Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.6. bls. 16-21
  • Verið innilega meðaumkunarsamir

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Verið innilega meðaumkunarsamir
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Miskunnarverk án hliðstæðu
  • Hluti nýja persónuleikans
  • Öfund — þrándur í götu meðaumkunar
  • Aðrar hindranir í vegi meðaumkunar
  • Meðaumkun með sjúkum
  • Meðaumkun með hinum veikburða
  • „Innileg samúð Guðs okkar“
    Nálgastu Jehóva
  • Líkjum eftir Jehóva og sýnum meðaumkun
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2017
  • Jehóva — Meðaumkunarsamur faðir okkar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Verum umhyggjusöm
    Ríkisþjónusta okkar – 2011
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.6. bls. 16-21

Verið innilega meðaumkunarsamir

„Íklæðist . . . hjartans meðaumkun, góðvild.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 3:12.

1. Hvers vegna er mikil þörf á meðaumkun nú á dögum?

ALDREI hafa jafnmargir þarfnast meðaumkunarsamrar hjálpar og nú. Milljónir manna eru hjálparþurfi vegna veikinda, hungurs, atvinnuleysis, glæpa, styrjalda, stjórnleysis og náttúruhamfara. En það er við enn alvarlegra vandamál að etja, það er að segja hið vonlausa andlega ástand mannkynsins. Satan, sem veit að hann hefur nauman tíma, „afvegaleiðir alla heimsbyggðina.“ (Opinberunarbókin 12:9, 12) Þess vegna eru menn í lífshættu, einkum þeir sem standa utan sannkristna safnaðarins. Biblían gefur ekki nokkra von um að þeir sem líflátnir verða á komandi dómsdegi Jehóva fái upprisu. — Matteus 25:31-33, 41, 46; 2. Þessaloníkubréf 1:6-9.

2. Af hverju hefur Jehóva beðið með að eyða hinum illu?

2 Samt sem áður heldur Jehóva Guð áfram að vera þolinmóður og meðaumkunarsamur við vanþakkláta og vonda allt fram á þennan dag. (Matteus 5:45; Lúkas 6:36, 36) Hann gerir það af sömu ástæðu og hann dró það að refsa hinni ótrúu Ísraelsþjóð. „Svo sannarlega sem ég lifi, — segir [Jehóva] Guð — hefi ég ekki þóknun á dauða hins óguðlega, heldur að hinn óguðlegi hverfi frá breytni sinni og haldi lífi. Snúið yður, snúið yður frá yðar vondu breytni! Hví viljið þér deyja, Ísraelsmenn?“ — Esekíel 33:11.

3. Hvaða dæmi höfum við um meðaumkun Jehóva við þá sem ekki tilheyrðu þjóð hans og hvað lærum við af því?

3 Jehóva sýndi hinum óguðlegu Nínívemönnum einnig meðaumkun. Hann sendi spámann sinn Jónas til að vara þá við yfirvofandi eyðingu. Þeir tóku prédikun Jónasar til sín og iðruðust. Það fékk hinn meðaumkunarsama Guð, Jehóva, til að hætta við að eyða borgina á þeim tíma. (Jónas 3:10; 4:11) Fyrst Guð vorkenndi Nínívemönnum, sem hefðu þó átt möguleika á upprisu, hversu miklu meiri meðaumkun hlýtur hann ekki að hafa með nútímamönnum sem eiga eilífa tortímingu yfir höfði sér! — Lúkas 11:32.

Miskunnarverk án hliðstæðu

4. Hvernig sýnir Jehóva fólki meðaumkun sína nú á dögum?

4 Af mikilli meðaumkun sinni hefur Jehóva falið vottum sínum að halda áfram að heimsækja nágranna sína til að flytja þeim ‚fagnaðarerindið um ríkið.‘ (Matteus 24:14) Og þegar fólk sýnir að það kann að meta þetta björgunarstarf opnar Jehóva hjörtu þess þannig að það skilur boðskapinn um Guðsríki. (Matteus 11:25; Postulasagan 16:14) Sannkristnir menn líkja eftir Guði sínum og sýna innilega meðaumkun með því að heimsækja áhugasama aftur og hjálpa þeim með biblíunámi, sé þess kostur. Þannig vörðu hátt í fimm milljónir votta Jehóva í 232 löndum meir en milljarði klukkustunda í að prédika hús úr húsi og nema Biblíuna með nágrönnum sínum árið 1994. Þeir sem nýlega hafa sýnt áhuga hafa síðan tækifæri til að vígja Jehóva líf sitt og verða skírðir vottar hans. Þar með takast þeir líka á hendur þá ábyrgð að vinna að þessu miskunnarverki í þágu væntanlegra lærisveina sem enn eru fjötraðir í deyjandi heimi Satans. — Matteus 28:19, 20; Jóhannes 14:12.

5. Hvað verður um trúarbrögð, sem gefa ranga og villandi mynd af Guði, þegar meðaumkun hans þrýtur?

5 Bráðlega mun Jehóva ganga fram sem „stríðshetja.“ (2. Mósebók 15:3) Vegna umhyggju fyrir nafni sínu og fólki mun hann sópa burt illskunni og koma á laggirnar réttlátum, nýjum heimi. (2. Pétursbréf 3:13) Kirkjur kristna heimsins verða fyrstar til að kenna á reiði Guðs. Guð mun ekki þyrma trúarstofnunum, sem hafa gefið ranga og villandi mynd af honum, frekar en hann þyrmdi sínu eigin musteri í Jerúsalem og hlífði því við hönd Babelkonungs. Guð mun leggja aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna í brjóst að eyða kristna heiminum og öllum öðrum falstrúarbrögðum. (Opinberunarbókin 17:16, 17) „Skal ég . . . ekki líta þá vægðarauga,“ lýsir Jehóva yfir, „og enga meðaumkun sýna. Ég læt athæfi þeirra þeim sjálfum í koll koma.“ — Esekíel 9:5, 10.

6. Á hvaða vegu eru vottar Jehóva knúnir til að sýna meðaumkun?

6 Meðan enn er tími til halda vottar Jehóva áfram að sýna náunga sínum meðaumkun með því að prédika hjálpræðisboðskap Guðs kostgæfilega. Og auðvitað hjálpa þeir líka efnislega þurfandi fólki eftir því sem tök eru á. En fyrst og fremst bera þeir þó ábyrgð á að sinna þörfum náinna ættingja og trúsystkina. (Galatabréfið 6:10; 1. Tímóteusarbréf 5:4, 8) Hinir mörgu leiðangrar votta Jehóva með neyðarhjálp til trúbræðra sinna, sem lent hafa í ýmiss konar hörmungum, eru áberandi dæmi um meðaumkun í verki. En kristnir menn þurfa ekki að bíða eftir erfiðleikatímum til að sýna innilega meðaumkun. Þeir eru fljótir til að sýna þennan eiginleika í hinum daglegu skakkaföllum lífsins.

Hluti nýja persónuleikans

7. (a) Hvernig er meðaumkun tengd nýja persónuleikanum í Kólossubréfinu 3:8-13? (b) Hvað auðveldar hjartans meðaumkun kristnum mönnum að gera?

7 Syndugt eðli okkar og slæm áhrif frá heimi Satans vinna vissulega gegn því að við sýnum innilega meðaumkun. Þess vegna hvetur Biblían okkur til að segja skilið við „reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð.“ Þess í stað er okkur ráðlagt að ‚íklæðast hinum nýja manni‘ — persónuleika sem samrýmist mynd Guðs. Fyrst er okkur sagt að íklæðast „hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi.“ Biblían bendir okkur síðan á raunhæfar leiðir til að sýna þessa eiginleika. „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og [Jehóva] hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.“ Við eigum miklu auðveldara með að fyrirgefa ef við höfum ræktað með okkur „hjartans meðaumkun“ með bræðrum okkar. — Kólossubréfið 3:8-13.

8. Af hverju er þýðingarmikið að vera fús til að fyrirgefa?

8 Á hinn bóginn stofnum við sambandi okkar við Jehóva í hættu ef við erum ekki meðaumkunarsöm og fús að fyrirgefa. Jesús sýndi kröftuglega fram á það í dæmisögu sinni um skulduga þjóninn, sem vildi ekki fyrirgefa, og var varpað í fangelsi „uns hann hefði goldið allt, sem hann skuldaði.“ Þjónninn verðskuldaði þessa meðferð af því að hann hafði sjálfur verið algerlega miskunnarlaus við samþjón sinn sem sárbændi hann um miskunn. Jesús lauk dæmisögunni með þessum orðum: „Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum.“ — Matteus 18:34, 35.

9. Hvernig er innileg meðaumkun tengd þýðingarmesta þætti nýja persónuleikans?

9 Innileg meðaumkun er mikilvægur þáttur kærleikans. Og kærleikur er aðalsmerki sannrar kristni. (Jóhannes 13:35) Þess vegna lýkur lýsingu Biblíunnar á nýja persónuleikanum þannig: „Íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans.“ — Kólossubréfið 3:14.

Öfund — þrándur í götu meðaumkunar

10. (a) Hvað getur komið öfund til að skjóta rótum í hjörtum okkar? (b) Hvaða slæmar afleiðingar getur öfund haft?

10 Vegna þess að við erum syndug að eðlisfari getur öfund hæglega skotið rótum í hjörtum okkar. Bróðir eða systir hefur kannski meðfædda hæfileika eða fjárhagsaðstæður sem við höfum ekki. Eða einhver hefur kannski hlotið sérstaka andlega blessun og sérréttindi. Ef við verðum öfundsjúk út í hann, getum við þá sýnt honum innilega meðaumkun? Sennilega ekki. Öfundin getur með tímanum sýnt sig í gagnrýnistali eða óvinsamlegri framkomu því að Jesús sagði um manninn: „Af gnægð hjartans mælir munnur hans.“ (Lúkas 6:45) Aðrir taka svo kannski undir slíka gagnrýni. Þannig gæti friður fjölskyldunnar eða safnaðar fólks Guðs spillst.

11. Hvernig leyfðu tíu bræður Jósefs meðaumkun ekki að komast að í hjörtum sér og með hvaða afleiðingum?

11 Skoðum hvað gerðist í stórri fjölskyldu. Tíu eldri bræður Jósefs urðu öfundsjúkir út í hann af því að Jakob faðir hans hélt upp á hann. Af því leiddi að þeir „gátu ekki talað við hann vinsamlegt orð.“ Síðar hlaut Jósef þá blessun að fá drauma frá Guði sem sönnuðu að hann naut velþóknunar Guðs. Það varð til þess að bræður hans ‚hötuðu hann enn meir.‘ Þeir upprættu ekki öfundina úr hjörtum sér sem varð til þess að meðaumkunin komst ekki að og það leiddi til alvarlegrar syndar. — 1. Mósebók 37:4, 5, 11.

12, 13. Hvað ættum við að gera þegar öfund skýtur sér niður í hjörtum okkar?

12 Í grimmd sinni seldu þeir Jósef í þrælkun. Síðan reyndu þeir að leyna verknaðinum og töldu föður sínum trú um að villidýr hefði drepið Jósef. Mörgum árum síðar var synd þeirra afhjúpuð þegar hungursneyð neyddi þá til að fara til Egyptalands til matarkaupa. Jósef var þá matvælaráðherra en þeir þekktu hann ekki. Hann sakaði þá um njósnir og sagði þeim að leita ekki ásjár hjá sér aftur nema þeir kæmu með yngsta bróður sinn, Benjamín. Nú var Benjamín orðinn í uppáhaldi hjá Jakob föður þeirra og þeir vissu að hann myndi trauðla leyfa honum að fara.

13 Þar sem þeir stóðu frammi fyrir Jósef neyddi samviskan þá til að viðurkenna: „Sannlega erum vér í sök fallnir fyrir bróður vorn [Jósef], því að vér sáum sálarangist hans, þegar hann bað oss vægðar, en vér daufheyrðumst við. Þess vegna erum vér komnir í þessar nauðir.“ (1. Mósebók 42:21) Með festu en þó meðaumkun hjálpaði Jósef bræðrum sínum að sanna að iðrun þeirra væri einlæg. Síðan sagði hann þeim deili á sér og fyrirgaf þeim fúslega. Fjölskyldueiningin var endurheimt. (1. Mósebók 45:4-8) Við sem erum kristnir ættum að draga lærdóm af þessu. Þar eð við þekkjum hin slæmu áhrif öfundarinnar ættum við að biðja Jehóva um hjálp til að láta öfund víkja fyrir „hjartans meðaumkun.“

Aðrar hindranir í vegi meðaumkunar

14. Af hverju ættum við að forðast að horfa að þarflausu á ofbeldi?

14 Annar þrándur í götu meðaumkunar getur verið sá að leyfa sér að verða að þarflausu fyrir áhrifum af ofbeldi. Íþróttir og skemmtiefni, sem hampar ofbeldi, stuðlar að blóðþorsta. Á biblíutímanum horfðu heiðingjarnir reglulega á skylmingakappleiki og aðrar pyndingar á leikvöngum Rómaveldis. Að sögn sagnfræðings gerði slík skemmtun áhorfendur „ófæra um að finna til með þjáðum, en það er það sem greinir manninn frá dýrunum.“ Verulegur hluti skemmtiefnis í heimi nútímans hefur sömu áhrif. Kristnir menn, sem kappkosta að vera innilega meðaumkunarsamir, þurfa að vera mjög vandfýsnir í vali sínu á lesefni, kvikmyndum og sjónvarpsefni. Það er hyggilegt af þeim að hafa í huga orðin í Sálmi 11:5: „Þann er elskar ofríki [ofbeldi], hatar“ Jehóva.

15. (a) Hvaða eiginleiki ber vott um litla meðaumkun? (b) Hvernig bregðast sannkristnir menn við þörfum trúbræðra sinna og nágranna?

15 Maður, sem er upptekinn af sjálfum sér, er trúlega ekki meðaumkunarsamur heldur. Það er alvörumál því að Jóhannes postuli segir: „Ef sá, sem hefur heimsins gæði, horfir á bróður sinn vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir honum, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum?“ (1. Jóhannesarbréf 3:17) Hinn sjálfbirgingslegi prestur og þóttafulli levítinn í dæmisögu Jesú um miskunnsama Samverjann sýndu þess konar meðaumkunarleysi. Þegar þeir sáu neyð þessa dauðvona samlanda síns og bróður, sveigðu þeir yfir á hinn vegarhelminginn og héldu sína leið. (Lúkas 10:31, 32) Meðaumkunarsamir kristnir menn bregðast hins vegar skjótt við efnislegum og andlegum þörfum trúbræðra sinna. Og eins og Samverjinn í dæmisögu Jesú láta þeir sér líka umhugað um þarfir ókunnugra. Þeir gefa því fúslega af tíma sínum, kröftum og efnum til að gera menn að lærisveinum. Þannig stuðla þeir að hjálpræði milljóna manna. — 1. Tímóteusarbréf 4:16.

Meðaumkun með sjúkum

16. Hvaða takmörk eru okkur sett í sambandi við sjúkdóma?

16 Sjúkdómar og veikindi eru hlutskipti ófullkomins, deyjandi mannkyns. Kristnir menn eru engin undantekning. Fæstir þeirra eru læknar og ekki geta þeir gert kraftaverk eins og sumir frumkristnir menn sem fengu slíkan mátt frá Kristi og postulum hans. Með dauða postula Krists og nánustu félaga þeirra liðu þessir kraftaverkahæfileikar undir lok. Þess vegna höfum við takmarkaða möguleika á að hjálpa þeim sem eru haldnir líkamlegum sjúkdómum, þeirra á meðal truflun á heilastarfsemi og skynvillum. — Postulasagan 8:13, 18; 1. Korintubréf 13:8.

17. Hvaða lærdóm drögum við af framkomunni sem hinn sjúki og sorgmæddi Job varð fyrir?

17 Þunglyndi helst oft í hendur við veikindi. Hinn guðhræddi Job var til dæmis mjög niðurdreginn út af alvarlegum sjúkdómi og þeirri ógæfu sem Satan lét yfir hann koma. (Jobsbók 1:18, 19; 2:7; 3:3, 11-13) Hann þarfnaðist vina sem sýndu honum innilega meðaumkun og ‚hughreystu‘ hann. (1. Þessaloníkubréf 5:14) Í staðinn komu þrír svokallaðir huggarar til hans og drógu alrangar ályktanir. Þeir gerðu Job enn niðurdregnari með því að gefa í skyn að ógæfa hans stafaði af einhverjum ágöllum sjálfs hans. Með því að sýna innilega meðaumkun, forðast kristnir menn að falla í sömu gildru þegar trúbræður þeirra eru veikir, niðurdregnir eða þunglyndir. Stundum þarfnast þeir fyrst og fremst nokkurra vinsamlegra heimsókna öldunga eða annarra þroskaðra kristinna manna sem hlusta með samúð, eru skilningsríkir og veita kærleiksrík ráð út frá Biblíunni. — Rómverjabréfið 12:15; Jakobsbréfið 1:19.

Meðaumkun með hinum veikburða

18, 19. (a) Hvernig ættu öldungar að koma fram við veikburða eða villuráfandi? (b) Af hverju er mikilvægt að öldungar séu innilega meðaumkunarsamir við syndara þótt þurft geti að skipa dómnefnd?

18 Öldungarnir þurfa sérstaklega að vera innilega meðaumkunarsamir. (Postulasagan 20:29, 35) „Skylt er oss, hinum styrku, að bera veikleika hinna óstyrku,“ fyrirskipar Biblían. (Rómverjabréfið 15:1) Þar eð við erum öll ófullkomin gerum við mistök. (Jakobsbréfið 3:2) Hjartagæska og blíða er nauðsynleg í samskiptum við mann sem ‚einhver misgjörð hendir‘ óafvitandi. (Galatabréfið 6:1) Öldungarnir vilja alls ekki líkjast hinum sjálfbirgingslegu faríseum sem beittu lögmáli Guðs af ósanngirni.

19 Öldungarnir fylgja heldur fordæmi Jehóva Guðs og Jesú Krists sem eru innilega meðaumkunarsamir. Aðalverkefni þeirra er að næra, hvetja og hressa sauði Guðs. (Jesaja 32:1, 2) Í stað þess að reyna að stjórna með ótal reglum vísa þeir til hinna góðu meginreglna í orði Guðs. Þess vegna ætti starf öldunganna að felast í því að byggja upp og hjálpa trúbræðrum sínum að gleðjast og vera þakklátir af hjarta fyrir gæsku Jehóva. Ef trúbróður verða á einhver minni háttar mistök forðast öldungur yfirleitt að leiðrétta hann í áheyrn annarra. Ef það er nauðsynlegt að segja eitthvað kemur hjartans meðaumkun öldungnum til að taka hann afsíðis og ræða vandamálið þar sem aðrir heyra ekki til. (Samanber Matteus 18:15.) Óháð því hve erfiður hann kann að vera í umgengni ætti öldungurinn að vera þolinmóður og hjálpsamur. Hann vill ekki leita að afsökunum fyrir því að vísa einhverjum slíkum manni úr söfnuðinum. Jafnvel þegar nauðsynlegt reynist að mynda dómnefnd vilja öldungarnir sýna þeim manni innilega meðaumkun sem drýgt hefur alvarlega synd. Nærgætni þeirra getur stuðlað að því að leiða hann til iðrunar. — 2. Tímóteusarbréf 2:24-26.

20. Hvenær er meðaumkun óviðeigandi og hvers vegna?

20 En stundum má þjónn Jehóva ekki sýna meðaumkun. (Samanber 5. Mósebók 13:6-9.) Það getur verið mikil prófraun fyrir kristinn mann að ‚umgangast ekki‘ náinn vin eða ættingja sem hefur verið vikið úr söfnuðinum. Þá er mikilvægt að láta ekki vorkunn ná tökum á sér. (1. Korintubréf 5:11-13) Slík festa getur jafnvel hvatt hinn villuráfandi til að iðrast. Og í samskiptum við hitt kynið verða kristnir menn að forðast að láta meðaumkunartilfinningar í ljós með óviðeigandi hætti sem leitt gæti til siðleysis.

21. Á hvaða öðrum sviðum þurfum við að sýna innilega meðaumkun og hvaða gagn er að því?

21 Rúm leyfir ekki að fjallað sé um öll þau mörgu svið þar sem þörf er á innilegri meðaumkun — í samskiptum við aldraða, sorgmædda, eða þá sem sæta ofsóknum vantrúaðs maka. Iðjusömum öldungum ætti einnig að sýna umhyggju. (1. Tímóteusarbréf 5:17) Virtu þá og styddu. (Hebreabréfið 13:7, 17) „Í einu orði, verið . . . meðaumkunarsamir,“ skrifaði Pétur postuli. (1. Pétursbréf 3:8, Bi 1859) Með því að koma þannig fram undir öllum kringumstæðum, sem þörf krefur, stuðlum við að einingu og hamingju safnaðarins og löðum utansafnaðarfólk að sannleikanum. Framar öllu öðru erum við að heiðra föður okkar, Jehóva, sem er innilega meðaumkunarsamur.

Upprifjunarspurningar

◻ Hvernig sýnir Jehóva syndugu mannkyni meðaumkun?

◻ Af hverju er þýðingarmikið að vera innilega meðaumkunarsamur?

◻ Hvað getur tálmað mönnum að vera innilega meðaumkunarsamir?

◻ Hvernig ættum við að koma fram við sjúka, niðurdregna og þunglynda?

◻ Hverjir þurfa sér í lagi að vera innilega meðaumkunarsamir og hvers vegna?

[Rammi á blaðsíðu 19]

MEÐAUMKUNARLAUSIR FARÍSEAR

HVÍLDARDAGURINN átti að vera fólki Guðs til blessunar andlega og líkamlega. En trúarleiðtogar Gyðinga settu margar reglur sem vanvirtu hvíldardagslög Guðs og gerðu þau íþyngjandi fyrir fólk. Til dæmis mátti sá sem varð fyrir slysi eða veiktist ekki fá hjálp á hvíldardegi nema hann væri í lífshættu.

Einn faríseaflokkur var svo strangur í túlkun sinni á hvíldardagslögunum að hann kenndi: „Maður huggar ekki syrgjendur eða vitjar sjúkra á hvíldardegi.“ Aðrir trúarleiðtogar leyfðu slíkar vitjanir á hvíldardegi en settu þetta skilyrði: „Bannað er að tárfella.“

Jesús fordæmdi því trúarleiðtoga Gyðinga réttilega fyrir að láta sér yfirsjást hinar mikilvægari kröfur lögmálsins, svo sem um réttlæti, kærleika og miskunn. Það er engin furða að hann skyldi segja við faríseana: „Þannig látið þér erfikenning yðar . . . ógilda orð Guðs.“ — Markús 7:8, 13; Matteus 23:23; Lúkas 11:42.

[Myndir á blaðsíðu 17]

Í 232 löndum vinna vottar Jehóva óviðjafnanlegt miskunnarverk með trúboði sínu á heimilum fólks, á götum úti og jafnvel í fangelsum.

[Myndir á blaðsíðu 18]

Ofbeldi, til dæmis í sjónvarpi, dregur úr meðaumkunartilfinningu manna.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila