Hvernig sýna má „alls konar gæsku“
„Ávöxtur ljóssins felst í alls konar gæsku.“ — EFESUSBRÉFIÐ 5:9, NW.
1, 2. Hvaða tveir hópar hafa verið til frá fornu fari og hve ólík er staða þeirra núna?
EFTIR uppreisnina í Eden fyrir um það bil 6000 árum, og aftur eftir flóðið á dögum Nóa, skiptist mannkynið í tvo hópa eða skipulög. Annað þeirra kappkostaði að þjóna Jehóva en hitt fylgdi Satan. Eru þessi skipulög enn þá til? Svo sannarlega! Spámaðurinn Jesaja nefndi þessa tvo hópa og sagði fyrir ástand þeirra nú á tímum: „Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum. En yfir þér upp rennur [Jehóva], og dýrð hans birtist yfir þér.“ — Jesaja 60:1, 2.
2 Munurinn á þessum tveim skipulögum er jafnmikill og munur ljóss og myrkurs. Og rétt eins og ljósgeisli dregur til sín mann sem er villtur í svartamyrkri, eins hefur ljósið frá Jehóva í þessum myrka heimi dregið milljónir hjartahreinna manna til skipulags Guðs. Jesaja hélt áfram: „Þjóðirnar [hinir aðrir sauðir] stefna á ljós þitt og konungar [smurðir erfingjar Guðsríkis] á ljómann, sem upp rennur yfir þér.“ — Jesaja 60:3.
3. Á hvaða vegu endurspegla kristnir menn dýrð Jehóva?
3 Hvernig birtist dýrð Jehóva hjá mönnum? Meðal annars prédika þeir fagnaðarerindið um stofnsett, himneskt ríki Guðs. (Markús 13:10) En auk þess líkja þeir eftir Jehóva, mesta fordæmi gæskunnar, og þannig dregur breytni þeirra auðmjúka menn til ljóssins. (Efesusbréfið 5:1) Páll sagði: „Eitt sinn voruð þér myrkur, en nú eruð þér ljós í Drottni. Hegðið yður eins og börn ljóssins.“ Hann heldur áfram: „Ávöxtur ljóssins er einskær góðvild [„alls konar gæska,“ NW], réttlæti og sannleikur. — Metið rétt, hvað Drottni þóknast. Eigið engan hlut í verkum myrkursins, sem ekkert gott hlýst af.“ (Efesusbréfið 5:8-11) Hvað átti Páll við með orðunum „alls konar gæska“?
4. Hvað er gæska og hvernig birtist hún í fari kristins manns?
4 Eins og fram kom í greininni á undan er gæska dyggð eða siðferðilegt ágæti. Jesús sagði að einungis Jehóva væri góður í algerum skilningi. (Markús 10:18) Eigi að síður getur kristinn maður hermt eftir Jehóva með því að rækta með sér þann ávöxt andans sem er gæska. (Galatabréfið 5:22) Vine’s Expository Dictionary of Old and New Testament Words segir um gríska orðið agaþos, „góður“: „[Það] lýsir því sem er gott að eðli eða gerð og hefur af þeim sökum gagnleg áhrif.“ Kristinn maður, sem ræktar með sér gæsku, mun þess vegna bæði vera góður og gera gott. (Samanber 5. Mósebók 12:28.) Hann mun líka forðast það sem ekki er gott, ‚verk myrkursins sem ekkert gott hlýst af.‘ Sú „alls konar gæska,“ sem Páll nefndi, birtist á þá ólíku vegu sem kristinn maður getur sýnt gæsku. Við skulum athuga hvað það felur í sér.
„Gjör það sem gott er“
5. Nefndu eina hlið gæskunnar og hvers vegna kristnum manni ber að rækta hana.
5 Páll nefndi eitt þessara atriða í bréfi sínu til Rómverja. Hann talaði þar um undirgefni við ‚yfirvöldin‘ og sagði: „Viljir þú eigi þurfa að óttast yfirvöldin, þá gjör það sem gott er, og muntu fá lofstír af þeim.“ Hið ‚góða,‘ sem hann nefnir hér, er hlýðni við lög og ráðstafanir veraldlegra yfirvalda. Til hvers ætti kristinn maður að vera þeim undirgefinn? Til að forðast óþarfa árekstra við yfirvöldin og hætta þannig á refsingu og — það sem þýðingarmeira er — til að varðveita hreina samvisku frammi fyrir Guði. (Rómverjabréfið 13:1-7) Þótt kristinn maður hlýði fyrst og fremst Jehóva ‚heiðrar hann konunginn‘ með því að gera ekki uppreisn gegn þeim yfirvöldum sem Jehóva Guð leyfir að standa. (1. Pétursbréf 2:13-17) Þannig eru kristnir menn góðir nágrannar, góðir borgarar og góð fordæmi.
Tillitssemi við aðra
6. (a) Nefndu annan þátt gæskunnar. (b) Hverja segir Biblían verðskulda tillitssemi okkar?
6 Gæska Jehóva birtist í því að hann gefur öllum byggjendum jarðar „regn af himni og uppskerutíðir.“ Það veitir þeim ‚fæðu og fögnuð‘ og sýnir að hann er sannarlega hugulsamur Guð. (Postulasagan 14:17) Við getum líkt eftir honum að þessu leyti með því að sýna öðrum tillitssemi í smáu sem stóru. Hverjum sérstaklega? Páll nefnir sér í lagi öldungana, ‚þá sem erfiða á meðal okkar og veita forstöðu í Drottni og áminna.‘ Hann hvetur kristna menn til að ‚auðsýna þeim sérstaka virðingu og kærleika fyrir verk þeirra.‘ (1. Þessaloníkubréf 5:12, 13) Hvernig getum við gert það? Með því að vera á allan hátt samvinnuþýð við þá — til dæmis með því að taka þátt í nauðsynlegri vinnu í Ríkissalnum. Okkur ætti alltaf að finnast við geta leitað hjálpar öldunganna þegar við þörfnumst, en við ættum þó ekki að vera kröfuhörð úr hófi fram. Í staðinn reynum við á hvaða hátt sem við getum að létta byrði þessara iðjusömu hirða sem margir hverjir hafa fyrir fjölskyldu að sjá, auk ábyrgðar sinnar í söfnuðinum.
7. Á hvaða vegu getum við sýnt öldruðum tillitssemi?
7 Hinir öldruðu verðskulda einnig umhyggju okkar. Í Móselögunum var sérstakt boðorð þar að lútandi: „Þú skalt standa upp fyrir hinum gráhærða og heiðra gamalmennið, og þú skalt óttast Guð þinn. Ég er [Jehóva].“ (3. Mósebók 19:32) Hvernig er hægt að sýna þessa tillitssemi? Hinir ungu geta kannski boðist til að hjálpa þeim við innkaup og heimilisstörf. Öldungarnir geta kannað hvort einhverjir hinna öldruðu þarfnist hjálpar til að geta sótt samkomur. Á mótunum munu ungir og þróttmiklir einstaklingar forðast að stjaka fullir óþolinmæði við hinum öldruðu, sem fara sér hægar, og þeir munu sýna þolinmæði ef einhver hinna öldruðu þarf að taka sér drjúgan tíma til að setjast eða ná sér í mat.
8. Hvernig getum við sýnt öðrum hópi, sem Biblían nefnir, tillitssemi?
8 Sálmaritarinn nefnir annan hóp sem er umhyggjuþurfi: „Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum.“ (Sálmur 41:2) Það kann að vera auðvelt að vera tillitssamur við þann sem er áberandi eða efnaður, en hvað um fátæka og lítilmagnann? Biblíuritarinn Jakob benti á að það segði sitthvað um réttlæti okkar og kristinn kærleika hvort við tækjum jafnt tillit til allra. Megum við standast það próf með því að vera hugulsöm við alla, óháð aðstæðum þeirra. — Filippíbréfið 2:3, 4; Jakobsbréfið 2:2-4, 8, 9.
„Verið miskunnsamir“
9, 10. Hvers vegna ættu kristnir menn að vera miskunnsamir og hvernig er hægt að sýna þessa tegund gæskunnar?
9 Í sumum af dæmisögum Jesú er lýst fleiri hliðum gæskunnar. Í einni þeirra sagði Jesús frá Samverja sem rakst á mann er hafði verið rændur, barinn illa og skilinn eftir liggjandi á veginum. Levíti og prestur höfðu gengið fram hjá særða manninum án þess að hjálpa honum. En Samverjinn nam staðar, hjálpaði honum og gerði meira fyrir hann en reikna mátti með. Sagan er oft kölluð dæmisagan um miskunnsama Samverjann. Hvers konar gæsku sýndi Samverjinn? Miskunn. Þegar Jesús bað áheyranda sinn að benda á þann sem reynst hefði náungi særða manninum svaraði sá rétt: „Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum.“ — Lúkas 10:37.
10 Miskunnsamir kristnir menn líkja eftir Jehóva en um hann sagði Móse við Ísraelsmenn: „[Jehóva] Guð þinn er miskunnsamur Guð. Hann mun eigi yfirgefa þig né afmá þig, og hann mun eigi gleyma sáttmálanum, er hann sór feðrum þínum.“ (5. Mósebók 4:31) Jesús sýndi að miskunn Guðs ætti að hafa áhrif á okkur: „Verið miskunnsamir, eins og faðir yðar er miskunnsamur.“ (Lúkas 6:36) Hvernig getum við verið miskunnsöm? Eins og dæmisaga Jesú sýndi getum við gert það meðal annars með því að hjálpa náunga okkar, jafnvel þótt það kosti okkur áhættu eða óþægindi. Góður maður lokar ekki augunum fyrir þjáningum bróður síns ef hann er í aðstöðu til að hjálpa honum. — Jakobsbréfið 2:15, 16.
11, 12. Hvað er fólgið í miskunn, samkvæmt dæmisögu Jesú um þræla, og hvernig getum við sýnt hana núna?
11 Önnur af dæmisögum Jesú sýndi að miskunn og gæska felur í sér að vera fús til að fyrirgefa öðrum. Hann sagði frá þræli sem skuldaði húsbónda sínum tíu þúsund talentur. Er þrællinn gat ekki greitt skuldina sárbændi hann húsbónda sinn um miskunn og húsbóndi hans gaf honum í gæsku sinni upp þessa gríðarmiklu skuld er nam 60.000.000 denara. Þrællinn gekk út og rakst á annan þræl sem skuldaði honum aðeins hundrað denara. Hann lét miskunnarlaust varpa skuldaranum í fangelsi uns hann gæti greitt. Ljóst er að miskunnarlausi þrællinn var ekki góður maður og þegar húsbóndinn frétti hvað gerst hafði krafði hann þrælinn reikningsskapar. — Matteus 18:23-35.
12 Við erum í svipaðri aðstöðu og þrællinn sem fékk skuld sína uppgefna. Vegna fórnar Jesú hefur Jehóva gefið okkur upp hina gríðarmiklu syndaskuld okkar. Við ættum því svo sannarlega að vera fús til að fyrirgefa öðrum. Jesús sagði að við ættum að vera fús til að fyrirgefa „sjötíu sinnum sjö,“ það er að segja takmarkalaust. (Matteus 5:7; 6:12, 14, 15; 18:21, 22) Miskunnsamur kristinn maður elur því ekki með sér gremju. Hann ber ekki kala til kristins bróður síns eða neitar að tala við hann sökum slíkra tilfinninga. Slíkt miskunnarleysi er ekki merki kristinnar gæsku.
Örlæti og gestrisni
13. Hvað annað er fólgið í gæsku?
13 Gæska birtist líka í örlæti og gestrisni. Einhverju sinni leitaði ungur maður ráða hjá Jesú. Hann spurði: „Meistari, hvað gott á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði honum að hann ætti að halda boðorð Guðs stöðuglega. Já, hlýðni við boð Jehóva er einn þáttur gæskunnar. Ungi maðurinn hélt að hann gerði nú þegar sitt besta. Ljóst er að í augum nágranna hans virtist hann vera góður maður, en þó fannst honum hann skorta eitthvað. Jesús sagði því: „Ef þú vilt vera fullkominn, skaltu fara, selja eigur þínar og gefa fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan, og fylg mér.“ (Matteus 19:16-22) Ungi maðurinn fór hryggur brott enda átti hann miklar eignir. Ef hann hefði fylgt ráðum Jesú hefði hann sýnt að hann væri ekki efnishyggjumaður, og hann hefði unnið gott verk sem tákn ósvikins örlætis.
14. Hvaða góð ráð gáfu bæði Jehóva og Jesús varðandi örlæti?
14 Jehóva hvatti Ísraelsmenn til að vera örlátir. Til dæmis lesum við: „Miklu fremur skalt þú gefa honum [fátækum náunga þínum] og eigi gjöra það með illu geði, því að fyrir það mun [Jehóva] Guð þinn blessa þig í öllu verki þínu og í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur.“ (5. Mósebók 15:10; Orðskviðirnir 11:25) Jesús Kristur hvatti einnig til örlætis: „Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar.“ (Lúkas 6:38) Sjálfur var Jesús mjög örlátur. Einhverju sinni hafði hann ætlað sér tíma til örlítillar hvíldar. Mannfjöldinn komst að því hvar hann var og kom til hans. Í örlæti sínu gleymdi Jesús að hann ætlaði að hvíla sig og lagði sig fram í þágu mannfjöldans. Síðan sýndi hann einstaka gestrisni með því að sjá þessum mikla mannfjölda fyrir mat. — Markús 6:30-44.
15. Hvernig gáfu lærisveinar Jesú afbragðsfordæmi í því að sýna örlæti?
15 Trúir heilræðum Jehóva og Jesú voru margir af lærisveinum Jesú afar örlátir og gestrisnir. Á fyrstu dögum kristna safnaðarins heyrðu fjölmargir, sem höfðu komið til að halda hvítasunnuhátíðina árið 33, prédikun postulanna og tóku trú. Þeim dvaldist eftir hátíðina til að læra meira og hjá sumum gengu vistir til þurrðar. Þess vegna seldu hinir trúuðu á staðnum eignir sínar og gáfu fé til uppihalds nýjum bræðrum sínum til að þeir gætu náð betri fótfestu í trúnni. Hvílíkt örlæti! — Postulasagan 4:32-35; sjá einnig Postulasöguna 16:15; Rómverjabréfið 15:26.
16. Nefndu nokkur dæmi um það hvernig við getum verið örlát og gestrisin.
16 Við sjáum svipað örlæti nú á tímum er kristnir menn leggja fram tíma sinn og fjármuni í söfnuðunum sínum og til stuðnings prédikunarstarfinu um víða veröld. Það birtist þegar þeir koma til hjálpar bræðrum sínum sem líða skort sökum náttúruhamfara eða styrjalda. Það sýnir sig þegar séð er fyrir farandhirðinum er hann kemur í sínar reglubundnu heimsóknir. Eins er það gestrisni og kristin gæska þegar ‚föðurlausum‘ er boðið að taka þátt í afþreyingu eða biblíunámi með öðrum kristnum fjölskyldum. — Sálmur 68:6.
Sannsögli
17. Hvers vegna er ekki auðvelt að vera sannsögull nú á dögum?
17 Þegar Páll lýsti ávexti ljóssins tengdi hann gæskuna réttlæti og sannleika, og það má með réttu segja að sannsögli sé einn þáttur gæskunnar. Góðir menn ljúga ekki. Eigi að síður er það töluverð áskorun nú á dögum að segja sannleikann vegna þess að lygar eru svo algengar. Margir ljúga er þeir útfylla skattskýrsluna. Launþegar ljúga um vinnuna sem þeir gera. Skólanemar ljúga og svindla í námi sínu og í prófum. Kaupsýslumenn ljúga við samningagerð. Börn ljúga til að sleppa við refsingu. Illkvittnir slúðurberar spilla mannorði annarra með lygum sínum.
18. Hvernig lítur Jehóva á lygara?
18 Jehóva hefur andstyggð á lygi. Meðal þeirra ‚sjö hluta‘ sem Jehóva hatar eru „lygin tunga“ og „ljúgvottur sem lygar mælir.“ (Orðskviðirnir 6:16-19) ‚Allir lygarar‘ eru taldir upp ásamt hugdeigum, morðingjum og saurlífismönnum sem ekki eiga heima í nýjum heimi Guðs. (Opinberunarbókin 21:8) Enn fremur segir orðskviður okkur: „Sá sem framgengur í hreinskilni sinni, óttast [Jehóva], en sá sem fer krókaleiðir, fyrirlítur hann.“ (Orðskviðirnir 14:2) Lygari fer krókaleiðir og sýnir þar með Jehóva fyrirlitningu. Það er skelfileg tilhugsun! Við skulum alltaf segja sannleikann, jafnvel þótt það verði til þess að við hljótum aga eða töpum fjárhagslega. (Orðskviðirnir 16:6; Efesusbréfið 4:25) Þeir sem tala sannleika líkja eftir Jehóva, ‚Guði sannleikans.‘ — Sálmur 31:5, NW.
Ræktaðu með þér gæsku
19. Hvað sjáum við stundum í heiminum sem er skaparanum til heiðurs?
19 Hér hafa verið nefndar aðeins fáeinar hliðar þeirrar gæsku sem kristnir menn eiga að rækta. Víst er það svo að fólk í heiminum sýnir gæsku að einhverju marki. Sumir eru til dæmis gestrisnir og aðrir miskunnsamir. Það sem gerði dæmisöguna um miskunnsama Samverjann svona einstæða var að Jesús sagði frá manni, sem var ekki Gyðingur, en sýndi miskunn, meðan öldungar í söfnuði Gyðinga gerðu það ekki. Það er skapara mannsins sannarlega til lofs að slíkir eiginleikar skuli enn sýna sig með mönnum eftir 6000 ára ófullkomleika.
20, 21. (a) Hvers vegna er kristin gæska ólík hverri þeirri gæsku sem við kynnum að sjá í fari fólks í heiminum? (b) Hvernig getur kristinn maður ræktað með sér gæsku og hvers vegna ættum við að gera það af kappi?
20 Fyrir kristna menn er gæska þó meira en aðeins eiginleiki sem þeir hafa kannski og kannski ekki. Það er eiginleiki sem þeir verða að rækta í öllum sínum margbreytileik, því að þeir verða að líkja eftir Guði. Hvernig er það gerlegt? Biblían segir okkur að við getum „lært“ gæsku. „Kenn mér góð hyggindi [„gæsku,“ NW],“ bað sálmaritarinn til Guðs. Hvernig? Hann hélt áfram: „Því að ég trúi á boð þín.“ Svo bætti hann við: „Þú ert góður og gjörir vel, kenn mér lög þín.“ — Sálmur 119:66, 68.
21 Já, ef við lærum boð Jehóva og hlýðum þeim, þá munum við rækta með okkur gæsku. Höfum alltaf hugfast að gæska er ávöxtur andans. Ef við sækjumst eftir anda Jehóva með bæn, biblíunámi og samfélagi við kristna bræður okkar, þá mun það vissulega hjálpa okkur að rækta þann eiginleika. Og gæska er auk þess öflug. Hún getur yfirbugað hið illa. (Rómverjabréfið 12:21) Það er því áríðandi að við gerum öllum gott en einkum þó kristnum bræðrum okkar. (Galatabréfið 6:10) Ef við gerum það, þá verðum við í hópi þeirra sem hljóta „vegsemd, heiður og frið“ sem heitið er öllum er ‚gera hið góða.‘ — Rómverjabréfið 2:6-11.
Getur þú svarað?
◻ Hvernig getum við gert gott gagnvart yfirvöldum?
◻ Hverjir, meðal annarra, verðskulda tillitssemi okkar?
◻ Á hvaða vegu birtist miskunn?
◻ Hvernig birtist örlæti og gestrisni meðal kristinna nútímamanna?
◻ Hvernig er hægt að rækta með sér gæsku?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Gæska birtist meðal annars í tillitssemi við aðra.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Sem kennarinn mikli gaf Jesús örlátlega af sjálfum sér.