Göngum eins og Guð kennir okkur
„Förum upp á fjall [Jehóva] . . . , svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.“ — MÍKA 4:2.
1. Hvað myndi Guð, samkvæmt orðum Míka, gera fyrir fólk sitt á hinum síðustu dögum?
MÍKA, spámaður Guðs, sagði fyrir að „á hinum síðustu dögum,“ okkar tímum, myndu margir leita Guðs ötullega til þess að tilbiðja hann. Þeir myndu hvetja hver annan og segja: „Förum upp á fjall [Jehóva] . . . , svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.“ — Míka 4:1, 2.
2, 3. Hvernig rætist nú á dögum spá Páls um fégirnd?
2 Könnun okkar á 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5 getur hjálpað okkur að sjá árangurinn af því að fá fræðslu frá Guði á „síðustu dögum.“ Í undanfarandi grein byrjuðum við með því að taka eftir hvaða hag menn hafa af því að taka til sín viðvörun Páls um að vera ekki „sérgóðir.“ Páll bætti við að á okkar tímum yrðu menn einnig „fégjarnir.“
3 Það þarf ekki háskólapróf í nútímasögu til að sjá hve vel þessi orð lýsa okkar tímum. Hefur þú ekki lesið um fésýslumenn og forstjóra stórfyrirtækja sem gera sig ekki ánægða með árstekjur sem samsvara tugum eða hundruðum milljóna króna? Þessir fégjörnu menn halda áfram að vilja meira, jafnvel eftir ólöglegum leiðum. Orð Páls hæfa líka mörgum nú á dögum sem eru alveg jafnágjarnir, þótt þeir séu ekki efnaðir, og aldrei ánægðir. Þú kannast ef til vill við marga slíka í þinni byggð.
4-6. Hvernig hjálpar Biblían kristnum mönnum að forðast fégirndina?
4 Er það sem Páll nefndi aðeins óhjákvæmilegur þáttur mannlegs eðlis? Ekki eftir því sem höfundur Biblíunnar segir en hann lét endur fyrir löngu setja þessi sannindi á blað: „Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ Taktu eftir að Guð sagði ekki að ‚peningar séu rót alls þess sem illt er.‘ Hann sagði að „fégirndin“ væri það. — 1. Tímóteusarbréf 6:10.
5 Það er athyglisvert að samhengi þessa vers bendir til að sumir góðir kristnir menn á fyrstu öld hafi verið auðugir í þessu heimskerfi, hvort heldur þeir erfðu þann auð eða öfluðu sér hans með heiðarlegri vinnu. (1. Tímóteusarbréf 6:17) Það ætti því að vera augljóst að Biblían varar okkur við þeirri hættu að verða fégjarnir, hver svo sem fjárhagur okkar er. Kemur Biblían með einhverja frekari gagnlega kennslu um það að forðast þennan skammarlega en algenga galla? Það gerir hún svo sannarlega, til að mynda í fjallræðu Jesú. Viskan í henni er heimsfræg. Taktu til dæmis eftir því sem Jesús sagði í Matteusi 6:26-33.
6 Eins og skráð er í Lúkasi 12:15-21 talaði Jesús um ríkan mann sem reyndi að safna sér meiri auði en dó svo skyndilega. Hver var kjarninn í þessari dæmisögu Jesú? Hann sagði: „Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.“ Samhliða slíkum ráðleggingum fordæmir Biblían leti og leggur áherslu á gildi heiðarlegrar vinnu. (1. Þessaloníkubréf 4:11, 12) Sumir andmæla kannski og segja að slíkar kenningar hæfi ekki okkar tímum. En reynslan hefur sýnt að þær eiga vel við nútímann og verka vel.
Gagnleg fræðsla
7. Hvaða ástæðu höfum við til að treysta því að við getum með góðum árangri fylgt ráðleggingum Biblíunnar um auðæfi?
7 Í hverju landinu á fætur öðru finnur þú raunsönn dæmi um karla og konur af öllum efnahags- og þjóðfélagsstigum sem hafa farið eftir þessum meginreglum Guðs. Með því hafa þau gert sjálfum sér og fjölskyldum sínum gagn eins og jafnvel utanaðkomandi aðilar geta séð. Til dæmis skrifaði mannfræðingur í bókinni Religious Movements in Contemporary America sem er frá útgáfufyrirtæki Princetonháskóla: „Í ritum [vottanna] og ræðum þeirra í söfnuðunum eru þeir minntir á að staða þeirra byggist ekki á nýjum bílum, dýrum fötum og bruðlunarsömu líferni. Jafnframt á vottur að skila vinnuveitanda sínum sómasamlegu dagsverki og vera heiðarlegur fram í fingurgóma . . . Slík einkenni gera jafnvel mann, sem ekki býr yfir mikilli verkkunnáttu, að nytsömum launþega, og sumir vottar í Norður-Fíladelfíu [sem er fátækt svæði í Bandaríkjunum] hafa verið hækkaðir upp í töluverðar ábyrgðarstöður á vinnustað.“ Greinilegt er að fólki, sem hefur tekið á móti fræðslu Guðs frá orði hans, hefur verið gert viðvart um hugarfar sem gerir mönnum erfiðara að takast á við núverandi ástand. Reynsla þess sannar að biblíufræðsla getur leitt til skynsamlegra og hamingjuríkara lífs.
8. Hvers vegna er hægt að tengja það saman að vera ‚raupsamur, hrokafullur og lastmælandi,‘ og hvað þýða þessi hugtök?
8 Við getum tengt saman næstu þrjú atriði sem Páll telur upp. Á síðustu dögum yrðu menn „raupsamir, hrokafullir, lastmælendur.“ Þetta þrennt er ekki það sama en það er allt tengt drambi. Fyrsta atriðið er ‚raupsemi.‘ Orðabók segir okkur að gríska frumorðið hér merki „‚þann sem gerir meira úr sjálfum sér en efni standa til‘ eða ‚lofar meiru en hann getur staðið við.‘“ Næst kemur ‚hroki‘ eða bókstaflega „sá sem virðist meiri.“ Að síðustu eru „lastmælendur.“ Sumir hugsa kannski um lastmælendur sem þá er tala óvirðulega um Guð, en grunnhugtakið felur í sér skaðlegt, rógkennt eða illt tal gegn mönnum. Páll er því að tala um lastmælgi sem beinist bæði gegn Guði og mönnum.
9. Hvaða viðhorf hvetur Biblían fólk til að þroska með sér sem stangast á við hin ríkjandi og skaðlegu viðhorf?
9 Hvernig líður þér þegar þú umgengst fólk sem lýsing Páls á við, hvort heldur vinnufélaga, skólafélaga eða ættingja? Finnst þér það auðvelda þér lífið eða gerir slíkt fólk lífið flóknara, gerir þér erfiðara fyrir að takast á við okkar tíma? Orð Guðs kennir okkur að forðast þau viðhorf, sem birtast í hegðun slíks fólks, með því að gefa okkur leiðbeiningar eins og þær sem er að finna í 1. Korintubréfi 4:7, Kólossubréfinu 3:12, 13 og Efesusbréfinu 4:29.
10. Hvað gefur til kynna að fólk Jehóva hafi gagn af því að þiggja fræðslu frá Biblíunni?
10 Enda þótt kristnir menn séu ófullkomnir er mikil hjálp í því að fara eftir þessari góðu fræðslu á þessum örðugu tímum. Ítalska tímaritið La Civiltà Cattolica segir að ein ástæðan fyrir því að vottum Jehóva haldi áfram að fjölga sé sú að þeir séu „hreyfing sem gefur meðlimum sínum nákvæma og sterka sjálfsmynd.“ Átti greinarhöfundur við ‚raupsemi, hroka og lastmælgi‘ þegar hann talaði um „sterka sjálfsmynd?“ Þvert á móti heldur jesúítatímaritið áfram og getur þess að hreyfingin gefi „meðlimum sínum nákvæma og sterka sjálfsmynd og sé þeim staður þar sem þeim er tekið með hlýju, bróðurþeli og samstöðu.“ Er ekki greinilegt að það sem vottunum hefur verið kennt hjálpar þeim?
Gagnleg fræðsla fyrir fjölskylduna
11, 12. Hvernig gaf Páll með nákvæmni til kynna hvert ástandið yrði í mörgum fjölskyldum?
11 Við getum flokkað næstu fjögur atriði saman því að þau tengjast nokkuð hvert öðru. Páll sagði að á síðustu dögum myndu margir vera „foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir [„ótrúir,“ NW], kærleikslausir.“ Þú veist að tveir þessara galla — vanþakklæti og ótrúmennska — eru allt í kringum okkur. En það er auðséð hvers vegna Páll nefndi þá á milli þess að vera „foreldrum óhlýðnir“ og „kærleikslausir.“ Þetta fernt helst oft í hendur.
12 Nálega allir athugulir menn — ungir eða gamlir — hljóta að viðurkenna að óhlýðni við foreldra er útbreidd og fer versnandi. Margir foreldrar kvarta undan því að ungt fólk virðist vanþakklátt fyrir hvaðeina sem gert er fyrir það. Margir unglingar lýsa því yfir að foreldrar þeirra sýni þeim (eða fjölskyldunni í heild) í rauninni ekki tryggð heldur séu með allan hugann við vinnu sína, skemmtanalíf eða sjálfa sig. Í stað þess að reyna að finna út hver sé sökudólgurinn skulum við líta á hinar sorglegu afleiðingar. Gjáin milli fullorðinna og unglinga leiðir oft til þess að unglingarnir setja sér sínar eigin siðferðisreglur eða siðleysisreglur ef svo má segja. Afleiðingin hefur orðið hröð aukning þungana, fóstureyðinga og samræðissjúkdóma meðal unglinga. Allt of oft leiðir skortur á eðlilegri ástúð á heimilinu til ofbeldis. Þú getur líklega sagt frá dæmum úr þínu eigin byggðarlagi sem sanna að eðlileg ástúð er að hverfa út í veður og vind.
13, 14. (a) Hvers vegna ættum við að gefa Biblíunni gaum þegar hnignun fjölskyldulífsins blasir víða við? (b) Hvers konar viturleg ráð gefur Guð um fjölskyldulífið?
13 Þetta kann að skýra hvers vegna sífellt fleiri eru að snúast gegn þeim sem þeim fannst einu sinni vera hluti af stórfjölskyldu þeirra, af sömu ætt, ættkvísl eða hópi. Hafðu þó hugfast að við erum ekki að draga þetta fram til að leggja áherslu á skuggahliðar lífsins nú á dögum. Þau tvö atriði, sem við leggjum áherslu á, eru þessi: (1) Geta kenningar Biblíunnar hjálpað okkur að forðast þá ágalla sem Páll taldi upp? (2) Höfum við gagn af því að fara eftir kenningum Biblíunnar í lífi okkar? Svörin geta verið jákvæð, eins og greinilegt er um þessi fjögur atriði í upptalningu Páls.
14 Það er fyllilega réttlætanlegt að staðhæfa að engin kenning taki fram kenningum Biblíunnar í því að skapa hlýlegt og farsælt fjölskyldulíf. Því til staðfestingar þarf ekki nema eitt dæmi um leiðbeiningar hennar sem geta hjálpað fjölskyldu ekki aðeins að forðast gildrur heldur einnig að vera samlynd. Kólossubréfið 3:18-21 er ágætt dæmi um það þó að finna megi marga aðra fallega og hagnýta ritningarstaði sem beint er til eiginmanna, eiginkvenna og barna. Þessar leiðbeiningar verka vel á okkar tímum. Víst er við vandamál að glíma og áskoranir sem þarf að taka, jafnvel í sannkristnum fjölskyldum. En á heildina litið sannar árangurinn að Biblían kemur með mjög gagnlega kennslu handa fjölskyldum.
15, 16. Hvaða ástand sá rannsóknarmaður þegar hann kannaði votta Jehóva í Sambíu?
15 Í hálft annað ár rannsakaði rannsóknarmaður frá Lethbridgeháskóla í Kanada þjóðlíf manna í Sambíu. Hann sagði: „Vottum Jehóva tekst betur en meðlimum annarra trúfélaga að viðhalda traustum hjónaböndum. . . . Velgengni þeirra ber vitni um betrumbætt samskiptasamband milli eiginmanns og eiginkonu sem nýlega hafa uppgötvað hvernig þau geta óhrædd unnið saman og bera nú ábyrgð gagnvart nýjum yfirboðara, Guði, á framkomu sinni hvort við annað. . . . Eiginmanni, sem er vottur Jehóva, er kennt að ná þeim þroska að taka í verki á sig þá ábyrgð að sinna velferð konu sinnar og barna. . . . Eiginmaður og eiginkona eru hvött til að vera ráðvandir einstaklingar . . . Þessi sterka krafa um ráðvendni bindur hjónin traustum böndum.“
16 Þessi rannsókn var byggð á fjölmörgum, raunsönnum dæmum. Til dæmis sagði þessi rannsóknarmaður að gagnstætt venju „hjálpuðu eiginmenn, sem voru vottar Jehóva, eiginkonum sínum í garðinum, ekki aðeins við undirbúningsvinnuna heldur líka við að gróðursetja og taka upp.“ Þannig er greinilegt af reynslu fjölmargra um víða veröld að fræðsla Biblíunnar snertir líf manna.
17, 18. Hvaða óvæntar niðurstöður komu fram í rannsókn á trúarerfð og kynlífi fyrir hjónaband?
17 Greinin á undan nefndi niðurstöður sem birtust í tímaritinu Journal for the Scientific Study of Religion. Árið 1991 birtist grein í því sem hét „Trúarerfð og kynlíf fyrir hjónaband: Athuganir byggðar á landsúrtaki fullvaxta ungmenna.“ Þér er sennilega kunnugt um hve algengt kynlíf fyrir hjónaband er. Margir láta ungir að árum undan ástríðum sínum og margir táningar eiga sér marga rekkjunauta. Geta kenningar Biblíunnar breytt þessu algenga hegðunarmynstri?
18 Þrír aðstoðarprófessorar, sem rannsökuðu þessi mál, bjuggust við að ‚unglingar á gelgjuskeiði og fullvaxta ungmenni, sem alin væru upp eftir íhaldssamri kristinni hefð, hefðu síður kynmök fyrir hjónaband.‘ En hvað leiddu staðreyndirnar í ljós? Á heildina litið hafði milli 70 til 82 af hundraði haft kynmök fyrir hjónaband. Hjá sumum „dró uppeldi samkvæmt bókstafstrúarhefð úr líkunum á kynlífi fyrir hjónaband, þó ekki ‚kynlífi táninga fyrir hjónaband.‘“ Rannsóknarmennirnir nefndu að sumir unglingar úr fjölskyldum, sem virtust trúhneigðar, hafi verið „töluvert líklegri til að hafa kynmök fyrir hjónaband en hefðbundnir mótmælendur.“ — Leturbreyting okkar.
19, 20. Hvernig hefur fræðsla frá Guði hjálpað og verndað mörg ungmenni meðal votta Jehóva?
19 Prófessorarnir komust að hinu gagnstæða meðal unglinga votta Jehóva sem voru „sá hópur sem var ólíkastur öðrum.“ Hvers vegna? „Það fylgi við málstað og félagsleg sameining, sem reynsla, væntingar og þátttaka leiðir af sér, . . . getur almennt skapað sterkari fylgni við trúarlegar meginreglur.“ Þeir bættu við: „Það er ætlast til þess að sem unglingar og fullvaxta ungmenni uppfylli vottarnir skyldur við trúboð.“
20 Fræðsla frá Biblíunni hafði þar af leiðandi góð áhrif á votta Jehóva með því að hjálpa þeim að forðast siðleysi. Það þýðir vernd gegn samræðissjúkdómum sem sumir eru ólæknandi og aðrir banvænir. Það merkir að ekkert er þrýst á um fóstureyðingar sem Biblían kennir að jafngildi því að taka mannslíf. Það þýðir líka fullvaxta ungmenni sem hafa hreina samvisku og geta gengið óflekkuð í hjónaband. Það merkir síðan að hjónabandið sé byggt á traustari grunni. Þess konar kenningar geta hjálpað okkur að takast á við lífið og vera heilbrigðari og hamingjusamari.
Jákvæð fræðsla
21. Hverju spáði Páll nákvæmlega um okkar tíma?
21 Athugum núna aftur 2. Tímóteusarbréf 3:3, 4 og tökum eftir hvað annað Páll sagði myndu gera mörgum — þó ekki öllum — lífið erfitt: „[Menn munu vera] ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð.“ Þetta er svo sannarlega dagsatt! Fræðsla frá Biblíunni getur hins vegar verndað okkur og gert okkur kleift að takast á við erfiðleikana, komast farsællega gegnum þá.
22, 23. Með hvaða jákvæðri hvatningu lauk Páll upptalningu sinni og hvert er mikilvægi hennar?
22 Páll postuli lýkur upptalningu sinni á jákvæðum nótum. Hann breytir síðasta atriðinu í fyrirskipun frá Guði sem getur líka verið okkur til ómælanlegs gagns. Páll nefnir þá sem „hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar“ og segir síðan: „Snú þér burt frá slíkum!“ Minnumst þess að í sumum trúfélögum var raunar algengara en meðaltalið að unglingar ættu kynmök fyrir hjónaband. Og jafnvel þótt siðleysi þessara kirkjugesta hefði aðeins verið í meðallagi, hefði það ekki engu að síður verið sönnun þess að tilbeiðsluform þeirra væri máttlaust? Breyta trúarkenningar þar fyrir utan því hvernig fólk hegðar sér í viðskiptum, hvernig það kemur fram við undirmenn sína eða hvernig það kemur fram við ættingja?
23 Orð Páls sýna að við ættum að iðka það sem við lærum frá orði Guðs og tilbiðja þannig að hinn raunverulegi kraftur kristninnar sýni sig. Páll segir okkur um þá sem stunda máttlausa tilbeiðslu: „Snú þér burt frá slíkum.“ Þetta eru skýr fyrirmæli sem eru okkur tvímælalaust til góðs.
24. Hvernig er hvatningin í 18. kafla Opinberunarbókarinnar hliðstæð ráðleggingu Páls?
24 Á hvaða hátt? Síðasta bók Biblíunnar lýsir táknrænni konu, skækju, sem er kölluð Babýlon hin mikla. Sagan ber þess vitni að Babýlon hin mikla tákni heimsveldi falskra trúarbragða sem Jehóva Guð hefur rannsakað og hafnað. En við þurfum ekki að vera þar meðtalin. Opinberunarbókin 18:4 hvetur okkur: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.“ Er þetta ekki í rauninni sami boðskapurinn og Páll flytur með orðunum „snú þér burt frá slíkum“? Að fara eftir þessu er enn ein leiðin fyrir okkur að hafa gagn af kennslu Guðs.
25, 26. Hvaða framtíð er þeim geymd sem viðurkenna núna og fara eftir kennslu frá Jehóva Guði?
25 Bráðlega grípur Guð beint inn í málefni manna. Hann þurrkar út öll fölsk trúarbrögð og það sem eftir er af núverandi illu heimskerfi. Það verður fagnaðarefni eins Opinberunarbókin 19:1, 2 bendir á. Á jörðinni verður þeim sem viðurkenna og fylgja fræðslu Guðs leyft að halda áfram að fylgja kenningum hans þegar hindranir þessara örðugu tíma eru að baki. — Opinberunarbókin 21:3, 4.
26 Það verður örugglega unaðslegra en við getum ímyndað okkur að lifa í þessari endurreistu paradís á jörð. Guð lofar okkur því að við höfum þann möguleika og við getum treyst honum algerlega. Hann gefur okkur þannig ærna ástæðu til að taka við og fylgja gagnlegri kennslu sinni. Hvenær? Við skulum fylgja henni núna á okkar örðugu tímum og áfram í þeirri paradís sem hann gefur fyrirheit um. — Míka 4:3, 4.
Atriði til íhugunar
◻ Hvernig hefur fólk Jehóva gagn af leiðbeiningum hans um auðæfi?
◻ Hvernig hefur fólk Guðs gagn af því að hlýða orði hans að sögn jesúítatímarits?
◻ Hvaða gagn hafa fjölskyldur, samkvæmt rannsókn í Sambíu, af því að fara eftir kennslu Guðs?
◻ Hvernig verndar kennsla Guðs ungt fólk?
[Rammagrein á blaðsíðu 26]
DÝRU VERÐI KEYPT!
„Táningar eru í geysilegri hættu að smitast af alnæmi vegna þess að þeim er gjarnt að prófa sig áfram með kynlíf og fíkniefni, taka áhættu og lifa fyrir líðandi stund og vegna þess að þeim finnst þeir ódauðlegir og storka yfirvöldum,“ segir í skýrslu sem lögð var fram á ráðstefnu um alnæmi og táninga. — Dagblaðið Daily News í New York, sunnudaginn 7. mars, 1993.
„Í könnun, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa látið gera í Evrópu, Afríku og Suðaustur-Asíu, kemur fram að unglingsstúlkur, sem stunda kynlíf, eru um það bil að verða næsti ‚aðaláhættuhópur‘ alnæmisfaraldursins.“ — The New York Times, föstudaginn 30. júlí, 1993.
[Myndir á blaðsíðu 24, 25]
Fræðsla frá Biblíunni kemur vottum Jehóva að gagni í söfnuðinum og á heimilinu.