef um er að ræða þjónustu geta aðilar sett á blað það verk sem vinna skal, hvenær því skuli lokið, verð og annað sem máli skiptir. Þetta skjal skal dagsetja og undirrita og báðir aðilar hafa sitt eintak. Slíkur skriflegur samningur er sérlega mikilvægur ef tveir eða fleiri ganga í félag um rekstur eða kaupsýslu. Hann hjálpar þeim að hafa skýrt í huga hvert sé samband þeirra og lifa samkvæmt ráðum Jesú: „Þegar þér talið, sé já yðar já og nei sé nei.“ (Matteus 5:37) Sé um flókið mál að ræða kann að vera ráðlegt að leita faglegrar aðstoðar við gerð samningsins.
7. (a) Hvað annað þarf að íhuga í tengslum við skriflega samninga? (b) Með hvaða hugarfari ættu kristnir menn að stunda viðskipti sín?
7 Þegar gerður er skriflegur samningur ættu báðir aðilar að gefa gaum ekki aðeins markmiðum sínum heldur líka hugsanlegum afleiðingum, svo sem hvernig slíta megi samningnum ef það reynist nauðsynlegt. (Orðskviðirnir 21:5) Öllum rekstri og kaupsýslu er nokkur áhætta samfara og aldrei er hægt að setja á blað allar þær kringumstæður sem upp geta komið. Ef kringumstæður breytast getur þurft að breyta samningnum eða semja upp á nýtt. Með tíð og tíma getur manni jafnvel orðið ljóst að hann hafi stofnað til óskynsamlegra viðskiptaskuldbindinga svo að hann þarf að draga sig út úr þeim með heiðvirðum hætti. Hann ætti þó aldrei að líta á það sem leið til að skjóta sér undan ábyrgð vegna skulda sem stofnað er til vegna óhóflegrar eyðslusemi eða óstjórnar. Ræða þarf málið til að kanna hvort hægt sé að leysa upp samninginn og hvaða fjárgreiðslur, ef einhverjar, þurfi að koma til við uppgjör. Samviskusamur maður mun þó gera allt sem í hans valdi stendur til að standa við samningsbundnar skuldbindingar, jafnvel þótt það kosti hann að breyta lífsstíl sínum um tíma. (2. Þessaloníkubréf 3:12) Vilji kristinn maður ganga fram í flekkleysi og iðka réttlæti reynir hann að standa við samningsbundnar skuldbindingar jafnvel þótt það sé honum ekki í hag, en hann gerir það til að varðveita velþóknun Jehóva. Hann „sver sér í mein og bregður eigi af.“ (Sálmur 15:1-4) Í öllum slíkum málum þurfa þjónar Jehóva að láta allt fara fram „í kærleika.“ — 1. Korintubréf 16:14.
8. Hvers vegna er gott að reikna út kostnaðinn áður en farið er út í atvinnurekstur?
8 Með þetta í huga er gott að reikna út kostnaðinn áður en stofnað er til félags um viðskipti. (Lúkas 14:28-30) Sumum getur hætt til að sigla bjartsýnir út á hafsjó viðskiptalífsins en steyta síðan á blindskeri. Sumir hafa til dæmis haldið að ágóði vinnuveitenda þeirra gæti fallið þeim í skaut ef þeir væru sjálfir með rekstur af svipuðu tagi. Þeir hafa hins vegar ekki gert sér ljóst að viðskipti eru ekki auðveld í þessum heimi þar sem eins dauði er annars brauð. Ár hvert verða tugþúsundir fyrirtækja gjaldþrota út um heiminn. Eftir beisk vonbrigði í heimi áhættuviðskipta hefur mörgum kristnum manni reynst það léttir að verða aftur launþegi með föst laun.
Viðskiptasamningar haldnir í heiðri
9. Hvernig geta kristnir menn sýnt hver öðrum virðingu á vinnustað?
9 „Verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing,“ segir Rómverjabréfið 12:10. Kristnir launþegar, sem gera það, munu ekki reyna að misnota sér það að vinnuveitandi þeirra er vottur, og tileinka sér það viðhorf heimsins að vinnuveitandinn eigi að umbera ágalla starfsmanna sinna fyrst hann hefur efni á því. Þess í stað munu þeir sýna vinnuveitanda sínum virðingu bæði með viðhorfum sínum og iðjusemi. (1. Tímóteusarbréf 6:2) Kristnir vinnuveitendur munu á móti sýna starfsmönnum sínum, sem eru vottar, virðingu með því hvernig þeir tala og koma fram við þá. Vinnuveitandi ætti aldrei að láta sér finnast hann skör hætta settur en trúbróðir hans sem vinnur hjá honum, heldur muna að þeir eru báðir þrælar Jehóva, jafnir fyrir honum. (Efesusbréfið 6:9) Bæði vinnuveitandi og starfsmaður ættu líka alltaf að hafa í huga þessi heilræði í Galatabréfinu 6:10: „Þess vegna skulum vér, meðan tími er til, gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.“
10. Hvernig hjálpar auðmýkt okkur að sýna hver öðrum virðingu?
10 Þar sem auðmýkt ræður ríkjum er ekki erfitt að sýna virðingu. Auðmjúkum öldingi í kristna söfnuðinum mun til dæmis ekki veitast erfitt að beygja sig í atvinnulífinu undir forystu trúbróður síns sem ekki nýtur sömu sérréttinda í söfnuðinum. Auðmjúkum vinnuveitanda mun ekki heldur veitast erfitt að beygja sig undir starfsmann sinn, sem er öldungur, innan safnaðarins. Auðmýkt mun hjálpa þeim báðum að forðast óhóflega gagnrýni eða að vænta fullkomleika hvor af öðrum, því að „allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ — Rómverjabréfið 3:23; 12:3.
11. Hvernig geta kristnir menn sýnt sanngirni í viðskiptum?
11 Biblían fyrirskipar einnig: „Megi sanngirni ykkar verða kunnug öllum mönnum.“ (Filippíbréfið 4:5, NW) Ekki væri sanngjarn af kristnum manni að vænta sérstakrar greiðasemi eða langtum betra verks eða alltaf lægsta verðs aðeins vegna þess að hann á viðskipti við trúbróður sinn. Kristinn maður ætti ekki heldur að líta á það sem réttindi sín að fá frí úr vinnu eða njóta annarrar greiðasemi, svo sem afnota af vélum eða farartækjum, aðeins sökum þess að vinnuveitandi hans er bróðir í trúnni. Vel má vera að við njótum greiðasemi eða fáum framúrskarandi verk, lágt verð eða frí úr vinnu, en þess ætti ekki að krefjast. Tilætlunarsemi getur orsakað gremju milli kristinna manna og skaðað samband þeirra. — Orðskviðirnir 18:19.
12. Hvers þarf að gæta á vinnustað í sambandi við vitnisburð um Guðsríki?
12 Þótt kristnir menn vilji kunngera fagnaðarerindið um ríki Guðs þeim sem ekki eru í trúnni, ættu þeir á vinnustað að gæta þess að gera það aðeins á þeim tíma sem við á. (Prédikarinn 3:1, 7) Í vinnutíma ætti aðeins að gera það með samþykki vinnuveitanda. Að öðrum kosti gæti vinnuveitandi tekið það illa upp og það gæti komið óorði á Jehóva og þjóna hans. (1. Tímóteusarbréf 6:1) Hægt er að nota aðrar stundir, svo sem kaffi- og matarhlé, til að bera vitni. Þegar nokkrir vottar vinna á sama vinnustað ættu þeir ekki að vera að tala saman um guðræðisleg málefni þegar þeir ættu að vera að vinna.
Gáð að viðhorfum
13. Hvernig litu Páll og gestgjafar hans í Korintu á veraldlegt starf sitt?
13 Þegar Páll postuli var í Korintu átti hann viðskiptaleg tengsl við kristna gestgjafa sína, Akvílas og Priskillu. (Postulasagan 18:1-3) Þau unnu til að sjá sér farborða, en það var í öðru sæti miðað við fremsta markmið þeirra — það að efla tilbeiðsluna á Jehóva. Greinilega var ekki hægt að saka þau um að „skoða guðhræðsluna sem gróðaveg“ í efnalegu tilliti. (1. Tímóteusarbréf 6:5) Öll þrjú hlutu ríkulega blessun af Jehóva og Biblían lýkur á þau lofsorði. — Rómverjabréfið 16:3-5.
14. (a) Hvers vegna er gott að athuga hvatir sínar og fyrirætlanir áður en farið er út í áhætturekstur? (b) Hvernig leystu þrír vottar úr ágreiningi sín á milli?
14 Kristinn maður getur forðast margs kyns erfiðleika með því að athuga hvatir sínar og ástæður áður en hann leggur út í einhvers konar áhættuviðskipti. Einum getur gengið það til að vilja efla hagsmuni Guðsríkis en félaga hans að auka lífsþægindin. Annar getur viljað leggja hagnaðinn af rekstrinum í aukna fjárfestingu, til að færa út kvíarnar, en hinn getur viljað greiða þyngri skatta í stað aukinna fjárfestinga, til að reksturinn verði ekki of viðamikill. Í einu landi stofnuðu þrír vottar Jehóva, sem líka eru tengdir blóðböndum, fyrirtæki í sameiningu. Með tímanum urðu skiptar skoðanir hjá þeim um það í hvaða mæli þeir vildu leggja tíma sinn og krafta í fyrirtækið. Sameiginleg lausn þeirra var sú að skipta fyrirtækinu og viðskiptavinum þess á milli sín. Með þeim hætti bæði varðveittu þeir sín andlegu tengsl og samband sem ættingjar. Þeir höfðu farið að því ráði Biblíunnar að ‚keppa eftir því sem til friðarins heyrir og hinnar sameiginlegu uppbyggingar.‘ — Rómverjabréfið 14:19.
15. Hvers vegna þurfum við sérstaklega að gæta að hvötum okkar í sambandi við peninga?
15 Sérstaka aðgát skyldi hafa varðandi viðhorf okkar til peninga. „Áreiðanlegur maður blessast ríkulega,“ segir Biblían, „en sá sem fljótt vill verða ríkur, sleppur ekki við refsingu.“ (Orðskviðirnir 28:20) Með því að ‚vilja fljótt verða ríkur‘ getur kristinn maður orðið blindur gagnvart því sem er miklu dýrmætara — kristnu bræðrafélagi sínu. Það getur valdið sundrungu í söfnuðinum því að aðrir geta tekið illa upp að hann skuli setja peninga ofar hagsmunum Guðsríkis. Því aðvarar Biblían: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun. Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjáfum sér mörgum harmkvælum.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.
16. Hvers þarf að gæta í sambandi við öll viðskipti?
16 „Fégirndin“ getur meðal annars leitt kristinn mann á villigötur með því að freista hans til að taka upp viðskiptahætti sem eru siðferðilega rangir eða hreinlega óheiðarlegir. Þegar annar kristinn maður á viðskiptatengsl við slíkan mann getur það valdið óeiningu. Og slíkt hátterni stofnar í voða sambandi mannsins við Jehóva. Til að viðskiptatengsl geti gengið snurðulaust fyrir sig er mikilvægt að hafa í huga að svik í viðskiptum ‚eru Jehóva andstyggð.‘ (Orðskviðirnir 11:1; 20:23) Kristnir menn vilja frekar geta sagt eins og Pál postuli: „Vér erum þess fullvissir, að vér höfum góðan samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel.“ — Hebreabréfið 13:18.
Vandamál í viðskiptum leyst
17. Hvernig er hægt að leysa minniháttar ágreining í viðskiptum?
17 Þegar bræður eiga viðskiptatengsl sín á milli geta komið upp vandamál. Sum smávægileg vandamál er hægt að leysa einfaldlega með því að fara eftir meginreglunni í 1. Pétursbréfi 4:8. Þar segir: „Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda.“ Þótt ekki sé hægt að leysa vandamál með þeim hætti á aldrei að leyfa þeim að grafa um sig og versna. Það gæti leitt til þess að félagar í viðskiptum glati virðingu sinni hvor fyrir öðrum og upp úr vináttu þeirra slitni. Lausnin er oft fólgin í vingjarnlegum, hreinskilnislegum samræðum áður en málið kemst á alvarlegt stig. Orð Guðs ráðleggur okkur að setja niður deilur fljótt. — Matteus 5:23-25; Efesusbréfið 4:26, 27.
18. Hvað getur kristinn maður gert ef hann álítur sig hafa orðið fyrir alvarlegum rangindum í viðskiptum af hálfu trúbróður?
18 Ef kristinn maður álítur samt sem áður að trúbróðir hans hafi gert alvarlega á hlut hans í viðskiptum ætti að fylgja nákvæmlega þeim skrefum sem útlistuð eru í Matteusi 18:15-17. Fyrsta skrefið eða fyrstu tvö ættu að duga til að leysa málið. Ef ekki, þarf að stíga þriðja skrefið sem felst í að hinir útnefndu öldungar taki málið til athugunar. Ef svo færi myndu öldungarnir vara bræðurna eindregið við því að fara í málaferli hvor gegn öðrum. Málaferli gegn trúbróður væru, eins og Páll orðaði það, „algjör ósigur ykkar sem kristinna manna.“ Hann bætti við: „Hví líðið þér ekki heldur órétt? Hví látið þér ekki heldur hafa af yður?“ (1. Korintubréf 6:1-8, Lifandi orð, Ísl. bi. 1981.) Betra væri að tapa fé en að leiða smán yfir nafn Jehóva og söfnuðinn og spilla einingu okkar með því að leiða trúbróður fyrir rétt. Þótt ekki sé farið með málið fyrir rétt geta að sjálfsögðu einhverjar aðgerðir af hálfu safnaðarins verið nauðsynlegar ef óheiðarleiki hefur átt sér stað.
19. Hvaða ágæt dæmi úr Biblíunni geta öldungar bent á þegar þeir gefa ráð til að leysa ágreiningsatriði?
19 Þegar öldungarnir ráða heilt þeim sem eiga í missætti vegna viðskipta ættu þeir að benda á hið óeigingjarna fordæmi Abrahams þegar samband hans við Lot var í hættu. Þótt Abraham væri eldri leyfði hann Lot fúslega að velja sér land á undan í stað þess að hætta á að samband þeirra spilltist. (1. Mósebók 13:5-11) Öldungarnir ættu líka að benda á hið góða fordæmi Sakkeusar. Hann var fús til að gefa fátækum helming eigna sinna og nota hinn helminginn til að endurgreiða fjórfalt þeim sem hann hafði haft fé af með rangindum. — Lúkas 19:1-10; sjá einnig 1. Korintubréf 10:24.
20, 21. Hvað þarf að hafa efst í huga varðandi veraldlegt starf?
20 Það er lofsvert þegar kristnir menn leysa ágreiningsmál í viðskiptum með því að fylgja grandgæfilega leiðbeiningum Biblíunnar! Þannig varðveita þeir einingu sína jafnvel þótt áhætturekstur mistakist. Þannig fer þegar við höfum alltaf efst í huga að hjá kristnum mönnum ganga hagsmunir Guðsríkis og bróðurleg eining alltaf fyrir veraldlegu starfi. Gott er þegar hægt er að hagræða atvinnu og rekstri með þeim hætti að meiri tími gefist til þeirra mikilvægu mála sem varða starf Guðsríkis. — Matteus 6:33; samanber Filippíbréfið 1:9, 10.
21 Það sem mestu skiptir í lífi okkar er því samband okkar við Jehóva og hið kristna bræðrafélag. (Matteus 22:36-39) Megum við aldrei láta veraldleg áhrif eða viðskipti spilla því, vegna þess að ekkert í heiminum getur staðist samjöfnuð við samband okkar við Jehóva eða fegurð hins sameinaða bræðrafélags!
Spurningar til upprifjunar
◻ Hvernig getur hlýðni við orð Guðs eflt tengsl þeirra sem stunda viðskipti eða rekstur saman?
◻ Hvers vegna er hyggilegt að ganga formlega frá mikilvægum samningum?
◻ Hvernig geta kristnir menn sýnt hver öðrum virðingu á vinnustað?
◻ Hvers vegna ættum við að skoða hvatir okkar í tengslum við viðskipti?
◻ Hvaða viðhorf ætti að hafa þegar leysa þarf ágreiningsmál í viðskiptum?
[Mynd á blaðsíðu 14]
Abraham staðfesti jarðarkaup með formlegum samningi við Efron.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Atvinna hafði minniháttar þýðingu fyrir Pál, Akvílas og Priskillu.