Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w98 1.4. bls. 9-14
  • Bók fyrir alla

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Bók fyrir alla
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Útbreiddasta bók í heimi
  • Varðveist á einstakan hátt
  • Þýdd á lifandi tungur mannkyns
  • Traustsins verð
  • Bók sem „talar“ lifandi tungumál
    Bók fyrir alla menn
  • Hvernig varðveittist bókin?
    Bók fyrir alla menn
  • Er Biblían í raun og veru frá Guði?
    Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð
  • Hvernig varðveittist Biblían fram á okkar daga?
    Vaknið! – 2008
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
w98 1.4. bls. 9-14

Bók fyrir alla

„Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ — POSTULASAGAN 10:34, 35.

1. Hvernig brást prófessor við þegar hann var spurður hvað honum fyndist um Biblíuna og hvað ákvað hann að gera?

PRÓFESSORINN átti ekki von á gestum síðdegis þennan sunnudag en þegar kona, sem var vottur Jehóva, knúði dyra hjá honum hlustaði hann á orð hennar. Hún ræddi um mengun og framtíð jarðarinnar — efni sem höfðaði til hans. En þegar hún dró Biblíuna inn í samræðurnar kom á hann vantrúarsvipur. Hún spurði hann þess vegna hvað honum fyndist um Biblíuna.

„Hún er góð bók skrifuð af greindum mönnum,“ svaraði hann, „en Biblíuna ætti ekki að taka alvarlega.“

„Hefur þú nokkurn tíma lesið Biblíuna?“ spurði hún.

Það kom á prófessorinn og hann varð að játa að það hefði hann ekki gert.

Hún spurði þá: „Hvernig getur þú haft afdráttarlaust álit á bók sem þú hefur aldrei lesið?“

Trúsystir okkar hafði nokkuð til síns máls. Prófessorinn ákvað að kanna Biblíuna og mynda sér að því búnu skoðun á henni.

2, 3. Hvers vegna er Biblían mörgum lokuð bók og hvaða áskorun er það fyrir okkur?

2 Prófessorinn er ekkert einsdæmi. Margir hafa ákveðnar skoðanir á Biblíunni jafnvel þótt þeir hafi aldrei lesið hana sjálfir. Þeir eiga kannski biblíu. Þeir kunna jafnvel að viðurkenna bókmennta- eða sögulegt gildi hennar. En mörgum er hún lokuð bók. ‚Ég hef ekki tíma til að lesa Biblíuna,‘ segja sumir. Aðrir spyrja: ‚Hvernig er nokkur leið að bók úr fornöld skipti líf mitt einhverju máli?‘ Það reynir á hæfni okkar sem votta Jehóva að ræða við fólk með slíkar skoðanir. Við trúum því staðfastlega að Biblían sé „innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) En hvernig getum við sannfært fólk um að það ætti, óháð kynþætti sínum eða þjóðerni, að kynna sér Biblíuna?

3 Við skulum taka til umfjöllunar nokkrar ástæður fyrir því að Biblían sé þess virði að menn kynni sér hana. Slík umfjöllun getur fært okkur í hendur rök sem nægja kannski til að sannfæra viðmælendur okkar í boðunarstarfinu um að þeir ættu að hugleiða það sem Biblían segir. Jafnframt ætti þessi upprifjun að styrkja trú okkar á að Biblían sé svo sannarlega það sem hún segist vera — „orð Guðs.“ — Hebreabréfið 4:12.

Útbreiddasta bók í heimi

4. Hvers vegna er hægt að segja að Biblían sé útbreiddasta bók í heimi?

4 Fyrst má nefna að Biblían er langsamlega útbreiddasta bók sögunnar og sú sem þýdd hefur verið á flest tungumál og verðskuldar því athugun manna. Fyrir meira en 500 árum kom fyrsta útgáfan, sem prentuð var með lausu letri, úr prentvél Jóhannesar Gutenbergs. Síðan þá er áætlað að Biblían í heild eða að hluta til hafi verið prentuð í meira en fjórum milljörðum eintaka. Árið 1996 hafði öll Biblían eða hlutar hennar verið þýdd á 2167 tungumál og mállýskur.a Meira en 90 af hundraði manna hefur aðgang í það minnsta að hluta Biblíunnar á sínu tungumáli. Engin önnur bók — trúarleg sem önnur — kemst þar nærri.

5. Hvers vegna ættum við að búast við að Biblían sé aðgengileg fólki um gervallan heim?

5 Tölfræðilegar upplýsingar sanna ekki einar sér að Biblían sé orð Guðs. Hins vegar ættum við vissulega að vænta þess að skrifað mál, sem er innblásið af Guði, sé aðgengilegt fólki um allan heim. Biblían segir okkur sjálf: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Postulasagan 10:34, 35) Engin bók hefur sem Biblían farið yfir landamæri þjóða og yfirstigið kynþátta- og þjóðernishindranir. Biblían er með sanni bók fyrir alla.

Varðveist á einstakan hátt

6, 7. Hvers vegna er ekki undarlegt að ekkert frumrit Biblíunnar sé til svo vitað sé og hvaða spurningu vekur það?

6 Biblían á líka af annarri ástæðu skilið að vera rannsökuð. Hún hefur komist fram hjá hindrunum bæði af völdum náttúrunnar og manna. Sagan af því hvernig hún varðveittist þrátt fyrir gífurlega fyrirstöðu er sannarlega einstök sé litið til annarra fornra rita.

7 Biblíuritararnir skráðu greinilega orð sín með bleki á papírus (unninn úr egypskri jurt með sama nafni) og bókfell (gert úr dýraskinnum).b (Jobsbók 8:11) Slík efni eiga sér þó sína náttúrlegu óvini. Fræðimaðurinn Oscar Paret útskýrir það: „Raki, mygla og ýmsar lirfur eru verulegir ógnvaldar beggja þessara efna sem skrifað var á. Við þekkjum af daglegri reynslu hversu auðveldlega pappír og jafnvel sterkt leður skemmist undir beru lofti eða í röku herbergi.“ Þess vegna er ekkert undarlegt að engin þessara upphaflegu handrita séu enn til svo vitað sé; þau grotnuðu líklega niður fyrir löngu. En hvernig lifði Biblían af fyrst frumritin lutu í lægra haldi fyrir náttúrlegum óvinum?

8. Hvernig varðveittist í aldanna rás það sem stóð í Biblíunni?

8 Fljótlega eftir að frumritin voru skrifuð var farið að handskrifa afrit af þeim. Afritun lagasáttmálans og annarra hluta Hebresku ritninganna varð reyndar að sérstakri starfsgrein í Ísrael til forna. Prestinum Esra er til dæmis lýst sem „leiknum afritara Móselaganna.“ (Esra 7:6, 11, NW; samanber Sálm 45:2.) En afritin voru líka forgengileg; með tímanum þurftu enn önnur handrituð afrit að leysa þau af hólmi. Þannig var um aldir haldið áfram að taka afrit af afritum. En menn eru ekki fullkomnir svo spyrja má hvort mistök afritara hafi leitt af sér verulegar breytingar á biblíutextanum? Allt bendir ákveðið til þess að svo hafi ekki verið.

9. Hvernig sýnir dæmið um Masoretana hina feikilegu gætni og nákvæmni biblíuafritaranna?

9 Afritararnir voru ekki einungis mjög færir heldur báru þeir líka mikla virðingu fyrir textanum sem þeir afrituðu. Hebreska orðið, sem þýtt er „afritari,“ vísar til þess að telja eitthvað eða skrá. Lýsandi dæmi um feikilega gætni og nákvæmni afritaranna eru Masoretarnir. Þeir voru uppi á sjöttu til tíundu öld e.o.t. og afrituðu Hebresku ritningarnar. Að sögn fræðimannsins Thomasar Hartwells Homes skráðu þeir „hve oft hver einstakur stafur [hebreska] stafrófsins kæmi fyrir í öllum Hebresku ritningunum.“ Hugleiddu hvað það merkir. Til að forðast að sleppa úr jafnvel einum einasta staf töldu þessir trúu afritarar ekki aðeins orðin, sem þeir afrituðu, heldur líka stafina. Samkvæmt talningu eins fræðimanns fylgdust þeir með 815.140 einstökum stöfum í Hebresku ritningunum eftir því sem sagt er. Slík kostgæfni tryggði nákvæmni á háu stigi.

10. Hvaða óyggjandi vitnisburður liggur fyrir um að hebreski og gríski textinn, sem nútímaþýðingar eru byggðar á, endurspegli nákvæmlega orð þeirra sem frumritin skrifuðu?

10 Reyndin er sú að óyggjandi vitnisburður er til um að hebreski og gríski textinn, sem nútímaþýðingar eru byggðar á, endurspegli af einstakri nákvæmni þau orð sem skráð voru í frumritin. Vitnisburðurinn felst í þúsundum handskrifaðra afrita biblíuhandrita — áætlað um 6000 af öllum Hebresku ritningunum eða hluta þeirra og um 5000 af Kristnu ritningunum á grísku — sem varðveist hafa til okkar daga. Nákvæm samanburðargreining á þeim mörgu handritum sem til eru hafa gert textafræðingum kleift að finna hvar afriturunum urðu á mistök og komast að því hvað stóð í frumtextanum. Í athugasemdum sínum um texta Hebresku ritninganna fullyrti því fræðimaðurinn William H. Green: „Það er óhætt að segja að engu öðru verki úr fornöld hafi verið skilað áfram af slíkri nákvæmni.“ Sams konar traust má bera til texta kristnu Grísku ritninganna.

11. Hvers vegna hefur Biblían, í ljósi 1. Pétursbréfs 1:24, 25, varðveist til okkar daga?

11 Hve auðveldlega hefði Biblían ekki getað farið forgörðum ef handrituðu afritanna hefði ekki notið við, en þau tóku við af frumritunum með dýrmætum boðskap sínum. Það er aðeins ein ástæða fyrir því að Biblían hefur varðveist — Jehóva varðveitir og verndar orð sitt. Biblían segir sjálf í 1. Pétursbréfi 1:24, 25: „Allt hold er sem gras og öll vegsemd þess sem blóm á grasi; grasið skrælnar og blómið fellur. En orð [Jehóva] varir að eilífu.“

Þýdd á lifandi tungur mannkyns

12. Hvaða hindrun varð á vegi Biblíunnar fyrir utan það að þurfa að standast afritanir öldum saman?

12 Það var ekki sjálfsagt mál að Biblían kæmist nær ósködduð í gegnum sífelldar afritanir öldum saman. Enn önnur hindrun varð þó á vegi hennar — hvernig þýða mætti hana á tungumálin sem töluð voru á hverjum tíma. Biblían verður að tala á tungumáli fólksins til þess að tala til hjarta þess. Það er þó engan veginn létt verk að þýða Biblíuna sem í eru meira en 1100 kaflar og 31.000 vers. Á umliðnum öldum hafa þó þýðendur, sem helguðu sig því verkefni, fúslega tekið þeirri áskorun og á stundum virst standa frammi fyrir óyfirstíganlegum hindrunum.

13, 14. (a) Hvaða áskorun mætti biblíuþýðandanum Robert Moffat í Afríku snemma á 19. öld? (b) Hver urðu viðbrögð tsúana-mælandi manna þegar Lúkasarguðspjall kom út á tungumáli þeirra?

13 Skoðum til dæmis hvernig Biblían var þýdd á tungumál Afríku. Árið 1800 var aðeins um tylft ritaðra tungumála í gervallri Afríku. Hundruð annarra tungumála voru töluð en kerfi til að rita þau niður voru engin til. Þetta var sú þraut sem beið biblíuþýðandans Roberts Moffats. Árið 1821, þá 25 ára gamall, setti Moffat á laggirnar trúboðsstöð meðal tsúana-mælandi manna í sunnanverðri Afríku. Hann umgekkst þá til þess að læra hið óskrifaða tungumál þeirra. Moffat þraukaði, og án stafrófskvers eða orðabóka náði hann að lokum góðum tökum á tungumálinu, bjó til ritletur fyrir það og kenndi nokkrum Tsúanamönnum að lesa það letur. Árið 1829 lauk hann við þýðingu Lúkasarguðspjalls eftir að hafa starfað átta ár meðal Tsúanamanna. Seinna sagði hann: „Ég veit um fólk sem kom hundruð mílna til að ná sér í eintak af Lúkasi. . . . Ég hef séð það taka við hlutum af Lúkasarguðspjalli og gráta yfir þeim og halda þeim að barmi sér og tárfella af þakklæti uns ég hef sagt við fleiri en einn: ‚Þú skemmir bækurnar með tárunum.‘“ Moffat sagði líka sögu af afrískum manni sem sá hóp manna lesa Lúkasarguðspjall og spurði þá hvað þeir væru með. „Það er orð Guðs,“ svöruðu þeir. „Talar það?“ spurði maðurinn. „Já,“ sögðu þeir, „það talar til hjartans.“

14 Það var vegna trúfastra þýðenda eins og Moffats að margir Afríkumenn gátu í fyrsta sinn tjáð sig skriflega. En þýðendurnir gáfu íbúum Afríku jafnvel enn dýrmætari gjöf — Biblíuna á þeirra eigin tungu. Auk þess kom Moffat Tsúanamönnum í kynni við nafn Guðs og hann notaði það nafn hvarvetna í þýðingu sinni.c Þar af leiðandi töluðu Tsúanamenn um Biblíuna sem „munn Jehóva.“ — Sálmur 83:19.

15. Hvers vegna er Biblían bráðlifandi núna?

15 Aðrir þýðendur víða um heim mættu svipuðum hindrunum. Sumir hættu jafnvel lífi sínu til að þýða Biblíuna. Hugleiddu þetta: Ef Biblían hefði áfram verið til aðeins á forn-hebresku og grísku kynni hún að hafa „dáið“ fyrir löngu af því að alþýða manna gleymdi þessum tungumálum nánast algerlega með tímanum og á fjölmörgum stöðum á jörðinni þekktu menn þau aldrei. Samt er Biblían bráðlifandi vegna þess að hún getur, ólíkt öðrum bókum, „talað“ til manna um alla veröld á þeirra eigin tungumáli. Afleiðingin er sú að boðskapur hennar heldur áfram að ‚sýna kraft sinn í þeim sem trúa‘ á hana. (1. Þessaloníkubréf 2:13) Biblíuþýðingin The Jerusalem Bible þýðir þessi orð þannig: „Það er enn þá lifandi afl meðal ykkar sem trúið því.“

Traustsins verð

16, 17. (a) Ef Biblían er trúverðug hvaða sönnun ætti þá að liggja fyrir? (b) Nefnið dæmi sem sýnir hreinskilni biblíuritarans Móse.

16 ‚Er í raun og veru hægt að treysta Biblíunni?‘ velta sumir kannski fyrir sér. ‚Fjallar hún um fólk sem var óneitanlega uppi, staði sem voru raunverulega til og atburði sem áttu sér virkilega stað?‘ Ef við eigum að treysta henni ætti að vera til sönnun fyrir því að ritarar hennar hafi verið vandvirkir og heiðarlegir. Þá erum við komin að annarri ástæðu fyrir því að rannsaka Biblíuna: Til er áreiðanlegur vitnisburður um að hún sé nákvæm og trúverðug.

17 Heiðarlegir ritarar myndu ekki eingöngu greina frá velgengni manna heldur líka mistökum, ekki aðeins frá sterkum hliðum þeirra heldur líka veikleikum. Biblíuritararnir sýndu slíka hressandi hreinskilni. Lítum til dæmis á hve hispurslaus Móse var. Meðal þess sem hann greindi frá undanbragðalaust var hans eigin málhelti sem gerði hann að sínu mati óhæfan til að vera leiðtogi Ísraels (2. Mósebók 4:10); hin alvarlegu mistök er honum urðu á og komu í veg fyrir að hann fengi að fara inn í fyrirheitna landið (4. Mósebók 20:9-12; 27:12-14); víxlspor bróður hans, Arons, sem lagði uppreisnargjörnum Ísraelsmönnum lið með því að búa til gullkálf (2. Mósebók 32:1-6); uppreisn systur hans, Mirjam, og auðmýkjandi refsing hennar (4. Mósebók 12:1-3, 10); vanhelgun Nadabs og Abíhús, bróðursona hans (3. Mósebók 10:1, 2) og hvernig sjálft fólk Guðs var sífellt að kvarta og mögla. (2. Mósebók 14:11, 12; 4. Mósebók 14:1-10) Gefur ekki svo einlæg og opinská frásögn til kynna einlæga sannleiksást? Er ekki full ástæða til að treysta skrifum biblíuritaranna fyrst þeir voru fúsir til að gefa óhagstæðar upplýsingar um ástvini sína, þjóð og jafnvel sjálfa sig?

18. Hvað gerir skrif þeirra sem skráðu Biblíuna trúverðug?

18 Samræmið milli þeirra sem skráðu Biblíuna gerir skrif þeirra líka trúverðug. Það er sannarlega eftirtektarvert að 40 menn, sem skrifuðu á tímabili er spannar meira en 1600 ár, skuli allir vera á sama máli, jafnvel í allra smæstu efnum. Þessu samræmi er hins vegar ekki svo vandlega hagrætt að það veki grun um samantekin ráð. Þvert á móti er augljóslega ekki um ásetning að ræða í því hvernig sum smáatriði koma heim og saman; oft er samræmið greinilega hrein tilviljun.

19. Hvernig birtist samræmi sem er augljóslega óafvitandi í frásögnum guðspjallanna af handtöku Jesú?

19 Lýsum þessu með atburði sem átti sér stað nóttina sem Jesús var handtekinn. Öll guðspjöllin fjögur greina frá því að einn lærisveinanna hafi dregið upp sverð og slegið til þjóns æðsta prestsins og sniðið af honum eyrað. Lúkas einn segir hins vegar frá því að Jesús „snart eyrað og læknaði hann.“ (Lúkas 22:51) En mátti ekki vænta þess af ritara sem þekktur var sem „læknirinn elskaði“? (Kólossubréfið 4:14) Frásögn Jóhannesar segir að af öllum lærisveinunum, sem viðstaddir voru, hafi það verið Pétur sem brá sverðinu — enda er vitað að Pétur hafði tilhneigingu til að vera fljótfær og hvatvís. (Jóhannes 18:10; samanber Matteus 16:22, 23 og Jóhannes 21:7, 8.) Jóhannes segir frá öðru, að því er virðist óþörfu, smáatriði: „Þjónninn hét Malkus.“ Hvers vegna gefur Jóhannes einn upp nafn mannsins? Skýringin kemur fram í staðreynd sem rétt er drepið á í frásögn Jóhannesar og aðeins þar — Jóhannes „var kunnugur æðsta prestinum.“ Hann var líka kunnugur heimilisfólki æðsta prestsins; þjónarnir könnuðust við hann og hann við þá.d (Jóhannes 18:10, 15, 16) Það er því aðeins eðlilegt að Jóhannes skuli tilgreina nafn særða mannsins þó að hinir guðspjallamennirnir, sem þekktu greinilega ekki til mannsins, geri það ekki. Samræmið milli þessara smáatriða er athyglisvert en samt augljóslega óafvitandi. Um alla Biblíuna má finna fjölda svipaðra dæma.

20. Hvað þarf hjartahreint fólk að vita um Biblíuna?

20 Getum við þá treyst Biblíunni? Tvímælalaust! Hreinskilni biblíuritaranna og innra samræmi Biblíunnar gefa henni skýran sannleiksblæ. Hjartahreint fólk þarf að vita að það geti treyst Biblíunni vegna þess að hún er innblásið orð ‚Jehóva, Guðs sannleikans.‘ (Sálmur 31:5, NW) Fleiri ástæður eru fyrir því að Biblían er bók fyrir alla, eins og næsta grein ræðir um.

[Neðanmáls]

a Byggt á tölum frá Sameinuðu biblíufélögunum.

b Á meðan Páll var fangi í Róm í annað sinn bað hann Tímóteus að færa sér „bækurnar, einkanlega skinnbækurnar.“ (2. Tímóteusarbréf 4:13) Páll var hugsanlega að biðja um hluta af Hebresku ritningunum til þess að hann gæti rannsakað þær í fangelsinu. Orðalagið „einkanlega skinnbækurnar“ kann að gefa til kynna að bæði hafi verið um að ræða bókrollur úr papírus og aðrar úr bókfelli, pergamenti.

c Árið 1838 lauk Moffat þýðingu kristnu Grísku ritninganna. Með hjálp samstarfsmanns lauk hann þýðingu Hebresku ritninganna árið 1857.

d Kunningsskapur Jóhannesar við æðsta prestinn og heimilisfólk hans sést enn betur síðar í frásögninni. Þegar annar af þjónum æðsta prestsins hermdi það upp á Pétur að vera einn af lærisveinum Jesú útskýrir Jóhannes að þessi þjónn hafi verið „frændi þess, sem Pétur sneið af eyrað.“ — Jóhannes 18:26.

Hverju svarar þú?

◻ Hvers vegna ættum við að búast við að Biblían sé aðgengilegasta bók í heimi?

◻ Hvað ber því vitni að Biblían hafi varðveist óbrengluð?

◻ Hvaða hindranir mættu þeim sem þýddu Biblíuna?

◻ Hvað gerir Biblíuna trúverðuga?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila