Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 40 bls. 223-bls. 225 gr. 3
  • Farðu rétt með staðreyndir

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Farðu rétt með staðreyndir
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Nákvæmt og sannfærandi
    Leggðu þig fram við að lesa og kenna
  • Rannsóknir og efnisleit
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Hafðu sem mest gagn af biblíulestri
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
  • Prédikaðu til að gera menn að lærisveinum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2004
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 40 bls. 223-bls. 225 gr. 3

Námskafli 40

Farðu rétt með staðreyndir

Hvað þarftu að gera?

Farðu rétt og nákvæmlega með allar staðreyndir.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Með því að fara rétt og nákvæmlega með allar staðreyndir ertu sjálfum þér, söfnuði þínum og Guði þínum til sóma.

HVERNIG gæti það atvikast að kristinn maður færi með rangt mál? Til dæmis ef hann hefði eitthvað eftir, sem hann hefði heyrt, en gæfi sér ekki tíma til að sannreyna það. Hann gæti líka mislesið heimildarefni og ýkt án þess að gera sér grein fyrir því. Þegar áheyrendur taka eftir að við förum meira að segja nákvæmlega með smáatriði geta þeir treyst að við förum rétt með alvarlegri og veigameiri þætti boðskaparins.

Í boðunarstarfinu. Margir kvíða því að taka þátt í boðunarstarfinu í fyrsta sinn af því að þeir vita að þeir eiga margt ólært. En þeir uppgötva fljótt að þeir geta vitnað með ágætum þó að þeir þekki aðeins undirstöðuatriði sannleikans. Hvernig má það vera? Það er undirbúningurinn sem skiptir máli.

Áður en þú ferð út í boðunarstarfið skaltu setja þig vel inn í efnið sem þú ætlar að ræða um. Reyndu að sjá fyrir spurningar sem áheyrendur þínir kunna að bera upp. Leitaðu að fullnægjandi svörum í Biblíunni. Þannig geturðu verið undirbúinn að svara með nákvæmni og haldið ró þinni. Áttu að sjá um biblíunámskeið? Farðu þá gaumgæfilega yfir námsefnið. Fullvissaðu þig um að þú skiljir hinar biblíulegu forsendur námsspurninganna.

En setjum sem svo að húsráðandi eða vinnufélagi spyrji þig spurningar sem þú ert ekki undirbúinn að svara. Láttu ekki freistast til að giska ef þú ert ekki viss um hvert svarið er. „Hjarta hins réttláta íhugar, hverju svara skuli.“ (Orðskv. 15:28) Kannski er hjálpina að finna í Reasoning From the Scriptures (Rökræðubókinni) eða bæklingnum Umræðuefni úr Biblíunni. Ef þú ert með hvorugt meðferðis geturðu boðist til að kanna málið og svara spurningunni síðar. Ef spyrjandinn er einlægur hefur hann ekkert á móti því að bíða eftir réttu svari. Vel getur verið að hann virði þig fyrir hógværðina.

Það getur verið lærdómsríkt fyrir þig að starfa með reyndum boðberum og þannig geturðu þjálfað þig í að fara rétt með orð Guðs. Fylgstu með hvaða ritningarstaði þeir nota og hvernig þeir vinna úr þeim. Taktu auðmjúkur við öllum ábendingum og leiðréttingum frá þeim. Apollós var kostgæfinn lærisveinn en þurfti á hjálp að halda. Lúkas segir hann hafa verið „vel máli farinn,“ ‚færan í ritningunum‘ og „brennandi í andanum,“ og segir að hann hafi ‚talað og kennt kostgæfilega um Jesú.‘ Engu að síður vantaði upp á þekkingu hans. Þau Priskilla og Akvílas veittu þessu athygli og „tóku hann að sér og skýrðu nánar fyrir honum Guðs veg.“ — Post. 18:24-28.

„Fastheldinn við hið áreiðanlega orð.“ Við ættum að skila verkefnum okkar á samkomum þannig að það vitni um djúpa virðingu fyrir því að söfnuðurinn er „stólpi og grundvöllur sannleikans.“ (1. Tím. 3:15) Til að halda sannleikanum á loft er mikilvægt að við skiljum vel þá ritningarstaði sem við ætlum að nota í ræðum. Við þurfum að taka mið bæði af markmiði þeirra og samhengi.

Hugsanlegt er að aðrir hafi eftir þér það sem þú segir á safnaðarsamkomu. Vissulega ‚hrösum við allir margvíslega‘ en það er tvímælalaust gott að þú tileinkir þér venjur sem stuðla að nákvæmni. (Jak. 3:2) Margir bræður, sem innritast í Boðunarskólann, verða öldungar þegar fram í sækir og það er ‚mikils krafist‘ af þeim sem falið er slíkt ábyrgðarstarf. (Lúk. 12:48) Öldungur gæti bakað sér vanþóknun Guðs ef hann gæfi rangar leiðbeiningar sem yllu safnaðarmönnum alvarlegum erfiðleikum. (Matt. 12:36, 37) Áður en menn eru valdir til öldungsstarfa þurfa þeir að vera þekktir fyrir að ‚halda fast við hið áreiðanlega orð sem samkvæmt er kenningunni.‘ — Tít. 1:9.

Gættu þess að þær ályktanir, sem þú dregur, séu í samræmi við þá ‚fyrirmynd‘ sem þú sérð í hinum heilnæmu orðum Biblíunnar allrar. (2. Tím. 1:13) Láttu þessa kröfu ekki skelfa þig. Kannski ertu ekki búinn að lesa alla Biblíuna enn þá. Haltu þá áfram að lesa. En þangað til skaltu fylgja eftirfarandi tillögum sem geta hjálpað þér að leggja mat á efni sem þú ert að hugsa um að nota í kennslunni.

Spyrðu þig fyrst: ‚Er efnið í samræmi við það sem ég er búinn að læra af Biblíunni? Mun það styrkja tengsl áheyrenda við Jehóva eða stilla visku heimsins upp á stall og hvetja fólk til að hafa hana að leiðarljósi?‘ „Þitt orð er sannleikur,“ sagði Jesús. (Jóh. 17:17; 5. Mós. 13:1-5; 1. Kor. 1:19-21) Notaðu vel þau námsgögn sem hinn trúi og hyggni þjónshópur lætur í té. Þau auðvelda þér bæði að skilja ritningarstaði rétt og eins að skýra þá og beita þeim rétt og skynsamlega. Ef þú byggir ræðuna á ‚fyrirmynd‘ heilnæmu orðanna og treystir á boðleiðina, sem Jehóva notar, þegar þú skýrir og heimfærir ritningarorð, þá ferðu rétt og nákvæmlega með staðreyndir.

Að sannreyna nákvæmni upplýsinga. Gott getur verið að nota atburði líðandi stundar, ummæli annarra og frásagnir til að skýra og heimfæra viss atriði. Hvernig geturðu fullvissað þig um að þar sé farið rétt með staðreyndir? Meðal annars með því að styðjast við áreiðanlegar heimildir. Mundu líka eftir að sannreyna að upplýsingarnar séu enn í fullu gildi. Talnaskýrslur úreldast, nýjar uppgötvanir í vísindum taka við af öðrum og skilningur manna á sögu og fornmálum vex, þannig að oft þarf að endurskoða fyrri ályktanir og niðurstöður. Vertu mjög varkár ef þú hugsar þér að nota upplýsingar úr dagblöðum, sjónvarpi, útvarpi, tölvupósti eða af Netinu. Orðskviðirnir 14:15 segja: „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.“ Spyrðu þig: ‚Er þessi heimild almennt talin áreiðanleg? Er hægt að sannreyna þessar upplýsingar með öðrum hætti?‘ Ef einhver vafi leikur á að upplýsingarnar séu áreiðanlegar skaltu sleppa þeim.

Auk þess að ganga úr skugga um að heimildir séu áreiðanlegar þarftu að skoða vel hvernig þú notar upplýsingarnar. Gættu þess að taka ekki tilvitnanir og hagtölur úr samhengi. Vertu ekki svo ákafur í áherslum að „sumir“ verði „flestir,“ „margir“ verði „allir“ og „stundum“ verði „alltaf.“ Það dregur úr trúverðugleika manns að taka dýpra í árinni en efni standa til eða ýkja tölur, umfang eða alvöru mála.

Ef þú ferð alltaf rétt og nákvæmlega með upplýsingar verður þú kunnur að því að virða sannleikann. Þannig gefurðu góða mynd af Vottum Jehóva sem heild. En mestu máli skiptir þó að þú heiðrar „Jehóva, Guð sannleikans.“ — Sálm. 31:5, NW.

ÞANNIG FERÐU AÐ

  • Láttu ekki freistast til að svara þegar þú ert ekki viss.

  • Byggðu orð þín á ‚fyrirmynd‘ heilnæmu orðanna í Biblíunni.

  • Rannsakaðu málið.

  • Sannreyndu nákvæmni talnaupplýsinga, tilvitnana og frásagna og ýktu þær ekki. Giskaðu ekki á það sem þú manst ekki nákvæmlega.

ÆFING: Svaraðu eftirfarandi spurningum með eigin orðum og biddu þroskaðan vott að hlusta á þig og meta nákvæmni þess sem þú segir: (1) Hvers konar persóna er Jehóva og hvernig vitum við það? (2) Hvers vegna fórnaði Jesús lífi sínu og hvernig er það okkur til góðs? (3) Hvað hefur Jesús Kristur haft fyrir stafni síðan hann var krýndur sem konungur?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila