-
Láttu framför þína vera augljósaVarðturninn – 2009 | 15. desember
-
-
6 Páll skrifaði Tímóteusi: „Ver fyrirmynd trúaðra í orði og hegðun, í kærleika, trú og hreinlífi.“ Hann bætti við: „Stunda þetta, ver allur í þessu til þess að framför þín sé öllum augljós.“ (1. Tím. 4:12, 15) Þessi framför sneri að eiginleikum Tímóteusar en ekki stöðu hans í söfnuðinum. Það er þess konar framför sem allir kristnir menn ættu að sækjast eftir.
-
-
Láttu framför þína vera augljósaVarðturninn – 2009 | 15. desember
-
-
Vertu til fyrirmyndar í orðum
8. Hvaða áhrif hefur það sem við segjum á tilbeiðslu okkar?
8 Tímóteus átti meðal annars að vera til fyrirmyndar í orðum sínum. Hvernig getum við tekið greinilegum framförum á því sviði? Tal okkar segir heilmikið um okkur. Jesús hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði: „Af gnægð hjartans mælir munnurinn.“ (Matt. 12:34) Jakob, hálfbróðir Jesú, benti einnig á hvaða áhrif það sem við segjum geti haft á tilbeiðslu okkar. Hann skrifaði: „Sá sem þykist vera guðrækinn en hefur ekki taumhald á tungu sinni blekkir sjálfan sig og guðrækni hans er fánýt.“ — Jak. 1:26.
9. Að hvaða leyti ættum við að vera til fyrirmyndar í orðum?
9 Aðrir í söfnuðinum geta heyrt af tali okkar hvaða framförum við höfum tekið í trú og tilbeiðslu. Þroskaður kristinn maður er ekki ósæmilegur í tali, neikvæður, gagnrýninn eða meiðandi heldur leitast hann við að byggja upp, hughreysta, hugga og hvetja. (Orðskv. 12:18; Ef. 4:29; 1. Tím. 6:3-5, 20) Hollusta okkar og guðrækni getur birst í því að við verjum háleita siðferðismælikvarða Guðs og lýsum yfir vilja okkar til að lifa samkvæmt þeim. (Rómv. 1:15, 16) Hjartahreint fólk tekur eftir hvernig við notum hæfileikann til að tala og fer kannski að dæmi okkar. — Fil. 4:8, 9.
Til fyrirmyndar í hegðun og hreinlífi
10. Af hverju er hræsnislaus trú nauðsynleg til að taka framförum?
10 Til að kristinn maður sé góð fyrirmynd er ekki nóg að hann sé uppbyggilegur í tali. Það er hræsni að segja hvað sé rétt en gera allt annað. Páll vissi mætavel af hræsni faríseanna og skaðlegum afleiðingum hennar. Oftar en einu sinni varaði hann Tímóteus við uppgerð og falsi af því tagi. (1. Tím. 1:5; 4:1, 2) En Tímóteus var enginn hræsnari. Páll sagði í síðara bréfinu til hans: „Ég rifja upp fyrir mér hina hræsnislausu trú þína.“ (2. Tím. 1:5) Tímóteus þurfti engu að síður að sýna öðrum í verki að hann væri sannkristinn. Hann átti að vera til fyrirmyndar í hegðun.
11. Hvað skrifaði Páll Tímóteusi um fégirndina?
11 Í Tímóteusarbréfunum tveim gefur Páll leiðbeiningar um ýmis svið mannlegrar breytni. Til dæmis varar hann Tímóteus við að sækjast eftir peningum. Hann skrifaði: „Fégirndin er rót alls ills. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ (1. Tím. 6:10) Fégirnd er merki um að mönnum sé eitthvað áfátt andlega. Aftur á móti vitnar það um andlegar framfarir kristins manns ef hann er hófsamur og lætur sér nægja „fæði og klæði“. — 1. Tím. 6:6-8; Fil. 4:11-13.
12. Hvernig getum við gert framför okkar augljósa í daglegu lífi okkar?
12 Páll nefnir að það sé mikilvægt að kristnar konur „séu látlausar í klæðaburði“ og heilbrigðar í hugsun. (1. Tím. 2:9) Konur eru til fyrirmyndar með því að vera látlausar og sýna af sér heilbrigða hugsun í klæðaburði, útliti og á öðrum sviðum lífsins. (1. Tím. 3:11) Þessi meginregla á líka við kristna karlmenn. Páll segir að umsjónarmaður eigi að vera „hófsamur í venjum, heilbrigður í hugsun [og] reglusamur“. (1. Tím. 3:2, NW ) Framför okkar verður öllum augljós þegar við sýnum þessa eiginleika í daglegu lífi okkar.
13. Hvernig getum við verið til fyrirmyndar í hreinlífi líkt og Tímóteus?
13 Tímóteus átti einnig að vera til fyrirmyndar í hreinlífi. Þegar Páll notar þetta orð er hann með afmarkað svið mannlegrar hegðunar í huga, það er að segja kynferðismál. Tímóteus átti að vera ámælislaus í öllum samskiptum við konur. Hann átti að koma fram við „aldraðar konur sem mæður, ungar konur sem systur með allri siðsemi“. (1. Tím. 4:12; 5:2) Jafnvel þó að siðlausar athafnir virðist fara leynt veit Guð af þeim og það kemur að því að þær verða einnig á vitorði manna. En góðverk kristins manns fara ekki heldur leynt. (1. Tím. 5:24, 25) Allir í söfnuðinum hafa tækifæri til að taka augljósum framförum í hegðun og hreinlífi.
Kærleikur og trú eru nauðsynleg
14. Hvernig er lögð áhersla á það í Biblíunni að við þurfum að elska hvert annað?
14 Kærleikur er stór þáttur kristinnar trúar. Jesús sagði við lærisveinana: „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh. 13:35) Hvernig sýnum við slíkan kærleika? Í orði Guðs erum við hvött til að ‚umbera og elska hvert annað‘, vera „góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru“ og vera gestrisin. (Ef. 4:2, 32; Hebr. 13:1, 2) „Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika,“ skrifaði Páll postuli. — Rómv. 12:10.
15. Af hverju þurfa allir að sýna kærleika en þó sérstaklega umsjónarmenn í söfnuðinum?
15 Ef Tímóteus hefði verið hranalegur eða óvingjarnlegur í samskiptum við trúsystkini hefði hann getað gert að engu hið góða sem hann áorkaði sem kennari og umsjónarmaður. (Lestu 1. Korintubréf 13:1-3.) En með því að sýna trúsystkinum sínum ósvikna ástúð og gestrisni og gera þeim gott sýndi Tímóteus að hann hefði tekið framförum sem kristinn maður. Það var því viðeigandi að Páll skyldi sérstaklega nefna í bréfi sínu til hans að hann ætti að vera fyrirmynd í kærleika.
16. Af hverju þurfti Tímóteus að sýna sterka trú?
16 Það reyndi á trú Tímóteusar meðan hann dvaldist í Efeus. Þar voru menn sem héldu á lofti kenningum sem samræmdust ekki sannleika kristninnar. Aðrir breiddu út ‚kynjasögur‘ eða grúskuðu í hugmyndum sem stuðluðu alls ekki að andlegum framförum í söfnuðinum. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 1:3, 4.) Sá sem er þannig þenkjandi hefur „ofmetnast og veit ekki neitt,“ sagði Páll. „Hann er sótttekinn af þrætum og orðastælum.“ (1. Tím. 6:3, 4) Gat Tímóteus tekið þá áhættu að skoða og hugleiða þessar skaðlegu kenningar sem voru farnar að síast inn í söfnuðinn? Nei, Páll hvatti hann til að ‚berjast trúarinnar góðu baráttu‘ og „forðast hinar vanheilögu hégómaræður og mótsagnir þeirrar speki sem svo er rangnefnd“. (1. Tím. 6:12, 20, 21) Enginn vafi leikur á að Tímóteus fór að viturlegum ráðum Páls. — 1. Kor. 10:12.
17. Hvernig getur reynt á trú okkar?
17 Það er athyglisvert að Páll skuli skrifa Tímóteusi „að á síðustu tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda“. (1. Tím. 4:1) Allir í söfnuðinum, einnig þeir sem gegna ábyrgðarstörfum, þurfa að sýna sterka og óhagganlega trú eins og Tímóteus. Með því að taka einarða afstöðu gegn fráhvarfi getum við sýnt að við tökum framförum og verið til fyrirmyndar í trúnni.
-