Á verði gegn ‚friði og öryggi‘ eins og þjóðirnar vilja koma á
„Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘“. — 1. ÞESSALONÍKUBRÉF 5:3.
1, 2. (a) Hvers vegna hlýtur það að vera skynsamlegt af þjóðum jarðar að reyna að koma á friði? (b) Hvað munu því stjórnmálakerfi með ólíka hugmyndafræði ná samkomulagi um?
MANNKYNIÐ hefur aldrei búið við jafnlítið öryggi og núna. Menn óttast að þriðja heimsstyrjöldin kunni að brjótast út og þá muni þjóðir, sem eru vopnaðar í bak og fyrir, beita vopninu sem allir óttast — kjarnorkusprengjunni. Kunnátta þjóðanna í hagnýtingu kjarnorkunnar hefur leitt þær næstum eins langt og verða má í gereyðingartækni. Friður hlýtur því að teljast hyggileg stjórnviska.
2 Ef þriðja heimsstyrjöldin brytist út og beitt yrði kjarnorkuvopnum hefði það í för með sér nánast gereyðingu alls lífs á jörðinni, annaðhvort í styrjöldinni sjálfri eða eftirköstum hennar. Skarpskyggnir stjórnmálamenn og hernaðarfrömuðir gera sér það ljóst. Þeir vilja ekki bera ábyrgð á slíku stórslysi. Tveim stjórnmálakerfum, sem aðhyllast tvær gerólíkar hugmyndastefnur, mun því þykja hyggilegt að gera samkomulag sín á milli og sýna hvoru öðru gagnkvæmt umburðarlyndi.
3. Hvers vegna munu þjóðirnar lýsa yfir ‚friði og öryggi‘?
3 En þjóðirnar treysta hver annarri ekki nema að litlu leyti. Svona rétt til öryggis hafa þær heri sína gráa fyrir járnum. Verður það þá einlægur og ósvikinn náungakærleikur sem kemur forystumönnum þessa heims til að sameinast um að lýsa yfir ‚friði og engri hættu‘ handa öllum mannheimi? Nei, það gera þeir aðeins til að sefa réttmætan ótta þegna sinna. — 1. Þessaloníkubréf 5:3.
Viðbrögð klerka og almennings við yfirlýsingunni
4, 5. (a) Hver má búast við að verði viðbrögð manna við þessari yfirlýsingu? (b) Hvaða spurningar vakna þótt prestastéttin muni styðja þessa komandi yfirlýsingu um ‚frið og öryggi‘?
4 Þegar að því kemur að þessi yfirlýsing verður gefin út verða viðbrögð manna vafalaust jákvæð í öllum heimshornum. Trúarleiðtogar veraldar, þeirra á meðal klerkar kaþólskra og mótmælenda, munu vafalaust fagna slíkum alþjóðasamningi háum rómi. Klerkastéttin hagar einatt seglum eftir vindi í því skyni að halda vinsældum og tryggja sér stuðning og velvild stjórnmálaaflanna.
5 En þótt klerkastéttin lofi og prísi yfirlýsingar stjórnmálaaflanna þýðir það ekki að Guð alheimsins, þar á meðal jarðarinnar, styðji hana. Klerkarnir eiga sjálfsagt eftir að bera fram í tilkomumiklum kirkjum sínum langar og hástemmdar bænir í áheyrn stuðningsmanna sinna trúfélaga og biðja Guð að blessa ráðstafanir stjórnmálaaflanna til viðhalds friði og öryggi á alþjóðavettvangi. En eru slíkar langar og hátíðlegar bænir, sem allur söfnuðurinn segir „amen“ við, þóknanlegar Guði alheimsins? Getur hann átt frið við trúarlega sundraðan heim sem biður um frið og öryggi samkvæmt ólíkum hugmyndum sundurleitra sértrúarflokka og kirkjudeilda?
6, 7. (a) Hvaða stefnu hefur kristni heimurinn tekið, líkt og Gyðingar til forna? (b) Hvaða árangri mun stuðningur klerka við yfirlýsinguna um ‚frið og öryggi‘ skila?
6 Hvergi er talað hærri rómi um stuðning Guðs en meðal þeirra þjóða sem kalla sig kristnar. En það er ekki Guð alheimsins sem ríkir yfir kristna heiminum. Kristni heimurinn hefur tekið áþekka stefnu og Ísraelsmenn til forna. Þegar þeir urðu óánægðir með þá stjórnskipan, sem Jehóva hafði gefið þeim, og fóru að hugsa að stjórnarfar heiðnu þjóðanna umhverfis þá væri betra, fóru þeir til Samúels, spámanns Jehóva, og báðu hann að setja konung yfir sig. Samúel mislíkaði það stórlega og harmaði. Hið sama gerði sá Guð sem hann var spámaður fyrir.
7 Jehóva var réttilega særður yfir þessari beiðni þjóðarinnar um að hún mætti hverfa frá því guðræðislega stjórnarfari sem hann hafði komið á í Ísrael. Hann sagði við spámann sinn Samúel: „Þeir hafa ekki hafnað þér, heldur hafa þeir hafnað mér, að ég skuli ekki lengur vera konungur yfir þeim.“ (1. Samúelsbók 8:4-9) Þetta var táknmynd þeirrar stefnu sem kristni heimurinn hefur tekið nú á 20. öldinni. Þegar klerkastéttin því lofar og vegsamar yfirlýsinguna um ‚frið og enga hættu‘ mun það ekki skila jákvæðum árangri né hafa blessun Guðs í för með sér.
Veitir mannkyninu falska öryggiskennd
8. Hvaða hlutverki munu Sameinuðu þjóðirnar líklega gegna í hinni komandi yfirlýsingu og í hvaða skilningi veita þessi samtök mannkyninu falska öryggiskennd?
8 Sameinuðu þjóðirnar stæra sig nú af 159 aðildarríkjum sem eru nánast öll ríki heims. Vafalaust munu Sameinuðu þjóðirnar vera fremstar í fylkingu þegar lýst verður yfir ‚friði og engri hættu.‘ Því miður veita þessi alþjóðasamtök milljörðum manna falska öryggiskennd. Hvernig þá? Þannig að slíkur friður er ekki, þótt hann eigi sé stuðning allra trúarstofnana veraldar, þeirra á meðal kristna heimsins, friður við skapara alheimsins sem hefur mátt til að gefa líf og taka það í samræmi við ákvarðanir sínar um mikilvægustu mál himins og jarðar.
9, 10. Hver er afstaða votta Jehóva til ‚friðar og öryggis‘ að hætti þjóðanna og hvers vegna?
9 Í spádómi Jesaja segir skaparinn skýrum orðum: „Himinninn er hásæti mitt og jörðin er fótskör mín.“ (Jesaja 66:1) Þjóðirnar hér niðri á fótskör Guðs prýða hana ekki með Sameinuðu þjóðunum. Þær reyna með pólitískum ráðum að koma á heimsfriði og öryggi og tryggja þar með áframhaldandi tilvist Sameinuðu þjóðanna. Vígðir vottar Jehóva á jörðinni geta ekki lagt þessum heimi lið í að reiða sig á mannleg ráð sem tekin eru til að tryggja frið og öryggi veraldlegra þjóða. Þeir taka til sín orð Jakobsbréfsins 4:4: „Þér ótrúu, vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.“
10 Þótt vottar Jehóva vinni ekki á móti þeim friði og öryggi, sem þjóðirnar reyna að koma á, geta þeir ekki hvatt fólk til að treysta honum, fólk sem í milljónatali er að leita að öruggu skjóli þegar mesta þrenging mannkynssögunnar ríður yfir og bindur enda á þessa heimsskipan. (Matteus 24:21) Það verður í nýrri skipan Guðs sem komið verður á öryggi um allan heim undir stjórn ‚Friðarhöfðingjans,‘ Jesú Krists. — Jesaja 9:6, 7.
11. Hvernig leit klerkastéttin á tillöguna um stofnun Þjóðabandalags eftir fyrri heimsstyrjöldina?
11 Sagan ber því vitni hvernig áform mannanna um frið hafa brugðist. Við minnumst þess að við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1918 var borin fram tillaga um Þjóðabandalag er ætlað væri að koma í veg fyrir heimsstyrjöld. Alríkisráð kirkna Krists í Ameríku tók þessari tillögu fagnandi og sagði: „Slíkt bandalag ber ekki að skoða aðeins sem pólitískt verkfæri; það ber frekar að líta á það sem pólitísku ímynd Guðsríkis á jörð.“ En auðnaðist þessari svonefndu pólitísku ímynd Guðsríkis á jörð að tryggja varanlegan frið og öryggi á jörðinni?
12. (a) Hvernig hefur Opinberunarbókin 17:8 uppfyllst? (b) Hver ríður ‚skarlatsrauða dýrinu‘ og hve lengi mun sú reið standa?
12 Líkt og ‚skarlatsrauða dýrið‘ í 17. kafla Opinberunarbókarinnar, sem skækjan mikla, „Babýlon hin mikla,“ hafði fengið sér sæti á, hvarf Þjóðabandalagið í ‚undirdjúpið‘ þegar síðari heimsstyrjöldin braust út árið 1939. Skækjan, sem reið því, neyddist til að stökkva af baki. Eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk árið 1945 var Sameinuðu þjóðunum komið á legg sem arftaka hins gæfulitla Þjóðabandalags. Þær eiga sér mun fleiri aðildarríki en Þjóðabandalagið og ættu því að vera öflugri og traustari. Árið 1945 steig ‚skarlatsrauða dýrið‘ „upp frá undirdjúpinu“ og skækjan táknræna, „Babýlon hin mikla,“ klöngraðist aftur á bak því og situr þar blygðunarlaus enn þann dag í dag. (Opinberunarbókin 17:3, 5, 8) En samkvæmt Opinberunarbókinni 17:16-18:24 á hún ekki langa setu fyrir höndum. Hvers vegna?
13. (a) Hvað eru Sameinuðu þjóðirnar? (b) Hvernig var gefinn fyrirboði um þær endur fyrir löngu?
13 Sameinuðu þjóðirnar eru í raun heimssamsæri gegn Jehóva Guði og vígðum vottum hans á jörðinni. Þjóðir jarðarinnar hafa gert samsæri gegn sýnilegu skipulagi Jehóva Guðs á jörðinni og sitja á svikráðum við það. Þetta samsæri nú við ‚endalok veraldar‘ á sér fyrirboða í því sem um er talað í Jesaja 8:12. — Matteus 24:3.
Væntu friðar og öryggis frá Jehóva
14. Hvers vegna gerði Ísraelsríkið bandalag við Sýrland og hvaða spurningar þurfti Júdaríkið að taka afstöðu til?
14 Fyrir daga Jesaja höfðu hinar tólf ættkvíslir Ísraels klofnað vegna deilu um hver skyldi vera konungur. Það var eftir hina dýrlegu stjórnartíð Salómons konungs. Ættkvíslirnar tíu í norðri urðu þekktar sem Ísraelsríkið og höfuðborg þess var Samaría. Ættkvíslirnar tvær, sem eftir voru, ættkvísl Júda og Benjamíns, héldu tryggð við konungsætt Davíðs með Jerúsalem sem höfuðborg. Tíuættkvíslaríkið Ísrael snerist með fjandskap gegn tveggjaættkvíslaríkinu Júda og gerði bandalag við Sýrland er hafði Damaskus sem höfuðborg. Ætlunin var að steypa konunginum í Júda af stóli og þvinga ríkið til undirgefni. Átti Júdaríkið þá að gera bandalag við aðra volduga þjóð til að geta hrundið árás Ísraels og hins heiðna Sýrlands? — Jesaja 7:3-6.
15. (a) Hvað aðhylltust sumir Júdamenn og hvað bjó að baki slíkri afstöðu? (b) Hvernig mælti spámaðurinn Jesaja gegn slíkum viðhorfum?
15 Til voru þeir í hinu smáa Júdaríki sem misstu trú sína á Guð þjóðarinnar, Jehóva. Þeir aðhylltust að gert væri bandalag eða samsæri með voldugu, heiðnu ríki af þessum heimi. Talsmenn slíks bandalags ríkis Jehóva í Júda við ríki af þessum óguðlega heimi sögðu við þá Júdamenn sem enn höfðu ekki tekið afstöðu: „Samsæri.“ Með því létu þeir í ljós að þá skorti trú og traust til þess Guðs sem átti sér musteri í Jerúsalem. Spámanninum Jesaja var blásið í brjóst að mæla gegn slíku samsæri. Hann segir í 8. kafla, 12. versi: „Þér skuluð ekki kalla allt það ‚samsæri‘, sem þetta fólk kallar ‚samsæri‘, og ekki óttast það, sem það óttast, og eigi skelfast.“
16, 17. Hvað hafði í för með sér sannan frið og öryggi fyrir þjóð Jehóva til forna og hvernig birtist það þegar Sanherib Assýríukonungur ógnaði Jerúsalem?
16 Sáttmálasamband þjóðarinnar við Jehóva fól í sér frið og öryggi fyrir hana. Það sýndi sig þegar Sanherib Assýríukonungur sendi nefnd þriggja háttsettra embættismanna til að reyna að fá Hiskía konung og Jerúsalembúa til að gefast upp. Talsmaður Assýringa, Rabsake, stóð gegnt múrum Jerúsalem og gerði gys að Jehóva Guði í því skyni að spilla trausti Gyðinga til hans. Harmi sleginn vegna þeirrar lítilsvirðingar sem hinn eini lifandi og sanni Guð, Jehóva, varð fyrir og réttilega skelfdur vegna þeirrar hættu sem Jerúsalem stafaði af geysimiklum her Assýringa, gekk Hiskía konungur í musterið og lagði málið fyrir Jehóva Guð. Jehóva hafði velþóknun á því að Hiskía skyldi sýna sterka trú og biðja hann að láta drottinvald sitt yfir alheimi birtast. Hann gaf honum jákvætt svar og sendi honum spámanninn Jesaja til að staðfesta það. Frýjunarorðum Rabsake var alls engu svarað í samræmi við fyrirmæli Hiskía konungs. — 2. Konungabók 18:17-36; 19:14-34.
17 Vafalaust kom þetta Rabsake mjög á óvart og hann sneri aftur til búða Sanheribs sem háði þá bardaga við Líbna. (2. Konungabók 19:8) Eftir að hafa fengið skýrslu frá Rabsake sendi Sanherib Hiskía hótunarbréf með þessum orðum: „Lát eigi Guð þinn, er þú treystir á, tæla þig, er þú hugsar: ‚Jerúsalem verður eigi seld í hendur Assýríukonungi.‘“ (2. Konungabók 19:9, 10) Eftir að nóttin gekk í garð svaraði Jehóva Guð sjálfur talsmanni Assýringa, Rabsake, svo og hótunarbréfum Sanheribs, og sannaði þar með að hann væri voldugri en guð Assýringa. Niðurlag frásögunnar í 2. Konungabók 19:35 hljóðar svo: „En þessa sömu nótt fór engill [Jehóva] og laust hundrað áttatíu og fimm þúsund manns í herbúðum Assýringa. Og er menn risu morgunin eftir, sjá, þá voru þeir allir liðin lík.“ Hræðileg sjón mætti þeim Assýringum, sem eftir lifðu, þeirra á meðal Sanherib konungi og ef til vill Rabsake, þegar þeir risu í dögun: Lík allra þeirra sem fallið höfðu í stríðinu við Jehóva Guð.
18. (a) Hvernig fór fyrir hinum metnaðarfulla Sanherib? (b) Hvað geta nútímavottar Jehóva lært af þessu sögubroti?
18 Hin mikla herför Sanheribs gegn skipulagi Jehóva rann út í sandinn. Gersigraður og stórlega auðmýktur hraðaði Sanherib sér „með sneypu“ heim til höfuðborgar sinnar, Níneve, þar sem tveir synir hans réðu hann af dögum. (2. Kroníkubók 32:21; 2. Konungaók 19:36, 37) Assýrska heimsveldið ógnaði sýnilegu skipulagi Jehóva aldrei framar. Á sannfærandi hátt hafði hinn hæsti Guð upphafið drottinvald sitt yfir alheimi. Vernd Jerúsalem er auk þess afbragðsdæmi um það hverjum nútímavottar Jehóva ættu að treysta skilyrðislaust til að veita sér stöðugan, órjúfanlegan frið og og öryggi — ekki samsæri mannanna heldur Jehóva Guði.
Vertu á verði
19. Hvað mun Biblíufélagið Varðturninn halda áfram að gera?
19 Til að hjálpa okkur að halda vöku okkar mun Biblíufélagið Varðturninn halda áfram að birta í ritum sínum tímabærar aðvaranir. Þá mun hin rembiláta yfirlýsing um ‚frið og enga hættu,‘ sem þjóðir þessa gamla heimskerfis munu láta frá sér fara, ekki koma þér í opna skjöldu.
20. Hvers vegna munu vottar Jehóva ekki hvetja aðra til að treysta á ‚frið og öryggi‘ að hætti þjóðanna og hvað er því nauðsynlegt að gera núna?
20 Vígðir vottar Jehóva geta með engu móti hvatt aðra til að treysta á yfirlýsinguna um ‚frið og enga hættu‘ sem þjóðir heims munu gefa út borginmannlegar. Þeir geta ekki heldur árnað heilla upphafsmönnum slíks ‚friðar og engrar hættu‘ og samtímis haft Jehóva Guð með sér. Þeir gæta þess að ganga ekki til bandalags við þjóðir þessa gamla heimskerfis. Þeir minna sig í sífellu á að ný „þjóð,“ aðgreind frá og ólík Þjóðabandalaginu, fæddist árið 1919 að fyrri heimsstyrjöldinni lokinni. Þessi nýja „þjóð“ er í sífellum vexti um allan heiminn eins og sagt er fyrir í Jesaja 60:22: „Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, [Jehóva], mun hraða því, þegar að því kemur.“ Já, núna er rétti tíminn til að vera á varðbergi gegn þeim ‚friði og engri hættu‘ sem þjóðirnar standa að baki.
Hverju svarar þú?
◻ Hver verða líklega viðbrögð manna við yfirlýsingunni um ‚frið og öryggi‘?
◻ Um hvað var ‚samsærið‘ í Jesaja 8:12 fyrirboði?
◻ Í hvaða skilningi veita Sameinuðu þjóðirnar mannkyninu falska öryggiskennd?
◻ Hvers vegna munu vottar Jehóva ekki láta koma sér á óvart?
[Mynd á blaðsíðu 22]
Sameinuðu þjóðirnar verða vafalaust fremstar í flokki þegar lýst verður yfir ‚friði og öryggi.‘
[Mynd á blaðsíðu 25]
Rabsake, sendimaður Assýríukonungs, gerði gys að Guði Ísraels, en málalokin sýndu að sannur friður og öryggi kemur aðeins frá Jehóva Guði.