NÁMSGREIN 15
Varðveitum innri frið með því að líkja eftir Jesú
„Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar.“ – FIL. 4:7.
SÖNGUR 113 Friðurinn sem við njótum
YFIRLITa
1-2. Af hverju hafði Jesús áhyggjur?
JESÚS hafði miklar áhyggjur síðasta daginn sem hann var maður á jörð. Lögleysingjar áttu eftir að taka hann af lífi á grimmilegan hátt. En það var ekki aðeins dauði hans sem olli honum hugarangri. Hann elskaði föður sinn innilega og vildi þóknast honum. Jesús vissi að hann myndi eiga þátt í að hreinsa nafn Jehóva ef hann yrði trúfastur í þeirri miklu prófraun sem beið hans. Auk þess elskaði hann okkur mennina og vissi að von okkar um eilíft líf væri undir því komin að hann yrði trúr allt til dauða.
2 Jesús hafði hugarfrið þó að hann væri undir miklu álagi. „Minn frið gef ég yður,“ hafði hann sagt postulunum. (Jóh. 14:27) Hann hafði ,frið Guðs‘, þann frið og ró sem hlýst af því að eiga náið samband við Jehóva. Þessi friður sefaði huga hans og hjarta. – Fil. 4:6, 7.
3. Hvað skoðum við í þessari grein?
3 Ekkert okkar verður nokkurn tíma reynt á sama hátt og Jesús. En allir fylgjendur hans verða þó fyrir prófraunum. (Matt. 16:24, 25; Jóh. 15:20) Og stundum verðum við áhyggjufull rétt eins og hann. Hvernig getum við komið í veg fyrir að kvíði og áhyggjur ræni okkur hugarfriðinum? Skoðum þrennt sem Jesús gerði meðan hann starfaði á jörð og könnum hvernig við getum líkt eftir honum þegar við verðum fyrir prófraunum.
JESÚS BAÐ OFT OG MÖRGUM SINNUM
Við getum varðveitt innri frið með því að biðja. (Sjá 4.-7. grein.)
4. Hvaða dæmi sýna að Jesús bað oft síðustu stundirnar sem hann lifði á jörð og hvaða hvatningu fáum við í 1. Þessaloníkubréfi 5:17?
4 Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:17. Jesús bað margra bæna síðustu stundirnar sem hann lifði hér á jörð. Þegar hann stofnsetti minningarhátíðina um dauða sinn fór hann með bæn áður en hann lét brauðið og vínið ganga. (1. Kor. 11:23-25) Hann bað líka með lærisveinunum áður en þeir yfirgáfu staðinn þar sem þeir héldu hátíðina. (Jóh. 17:1-26) Þegar þeir komu í Getsemanegarðinn sama kvöld bað hann oft og mörgum sinnum. (Matt. 26:36-39, 42, 44) Jafnvel það síðasta sem Jesús sagði áður en hann dó var í bæn til Guðs. (Lúk. 23:46) Hann hafði Jehóva með í ráðum allan þennan mikilvæga dag með því að biðja til hans.
5. Hvers vegna skorti postulana kjark?
5 Ein ástæðan fyrir því að Jesús gat staðist prófraunina var sú að hann treysti á föður sinn. Það sýndi hann með því að biðja oft til hans. Postularnir voru hins vegar ekki staðfastir í bæninni kvöldið áður en Jesús dó. Fyrir vikið skorti þá kjark þegar á hólminn var komið. (Matt. 26:40, 41, 43, 45, 56) Við getum aðeins verið trúföst í raunum með því að fylgja fordæmi Jesú og biðja stöðugt. Um hvað getum við beðið?
6. Hvernig hjálpar trúin okkur að varðveita innri frið?
6 Við getum beðið Jehóva að gefa okkur meiri trú. (Lúk. 17:5; Jóh. 14:1) Við þurfum trú þar sem Satan reynir alla sem fylgja Jesú. (Lúk. 22:31) Hvernig hjálpar trúin okkur að varðveita innri frið, jafnvel þegar við þurfum að þola hverja raunina á fætur annarri? Hún auðveldar okkur að leggja málin í hendur Jehóva þegar við höfum gert allt sem við getum til að takast á við erfiðleikana. Við treystum að hann geti tekið betur á málunum en við gætum nokkurn tíma gert og höfum þess vegna frið í huga og hjarta. – 1. Pét. 5:6, 7.
7. Hvað lærðir þú af Robert?
7 Bænin hjálpar okkur að varðveita innri frið sama hvaða raunum við verðum fyrir. Tökum Robert sem dæmi, en hann er trúfastur öldungur á níræðisaldri. Hann segir: „Ráðin í Filippíbréfinu 4:6, 7 hafa hjálpað mér í gegnum margar raunir á ævinni. Ég hef þurft að takast á við fjárhagserfiðleika. Og um tíma gat ég ekki verið öldungur.“ Hvað hefur hjálpað Robert að varðveita innri frið? „Ég fer með bæn um leið og áhyggjur gera vart við sig,“ segir hann. „Því oftar og ákafar sem ég bið því meiri friði finn ég fyrir.“
JESÚS VAR KAPPSAMUR BOÐBERI
Við getum varðveitt innri frið með því að boða trúna. (Sjá 8.-10. grein.)
8. Hvaða ástæða er nefnd í Jóhannesi 8:29 fyrir því að Jesús gat varðveitt innri frið?
8 Lestu Jóhannes 8:29. Jesús vissi að faðir hans hafði velþóknun á honum. Þess vegna gat hann varðveitt innri frið þó að hann væri ofsóttur. Hann var alltaf hlýðinn þótt það hafi stundum verið erfitt. Hann elskaði föður sinn og allt líf hans snerist um að þjóna honum. Áður en hann kom til jarðar var hann „með í ráðum við hlið honum“. (Orðskv. 8:30) Og þegar hann var maður á jörð gerði hann sitt ýtrasta til að fræða fólk um föður sinn. (Matt. 6:9; Jóh. 5:17) Þetta starf veitti honum mikla gleði. – Jóh. 4:34-36.
9. Hvers vegna eigum við auðveldara með að varðveita innri frið þegar við erum önnum kafin við boðunina?
9 Við getum líkt eftir Jesú með því að hlýða Jehóva og vera „síauðug í verki Drottins“. (1. Kor. 15:58) Við eigum auðveldara með að sjá vandamál okkar í réttu ljósi ef við erum önnum kafin við boðunina. (Post. 18:5) Þeir sem við hittum í boðuninni eiga til dæmis oft við stærri vandamál að glíma en við. En þegar þeir fara að elska Jehóva og fylgja leiðbeiningum hans breytist líf þeirra til hins betra og þeir verða hamingjusamari. Í hvert sinn sem við verðum vitni að því verðum við enn sannfærðari um að Jehóva sjái um okkur. Þessi sannfæring hjálpar okkur að varðveita innri frið. Systir nokkur, sem hefur alla ævi glímt við þunglyndi og lítið sjálfsálit, komst að raun um það. Hún segir: „Mér finnst ég vera ánægðari og í betra jafnvægi þegar ég er önnum kafin við boðunina. Ég held að ástæðan sé sú að ég finn hvað sterkast fyrir nærveru Jehóva þegar ég boða trúna.“
10. Hvað lærðir þú af Brendu?
10 Lítum á annað dæmi. Brenda og dóttir hennar eru báðar með MS-sjúkdóminn. Brenda er bundin hjólastól og er orkulítil. Hún boðar trúna fyrst og fremst með bréfaskriftum en fer líka hús úr húsi þegar hún getur. Hún segir: „Ég fann fyrir vissum létti og gat farið að einbeita mér að boðuninni þegar ég sætti mig við að mér myndi ekki batna í þessu heimskerfi. Þegar ég boða trúna hef ég í raun ekki tíma til að hugsa um eigin áhyggjur. Ég neyðist til að einbeita mér að því að hjálpa fólki á safnaðarsvæðinu. Það minnir mig líka sífellt á von mína um framtíðina.“
JESÚS ÞÁÐI HJÁLP VINA SINNA
Við getum varðveitt innri frið með því að umgangast góða vini. (Sjá 11.-15. grein.)
11-13. (a) Hvers vegna má segja að postularnir og aðrir hafi reynst Jesú sannir vinir? (b) Hvaða áhrif höfðu vinir Jesú á hann?
11 Trúfastir postular Jesú reyndust honum sannir vinir gegnum súrt og sætt. Þeir voru lifandi dæmi um það sem segir í orðskviðinum: „Til er sá vinur sem reynist tryggari en bróðir.“ (Orðskv. 18:24) Jesús mat slíka vini mikils. Enginn hálfbræðra hans trúði á hann meðan hann starfaði hér á jörð. (Jóh. 7:3-5) Eitt sinn héldu ættingjar hans meira að segja að hann væri genginn af göflunum. (Mark. 3:21) Sömu sögu var hins vegar ekki að segja um trúa postula hans. Kvöldið áður en hann dó sagði hann við þá: „Það eruð þér sem hafið staðið með mér í freistingum mínum.“ – Lúk. 22:28.
12 Það kom fyrir að postularnir ollu Jesú vonbrigðum. En hann leit fram hjá göllum þeirra og sá að þeir trúðu á hann. (Matt. 26:40; Mark. 10:13, 14; Jóh. 6:66-69) Síðasta kvöldið áður en hann var tekinn af lífi sagði hann við þessa trúföstu menn: „Ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum.“ (Jóh. 15:15) Á því leikur enginn vafi að vinir Jesú voru honum mikil hughreysting. Það gladdi hann innilega að þeir skyldu hjálpa honum að inna þjónustu sína af hendi. – Lúk. 10:17, 21.
13 Jesús átti líka fleiri vini, bæði karla og konur, sem studdu hann við boðunina og á ýmsa aðra vegu. Sumir þeirra opnuðu heimili sín fyrir honum og gáfu honum að borða. (Lúk. 10:38-42; Jóh. 12:1, 2) Aðrir ferðuðust með honum og gáfu honum af eigum sínum. (Lúk. 8:3) Jesús átti góða vini af því að hann var sjálfur góður vinur. Hann var góður við þá og gerði ekki óraunhæfar kröfur til þeirra. Jesús var fullkominn en hann kunni að meta stuðning ófullkominna vina sinna. Við getum verið viss um að þeir hafi hjálpað honum að varðveita innri frið.
14-15. Hvernig getum við eignast góða vini og hvernig geta þeir hjálpað okkur?
14 Góðir vinir hjálpa okkur að vera Jehóva trúföst. Og besta leiðin til að eignast góða vini er að vera góður vinur. (Matt. 7:12) Biblían hvetur okkur til dæmis til að gefa af sjálfum okkur í þágu annarra, ekki síst þeirra sem eru hjálparþurfi. (Ef. 4:28) Getur þú hjálpað einhverjum í söfnuðinum? Geturðu keypt inn fyrir boðbera sem á ekki heimangengt? Geturðu eldað fyrir fjölskyldu sem berst í bökkum fjárhagslega? Kanntu að nota vefsetrið jw.org® og appið JW Library®? Geturðu þá hjálpað einhverjum í söfnuðinum að nálgast fjársjóðina sem þar er að finna? Þegar við erum önnum kafin við að hjálpa öðrum er líklegt að við verðum hamingjusamari fyrir vikið. – Post. 20:35.
15 Vinir okkar styðja okkur þegar prófraunir verða á vegi okkar og hjálpa okkur að varðveita innri frið. Þeir hjálpa okkur með því að hlusta þolinmóðir á okkur létta á hjarta okkar, rétt eins og Elíhú hlustaði á Job segja frá raunum sínum. (Job. 32:4) Við ættum ekki að ætlast til þess að vinir okkar taki ákvarðanir fyrir okkur. En það er skynsamlegt að hlusta á ráð þeirra sem byggjast á Biblíunni. (Orðskv. 15:22) Davíð konungur þáði auðmjúkur hjálp vina sinna. Við ættum sömuleiðis ekki að vera of stolt til að þiggja þá hjálp sem vinir okkar bjóða fram þegar við þurfum á henni að halda. (2. Sam. 17:27-29) Slíkir vinir eru sannkölluð gjöf frá Jehóva. – Jak. 1:17.
AÐ VARÐVEITA INNRI FRIÐ
16. Hver er eina leiðin til að hljóta innri frið, samkvæmt Filippíbréfinu 4:6, 7? Skýrðu svarið.
16 Lestu Filippíbréfið 4:6, 7. Hvers vegna segir Jehóva að við getum hlotið frið hans „í Kristi Jesú“, það er að segja með hjálp Jesú? Vegna þess að eina leiðin til að hljóta varanlegan frið í huga og hjarta er að skilja hlutverk Jesú og trúa á hann. Það er til dæmis aðeins vegna lausnarfórnar hans að við getum fengið allar syndir okkar fyrirgefnar. (1. Jóh. 2:12) Hvílíkur léttir sem það er! Sem konungur í ríki Guðs mun Jesús bæta fyrir allan þann skaða sem Satan og heimur hans valda okkur. (Jes. 65:17; 1. Jóh. 3:8; Opinb. 21:3, 4) Hvílík von sem við eigum! Og enda þótt Jesús hafi falið okkur krefjandi verkefni er hann með okkur og styður okkur á síðustu dögum þessa heimskerfis. (Matt. 28:19, 20) Hvílíkt hugrekki sem það veitir okkur! Léttir, von og hugrekki – þetta eru meðal þeirra undirstöðuatriða sem innri friður okkar byggist á.
17. (a) Hvernig geta þjónar Guðs varðveitt innri frið? (b) Hvað getum við gert eins og lofað er í Jóhannesi 16:33?
17 Hvernig geturðu þá varðveitt innri frið í erfiðum prófraunum? Með því að líkja eftir Jesú. Í fyrsta lagi skaltu halda fast í bænina sama hvað gerist. Í öðru lagi skaltu hlýða Jehóva og boða trúna af kappi, líka þegar það er erfitt. Og í þriðja lagi skaltu leita til vina þinna sem geta hjálpað þér á erfiðum tímum. Þá mun friður Guðs varðveita huga þinn og hjarta. Og líkt og Jesús muntu sigrast á hvaða prófraun sem er. – Lestu Jóhannes 16:33.
SÖNGUR 41 Heyr mínar bænir
a Við þurfum öll að glíma við vandamál sem geta rænt okkur friðinum. Í greininni er rætt um þrennt sem Jesús gerði til að varðveita innri frið og hvernig við getum gert slíkt hið sama, líka í erfiðum prófraunum.