Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w95 1.4. bls. 13-18
  • Verið kærleiksríkir hirðar hjarðar Guðs

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Verið kærleiksríkir hirðar hjarðar Guðs
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Fordæmi góða hirðisins
  • Grimmir hirðar í Ísrael
  • Kærleiksríkir hirðar í kristna söfnuðinum
  • Virðum frjálsan vilja
  • Öldungar, takið alvarlega ábyrgð ykkar sem hirðar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Hirðar, líkið eftir hirðunum miklu
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
  • Hlýðum þeim sem Jehóva felur að gæta hjarðarinnar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
  • „Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
w95 1.4. bls. 13-18

Verið kærleiksríkir hirðar hjarðar Guðs

„Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður.“ — 1. PÉTURSBRÉF 5:2.

1, 2. Hver er höfuðeiginleiki Jehóva og hvernig birtist hann?

HEILÖG ritning talar mjög víða um að kærleikur sé höfuðeiginleiki Guðs. „Guð er kærleikur,“ segir 1. Jóhannesarbréf 4:8. Þar eð kærleikur hans birtist í verki segir 1. Pétursbréf 5:7 að Guð ‚beri umhyggju fyrir okkur.‘ Biblían líkir umhyggju Jehóva fyrir fólki sínu við það hvernig ástríkur hirðir annast sauði sína: „Sjá, hinn alvaldi [Jehóva] . . . [mun] eins og hirðir . . . halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu, en leiða mæðurnar.“ (Jesaja 40:10, 11) Það hlýtur að hafa verið mjög hughreystandi fyrir Davíð að geta sagt: „[Jehóva] er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.“ — Sálmur 23:1.

2 Það er viðeigandi að Biblían skuli líkja fólki, sem nýtur velvildar Guðs, við sauði, því að sauðir eru friðsamir, undirgefnir og hlýðnir umhyggjusömum hirði sínum. Eins og ástríkur hirðir lætur Jehóva sér innilega annt um sauðumlíkt fólk sitt. Hann sýnir það með því að sjá fyrir þeim andlega sem efnislega og með því að leiða þá gegnum hina erfiðu ‚síðustu daga‘ þessa illa heims í átt til hins komandi, réttláta nýja heims. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13; Matteus 6:31-34; 10:28-31; 2. Pétursbréf 3:13.

3. Hvernig lýsti sálmaritarinn umhyggju Jehóva fyrir sauðunum?

3 Taktu eftir ástríkri umhyggju Jehóva fyrir sauðum sínum: „Augu [Jehóva] hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra. . . . Ef réttlátir hrópa, þá heyrir [Jehóva], úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá. [Jehóva] er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann. Margar eru raunir réttláts manns, en [Jehóva] frelsar hann úr þeim öllum.“ (Sálmur 34:16-20) Alheimshirðirinn hughreystir sauðumlíkt fólk sitt svo sannarlega!

Fordæmi góða hirðisins

4. Hvert er hlutverk Jesú í því að annast hjörð Guðs?

4 Sonur Guðs, Jesús, lærði vel af föður sínum því að Biblían kallar hann ‚góða hirðinn.‘ (Jóhannes 10:11-16) Þessi mikilvæga þjónusta hans við hjörð Guðs er nefnd í Opinberunarbókinni 7. kafla. Í 9. versi eru nútímaþjónar Guðs kallaðir „mikill múgur . . . af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ Síðan segir 17. versið: „Lambið [Jesús] . . . mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“ Jesús leiðir sauði Guðs til vatnslinda sannleikans sem veita eilíft líf. (Jóhannes 17:3) Tökum eftir að Jesús er kallaður „lambið.“ Það gefur til kynna að hann hafi sjálfur eiginleika sauðarins, enda er hann besta dæmið um undirgefni við Guð.

5. Hvaða tilfinningar bar Jesús til fólks?

5 Meðan Jesús var á jörðinni bjó hann meðal manna og sá hve bágt þeir áttu. Hvernig brást hann við bágindum þeirra? Hann „kenndi . . . í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ (Matteus 9:36) Sauðir án hirðis og sauðir með umhyggjulausa hirða þjást mikið þegar rándýr herja á þá. En Jesús var mjög umhyggjusamur því að hann sagði: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ — Matteus 11:28-30.

6. Hvernig fann Jesús til með undirokuðum?

6 Spádómar Biblíunnar sögðu fyrir að Jesús myndi vera kærleiksríkur í samskiptum við fólk: „[Jehóva] hefir smurt mig . . . til að græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta, . . . til að hugga alla hrellda.“ (Jesaja 61:1, 2; Lúkas 4:17-21) Jesús leit aldrei niður á fátæka og bágstadda. Í stað þess uppfyllti hann Jesaja 42:3: „Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur, og dapran hörkveik slökkur hann ekki.“ (Samanber Matteus 12:17-21) Hinir bágstöddu voru eins og brákaður reyr, eins og kveikur í lampa sem var í þann mund að slokkna á vegna olíuleysis. Jesús gaf gaum að aumkunarverðu ástandi þeirra. Hann sýndi þeim umhyggju, læknaði þá andlega og líkamlega og veitti þeim styrk og von. — Matteus 4:23.

7. Hvert beindi Jesús því fólki sem tók við boðskap hans?

7 Sauðumlíkir menn streymdu hópum saman til Jesú. Svo hrífandi var kennsla hans að þjónar, sem sendir voru til að handtaka hann, skýrðu frá: „Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.“ (Jóhannes 7:46) Hinir hræsnisfullu trúarleiðtogar kvörtuðu: „Allur heimurinn eltir hann“! (Jóhannes 12:19) En Jesús vildi ekki fá heiður eða upphefð handa sjálfum sér. Hann beindi fólki til föður síns. Hann kenndi því að þjóna Jehóva vegna kærleika til aðdáunarverðra eiginleika hans: „Elska skalt þú [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ — Lúkas 10:27, 28.

8. Hvernig er hlýðni fólks Guðs við hann ólík afstöðu margra til veraldlegra valdhafa?

8 Jehóva gleðst yfir því að sauðumlíkir menn skuli styðja alheimsdrottinvald hans af því að þeir elska hann. Þeir kjósa af fúsu geði að þjóna honum vegna þess að þeir þekkja elskuverða eiginleika hans. Það er harla ólíkt leiðtogum þessa heims. Þegnarnir hlýða þeim aðeins af ótta eða með ólund eða af einhverjum annarlegum hvötum! Aldrei verður hægt að segja um Jehóva eða Jesú það sem sagt var um einn páfa rómversk-kaþólsku kirkjunnar: „Margir dáðust að honum, allir óttuðust hann, enginn elskaði hann.“ — Vicars of Christ — The Dark Side of the Papacy eftir Peter De Rosa.

Grimmir hirðar í Ísrael

9, 10. Lýstu leiðtogum Ísraels til forna og á fyrstu öld.

9 Trúarleiðtogar Ísraels á dögum Jesú voru ólíkir honum að því leyti að þeir báru engan kærleika til sauðanna. Þeir voru eins og valdhafar Ísraels fyrrum sem Jehóva sagði um: „Vei hirðum Ísraels, er héldu sjálfum sér til haga. Eiga ekki hirðarnir að halda sauðunum til haga? . . . Þér komuð ekki þrótti í veiku skepnurnar og læknuðuð ekki hið sjúka, bunduð ekki um hið limlesta, sóttuð ekki það, er hrakist hafði, og leituðuð ekki hins týnda, heldur drottnuðuð þér yfir þeim með hörku og grimmd.“ — Esekíel 34:2-4.

10 Trúarleiðtogar Gyðinga á fyrstu öld voru harðbrjósta líkt og þessir pólitísku hirðar. (Lúkas 11:47-52) Til að lýsa því tók Jesús dæmi um Gyðing sem hafði verið rændur, barinn og skilinn eftir dauðvona við vegarbrúnina. Ísraelskur prestur átti leið hjá en færði sig yfir á hinn vegarhelminginn og gekk framhjá þegar hann sá Gyðinginn. Levíti gerði slíkt hið sama. Þá kom þar að maður, sem ekki var ísraelskur heldur fyrirlitinn Samverji, og aumkaðist yfir manninn. Hann batt um sár hans, flutti hann á fararskjóta sínum í gistihús og annaðist hann. Hann greiddi gestgjafanum fyrir og sagðist myndu koma síðar og greiða það sem kynni að vanta upp á. — Lúkas 10:30-37.

11, 12. (a) Hvernig náði illska trúarleiðtoganna hámarki á dögum Jesú? (b) Hvað gerðu Rómverjar að lokum við trúarleiðtogana?

11 Svo spilltir voru trúarleiðtogarnir á dögum Jesú að þegar Jesús reisti Lasarus upp frá dauðum kölluðu æðstu prestarnir og farísearnir saman Æðstaráðið og sögðu: „Hvað eigum vér að gjöra? Þessi maður gjörir mörg tákn. Ef vér leyfum honum að halda svo áfram, munu allir trúa á hann, og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm vorn og þjóð.“ (Jóhannes 11:47, 48) Þeim stóð á sama um góðverkið sem Jesús hafði unnið fyrir hinn látna. Þeir hugsuðu bara um stöðu sína þannig að „upp frá þeim degi voru þeir ráðnir í að taka [Jesú] af lífi.“ — Jóhannes 11:53.

12 Til að kóróna illsku sína „réðu æðstu prestarnir af að taka einnig Lasarus af lífi, því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.“ (Jóhannes 12:10, 11) En eigingjörn barátta þeirra fyrir því að vernda stöðu sína var til einskis því að Jesús hafði sagt þeim: „Hús yðar verður í eyði látið.“ (Matteus 23:38) Þessi orð rættust innan þeirrar eigin kynslóðar þegar Rómverjar komu og tóku ‚bæði helgidóm þeirra og þjóð‘ og eins líf þeirra.

Kærleiksríkir hirðar í kristna söfnuðinum

13. Hverja lofaði Jehóva að senda til að gæta hjarðar sinnar?

13 Í stað hinna grimmu, eigingjörnu hirða ætlaði Jehóva að vekja upp góða hirðinn, Jesú, til að annast sauði sína. Hann lofaði einnig að vekja upp kærleiksríka undirhirða til að annast sauðina: „Ég vil setja hirða yfir þá, og þeir skulu gæta þeirra, og þeir skulu eigi framar hræðast né skelfast.“ (Jeremía 23:4) Þess vegna eru ‚skipaðir öldungar í hverri borg‘ nú á tímum eftir fyrirmynd kristnu safnaðanna á fyrstu öld. (Títusarbréfið 1:5) Þessir andlegu öldungar, sem uppfylla hæfniskröfur Ritningarinnar, eiga að vera ‚hirðar hjarðar Guðs.‘ — 1. Pétursbréf 5:2; 1. Tímóteusarbréf 3:1-7; Títusarbréfið 1:7-9.

14, 15. (a) Hvaða viðhorf áttu lærisveinarnir erfitt með að tileinka sér? (b) Hvað gerði Jesús til að sýna þeim að öldungar ættu að vera auðmjúkir þjónar?

14 Þegar öldungarnir annast sauðina verða þeir „umfram allt“ að hafa „brennandi kærleika“ til þeirra. (1. Pétursbréf 4:8) En lærisveinar Jesú urðu að læra þetta því að þeir létu sér of umhugað um virðingu og stöðu. Þegar því móðir tveggja lærisveina sagði við Jesú: „Lát þú þessa tvo syni mína sitja þér við hlið í ríki þínu, annan til hægri handar þér og hinn til vinstri,“ gramdist hinum lærisveinunum það. Jesús svaraði þeim: „Þér vitið, að þeir, sem ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar.“ — Matteus 20:20-28.

15 Öðru sinni, eftir að lærisveinarnir höfðu „verið að ræða það sín á milli . . . hver væri mestur,“ sagði Jesús við þá: „Hver sem vill vera fremstur, sé síðastur allra og þjónn allra.“ (Markús 9:34, 35) Auðmýkt og þjónustulund þurfti að verða hluti af persónuleika þeirra. En lærisveinarnir áttu erfitt með að breyta hugsunarhætti sínum því að jafnvel kvöldið áður en Jesús dó, við síðustu kvöldmáltíð hans, fóru þeir að „metast um“ hver þeirra væri mestur. Þetta gerðist enda þótt Jesús hefði sýnt þeim hvernig öldungur yrði að þjóna hjörðinni —  hann hafði auðmýkt sig og þvegið fætur þeirra. Hann sagði: „Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. Ég hef gefið yður eftirdæmi, að þér breytið eins og ég breytti við yður.“ — Lúkas 22:24; Jóhannes 13:14, 15.

16. Hvað sagði Varðturn Síonar árið 1899 um mikilvægasta eiginleika öldunga?

16 Vottar Jehóva hafa alltaf kennt að öldungar verði að vera þannig. Fyrir nálega öld, hinn 1. apríl 1899, vísaði Varðturn Síonar í orð Páls í 1. Korintubréfi 13:1-8 og sagði svo: „Postulinn bendir greinilega á að þekking og mælska séu ekki sá prófsteinn sem mestu skiptir, heldur sé það kærleikur sem gagntekur hjartað og birtist í öllum lífsferli okkar og knýr og starfar í dauðlegum líkama okkar sem sé hinn raunverulegi prófsteinn — hin raunverulega sönnun fyrir sambandi okkar við Guð. . . . Aðaleiginleikinn, sem leita á í fari sérhvers sem er viðurkenndur þjónn kirkjunnar til þjónustu á heilögum vettvangi, ætti að vera andi kærleikans.“ Blaðið benti á að menn, sem ekki þjóna af auðmýkt og kærleika, séu „varhugarverðir kennarar og hætt við að þeir geri meira ógagn en gagn.“ — 1. Korintubréf 8:1.

17. Hvernig leggur Biblían áherslu á þá eiginleika sem öldungar verða að hafa?

17 Öldungar mega því ekki „drottna“ yfir sauðunum. (1. Pétursbréf 5:3) Öllu heldur eiga þeir að taka forystuna í að vera „góðviljaðir hver við annan“ og umhyggjusamir. (Efesusbréfið 4:32) Páll sagði með áhersluþunga: „Íklæðist . . . hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. . . . En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans.“ — Kólossubréfið 3:12-14.

18. (a) Hvaða gott fordæmi gaf Páll í samskiptum við sauðina? (b) Af hverju mega öldungar ekki loka augunum fyrir þörfum sauðanna?

18 Páli lærðist að gera þetta því hann sagði: „Vér vorum mildir yðar á meðal, eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum. Slíkt kærleiksþel bárum vér til yðar, að vér vildum glaðir gefa yður ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og vort eigið líf því að þér voruð orðnir oss ástfólgnir.“ (1. Þessaloníkubréf 2:7, 8) Í samræmi við þetta sagði hann: „Hughreystið ístöðulitla [„niðurdregna,“ NW], takið að yður þá, sem óstyrkir eru, verið langlyndir við alla.“ (1. Þessaloníkubréf 5:14) Burtséð frá því hvers konar vandamál sauðirnir bera upp ættu öldungarnir að muna eftir Orðskviðunum 21:13: „Sá sem byrgir eyrun fyrir kveini hins fátæka, hann mun sjálfur kalla og eigi fá bænheyrslu.“

19. Af hverju eru kærleiksríkir öldungar blessun og hvernig bregðast sauðirnir við slíkum kærleika?

19 Öldungar, sem gæta hjarðarinnar af kærleika, eru sauðunum til blessunar. Jesaja 32:2 spáði: „Hver þeirra [verður] sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.“ Það gleður okkur að vita að margir af öldungum okkar nú á tímum lifa eftir þessari lýsingu með því að hressa og skýla. Þeir hafa lært að fara eftir meginreglunni: „Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð, og verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing.“ (Rómverjabréfið 12:10) Þegar öldungar sýna þess konar kærleika og auðmýkt, bregðast sauðirnir við með því að ‚auðsýna þeim sérstaka virðingu og kærleika fyrir verk þeirra.‘ — 1. Þessaloníkubréf 5:12, 13.

Virðum frjálsan vilja

20. Hvers vegna verða öldungar að virða frjálsan vilja?

20 Jehóva skapaði mennina með frjálsan vilja til að taka sínar eigin ákvarðanir. Enda þótt öldungarnir eigi að ráðleggja og jafnvel aga, eiga þeir ekki að ráðskast með líf eða trú annarra. Páll sagði: „Ekki svo að skilja, að vér viljum drottna yfir trú yðar, heldur erum vér samverkamenn að gleði yðar. Því að í trúnni standið þér.“ (2. Korintubréf 1:24) Já, „sérhver mun verða að bera sína byrði.“ (Galatabréfið 6:5) Jehóva hefur veitt okkur mikið frjálsræði innan þess ramma sem lög hans og meginreglur setja. Öldungar ættu því að forðast að setja reglur þar sem ekki er verið að brjóta meginreglur Biblíunnar. Og þeir ættu að sporna gegn sérhverri tilhneigingu til að halda persónulegum skoðunum sínum fram sem trúaratriði eða láta sjálfsálit vera til trafala ef einhver er slíkum skoðunum ósammála. — 2. Korintubréf 3:17; 1. Pétursbréf 2:16.

21. Hvað má læra af afstöðu Páls til Fílemons?

21 Tökum eftir hvernig Páll kom fram við Fílemon. Páll var þá fangi í Róm en Fílemon kristinn þrælaeigandi í Kólossu í Litlu-Asíu. Þræll Fílemons, er Onesímus hét, hafði flúið til Rómar, tekið kristna trú og reynst Páli hjálplegur. Páll skrifaði Fílemon: „Feginn vildi ég hafa haldið honum hjá mér, til þess að hann í þinn stað veitti mér þjónustu í fjötrum mínum vegna fagnaðarerindisins. En án þíns samþykkis vildi ég ekkert gjöra, til þess að velgjörð þín skyldi ekki koma eins og af nauðung, heldur af fúsum vilja.“ (Fílemonsbréfið 13, 14) Páll skilaði Onesímusi og bað Fílemon að koma fram við hann eins og kristinn bróður. Páll vissi að hjörðin var ekki hans eign heldur Guðs. Hann var ekki herra hennar heldur þjónn. Páll sagði Fílemon ekki fyrir verkum heldur virti frjálsan vilja hans.

22. (a) Hvernig ættu öldungar að skilja stöðu sína? (b) Hvers konar skipulag er Jehóva að byggja upp?

22 Eftir því sem skipulag Guðs vex eru fleiri öldungar útnefndir. Jafnt þeir sem aðrir reyndari öldungar verða að skilja að staða þeirra er staða auðmjúkrar þjónustu. Þannig heldur skipulag Guðs áfram að vaxa eins og hann vill um leið og hann leiðir það í átt til nýja heimsins. Það er vel skipulagt án þess að fórna kærleika og umhyggju fyrir skilvirkni. Þannig verður skipulag hans æ meira aðlaðandi fyrir sauðumlíka menn sem sjá í því merki þess að ‚Guð lætur allt samverka til góðs þeim sem kallaðir eru samkvæmt ákvörðun Guðs.‘ Þess er að vænta af skipulagi sem grundvallast á kærleika, því að „kærleikurinn bregst aldrei.“ — Rómverjabréfið 8:28; 1. Korintubréf 13:8, NW.

Hverju svarar þú?

◻ Hvernig lýsir Biblían umhyggju Jehóva fyrir fólki sínu?

◻ Hvaða hlutverki gegnir Jesús í að annast hjörð Guðs?

◻ Hvað verður öðru fremur að einkenna öldunga?

◻ Af hverju verða öldungar að virða frjálsan vilja sauðanna?

[Mynd á blaðsíðu 15]

Jesús, „góði hirðirinn,“ sýndi umhyggju.

[Myndir á blaðsíðu 16]

Hinir spilltu trúarleiðtogar lögðu á ráðin um að drepa Jesú.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila