Jesús, fyrirmynd til að líkja eftir
„Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ — 1. PÉTURSBRÉF 2:21.
1, 2. Hvers konar lærisveinn var Pétur meðan hann þjónaði með Jesú?
UM þriggja og hálfs árs skeið naut Símon, einnig nefndur Kefas eða Pétur, þeirra sérréttinda að vera í nánum félagsskap við Krist Jesú. (Jóhannes 1:35-42) Eftir að hafa verið lærisveinn hans í um það bil eitt ár var hann valinn sem einn postulanna tólf. (Markús 3:13-19) Frásögur guðspjallanna sýna okkur að Pétur var djarfur, fljóthuga og þróttmikill. Það var hann sem sagðist aldrei myndu afneita Kristi, hvað sem það kostaði. Þegar á reyndi afneitaði hann honum þrívegis eins og Jesús hafði sagt fyrir. — Matteus 26:31-35; Markús 14:66-72.
2 Það var líka Pétur postuli sem sagði við Jesú: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Þegar Jesús áminnti hann fór hann út í hinar öfgarnar og sagði: „Herra, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið.“ (Jóhannes 13:1-17) Það var hinn sami Símon Pétur sem sýndi hugrekki þegar Jesús var handtekinn, dró sverð sitt úr slíðrum og sneið af hægra eyra Malkusar, þjóns æðsta prestsins. Það kostaði líka ávítur frá Jesú: „Sting sverðinu í slíðrin. Á ég ekki að drekka kaleikinn, sem faðirinn hefur fengið mér?“ — Jóhannes 18:10, 11.
3. Hvað getum við lært af fordæmi Péturs?
3 Hvað segja þessi atvik og önnur okkur um Pétur? Að mjög oft hugsaði hann ekki eins og Jesús og hafði ekki alltaf hugarfar Krists. Eins er það oft með okkur. Við skoðum ekki alltaf málin með sama hugarfari og Kristur. Ófullkomleiki okkar kemur okkur stundum til að bregðast rangt við. — Lúkas 9:46-50; Rómverjabréfið 7:21-23.
4. Hvaða atburðir höfðu síðar áhrif á hugsunarhátt Péturs? (Sjá Galatabréfið 2:11-14.)
4 Ýmislegt fór þó að breytast hjá Pétri frá og með hvítasunnunni. Knúinn af heilögum anda gekk hann fram fyrir skjöldu í prédikunarstarfinu meðal Gyðinga í Jerúsalem. (Postulasagan 2.-5. kafli) Vegna upplýsingar heilags anda leiðrétti hann líka hugsun sína svo að hann hefði hugarfar Krists gagnvart heiðingjum. (Postulasagan 10. kafli) Pétur var auðmjúkur, en það er eiginleiki sem er okkur nauðsynlegur ef við viljum lifa í samræmi við hugarfar Krists. — Matteus 18:3; 23:12.
Þeir þekktu hann þótt þeir hefðu ekki séð hann
5, 6. Er það að við höfum aldrei séð Krist hindrun fyrir því að fylgja fordæmi hans?
5 Þegar Pétur skrifaði hið fyrra innblásna bréf sitt um árið 62-64 hafði hann haft tækifæri til að líta um öxl og rifja upp þjónustu sína með Jesú og skilja betur hugarfar hans. Snemma í bréfi sínu nefnir postulinn að flestir bræðranna í Litlu-Asíu hafi aldrei þekkt Jesú persónulega eins og hann. Hafði það hindrað að þeir gætu tileinkað sér hugarfar Krists og líkt eftir fordæmi hans? Pétur segir: „Þér hafið ekki séð hann, en elskið hann þó. Þér hafið hann ekki nú fyrir augum yðar, en trúið samt á hann og fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði, þegar þér eruð að ná takmarki trúar yðar, frelsun sálna yðar.“ — 1. Pétursbréf 1:8, 9.
6 Orð Péturs ættu að eiga jafn vel við alla þjóna Jehóva núna. Við höfum ekki þekkt Krist persónulega, en ef við ‚könnum og rannsökum vandlega,‘ eins og spámennirnir, þá getum við tileinkað okkur hugarfar Krists í ríkari mæli. — 1. Pétursbréf 1:10, 11.
Jesús, hin fullkomna fyrirmynd
7, 8. (a) Hvaða almenn ráð gefur Pétur í fyrra bréfi sínu? (b) Hver er grunnmerking orðsins hypogrammos? Hvernig notar Pétur það?
7 Með gleggri skilningi á hugarfari Jesú og vegna leiðsagnar heilags anda gat Pétur ráðið trúbræðrum sínum heilt um það hvernig þeir gætu haft hugarfar Krists við mismunandi kringumstæður. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Þannig hvetur hann alla kristna menn sem „gesti og útlendinga“ til að halda sér frá holdlegum girndum. Hann hvetur þá til góðrar breytni í daglegu lífi, þótt þeir kunni að þjást fyrir réttlætis sakir. — 1. Pétursbréf 2:11, 12.
8 Nokkru síðar í bréfinu notar Pétur líkingu og segir: „Ef þér sýnið þolgæði, er þér líðið illt, þótt þér hafið breytt vel, það aflar velþóknunar hjá Guði. Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ (1. Pétursbréf 2:20, 21) Það er gríska orðið hypogrammos sem hér er þýtt „fyrirmynd.“ Bókstaflega merkir það „undirskrift“ eða „forskrift, þar á meðal allir stafir stafrófsins, gefin byrjendum sem hjálp við skriftarkennslu.“ (A Greek-English Lexicon of the New Testament eftir J. H. Thayer) Skólabörnum var stundum fengið vaxborið spjald sem kennarinn hafði skrifað á stafi stafrófsins. Nemandinn átti síðan að fylgja forskriftinni og reyna að gera með griffli nákvæma eftirmynd fyrir neðan. Pétur notar hér góða líkingu og er einasti ritari Grísku ritninganna sem notar orðið hypogrammos. Hann undirstrikar þar með þá staðreynd að Jesús gaf fylgjendum sínum fullkomna fyrirmynd.
9. Hvað er fólgið í gríska orðinu sem þýtt er „hugarfar“? (Samanber Matteus 20:28.)
9 Síðar dregur Pétur lærdóm fyrir okkur af þolgæði Krists þegar hann þjáðist. „Eins og því Kristur leið líkamlega, svo skuluð þér og herklæðast sama hugarfari [á grísku: ennoian].“ (1. Pétursbréf 4:1) Aftur notar Pétur óvenjulegt orð, ennoia, sem aðeins kemur tvisvar fyrir í Grísku ritningunum. (Sjá Hebreabréfið 4:12, The Kingdom Interlinear Translation.) Að því er J. H. Thayer segir merkir ennoia „huga, skilning, vilja, hugsunarhátt og tilfinningu.“ Þess vegna verðum við að stilla hugsun okkar og tilfinningar eftir fyrirmynd Krists. En hvernig getum við gert það og í hvaða mæli ættum við að gera það?
10. Hvað á Pétur við með orðinu ‚herklæðist‘?
10 Pétur notar með sérstæðum hætti grísku sögnina hoplisasþe sem merkir ‚að vopnbúast sem hermaður.‘ Hermaður, sem vopnbýst með hálfum huga, er ekki líklegur til að halda lengi út í bardaga. Orð Péturs gefa til kynna að við megum ekki vera hálfvolg í því að líkja eftir hugarfari Jesú. Löngun okkar til að hafa ‚hugarfar‘ Krists verður að vera heilshugar. (1. Pétursbréf 4:1) Það minnir okkur á hvernig Páll lagði áherslu á að kristinn maður yrði að ‚klæðast alvæpni Guðs‘ til að geta staðið öruggur á móti Satan og heimi hans. — Efesusbréfið 6:11-18.
Eiginkonur og hugarfar Krists
11. Hvaða leiðbeiningar gefur Pétur kristnum eiginkonum?
11 Um miðbik bréfs síns beinir Pétur athygli sinni að hjónum. Í heiðnum heimi fortíðar, þar sem konur höfðu sáralítil réttindi, var afar erfitt fyrir kristna eiginkonu að varðveita ráðvendni ef maður hennar var ekki í trúnni. Hann gat kallað hana öllum illum nöfnum, misþyrmt og jafnvel skilið við hana fyrir þá sök að hún hafði snúið baki við guðum forfeðra sinna. Ástandið er lítið frábrugðið núna. En Pétur leggur aftur áherslu á mikilvægi þess að hafa hugarfar Krists, vera fús til að þjást vegna réttlætisins. Hann segir: „Eins [og Kristur, lýst í versunum á undan] skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna, þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun.“ — 1. Pétursbréf 3:1, 2.
12. (a) Hvernig endurspeglar eiginkona hugarfar Jesú með undirgefni og hógværum anda? (1. Korintubréf 11:3) (b) Hvernig lítur Guð á hógværan anda hennar og hvaða áhrif getur það haft á mann hennar?
12 Já, stundum er hægt að ávinna eiginmann, sem ekki er í trúnni, ekki með linnulausri prédikun heldur „grandvöru“ líferni og „djúpri virðingu“ undirgefinnar eiginkonu. (1. Pétursbréf 3:2, NW) Hinn ‚huldi maður hjartans, sem er dýrmætur í augum Guðs,‘ getur líka hjálpað manni hennar að koma auga á hvaða afleiðingar það hefur í daglegu lífi að tileinka sé hugarfar Krists. (1. Pétursbréf 3:4) Hvers vegna endurspeglar þessi hógværi andi hugarfar Jesú? Vegna þess að Jesús sagði sjálfur: „Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ — Matteus 11:29.
Eiginmenn og hugarfar Krists
13. Hvernig á eiginmaður að koma fram við konu sína? (Efesusbréfið 5:28, 29, 33)
13 Eiginmenn verða líka að endurspegla hugarfar Krists í gegnum ást sína til kvenna sinna. Pétur áminnir þá: „Þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu.“ (1. Pétursbréf 3:7) Í augum hins heiðna heims fortíðar voru þetta furðuleg ráð — að veita konu virðingu! En kristni söfnuðurinn varð að vera ólíkur heiminum. Í kristnu hjónabandi varð að ríkja reisn og gagnkvæm virðing. — 1. Pétursbréf 4:3, 4.
14. Hvernig getur eiginmaður sýnt konu sinni virðingu og tillitssemi?
14 Kristur var alltaf tillitssamur við lærisveina sína og mannfjöldann sem fylgdi honum. (Markús 6:30-44) Það kemur vel heim og saman við þau ráð Péturs að menn skuli taka tillit til kvenlegs eðlis eiginkvenna sinna. Lifandi orð orðar þetta vers þannig: „Eiginmenn, hugsið vel um konur ykkar! Sjáið þeim fyrir þörfum þeirra og berið virðingu fyrir þeim sem hinu veikara kyni.“ Ef eiginmaður fylgir fordæmi Krists tekur hann tillit til þess að konan hans er veikbyggðari og viðkvæmari en hann á ýmsan hátt. Til dæmis getur suma daga þurft að sýna henni sérstaka væntumþykju, þolinmæði og tillitssemi. Kærleiksríkur eiginmaður sýnir þá sjálfstjórn og gerir ekki of miklar kröfur til hennar. Sannur kærleikur er fórnfús. — Samanber 3. Mósebók 15:24; 20:18; 1. Korintubréf 7:3-6.
15. Hvaða fordæmi gaf Jesús um kristna forystu?
15 Að vísu er „maðurinn . . . höfuð konunnar“ en hvað á hann að hafa sér til fyrirmyndar í því? Páll skýrir það með því að bæta við „eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, [safnaðarins].“ (Efesusbréfið 5:23) Þessi orð gefa enga heimild fyrir ráðríki og harðstjórn í kristnu hjónabandi. Kristur misnotaði sér aldrei vald sitt í samskiptum við lærisveinana heldur notaði það í samræmi við meginreglur Biblíunnar. — Samanber Matteus 16:13-17, 20; Lúkas 9:18-21.
Fyrirmynd Krists fyrir karlmenn
16. (a) Hvers vegna var Pétri mjög ljós þörfin á auðmýkt? (b) Hverjir þurfa sérstaklega að sýna þennan eiginleika?
16 Í þjónustu sinni lagði Jesús stöðugt ríka áherslu á auðmýkt og lítillæti. Í dæmisögu sinni um þá sem boðið var til brúðkaupsveislu sagði hann: „Hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“ (Lúkas 14:11) Pétur gerði sér ljósa grein fyrir hugarfari Krists í þessu efni. Mundi hann ekki hvernig Jesús hafði þvegið fætur lærisveinanna? (Jóhannes 13:4-17) Þess vegna hvetur hann bæði aldraða menn og unga til að sýna auðmýkt. Öldungar ættu ‚ekki að drottna yfir söfnuðinum heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar.‘ Ungu mennirnir ættu að vera undirgefnir öldungunum. En allir ættu þeir, bæði ungir sem aldnir, að ‚skrýðast lítillætinu hver gagnvart öðrum því að „Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð.“‘ — 1. Pétursbréf 5:1-5.
17. Hvernig leggur gríska sagnorðið, sem þýtt er „skrýðist,“ áherslu á auðmjúka þjónustu?
17 Aftur notar Pétur orð með sérstæðum hætti til að gefa orðum sínum um auðmýkt aukið vægi. Hann segir: „Skrýðist [á grísku egkombosasþe] allir lítillætinu.“ Þetta sagnorð er komið af stofni sem merkir að hnýta eða binda og er tengd „hvítri svuntu þræla sem var fest við klæðisbeltið . . . og auðkenndi þræla frá frjálsum mönnum; merkingin er því: . . . klæðið ykkur auðmýkt sem þjónustuflík . . . það er, sýnið undirgefni ykkar hver við annan með því að íklæðast auðmýkt.“ — A Greek-English Lexicon of the New Testament eftir J. H. Thayer.
18. (a) Hvað ættu vígðir karlmenn að hafa í huga varðandi áhugahvatir sínar? (b) Á hvaða vegu eru margar systur fordæmi um auðmýkt?
18 Hvernig geta vígðir, kristnir menn fylgt þessum ráðum núna? Með því að virða og viðurkenna að sérhver ábyrgðarstaða innan kristna safnaðarins felur í sér auðmjúka þjónustu við aðra. Sumir halda kannski ranglega að það að vera safnaðarþjónn, safnaðaröldungur, farandhirðir, umdæmishirðir eða umsjónarmaður á Betel sé valda- og virðingarstaða. Ef svo er hafa þeir ekki hugarfar Krists í því máli. Ekkert rúm er fyrir eigingjarna metnaðarlöngun ef við höfum hugarfar Krists. Tilefni okkar með því að þjóna Guði og bræðrum okkar verður að vera hreint. Margar kristinna systra okkar taka til dæmis forystuna í brautryðjanda- og trúboðsstarfi. Aðrar eru kostgæfir boðberar fagnaðarerindisins þrátt fyrir ofsóknir og erfiðleika á heimilinu. Allt þetta gera þær án þess að nokkur löngun til að verða safnaðarþjónn eða umsjónarmaður reki þær til verka!
Kærleikur — meginatriði fordæmis Krists
19. Hver er kjarninn í fordæmi Krists og hvernig vitum við það?
19 Hvað leggur Pétur mesta áherslu á í sambandi við hugarfar Krists? Hann skrifar: „Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda.“ (1. Pétursbréf 4:8) Hvernig lét Jesús þennan kærleika í ljós? Hann kenndi: „Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ (Jóhannes 15:12, 13) Skömmu síðar fórnaði Jesús lífi sínu í þágu mannkyns. Og sannarlega hefur kærleikur hans hulið fjölda synda! Ef við höfum í raun sama hugarfar og Jesús munum við líka hafa „brennandi kærleika hver til annars“ og vera fús til að fyrirgefa. — Kólossubréfið 3:12-14; Orðskviðirnir 10:12.
20. Hvað verðum við öll að gera ef við viljum fylgja fordæmi Krists vandlega?
20 Nota má eitt orð — kærleikur — til að lýsa í hnotskurn fordæmi Krists. Ef við fylgjum fordæmi Jesú vandlega í öllu sem við hugsum, segjum og gerum munum við líka ástunda kærleika. Eins og Pétur sagði: „Að lokum, verið allir samhuga, hluttekningarsamir, bróðurelskir, miskunnsamir, auðmjúkir. Gjaldið ekki illt fyrir illt eða illmæli fyrir illmæli, heldur þvert á móti blessið, því að þér eruð til þess kallaðir að erfa blessunina.“ — 1. Pétursbréf 3:8, 9.
Manst þú þetta?
◻ Hvernig ættum við að fylgja þeirri fyrirmynd sem Kristur gaf okkur?
◻ Hvernig ætti kristin eiginkona að fylgja fordæmi Krists?
◻ Hvernig ætti kristinn eiginmaður að heiðra konu sína?
◻ Hvernig lagði Pétur áherslu á auðmýkt?
◻ Hvert er aðalatriðið í fordæmi Jesú?
[Mynd á blaðsíðu 16]
Kennarinn skrifaði forskrift (hypogrammos) í efstu línurnar; nemandinn reyndi að gera nákvæmt eftirrit.