Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 6.98 bls. 3-6
  • Annast um eigur húsbóndans

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Annast um eigur húsbóndans
  • Ríkisþjónusta okkar – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Kristin ráðsmennska
  • „Sá trúi og hyggni ráðsmaður“
  • Breyttar áherslur
  • Nýjar þarfir skipulagsins
  • Þættir sem vógu þungt
  • Annast um eigurnar
  • Þér er treyst fyrir ráðsmennsku
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2012
  • Vissir þú?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2019
  • Biblíurit framleidd til að lofa Guð
    Vottar Jehóva — sameinaðir í að gera vilja Guðs um allan heim
Ríkisþjónusta okkar – 1998
km 6.98 bls. 3-6

Annast um eigur húsbóndans

1 Á biblíutímanum gegndi ráðsmaður miklu trúnaðarstarfi. Abraham fól ráðsmanni sínum að finna eiginkonu handa syninum Ísak. (1. Mós. 24:1-4) Ráðsmaðurinn átti í reynd að tryggja að ætt Abrahams héldist við. Það var ekki lítil ábyrgð! Það er engin furða að Páll postuli skuli hafa sagt: „Nú er þess krafist af ráðsmönnum, að sérhver reynist trúr.“ — 1. Kor. 4:2.

Kristin ráðsmennska

2 Biblían kallar suma þætti kristinnar þjónustu ráðsmennsku. Páll postuli ræddi til dæmis við Efesusmenn um „þá ráðstöfun [„ráðsmennsku,“ NW] Guðs náðar, sem hann fól mér hjá yður.“ (Ef. 3:2; Kól. 1:25) Hann leit á umboð sitt til að færa þjóðunum fagnaðarerindið sem ráðsmennsku er hann varð að rækja af trúfesti. (Post. 9:15; 22:21) Pétur postuli skrifaði smurðum bræðrum sínum: „Verið gestrisnir hver við annan án möglunar. Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.“ (1. Pét. 4:9, 10; Hebr. 13:16) Allt sem þessir frumkristnu menn áttu í efnislegu tilliti var tilkomið vegna óverðskuldaðrar góðvildar Jehóva. Þeir voru því ráðsmenn þess sem þeir áttu og þurftu að nota það á kristilegan hátt.

3 Vottar Jehóva líta málin svipuðum augum núna. Þeir hafa vígt sig Jehóva Guði og líta á allt sem þeir eiga — líf sitt, líkamskrafta og efnislegar eigur — sem ávöxt „margvíslegrar náðar Guðs.“ Þeir eru góðir ráðsmenn og finna til ábyrgðar frammi fyrir Jehóva Guði í því hvernig þeir nota þessa hluti. Auk þess hafa þeir fengið þekkingu á fagnaðarerindinu. Þeir vilja nota þessa þekkingu, sem þeim hefur verið trúað fyrir, á sem bestan hátt: til að mikla nafn Jehóva og hjálpa öðrum að komast til þekkingar á sannleikanum. — Matt. 28:19, 20; 1. Tím. 2:3, 4; 2. Tím. 1:13, 14.

4 Hvernig gegna vottar Jehóva ráðsmennsku sinni? Ársskýrslan sýnir að á síðastliðnu ári vörðu þeir meira en milljarði klukkustunda til að boða ‚fagnaðarerindið um ríkið‘ og stjórnuðu meira en 4.500.000 heimabiblíunámskeiðum með áhugasömu fólki. (Matt. 24:14) Trúfesti þeirra sem ráðsmanna Jehóva birtist líka í rausnarlegum framlögum til alþjóðastarfsins og reksturs ríkissala, í gestrisni gagnvart farandumsjónarmönnum og öðrum og í einstakri góðvild í garð þurfandi manna — svo sem fórnarlamba stríðsátaka. Sannkristnir menn sem hópur annast vel um eigur húsbóndans.

„Sá trúi og hyggni ráðsmaður“

5 Ráðsmennska er ekki bara bundin við einstaklinga heldur líka skipulagið í heild. Jesús kallaði hinn smurða kristna söfnuð á jörð ‚þann trúa og hyggna ráðsmann.‘ (Lúk. 12:42) Þessi ‚trúi ráðsmaður‘ ber ábyrgð á að framreiða „skammtinn“ og taka forystuna í alþjóðlegri prédikun fagnaðarerindisins. (Opinb. 12:17) Í því sambandi hefur hinn trúi ráðsmannshópur, sem hið stjórnandi ráð er fulltrúi fyrir, þá ábyrgð frá Guði að hugsa vel um efnislegar og andlegar „talentur“ sínar. (Matt. 25:15) Í samræmi við fordæmi ‚trúa ráðsmannsins‘ leggur sérhver deildarskrifstofa sig fram um að nota öll fjárframlög á ábyrgan hátt til að efla hagsmuni Guðsríkis. Öll slík framlög eru í fjárvörslu ‚hins trúa ráðsmanns‘ sem á að tryggja að þau séu notuð eins og til er ætlast — viturlega, af hagsýni og á áhrifaríkan hátt.

6 Gott dæmi um viturlega notkun framlaga er vöxtur útgáfustarfs votta Jehóva á 20. öldinni. Dreifing biblía og biblíurita — blaða, bóka, bæklinga, smárita og Guðsríkisfrétta — hefur gegnt stóru hlutverki í útbreiðslu ‚fagnaðarerindisins‘ á þessum „síðustu dögum.“ (Mark. 13:10; 2. Tím. 3:1) Og tímaritið Varðturninn hefur verið helsta boðleið ‚matar á réttum tíma‘ til ‚heimamanna Guðs‘ og félaga þeirra af hinum ‚mikla múgi‘ ‚annarra sauða.‘ — Matt. 24:45; Ef. 2:19; Opinb. 7:9; Jóh. 10:16.

7 Upphaflega voru öll rit votta Jehóva prentuð í veraldlegum prentsmiðjum. En á þriðja áratug aldarinnar komust þjónar Jehóva að raun um að það væri skilvirkara og hagstæðara andlega séð að þeir sæju sjálfir um prentunina. Prentun hófst í litlum mæli árið 1920 í Brooklyn í New York og varð síðan mjög umfangsmikil. Árið 1967 spönnuðu prentsmiðjurnar fjórar húsatorfur. Prentun hafði líka farið af stað í öðrum löndum en síðari heimsstyrjöldin hafði raskað prentstarfseminni víðast hvar.

8 En þótt prentstarfsemin í Bandaríkjunum ykist mikið varð hún aldrei nógu mikil til að sjá öllum heiminum fyrir ritum. Eftir stríðið var prentun komið á laggirnar eða var þegar í gangi í mörgum öðrum löndum, meðal annars Danmörku, Englandi, Grikklandi, Kanada, Suður-Afríku, Sviss og Vestur-Þýskalandi. Snemma á áttunda áratugnum bættust Ástralía, Brasilía, Filippseyjar, Finnland, Gana, Japan og Nígería við listann. Sum þessara landa prentuðu líka innbundnar bækur. Og í byrjun áttunda áratugarins voru Gíleaðtrúboðar enn fremur þjálfaðir í prenttækni og sendir til sumra þessara landa til að hjálpa bræðrum þar við prentun.

9 Á níunda áratugnum voru blöðin prentuð í 51 landi þegar mest var.a Eigum húsbóndans hafði verið vel varið. Þetta var augljós vísbending þess að boðunarstarf Guðsríkis hefði vaxið og öflugt vitni um dyggan stuðning milljóna einstakra votta Jehóva sem ‚tignuðu Jehóva með eigum sínum‘! (Orðskv. 3:9) Þeir sönnuðu þannig að þeir væru góðir ráðsmenn þeirra margvíslegu blessunar sem Jehóva hafði veitt þeim.

Breyttar áherslur

10 Á áttunda og níunda áratugnum urðu gríðarlegar framfarir í prenttækni og vottar Jehóva tileinkuðu sér nýrri prentaðferðir. Áður höfðu þeir notast við hinar hefðbundnu leturprentvélar. Smám saman breyttist það og þeir fóru að taka upp hina nútímalegu offsetprentun. Fyrir vikið eru nú gefin út falleg, myndskreytt rit í öllum litum í stað tveggja lita áður (svörtu og einum öðrum lit) eins og var á gömlu leturprentvélunum. Með tilkomu tölvutækninnar breyttist síðan öll undirbúningsvinnan fyrir prentun. Vottar Jehóva þróuðu tölvustýrt fjöltungna ljóssetningarkerfi (MEPS) sem nú undirbýr prentun á meira en 370 tungumálum. Enginn tölvuhugbúnaður er fáanlegur á markaðinum sem ræður við jafnmörg tungumál og MEPS-kerfið.

11 Með hjálp MEPS-tölvutækninnar og annarra tækninýjunga, svo sem tölvupósts, var stigið annað stórt skref fram á við til að sjá fyrir mat á réttum tíma. Meðan stuðst var við gömlu tæknina birtist efni í blöðunum á öðrum tungumálum mánuðum eða jafnvel heilu ári á eftir ensku útgáfunni. Núna kemur Varðturninn út samtímis á 115 tungumálum og Vaknið! á 62. Það þýðir að um 95 af hundraði viðstaddra í hinu vikulega Varðturnsnámi votta Jehóva fara yfir sama efni á sama tíma. Það hefur reynst mikil blessun! Eigum húsbóndans var vissulega vel varið með því að fjárfesta í allri þessari nýju tækni!

Nýjar þarfir skipulagsins

12 Þessi nýju prentkerfi breyttu skipan prentstarfsemi votta Jehóva um allan heim. Enda þótt offsetprentvélarnar séu mun hraðvirkari en gömlu leturprentvélarnar eru þær að sama skapi mun dýrari. Tölvukerfi fyrir greinaskrif, þýðingar, myndvinnslu og teiknun bjóða upp á miklu fleiri möguleika en gömlu kerfin en eru líka dýrari. Brátt varð ljóst að það svaraði ekki lengur kostnaði að prenta blöðin í 51 landi. Á tíunda áratugnum endurmat ‚trúi ráðsmaðurinn‘ því stöðuna. Hver varð útkoman?

13 Athuganir gáfu til kynna að ‚eigunum,‘ sem vottar Jehóva og vinir þeirra lögðu fram, væri betur varið með því að sameina prentstarfsemina. Deildarskrifstofum, sem önnuðust prentun, var því smám saman fækkað. Þýskaland hefur tekið við prentun blaða og rita fyrir fjölda landa í Austur- og Vestur-Evrópu, þar með talin sum lönd sem áður sáu um eigin prentun. Ítalía sér nokkrum Afríkulöndum og Suðaustur-Evrópu fyrir blöðum og ritum, meðal annars Grikklandi og Albaníu. Í Afríku hefur blaðaprentun verið takmörkuð við Nígeríu og Suður-Afríku. Sams konar sameining hefur átt sér stað víða um heim.

Þættir sem vógu þungt

14 Í júlí 1998 verður blaðaprentun með öllu hætt í nokkrum Evrópulöndum, meðal annars í Austurríki, Danmörku, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi og Sviss. Megnið af prentuninni fyrir Evrópu fer þá fram í Bretlandi, Finnlandi, Ítalíu, Spáni, Svíþjóð og Þýskalandi. Með þessu móti verður hægt að komast hjá óþörfum útgjöldum og nýta framlög betur til alþjóðastarfsins. Hvernig var ákveðið hvaða lönd skyldu halda áfram prentun og hvaða lönd skyldu hætta prentun? Í samræmi við umboð sitt að fara viturlega með eigur húsbóndans ígrundaði ‚trúi ráðsmaðurinn‘ vandlega hagkvæmni þess að prenta á hverjum stað.

15 Það voru fyrst og fremst hagkvæmnisjónarmið sem réðu því að prentun var hætt í sumum löndum og hún sameinuð öðrum. Það er miklu hagkvæmara að láta eitt land annast prentun rita fyrir nokkur lönd og tækjakosturinn nýtist betur. Prentun fer nú fram þar sem kostnaður er lægri, efni fáanleg og flutningar greiðir. Þannig eru eigur húsbóndans notaðar rétt. Þótt prentun hætti í einu landi þýðir það vitaskuld ekki að prédikunarstarfið þar stöðvist. Það verður enn til ríkulegt framboð af ritum og hin hundruð þúsunda votta Jehóva í þessum löndum geta haldið áfram af kostgæfni að ‚boða‘ nágrönnum sínum „frið.“ (Ef. 2:17) En það er fleira sem hlotist hefur af þessari endurskipulagningu.

16 Sem dæmi um ávinning má nefna að flestar af nýlegu prentvélunum í Danmörku, Grikklandi, Hollandi og Sviss voru sendar til Filippseyja og Nígeríu. Hæfir prentarar frá Evrópulöndunum þáðu boð um að fylgja prentvélunum og þjálfa innfædda bræður í notkun þeirra. Nú fá þessi lönd tímarit í sama háa gæðaflokki og önnur lönd hafa haft.

17 Hugleiðið annan ávinning: Þau fáu lönd þar sem prentun fer fram bera nú kostnaðinn af blaðaprentuninni. Fyrir vikið hefur verið hægt að ráðstafa fé til annarra hluta í löndum þar sem prentun hefur verið hætt, svo sem til byggingar ríkissala og til að hjálpa bræðrum okkar í fátækari löndum. Með því að nota eigur húsbóndans skynsamlega hefur verið hægt að heimfæra orð Páls til Korintumanna betur á alþjóðavísu: „Ekki svo að skilja, að öðrum sé hlíft, en þrengt sé að yður, heldur er það til þess að jöfnuður verði. Nú sem stendur bætir gnægð yðar úr skorti hinna, . . . og þannig verði jöfnuður.“ — 2. Kor. 8:13, 14.

18 Sameining prentstarfseminnar hefur tengt votta Jehóva nánari böndum en nokkru sinni fyrr. Það er engum vandkvæðum bundið fyrir vottana í Danmörku að láta prenta blöðin sín í Þýskalandi þótt þeir hafi séð sjálfir um prentun þeirra áður. Þeir eru þýskum bræðrum sínum þakklátir fyrir þjónustuna. Taka vottar Jehóva í Þýskalandi því illa að framlög þeirra skuli notuð til að framleiða biblíurit fyrir Danmörku — eða Rússland, Úkraínu og önnur lönd? Vitaskuld ekki! Þeir fagna því að framlög bræðra þeirra í þessum löndum geta nú runnið til annarra þarfra mála.

Annast um eigurnar

19 Í öllum ríkissölum votta Jehóva um allan heim er framlagabaukur merktur „Framlög til alþjóðastarfs Félagsins. — Matteus 24:14.“ Frjáls framlög, sem látin eru í þessa bauka, eru notuð hvar sem þeirra er þörf. ‚Trúi ráðsmaðurinn‘ ákveður hvernig framlögunum er varið. Peningar, sem látnir eru í framlagabauk í einu landi, geta því stutt starfsemi votta Jehóva í öðru landi, þúsundum kílómetra í burtu. Framlög hafa verið notuð til að veita neyðaraðstoð trúbræðrum sem hafa orðið illa úti til dæmis í fellibyljum, skýstrókum, jarðskjálftum og borgarastyrjöldum. Og slík framlög eru notuð til að sjá fyrir trúboðum í meira en 200 löndum.

20 Í söfnuðum votta Jehóva gildir sú almenna regla að aðeins er minnst á fjármál einu sinni á mánuði — og þá bara í fáeinar mínútur. Engin samskot fara fram í ríkissölum eða á mótum. Engar peningabeiðnir eru sendar til einstaklinga og engir ráðnir til að afla fjár. Yfirleitt er aðeins ein grein á ári í Varðturninum þar sem útskýrt er hvernig þeir sem vilja geta gefið framlög til Varðturnsfélagsins og stutt alþjóðastarfið. Það er að jafnaði aldrei minnst á fjármál Félagsins í Vaknið! Hvernig hefur þá verið unnt að vinna hið gríðarlega starf að prédika fagnaðarerindið um allan heim, byggja nauðsynlega ríkissali, annast þá sem þjóna í sérstöku fullu starfi og veita nauðstöddum kristnum mönnum aðstoð? Jehóva hefur blessað fólk sitt á stórkostlegan hátt með örlætisanda. (2. Kor. 8:2) Við viljum nota tækifærið og þakka öllum sem hafa átt þátt í að ‚tigna Jehóva með eigum sínum.‘ Þeir geta verið vissir um að ‚trúi ráðsmaðurinn‘ haldi áfram að gæta eigna húsbóndans. Og við biðjum að Jehóva haldi áfram að blessa allar ráðstafanir til að færa út kvíar alþjóðastarfsins.

[Neðanmáls]

a Í sjö þessara landa sáu veraldleg fyrirtæki um prentunina.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila