Vertu kostgæfinn að lesa
SJÖTTI hver jarðarbúi er ólæs, margir vegna þess að þeir hafa aldrei átt þess kost að sækja skóla. Og margir taka sér sjaldan bók í hönd þótt læsir séu. En lestrarkunnáttan er leið til að heimsækja önnur lönd, hitta fólk sem getur auðgað mann af reynslu sinni og til að afla sér hagnýtrar þekkingar til að takast á við daglegt amstur.
Þú mótar persónuleika barnanna að nokkru leyti með því að lesa fyrir þau.
Lestrarkunnátta hefur mikil áhrif á námsárangur í skóla. Hún ræður töluverðu um það hvers konar vinnu fólk getur fengið og hversu langan vinnudag það þarf að vinna til að sjá sér farborða. Vel læs húsmóðir er betur í stakk búin til að annast næringarþörf fjölskyldunnar, hreinlæti, heilsu og sóttvarnir. Og vel læs móðir getur haft afar jákvæð áhrif á greindarþroska barna sinna.
Mikilvægast er þó að lestrarkunnátta veitir okkur aðgang að ‚þekkingu á Guði.‘ (Orðskv. 2:5) Þjónustan við Guð er að mörgu leyti byggð á lestrarkunnáttu. Á safnaðarsamkomum er lesið upp úr Biblíunni og biblíutengdum ritum. Lestrarkunnátta hefur töluverð áhrif á færni í boðunarstarfinu. Og undirbúningur fyrir allt þetta byggist að nokkru leyti á lestri. Andlegur vöxtur er þess vegna mjög háður lestrarvenjum.
Notfærðu þér möguleikana vel
Lærðu áhrifamikinn upplestur.
Sumir, sem eru að læra að ganga á Guðs vegum, hafa takmarkaða menntun. Stundum þarf að kenna fólki lestur eða veita því persónulega þjálfun í lestri til að stuðla að andlegum framförum þess. Þar sem þörf krefur reyna söfnuðir að skipuleggja lestrarkennslu. Þúsundir manna hafa notið góðs af. Góð lestrarkunnátta er svo mikilvæg að sums staðar er skipulögð markviss lestrarþjálfun í tengslum við Boðunarskólann. En þó svo að ekki sé boðið upp á slíka þjálfun getur hver og einn æft sig með því að lesa upphátt á hverjum degi, sækja skólann reglulega og taka þátt í honum.
Teiknimyndablöð, sjónvarp og fleira hefur því miður dregið mjög úr lestri hjá mörgum. En þaulsetur við sjónvarpið og lítill lestur getur tálmað lestrarfærni og torveldað manni að hugsa skýrt og tjá sig skilmerkilega.
Hinn „trúi og hyggni þjónn“ gefur út lesefni til að glöggva Biblíuna fyrir okkur. Þar er hafsjór af þýðingarmiklum og andlegum fróðleik. (Matt. 24:45; 1. Kor. 2:12, 13) Þetta lesefni auðveldar okkur að fylgjast með mikilvægri framvindu í heimsmálum og þýðingu hennar, fræðir okkur um náttúruna og umheiminn og kennir okkur að takast á við það sem á okkur brennur. En fyrst og fremst beinir það athyglinni að því hvernig við getum þjónað Guði með boðlegum hætti og hlotið velþóknun hans. Heilnæmt lesefni sem þetta stuðlar að andlegum vexti.
Góð lestrarkunnátta er auðvitað engin sérstök dyggð sem slík því að það þarf að beita henni rétt. Þú borðar ekki hvað sem er og lest ekki heldur hvað sem er. Varla viltu neyta matar sem er næringarsnauður og þaðan af síður ef hann er eitraður. Hví skyldirðu þá lesa eitthvað, jafnvel tilfallandi, sem getur spillt huganum og hjartanu? Meginreglur Biblíunnar ættu alltaf að vera prófsteinn á lesefni okkar. Við val á lesefni ættirðu að hafa í huga ritningarstaði eins og Prédikarann 12:12, 13; Efesusbréfið 4:22-24; 5:3, 4; Filippíbréfið 4:8; Kólossubréfið 2:8; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17 og 2. Jóhannesarbréf 10.
Lestu af réttu tilefni
Ljóst er af guðspjöllunum að það er mikilvægt að lesa af réttu tilefni. Í Matteusarguðspjalli segir til dæmis frá því að Jesús hafi spurt ritningarfróða trúarleiðtoga spurninga á borð við: „Hafið þér ekki lesið?“ og „hafið þér aldrei lesið þetta?“ áður en hann veitti þeim biblíuleg svör við slóttugum spurningum þeirra. (Matt. 12:3, 5; 19:4; 21:16, 42; 22:31) Af því má ráða að við getum dregið rangar ályktanir eða misskilið herfilega ef tilefni okkar með lestrinum er ekki rétt. Farísearnir lásu Ritninguna af því að þeir héldu sig hljóta eilíft líf fyrir vikið. En Jesús benti á að menn fengju ekki eilíft líf nema þeir elskuðu Guð og viðurkenndu hjálpræðisleið hans. (Jóh. 5:39-43) Farísearnir drógu oft rangar ályktanir vegna þess að áform þeirra voru eigingjörn.
Kærleikur til Jehóva er hreinasta hvötin til að lesa orð hans. Þessi kærleikur „samgleðst sannleikanum“ þannig að hann örvar okkur til að læra vilja Guðs. (1. Kor. 13:6) Kannski varstu ekki mikill lestrarhestur áður, en ef þú elskar Jehóva af „öllum huga þínum“ er það þér hvöt til að beita huganum af alefli til að afla þér þekkingar á Jehóva. (Matt. 22:37) Kærleikur örvar áhuga og áhugi örvar lestur og nám.
Lestrarhraði
Lestur og skilningur haldast í hendur. Þú þekkir orð og manst hvað þau merkja þegar þú lest þessar línur. Það er hægt að auka lestrarhraðann með því að fækka augndvölunum. Reyndu að sjá orðasamstæður í stað einstakra orða. Lestrarskilningurinn eykst líka þegar þú nærð tökum á þessari tækni.
Fjölskyldan styrkir samheldnina með því að lesa saman.
Þegar efnið er djúpstætt getur aftur á móti verið gott að beita annarri aðferð til að bæta lestrarskilninginn. Jehóva leiðbeindi Jósúa um ritningarlestur og sagði: „Eigi skal lögmálsbók þessi víkja úr munni þínum, heldur skalt þú hugleiða hana um daga og nætur.“ (Jós. 1:8) Stundum talar maður í hálfum hljóðum þegar maður brýtur heilann um eitthvað. Maður hugsar upphátt. Þess vegna er hebreska orðið, sem hér er þýtt „hugleiða,“ stundum þýtt „lesa lágum rómi.“ (Sálm. 63:7; 77:13; 143:5) Maður flýtir sér ekki þegar maður er djúpt hugsi. Orð Guðs hefur sterkari áhrif á hugann og hjartað ef þú íhugar það um leið og þú lest það. Biblían inniheldur spádóma, ráðleggingar, orðskviði, ljóð, dóma Guðs, upplýsingar um ásetning hans og hafsjó raunverulegra atvika úr lífi fólks — og allt er það verðmætt fyrir þá sem vilja ganga á vegum Guðs. Það er ákaflega gagnlegt að lesa Biblíuna þannig að hún hafi djúpstæð áhrif á hugann og hjartað.
Lærðu að einbeita þér
Leggðu þig fram við opinberan upplestur.
Settu þig inn í sögusviðið þegar þú lest. Reyndu að sjá persónurnar fyrir þér og lifa þig inn í þá atburði sem sagan segir frá. Þetta er tiltölulega auðvelt þegar maður les frásögu líkt og af þeim Davíð og Golíat sem skráð er í 17. kafla 1. Samúelsbókar. Og nákvæmar lýsingar á gerð tjaldbúðarinnar og embættisvígslu prestanna verða ljóslifandi ef maður sér fyrir sér stærð hennar og efniviðinn eða ímyndar sér ilminn af reykelsi, glóðuðu korni og dýrum sem færð voru að brennifórn. Hugsaðu þér hve stórfenglegt það hlýtur að hafa verið að gegna prestsþjónustu! (Lúk. 1:8-10) Ef maður örvar skilningarvitin og tilfinningarnar með þessum hætti skilur maður betur gildi lesefnisins og það er góð minnishjálp.
En ef þú gætir þín ekki er hætta á að hugurinn fari að reika þegar þú reynir að lesa. Augun horfa á blaðsíðuna en hugurinn er annars staðar. Er tónlist í gangi? Er kveikt á sjónvarpinu? Eru einhverjir í fjölskyldunni að tala? Best er að lesa á hljóðlátum stað ef þess er kostur. En truflanir geta líka komið innan frá. Áttirðu annasaman dag? Hversu auðvelt er ekki að láta atburði dagsins líða um huga sér. Auðvitað er ágætt að rifja upp atburði dagsins — en ekki á meðan maður er að lesa. Kannski einbeittirðu þér að lestrinum í byrjun eða fórst með bæn áður en þú hófst lesturinn. En smám saman fer hugurinn að reika. Reyndu þá aftur. Agaðu hugann til að einbeita þér að efninu sem þú ert að lesa og smám saman áttu auðveldara með það.
Hvað gerirðu þegar þú rekst á orð sem þú skilur ekki? Sum framandleg orð eru skýrð eða rædd í textanum, og stundum er hægt að glöggva sig á merkingunni af samhenginu. En ef svo er ekki skaltu gefa þér tíma til að fletta orðinu upp í orðabók eða merkja við það til að geta spurt einhvern um það síðar. Þannig eykurðu orðaforðann og stuðlar að góðum lesskilningi.
Opinber upplestur
Lestrarvenjur hafa áhrif á andlegan vöxt þinn.
Þegar Páll sagði Tímóteusi að vera kostgæfinn að lesa úr Ritningunni var hann sérstaklega að hugsa um upplestur til að fræða aðra. (1. Tím. 4:13) Áhrifaríkur opinber upplestur er meira en að lesa orð upp af blaði, því að lesarinn þarf að skilja merkingu orðanna og átta sig á þeim hugmyndum sem þau fela í sér. Þá fyrst getur hann komið hugmyndunum rétt á framfæri og skilað þeim tilfinningaáhrifum sem þau eiga að ná fram. Það kostar auðvitað góðan undirbúning og æfingu. Þess vegna hvatti Páll Tímóteus til að ‚vera kostgæfinn að lesa,‘ það er að segja að vera iðinn við lesturinn. Þú færð verðmæta kennslu í upplestri í Boðunarskólanum.
Skapaðu þér svigrúm til að lesa
„Fyrirætlanir iðjumannsins reynast fésamar vel, en öll flasfærni lendir í fjárskorti.“ (Orðskv. 21:5) Þessi orð má að sönnu heimfæra á lestur því að markviss fyrirætlun er nauðsynleg til að lestur sitji ekki á hakanum sökum annríkis.
Hvenær lestu? Finnst þér best að lesa snemma morguns eða hentar þér betur að gera það síðdegis? Hægt er að áorka ótrúlega miklu með því að taka sér þó ekki sé nema 15 til 20 mínútur á dag til lestrar. Reglufestan er aðalatriðið.
Jehóva kaus að láta skrásetja hinn stórfenglega ásetning sinn í bók til að fólk hefði orð hans á prenti og gæti flett upp í því. Þannig geta menn ígrundað stórvirki hans, sagt börnum sínum frá þeim og lagt þau á minnið. (Sálm. 78:5-7) Við sýnum hvað best að við kunnum að meta þetta örlæti Jehóva með því að vera kostgæfin að lesa lífgandi orð hans.