Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g98 8.1. bls. 5-7
  • Foreldrar undir álagi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Foreldrar undir álagi
  • Vaknið! – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „Örðugar tíðir“
  • ‚Kærleikslaus‘
  • Foreldrar — alið börnin ykkar upp með ástúð
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2007
  • Börn eru dýrmæt gjöf
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2005
  • Foreldrar, hjálpið börnunum ykkar að elska Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
  • Kenndu barninu frá unga aldri
    Farsælt fjölskyldulíf — hver er leyndardómurinn?
Sjá meira
Vaknið! – 1998
g98 8.1. bls. 5-7

Foreldrar undir álagi

NÝBAKAÐIR foreldrar eru oft næstum frá sér numdir af hrifningu. Nálega allt sem viðkemur barninu er frábært. Fyrsta brosið, fyrstu orðin og fyrstu skrefin eru stórviðburðir. Þeir skemmta vinum og ættingjum með sögum og ljósmyndum. Það leikur ekki á tveim tungum að þeir elska barnið sitt.

En í sumum fjölskyldum breytist gleðin í harmleik þegar árin líða. Hjal og leikir foreldranna snúast í hranaleg og meiðandi orð, ástúðleg faðmlög í reiðileg högg eða alls enga snertingu, stoltið í beiskju. „Ég hefði aldrei átt að eignast börn,“ segja margir. Í öðrum fjölskyldum er ástandið enn verra því að foreldrarnir sýndu barninu ekki einu sinni ást meðan það var í vöggu! Hvað gerðist? Hvar er ástin?

Börnin eru auðvitað ekki fær um að svara slíkum spurningum. En það kemur ekki í veg fyrir að þau dragi sínar ályktanir. Djúpt í fylgsnum hjartans hugsa þau kannski: ‚Fyrst pabbi eða mamma elska mig ekki hlýtur að vera eitthvað að mér. Ég hlýt að vera mjög vondur.‘ Þessi hugsun getur orðið að bjargfastri trú sem getur valdið alls konar tjóni það sem eftir er ævinnar.

En sannleikurinn er sá að það geta verið fjölmargar ástæður fyrir því að foreldrar sýna börnunum ekki þá ást sem þau þarfnast. Óneitanlega eru foreldrar undir gífurlegu álagi nú á dögum og á sumum sviðum er það meira en áður hefur þekkst. Séu foreldrarnir ekki undir það búnir að mæta álaginu getur það skert stórlega hæfni þeirra til að gegna hlutverki sínu sem foreldrar. Fornt spakmæli segir: „Kúgun gjörir vitran mann að heimskingja.“ — Prédikarinn 7:7.

„Örðugar tíðir“

Margir bjuggust við að sjá draumaveröld, útópíu, á þessari öld. Hugsaðu þér — engir fjárhagserfiðleikar, hungur, þurrkar eða stríð! En slíkar vonir hafa ekki ræst. Þess í stað hefur heimurinn orðið eins og biblíuritari einn spáði á fyrstu öld. Hann skrifaði að á okkar dögum kæmu „örðugar tíðir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Flestir foreldrar tækju manna fyrstir undir með honum.

Margir nýbakaðir foreldrar eru nánast orðlausir yfir kostnaðinum við að ala upp börn í heimi nútímans. Oft þurfa bæði hjónin að vinna úti til þess eins að ná endum saman. Heilsugæsla, fatnaður, skólaganga, dagvistun og jafnvel fæði og húsaskjól er svo dýrt að margir foreldrar eru að drukkna í reikningum. Efnahagsástandið minnir biblíunemendur á spádóminn í Opinberunarbókinni sem talar um þann tíma þegar daglaunin rétt hrykkju fyrir daglegum nauðsynjum eins manns! — Opinberunarbókin 6:6.

Það er ekki hægt að ætlast til að börn skilji allt það álag sem hvílir á foreldrunum. En það liggur í eðli barna að þarfnast, já, hungra í ást og athygli. Og þrýstingurinn frá fjölmiðlum og skólafélögum að eignast nýjustu leikföngin, fötin og rafeindatækin hefur oft í för með sér aukinn þrýsting á foreldrana að sjá börnunum fyrir æ fleiri hlutum sem þau langar í.

Uppreisnargirni er annað álag sem hvílir á foreldrum og virðist fara vaxandi þessa dagana. Athyglisvert er að Biblían spáði því að útbreidd óhlýðni barna við foreldra yrði annað einkenni okkar erfiðu tíma. (2. Tímóteusarbréf 3:2) Agavandamál eru auðvitað engin nýlunda fyrir foreldra. Og ekkert foreldri getur með réttu farið illa með börnin á þeirri forsendu að þau hafi hegðað sér illa. En fellstu ekki á að allt umhverfið, sem foreldrar þurfa að ala börn upp í, einkennist af uppreisn? Vinsæl tónlist sem hvetur til reiði, uppreisnar og örvæntingar, sjónvarpsþættir er lýsa foreldrum sem algerum bjánum og börnunum sem úrræðagóðum oflátungum, kvikmyndir sem upphefja ofbeldi — allt dynur þetta á börnunum. Börn sem drekka í sig þessi áhrif og tileinka sér uppreisnargirnina geta valdið foreldrum sínum miklum áhyggjum.

‚Kærleikslaus‘

Þessi sami, forni spádómur bendir á annað sem veit á enn meiri vandræði fyrir fjölskyldur nú á tímum. Hann segir að fjöldinn allur af fólki myndi vera ‚kærleikslaus.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:3) Það er kærleikur sem heldur fjölskyldum saman. Og jafnvel þeir sem eru tortryggnastir gagnvart spádómum Biblíunnar verða að viðurkenna að fjölskyldulífinu hefur hnignað verulega. Hjónaskilnuðum hefur fjölgað gríðarlega um heim allan. Víða um lönd eru einstæðir foreldrar og stjúpfjölskyldur algengari en hefðbundnar fjölskyldur. Einstæðir foreldrar og stjúpforeldrar eiga við sérstakan vanda og álag að glíma sem getur gert þeim erfitt um vik að sýna börnunum þá ást sem þau þarfnast.

En áhrifin eru djúpstæðari. Margir, sem eru foreldrar núna, ólust sjálfir upp á heimilum þar sem þeim var lítil ást sýnd — heimilum sem voru sundruð sökum framhjáhalds og skilnaðar, heimilum þar sem kuldi og hatur reið húsum og jafnvel heimilum þar sem munnlegt, tilfinningalegt eða kynferðislegt ofbeldi var daglegt brauð. Að alast upp á slíku heimili skaðar ekki aðeins börnin heldur líka manneskjurnar sem þarna eru að vaxa úr grasi. Talnaskýrslur draga upp ófagra mynd — foreldrar, sem var misþyrmt í æsku, eru líklegir til að misþyrma sínum eigin börnum. Gyðingar á biblíutímanum höfðu þetta að máltæki: „Feðurnir átu súr vínber, og tennur barnanna urðu sljóar.“ — Esekíel 18:2.

En Guð sagði fólki sínu að það þyrfti ekki að vera þannig. (Esekíel 18:3) Hér þarf að koma mikilvægu atriði á framfæri. Er álagið á foreldrana slíkt að þeir geti hreinlega ekki annað en farið illa með sín eigin börn? Síður en svo. Örvæntu ekki ef þú ert foreldri og ert að reyna að rísa undir álaginu, sem hér hefur verið nefnt, og ert að velta fyrir þér hvort þú getir nokkurn tíma verið gott foreldri. Þú ert ekki tala í skýrslu. Fortíðin stýrir ekki sjálfkrafa framtíðinni.

Bókin Healthy Parenting segir í samræmi við loforð Biblíunnar um að hægt sé að bæta sig: „Ef þú gerir ekki vísvitandi ráðstafanir til að hegða þér ólíkt foreldrum þínum mun æskumynstur þitt endurtaka sig, hvort sem þú vilt það eða ekki. Til að rjúfa hringinn þarftu að átta þig á hinu óheilbrigða mynstri, sem þú viðheldur, og læra að breyta því.“

Já, ef nauðsynlegt er geturðu rofið vítahringinn svo að misþyrmingar æskuáranna endurtaki sig ekki. Og þú getur risið undir álaginu sem gerir foreldrum svo erfitt að gera hlutverki sínu skil nú á tímum. En hvernig? Hvar finnurðu bestu, áreiðanlegustu og heilbrigðustu uppeldisreglurnar? Um það er fjallað í greininni á eftir.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Undir álagi vanrækja sumir foreldrar að sýna börnum sínum ást og athygli.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Foreldrar ættu að sýna börnum sínum þá ást sem þau þarfnast.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila